Hæstiréttur íslands
Mál nr. 679/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Frestur
|
|
Fimmtudaginn 5. janúar 2012. |
|
Nr. 679/2011.
|
Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. (Bjarki Már Baxter hdl.) gegn þrotabúi Baugs Group hf. (Erlendur Gíslason hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Frestur.
S hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á ósk þrotabús B hf. um frestun máls þeirra á milli til 12. janúar 2012 í því skyni að þrotabúið gæti lagt fram matsgerð í málinu. Í dómi Hæstaréttar sagði að af 177. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. yrði ráðið að hraða bæri sérstaklega meðferð mála sem rekin væru samkvæmt 5. þætti laganna. Ef mál væri hins vegar þannig vaxið að eðli þess væri ekki frábrugðið venjulegu einkamáli, eins og ætti við um ágreiningsmál aðila, giltu hliðstæð sjónarmið um málshraða og fresti og um væri að ræða mál, sem farið væri með samkvæmt lögum um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 6. desember 2011 og réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2011, þar sem málinu var að beiðni varnaraðila frestað til 12. janúar 2012. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka málið til aðalmeðferðar hið fyrsta og eigi síðar en 31. desember 2011. Þá er krafist kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Mál þetta var þingfest 26. október 2010. Er gerð grein fyrir meðferð málsins upp frá því í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram hefur aðalmeðferð þess verið frestað til 18. þessa mánaðar, auk þess sem boðað hefur verið til þinghalds til undirbúnings henni, svo sem að framan greinir.
Af 177. gr. laga nr. 21/1991 verður ráðið að hraða beri sérstaklega meðferð mála sem rekin eru samkvæmt 5. þætti laganna. Ef mál er hins vegar þannig vaxið að eðli þess er ekki frábrugðið venjulegu einkamáli, eins og á við um ágreiningsmál aðila, gilda hliðstæð sjónarmið um málshraða og fresti og um væri að ræða mál, sem farið væri með samkvæmt lögum um meðferð einkamála, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf., greiði varnaraðila, þrotabúi Baugs Group hf., 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2011.
I
Mál þetta var þingfest 26. október 2010, en þá var lagt fram bréf slitastjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., þar sem óskað var dómsmeðferðar vegna ágreinings um kröfu sóknaraðila, þrotabús Baugs Group hf., að fjárhæð 109.011.280 krónur, en kröfu þessari lýsti sóknaraðili sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni og varð ágreiningur aðila ekki jafnaður. Á kröfuhafafundi 12. ágúst 2010 var ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms á grundvelli 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
II
Í stuttu eru atvik þau að 1. nóvember 2008 gaf Rekstrarfélag SPRON hf. út víxil að fjárhæð 828.893.000 krónur með gjalddaga 1. desember sama ár. Var sóknaraðili greiðandi og samþykkjandi víxilsins. Víxillinn var til endurfjármögnunar á eldri skuld sóknaraðila við varnaraðila. Víxillinn greiddist ekki á gjalddaga. Með tölvupósti 22. desember 2008 krafðist varnaraðili þess að greiðsla að fjárhæð 100.000.000 króna yrði lögð inn á bankareikning SPRON Eignastýringardeildar, og varð sóknaraðili við því.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2009 var bú sóknaraðila tekið til gjaldþrotaskipta og skiptastjórar skipaðir. Frestdagur við skiptin er 4. mars 2009. Með bréfi 24. mars sama ár lýsti sóknaraðili yfir riftun á þeim gerningi sóknaraðila að hafa greitt varnaraðila 100.000.000 króna 22. desember 2008, og gerði jafnframt kröfu um endurgreiðslu fjárhæðarinnar með vísan til 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009 var varnaraðila skipuð slitastjórn samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002. Nokkru fyrr, 24. mars sama ár, hafði Fjármálaeftirlitið vikið stjórn varnaraðila frá og skipað varnaraðila skilanefnd. Innköllun í bú varnaraðila birtist fyrst 22. júlí 2009 og lýsti sóknaraðili kröfu sinni innan kröfulýsingarfrests. Lýst krafa hans samanstendur af höfuðstóli, vöxtum og dráttarvöxtum til 23. júní 2009. Eins og fyrr greinir hafnaði varnaraðili kröfunni.
III
Sóknaraðili lagði fram greinargerð sína, ásamt stuðningsgögnum, 3. desember 2010, en varnaraðili skilaði sinni greinargerð, ásamt gögnum, 7. janúar 2011. Í þinghaldi í málinu 14. mars sl. óskaði sóknaraðili eftir fresti í málinu, og benti í því sambandi einkum á að meðal gagna málsins væri matsbeiðni í málinu nr. E-2356/2010, sbr. dómskjal nr. 47, og gæti niðurstaða matsmálsins varpað ljósi á ýmis atriði í því máli sem hér væri til úrlausnar. Lögmaður varnaraðila kvaðst ekki reiðubúinn til að bíða niðurstöðu matsmálsins, en féllst á að málinu yrði frestað til frekari gagnaöflunar. Var málinu frestað til 16. maí sl., en í því þinghaldi óskaði lögmaður sóknaraðila eftir frekari fresti, þar sem ekki hefði tekist að verða við áskorun varnaraðila um framlagningu tiltekinna gagna. Féllst varnaraðila á þá ósk, en óskaði bókað að hann myndi ekki samþykkja frekari fresti í málinu. Við næstu fyrirtöku málsins, 10. júní sl., lagði lögmaður sóknaraðila fram umfangsmikla samantekt endurskoðanda um greiðslur Baugs Group hf. á afborgunum lána og vaxta á tímabilinu frá 4. águst 2008 til 4. febrúar 2009. Lögmaður varnaraðila óskaði þá eftir fresti til að kynna sér gögnin og var málinu frestað til 30. júní sl. Við fyrirtöku málsins þann dag var bókað eftir varnaraðila að hann teldi framlögð gögn sóknaraðila í síðasta þinghaldi ekki fyllilega í samræmi við áskorun í greinargerð sinni. Í tilefni af þeirri bókun og fyrri áskilnaði sóknaraðila um framlagningu matsgerðar, óskaði lögmaður sóknaraðila eftir frekari fresti til gagnaöflunar. Lögmaður varnaraðila taldi hins vegar ekki efni til að veita frekari fresti í málinu og óskaði eftir að aðalmeðferð yrði ákveðin. Dómari ákvað þá að fresta málinu til 29. september sl., í því skyni að sóknaraðili gæti lokið framlagningu gagna. Í þinghaldi þann dag upplýsti lögmaður sóknaraðila að matsmaður stefndi að því að ljúka matsgerð sinni 9. nóvember nk., og lagði fram gögn því til stuðnings. Óskaði hann enn eftir fresti til að leggja fram umrædda matsgerð, en tók jafnframt fram að hann sæi því ekkert til fyrirstöðu að ákveða dagsetningu aðalmeðferðar, með þeim fyrirvara þó að honum yrði heimilað að leggja matsgerðina fram við upphaf hennar. Lögmaður varnaraðila kvaðst hafna því að málinu yrði frestað frekar og taldi að umrædd matsgerð hefði ekki þýðingu í málinu. Dómari ákvað að aðalmeðferð færi fram 20. desember 2011, en málið yrði engu að síður tekið fyrir 28. nóvember 2011. Í því þinghaldi yrði tekin afstaða til matsgerðarinnar og varnaraðila eftir atvikum gefinn kostur á að bregðast við henni.
Við fyrirtöku málsins 28. nóvember sl. var ákveðið að fresta fyrirhugaðri aðalmeðferð til 18. janúar nk. Lögmaður sóknaraðila kvaðst í þinghaldinu ekki geta lýst gagnaöflun lokið, enda biði hann enn eftir umræddri matsgerð. Taldi hann matsgerðina hafa þýðingu fyrir úrslit málsins, og óskaði því enn eftir fresti til að leggja hana fram. Kom fram í máli hans að hann hefði nú upplýsingar um að matmaður hygðist ljúka matstörfum fyrir jól. Lögmaður varnaraðila mótmælti því að sóknaraðila yrði veittur frekari frestur og taldi að málsmeðferðin væri þegar orðin of löng og í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars. Óskaði hann eftir úrskurði dómsins um frestbeiðni sóknaraðila. Er sá ágreiningur aðila hér til úrlausnar.
IV
Í greinargerð sóknaraðila til dómsins áskildi hann sér rétt til að afla undir rekstri málsins mats dómkvaddra matsmanna á greiðsluhæfi sóknaraðila og fjárhag að öðru leyti um það leyti sem sóknaraðili greiddi þá kröfu sem hér er til umfjöllunar. Sóknaraðili hefur ekki nýtt sér heimild til dómkvaðningar matsmanna. Þess í stað hefur hann ítrekað óskað eftir að máli þessu verði frestað þar til matsgerð liggur fyrir í málinu nr. E-2356/2010, þar sem hann telur að niðurstöður þeirrar matsgerðar kunni að varpa ljósi á ýmis atriði í málinu. Af sömu ástæðu hefur hann ekki talið sér unnt að lýsa gagnaöflun lokið. Varnaraðili telur aftur á móti að matsgerðin hafi ekki þýðingu fyrir þetta mál.
Meðal gagna málsins er afrit af matsbeiðni í málinu nr. E-2356/2010: Þrotabú Baugs Group hf. gegn Fjárfestingafélaginu Gaumi ehf., Eignarhaldsfélaginu ISP ehf., Gaumi Holding S.A., Bague S.A., Banque Havilland S.A. og Pillar Securitisation S.Á.R.L. Skjalið er merkt sem dómskjal nr. 47 í þessu máli. Af matsbeiðninni má sjá að hún var lögð fram í þinghaldi 12. janúar sl. Fram kemur þar að þrotabú Baugs Group hf. hafi höfðað mál á hendur ofantöldum aðilum til staðfestingar á riftun á tiltekinni greiðslu Baugs Group hf. og til endurgreiðslu og/eða greiðslu bóta. Í matsbeiðni eru sjö spurningar lagðar fyrir matsmenn, m.a. um eigna- og skuldastöðu Baugs Group hf. 30. júní 2008. Sjá má af framlögðu tölvubréfi frá matsmanni að ætlunin var að ljúka matsgerðinni fyrir 9. nóvember sl., en það gekk eftir.
Samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, getur dómari orðið við ósk aðila um að fresta máli frekar en mælt er fyrir um í 1. mgr. sömu greinar, ef hann telur það vænlegt til að ná sáttum eða nauðsynlegt til að afla gagna sem nægilegur frestur hefur ekki áður verið til. Í 5. mgr. sömu greinar er síðan tekið fram að dómari ákveði að jafnaði ekki hvenær þing verði háð til aðalmeðferðar máls fyrr en aðilar hafa lýst lokið öflun sýnilegra sönnunargagna.
Eins og atvikum er háttað telur dómurinn ekki loku fyrir það skotið að svör við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir matsmenn í málinu nr. E-2356/2010 geti varpað ljósi á það álitaefni sem til úrlausnar er í þessu máli. Þar sem töf á framlagningu matsgerðarinnar stafar ekki af ástæðum sem sóknaraðila verður um kennt, svo í ljósi þess að töf þessi hefur ekki valdið óhæfilegum drætti á meðferð málsins, þykir rétt að fallast á ósk sóknaraðila um að fresta málinu enn frekar, á meðan þess er beðið að matsmenn ljúki störfum og að matsgerðin verði lögð fram. Fram er komið að matsmenn muni ljúka störfum fyrir komandi jól. Verður málinu því frestað, en um leið boðað til næsta þinghalds, sem ákveðið er fimmtudaginn 12. janúar 2012, kl. 09:15, í dómsal 302.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er frestað. Næsta þinghald í málinu er 12. janúar 2012, kl. 09:15, í dómsal 302.