- Kjarasamningur
- Ráðningarsamningur
- Uppsagnarfrestur
Þriðjudaginn 19. apríl 2011. |
|
Nr. 381/2010. |
Lyf og heilsa ehf. (Ólafur Eiríksson hrl.) gegn Stefáni Niclas Stefánssyni (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) |
Kjarasamningur. Ráðningarsamningur. Uppsagnarfrestur.
Ágreiningur var á milli S og L ehf. um það hvort S hefði átt rétt á þriggja eða sex mánaða uppsagnarfresti eftir að honum var sagt upp hjá L ehf. Samkvæmt kjarasamningi sem gilti um ráðningarsamband aðila átti uppsagnarfrestur eftir sex mánaða starf að vera þrír mánuðir en sex mánuðir eftir fimm ára samfellt starf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að leggja yrði þann skilningi í skilyrði kjarasamningsins um samfellt starf að starfsmaður yrði að hafa stundað starf á sama vinnustað í hverjum mánuði síðustu fimm ár eða 60 mánuði fyrir uppsögn til að skilyrðið teldist uppfyllt. Staðgreiðsluyfirlit gáfu til kynna að S hefði ekki starfað tiltekinn mánuð á því tímabili sem S hélt fram að hann hefði starfað hjá L hf. S var því ekki talinn hafa unnið samfellt í þágu L ehf. í full fimm ár þegar honum var sagt upp störfum. L ehf. var því sýknað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2010. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Stefndi, sem er lyfjafræðingur, kvaðst í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi hafa hafið störf hjá áfrýjanda í febrúarmánuði 2003. Samkvæmt yfirliti úr staðgreiðsluskrá skattstjórans í Reykjavík fékk stefndi fyrst laun fyrir störf hjá áfrýjanda í marsmánuði það ár og síðan í mánuðunum maí til og með nóvember en hvorki í apríl né desember. Á árunum 2004 og 2005 sést af staðgreiðsluyfirlitunum að hann fékk greidd laun frá áfrýjanda í hverjum mánuði. Skriflegan ráðningarsamning undirrituðu aðilar ekki fyrr en 20. apríl 2005. Samkvæmt honum var stefndi ráðinn í ótímabundið hlutastarf, sem nánar var kveðið á um hvernig skyldi háttað, en auk þess skyldi stefndi starfa „í tilfallandi afleysingum“. Í ráðningarsamningnum var um uppsagnarfrest vísað til ákvæða kjarasamnings lyfjafræðinga. Með bréfi 31. október 2008 var stefnda sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara og tekið fram að óskað væri eftir vinnuframlagi hans á uppsagnarfresti, til og með 31. janúar 2009. Þann 12. janúar 2009 sendi stefndi áfrýjanda tölvupóst þar sem fram kom að hann teldi, eftir að hafa ráðfært sig við stéttarfélag sitt, að hann ætti 6 mánaða uppsagnarfest. Áfrýjandi svaraði tölvupóstinum samdægurs og kvaðst myndu „skoða málið“ og tók fram að ætti stefndi þennan rétt væri farið fram á að hann ynni út uppsagnarfrestinn. Með tölvupósti 16. janúar 2009 kvaðst áfrýjandi að athuguðu máli hafna því að stefndi ætti 6 mánaða uppsagnarfrest, enda hefði hann ekki unnið samfellt í fimm ár hjá áfrýjanda. Með bréfi dagsettu 27. janúar 2009, sem barst stefnda samdægurs, bauð áfrýjandi honum að gera tímabundinn ráðningarsamning til þriggja mánaða frá 1. febrúar 2009 með óbreyttum kjörum. Lögmaður stefnda sendi áfrýjanda bréf dagsett 26. janúar 2009, sem póstlagt var 28. eða 29. sama mánaðar, þar sem hann krafði áfrýjanda um þriggja mánaða laun vegna ólögmætrar uppsagnar og með tölvupósti 30. sama mánaðar hafnaði stefndi tilboði áfrýjanda um þriggja mánaða tímabundinn ráðningarsamning, meðal annars vegna áforma um störf erlendis. Stefndi höfðaði mál þetta 4. júní 2009.
II
Aðila greinir fyrst og fremst á um hvort uppsagnarfrestur stefnda hafi verið þrír eða sex mánuðir. Eins og að framan er rakið var í ráðningarsamningi aðila 20. apríl 2005 vísað um uppsagnarfrest til ákvæða kjarasamnings lyfjafræðinga. Frá maí 2000 gilti í lögskiptum aðila kjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Lyfjafræðingafélags Íslands vegna apóteka hins vegar. Í grein 12.1. eru í samningnum svofelld ákvæði um uppsagnarfrest: „12.1.1. Uppsagnarfrestur á 1. starfsári. Starfsuppsögn skal af beggja hálfu vera ein vika á fyrstu þrem mánuðum sem er reynslutími. Að honum loknum skal uppsagnarfrestur vera einn mánuður á næstu þremur mánuðum. Eftir sex mánaða starf skal gagnkvæmur uppsagnarfrestur vera þrír mánuðir. 12.1.2. Uppsagnarfrestur eftir fimm ára samfellt starf. Fyrir lyfjafræðing sem unnið hefur á sama vinnustað í alls fimm ár er gagnkvæmur uppsagnarfrestur sex mánuðir.“ Samkvæmt framangreindum texta í grein 12.1.2. er fimm ára samfellt starf á sama vinnustað skilyrði fyrir því að uppsagnarfrestur verði sex mánuðir í stað þriggja, en skilyrði um að starf skyldi vera samfellt var ekki í hliðstæðu ákvæði eldri kjarasamnings frá 13. júní 1997 milli Vinnuveitendasambands Íslands og Stéttarfélags íslenskra lyfjafræðinga. Verður að leggja þann skilning í áskilnað ákvæðisins um samfellt starf að starfsmaður þurfi að hafa stundað starf á sama vinnustað í hverjum mánuði síðustu fimm ár eða 60 mánuði fyrir uppsögn. Fær ákvæði greinar 14.1. í fyrrgreinda kjarasamningum um áunnin réttindi þessu ekki breytt, enda fjallar það um réttarstöðu starfsmanns við endurráðningu. Þá verður ekki séð að ákvæði laga nr. 10/2004 um starfsmenn í hlutastörfum, sem tóku gildi 31. mars 2004, skipti máli við úrlausn ágreinings aðila. Samkvæmt staðgreiðsluyfirlitum starfaði stefndi, eins og að framan greinir, ekki hjá áfrýjanda í desembermánuði 2003 og hafði því ekki unnið samfellt í hans þágu í full fimm ár þegar honum var sagt upp störfum 31. október 2008. Uppsagnarfrestur hans var því þrír mánuðir og ber þar af leiðandi að sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda. Í ljósi þeirra málsúrslita verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Lyf og heilsa ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Stefáns Niclas Stefánssonar.
Stefndi greiði áfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2010.
Mál þetta sem dómtekið var 31. mars sl. er höfðað með stefnu birtri 4. júní 2009.
Stefnandi er Stefán N. Stefánsson, Engjaseli 78, Reykjavík.
Stefndi er Lyf og heilsa ehf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 1.513.338, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 af kr. 1.513.338 frá 1. mars 2009 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
MÁLSATVIK
Stefnandi kveðst hafa verið ráðinn sem lyfjafræðingur til stefnda árið 2003. Gerður var samningur um fastráðningu stefnanda árið 2005. Stefnanda hafi verið sagt upp störfum með uppsagnarbréfi dagsettu 1. október 2008 og uppsögn miðast við 1. nóvember 2008. Uppsagnarfrestur hafi verið sagður 3 mánuðir. Stefnandi hafi hætt störfum að loknum uppsagnarfresti, eða hinn 31. janúar 2009.
Stefnandi hafi mótmælt uppsögninni sem ólögmætri með bréfi lögmanns síns, dagsettu 26. janúar 2009 þar sem segi að stefnandi eigi rétt til 6 mánaða uppsagnarfrests samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Gerð hafi verið krafa um greiðslu launa í þrjá mánuði og útreikningur byggður á meðaltali launa stefnanda síðustu 12 mánuði hans í starfi.
Í kjölfar bréfs lögmanns stefnanda hafi honum borist bréf frá stefnda dagsett 27. janúar 2009 þar sem honum hafi verið boðinn þriggja mánaða tímabundinn ráðningarsamningur frá 1.febrúar 30.apríl 2009. Stefnandi hafi hafnað nýrri ráðningu hjá stefnda. Í kjölfarið hafi borist bréf frá lögmanni stefnda, dagsett hinn 3. mars 2009. Þar sé því mótmælt að stefnandi eigi rétt til 6 mánaða uppsagnarfrests þar sem stefnandi hafi ekki starfað samfellt í 5 ár hjá stefnda en samkvæmt ákvæði 12.1.2. í kjarasamningi og eigi hann því ekki rétt til 6 mánaða uppsagnarfrests. Kröfum stefnanda var því hafnað.
Stefndi kveður stefnanda hafa sinnt tilfallandi afleysingum hjá stefnda frá mars 2003 til og með 20. apríl 2005 er hann hafi verið ráðinn til starfa sem lyfjafræðingur í fast hlutastarf, auk tilfallandi afleysinga. Á árinu 2003 hafi stefnandi hvorki unnið í apríl né desember mánuði. Hinn 31. október 2008 hafi stefnanda verið sagt upp starfi með þriggja mánaða fyrirvara. Hafi sérstaklega verið óskað eftir vinnuframlagi hans út uppsagnarfrestinn eða til og með 31. janúar 2009. Með tölvupósti dagsettum 12. janúar 2009 hafi stefnandi framsent túlkun lögfræðings til stefnda og sagst eiga rétt til sex mánaða uppsagnarfrests. Hafi honum verið svarað þann sama dag að málið yrði skoðað. Var honum einnig tjáð að ef hann hefði unnið samfellt hjá stefnda frá febrúar 2003 þá ætti stefnandi umræddan rétt til sex mánaða uppsagnarfrests en þá færi stefndi fram á að hann ynni út uppsagnarfrestinn, það er þessa sex mánuði. Stefndi hafi sent tölvupóst til stefnanda hinn 16. janúar 2009. Hafi stefnandi verið upplýstur um að það væri túlkun stefnda að uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir samkvæmt samningi þar sem hann hefði hvorki starfað samfellt í fimm ár né hefði hann skilað þeim vinnutímafjölda er samsvari fimm ára starfi.
Engin viðbrögð hafi borist frá stefnanda, en til að koma til móts við hann hafi honum verið boðinn tímabundinn ráðningarsamningur til þriggja mánaða með bréfi dagsettu 27. janúar 2009. Hafi stefndi talið að þar væri kröfum stefnanda mætt með þeim hætti sem stefndi taldi réttan, án nokkurrar viðurkenningar á rétti stefnanda.
Eftir að umrætt tilboð hafi verið sent hafi stefnda borist bréf frá lögmanni stefnanda, dagsett 26. janúar 2009, þar sem því hafi verið haldið fram að stefndi hafi með ólögmætum hætti rift ráðningarsamningi stefnanda. Því eigi stefnandi skaðabótakröfu sem nemi þriggja mánaða launum. Þetta bréf hafi að sögn lögmanns stefnanda þó ekki verið póstlagt fyrr en 28. eða 29. janúar 2009 og því ekki borist stefnda fyrr en eftir að honum hafði verið sent framangreint bréf stefnda dagsett 27. janúar 2009. Með bréfi dagsettu 3. mars 2009 mótmælti lögmaður stefnda alfarið nefndu bréfi lögmanns stefnanda.
MÁLSÁSTÆÐUR STEFNANDA
Stefnandi hafi hafið störf hjá stefnda hinn 1.febrúar 2003. Hafi hann verið ráðinn í hlutastarf og unið sem slíkur allt þar til honum hafi verið sagt upp störfum hinn 31.október 2008 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Samkvæmt ákvæðum kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins vegna apóteka kafla 12.2.2 sé gagnkvæmur uppsagnarfrestur sex mánuðir fyrir lyfjafræðing sem hafi starfað á sama vinnustað í fimm ár. Ekki skipti máli hvert starfshlutfall starfsmanns hafi verið samkvæmt ákvæðum kjarasamnings. Þá sé tekið fram í lögum nr. 10 frá 2004 um starfsmenn í hlutastörfum að slíkir starfsmenn skuli ekki sæta mismunun.
Eins og staðfest hafi verið af stefnda hafi laun stefnanda á árinu 2008 verið 7.345.390 krónur. Meðallaun hans á mánuði hafi því verið 612.116 krónur. Gerð sé krafa um greiðslu þeirra launa í þá 3 mánuði sem eftir séu af kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti.
Krafa stefnanda sundurliðast svo:
Vangreidd laun vegna febrúar 2009 |
kr. 612.116 |
Vangreidd laun vegna mars 2009 |
kr. 612.116 |
Að frádregnum launum hjá Einhorn apóteki í mars 2009 |
kr. -157.250 |
Vangreidd laun vegna apríl 2009 |
kr. 612.116 |
Að frádregnum launum hjá Einhorn apóteki í apríl 2009 |
kr. -168.760 |
Samtals |
kr. 1.513.338 |
Sú staðreynd að stefndi hafi boðið stefnanda tímabundinn ráðningarsamning í 3 mánuði hinn 27. janúar s.l. breyti engu um rétt stefnanda samkvæmt kjarasamningi.
Vísað er til ákvæða laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, sérstaklega 1.gr. laganna, laga nr. 10/2004 um starfsmenn í hlutastörfum og kjarasamnings Samtaka atvinnulífsins vegna lyfjafræðinga.
Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III kafla vaxtalaga nr. 38/2001. með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.
MÁLSÁSTÆÐUR STEFNDA
Að mati stefnda beri að túlka samfellt starf í fimm ár sem samfellt starf í 60 mánuði. Í gildandi samningi milli Samtaka atvinnulífsins og lyfjafræðinga vegna apóteka frá maí 2000 segi í kafla 12.1.2:
„Uppsagnarfrestur eftir fimm ára samfellt starf.
Fyrir lyfjafræðing sem unnið hefur á sama vinnustað í alls fimm ár er gagnkvæmur uppsagnarfrestur sex mánuðir.“
Virða beri heildstætt ákvæði greinar 12.1.2 kjarasamningsins Lyfjafræðinga og 1. gr. laga nr. 10/1979. Þar sé gerður áskilnaður um að starfið skuli hafa verið samfellt.
Stefnandi hafi, er honum var sagt upp störfum í október 2008, starfað samfellt í 58 mánuði hjá stefnda. Í því sambandi séu þeir þrír mánuðir sem stefnandi vann í uppsagnarfresti ekki taldir með. Um þetta vitni yfirlit yfir fjölda vinnustunda sem stefnandi innti af hendi í starfi sínu hjá stefnda.
Stefndi telur að þar sem ljóst sé að stefnandi hafi ekki starfað samfellt í fimm ár hjá stefnda, með vísan til greinar 12.1.2 í nefndum kjarasamningi, eigi hann ekki rétt til sex mánaða uppsagnarfrests.
Verði litið svo á að stefnandi hafi unnið nægjanlega lengi hjá stefnanda til að öðlast rétt til sex mánaða uppsagnarfrests beri að sýkna stefnda á grundvelli eftirfarandi málsástæðna.
Starf teljist aðeins hafa verið samfellt að unnar hafi verið minnst 1.550 vinnustundir á ári. Þetta viðmið gildi enda þótt og til viðbótar því skilyrði að unnir hafi verið 60 mánuðir samfellt. Ljóst sé að á fyrsta starfsári stefnanda hjá stefnda hafi hann unnið færri vinnustundir en að framan greini. Hafi það í för með sér að ekki sé um samfellt starf að ræða.
Því er mótmælt að réttindi stefnanda hafi verið skert með vísan til laga nr. 10/2004. Umrædd lög nái ekki yfir starf stefnanda meðal annars þar sem starf hans hafi verið afleysingastarf allt til ársins 2005 en ekki hlutastarf eins og það sé skilgreint í lögunum.
Verði fallist á að lögin taki til stefnanda verði að athuga að lögin leggi ekki bann við að starfsmenn í hlutastörfum njóti annarra og mögulega lakari kjara en sambærilegir starfsmenn í fullu starfi sé slíkt réttlætanlegt á grundvelli hlutlægra ástæðna.
Stefnandi hafi ekki starfað samfellt hjá stefnda í fimm ár, hvort sem litið sé til þess hvort hann var afleysingamaður eða ekki. Sú mismunun sem felist í því að réttur starfsmanna til uppsagnarfrests sé mismunandi eftir starfsaldri sé hlutlæg og því réttlætanleg. Að starfsmaður teljist hlutastarfsmaður færi honum ekki ríkari rétt en starfsmönnum sem gegna fullu starfi, heldur aðeins sama rétt.
Stefndi upplýsti stefnanda um að ætti hann rétt til sex mánaða uppsagnarfrests yrði óskað eftir því að hann ynni þann frest. Sé það meginregla í vinnurétti að óski starfsmaður eftir greiðslu launa í uppsagnarfresti beri honum að sinna starfsskyldum sínum þann sama tíma óski vinnuveitandi eftir því.
Til að koma til móts við kröfur stefnanda, en að sjálfsögðu án viðurkenningar á rétti hans til sex mánaða uppsagnarfrests, hafi honum verið boðið tímabundið starf til þriggja mánaða, það er mánuðina febrúar til og með apríl 2009.
Stefnandi hafi hafnað því boði stefnda þar sem hann hefði þegar ráðið sig til starfa annað, nánar tiltekið til Þýskalands. Hafi stefnandi því verið ófært að taka við umræddu starfi eða uppfylla þær kröfur sem stefndi gerði yrði það sannað að réttur væri til sex mánaða uppsagnarfrests.
Stefnandi hafi ráðið sig til annarra starfa utan Íslands án þess að upplýsa stefnda um það fyrir fram og án þess að hafa brugðist við tölvupósti dagsettum 16. janúar 2009 þar sem afstaða stefnda hafi verið rökstudd. Svar stefnanda hafi ekki komið fyrr en eftir að honum hafi verið boðið tímabundið starf og eftir að hann hafði ráðið sig til starfa í öðru landi.
Stefndi heldur því fram að þar sem stefnandi réð sig til starfa á þeim tíma sem hann taldi vera réttmætan uppsagnarfrest sinn, þar sem hann hafnaði því að vinna þann tíma sem hann taldi réttmætan uppsagnarfrest sinn þrátt fyrir yfirlýsingu stefnda um að fram á það yrði farið og þar sem hann hafnaði áframhaldandi ráðningu til þriggja mánaða þá hafi hann fyrirgert öllum rétti sínum til skaðabóta hafi sá réttur einhvern tíma verið fyrir hendi sem stefndi telur ekki vera, enda beri starfsmanni skylda til að sinna starfsskyldum sínum í uppsagnarfresti sé eftir því óskað.
Varakrafa stefnda um lækkun styðjist við sömu málsástæður og aðalkrafa stefnda. Vísast því til aðalkröfunnar að breyttum breytanda.
Lagarök. Stefndi tekur til varna í máli þessu skv. ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði. Reisir stefndi kröfur sínar á lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks, lögum nr. 10/2004 um starfsmenn í hlutastörfum svo og almennum reglum vinnuréttar.
Krafa um málskostnað byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði.
NIÐURSTAÐA
Stefnandi hóf störf hjá stefnda 1. febrúar 2003. Ekki var gerður við hann ráðningarsamningur fyrr en 20. apríl 2005 en samkvæmt þeim samningi var hann ráðinn í ótímabundið hlutastarf. Segir að föstudaga og laugardag starfi hann í Lyf og heilsu í Mjódd, miðvikudaga í Hveragerði og í Apótekaranum í Hveragerði á fimmtudögum kl. 14.00 - 18.00. Auk þessa skyldi stefnandi starfa í tilfallandi afleysingum eins og þörf gerðist á hverjum tíma.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að stefnandi hafi ekki verið í hlutastarfi heldur einungis í tilfallandi afleysingum frá 2003 til 2005 er ráðningasamningurinn var gerður.
Í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Lyfjafræðingafélags Íslands vegna apóteka frá 2000 segir í kafla 12.1.2 “Uppsagnarfrestur eftir fimm ára samfellt starf
Fyrir lyfjafræðing sem unnið hefur á sama vinnustað í alls fimm ár er gagnkvæmur uppsagnarfrestur sex mánuðir.”
Stefnandi hafði starfað hjá stefnanda frá því 1. febrúar 2003 er uppsagnarbréf var sent honum í októberlok 2008 eða í fimm ár og níu mánuði. Að því er fram kemur á yfirliti um staðgreiðslu opinberra gjalda stefnanda fékk hann greidd laun frá stefnda í marsmánuði 2003, ekkert í apríl, en hins vegar fyrir mánuðina maí til nóvember sama árs. Frá janúar 2004 fékk hann laun frá stefnda fram til þess tíma er starfslok hans urðu.
Að framan er þess getið að ekki var gerður ráðningarsamningur með aðilum er stefnandi hóf að starfa hjá stefnda en launagreiðslur til stefnanda frá stefnda, sem fram koma á yfirliti um staðgreiðslu stefnanda, sem að framan er nefnt, benda til þess að starf stefnanda hjá stefnda hafi verið meira en svo að teljast einungis tilfallandi afleysingar nema ef vera kynni einhver hluti ársins 2003. Stefndi ber hallann af óskýrleika um þetta atriði með því að ekki var gerður skriflegur samningur við stefnanda sem tæki af tvímæli um þetta og verður á því byggt að stefnandi hafi verið í hlutastarfi hjá stefnda allt frá því í febrúar 2003. Með vísan til þessa er fallist á það með stefnanda að honum beri 6 mánaða uppsagnarfrestur samkvæmt framangreindu ákvæði í kjarasamningi.
Af hálfu stefnda var sá skilningur hans að stefnandi ætti einungis þriggja mánaða uppsagnarfrest áréttaður við stefnanda í tölvupósti 16. janúar 2008 er hálfur mánuður var eftir af uppsagnarfrestinum. Það að stefnandi gerði ráðstafanir til þess að fá aðra vinnu þegar þessi afstaða stefnda lá ljós fyrir leiðir ekki til þess að hann hafi tapað rétti til þess að sækja rétt sinn samkvæmt kjarasamningi á hendur stefnda. Verða það að teljast eðlileg viðbrögð til þess að draga úr tjóni stefnanda vegna rangs skilnings stefnda á lengd uppsagnarfrests stefnanda. Verður þeirri málsástæðu stefnda að stefnanda hafi borið að koma til vinnu á uppsagnarfresti þeim sem eftir lifði hafnað eins og atvikum var háttað hér.
Samkvæmt öllu framansögðu verða kröfu stefnanda um teknar til greina og eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 480.000 krónur í málskostnað þ.m.t. virðisaukaskattur.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Lyf og heilsa hf. greiði stefnanda, Stefáni Nicolai Stefánssyni, 1.513.338 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðbætur nr. 38/2001 frá 1. mars 2009 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 480.000 krónur í málskostnað.