Hæstiréttur íslands

Mál nr. 492/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Bráðabirgðaforsjá
  • Umgengni


Dómsatkvæði

                                     

Miðvikudaginn 5. ágúst 2015.

Nr. 492/2015.

K

(Þyrí H. Steingrímsdóttir hrl.)

gegn

M

(Jónas Jóhannsson hrl.)

Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu M um að honum yrði fengin forsjá sonar hans og K til bráðabirgða var hafnað en kveðið var á um nánar tiltekinn umgengnisrétt hans og drengsins til bráðabirgða. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í stefnu til héraðsdóms hefði ekki verið gerð krafa um bráðabirgðaforsjá heldur einungis verið krafist að úrskurðað yrði til bráðabirgða um umgengnisrétt. Var ekki talið að slík kröfugerð ætti sér lagastoð með vísan til 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 og d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og yrði ekki úr henni bætt við munnlegan málflutning. Var kröfu M því vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. júlí 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. júlí 2015, þar sem kröfu varnaraðila um að honum yrði fengin forsjá A til bráðabirgða var hafnað, en kveðið á um nánar tiltekinn umgengnisrétt hans og drengsins þar til endanleg ákvörðun um forsjá lægi fyrir í máli aðila. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfum varnaraðila verði vísað frá héraðsdómi, en til vara „að ákvæði hins kærða úrskurðar varðandi inntak umgengni verði hrundið og breytt á þann veg að umgengni njóti ekki við.“ Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í héraðsdómsstefnu krafðist varnaraðili þess að ógilt yrði dómsátt aðila [...]. mars 2013 í tilgreindu forsjármáli milli þeirra um annað en greiðslu meðlags og að sonur þeirra lyti sameiginlegri forsjá til fullnaðs 18 ára aldurs hans með lögheimili hjá sóknaraðila. Þá krafðist varnaraðili þess að kveðið yrði á um inntak umgengnisréttar hans og sonarins. Jafnframt gerði varnaraðili kröfu um að úrskurðað yrði til bráðabirgða um umgengnisrétt varnaraðila og sonarins og inntak þeirrar umgengni. Í greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi kom fram það sjónarmið að vísa bæri frá héraðsdómi síðastgreindri kröfu varnaraðila án kröfu.

Við fyrirtöku málsins 26. júní 2015 var bókað eftir lögmanni varnaraðila að hann áréttaði „þá kröfu sem sett er fram í stefnu um að dómurinn úrskurði til bráðabirgða um umgengnisrétt stefnanda og sonar hans og inntak þeirrar umgengni á meðan að málið er rekið hér fyrir dómi“. Við svo búið fór fram munnlegur málflutningur um kröfuna. Kom fram í andsvörum lögmanns varnaraðila að hann gerði „jafnframt kröfu um bráðabirgðaforsjá.“

Kveðið er á um það í 1. mgr. 35. gr. barnalaga að dómari hafi í máli um forsjá eða lögheimili barns heimild til að úrskurða til bráðabirgða að kröfu aðila hvernig fara skuli um forsjá þess eða lögheimili eftir því sem barni er fyrir bestu og að í sama úrskurði geti dómari kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða. Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. áðurnefndra laga verður mál vegna forsjár eða lögheimilis barns rekið eftir almennum reglum um einkamál nema að því leyti sem kveðið er á um í lögunum. Eftir d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal í stefnu greina dómkröfur stefnanda.  Í stefnu til héraðsdóms var ekki gerð krafa um bráðabirgðaforsjá, heldur var þess einvörðungu krafist að úrskurðað yrði til bráðabirgða um umgengnisrétt varnaraðila og sonar hans og inntak þeirrar umgengni. Slík kröfugerð á sér ekki lagastoð og varð ekki úr henni bætt við munnlegan málflutning. Samkvæmt því verður kröfum varnaraðila vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Kröfum varnaraðila, M, er vísað frá héraðsdómi.

Varnaraðili greiði sóknaraðila, K, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. júlí 2015.

Mál þetta var höfðað 20. apríl 2015 um forsjá barns aðila, A, sem er fæddur [...] 2002. Í stefnu var krafist úrskurðar til bráðabirgða um umgengnisrétt stefnanda og A og um inntak þeirrar umgegni. Við munnlegan flutning um þann þátt málsins krafðist sóknaraðili jafnframt úrskurðar um forsjá til bráðabirgða yfir A. Lögmaður varnaraðila andmælti því að unnt væri að setja fram slíka kröfu við munnlegan flutning málsins.

Sóknaraðili er M, [...], [...]

Varnaraðili er K, [...], [...].

Endanlegar kröfur sóknaraðila í þessum þætti málsins eru að úrskurðað verði um forsjá A og umgengni til bráðabirgða og um inntak þeirrar umgengni á meðan mál aðila er rekið fyrir dóminum. Verði umgengni komið á í þrepum.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um úrskurð um umgengni til bráðabirgða verði vísað frá, en til vara að kröfunni verði hafnað.

I

Aðilar málsins hófu sambúð 2001 og gengu í hjúskap 2003. Sonur aðila, A fæddist [...] 2002. Á árinu 2006 sóttu aðilar um skilnað að borði og sæng og sömdu [...]. júlí sama ár um sameiginlega forsjá yfir drengnum og að lögheimili hans yrði hjá stefndu. Þá var samið um reglulega umgengni, umgengni um jól og páska og sumarfrí.

Ágreiningur er um málsatvik í veigamiklum atriðum. Í stefnu segir að aðilar hafi búið áfram saman sem hjón til ársins 2009. Því hafi ekki reynt á fyrirkomulag umgengniréttar, enda hafi báðir aðilar annast uppeldi og umönnun drengsins að jöfnu. Í kjölfar lögskilnaðar [...]. júní 2009 hafi sú breyting orðið á samvistum aðila að sóknaraðili hafi flutt af heimilinu en dvalið þar engu að síður 3-4 nætur í viku og því áfram tekið virkan þátt í umönnun og uppeldi A. Ekki hafi því reynt á það fyrirkomulag á umgengni sem samið var um [...]. júlí 2006. Á þessu hafi ekki orðið breyting fyrr en í febrúar 2011, en þá hafi slitnað upp úr sambandi aðila í kjölfar þess að varnaraðili hafi ranglega vænt sóknaraðila um framhjáhald. Í greinargerð varnaraðila er mótmælt fullyrðingu í stefnu um að aðilar hafi búið áfram saman sem hjón fram til ársins 2009. Sóknaraðili hafi flutt af heimilinu haustið 2006 en hafi verið viðloðandi allt fram til 2009. Á þeim tíma hafi hann þó aldrei tekið ábyrgð á rekstri heimilisins eða tekið þátt í uppeldi drengsins. Getgátur um reiði varnaraðila vegna framhjáhalds séu úr lausu lofti gripnar. 

Varnaraðili höfðaði mál á hendur sóknaraðila 15. nóvember 2012, málið númer E-1478/2012. Í þinghaldi [...]. mars 2013 tókst sátt um að varnaraðili færi með forsjá drengsins og um gagnkvæman umgengnisrétt sóknaraðila og drengsins. Samkvæmt sáttinni skyldu feðgarnir njóta samvista aðra hverja helgi frá föstudegi til sunnudags, sem komið yrði á í áföngum, auk þess sem sumarleyfi A og stórhátíðadögum var skipt á milli aðila.

Þann [...]. júní 2013 mætti varnaraðili til sýslumannsins í Hafnarfirði og lýsti því að fyrirkomulag á umgengni sem ákveðið hefði verið með dómssátt í fyrrnefndu forsjármáli aðila hentaði ekki drengnum að hennar mati. Hefði dvöl drengsins hjá föður haft greinileg áhrif á hann. Krafðist varnaraðili þess að sýslumaður úrskurðaði um fyrirkomulag umgengni að nýju og að byggt yrði á vilja og þörfum drengsins, en hann hefði talað um að hann vildi hitta föður sinn í 1 ½ klukkustund einu sinni í viku, en barnavernd hefði á sínum tíma lagt til 2 ½ klukkustund. Sóknaraðili mætti hjá sýslumanni [...]. september 2013 þar sem honum var kynnt afstaða varnaraðila. Sóknaraðili áréttaði kröfu um að varnaraðili léti af umgengnistálmunum sem hún hafi beitt frá [...]. maí 2013 að viðlögðum dagsektum. Jafnframt var þess krafist að sýslumaður úrskurðaði svo fljótt sem aðstæður leyfðu hvernig umgengi sóknaraðila og A skyldi hagað.

Með bréfum til aðila [...]. nóvember 2013 var tilkynnt að samkomulag hefði ekki tekist vegna ágreinings um umgengni. Þá liggur fyrir samkvæmt vottorði um sáttameðferð 31. október 2013 að sáttameðferð lauk 22. sama mánaðar án þess að sættir hafi tekist með aðilum. Þann [...]. mars 2014 gaf sýslumaður út annað vottorð um árangurslausar sáttatilraunir vegna sama ágreinings aðila. Í vottorðinu kemur fram sú afstaða sóknaraðila að hann vilji að varnaraðili fari eftir þeirri umgengni sem ákveðin hefði verið. Haft er eftir varnaraðila að hún telji að umgengni gangi ekki á meðan sóknaraðili „axlar ekki ábyrgð á hegðun sinni.“ Jafnframt kvaðst varnaraðili ekki vera að tálma umgengni.

Með bréfi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til sóknaraðila [...]. febrúar 2015 var tilkynnt að sáttameðferð samkvæmt barnalögðum hefði farið fram, en samningur um breytta skipan forsjár hefði ekki komist á og væri beiðninni vísað frá sýslumanni.

Í þinghaldi í málinu 19. júní síðastliðinn var bókað í þingbók að lögmenn aðila væru sammála um að dómari feli B sálfræðingi að ræða við A og kynni sér viðhorf hans til málsins, þar á meðal um umgengni í sumar sem verði með þeim hætti að feðgarnir dvelji saman hjá föðurforeldrum í [...] og skili um það skýrslu til dómara, sbr. 1. mgr. 43. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Skýrsla B sálfræðings, sem dagsett er 24. júní síðastliðinn, var lögð fram í málinu 26. sama mánaðar.

II

Við munnlegan flutning málsins um kröfu sóknaraðila um úrskurð um umgengni til bráðabirgða krafðist lögmaður sóknaraðila einnig úrskurðar um forsjá til bráðabirgða.

Hvað varðar ákvörðun umgengnisréttar til bráðabirgða kveður sóknaraðili brýnt að dómurinn úrskurði til bráðabirgða um gagnkvæman umgengnisrétt hans og sonarins A og um inntak þeirrar umgengni á meðan leyst er út forsjárágreiningi aðila, sbr. 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Um málsástæður að baki þeirri kröfu vísi sóknaraðili til sömu sjónarmiða og varðandi dómkröfur í forsjármálinu, en árétti sérstaklega eftirtalin atriði: Málsaðilar hafi annast umönnun og uppeldi sonar síns í sameiningu frá fæðingu hans [...] 2002 til febrúar 2011; varnaraðili hafi í kjölfarið tálmað umgengni A við föður í 18 mánuði, þrátt fyrir að hann lyti þá sameiginlegri forsjá foreldra sinna; varnaraðili hafi síðan rofið gildandi dómssátt án haldbærra skýringa og girt fyrir alla umgengni barnsins við föður frá maí 2013 og þannig farið gegn því sem barninu sé fyrir bestu; varnaraðili hafi með ótilhlýðilegum hætti raskað jafnræði aðila við úrlausn ágreinings þeirra um bestu hagsmuni sonarins og komið því til leiðar að staða hennar verði mun sterkari þegar komi að því að dómari og aðrir fagaðilar leggi mat á tengsl A við hvort foreldri um sig, hvort réttmætt sé að kveða aftur á um sameiginlega forsjá drengsins, og síðast en ekki síst hvert skuli vera inntak og fyrirkomulag gagnkvæmra samvista föður og sonar. Sé sóknaraðili þess sannfærður að hér búi að baki ómálefnaleg sjónarmið varnaraðila sem hafi ekkert að gera með hvað þjóni best hag og þörfum A. Sé skorað á dómara að stemma stigu við slíku framferði og kveða svo á um að drengurinn njóti eðlilegrar umgengni við föður þar til dómur gengur í forsjármálinu, en ella sé rík hætta á að A fái aldrei skorið úr um það með eðlilegum og sanngjörnum hætti hvað honum sé fyrir bestu.  

Við munnlegan flutning málsins kvaðst lögmaður sóknaraðila byggja á umsögn B sálfræðings sem væri stefnumarkandi skjal í málinu. Væri sóknaraðili tilbúinn til að lýsa því yfir að hann myndi hlíta öllum þeim ráðleggingum sem kæmi fram í umsögn B og væri það mat sóknaraðila að skýrslan sýni fram á nauðsyn þess að komið yrði á umgengni milli sóknaraðila og sonar hans. Minnt sé á að A hafi alist upp í hjónabandi og sambúð foreldra sinna fyrstu átta ár ævi sinnar.

Hvað varðar lagarök vísar sóknaraðili til V. kafla barnalaga nr. 76/2003, einkum 34. gr., 1. mgr. 35. gr. og 46. gr.

III

Varnaraðili kveðst mótmæla kröfu sóknaraðila um að dómurinn úrskurði um umgengni til bráðabirgða á meðan forsjármálið sé rekið. Sóknaraðili vísi til 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 um þá kröfu en það ákvæði segi til um heimild dómara til að kveða upp úrskurð um forsjá barns til bráðabirgða komi fram krafa þess efnis og að í sama úrskurði megi kveða á um umgengni og meðlag til bráðabirgða. Engin heimild í barnalögum standi til þess að kveða einvörðungu á um umgengni til bráðabirgða í úrskurði og því hafi krafa sóknaraðila enga lagastoð. Varnaraðili telji að dómara beri að vísa þeirri kröfu frá dómi. 

Við munnlegan flutning málsins mótmælti lögmaður varnaraðila því að tekið væri efnislega á kröfu sóknaraðila um umgengni til bráðabirgða. Í úrskurði um forsjá til bráðabirgða eða lögheimili sé á sama tíma heimilt að kveða á um umgengni og meðlag. Engin heimild eða skylda sé fyrir dómara í barnalögum, eða nokkrum öðrum lögum, til að dæma efnislega um þá kröfu sem sóknaraðili setji fram. Þá mótmælti varnaraðili því að umgengni komist á með úrskurði vegna afstöðu drengsins til umgengni. Ekkert nýtt hafi komið fram frá því sem fram komi í viðtalsskýrslum þeirra sem rætt hafi við drenginn á fyrri stigum, það er frá [...]. febrúar og [...]. október 2013. Sáttin sem aðilar hafi gert sé frá [...]. mars 2013. Í viðtali sem C sálfræðingur hafi tekið við drenginn lýsi hann því að honum finnist þetta erfitt og sé hann ásakandi í garð föður. Engu að síður hafi verið komist að niðurstöðu um að þrýsta á drenginn og umgengni ákveðin í sáttinni í þrepum eins og krafist sé. Í niðurstöðu B sé afstaða drengsins skýr, vanlíðan og vandi hans gríðarlega mikill. Eigi samt að úrskurða um það að hann eigi að fara í umgengni verði talin lagastoð fyrir kröfunni. Bent sé á að umgengni eigi að vera til hagsbóta fyrir barn og nýtast því. Þannig hafi það ekki verið í tilviki sóknaraðila og drengsins og því beri að hafna kröfu sóknaraðila um umgengni til bráðabirgða.

Lögmaður varnaraðila mótmælti kröfu sóknaraðila um að honum yrði fengin forsjá drengsins A til bráðabirgða.

IV

Sóknaraðili þingfesti forsjármál á hendur varnaraðila 29. apríl 2015. Í stefndu var þess meðal annars krafist að dómari úrskurðaði um umgengnisrétt sóknaraðila og sonarins A til bráðabirgða og um inntak þeirrar umgengni. Sætti þessi krafa sóknaraðila andmælum í greinargerð stefndu á þeim grundvelli að fyrir henni væri ekki viðhlítandi lagastoð. Við munnlegan flutning málsins um fyrrnefnda kröfu  krafðist sóknaraðili þess einnig að úrskurðað yrði um forsjá drengsins til bráðabirgða. Krafa sóknaraðila um forsjá til bráðabirgða var sett fram við andsvör lögmanns sóknaraðila við ræðu lögmanns varnaraðila og var krafan við svo búið bókuð í þingbók málsins. Lögmaður varnaraðila mótmælti því að unnt væri að koma fram með slíka kröfu í andsvörum.

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur dómari í máli um forsjá eða lögheimili barns heimild til að úrskurða til bráðabirgða að kröfu aðila hvernig fara skuli með forsjá þess eða lögheimili eftir því sem barni er fyrir bestu. Jafnframt getur dómari í slíkum úrskurði kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða.

Í athugsemdum við ákvæði 1. mgr. 35. gr. barnalaga í frumvarpi því sem varð að greindum barnalögum segir efnislega að dómari geti í sama úrskurði, þ.e. í úrskurði um forsjá eða lögheimili barns, einnig kveðið á um umgengni og meðlag til bráðabirgða. Segir í athugasemdunum að um rökin að baki þessu megi meðal annars vísa til þess að mikilvægt þyki að stuðla að því að barn geti notið umgengni við báða foreldra á meðan forsjármál sé til meðferðar, enda geti meðferð slíks máls tekið langan tíma. Brýnt sé að barni sé gert kleift að halda tengslum við báða foreldra sína meðan á meðferð máls standi, ekki síst vegna þess að tengsl barns og foreldris sé mikilvægur þáttur við mat á því hvað barni sé fyrir bestu við ákvörðun forsjár. Að fela dómara heimild til þess að ákveða umgengni til bráðabirgða samhliða forsjá sé fallið til að treysta tengsl barns við það foreldri sem það búi ekki hjá meðan mál sé til úrlausnar dómstóls. Ákvæðið geymir einungis heimild fyrir dómara til að kveða upp úrskurð til bráðabirgða, honum er það ekki skylt og getur því hafnað slíkri kröfu ef hann telur þá úrlausn vera barni fyrir bestu.

Krafa sóknaraðila um forsjá drengsins A til bráðabrigða kom ekki fram í þessum þætti málsins fyrr en við munnlegan flutning málsins um kröfu sama aðila um úrskurð um umgengni til bráðabirgða og það við andsvör lögmanns sóknaraðila. Þrátt fyrir að framsetning kröfunnar sé í meira lagi síðbúin þykir krafan sem slík ekki of seint fram komin, enda verður að horfa til þess að um er að ræða forsjárkröfu til bráðabirgða, sbr. 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003, sem sett var fram við meðferð á kröfu um umgengnisrétt sóknaraðila til bráðabirgða. Sú krafa kom fram í stefnu málsins. Þá er einnig horft til þess að  varnaraðila gafst svigrúm til þess að andmæla kröfunni og styðja þau andmæli þeim rökum sem varnaraðili taldi þurfa. Þykir krafan mega komast að í málinu. Krafan er hins vegar engum gögnum studd og getur því ekki komið til álita að taka hana til greina í þessum þætti málsins. Er kröfunni því hafnað eins nánar greinir í úrskurðarorði.

Sóknaraðili krefst einnig úrskurðar til bráðbirgða um umgengnisrétt hans og sonarins A og um inntak þeirrar umgengni. Byggir sóknaraðili einkum á því að  aðilar hafi annast umönnun og uppeldi sonar síns í sameiningu frá fæðingu hans til febrúar 2011. Varnaraðili hafi í kjölfarið tálmað umgengni A við sóknaraðila í 18 mánuði þrátt fyrir að drengurinn lyti þá sameiginlegri forsjá foreldra sinna. Þá hafi varnaraðili rofið gildandi dómsátt án haldbærra skýringa og girt fyrir alla umgengni drengsins við föður frá því í maí 2013. Varnaraðili hafnar þessum sónarmiðum sóknaraðila.

Fyrir liggur að dómsmáli aðila, það er málinu nr. E-1478/2012, lauk með dómsátt [...]. mars 2013. Með sáttinni fékk varnaraðili forsjá sonarins A. Var kveðið ítarlega á um gagnkvæmar samvistir sóknaraðila og drengsins, en ekki hefur þýðingu að rekja það fyrirkomulag í þessum úrskurði. Í sáttinni var þó sérstaklega tekið fram að aðilar væru sammála um það að reglubundin umgengni geti aukist eða breyst eftir því sem fram líða stundir „í samræmi við óskir A“ en halda skyldi þeim tímasetningum sem ákveðnar voru með sáttinni til loka ársins 2014 nema aðilar næðu samkomulagi um annað.

Ljóst er að það fyrirkomulag á umgengni sóknaraðila við A sem ákveðið var með sáttinni gekk ekki eftir og hefur sóknaraðili bent á að varnaraðili tálmi umgengni sóknaraðila við A og hafi gert um nokkra hríð, eða frá maí 2013. Varnaraðili hafnar þessu og bendir á að drengurinn hafi viðtölum við sérfræðinga lýst skýrum og afdráttarlausum vilja sínum til þess að hann vilji litla eða enga umgengni við sóknaraðila. Er þá átt við skýrslu C sálfræðings [...]. febrúar 2013 og D félagsráðgjafa [...]. október sama ár. Í skýrslu C segir að A, þá 10 ára, hafi haft takmarkaða umgengni við föður sinn síðustu ár. Hann sé mun tengdari móður sinni og systrum en föður sem hann vantreystir að einhverju leyti. Hafi A undanfarið verið tvær klukkustundir um helgi hjá föður og segist núna óska eftir að lengja þann tíma um hálftíma.

Í fyrrnefndri skýrslu B sálfræðings [...]. júní síðastliðinn segir meðal annars að A vilji alls ekki hitta sóknaraðila og gefi engin færi á umræðum um breytta afstöðu. Það álit, en þó sérstaklega líðan hans gefi tilefni til nokkurra vangaveltna. Er það mat B að líðan drengsins sé með þeim hætti að sérstakra úrræða sé þörf. Þá segir: „Ótti A við að hitta og umgangast föður sinn er meiri en svo að raunhæft geti verið. Drengnum líður illa sem er skiljanlegt í ljósi þess álags sem fylgir því að hafna foreldri sínu. Allt tal A og viðbrögð benda til að hann sé haldinn mjög miklum kvíða. Almenn kvíðaröskun eru hamlandi veikindi sem vaxa ef ekki er brugðist rétt við. Afleiðingarnar eru m.a. að viðkomandi einstaklingur tekst ekki eðlilega á við kröfur lífsins og þroski skerðist. Dæmi eru um að alvarlegur kvíði sem beinist að tilteknu atriði geti færst yfir á aðra þætti lífsins og geti gert einstakling óstarfhæfan.“

Þá segir B það vera skoðun sína að A þurfi nauðsynlega hjálp til að takast á við kvíða sinn hjá reyndum sálfræðingi þar sem hann fengi hugræna atferlismeðferð. Markmið meðferðarinnar væri að minnka kvíða og koma á umgengni við föður. Mikilvægt sé að móðir og móðurfjölskylda styðji A til að umgangast föður og nái að yfirvinna ótta sinn. Þurfi það að gerast í skrefum og æskilegt sé að stefna að því að í september hittist þeir feðgar í tvær klukkustundir aðra hverja helgi. Einnig að þeir feðgar eigi samskipti í gegnum tölvu og talist við í síma. Þá segir að æskilegt sé að samverustundirnar aukist í framhaldinu jafnt og þétt og verði á næsta ári sem næst því sem almennt tíðkist. Loks segir að æskilegt sé að hlutlaus aðili verði A til stuðnings að minnsta kosti til að byrja með.

Í 46. gr. barnalaga nr. 76/2003 segir að barn eigi rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Sú skylda hvílir á báðum foreldrum við skilnað eða slit á sambúð að grípa til þeirra ráðstafana sem við verður komið til að tryggja að þessi réttur barnsins verði virtur. Þá segir í 1. mgr. 47. gr. laganna að foreldrar geti samið um hvernig umgengnisrétti skuli skipað, enda fari sú skipan ekki í bága við hag og þarfir barnsins. Í 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir að það sem barni sé fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar dómstólar og stofnanir á vegum hins opinbera gera ráðstafanir sem börn varða.

Umgengni snýr að samvistum og samskiptum barns og foreldris sem barn býr ekki hjá óháð forsjánni. Erfitt kann að reynast að afmarka hvers konar umgengni sé barni fyrir bestu í hverju tilviki. Grundvallaratriði er að taka mið af þörfum barns fyrir góða umönnun, jákvæð tengsl, stöðugleika, öryggi, jákvæðan aga eða ramma og fyrirsjáanlega framtíð. Í niðurstöðum B segir, eins og áður er rakið, að drengurinn þurfi nauðsynlega hjálp til að takast á við kvíða. Einnig að mikilvægt sé að A fái aðstoð móður og fjölskyldu hennar til að umgangast sóknaraðila og yfirvinna ótta sinn. Skýrsla B sálfræðings verður ekki með nokkru móti skilin öðruvísi en svo að A búi við mikinn vanda og að brýnir hagsmunir drengsins standi til þess að umgengnisréttur sóknaraðila og sonarins verði ákveðinn til bráðabirgða á meðan forsjármál aðila verður rekið fyrir dóminum. Verður það gert með úrskuði þessum samkvæmt heimild í 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Með vísan til þess sem rakið er í margnefndri skýrslu B þykir ekki varhugavert, að gættum hagsmunum A og því sem honum er fyrir bestu, að kveða svo á um í úrskurði þessum að A og sóknaraðili njóti umgengni til bráðabirgða sem hefjist í september 2015, þannig að A dvelji hjá sóknaraðila annan hvern laugardag í tvær klukkustundir í senn, frá klukkan 16.00 til klukkan 18.00, í fyrsta skipti laugardaginn 5. september 2015. Þessi umgengni verði aukin í fjórar klukkustundir í senn, frá klukkan 14.00 til klukkan 18.00, frá og með 1. janúar næstkomandi, í fyrsta sinn 2. janúar 2016. Skal sóknaraðili sækja drenginn til varnaraðila við upphaf umgengnistímans og skila drengnum til varnaraðila við lok umgengni hverju sinni.

Aðilar hafa ekki gert kröfu um málskostnað í þessum þætti málsins.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu sóknaraðila, M, um að honum verði fengin forsjá drengsins A til bráðabirgða, er hafnað.

Sóknaraðili á rétt á því að fá drenginn A, kt. [...] til sín í tvær klukkustundir í senn annan hvern laugardag, frá klukkan 16.00 til klukkan 18.00, í fyrsta skipti laugardaginn 5. september 2015. Þessi umgengni verði aukin frá og með 1. janúar næstkomandi í fjórar klukkustundir í senn, frá klukkan 14.00 til klukkan 18.00, í fyrsta sinn 2. janúar 2016. Skal sóknaraðili sækja drenginn til varnaraðila, K, við upphaf umgengnistímans og skila drengnum til varnaraðila við lok umgengni hverju sinni.