Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-332

Tryggingamiðstöðin hf. (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)
gegn
Vegagerðinni (Reynir Karlsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Vátrygging
  • Umferðarlög
  • Munatjón
  • Bifreið
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 25. nóvember 2019 leitar Tryggingamiðstöðin hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 8. sama mánaðar í máli nr. 148/2019: Vegagerðin gegn Tryggingamiðstöðinni hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegagerðin leggst gegn beiðninni.

Gagnaðili höfðaði mál þetta til viðurkenningar á skaðabótaskyldu leyfisbeiðanda úr ökutækjatryggingu einkahlutafélagsins Karína vegna tjóns sem hann kveðst hafa orðið fyrir 20. júlí 2015 þegar vörubifreið ásamt festivagni í eigu þess félags valt í Ártúnsbrekku í Reykjavík með þeim afleiðingum að möl sem hún flutti dreifðist um stóran hluta vegarins. Gagnaðili kveður tjón sitt felast í kostnaði vegna hreinsunar vegarins að fjárhæð 354.077 krónur. Ágreiningur í málinu lýtur að því hvort tjónið sé bótaskylt samkvæmt 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður með vísan til þess að gagnaðili hefði verið að sinna lögbundnu hlutverki sínu sem veghaldari í umrætt sinn og að ekki væri að finna lagaheimild til gjaldtöku hans við þessar aðstæður. Í fyrrnefndum dómi Landsréttar var hins vegar fallist á kröfu gagnaðila. Fram kom að um væri að ræða munatjón sem félli undir hlutlæga ábyrgðarreglu 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga. Þrátt fyrir að verkefni gagnaðila við veghald væru almennt kostuð af almannafé stæðu lög því ekki í vegi að hann nyti réttar til að sækja bætur úr ábyrgðartryggingu með þeim hætti sem hann gerði í málinu.

Leyfisbeiðandi telur að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem skera þurfi úr um hvort hlutlæg bótaregla 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 taki til tjóns sem þessa. Vísar hann til þess að um óbeint tjón hafi verið að ræða og að skemmdir hafi hvorki orðið á fasteign né lausafé. Þá sé gagnaðili opinber aðili og veghaldari samkvæmt vegalögum nr. 80/2007 sem geti ekki, án skýrrar lagaheimildar, átt einkaréttarkröfu á hendur leyfisbeiðanda vegna óbeins tjóns sem þriðji aðili hafi valdið. Úrslit málsins hafi jafnframt verulegt almennt gildi þar sem málið hafi þýðingu fyrir öll tryggingafélög í landinu sem selji ökutækjatryggingar. Þá varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 né að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi. Er beiðninni því hafnað.