Hæstiréttur íslands
Mál nr. 37/2006
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skaðabætur
- Áfrýjun
|
|
Fimmtudaginn 15. júní 2006. |
|
Nr. 37/2006. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn Þorleifi Magnúsi Magnússyni (Friðjón Örn Friðjónsson hrl.) |
Líkamsárás. Skaðabætur. Áfrýjun.
Þ var sakfelldur fyrir líkamsárás, með því að hafa á skemmtistað í Hafnarfirði skallað T í andlitið og sparkað auk þess í andlit hans. Í greinargerð til Hæstaréttar krafðist Þ sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins og endurskoðunar á viðurkenningu bótakröfu. Þessara krafna var hvorki getið í tilkynningu Þ um áfrýjun né í áfrýjunarstefnu. Voru þær því of seint fram komnar samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 og komu ekki til álita við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti. Þá var hrundið kröfum Þ um frávísun málsins frá héraðsdómi og um ómerkingu þess. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um tveggja mánaða skilorðsbundna fangelsisrefsingu Þ.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Hjördís Hákonardóttir.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 12. janúar 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar á sakfellingu ákærða og ákvörðun refsingar, en að ákærði verði dæmdur til að greiða Trausta Ágústssyni skaðabætur að fjárhæð 458.684 krónur með nánar tilgreindum vöxtum frá 22. janúar 2005 til greiðsludags.
Ákærði krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi eða að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað. Í greinargerð til Hæstaréttar krefst hann til vara sýknu en vægustu refsingar ella, og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi eða að henni verði hafnað.
Hvorki í tilkynningu ákærða um áfrýjun né í áfrýjunarstefnu var þess getið að ákærði krefðist sýknu af refsikröfu ákæruvaldsins samkvæmt b. lið 1. mgr. 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 7. gr. laga nr. 37/1994, og endurskoðunar á viðurkenningu bótakröfu. Kröfur þessar eru of seint fram komnar samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1994, og koma ekki til álita við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti.
Ákærði reisir frávísunarkröfu sína á því að rannsókn málsins hafi verið ábótavant að því er varði orsök meiðsla brotaþola og eðli þeirra. Af rannsóknargögnum er ljóst að lögregla yfirheyrði alla þá sem voru viðriðnir málið innan mánaðar frá atvikinu. Brotaþoli var fluttur af vettvangi á slysadeild og liggur fyrir áverkavottorð um komu hans þangað. Vitnin komu öll fyrir héraðsdóm, og einnig læknir sem annaðist brotaþola daginn eftir atburðinn. Að þessu virtu þykir rannsókn málsins ekki gefa tilefni til að málinu verði vísað frá héraðsdómi og er þeirri kröfu ákærða hafnað.
Krafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er reist á sömu rökum og frávísunarkrafan, og einnig á því að héraðsdómur hefði átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991. Ákvæðið felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Rakinn er í héraðsdómi framburður ákærða og vitna og tekin rökstudd afstaða til þeirra. Eins og sönnunargögnum í málinu er háttað verður ekki fallist á að tilefni hafi verið til að fjölskipa dóminn.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Þorleifur Magnús Magnússon, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 218.821 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Friðjóns Arnar Friðjónssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. desember 2005.
Mál þetta er höfðað með ákæru sýslumannsins í Hafnarfirði útgefinni 22. júní 2005 á hendur Þorleifi Magnúsi Magnússyni, kt. 270961-7549, Suðurhvammi 11, Hafnarfirði, „fyrir líkamsárás, með því að hafa [aðfaranótt] sunnudagsins 23. janúar 2005 um kl. 03:27 á skemmtistaðnum Áttunni, Trönuhrauni 10 í Hafnarfirði skallað A kt. [...] í andlitið og sparkað í andlit A þar sem hann lá í gólfinu, með þeim afleiðingum að A nefbrotnaði og hlaut bólgur á efri vör.“
Telst framangreind háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981.
Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þar er jafnframt getið bótakröfu sem A gerir á hendur ákærða. Krefst hann þess að ákærða verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 458.684 krónur „með vöxtum [samkvæmt] 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. janúar 2005 en síðan með dráttarvöxtum [samkvæmt] 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga“. Að auki er gerð krafa um greiðslu á kostnaði vegna aðstoðar lögmanns við að halda bótakröfunni fram fyrir dómi.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins og bótakröfu A.
I.
Lögreglan í Hafnarfirði var kvödd að knattborðsstofunni Áttunni við Trönuhraun 10 þar í bæ klukkan 03:27 aðfaranótt sunnudagsins 23. janúar 2005, en tilkynning hafði borist um að nokkrir menn hefðu ráðist á veitingamanninn á staðnum og gengið í skrokk á honum. Barst lögreglunni liðsauki frá ríkislögreglustjóra og lögreglunni í Kópavogi. Í frumskýrslu lögreglu segir að þegar lögreglan kom á vettvang hafi slagsmálin verið afstaðin. Inni á staðnum hafi verið átta einstaklingar og hafi allir karlmennirnir í hópnum, sex talsins, verið ölvaðir. Mjög óljósar upplýsingar hafi fengist frá fólkinu um málsatvik. Þó hafi verið ljóst að upptök átaka hafi verið þau að maður að nafni B hafi hent lyklum á biljarðborð þar sem þrír menn voru að spila. Á vettvangi hafi þessir þrír menn, það er Þorleifur Magnús Magnússon, ákærði í máli þessu, C og D, greint lögreglu frá því að þeir hafi verið að spila biljarð þegar einhver hafi hent lyklum á biljarðborðið. Hafi þeir tekið lyklana og hent þeim í burtu af borðinu. Stuttu síðar hafi eigandi staðarins, A, og annar maður, E, ráðist á þá og meðal annars slegið Þorleif í andlitið og vinstri hendi. Þá hafi C lamið E í fótinn. Á lögreglustöðinni síðar um nóttina hafi C einnig viðurkennt að hafa slegið A í andlitið. Fullyrtu þeir að A og E hefðu átt upptökin að átökunum. Segir í frumskýrslu að þremenningarnir hafi verið ölvaðir og illskiljanlegir.
Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir B að hann hafi hent lyklunum á biljarðborðið hjá Þorleifi, C og D og sagt við þá í gríni að hann legði lyklana undir. Því næst hafi B tekið lyklana, sett þá í vasa sinn og gengið að barnum. Eftir það hafi allt farið í háaloft og A og E farið að slást við Þorleif, C og D. Þá er haft eftir F, starfsmanni Áttunnar, að hún hafi ekki séð upptökin að slagsmálunum. Hún hafi séð A og C vera að rífast og hafi G, samstarfsmaður hennar, gengið á milli þeirra til að stöðva rifrildið. Þessu næst er bókað eftir F: „F sagðist hafa séð þegar Þorleifur skallaði A í andlitið og þá hefði allt orðið vitlaust“. Segir í lögregluskýrslu að F hafi ekki verið ölvuð. Hún hafi hins vegar verið skelkuð eftir slagsmálin. A hafi verið fluttur á slysadeild Landsspítalans í Fossvogi þar sem talað var að hann væri nefbrotinn. Ekki hafi reynst unnt að ræða við A áður en hann var fluttur á slysadeildina og ekki heldur G, sem hafi verið farin af vettvangi þegar átt hafi að ræða við hana. Þá hafi heldur ekki reynst unnt að ræða við E sökum ölvunar hans.
Í skýrslu sem tekin var af A hjá lögreglu 28. janúar 2005 kvaðst hann hafa setið við barinn á Áttunni og beðið eftir að unnusta hans, G starfsmaður Áttunnar, myndi ljúka vinnu. Hafi G og F, systir A, verið að reyna að loka staðnum og koma fólki út. Inni á staðnum hafi verið þrír menn að spila biljarð. Bar A að einhver leiðindi hafi komið upp á milli þessara þriggja manna og annarra manna sem þarna voru staddir. Upphafið að þeim hafi verið þegar einhver hafi hent lyklum á biljarðborðið sem þremenningarnir voru að spila við. Í kjölfarið hafi mennirnir byrjað að rífast. Kvaðst A, sem er eigandi Áttunnar, hafa séð í hvað stefndi. Hafi hann reynt að róa mennina niður og beðið þá um að yfirgefa staðinn. Er eftirfarandi bókað eftir A um það sem gerðist næst: „Segir A að þá hafi einn aðilinn skallað sig í andlitið. Hafi hann þá ítrekað við þessa aðila að fara út af staðnum ásamt því að róga (sic) sig niður. Segist A hafa verið næst var við að einhver skvettir úr bjórglasi í andlit hans. A segist ekki átta sig á því hvað hafi gerst eftir það en hann vaknar, líkleg (sic) úr roti, í hinum enda salarins þar sem átökin urðu og þá hafi unnusta hans setið yfir honum og haldið utan um höfuð hans. A segist vera nefbrotinn eftir árás þá er hann lenti í eftir að það hafi verið sparkað í andlit hans. A segist ekki vita eða þekkja þá aðila sem þarna voru í deilum né heldur þann aðila sem skallaði hann með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði“.
Ákærði Þorleifur Magnús Magnússon bar hjá lögreglu 7. febrúar 2005 að hann hefði verið að spila biljarð á Áttunni umrædda nótt ásamt bróður sínum, C, D og H. Að sögn ákærða hafi þrír aðilar komið að þeim og einn þeirra kastað stórri lyklakippu á biljarðborðið og sagt þeim að koma sér út af staðnum. Hafi C snúið sér að þessum aðilum og talað við þá. Komið hafi í ljós síðar að þeir hafi verið tengdir Áttunni, en það hafi ákærða og vinafólki hans ekki verið kunnugt um á þessum tíma. Komið hafi til orðahnippinga á milli C og þessara aðila og hafi þeir farið að ýta í C. Hafi D reynt að ganga á milli þeirra. Bar ákærði að honum hafi fundist þessir þrír aðilar vera mjög ógnandi í framkomu auk þess sem þeir hafi verið ölvaðir sem og ákærði og vinafólk hans. Þegar þarna var komið sögu hafi H yfirgefið staðinn. Hafi stimpingarnar hætt og ákærða, C og D verið boðið að spila annan biljarðleik í stað þess sem var spilltur fyrir þeim. Það hafi þeir ekki viljað og ákveðið að yfirgefa staðinn. Kvaðst ákærði hafa náð í yfirhöfn sína en þegar hann hafi snúið sér við hafi mikil slagsmál byrjað. Bar ákærði að C hefði síðar tjáð sér að hann hefði skvett úr bjórkönnu framan í einn af mönnunum þremur. Hafi ástæðan verið sú að C hafi verið á leið út og haldið á bjórkönnu er rifið hafi verið í hann og sagt að hann mætti ekki taka könnuna með sér út. Hafi C þá skvett úr könnuni í andlitið á viðkomandi. Um þá atburðarás sem fylgdi í kjölfarið er eftirfarandi bókað eftir ákærða: „Þorleifur segir að þá hafi verið kominn ungur strákur sem var að vinna á barnum og hafi hann verið á milli þessara þriggja sem komu að þeim og C (sic) og D. Þorleifi er sagt að um hafi verið að ræða stúlku og segist hann allan tímann hafa haldið að um ungan pilt hafi verið að ræða. Segir Þorleifur að hann hafi gengið að hópnum og hafi einn þessara þriggja haldið á biljarðkjuða í hendi reiðubúinn að berja einhvern með kjuðanum. Hann hafi tekið [í] yfirhöfn þess sem hélt á kjuðanum og hent honum frá til þess að koma C og D út af staðnum. Þessi aðili sem hélt á kjuðanum hafi þá slegið til hans en hann hafi getað sett hönd fyrir höfuð sér en höggið (sic) hafi verið beint að höfði hans. Sá sem veitti honum höggið hafi verið sá sem hann henti frá og sá hafi síðan komið aftan að honum með þeim ásetningi að berja hann í höfuðið með kjuðanum. Þorleifur segir að hann hafi reiðst þessu mjög og hafi hann snúið sér að þessum aðila sem reyndi að berja hann með kjuðanum, tekið eitt skref að honum og síðan skallað hann í andlitið.“ Að sögn ákærða hafi þessi aðili síðan hlaupið á brott og inn í herbergi og ákærði fylgt á eftir. Hafi ákærði komið að honum þar sem hann sat á gólfinu og stúlka sem starfaði á staðnum stumraði yfir honum. Hafi ákærði séð að maðurinn var nefbrotinn og hafi ákærði þá áttað sig á því að hlutirnir hafi gengið of langt. Kvaðst ákærði hafa beðið eftir að lögregla kæmi á vettvang. Aðspurður kvaðst ákærði einungis hafa séð einn aðila með biljarðkjuða. Hafi það verið sá sem slegið hafi til hans. Kvaðst ákærði hafa verið aumur í vinstra kinnbeini eftir að hafa fengið brot úr kjuðanum í andlitið. Hafi lögregla ekið honum á slysadeild.
E gaf skýrslu hjá lögreglu 8. febrúar 2005. Kvaðst hann hafa verið á Áttunni umrædda nótt í fylgd bróður síns B og fleiri aðila. Hafi þeir allir verið að drekka áfengi og spjalla saman. Félagar þeirra bræðra hafi síðan yfirgefið staðinn en þeir orðið eftir. Er þeir bræður voru á leið út af staðnum hafi B hent eða lagt lykla á eitt borðið þar sem menn voru að spila biljarð. Kvaðst E á þessum tímapunkti hafa verið nokkuð ölvaður og ekki muna nákvæmlega eftir því sem gerðist. Kvaðst hann þó muna eftir því að í kjölfarið hafi allt orðið vitlaust á staðnum. Hafi E meðal annars verið sleginn með biljarðkjuða í vinstri fótlegg. Sá sem slegið hafi hann hafi einnig slegið eiganda staðarins í andlitið. Þetta hafi E þó ekki séð með berum augum en kvaðst þó telja að atvik hafi verið með þessum hætti í ljósi þess að næst hafi hann séð hvar eigandinn, A, lá liggjandi á gólfinu, alblóðugur í framan. Sá sem barði E hafi þá haldið á brotnum biljarðkjuða. Lýsti E þeim manni sem ljóshærðum með gleraugu, um það bil 178 sm á hæð og á milli 30-40 ára. Kvaðst E ekki treysta sér til að segja til um hver hafi átt upptökin að þessum látum. Hugsanlega hafi það verið A en það hafi þó ekki réttlætt þær barsmíðar sem hann varð fyrir.
Í skýrslu B hjá lögreglu 8. febrúar 2005 kom fram að hann hafi verið á Áttunni ásamt bróður sínum, E, og félögum þeirra. Félagarnir hafi þó yfirgefið staðinn á undan þeim bræðrum. Kvaðst B hafa gengið framhjá biljarðborði þar sem þrír menn voru að spila. Hafi hann tekið upp lykla og lagt þá á borðið hjá mönnunum. Í gríni hafi hann sagt við þá að sá sem myndi vinna fengi að eiga lyklana. Að því loknu hafi hann tekið lyklana af borðinu og gengið að barnum. Bar B að engin leiðindi hafi orðið af hálfu mannanna yfir þessu uppátæki hans. Er hann hafi verið kominn að barnum hafi A gengið að biljarðborðinu og beðið mennina um að yfirgefa staðinn þar sem klukkan væri orðin þrjú. Hafi mennirnir sagst vera nýbúnir að kaupa bjór. A hafi þá sagt þeim að klára bjórinn og fara svo. Það næsta sem B hafi séð hafi verið þegar A gekk að barborðinu, en þá hafi blætt úr nefi hans. Hafi B þá verið ljóst að A var nefbrotinn. Kvaðst B ekki hafa séð með hvaða hætti A nefbrotnaði en bar að tveir af mönnunum þremur hafi verið með mestu lætin. Lýsti B öðrum þeirra sem grönnum með ljósleitt hár og hermannaklippingu. Hann hafi verið í svörtum leðurjakka og um 30 ára. Hinum lýsti B sem 30 ára, þybbnum, með dökkt, mikið hár og gleraugu. Kvaðst B ekki hafa slegið neinn á staðnum og ekki hafa orðið fyrir höggi. Það eina sem hann hafi gert hafi verið að ganga á milli mannanna og A til að biðja þá um að róa sig niður. Kvaðst B hafa verið nokkuð ölvaður í umrætt sinn. Þá hafi A sömuleiðis verið nokkuð ölvaður.
D kvaðst í skýrslu sinni hjá lögreglu 4. febrúar 2005 hafa verið umrætt sinn á Áttunni ásamt ákærða, C og H. Hafi þau fengið sér bjór og spilað biljarð. Inni á staðnum hafi verið sex til átta manns. Ekki hafi verið gott að átta sig á því hverjir voru starfsmenn og hverjir gestir þar sem allir virtust undir áhrifum. Fljótlega eftir að þau byrjuðu að spila hafi einhver kastað lyklakippu á biljarðborðið. Í framhaldi af því hafi mikill æsingur myndast og einhverjar ýtingar á milli manna. Það leystist þó með því að einn þeirra sem hlut átti að máli baðst afsökunar og var þeim boðið að leika áfram sem þeir þáðu ekki. Að sögn D líkaði honum ekki andrúmsloftið inni á staðnum og kvaðst sannfærður um að þessir menn hafi verið að neyta fíkniefna auk áfengis. Hafi C ætlað að taka bjórglas með sér út en verið skipað að skilja það eftir. Viðbrögð C hafi verið þau að skvetta úr glasinu í átt að mönnunum. Mennirnir hafi brugðist mjög heiftarlega við og hlaupið að þeim félögum með biljarðkjuða á lofti. Kvaðst D hafa séð er ákærði var barinn með kjuða í andlitið og í líkamann. Höggið hafi verið það fast að kjuðinn brotnaði. Hafi ákærði svarað fyrir sig með því að skalla þann sem barði hann í andlitið. Kvaðst D hafa upplifað ástandið þannig að þeir félagar hafi orðið að verja sig fyrir hatrammri árás. Hafi átökin hætt þegar sá sem var skallaður lá blóðugur á gólfinu. Kvaðst D ekki hafa slegið frá sér og ekki hafa orðið fyrir höggum. Ásetningur hans hafi verið að ganga á milli og stöðva slagsmálin.
C bar hjá lögreglu 16. febrúar 2005 að hann hafi verið á knattborðsstofunni Áttunni umrædda nótt ásamt ákærða, D og H. Hún hafi þó ekki staldrað lengi við. Hafi þeir C, D og ákærði verið að spila biljarð. Komið hafi verið að lokun staðarins. Hafi komið að þeim maður, líklega eigandi Áttunnar, og byrjað að ónáða þá. Að sögn C hafi maðurinn á tímabili ætlað að ganga í skrokk á honum vegna einhvers ósættis sem C kvaðst ekki átta sig á. Ákærði og D hafi varnað því að maðurinn kæmist að C. Hafi maður þessi verið með nokkuð sítt, dökkt hár og talsvert ölvaður. Upp úr þessu hafi þeir C, ákærði og D ákveðið að yfirgefa staðinn. Kvaðst C hafa verið nýbúinn að kaupa sér bjór og ætlaði að taka hann með sér út af staðnum. Hafi þá þessi sami maður, eigandinn, komið aftan að honum, gripið í hann og sagt að hann mætti ekki taka bjórinn með sér út. C hafi þá sagt manninum að hirða glasið og sveiflaði því í áttina að honum. Við það hafi bjór sullast upp úr glasinu. Ástæðan fyrir þessum viðbrögðum hafi verið pirringur yfir háttsemi þessa manns í garð C við biljarðborðið. Eftir þetta hafi allt farið í háaloft. Að sögn C réðst á hann ungur drengur með biljarðkjuða og sló hann með þeim afleiðingum að C rifbeinsbrotnaði. Við höggið hafi C hnigið niður og því ekki séð þá atburðarrás sem fylgdi í kjölfarið.
Svo sem fram er komið starfaði F á knattborðsstofunni Áttunni umrædda nótt. Í skýrslu hjá lögreglu 7. febrúar 2005 skýrði F svo frá að hún og G hafi verið á vakt. Dyraverðirnir hafi verið farnir heim og komið að lokun staðarins. Inni á staðnum hafi verið þrír menn og ein kona að spila biljarð. Einn mannanna heiti D, en konan sé kölluð H. Þar hafi einnig verið tveir aðrir menn, B og E, auk A eiganda Áttunnar og bróður F. Bar F að er hún hafi komið fram úr eldhúsinu eitt skiptið hafi hún séð stimpingar milli A og D við eitt biljarðborðið. Hafi hún og G farið til þeirra og reynt að róa þá niður. Upptökin hafi verið þau að lyklum hafi verið hent á biljarðborðið hjá ákærða og vinafólki hans. Mikill æsingur hafi verið í fólkinu og hafi F boðið þeim að taka annan leik í stað þess sem var eyðilagður fyrir þeim. Að öðrum kosti yrðu þau að yfirgefa staðinn. Hafi fólkið verið mun ölvaðra en hún hafði talið í fyrstu. Ákveðið hafi verið að kveikja ljósin á staðnum og vísa öllum gestunum út. Fólkið hafi hins vegar ekki orðið við því. Þessu næst er eftirfarandi bókað eftir F: „Þegar að A var að reyna að koma fólkinu út hafi D staðið fyrir framan A en G á milli þeirra. Þá hafi hún séð þegar maður sá sem var með D hafi komið til hliðar við þá og skallað A í andlitið. F segir að þessi maður hafi verið dökkhærður um það bil 35 ára með millisítt hár. D sé með gleraugu um það bil 45 ára og sá þriðji sem var með þeim sé sköllóttur með gleraugu og um það bil 45 ára. Sá hafi verið með kjuða í hendinni og hafi hún séð þann sköllótta meðal annars berja annað hvort B eða E en hún þekki þá, E og B, ekki í sundur. Sá sköllótti hafi barið þann yngri með kjuðanum.“ Hafi A reiðst þeim sem skallaði hann í andlitið en ekki ráðist á hann. Þessi sami maður hafi hins vegar tekið bjórkönnu og skvett úr henni framan í A, sem þá hafi ráðist á manninn. Um framhaldið er eftirfarandi bókað eftir F: „F segir að mikill æsingur hafi verið orðinn þarna inni og hafi hún svo tekið eftir því að A bróðir hennar hafi komið rennandi eftir gólfinu og lent undir einu borði og hafi stólar henst frá honum þegar hann rann undir borðið. Hún viti hins vegar ekki hvers vegna hann kom rennandi eftir gólfinu. Segir F að þar sem að bróðir hennar lá þarna liggjandi á gólfinu hafi sá sem skallaði A og skvetti á hann bjórnum, staðið við höfuð A þar sem hann lá liggjandi á gólfinu og hafi hann sparkað í höfuð A. Sá sköllótti hafi hins vegar staðið við fætur A og barið hann með kjuðanum í líkamann“. Að sögn F hafi G reynt að stöðva árásina en mátt sín lítils gegn tveimur fullorðnum karlmönnum. Mennirnir tveir hafi svo hætt að berja A þegar þeir hafi séð að hann var alblóðugur í framan.
G starfaði á Áttunni umrætt kvöld eins og komið hefur fram. Í skýrslu sem hún gaf hjá lögreglu þann 7. febrúar 2005 bar hún að A, kærasti hennar og eigandi Áttunnar, hafi verið að bíða eftir að hún myndi ljúka vaktinni. Að sögn G var A undir áhrifum áfengis. Hafi rifrildi byrjað milli gesta sem voru að spila biljarð. Kvaðst G ekki vita hver upptökin hafi verið. A hafi í framhaldinu reynt að vísa gestunum út. Er eftirfarandi bókað eftir G um það sem gerðist í kjölfarið: „Kveðst mætta hafa staðið við hliðina á A og reyndi að segja mönnunum að það væri búið að loka. Þá gerðist það skyndilega að hávaxinn, dökkhærður maður, sem var einn af gestunum sem var verið að reyna að vísa út, skallaði A í andlitið“. Hafi A orðið æstur við höggið en G náð að róa hann niður. Hafi hún reynt að koma mönnunum út en þá hafi einn þeirra otað að henni biljarðkjuða. Meðan á þessu stóð hafi A verið í átökum við dökkhærða manninn. Kvaðst G ekki hafa séð nákvæmlega hvað gerðist en skyndilega hafi A skollið í gólfið. Áður hafði hún séð þennan sama mann ota biljarðkjuða í andlitið á A. Hafi G hugað að A og séð að hann var með sár milli augnanna. Sárið hafi greinilega verið eftir kjuðann þar sem flísar hafa verið í sárinu. Þessu næst er eftirfarandi bókað eftir F: „Þar sem mætta kraup við hliðina á A, þá sá hún hvar dökkhærði maðurinn kom á hlaupum og sparkaði af miklu afli í andlitið á A og er mætta sannfærð um að hann hafi nefbrotnað við sparkið“. Aðspurð kvaðst G ekki hafa orðið vör við það að A hafi slegið mann í andlitið með kjuða og í framhaldi af því hafi hann verið skallaður. Kvaðst hún aldrei hafa séð A með kjuða í höndunum. Að sögn G hafi átökin hætt eftir að sparkað hafði verið í andlitið á A. Hafi lögreglan þá komið á vettvang.
Í vottorði Birgis Briem deildarlæknis á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala í Fossvogi 8. febrúar 2005 segir að við komu á deildina hina umræddu nótt hafi A greinilega verið nefbrotinn. Þá hafi efri vör vinstra megin verið ríkulega bólgin. Hafi hann verið útskrifaður með þeim ráðleggingum að leita aftur á deildina til nefréttingar þegar mesta bólgan hefði hjaðnað. Þessu næst segir svo í vottorðinu: „ Leitaði aftur á slysadeild 24. jan. og hitti þá Hlyn Þorsteinsson sérfræðing. Við skoðun hans sást bólga yfir kinnbeini vinstra megin og yfir nefi. Nef var augljóslega brotið. Hafði auk þess smáskurð á nefi. Eymsli voru yfir andlitsbeinum vinstra megin í andliti. Eymsli í tönnum í efri góm og fannst óþægilegt að bíta saman. Neitaði tvísýni. Fór í röntgenmynd af andlitsbeinum sem sýndi brot í nefbeini en ekki aðra áverka.“
II.
Fyrir dómi bar ákærði að umrætt kvöld hefði hann og vinafólk hans verið að spila biljarð á Áttunni. Hafi hann verið undir áhrifum áfengis en kvaðst þó muna þokkalega eftir atvikum. Einhverjir menn hafi komið aftan að ákærða og hent lyklum á borðið. Hefðu C og D rætt við mennina og hafi C verið mjög æstur. Komið hafi til einhverra ýfinga á milli þeirra. Hafi Kolbrún yfirgefið staðinn þar sem henni hafi ekki litist á blikuna. Að sögn ákærða hafi þetta síðan róast niður og þeim verið boðið að halda áfram með leikinn. Þeir hafi hins vegar ákveðið að fara út og hafi ákærði náð í jakkann sinn. Er hann hafi snúið sér við hafi slagsmál verið hafin og mikil læti verið í gangi. Hafi C tjáð ákærða að hann hefði skvett bjór framan í þann sem rak staðinn. Þrír menn hafi verið í átökum við C og hafi D reynt að skilja þá í sundur. Kvaðst ákærði hafa gengið aftan að þeim sem hafði verið að rífa í C, tekið í axlirnar á honum og ýtt honum frá. Ákærði hafi síðan gengið í burtu en þá hafi hann verið sleginn í höfuðið aftan frá með biljarðkjuða. Hann kvaðst þó hafa náð að bera fyrir sig hendina. Að sögn ákærða hafi hann vankast í smá stund. Kvaðst ákærði ekki hafa séð hver sló hann. Taldi hann þó víst að það hefði verið A þar sem hann stóð beint fyrir aftan ákærða þegar ákærði sneri sér við. Um leið og ákærði snéri sér við hafi þeir skollið saman með höfuðin. Kvaðst ákærði hafa rekist á A í ógáti. Þeir hafi síðan tekist á í kjölfarið. Hafi A náð að rífa sig lausan og hlaupið í burtu. Hafi hann rutt stólum og borðum frá sér en síðan skollið í gólfið og lent undir borði. Lýsti ákærði þessu svo að A hafi farið eins og ísbrjótur í gegnum stólahrúgu. Kvaðst ákærði hafa hlaupið að A og skammað hann fyrir að hafa slegið sig. Hafi hann þá séð að A var albóðugur í framan. Ekki hafi verið um frekari átök að ræða. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa sparkað í A. Að sögn ákærða hafi A ekki verið blóðugur er þeir tókust á. Þá kannaðist hann ekki við að hafa skvett bjór á A.
Í
skýrslu sinni fyrir dómi bar A að hann hefði verið að bíða eftir að kærasta
hans myndi ljúka vaktinni. Kvaðst hann hafa verið undir áhrifum áfengis en þó
muna atburðarrásina þokkalega. Klukkan hafi verið rúmlega þrjú og búið að loka
staðnum. Þrír menn hafi verið að spila biljarð og hafi þeir ekki viljað fara
út. Hafi A og kærasta hans beðið þá um að fara. Kvaðst A hafa sagt eitthvað við
þá sem hann hefði betur látið ósagt. Skyndilega hafi bjór verið skvett framan í
hann og hann síðan skallaður í andlitið. Hann hafi þó náð að standa höggið af
sér. Eftir þetta hafi átök byrjað. Hafi A verið hrint í gólfið og hann lent
undir borði. Hann hafi ekki lent á borðinu eða skollið utan í það. Einn
þremenninganna hafi þá komið og sparkað í andlit hans. Kvaðst hann hafa
nefbrotnað við sparkið. Mótmælti A því sem eftir honum er haft í
lögregluskýrslu að hann hafi nefbrotnað þegar hann var skallaður. Kvaðst A ekki
vita hver hefði skvett bjórnum framan í hann og skallað hann. Þá kvaðst hann
ekki vita hver hefði sparkað í hann og treysti sér ekki til að segja til um það
hvort sá aðili hefði einnig skallað hann eða skvett bjórnum framan í hann.
Aðspurður kvaðst hann ekki hafa slegið mann með biljarðkjuða þetta kvöld.
Vitnið E kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi hafi verið staddur á Áttunni umrætt kvöld ásamt bróður sínum B. Hafi hann verið undir áhrifum áfengis. Hafi þeir bræður verið á leiðinni út þar sem verið var að loka staðnum. Inni á staðnum voru menn að spila biljarð og hafi þeir bræður spjallað við þá. Að sögn E var B með fíflalæti og setti lyklana sína á biljarðborðið. Hafi mönnunum líkað það illa. Einn þeirra hefði ráðist á þá með biljarðkjuða og slegið E í löppina. Hafi maðurinn reynt að slá E í andlitið en misst marks. Lýsti A manninum sem litlum, ljóshærðum með gleraugu. Hafi átökin hætt er lögreglan kom á vettvang. Kvaðst E hafa séð A liggja á gólfinu alblóðugan. Ekki kvaðst hann þó hafa séð aðdraganda þess. Hann dragi þó þær ályktanir af aðstæðum þarna að sá sem slegið hafi hann í löppina sé sá sami og valdið hafi áverkum A.
Vitnið B bar fyrir dómi að hann hefði látið lykla sem hann var með á biljarðborð þar sem nokkrir menn voru að spila biljarð. Hann hafi síðan tekið lyklana strax upp aftur og labbað að barnum. Hafi verið komið að lokun og eigandi staðarins verið að biðja þá sem voru að spila um að fara út. Þeir hafi hins vegar orðið ósáttir við það. Kvaðst B hafa verið við barinn og beðið eftir bróður sínum. Kvaðst hann ekki hafa séð hvað gerðist í millitíðinni en hafi þó tekið eftir einherjum látum. Næsta sem hann hafi séð hafi verið þegar eigandinn gekk að barnum. Hafi hann verið albóðugur í framan og greinilega nefbrotinn. Kvaðst B hafa séð einn af mönnunum sem voru að spila biljarð sveiflandi biljarðkjuða. Lýsti B honum sem meðalmanni að hæð, þrekvöxnum og með hermannaklippingu. Hann hafi verið klæddur í leðurjakka og gallabuxur. Kvaðst B ekki hafa séð manninn beinlínis slá einhvern en eigandi staðarins hafi bent á hann og sagt að hann hefði ráðist á sig.
Vitnið D bar fyrir dómi að hann hefði verið að spila biljarð á Áttunni með ákærða, C og Kolbrúnu. Inni á staðnum hafi verið mjög ölvaðir menn. Þessir menn hafi komið þeim einkennilega fyrir sjónir og taldi D þá einnig hafa verið undir áhrifum annara vímugjafa. Er þau voru búin að leika í stutta stund hafi lyklum verið hent á biljarðborðið þeirra. Hafi einn af þessum mönnum komið til þeirra. Hafi hann verið mjög ölvaður og upptrekktur. Að sögn D hafi hann byrjað að ýta C til. Í fyrstu hafi þau ekki vitað hver hann var. Hann hafi hins vegar sagst vera eigandi staðarins og sagst þeim að koma sér út. C hafi hins vegar ýtt manninum frá sér. Þá hafi komið að þeim aðrir menn sem höfðu verið að kalla á þau og ónáða. Bar D að þeim hafi staðið stuggur af þessum mönnum sem voru mjög ölvaðir. Upp frá þessu hófust stimpingar og pústrar milli hópanna. Menn hafi verið hávaðasamir. Hafi þetta róast niður og kom stúlka til þeirra og bauð þeim að klára leikinn en fara síðan út. Hafi D sagt við félaga sína að hann vildi fara strax út. Hann væri logandi hræddur og liði illa þarna inni. Þeir hafi verið á leiðinni út og hafi C ætlað að taka mér sér bjór sem hann var nýbúinn að kaupa. Hafi mennirnir þá kallað þá félaga öllum illum nöfnum og sögðu þeim að skilja bjórinn eftir. Hafi C orðið mjög æstur og skvetti úr bjórnum í áttina að mönnunum. Mennirnir hafi þá komið hlaupandi að þeim með biljarðkjuða á lofti. Slógu þeir C í brjóstið og brotnaði kjuðinn við höggið. Þá hafi þeir einnig slegið ákærða í höfuðið, en hann hafi þó náð að bera fyrir sig höndina. Ekki hafi verið um sama manninn að ræða. Hafi ákærði snúið sér við að manninum, en rak þá höfuð sitt í höfuð mannsins. Hvort hann hafi beinlínis skallað hann kvaðst D ekki geta sagt til um. Eftir þetta hafi stjórnlaus slagsmál brotist út. Kvaðst D hafa verið mjög hræddur og hafi hann óttast um líf sitt þarna inni. Slagsmálin hafi síðan róast niður fyrir rest og lögreglan komið á vettvang.
Vitnið C bar fyrir dómi að hann hefði verið að spila biljarð á Áttunni umrætt kvöld ásamt vinafólki sínu. Hafi einhver kastað lyklum á borðið þegar þau voru í miðjum leik. Komið hafi til ryskinga og þeir félagar ákveðið að yfirgefa staðinn. Kvaðst C hafa verið með bjór sem hann var nýbúinn að kaupa. Hafi hann ætlað að taka með sér bjórinn út en þá verið stöðvaður af ungum manni, með dökkt, sítt hár og þremur öðrum mönnum. Síðar hafi hann frétt að ungi maðurinn var eigandi að staðnum. Kvaðst C ekki hafa verið á þeim buxunum að skilja bjórinn eftir og vildi fá glas til að umhella bjórnum í. Það hafi eigandinn ekki viljað. Að sögn C sem var undir áhrifum áfengis hafi hann orðið pirraður út í mennina og skvetti bjór í áttina að þeim. Þá hafi komið til slagsmála þar sem biljarðkjuðar voru notaðir. Hafi ungur, þybbinn maður slegið C með kjuða og hafi kjuðinn brotnað í tvennt við höggið. Kvaðst C hafa náð öðrum helmingi kjuðans. Þá kvaðst C hafa séð er ákærði, bróðir hans, var sleginn með kjuða í andlitið. Hann hafi þó náð að bera fyrir sig hendina. Kvaðst C þó ekki hafa séð hver hafi verið þar að verki. Aðspurður kvað C ákærða ekki hafa ráðist á þann sem hafði slegið hann með kjuðanum. Átökin inni staðnum hafi staðið í um það bil 5-10 mínútur. Stúlka á barnum hefði hringt á lögregluna sem kom á vettvang stuttu síðar. Kvaðst C aðspurður hafa lent í einhverjum smá ryskingum við eigandann, sem haft hafi sig mikið í frammi. Hann kunni þó enga skýringu á því hvernig eigandinn nefbrotnaði og sá hann ekki liggja blóðugan á gólfinu.
Vitnið F starfaði svo sem fram er komið á knattborðsstofunni Áttunni hina umræddu nótt. Í vitnisburði hennar fyrir dómi kom fram að komið hafi verið að lokun staðarins. Inni á staðnum, auk hennar, G og A, hafi verið tveir strákar og þrír karlmenn og ein kona. Hafi F komið fram úr eldhúsinu og þá séð að einhverjar stimpingar voru í gangi. Hún og G hafi reynt að róa fólkið niður og beðið það um að fara út. Átökin hafi magnast. Hafi maður skvett úr bjórglasi yfir A. Kvaðst F þá hafa hringt á lögregluna. Mikil slagsmál hafi byrjað og hafi hún séð mann með biljarðkjuða á lofti. Hafi hún síðan séð A „fljúga bara yfir gólfið“ og inn á milli stóla og lenda undir borði. Stólar hafi flogið um allt. Þessu næst hafi maður komið að A og lamið hann með stól og sparkað í hann. Þegar A stóð upp hafi nefið á honum verið stokkbólgið. Kvaðst hún ekki hafa séð A með biljarðkjuða í átökunum. Að öðru leyti gat hún lítið greint sjálfstætt frá atvikum á vettvangi umrætt sinn. Kvaðst hún ekki muna betur eftir atburðarásinni þar sem langt sé um liðið frá því atvik áttu sér stað. Hún kvaðst þó staðfesta framburð sinn hjá lögreglu þar sem hún bar að A hefði verið skallaður og að stuttu síðar hefði verið sparkað í andlit hans. Hafi sami maður verið að verki í bæði skiptin. Hún gat þó ekki borið kennsl á þann mann að öðru leyti en því að hana minnti að hann hafi verið unglegri en ákærði.
Vitnið G starfaði auk F hina umræddu nótt á Áttunni eins og fram hefur komið. Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins 24. nóvember 2005 bar G að hún hefði verið stödd fyrir innan barinn þegar átökin byrjuðu. Upptökin hafi verið þau að tveir strákar hentu lyklum á borðið hjá fólki sem var að spila biljarð. Einhverjar stimpingar hafi þá byrjað milli hópanna. Hafi G og F beðið fólkið um að fara þar sem búið var að loka staðnum. Fólkið hafi hins vegar ekki orðið því. Hafi A unnusti hennar þá beðið fólkið um að yfirgefa staðinn. Að sögn G hefði ákærði þá skvett bjór framan í A og síðan skallað hann í andlitið. Upp frá því hafi átök hafist. Bar G að það næsta sem hún hafi séð hafi verið þegar ákærði „skutlaði“ eða fleygði A eftir gólfinu. Hafi A lent undir borði og stólar sem verið hafi undir borðinu farið í allar áttir. Hafi hún farið til hans og séð að hann var hálf rotaður. Kvaðst hún hafa litið upp og þá séð ákærða taka tilhlaup og sparka í andlitið á A. Hafi A nefbrotnað við sparkið. Aðspurð kvaðst G ekki hafa séð A með biljarðkjuða í átökum um nóttina. Hann hafi hins vegar verið með flísar úr biljarðkjuða milli augnanna. Kvaðst hún ekki hafa verið undir áhrifum áfengis þegar atburðirnir áttu sér stað.
G kom að
nýju fyrir dóminn 16. desember sl. Var hún þá sérstaklega innt eftir því hvort
rétt væri að einn og sami maðurinn hafi allt í senn skvett bjór framan í A,
skallað hann í andlitið og sparkað í andlit hans. Kvaðst hún vera sannfærð um
að það hafi verið sami maðurinn sem skallaði A og sparkaði í andlit hans. Hún
treysti sér hins vegar ekki til að staðhæfa að þessi sami maður hafi líka
skvett bjórnum.
III.
Fram er komið í málinu að til átaka kom á knattborðsstofunni Áttunni aðfaranótt sunnudagsins 23. janúar 2005. Að þeim loknum var A, sem á þessum tíma rak staðinn, nefbrotinn. Er sá áverki staðfestur með framlögðu vottorði læknis á slysadeild Landspítalans í Reykjavík, en þangað leitaði A um nóttina. Þá var efri vör hans bólgin. Hefur A borið á þann veg fyrir dómi að hann hafi nefbrotnað þegar sparkað hafi verið andlit hans. Áður hafi hann verið skallaður í andlitið. Hann viti ekki hver það var sem þarna var að verki.
Svo virðist sem tvær fylkingar hafi myndast inni á staðnum. Upphófust deilur á milli þeirra sem leiddu til ryskinga og síðan slagsmála. Í annarri fylkingunni voru ákærði, C og D, en í hinni þeir A, E og B. Þeir voru allir undir áhrifum áfengis. Auk þeirra voru inni á staðnum þær F og G sem virðast hafa staðið álengdar og ekki blandað sér með beinum hætti í átökin.
Ákærði neitar sök í málinu. Bar hann fyrir dómi að hann hafi verið að spila biljarð á Áttunni í umrætt sinn ásamt þeim C og D. Komið hafi til ryskinga milli þeirra og nokkurra manna eftir að einn þeirra kastaði lyklakippu á biljarðborðið hjá þeim félögum. Hefðu menn síðan róast og þeim félögum verið boðið að halda áfram með leikinn. Það hafi þeir ekki kært sig um og ákveðið að yfirgefa staðinn. Á leiðinni út hafi C skvett úr bjórglasi á einn mannanna. Þá hefði allt farið í háaloft og mikil slagsmál blossað upp. Kvaðst ákærði hafa verið sleginn með biljarðkjuða í andlitið í átökunum. Líklega hafi A verið þar að verki. Vitnisburður þeirra C og D hnígur mjög í sömu átt. Báru þeir fyrir dómi að mennirnir sem réðust á þá hefðu verið mjög ógnandi og að þeim félögum hefði staðið af stuggur af þeim. Kváðust þeir báðir hafi orðið vitni af því þegar ákærði var sleginn í andlitið með biljarðkjuða. Hvorugur þeirra kannaðist hins vegar við að hafa nefbrotið A og kunnu þeir enga skýringu á því hvernig hann hlaut þann áverka.
Eins og áður sagði hefur ákærði fyrir dómi neitað því að hafa skallað A í andlitið af ásetningi. Skýrði ákærði svo frá að þá er A hafi slegið hann með biljarðkjuðanum í andlitið hafi hann snúið sér við en þá rekið höfuð sitt af ógáti í andlit A. Af skýrslu ákærða hjá lögreglu verður hins vegar ekki annað ráðið en að hér hafi verið um ásetningsverk að ræða. Er þar bókað eftir ákærða að hann hafi tekið eitt skref í átt að manni, sem hafi skömmu áður lamið hann með biljarðkjuða, og skallað hann í andlitið. Þá hefur ákærði neitað því að hafa sparkað í andlit A. Telur ákærði að A hafi nefbrotnað þegar hann skall í gólfið og lenti á stólum eða borði eftir að hafa átt í átökum við ákærða.
Vitnið G bar hjá lögreglu og fyrir dómi að mennirnir þrír, sem höfðu verið að spila biljarð, hefðu ekki viljað yfirgefa staðinn við lokun eins og þeir höfðu verið beðnir um. Hafi A komið henni til aðstoðar og beðið mennina um að fara. Einhver þeirra hafi þá skvett bjór framan í A. Þá hafi ákærði skallað hann í andlitið. Mikil slagsmál hafi brotist út í kjölfar þessa og hafi A verið hrint eftir gólfinu og hann lent undir borði. Ákærði hafi komið að A þar sem hann lá. Er þetta síðastgreinda atriði í samræmi við lýsingu ákærða á atvikum. Að sögn G sparkaði ákærði þessu næst í andlit A. Kvaðst G hafa verið við hliðina á A þegar þetta gerðist. Hann hafi klárlega nefbrotnað við sparkið. Ekki hafi verið merkjanlegir áverkar á andliti A áður en sparkað var í andlit hans, en eftir það hafi hann verið alblóðugur í framan. Samræmist þessi frásögn vitnisburði F eins langt og hann nær. Hún hefur þannig skýrt svo frá að það hafi verið sami maðurinn sem skallaði A í andlitið og sparkaði í hann þar sem hann lá. G bar kennsl á ákærða fyrir dómi sem þann mann sem veist hafi að A með framangreindum hætti.
Vitnisburð þeirra F og G verður við sakarmat að skoða í því ljósi að önnur þeirra er systir A en hin unnusta hans. Engu að síður er það mat dómara að þessi vitnisburður um atvik málsins sé trúverðugur, þá sérstaklega vitnisburður G sem var mjög skýr og afdráttarlaus. Þá er ekki annað komið fram í málinu en að hvorugt þessara vitna hafi verið undir áhrifum áfengis þegar atburðir þessir áttu sér stað.
Ekkert í lýsingu ákærða og vitna gefur næga ástæðu til að ætla að A hafi nefbrotnað við fall í gólf eða af öðrum þeim ástæðum sem ákærði hefur ýjað að.
Að öllu framangreindu virtu þykir ekki varhugavert að telja nægilega sannað, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að ákærði hafi, aðfaranótt sunnudagsins 23. janúar 2005, veist að A með þeim hætti sem í ákæru greinir og með þeirri atlögu sinni orðið valdur að þeim áverkum sem þar er lýst. Er þannig hafnað þeirri málsvörn ákærða að A hafi hlotið þessa áverka af ástæðum sem ákærða verði ekki kennt um. Er háttsemi ákærða réttilega færð til refsiákvæða í ákæru.
IV.
Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Í ljós telst leitt að ákærði og A voru þátttakendur í átökum sem brutust út í umrætt sinn á milli tveggja fylkinga. Er engin ástæða til að draga í efa þann framburð ákærða og tveggja samferðarmanna hans að þeim hafi staðið mikil ógn af þeim mönnum sem þeir áttu í útistöðum við. Telst ákærði hafa veitt A þá áverka sem í ákæru greinir meðan á þessum átökum stóð. Á því við að beita hér 3. mgr. 218. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 12. gr. laga nr. 20/1981, en í því sambandi skiptir ekki máli hver upptök átakanna hafi nánar verið. Sú atlaga ákærða sem leiddi til þess að nef A brotnaði telst á hinn bóginn mun illskeyttari en átök fram að því og hún var til þess fallin að valda umtalsverðu líkamstjóni. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Eftir atvikum og með sérstakri hliðsjón af því að ákærði hefur ekki áður sætt refsingu þykir hins vegar mega skilorðsbinda refsingu hans, svo sem nánar greinir í dómsorði.
V.
Skaðabótakrafa A samkvæmt ákæru nemur svo sem fram er komið 458.684 krónum. Gerð er krafa um þjáningabætur í 90 daga og nemur sá kröfuliður 90.090 krónum. Hins vegar er krafist miskabóta að fjárhæð 300.000 krónur. Að auki er gerð krafa um greiðslu á kostnaði vegna aðstoðar lögmanns við að halda bótakröfunni fram fyrir dómi og nemur sá liður 68.594 krónum.
Fullnægt er skilyrðum til að dæma ákærða til að greiða A miskabætur á grundvelli a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, og þykja þær eftir atvikum hæfilega ákveðnar 75.000 krónur. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga, sbr. 2. gr. laga nr. 37/1999, skal greiða þjáningabætur fyrir tímabilið frá því að tjón varð þar til heilsufar tjónþola er orðið stöðugt, 1.300 krónur fyrir hvern dag sem hann er rúmfastur og 700 krónur fyrir hvern dag sem hann er veikur án þess að vera rúmfastur. Samkvæmt framlögðu læknisvottorði leitaði A fjórum sinnum á slysadeild vegna nefbrots á tímabilinu 23. til 27. janúar 2005, en við síðustu komu hans þangað var nefið rétt. Þykir á grundvelli þessa mega taka til greina kröfu A um þjáningabætur fyrir þetta 5 daga tímabil og þá þannig að hann hafi verið veikur án þess að vera rúmfastur. Krafa A um frekari þjáningabætur styðst hins vegar ekki við viðhlítandi gögn og er henni því hafnað. Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga verður þessi kröfuliður tekinn til greina með 5.200 (5 x 1.040) krónum. Þá verður ákærða gert að bæta kostnað af aðstoð lögmanns vegna málsins, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála, með 60.000 krónum og er virðisaukaskattur þar meðtalinn.
Samkvæmt framansögðu verður ákærða gert að greiða A 140.200 krónur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir. Er í því sambandi sérstaklega til þess að líta að bótakrafa telst hafa verið birt ákærða með birtingu ákæru 5. september 2005.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins samkvæmt yfirliti sækjanda um sakarkostnað og ákvörðun dómsins um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Þorleifur Magnús Magnússon, sæti fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A 140.200 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 80.200 krónum frá 23. janúar til 5. október 2005, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 140.200 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 187.500 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ólafs Sigurgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 174.300 krónur.