Hæstiréttur íslands

Mál nr. 188/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 22

 

Mánudaginn 22. apríl 2002.

Nr. 188/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Sigurður Kári Kristjánsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. maí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að sér verði gert að sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds, en að því frágengnu verði gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2002.

Ár, sunnudaginn, er á dómþingi, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Gretu Baldursdóttur héraðsdómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en  til mánudagsins 27. maí 2002 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að lögreglan í Reykjavík hafi handtekið kærða í gær vegna gruns á hendur honum um fjársvik og skjalafals þann 8. þ.m. Þann dag hafi kærði komið inn í verslun Landsíma Íslands hf., Smáralind í Kópavogi, og svikið út farsíma að andvirði 50.460 kr. Af kaupverði hafi kærði greitt 14.460 kr. með tékka að fjárhæð 15.000 kr. sem kærði hafi falsað með nafni Páls H. Svavarssonar. Þá hafi kærði falsað undirritun á léttkaupasamning fyrir eftirstöðvum kaupverðs að fjárhæð 36.000 kr. með nafni Páls.  Þá leiki grunur á að kærði hafi falsað ökuskírteini í nafni nefnds Páls. 

Auk þess sem lögreglan rannsaki nú framangreind brot kærða hafi hún á undanförnum mánuðum margoft þurft að hafa afskipti af kærða vegna afbrota hans og undirbúi lögfræðideild embættisins nú saksókn á hendur honum fyrir eftirgreind brot sem flest hafi verið framin á árinu 2002:

Mál nr. 010-2002-2894. Fyrir skjalafals, með því að hafa föstudaginn 18. janúar 2002 framvísað hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, Álfabakka 14, umsókn um tékkareikning og debetkort sem hann hafi falsað með nafni Páls H. Svavarssonar sem umsækjanda og fengið þannig afhent hjá sparisjóðnum tékkhefti og debetkort á reikning nr. 4471 og framvísað jafnframt víxileyðublaði til tryggingar á heimild til yfirdráttar á 500.000 kr. á reikninginn, útfylltu að andvirði 500.000 kr., sem kærði hafi falsað með nafni Páls sem samþykkjanda og greiðanda og með nafni Sigurðar Grétarssonar sem útgefanda.

Mál nr. 010-2002-8274. Fyrir fjársvik framin í janúar 2002 með því að hafa í auðgunarskyni stofnað til reikningsviðskipta við fyrirtækið Sindra-Stál hf. og á tímabilinu frá 14. janúar til 28. febrúar tekið út í reikninginn verkfæri alls að verðmæti 423.846 kr. þrátt fyrir að hann sé með öllu eignalaus og ógjaldfær. Kærði hefur hvorki greitt reikninginn né skilað vörum til fyrirtækisins.

Mál nr. 010-2002-9241. Fyrir að hafa á tímabilinu frá 10. janúar til 22. febrúar í 12 skipti svikið út farsíma og fylgihluti í verslunum Landsíma Íslands alls að verðmæti 834.827 kr. sem kærði lét skuldfæra heimildarlaust í viðskiptareikninga fyrirtækja.

Mál nr. 010-2002-7037. Fyrir skjalafals, með því að hafa 4. febrúar 21002 tekið á leigu hjá bílaleigunni Avis fólksbifreiðina BP-624 til 7. næsta mánaðar heimildarlaust í nafni fyrrgreinds Páls fyrir hönd fyrirtækisins Rolf Johansen & Co. og falsað samning um leigu á bifreiðinni þess efnis en leigusamninginn undirritaði hann með nafni Páls. Lögreglan fann bifreiðina skemmda þann 6. mars sl.

Mál nr. 010-2002-10093. Fyrir skjalafals og fjársvik, með því að hafa í febrúar 2002, í auðgunarskyni stofnað til reikningsviðskipta við verslunina Þór hf., Ármúla 11, og jafnframt framvísað til tryggingar væntanlegum viðskiptum víxileyðublað fyrir andvirði 250.000 kr. sem kærði samþykkti sjálfur til greiðslu og falsaði með áritun á nafni áðurgreinds Páls sem útgefanda og með áritun á nafni Þóreyjar Indriðadóttur sem ábekings og síðan tekið út vörur að andvirði 273.063 kr.,  sem kærði hefur hvorki greitt né skilað til verslunarinnar.

Mál nr. 010-2002-6869. Fyrir fjársvik með því að hafa 27. febrúar 2002 svikið út hjá 4 verslunum Húsasmiðjunnar hf. vörur að verðmæti 352.537 kr. með því að láta skuldfæra andvirði varanna heimildarlaust í viðskiptareikning Teiknistofunnar, Ármúla 6, hjá Húsasmiðjunni.

Mál nr. 036-2001-5910. Fyrir að hafa ekið bifreiðinni KS-460, óhæfur til að stjórna henni vegna áhrifa deyfandi lyfja frá Reykjavík til Hafnarfjarðar en akstri hans lauk við Lyngás í Hafnarfirði þar sem kærði sofnaði í bifreiðinni.

Mál nr. 010-2002-997. Fyrir nytjatöku og brot á umferðarlögum með því að hafa 9. janúar 2002, ekið bifreiðinni TL-842, óhæfur til að stjórna henni vegna áhrifa áfengis og deyfandi lyfja, vestur Miklubraut og svo óvarlega að hann ók utan í aðra bifreið, ekið áfram gegn rauðu umferðarljósi inn á gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og ekið á aðra bifreið þar. Kærða er jafnframt gefið að sök að hafa í framhaldi af því tekið heimildarlaust bifreið sem stöðvað hafði verið nefnd gatnamót vegna árekstursins og ekið henni að versluninni Select við Bústaðaveg.

Mál nr. 010-2002-4615. Fyrir tilraun til fjársvika með því að hafa þann 5. febrúar 2002 í félagi við annan mann reynt að svíkja út hjá verslun Nýherja, Borgartúni 37, skjávarpa og myndavél, samtals að verðmæti 572.912 kr., sem þeir pöntuðu hjá fyrirtækinu heimildarlaust í nafni Rolfs Johansen & Co.

Lögreglan telji að miklar líkur séu á því að kærði, sem er heimilislaus og var veitt reynslulausn um mitt síðasta ár, muni halda áfram brotum sínum ef hann haldi óskertu frelsi sínu nú. Brot kærða sem rakin hafi verið hér að framan séu  stórfelld og beri vott um einbeittan brotavilja. Kærði hafi í meginatriðum játað framangreind brot.

Lögreglan í Reykjavík rannsaki nú mörg ætluð brot kærða sem varðað geti fangelsisrefsingu ef sök teljist sönnuð, auk þess sem kærði hafi með brotum þessum rofið skilyrði reynslulausnar, sbr. 42. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Brot kærða nú geti varðað við 155., 248. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, með síðari breytingum. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og með vísan til c- liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að krafa þessi verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.

Eins og fram kemur í greinargerð lögreglu var kærða veitt reynslulausn um mitt síðasta ár.  Kærði hefur viðurkennt aðild sína að allmörgum brotum sem flest voru framin á þessu ári og það síðasta þann 8. þ.m.  Með vísan til framanritaðs og rannsóknargagna málsins þykir  fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við og ætla má að hann muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið.  Er því fallist á að skilyrðum um gæsluvarðhald kærða samkvæmt c lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt.   Krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi verður tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til mánudgsins 27. maí nk. kl.16.00.