Hæstiréttur íslands
Mál nr. 156/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 16. apríl 2008. |
|
Nr. 156/2008. |
Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag(Kristinn Brynjólfsson, framkvæmdastjóri) gegn VBS fjárfestingabanka hf. (Skúli Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um frávísun máls vegna vanreifunar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2008, þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um ógildingu nauðungarsölu fasteignahluta með fastanúmer 204-3313 og 225-8525 við Rafstöðvarveg 1A í Reykjavík. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr., sbr. 79. gr., laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Þá krefst hann þess að Kristinn Brynjólfsson fyrirsvarsmaður sóknaraðila verði dæmdur persónulega til greiðslu kærumálskostnaðar vegna tilefnislausrar málsóknar.
Með vísan til röksemda héraðsdómara verður fallist á að krafa sóknaraðila sé vanreifuð þannig að í bága fari við meginreglur réttarfars um glöggan og skýran málatilbúnað og ákvæði 3. töluliðar 1. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991. Þegar af þessari ástæðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði, en ekki er tilefni til að dæma fyrirsvarsmann sóknaraðila persónulega til greiðslu kærumálskostnaðar.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, greiði varnaraðila, VBS fjárfestingabanka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2008.
Mál þetta var þingfest 16. nóvember 2007 og tekið til úrskurðar 5. febrúar sl. um framkomna frávísunarkröfu varnaraðila.
Í málinu krefst sóknaraðili ógildingar nauðungarsölu fasteignahluta með fastanr. 204-3313 og 225-8525 við Rafstöðvarveg 1a í Reykjavík. Þá er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili gerir aðallega þá kröfu að málinu verði vísað frá dómi. Þá krefst hann málskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að frávísunarkröfu varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.
I
Sóknaraðili kveður framhaldssölu framangreindra eignarhluta Miðstöðvarinnar ehf. hafa farið fram þriðjudaginn 18. september 2007 að kröfu VBS fjárfestingabanka hf. og með því hafi lokið uppboði skv. 34. gr. nsl. nr. 90/1991 og gildi hafi tekið réttur gerðarþola til að vísa málinu til úrskurðar héraðsdóms.
Mál þetta sé tilkomið vegna vaxtalausra skammtímaskuldabréfa, útgefnum til handhafa. Samtals hafi bréfin verið að fjárhæð kr. 252.000.000, með krossveði í 7 eignarhlutum að Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík.
VSB fjárfestingabanki hf. hafi gefið út nauðungarsölubeiðnir á alla 7 eignarhlutana 15. febrúar 2007. Tilkynnt hafi verið að hluti nauðungarsölubeiðnanna yrði tekin fyrir sýslumanninum í Reykjavík þann 28. mars 2007 og hluti þann 24. maí 2007. Mótmæli gerðarþola við fyrirtöku þann 28. mars 2007 um að óeðlileg niðurstaða gæti fengist ef eignirnar yrðu seldar í hlutum hafi ekki verið tekin til greina. Ákveðið hafi verið að framhaldssala á 5 eignarhlutum yrði þann 18. apríl 2007. Þann 24. maí 2007 hafi hins vegar verið ákveðið að byrjun uppboðs á eignarhlutum með fastanúmerin 204-3313 og 225-8525, sem mál þetta lýtur að, skyldi byrja á skrifstofu embættisins þann 22. ágúst 2007.
Þann 18. apríl 2007 hafi farið fram sala á eignarhlutum með fastanúmerin 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 en eignarhlutar sem tilgreindir séu á skuldabréfum með fastanúmerin 225-8528 og 225-8529 höfðu áður verið sameinaðir hjá FMR undir númerinu 225-8528. Samþykkisfrestur hafi verið ákveðinn 8 vikur eða til 14. júní. Boði VBS fjárfestingabanka hf., samtals kr. 224.400.000 hafi verið tekið.
Frumvarp til úthlutunar hafi ekki verið gefið út fyrr en 14. ágúst 2007. Þessi langi dráttur hafi orsakað það að mikil óvissa skapaðist um fjárhæð eftirstöðva skulda. Ítrekaðar tilraunir til að fá uppgefið hjá gerðarbeiðanda hverjar eftirstöðvar skuldarinnar væru báru ekki árangur. Í tölvupósti frá lögmanni gerðarbeiðanda þann 22. ágúst hafi því beinlínis verið hafnað formlega að gerðarþoli gæti fengið að gera upp skuldina og losa um veðbönd. Við byrjun uppboðs hjá sýslumanni þann sama dag, 22. ágúst, hafi gerðarþoli lagt fram kröfu um að framhaldi þess yrði frestað þar til fyrir lægi hver skuldin væri, en því hafi verið hafnað.
Frestur til að leggja fram athugasemdir við frumvarpið hafi verið til 29. ágúst. Við byrjun uppboðs þann 22. ágúst hafi því ekki verið vitað hvort fram kæmu athugasemdir sem hefðu áhrif á eftirstöðvar skuldarinnar en samkvæmt frumvarpinu hafi kr. 191.986.760 átt að greiðast inn á bréf á fyrsta veðrétti og kr. 29.869.109 inn á bréf á öðrum veðrétti eða samtals kr. 221.855.869. Heildarkröfufjárhæð samkvæmt kröfulýsingu hafi verið kr. 303.450.675.
Af hálfu gerðarþola hafi verið ljóst að málskostnaðarkröfu að upphæð kr. 10.624.053 auk virðisaukaskatts yrði mótmælt. Mótmæli þar að lútandi hafi verið lögð fram innan andmælafrests og málinu vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur.
Mótmæli við frumvarpið af hálfu uppboðskaupa/veðhafa hafi hins vegar verið krafa um afslátt af kaupverði. Gerðarþoli telji að sú krafa hafi ekki átt sér lagastoð þar sem samþykkisfrestur hafi verið liðinn, uppboðskaupi hafði innt af hendi greiðslu samkvæmt uppboðsskilmálum, fengið yfirlýsingu frá sýslumanninum í Reykjavík um umráðarétt og tekið við eigninni án athugasemda eða fyrirvara. Gerðarþoli telji að krafa gerðarbeiðanda hafi verið til þess eins fallin að koma í veg fyrir að hægt væri að gera skuldina upp, losa um veðbönd og knýja þannig fram uppboð.
Sýslumaðurinn í Reykjavík hafi boðað málsaðila til fundar mánudaginn 10. september 2007 þar sem úrskurða hafi átt um framkomnar athugasemdir. Föstudaginn 7. september hafi lögmaður gerðarbeiðanda hins vegar sett fram tillögur um heildarlausn sem m.a. fólu í sér ógildingu uppboða og svigrúm fyrir gerðarþola til endurfjármögnunar. Á þessum forsendum hafi úrskurði sýslumanns verið frestað til mánudagsins 17. september 2007. Þann 17. september hafi úrskurði sýslumanns verið frestað aftur, nú án samþykkis eða samráðs við gerðarþola og án þess að nokkur frekari samningur eða samningsdrög lægju fyrir. Gerðarþoli telji að framangreindar tillögur hafi verið marklausar og einungis settar fram til að tefja úrskurð sýslumanns fram yfir uppboðið þann 18. september svo að lögbundinn réttur gerðarþola til að vísa málinu til héraðsdóms samkvæmt 73. gr. laga nr. 90/1991 öðlaðist ekki gildi fyrr en að lokinni sölu. Bréf gerðarbeiðanda til Sýslumannsins í Reykjavík dags. 19. september 2007 daginn eftir framhaldssölu þar sem framangreind mótmæli við frumvarpið séu afturkölluð staðfesti þessar ásakanir gerðarþola. Það sé ljóst að niðurstaða uppboðsins hafi verið gerðarbeiðanda í hag því boði hans sem verið hafi að minnsta kosti 26.000.000 undir meðalsöluvirði hinna eignarhlutanna hafi verið tekið. Eignirnar hafi því verið slegnar gerðarbeiðanda á verði sem sé langt undir raunverulegu markaðsverði.
Í maí síðastliðnum hafi það verið mat virtra fasteignasala að heildarverðmæti bygginganna við Rafstöðvarveg 1a lægi á bilinu kr. 650 700.000.000 ef þær væru seld sem ein heild. Nauðungarsala sé gífurlega alvarlegt mál og gerðarþoli telji gróflega hafa verið á sér brotið. Skipulega hafi verið komið í veg fyrir að hægt væri að greiða skuldina og nauðungarsala knúin í gegn. Mótmæli við frumvarpið hafi valdið óvissu um fjárhæð sem numið hafi tugum milljóna og kröfulýsingar, sem lagðar hafi verið fram við framhald sölunnar þann 18. september 2007, hafi ekki tekið mið af þeim 221.855.869 sem úthlutunarfrumvarpið gerði ráð fyrir sem greiðslu inn á skuldina. Þvert á móti hafi dráttarvextir verið reiknaðir eins og engin ráðstöfun eða greiðsla hefði átt sér stað. Ógilding nauðungarsölunnar sé því eina leiðin til að tryggja réttláta málsmeðferð og að gerðarþoli fái að greiða skuld sína með eðlilegum hætti þegar fyrir liggi hver hún raunverulega sé.
II
Varnaraðili byggir frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að í máli þessu séu tvær sjálfstæðar nauðungarsölur kærðar, án heimildar, í einu og sama málinu. Í öðru lagi sé krafist frávísunar á þeim grunni að málið sé verulega vanreifað af hálfu sóknaraðila. Sé það raunar þannig að málsástæður sóknaraðila séu gegnsær fyrirsláttur og sé lýst fullri ábyrgð á hendur honum af því tilefni. Að virtum úrræðum skuldara til greiðslu ef um viðtökudrátt sé að ræða, sem þó sé fullkomlega mótmælt, sé auðvitað heimild í lögum nr. 9/1978 um geymslufé, til þess að skuldari geti fyrt sig vanefndaúrræðum kröfuhafa. Með þetta í huga sem og þá staðreynd að skuldari hvorki hefur nokkru sinni greitt inn á skuldina né sannað eða gert greiðslugetu sína sennilega, hljóti málssókn þessi að teljast fullkomlega tilhæfulaus og til þess fallin að valda varnaraðila enn frekara tjóni en þegar sé orðið. Fullyrðingu sóknaraðila um einhvern sérstakan hagnað við nauðungarsöluna sé einnig sérstaklega mótmælt, en hún sé einnig sérstaklega áhugaverð fyrir þær sakir að a.m.k. tveir aðilar á snærum sóknaraðila voru á uppboðsstað og buðu í eignirnar á móti varnaraðila.
III
Nauðungarsölur þær er mál þetta varðar fóru fram í eigum sóknaraðila til fullnustu peningakrafna varnaraðila. Kröfur sóknaraðila í máli þessu eru því samkynja og tilheyra báðar sóknaraðila og beinast að sama aðila. Er því heimilt samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, að sækja þær í einu og sama málinu.
Við lestur greinargerðar sóknaraðila er hægt að átta sig á meginatriðum umkvörtunarefnis hans, en framsetning er ruglingsleg. Þar er ekki greint með skýrum hætti á milli málsatvika og málsástæðna sem krafan er byggð á. Meginmálsástæða sóknaraðila virðist vera sú að með markvissum hætti hafi verið komið í veg fyrir að sóknaraðili fengi að greiða skuldina og nauðungarsala knúin fram. Vanreifað er hvort greiðslugeta hafi verið fyrir hendi eða greiðsla fram boðin. Einnig er vanreifað að þær málsástæður sem á er byggt geti leitt til þeirrar niðurstöðu sem krafist er.
Þykir málatilbúnaður sóknaraðila brjóta í bága við meginreglur einkamálalaga nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað. Verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi á grundvelli e. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991.
Samkvæmt þessum úrslitum ber sóknaraðila að greiða varnaraðila 100.000 krónur í málskostnað.
Úrskurðinn kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Sóknaraðili, Miðstöðin ehf., greiði varnaraðila, VBS fjárfestingabanka hf., 100.000 krónur í málskostnað.