Hæstiréttur íslands

Mál nr. 220/2004


Lykilorð

  • Aflaheimild
  • Aflahlutdeild
  • Fiskveiðistjórn
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. nóvember 2004.

Nr. 220/2004.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.

 Sigurður R. Arnalds hdl.)

gegn

Loðnuvinnslunni hf.

(Kristján Þorbergsson hrl.

 Jóhannes Bjarni Björnsson hdl.)

 

Aflaheimildir. Aflahlutdeild. Fiskveiðistjórn. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

L krafðist ógildingar á úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins, þar sem staðfest var ákvörðun Fiskistofu, um að taka ekki mið af töfum skips L frá veiðum á árinu 2001 við úthlutun aflahlutdeildar í kolmunna. L taldi sérreglu 3. mgr. 5. gr. laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eiga við, og taka ætti tillit til þeirra tafa sem urðu er skip L undirgekkst umfangsmiklar viðgerðir. Talið var að skýra yrði regluna svo að meiri háttar tjón eða bilanir yrðu einar og sér að geta hafa valdið því að skip tefðist samfellt frá veiðum í minnst sex mánuði, en L hafði samhliða viðgerðinni látið fara fram viðhald og endurbætur á skipinu. Engin gögn höfðu verið lögð fram um aðgreiningu milli verkþátta, sem tengdust viðgerð á meiri háttar bilunum og skemmdum vegna tjóns á skipunu, og þeirra sem lutu að öðrum viðgerðum eða breytingum. Var málið svo vanreifað af hendi L að óhjákvæmilegt var að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. maí 2004. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, keypti Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga, sem síðar mun hafa verið sameinað öðru félagi undir nafni stefnda, til landsins í september 1998 fiskiskip, sem hlaut nafnið Hoffell SU 80, en það var smíðað árið 1981. Var skipið meðal annars gert út til kolmunnaveiða, sem á þessum tíma voru ekki háðar aflatakmörkunum. Fyrir liggur að á árinu 1998 veiddi skipið 205 tonn af kolmunna, 13.341 tonn 1999 og 17.692 tonn árið 2000.

Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga gerði 8. september 2000 verksamning við skipasmíðastöð í Póllandi um breytingar á skipinu. Í samningnum var ekki kveðið á um það í hverju verk þetta yrði fólgið, heldur var vísað um það til fylgigagna, sem ekki hafa verið lögð fram í málinu. Í héraðsdómsstefnu lýsti stefndi aðdragandanum að gerð þessa samnings þannig að skipið hafi ekki reynst eins og vonir stóðu til, þar sem vindur þess hafi sífellt bilað og það því verið mikið frá veiðum. Einnig hafi komið í ljós leki á þilfari og brú vegna tjóns á síðu skipsins, sem ekki hafi verið kunnugt um, en af því hafi hlotist miklar skemmdir á lestarklæðningu og innréttingum auk tæringar í lest og á brú. Hafi því orðið að ráðast í umfangsmiklar viðgerðir á skipinu með því að endurbæta spilkerfi þess og endurnýja það að hluta, fjarlægja alla tæringu og skipta um stál, endurnýja hluta lestarklæðningar og innréttinga vegna lekaskemmda og endurnýja brú vegna tæringar. Þá hafi verið komið fyrir sjúkraklefa og skipið lengt um 8 metra, meðal annars til að mæta aukinni þyngd þess og þörf á viðbótarrými fyrir sjúkraklefa, nýtt spilkerfi og stækkun lestar. Samkvæmt samningnum átti skipið að vera komið til skipasmíðastöðvarinnar í 1. viku ársins 2001, en verkinu að ljúka á 89 dögum eftir það. Þar var einnig kveðið meðal annars á um fjárhæð og greiðslu verklauna, heimildir til breytinga á verkinu og févíti ef dráttur yrði á verklokum. Fyrir liggur að verulegar tafir urðu á lokum verksins, sem tók alls 202 daga. Um ástæður þess segir í bréfi skipasmíðastöðvarinnar 17. júlí 2002 að þurft hafi að vinna að umfangsmikilli endurnýjun á stáli vegna tæringar, sem ekki hafi verið fyrirséð, og frekari viðgerðum en ráðgert var á spilkerfi auk viðgerða á einangrun og klæðningu í hluta íbúðarrýmis skipsins. Stefndi kveður skipið fyrst hafa verið tilbúið til veiða á ný 10. ágúst 2001. Eftir það veiddi það til loka þess árs 8.448 tonn af kolmunna.

Sjávarútvegsráðherra setti 15. mars 2002 reglugerð nr. 196/2002 um úthlutun aflahlutdeildar og aflamarks í kolmunna. Var þetta gert með stoð í ákvæðum laga nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar var kveðið á um að íslenskum fiskiskipum yrði heimilt að veiða alls 282.000 lestir af kolmunna á árinu 2002, sem skipt yrði milli þeirra á grundvelli aflahlutdeildar, en um úthlutun hennar voru fyrirmæli í 3. gr. reglugerðarinnar. Kom þar meðal annars fram að aflahlutdeild einstakra skipa skyldi ákveðin í hlutfalli við þrjú bestu veiðiár þeirra almanaksárin 1996 til 2001. Fiskistofa tilkynnti Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga 18. mars 2002 um áætlun aflahlutdeildar og bráðabirgðaúthlutun aflamarks í kolmunna fyrir fiskiskipið Hoffell. Í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar voru þar lagðar til grundvallar upplýsingar Fiskistofu um kolmunnaveiðar skipsins árin 1999, 2000 og 2001. Var aflahlutdeildin áætluð á nánar tilgreindan hátt og bráðabirgðaaflamark vegna ársins 2002 ákveðið 10.638 tonn. Stefndi gerði athugasemdir við þessa ákvörðun með bréfi 3. apríl 2002. Annars vegar benti hann á að kolmunnaveiðar skipsins á árinu 2000 hafi í upplýsingum Fiskistofu verið vantaldar um 1.057 tonn. Hins vegar krafðist hann leiðréttingar á útreikningi veiðireynslu skipsins með tilliti til áðurgreindra tafa þess frá veiðum á árinu 2001. Þessu erindi svaraði Fiskistofa með bréfi 23. apríl 2002. Var þar fallist á athugasemdir stefnda vegna vantalins afla á árinu 2000, en hafnað á hinn bóginn að verða við kröfu hans um að áætla veiðireynslu skipsins næsta árið vegna tafa þess frá veiðum. Hækkaði aflahlutdeild stefnda af fyrrnefndu ástæðunni, svo og aflamark, sem var endanlega ákveðið 13.642 lestir á árinu 2002. Stefndi kærði 22. júlí 2002 til sjávarútvegsráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu um að áætla ekki veiðireynslu skipsins á árinu 2001 vegna tafa frá veiðum. Með úrskurði 1. október 2002 hafnaði ráðuneytið því að fella ákvörðun Fiskistofu úr gildi. Í máli þessu leitast stefndi við að fá þeim úrskurði hnekkt.

II.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi telur stefndi niðurstöðu úrskurðar sjávarútvegsráðuneytisins 1. október 2002 efnislega ranga í ljósi ákvæðis 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996. Þar er að finna sérreglu, sem tekur til aðstæðna þegar ákveðið hefur verið að takmarka heildarafla úr fiskistofnum, sem veiðast bæði innan og utan fiskveiðilandhelgi Íslands og samfelld veiðireynsla er á, og stjórna veiðunum með úthlutun aflahlutdeildar til skipa með slíka reynslu. Sé svo ástatt að skip, sem þetta á við um, hafi tafist frá veiðum á viðmiðunartímabili samfellt í sex mánuði eða lengur vegna meiri háttar tjóns eða bilana skal við ákvörðun aflahlutdeildar reikna því afla á þeim tíma, sem frátafirnar urðu. Eftir hljóðan þessarar reglu getur hún því aðeins átt við að meiri háttar tjón eða bilanir hafi orðið á skipi og þetta valdið því að það hafi verið frá veiðum umræddan lágmarkstíma. Verður að hvíla á þeim, sem ber þessa sérreglu fyrir sig, að sýna fram á að skilyrðum hennar sé fullnægt ef bornar eru á það brigður. Í málinu andmælir áfrýjandi því að skip stefnda hafi tafist frá veiðum frá 1. janúar til 10. ágúst 2001 af ástæðum, sem eigi undir lagaákvæði þetta.

Þótt fallast megi á með stefnda að 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 geti meðal annars náð til tilvika, þar sem útgerð ákveður að láta viðhald eða endurbætur fara fram samhliða viðgerð á meiri háttar tjóni eða bilunum, fær það því ekki breytt að skýra verður reglu þessa svo að slíkt tjón eða bilanir verða einar og sér að geta hafa valdið því að skip tefðist samfellt frá veiðum í minnst sex mánuði. Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga gerði sem áður segir verksamning 8. september 2000 við erlenda skipasmíðastöð og var sá samningur eftir fyrirsögn sinni um breytingar á fiskiskipinu Hoffelli. Samkvæmt málatilbúnaði stefnda tók verk þetta ekki aðeins til viðgerða á bilunum á skipinu og skemmdum, sem hann telur mega rekja til tjóns á því, heldur einnig til breytinga og annarra endurbóta. Í málinu liggja ekki fyrir viðhlítandi gögn um hverjir þessir verkþættir voru nánar eða hversu langan tíma tók að ljúka hverjum þeirra. Enn síður hefur verið aflað sérfræðilegra gagna, sem styðjast mætti við til að greina milli verkþátta, sem tengdust viðgerð á meiri háttar bilunum og skemmdum vegna tjóns á skipinu, og þeirra, sem lutu að öðrum viðgerðum eða breytingum, svo og til að leggja mat á það hvort eðlilegt hafi verið að fyrrnefndu viðgerðirnar tækju þann tíma, sem skipið var frá veiðum. Af þessum sökum er málið svo vanreifað af hálfu stefnda að óhjákvæmilegt er að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Eftir þessum úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Stefndi, Loðnuvinnslan hf., greiði áfrýjanda, íslenska ríkinu, samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. maí 2004.

I

Mál þetta var þingfest 25. febrúar 2004 og dómtekið 27. apríl 2004.  Stefnandi er Loðnuvinnslan hf., kt. 581201-2650, Skólavegi 59, Fáskrúðsfirði en stefndi er íslenska ríkið og er sjávarútvegsráðherra stefnt fyrir þess hönd.

Dómkröfur stefnanda eru að ógiltur verði með dómi úrskurður sjávarútvegs-ráðuneytisins frá 1. október 2002 um staðfestingu á ákvörðun Fiskistofu um að hafna því að taka tillit til tafa Hoffells SU-80, skipaskrárnúmer 2345, frá veiðum 1. janúar 2001 til 10. ágúst 2001, samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, vegna viðgerða, við úthlutun aflaheimilda í kolmunna, samkvæmt reglugerð nr. 196/2002.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.  Til vara krefst hann þess að málskostnaður verði felldur niður.

Mál þetta sætir flýtimeðferð eftir ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991.

 

II

Stefnandi kveður forsögu málsins vera þá að eftir að útgerðum hafi gefist möguleiki á að hefja veiðar á síld og kolmunna utan íslensku lögsögunnar hafi hann hafið leit að skipi sem hentaði til þeirra veiða og hafi leitin miðað að því að finna nægilega öflugt skip.  Eftir nokkra leit fann stefnandi skip árið 1998 á Írlandi, sem byggt hafði verið í Hollandi árið 1981, og kveður stefnandi að það hafi verið í eigu sama aðilans frá upphafi.  Hafi það verið mikið endurnýjað, meðal annars með nýlega aðalvél, nýlegar togvindur og hjálparvindur ásamt nýlegum fiskileitartækjum.  Stefnandi keypti svo nefnt skip í september 1998 og fékk það nafnið Hoffell SU-80, skipaskrárnúmer 2345.

Stefnandi kveður skipið ekki hafa reynst eins vel og vonir stóðu til og hafi vindur þess sífellt verið að bila sem gert hafi það að verkum að skipið var mikið frá veiðum.  Þá hafi komið í ljós leki á þilfari og í brú, sem rekja hafi mátt til þess að skipið hefði orðið fyrir tjóni, sem stefnanda hafi ekki verið kunnugt um, en gat hafi reynst vera á bakborðssíðu skipsins.  Það hafi orðið þess valdandi að sjór hafi átt greiða leið um ytra byrði skipsins inn undir dekkið sem hafi valdið miklum skemmdum á lestarklæðningu og innréttingum, auk ótímabærrar tæringar á lest og brú.

Kemur fram hjá stefnanda að á árinu 2000 hafi bilanir á spilkerfinu verið orðnar svo tíðar og kostnaðarsamar fyrir útgerðina, vegna viðgerða og tafa frá veiðum, að ekki hafi lengur verið við unað.  Þá hafi einnig legið fyrir að ráðast þyrfti í umfangsmikla viðgerð vegna skemmda á ytra byrði skipsins og tæringar á dekki og öðrum skemmdum af völdum sjós í skipinu sjálfu.  Hafi þessar skemmdir verið orðnar svo alvarlegar að flokkunarfélag skipsins hafi veitt stefnanda lokafrest til viðgerðar á tæringartjóni fram til janúar 2001.  Þá hafi Siglingastofnun Íslands lagt þá kvöð á skipið að settur yrði upp sjúkraklefi í skipinu og hafði verið um hana skráð í haffærisskíreini skipsins.  Þá hafi útgerðinni einnig verið tilkynnt um það að hún gæti ekki vænst þess að undanþága vegna þessa yrði framlengd.

Vegna ofangreindra bilana á spilkerfi og tjóns vegna tæringar kveðst stefnandi ekki hafa átt annan kost í stöðunni en að ráðast í umfangsmikla viðgerð á skipinu.  Var til verksins fengin skipasmíðastöð í Póllandi sem var falin viðgerð á spilkerfum skipsins og að skipta hluta þeirra út.  Þá var stöðinni falið að fjarlægja alla tæringu og skipta um stál, endurnýja hluta lestarklæðningar og innréttinga vegna lekaskemmda, koma fyrir sjúkraklefa og endurnýja brú skipsins vegna tæringar.  Einnig hafi verið ákveðið við þetta tækifæri að lengja skipið um átta metra, meðal annars til að mæta aukinni þyngd skipsins og til að mæta þörf á viðbótarrými fyrir sjúkraklefa, nýtt spilkerfi og lestarrými.

Kemur fram hjá stefnanda að áætlaður tími vegna framangreindra viðgerða og endurbóta í Póllandi hafi verið þrír mánuðir og samkvæmt því hefði skipið átt að vera tilbúið að fara á síld- og kolmunnaveiðar í byrjun apríl 2001 og hafi tímasetningin fyrir viðgerð verið valin út frá því.  Viðgerð hafi hins vegar dregist úr hófi, aðallega vegna þess að bilanir í spilkerfi og tæringartjón hafi reynst meiri en ráð hafi verið fyrir gert og hafi þessi dráttur leitt til þess að skipið hafi misst af kolmunnavertíðinni árið 2001.  Viðgerð hafi ekki lokið fyrr en um miðjan júlí 2001 og skipið því ekki verið tilbúið til veiða fyrr en 10. ágúst 2001 er það hélt í sína fyrstu veiðiferð eftir viðgerðina.  Hafði skipið þá verið frá veiðum frá 1. janúar 2001 til 10. ágúst 2001 eða í sjö mánuði og tíu daga.

Stefndi mótmælir þeirri staðhæfingu stefnanda að hann hafi misst af kolmunnavertíðinni 2001, enda hafi skipið veitt á þessari vertíð 8.448 tonn af kolmunna sem hafi, þrátt fyrir að vera nokkuð minna en árin á undan, verið dágott innlegg í heildarafla þriggja bestu áranna, 1999, 2000 og 2001 (38.425 tonn).

Á grundvelli reglugerðar nr. 196/2002 frá 15. mars 2002, um úthlutun aflahlutdeildar og aflamarks í kolmunna, var stefnanda tilkynnt 18. mars 2002 um bráðabirgðaúthlutun aflamarks fyrir árið 2002.  Stefnandi gerði athugasemdir við úthlutun Fiskistofu á aflamarki skipsins í kolmunna með bréfi 3. apríl 2002.  Komu þar fram óskir um að tekið yrði að fullu tillit til framangreindra frátafa Hoffells vegna viðgerða á tímabilinu frá 1. janúar 2001 til 10. ágúst 2001.

Með bréfi 23. apríl 2002 var stefnanda tilkynnt ákvörðun Fiskistofu þess efnis að hafna því að taka tillit til frátafa bátsins frá veiðum vegna viðgerða á honum á ofangreindu tímabili. Byggði Fiskistofa þá ákvörðun á því að ekki hafi verið um meiri háttar tjón eða bilanir að ræða á bát stefnanda í skilningi 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, heldur nauðsynlegar endurbætur sem hafi þurft að gera á skipinu.

Með bréfi Fiskistofu 24. apríl 2002 var stefnanda send tilkynning um úthlutun aflaheimilda í kolmunna og 22. júlí 2002 kærði stefnandi fyrrgreinda ákvörðun Fiskistofu frá 23. apríl 2002 til sjávarútvegsráðuneytisins.  Byggði stefnandi kæruna á þeim rökum að skýring Fiskistofu á ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, um mat á því hvað væri meiri háttar tjón eða bilanir, fengi ekki staðist og væri til þess fallin að mismuna aðilum við úrlausn mála, þar sem ekki væri stuðst við hlutlægan mælikvarða laganna heldur frjálst mat Fiskistofu. Taldi stefnandi mikilvægt að ráðuneytið tæki undir sjónarmið um að við skýringu á ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 verði að leggja til grundvallar hlutlægan mælikvarða en ekki hafa úrlausn mála háða frjálsu mati úrlausnaraðilans eða geðþótta hans.  Taldi stefnandi að málið snerist að þessu leyti um góða stjórnsýsluhætti og að ávallt skuli leitast við að hafa skýrar og hlutlægar reglur við úrlausn og mat réttinda.

Með bréfi 8. ágúst 2002 gerði Fiskistofa athugasemdir við kæru stefnanda og kemur þar fram það mat Fiskistofu að unnt hefði verið að gera við Hoffell SU-80 á mun skemmri tíma en sex mánuðum.  Þá taldi Fiskistofa að tjón af völdum tæringar, eins og því sé lýst í stjórnsýslukæru stefnanda, geti ekki talist tjón í skilningi 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, heldur hafi fremur verið um slit að ræða sem nauðsynlegt hefði verið að bæta úr. 

Stefnandi mótmælti framangreindu mati Fiskistofu með bréfi 14. ágúst 2002 og hafnaði því alfarið að hægt hefði verið að gera við umrædda bilun í spilkerfi skipsins á styttri tíma en sex mánuðum og taldi það ekki vera í verkahring Fiskistofu að meta áætlaðan viðgerðartíma fiskiskipa.  Bent var á að í stjórnsýslukæru sinni hefði stefnandi útlistað nákvæmlega hvað hafi valdið því að umrædd viðgerð hafi tekið svo langan tíma sem raun bar vitni.  Þá  mótmælti stefnandi þeirri staðhæfingu Fiskistofu að tjón vegna tæringar væri ekki eiginlegt tjón heldur væri það vegna slits sem nauðsynlegt hafi verið að bæta úr.

Hinn  1. október 2002 úrskurðaði sjávarútvegsráðuneytið í máli stefnanda og taldi 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, vera undantekningarreglu frá þeirri meginreglu að við útreikning aflahlutdeildar skuli miðað við veiðireynslu viðkomandi skips, og því eigi að skýra þá reglu þröngt.  Taldi ráðuneytið að við þá skýringu á ákvæðinu skipti aðdragandi bilana máli og þar sem aðdragandi bilana í máli stefnanda hafi verið langur eigi hann ekki rétt á því að fá metnar frátafir vegna viðgerða. 

Með bréfi 23. október 2003 óskaði stefnandi eftir því við Fiskistofu að fá afrit af gögnum sem vörðuðu úthlutun á aflahlutdeild til togarans Venusar HF-519 í úthafskarfa og hvernig leyst hafi verið úr töfum þess skips frá veiðum vegna bruna árið 1994.  Með bréfi 30. október 2003 sendi sjávarútvegsráðuneytið stefnanda umbeðin gögn.

Stefnandi kveður atvik í því máli þau að togarinn Venus HF-519 hafi orðið fyrir tjóni í eldsvoða 24. apríl 1994.  Samkvæmt grein í Morgunblaðinu 18. maí 1994 hafi komið fram að allar innréttingar skipsins væru ónýtar og vinnslulínan illa farin.  Kom fram að skipið hefði verið búið að veiða mikið af kvóta sínum í úthafskarfa árið 1994 er tjónið varð.   Eigandi skipsins, Hvalur hf., hafi í kjölfarið hafið leit að nýju skipi án árangurs og hafi ákveðið í maí 1995 að senda skipið til Póllands til viðgerða.

Hinn 3. janúar 1996 hafi birst grein í Morgunblaðinu þar sem fram kom að togarinn Venus væri kominn heim eftir viðgerð og gagngerar endurbætur.  Í grein þessari hafi verið greint frá því að fyrrgreindur togari hefði verið lengdur um níu metra og innréttaður upp á nýtt.  Skipt hafi verið um skrúfu, skrúfuhring, ljósavél og gír við aðalvél.  Þá hafi millidekk verið hækkað um 40 sentímetra og skipið málað og sandblásið að innan.  Þá kemur fram í sömu grein að eftir áramót eigi að hefjast vinna við að setja nýjan fiskvinnslubúnað í skipið og sé áætlað að framkvæmdum ljúki í lok janúar eða byrjun febrúar og verði skipið þá strax sent á veiðar.

Með bréfi 24. febrúar 1997 mótmælti Hvalur hf. bráðabirgðaúthlutun Fiskistofu frá 7. febrúar 1997 á úthafskarfa og er ein af röksemdum félagsins að umrætt skip hafi verið frá veiðum á tímabilinu frá 24. apríl 1994 til febrúar 1996 vegna meiri háttar tjóns.  Með bréfi 11. mars 1997 féllst Fiskistofa á röksemdir Hvals hf. um að Venus hafi tafist frá úthafskarfaveiðum hluta ársins 1994 og allt árið 1995, en telur að skipið hafi ekki tafist frá veiðum árið 1996 þar sem úthafskarfaveiðar hafi ekki verið byrjaðar í febrúar er skipið var orðið klárt til veiða.  Niðurstaða Fiskistofu að þessu leyti var staðfest af sjávarútvegsráðuneytinu með úrskurði 29. júlí 1997 og fékk Hvalur hf. viðurkenndar frátafir fyrir hluta ársins 1994 og allt árið 1995.

Stefnandi aflaði skýrslu frá Ráðgarði, Skiparáðgjöf ehf. þar sem samanburður var gerður á aðdraganda að og ástæðum fyrir endurbyggingu skipanna Venusar HF-519 og Hoffells SU-80 og er skýrslan dagsett 5. apríl 2004 og undirrituð af Bolla Magnússyni en meðhöfundur skýrslunnar er Daníel Friðriksson.

Í máli þessu snýst ágreiningur aðila í meginatriðum um að þær viðgerðir og endurbætur sem gerðar voru á Hoffelli SU-80 og urðu þess valdandi að skipið var frá veiðum í rúma sjö mánuði, falli undir það skilyrði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 að hafa verið vegna meiri háttar tjóns eða bilana.

Fyrir dóminum gáfu skýrslu útgerðarstjóri stefnanda Eiríkur Ólafsson og vitnin Bolli Magnússon og Daníel Friðriksson.

III

Stefnandi krefst þess að ógiltur verði úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins frá 1. október 2002, þar sem hafnað var þeirri kröfu stefnanda að fella úr gildi ákvörðun Fiskistofu frá 23. apríl 2002, þar sem hafnað var kröfu stefnanda um að við úthlutun aflaheimilda í kolmunna yrði tekið tillit til tafa Hoffells frá veiðum frá 1. janúar 2001 til 10. ágúst 2001.  Telur stefnandi úrskurðinn efnislega rangan með vísan til laga 151/1996, sem og með vísan til 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um jafnræði og 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995.

Stefnandi byggir á því að ákvæðum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 sé ætlað að koma til móts við þær útgerðir sem eigi skip sem tefjast frá veiðum í lengri tíma en sex mánuði, vegna meiri háttar tjóns eða bilana, grípi stjórnvöld til þess að úthluta aflaheimild til skipa með varanlegum hætti.  Stefnandi telur það ljóst að hann hafi lent í meiri háttar tjóni og bilunum með skip sitt og vegna þess hafi skipið tafist frá veiðum yfir besta veiðitímann í rúma sjö mánuði.  Af þeirri ástæðu hafi stefnandi ekki setið við sama borð og aðrir útgerðarmenn er stjórnvöld hafi ákveðið fyrirvaralaust að úthluta veiðiheimildum í kolmunna með varanlegum hætti.

Stefnandi telur að skýringar Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneytisins á ákvæðum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, styðjist hvorki við texta laganna né skynsamlegan tilgang ákvæðisins.  Beri að skýra ákvæðið eftir orðanna hljóðan þannig að ef bilun eða tjón á skipi leiði til þess að það sé frá veiðum í lengri tíma en sex mánuði, eigi útgerð rétt á leiðréttingu við mat á veiðireynslu, enda hafi töf þessi áhrif á úthlutun aflahlutdeildar til skipsins.

Stefnandi byggir á því að ákvæðið hafi þann tilgang að leiðrétta eða jafna stöðu útgerða ef stjórnvöld grípi til þess ráðs að skipta veiðiheimildum í tiltekinni fisktegund á milli skipa á grundvelli veiðireynslu.  Verði í þessu sambandi að hafa í huga að meginregla laga nr. 151/1996, um veiðar utan lögsögu Íslands, sé sú að öllum íslenskum skipum séu heimilar veiðar utan lögsögu Íslands með þeim takmörkunum sem lögin kveði á um, sbr. 4. gr. laganna.  Þörfin og rökin að baki því að jafna stöðu þeirra sem tafist hafi frá veiðum í meira en sex mánuði vegna tjóns eða bilana hljóti að vera þau sömu hvort heldur sem tjón eða bilun verði óvænt og ófyrirséð eða hafi lengri aðdraganda.

Stefnandi kveðst því ekki sjá að umrætt ákvæði eigi aðeins við þau tilvik sem séu “í senn alvarleg, skyndileg og ófyrirséð, og gera það að verkum að skip verði þegar óstarfhæft án þess að það verði rakið til einnar bilunar og má nefna sem dæmi bruna” eins og segi orðrétt í umdeildum úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins.  Verði ekki betur séð en að ráðuneytið sé að rugla saman skilyrðum og hugtökum úr skaðabótarétti við lögskýringar sínar, þannig að halda mætti að 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 kveði á um ábyrgð ríkisins á tjóni útgerða af missi veiðireynslu ef skilyrði skaðabótaskyldu séu ekki fyrir hendi.  Þessar forsendur sjávarútvegsráðuneytisins séu að mati stefnanda álíka einkennilegar og önnur fullyrðing sem fram komi í úrskurði þess um að þegar aðdragandi slíkra bilana eða tjóns sé langur sé útgerðinni í lófa lagið að bregðast við.  Þessi fullyrðing sé ekki aðeins einkennileg í ljósi þess að úthlutun veiðiheimilda í kolmunna hafi verið óvænt og ófyrirséð, heldur virðist hér sem sjávarútvegsráðuneytið vísi til eigin sakar sem ástæðu fyrir því að stefnandi eigi sjálfur að bera ábyrgð samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996.  Eigi túlkun ráðuneytisins ekkert skylt við þrönga lögskýringu á undantekningarákvæði svo sem ráðuneytið virðist bera fyrir sig í úrskurði sínum.

Stefnandi byggir á því að í ákvæðum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 komi skýrlega fram að hafi frátafir orðið á útgerð skips vegna meiri háttar tjóns eða bilana í að minnsta kosti sex mánuði eigi útgerð viðkomandi skips rétt til leiðréttingar við útreikning aflahlutdeildar byggðri á veiðireynslu.  Ekki séu önnur skilyrði í greininni fyrir því að stefnandi geti átt rétt til leiðréttingar.

Þá byggir stefnandi á því að honum hafi verið gróflega mismunað við úrlausn málsins hjá Fiskistofu þar sem nokkrum árum áður hafi Hvalur hf. fengið eins og hálfs árs frátöf frá veiðum metna til afla þrátt fyrir að meginhluta  þess tímabils hafi tilgreint skip, Venus, legið í höfn og ljóst verið að samhliða viðgerð á tjóni vegna bruna hafi farið fram gagngerar endurbætur á skipinu. 

Stefnandi telur að í úrskurði Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneytisins í máli Hvals hf. vegna Venusar, hafi ákvæðum 3. mgr. 5. gr. verið beitt á þá leið að ekki skipti máli við mat á þeim tíma sem útgerð eigi rétt á að fá leiðréttingu fyrir, hvort töfin hafi orðið vegna þess að útgerðin hafi verið að leita að nýju skipi eða ákveðið að samhliða viðgerð vegna brunans færu fram endurbætur á skipinu.

Sé stjórnvöldum óheimilt að beita ákvæðinu með öðrum hætti gagnvart stefnanda en gert hafi verið við úrlausn á máli Hvals hf., samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Stefnandi telur einnig að sá greinarmunur sem Fiskistofa hafi gert á viðgerð vegna bilana annars vegar og endurbóta hins vegar gangi ekki upp enda leiði skýring Fiskistofu á ákvæðinu til óþolandi réttaróvissu, enda virðist sem mat á því hvort um meiri háttar tjón eða viðgerð sé að ræða eigi að fara eftir geðþótta starfsmanna Fiskistofu en ekki þeim hlutlausa mælikvarða sem lögin sjálf setji um að viðgerð og tjón teljist meiri háttar, ef það leiði til tafa frá veiðum í að minnsta kosti sex mánuði.  Ákvæðið yrði einnig þýðingarlaust ef samhliða viðgerð vegna meiri háttar tjóns eða bilunar mættu ekki fara fram aðrar endurbætur eða viðhald á skipi, enda fari ekkert skip í slipp til meiri háttar viðgerðar án þess að í leiðinni sé framkvæmt reglubundið viðhald og aðrar nauðsynlegar endurbætur á skipinu.  Slíkt sé óhugsandi og andstætt háttarlagi hins góða og gegna útgerðarmanns og hvetji eingöngu til þess að verðmætum og tíma sé sóað.  Hafi slíkar takmarkanir átt að gilda eða bann við því að endurbætur færu fram samhliða viðgerð á bilun eða tjóni eftir ákvæðum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, hefði verið nauðsynlegt að kveða á um það í lögunum sjálfum.

Um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991

 

IV

Stefndi telur rétt að benda á atriði sem valdið gætu frávísun málsins ex officio.  Dómkröfur stefnanda varði ógildingu á ákvörðunum stjórnvalda varðandi úthlutun aflamarks í kolmunna.  Þær ákvarðanir sem tekist sé á um hafi verið teknar að hausti árið 2002 en þar hafi verið um fullnaðarúthlutun að ræða á aflamarki til veiða á kolmuna.  Þótt almennt verði ákvarðanir stjórnvalda bornar undir dómstóla horfi málið þannig sérstaklega við að hagsmunir af gildi umræddra ákvarðana varði ekki aðeins stefnanda heldur alla þá sem fengið hafi aflaheimildir til þeirra veiða sem málið varði.  Við þessar aðstæður sé álitamál til hvers stefnandi ætlist, gangi dómur stefnanda í vil, þ.e. hvort taka eigi þá upp allar úthlutanir heimilda eða hvort stefnandi hyggi á rekstur bótamáls.

Sé því hugsanlegt að málið geti varðað frávísun að þessu leyti ef stefnandi ætlist til nýrrar úthlutunar sér til handa, enda sé málið utan lögsögu dómstóla ef markmið dómkrafna horfi til nýrrar skiptingar veiðiheimilda.  Kunni stefnanda þá að skorta lögvarða hagsmuni um annað en rekstur bótamáls að skilyrðum bótareglna uppfylltum.  Þá byggi stefndi sýknukröfu sína einnig á þeim málsástæðum að um sé að ræða fullnaðarmat stjórnvalda og því standi það utan valdsviðs dómstóla að ógilda úthlutunina sé markmiðið með kröfunni að koma á nýrri skipan úthlutunar aflaheimildar.

Svo sem fram komi í úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins byggi stefndi á því að skýra beri ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 í ljósi þess að ákvæðið geymi undantekningu frá meginreglu sömu laga, þess efnis að við útreikning aflahlutdeildar skuli miðað við veiðireynslu viðkomandi skips.  Verði að skýra 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 sem undantekningu frá þessari meginreglu og leiði lögskýringarreglur þá til þess að túlka beri undantekninguna þröngt.  Jafnframt beri þá stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að undantekningarreglan geti átt við.

Eins og fram komi í úrskurði ráðuneytisins verði ekki fram hjá því litið að öll skip þurfi með reglulegu millibili á endurbótum að halda sem kunni að vera mismiklar og tímafrekar.  Engin rök standi til þess að ákvæði 3. mgr. 5. gr. laganna eigi við um það þegar skip séu frá veiðum vegna almennra endurbóta eða lagfæringa.  Fyrir liggi að endurbætur og viðgerðir á Hoffelli SU-80 hafi verið þess eðlis að þær stöfuðu af vanbúnaði þess og ófullnægjandi viðhaldi, allt frá kaupum þess, eins og fram komi í bréfi stefnanda til Fiskistofu 3. apríl 2002.  Hafi það smátt og smátt leitt til þess að koma hafi þurft skipinu til gagngerrar viðgerðar og endurbóta á eiginleikum þess. Frátafirnar á árinu 2001 hafi þannig átt sér langan aðdraganda eins og stefnandi hafi upplýst um.

Lögum samkvæmt sé það á ábyrgð útgerðar og skipstjóra að skipi sé haldið við, fært til skoðunar og að það sé haffært, sbr. ákvæði þágildandi laga nr. 35/1993 um eftirlit með skipum og þá sé allt viðhald og endurbætur einnig á ábyrgð útgerðar. Þegar atvik komi til sem séu í senn alvarleg, skyndileg og ófyrirséð, og gera það að verkum að skip verði þegar óstarfhæft, án þess að það verði rakið til einnar bilunar, komi til greina að beita undanþáguheimild 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996.  Ekkert af þessu hafi átt við í tilviki stefnanda vegna Hoffells SU-80.  Þvert á móti hafi aðdragandi þess að skipið hafi verið frá veiðum verið langur og útgerðin átt val um hvort og hvenær í endurbætur yrði ráðist og þannig verið í lófa lagið að bregðast við.  Meiri háttar tjón eða bilanir sem valdi því skyndilega og ófyrirséð að skip verði samfellt frá veiðum í að minnsta kosti sex mánuði séu hins vegar þess eðlis að útgerð eigi ekkert val og verði að hverfa frá veiðum.

Sú almenna regla að miða úthlutanir við veiðireynslu sé á því reist að endurspegla raunveruleg aflabrögð viðkomandi skips við eðlilegar aðstæður.  Á hinn bóginn verði í undantekningartilvikum að taka tillit til aðstæðna þar sem alvarleg, skyndileg og ófyrirséð atvik valdi löngum frátöfum.  Þetta fái stoð í almennum lögskýringar­reglum og orðalagi ákvæðisins, sbr. orðin „meiri háttar tjóns eða bilana“, og að frátafir af þeim sökum vari í að minnsta kosti sex mánuði samfellt.

Ef taka ætti tillit til frátafa vegna almenns viðhalds og endurbóta yrði það á kostnað veiðireynslu annarra skipa þegar heildarafli er takmarkaður. Veiðireynsla þeirra samkvæmt meginreglu laganna hefði þá lítið að segja. Slík lögskýring væri ósanngjörn og ekki í anda jafnræðis.  Sýni það hversu veigamikil rök standi til þess að skýra 3. mgr. 5. gr. þannig að aðeins undantekningartilvik eigi þar við.

Stefndi telur engin efnisatriði 65. gr. stjórnarskrárinnar um mismunun vera fyrir hendi í málinu. Varðandi jafnræðisreglur almennt sé í fyrsta lagi á því byggt að grundvallarmunur sé á þessu máli og máli Hvals hf. vegna skipsins Venusar, sem stefnandi beri sig saman við, en það skip hafi orðið fyrir meiri háttar tjóni í eldsvoða sem hafi verið meginástæða þess að skipið tafðist frá veiðum.  Að mati stefnda sé augljóst að mikilla endurbóta hafi verið þörf í kjölfar meiri háttar tjóns vegna eldsvoða og ógjörningur að greina þar á milli.  Verði ekki annað ráðið af þeim gögnum sem stefnandi hafi aflað um mál Hvals hf. vegna Venusar að frátafir hafi að öllu leyti verið af völdum eldsvoðans með einum eða öðrum hætti, en þar hafi skipið laskast mikið auk þess sem vinnslulína og fiskvinnslubúnaður hafi skemmst.  Frátafir sem tekið hafi verið tillit til hafi verið viðurkenndar að hluta en ekki að öllu leyti.  Til dæmis hafi ekki verið tekið tillit til frátafa á árinu 1996 en þá telji stefnandi að farið hafi fram viðgerð á fiskvinnslubúnaði.  Skemmdir á honum hafi hins vegar orðið í kjölfar eldsvoðans.

Stefndi telur að meginástæður þess að Hoffell SU-80 tafðist frá veiðum hafi á engan hátt verið sambærilegar heldur hafi verið um að ræða uppsafnaða þörf á viðgerðum vegna ónógs viðhalds og að auki þörf á endurbótum.  Meginskilyrði jafnræðis­reglu um að tilvik verði að vera öldungis sambærileg séu því ekki fyrir hendi. Þegar aðstæður séu virtar með tilliti til jafnræðisreglu verði að hafa í huga að fréttaflutningur í Morgunblaðinu, sem stefnandi hafi nýlega aflað, hafi ekki verið meðal gagna í kærumáli Hvals hf.  Í öðru lagi verði ekki fram hjá því litið, þótt um hliðstæðar reglur hafi verið að ræða, að tilvikin séu ekki sambærileg þar sem annars vegar hafi verið um að ræða úthafskarfaveiðar og hins vegar kolmunnaveiðar. Á þessum vettvangi stjórnsýslu sé mikilvægt að gera strangar kröfur til þess að um algerlega sambærileg tilvik sé að ræða þar sem tillit vegna frátafa varði skiptingu heimilda í tilteknum veiðum á ákveðnu tímabili sem leggja eigi til grundvallar aflamarki.  Hafi stefnandi ekki sýnt fram á nein tilvik þar sem útgerð Hoffells SU-80 hafi verið mismunað samanborið við aðra sem skiptu með sér aflamarki í kolmunnaveiðum sem til ákvörðunar kom árið 2002.  Það séu því ekki sambærileg tilvik annars vegar úthafskarfaveiðar og hins vegar kolmunnaveiðar og úthlutanir aflamarks þar.  Tilvikin varði þannig ólíkar veiðar á mismunandi tímum. 

Í þriðja lagi byggir stefndi á því að jafnræðisregla geti ekki helgað niðurstöðu sem lögvarið tilkall standi ekki til.  Standi skilyrði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 málatilbúnaði stefnanda í vegi telji stefndi að kröfum stefnanda verði ekki fundin stoð í niðurstöðu ráðuneytisins í máli Hvals hf.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

V

Stefndi hefur bent á atriði sem hann telur að geti valdið frávísun málsins ex officio á þeim forsendum að hagsmunir af gildi þeirrar ákvörðunar sem krafist er niðurfellingar á varði fleiri en stefnanda og sé álitamál til hvers stefnandi ætlist gangi dómur honum í vil. 

Í málinu eru gerð krafa um ógildingu á úrskurði sjávarútvegsráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Fiskistofu um að hafna því að taka tillit til tafa skips stefnanda Hoffells SU-80 frá veiðum vegna viðgerða.

Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, skera dómendur úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda.  Í málinu er uppi slíkur ágreiningur og hefur stefnandi að mati dómsins lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort ógilda beri framangreinda stjórnvaldsákvörðun.

Eins og rakið hefur verið snýst meginágreiningur aðila um túlkun á ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 en þar segir að hafi skip, sem reglulega hefur stundað veiðar úr stofni sem varanleg veiðireynsla sé á, tafist frá veiðum í að minnsta kosti sex mánuði samfellt vegna meiri háttar tjóns eða bilana skuli við ákvörðun aflahlutdeildar á grundvelli veiðireynslu samkvæmt 2. mgr. reikna skipinu afla á því tímabili sem frátafirnar verði og skuli aflinn fyrir hvert heilt veiðitímabil talinn nema sama hlutfalli af heildarafla og nam meðaltalshlutfalli skipsins í heildarafla af viðkomandi tegund á þeim tveimur veiðitímabilum sem næst liggi því tímabili eða þeim tímabilum sem frátafirnar verði.  Verði frátafirnar aðeins hluta veiðitímabils skal reikna aflareynsluna hlutfallslega að teknu tilliti til almennra aflabragða þann hluta veiðitímabils sem frátafirnar verða.

Ágreiningslaust er að skip stefnanda, Hoffell SU-80, var frá veiðum vegna viðgerða og endurbóta frá 1. janúar 2001 til 10. ágúst 2001.  Eins og rakið hefur verið voru ástæður þess að skipið var frá veiðum umrætt tímabil þær að ráðast þurfti í endurbætur á spilkerfi skipsins vegna sífelldra bilana í því.  Þá þurfti að ráðast í breytingar á sjúkraaðstöðu um borð vegna athugasemda Siglingastofnunar Íslands auk þess sem lagfæra þurfti skemmdir vegna tæringar.  Var það mat Fiskistofu eins og fram kemur í bréfi stofnunarinnar 23. apríl 2002, að framangreint hafi verið nauðsynlegar endurbætur sem féllu ekki undir þau skilyrði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 um að vera meiri háttar tjón eða bilanir og því hafnaði Fiskistofa að taka tillit til þeirra frátafa við úthlutun á aflaheimild kolmunna vegna tímabilsins.

Stefnandi kærði þessa ákvörðun Fiskistofu til sjávarútvegsráðuneytisins 22. júlí 2002 og í úrskurði ráðuneytisins sem upp var kveðinn 1. október 2002 var því hafnað að fella úr gildi framangreinda ákvörðun Fiskistofu frá 23. apríl 2002.  Í rökstuðningi sínum vísar ráðuneytið til þess að við skýringu á því hvað teljist meiri háttar tjón eða bilun í skilningi 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 beri að líta til þeirrar meginreglu laga nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, að við útreikning aflahlutdeildar samkvæmt lögunum skuli miðað við veiðireynslu viðkomandi skips.  Ákvæði 3. mgr. 5. gr. sé undantekning frá þeirri meginreglu og verði að túlka hana þröngt.

Þá vísar ráðuneytið til þess að frátafir Hoffells SU-80 hafi átt sér langan aðdraganda eins og fram komi hjá stefnanda sjálfum um að fljótlega eftir kaup skipsins hafi komið í ljós sífelldar bilanir í spilkerfinu og hafi stefnanda því mátt vera ljóst að úrbóta væri þörf.  Hins vegar hafi ekki verið ráðist í viðgerðir á því fyrr en í janúar 2001.

Telur ráðuneytið að það sé á ábyrgð útgerðar skips að halda því við svo komast megi hjá meiri háttar bilunum eða tjóni.  Þegar slíkur aðdragandi bilana sé langur sé útgerðinni í lófa lagið að bregðast við.  Þá telur ráðuneytið að þær aðstæður kunni að koma upp sem séu í senn alvarlegar, skyndilegar og ófyrirséðar og geri það að verkum að skip verði þegar óstarfhæft án þess að það verði rakið til einnar tiltekinnar bilunar og nefnir sem dæmi bruna.  Við slíkar aðstæður komi til greina að beita undantekningarákvæði 3. mgr. 5. gr. laganna  við útreikning aflahlutdeildar.

Eina skilyrði hins umdeilda ákvæðis 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 er að skip sé frá veiðum vegna meiri háttar tjóns eða bilana í að minnsta kosti sex mánuði.  Ekkert er getið um það í ákvæðinu sjálfu og ekki er til að dreifa lögskýringargögnum um að til að beita megi ákvæðinu þurfi atvik að vera í senn alvarleg, skyndileg og ófyrirséð svo sem ráðuneytið virðist byggja niðurstöðu sína á.  Enda þótt fallast megi á það með stefnda að umdeilt ákvæði feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að við úthlutun aflaheimilda skuli byggja á veiðireynslu og að undantekningarreglu sem þessa skuli túlka þröngt gefur orðalag ákvæðisins ekki tilefni til annarrar túlkunar á því en að uppfylltum þeim skilyrðum að verði tafir á veiðum vegna meiri háttar tjóns eða bilana skuli ákvæðinu beitt.

Óumdeilt er að bilanir voru tíðar á spilkerfi skips stefnanda auk þess sem umtalsverðar skemmdir voru á ytra byrði skipsins vegna tæringar og hafði flokkunarfélag skipsins veitt lokafrest til viðgerðar á því fram í janúar 2001.  Þá hafði Siglingastofnun sett þá kvöð á skipið að settur yrði í það sjúkraklefi.  Vegna þessa þurfti stefnandi að láta lagfæra skipið og var eðlilegt að hann tæki ákvörðun um að setja það í viðgerð eigi síðar en þegar lokafrestur rann út gagnvart flokkunarfélagi skipsins enda fór sá tími saman við veiðitímabilið, en samkvæmt áætlun skipasmíðastöðvarinnar áttu viðgerðir ekki að taka lengri tíma en þrjá mánuði og það var á þeim tíma sem skipið hafði hvort sem er lítil verkefni. 

Samkvæmt gögnum málsins voru þær endurbætur sem fóru fram á skipinu samhliða viðgerð þess nauðsynlegar og eins og kemur fram í skýrslu Ráðgarðs, Skiparáðgjafar ehf. 5. apríl 2004 leiddi hagkvæmnisathugun í ljós að rétt væri að gera allar breytingar sem hagkvæmt þótti að gera á skipinu um leið og farið væri í viðgerðir á þilförunum vegna tæringar til að samnýta verktímann.  Þá kemur þar einnig fram að þar sem tæringarskemmdir voru á þilförunum undir íbúðum hafi þurft að fjarlægja þær auk þess sem hægt hafi verið að vinna samtímis að tæringarviðgerðum og öðrum viðgerðum og breytingum á skipinu. Er ekkert í málinu sem styður að um ófullnægjandi viðhald hafi verið að ræða á skipinu eða að viðgerð hefði getað tekið skemmri tíma en raun varð á. 

Í ljósi þess sem nú hefur verið rakið er það mat dómsins að tafir þær sem urðu á veiðum Hoffells SU-80 hafi verið vegna meiri háttar tjóns og bilana á skipinu.  Fólst tjónið meðal annars í því að vegna tæringar þurfti að endurnýja þilfarshús, brú og setja upp nýjar íbúðir.  Þá er óumdeilt að spilkerfið var sífellt að bila og reyndist nauðsynlegt að setja upp nýtt.  Bar Fiskistofu því að taka að fullu tillit til frátafa Hoffells SU-80 frá veiðum frá 1. janúar 2001 til 10. ágúst 2001 við úthlutun aflaheimilda í kolmunna.  Þegar af þeirri ástæðu þykja ekki efni til að fjalla um þá málsástæðu að stefnanda hafi verið mismunað við úrlausn málsins miðað við niðurstöðu Fiskistofu í máli Hvals hf. vegna togarans Venusar nokkrum árum áður.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða málsins að dómkröfur stefnanda eru teknar til greina.

Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega metinn 200.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Jóhannes Bjarni Björnsson hdl. en af hálfu stefnda flutti málið Einar Karl Hallvarðsson hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D Ó M S O R Ð

Ógiltur er úrskurður sjávarútvegsráðuneytisins 1. október 2002 um staðfestingu á ákvörðun Fiskistofu um að hafna að taka tillit til tafa Hoffells SU-80 frá veiðum 1. janúar 2001 til 10. ágúst 2001, samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, vegna viðgerða, við úthlutun aflaheimilda í kolmunna samkvæmt reglugerð nr. 196/2002.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Loðnuvinnslunni hf. 200.000 krónur í málskostnað.