Hæstiréttur íslands

Mál nr. 621/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
  • Útlendingur


                                                        

Mánudaginn 22. september 2014.

Nr. 621/2014.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi)

gegn

X

(Leifur Runólfsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingar. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. september 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. september 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. september 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. September 2014.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að útlendingur sem kveðst heita Y, fæddur [...], verði úrskurðaður til að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. september 2014, kl. 16:00. Þegar málið var tekið fyrir í þinghaldi í dag kvaðst kærði heita X.

Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir að hinn 11. september 2014 hafi sænskir fangaverðir komið með kærða til landsins í því skyni að afhenda hann íslenskum yfirvöldum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Þá hafi íslenskum yfirvöldum borist tilkynning frá yfirvöldum í Svíþjóð um frestun á framkvæmd flutnings á ætlaðri eiginkonu kærða og tveimur barnungum drengjum hans þar sem þau finnist ekki.

Upphaf málsins sé að rekja til þess að hinn 13. maí 2011 hafi Fjölskyldu- og félagsþjónustan í [...] tekið á móti útlendingi og fjölskyldu hans sem óskuðu hælis og kvaðst hann heita Y, kærði. Í samskiptum Félagsþjónustunnar og kærða hafi fljótlega komið í ljós erfiðleikar sem hafi stigmagnast jafnt og þétt og loks leitt til þess að hinn 29. apríl sl. hafi kærði verið lagður inn á geðdeild Landspítalans vegna gruns um að hann væri haldin alvarlegum geðsjúkdómi. Þá hafi kærði einnig ítrekað lent upp á kant við aðra hælisleitendur í [...] og aðra aðila sem komi að málefnum hælisleitenda í [...].

Fyrir liggi að Útlendingastofnun hafi ákvarðað brottvísun hans af landinu og Innanríkisráðuneytið staðfest þá ákvörðun með úrskurði sínum. Jafnframt hafi verið úrskurðað að beiðni hans um frestun réttaráhrifa væri vísað frá ráðuneytinu þar sem hann hafi yfirgefið landið að eigin frumkvæði. Kærði hafi yfirgefið landið 20. maí sl. að eigin frumkvæði ásamt fjölskyldu sinni þrátt fyrir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefði birt fyrir honum ákvörðun þess efnis að hann skyldi halda sig á ákveðnu svæði og sinna tilkynningaskyldu, sbr. meðfylgjandi ákvörðun 16. maí sl. og ábendingar Hæstaréttar í dómi í máli nr. 327/2014.

Hinn 10. maí sl. hafi lögreglustjórinn á Suðurnesjum farið fram með kröfu þess efnis að kærði skyldi sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 6. júní 2014 kl. 16:00, mál nr. R-152/2014. Lögreglustjóri hafi byggt kröfu sína á því að kærði hefði sýnt af sér hegðun sem gæfi til kynna að af honum stafi hætta og að hann kunni að grípa til frekara ofbeldis eða hótana um ofbeldi gengi hann laus. Fallist hafi verið á kröfu lögreglustjóra í héraðsdómi en kærði hafi kært úrskurðinn og hann verið felldur úr gildi í Hæstarétti, sbr. dóm réttarins í máli nr. 327/2014. Dómurinn hafi talið að fullnægt væri skilyrði 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 en hafnað kröfu lögreglustjóra á þeim forsendum að ekki hefði verið lagt fyrir kærða að halda sig á ákveðnu svæði áður en látið yrði reyna á gæsluvarðhald.

Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald 12. september sl., sbr. úrskurð í máli nr. R-351/2014, sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti Íslands í máli nr. 606/2014.

Krafa lögreglustjórans á Suðurnesjum hinn 10. maí sl. hafi verið byggð á því að kærði hafi stöðu sakbornings í málum sem séu til meðferðar hjá lögreglu og varði m.a. meint brot hans gegn 2. mgr. 218. gr., 233. gr., 244. gr. og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Síðdegis 9. maí 2014 hafi kærði verið útskrifaður af geðdeild Landspítalans þar sem starfsmenn Landspítalans hafi talið öryggi starfsmanna og sjúklinga deildarinnar í hættu vegna veru hans á deildinni.

Lögregluafskipti af kærða frá 11. ágúst 2013 séu eftirfarandi:

Lögreglumál nr. 008-2013-[...], brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga

Í málinu hafi kærði verið kærður til lögreglu vegna meintrar líkamsárásar gegn hælisleitandanum A, hinn 11. ágúst 2013. Atvik málsins hafi verið þau að kærði hafi lent í átökum við framangreindan aðila á heimili aðilans. Hafi þeir báðir hlotið nokkra áverka í slagsmálunum. Málið hafi verið fellt niður af ákæruvaldinu á grundvelli 145. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 þar sem sönnunarstaðan í málinu hafi verið talin vera með þeim hætti að ekki væri unnt að fullyrða hvor hefði ráðist á hvorn. Þó hafi verið ljóst skv. framburði kærða og aðilans og gögnum málsins að átök hafi átt sér stað en þeim hafi ekki borið saman um það hvers vegna og hver hefði átt frumkvæðið af þeim.

Lögreglumál nr. 008-2013-[...], fyrirmælum lögreglu ekki hlýtt

Hinn 12. ágúst 2013 hafi lögreglu borist tilkynning um aðila sem væri með hníf við bensínstöð [...] í [...]. Kærði hafi komið skömmu síðar komið á lögreglustöðina og sagt að hann hefði lent í útistöðum við menn á þeim stað sem lögreglu hafði skömmu áður borist tilkynning um. Enginn hnífur hafi fundist á kærða við komu hans á lögreglustöðina. Kærða hafi í kjölfarið verið bent á að fara til síns heima og halda sig þar. Skömmu síðar hafi lögreglumenn rekist á kærða þar sem hann kvaðst ekki vera á leið heim til sín heldur á gistiheimili í bænum og ekki viljað fylgja fyrirmælum lögreglu um að halda heim á leið. Hann hafi því verið handtekinn og færður á lögreglustöðina þar sem hann hafi verið vistaður í fangaklefa. Kærði hafi ítrekað reynt að skaða sig í fangaklefanum. Þá hafi hann kvartað undan því að fá ekki að taka líf sitt. Kallað hafi verið eftir lækni á lögreglustöðina sem hafi tekið ákvörðun að svipta kærða sjálfræði og hafi hann í kjölfarið verið fluttur á geðdeild Landspítalans en útskrifaður daginn eftir.

Lögreglumál nr. 007-2013-[...], 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga

Hinn 1. nóvember 2013 hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning um yfirstandandi slagsmál í [...] þar sem hnífum hafi verið beitt. Í málinu hafi kærði verið handtekinn ásamt öðrum manni vegna slagsmála sem höfðu brotist út á milli kærða og félaga hans og tveggja annarra manna. Hafi annar árásarþolanna verið stunginn í tvígang með hníf af samverkamanni kærða. 

Lögreglumál nr. 007-2013-[...], 244. gr. almennra hegningarlaga

Hinn 6. desember 2013 hafi lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist tilkynning vegna tveggja manna sem hafi verið staðnir að þjófnaði í verslun [...] í [...]. Um kærða hafi verið ræða ásamt öðrum aðila. Hafi þeir haft íþróttatöskur meðferðis sem hafi verið fullar af meintu þýfi. Jafnframt hafi fundist hnífar á þeim. Kvaðst samverkamaður kærða hafa hnífinn meðferðis til að verja sig en kærði kvaðst hafa hnífinn meðferðis til að gera að fiski.

Lögreglumál nr. 008-2014-[...], 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga

Hinn 30. janúar 2014 hafi lögreglu verið tilkynnt um líkamsárás þar sem kærði hafi verið grunaður um að hafa ráðist á hælisleitanda í [...]. Samkvæmt lýsingum vitna hafi verið um kærða að ræða og hafi hann gengið harkalega í skrokk á brotaþola og sparkað m.a. í höfuð hans. Svo virðist sem árásin hafi verið algerlega tilefnislaus.

Lögreglumál nr. 008-2014-[...], fyrirmælum lögreglu ekki hlýtt og 233. g. almennra hegningarlaga

Hinn 24. mars 2014 hafi lögreglu borist beiðni um aðstoð frá Félagsþjónustu [...] vegna kærða og fjölskyldu hans. Ekkert hefði heyrst frá kærða í nokkrar vikur og hann ekki sinnt fyrirspurnum félagsþjónustunnar. Þá hafi börn kærða ekki farið í leikskóla í nokkurn tíma. Lögregla hafi knúið dyra en ekki fengið svar þó augljóst væri að einhver væri á heimilinu. Lögregla hafi þá kallað til lásasmið sem hafi opnað fyrir lögreglu. Hafi þá komið til átaka við kærða. Kærði hafi verið  handtekinn og færður á lögreglustöð. Við afskiptin hafi kærði hótað starfsmanni félagsþjónustunnar líkamsmeiðingum og hafi starfsmaðurinn lagt fram kæru á hendur honum.

Lögreglumál nr. 008-2014-[...], 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga

Hinn 11. apríl 2014 hafi lögreglu borist ósk um aðstoð frá Félagsþjónustunni í [...] vegna kærða. Við könnun stafsmanna Félagsþjónustunnar á högum hans og fjölskyldu hans hafi komið í ljós að kærði hafi verið í hungurverkfalli. Við skoðun á húsnæði fjölskyldunnar hafi komið í ljós að töluverð eignaspjöll hafi verið unnin á íbúðinni. Sófa hafi verið hent út, skemmdir unnar á útidyrahurð, eldhúsinnréttingu, baðinnréttingu, útveggja klæðningu o.fl. Áætlað tjón vegna eignaspjallanna hafi numið 1.423.779 kr. Eigandi húsnæðisins hafi lagt fram kæru hjá lögreglu vegna eignaspjallanna.

Lögreglumál nr. 008-2014-[...], eftirlit lögreglu með heimilisaðstæðum hjá kærða

Vegna þeirra atvika sem á undan höfðu gengið, einkum yfirlýsinga kærða um hungurverkfall, hafi lögregla haft daglegt eftirlit með kærða og fjölskyldu hans. Sú ákvörðun hafi verið tekin af lögreglu í samráði við félagsmálayfirvöld og Útlendingastofnun. Eftirlitið hafi hafist 16. apríl sl. og staðið til 29. apríl s.m. er kærði hafi verið lagður inn á geðdeild. Eftirlitið hafi í upphafi farið vel fram og kærði verið samvinnufús. Eftir því sem leið á eftirlitið hafi orðið breyting á þeirri samvinnu. Hinn 29. apríl sl. hafi lögreglu borist ósk um aðstoð frá félagsmálayfirvöldum í [...] þar sem til hafi staðið að fara inn í íbúðina til að laga leka í eldhúsi. Við skoðun á íbúðinni hafi mátt sjá að búið hafi verið að vinna miklar skemmdir á íbúðinni til viðbótar við þær skemmdir sem kærðar höfðu verið í lögreglumáli nr. 008-2014-[...]. Þá hafi starfsmaður félagsþjónustunnar einnig komið að logandi sprittkerti á blaðabunka.

Lögreglumál nr. 008-2014-[...], 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga

Í þágu ofangreinds máls, vegna tilkynningar starfsmanns Félagsþjónustunnar um meint eignaspjöll og hugsanlega tilraun til íkveikju, hafi kærði verið handtekinn og vistaður í fangaklefa. Er lögregla hafi komið að kærða skömmu síðar í fangaklefanum hafi hann reynt að bíta sig í úlnliðinn við púls þannig að úr blæddi. Skömmu síðar hafi svo verið komið að kærða þar sem hann hafi verið búinn að vefja teppi utan um hálsinn á sér og hert að. Hann hafi svo skallað höfði sínu í veggi fangaklefans. Kærði hafi verið færður á geðdeild.

Vist kærða á geðdeild

Í fyrstu hafi verið grunur um alvarlegt geðrof hjá kærða. Eftir því sem leið á dvöl hans hafi læknar talið að kærði væri ekki geðveikur í þeim skilningi að nauðsynlegt væri að nauðungarvista hann lengur en til 12. maí 2014. Eftir nokkra daga á geðdeild hafi kærði verið farinn að sýna af sér ógnandi hegðun í garð starfsfólks og sjúklinga. Af þeim sökum hafi lögregla verið kölluð til 9. maí sl. Hafi kærði ekki viljað sætta sig við þann kvöldmat sem honum hafi staðið til boða og gripið gítar sem hann hafi sveiflað í kringum sig uns hann hafi kastað honum í áttina að stafsmanni deildarinnar. Hafi gítarinn lent á vegg skammt frá starfsmanninum og brotnað. Hafi atvikið verið litið alvarlegum augum og starfsmenn deildarinnar ekki treyst sér til að vista kærða lengur af ótta við hann.

Ferill erlendis

Samkvæmt upplýsingum frá Interpol í Danmörku sé kærði þekktur af þarlendum lögregluyfirvöldum vegna ofbeldismála. Kærði sé þekktur af þarlendum yfirvöldum undir öðru nafni og öðrum fæðingardegi. Skv. upplýsingum frá dönsku lögreglunni sé kærði þekktur þar í landi undir nafninu Z, fæddur [...]. Hafi samanburður á fingraförum leitt í ljós að um sama aðilann væri að ræða þrátt fyrir mismunandi nöfn og fæðingardag.

Fyrir skömmu hafi íslensk yfirvöld fengið staðfestingu frá Interpol í [...] að Y héti raunverulega X, fæddur [...], ríkisborgari [...].  Hann hafi breytt nafni sínu 10. febrúar 2004, en heitið áður Z og haft sömu kennitölu. Þá hafi jafnframt komið fram í þeim upplýsingum að hann hefði kvænst B, fædd [...] sem hefði fengið við það tilefni nafnið B. Talið sé að hún gangi undir nafninu C, fædd [...] í Evrópu. Þá hafi komið fram í upplýsingunum að 8. maí 2014 hefði hann lagt fram fæðingavottorð fyrir son sinn, D, fæddur [...] en talið sé að barnið gangi undir nafninu E, fæddur [...] í Evrópu. Kærði og ætluð eiginkona hans muni hafa eignast annað barn sitt hér á landi, að nafni F. 

Hinn 12. september sl. hafi lögreglumenn frá embætti ríkislögreglustjóra farið í [...] sendiráðið í Reykjavík til að afla feraðskilríkja fyrir X. Í viðtali við starfsmann sendiráðsins hafi komið fram að X hafi komið í sendiráðið fyrir um ári síðan (2013). Hann hafi afhent starfsmönnum þar ljósrit af vegabréfi sínu nr. [...], með nafninu X, fæddur [...], útgáfudagur [...]. Starfsmaður sendiráðsins hafi ekki getað staðfest að ljósritið væri af raunverulegu vegabréfi. Alþjóðadeild hafi fengið afrit af þessu ljósriti og fylgi það gögnum málsins.

Í þeim viðtölum sem kærði hafi átt við starfsmenn félagsþjónustunnar í [...], starfsmenn Útlendingastofnunar og við lögreglu hafi kærði hvorki greint frá því að hann gangi undir öðru nafni í Danmörku né að hann hafi komist í kast við þarlend löggæsluyfirvöld vegna ofbeldismála. Þá hafi hann borið um það við fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfunnar 12. september sl. að hann heiti Y og hann hefði aldrei heyrt X nafnsins getið.

Með vísan til framangreinds sé það mat lögreglustjórans á Suðurnesjum að rökstuddur grunur sé fyrir því að kærði hafi vísvitandi gefið hérlendum yfirvöldum rangar upplýsingar um það hver hann er í þeim tilgangi að leyna fortíðinni sinni.

Kröfu þessa byggir lögreglustjóri á 7. mgr. gr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002 og b-lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Af framansögðu og með vísan til gagna málsins telji lögregla rökstuddan grun til að ætla að kærði gefi rangar upplýsingar um hver hann er og hann hafi sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum stafi hætta og kunni að grípa til frekari ofbeldis eða hótana um ofbeldi gangi hann laus. Þá sé jafnframt vísað til meðfylgjandi hættumats greiningardeildar ríkislögreglustjóra. Sé það jafnframt mat lögreglustjóra að ætla megi að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar, enda hafi hann sýnt það að hann virði ekki tilkynningaskyldu. Þá hafi kærði borið um það í framburðarskýrslu að vilja yfirgefa landið.

Með vísan til alls framangreinds, dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 606/2014, gagna málsins, 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008 og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, telur lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til föstudagsins 26. september 2014, kl. 16:00.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið og gögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um ýmis brot sem fangelsisrefsing er lögð við. Má ætla að hann reyni að koma sér úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan hugsanlegri málsókn eða refsingu gangi hann laus. Þá er rökstuddur grunur um að kærði gefi rangar upplýsingar um hver hann er og að hætta stafi af honum. Að öllu þessu virtu og með vísan til 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, með síðari breytingum, og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti gæsluvarðhaldi, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Útlendingar sá sem kveðst heita Y eða X skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 26. september 2014, kl. 16:00.