Hæstiréttur íslands

Mál nr. 10/2003


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamsmeiðing af gáleysi


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. maí 2003.

Nr. 10/2003.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Valdimar Jónssyni

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamsmeiðing af gáleysi.

Bifreiðarstjórinn V var sakfelldur fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa ekið strætisvagni gegn rauðu ljósi með þeim afleiðingum að harður árekstur varð við fólksbifreið þannig að farþegi í þeirri bifreið hlaut alvarleg líkamsmeiðsl og ökumaður hennar nokkra áverka. Var V gert að greiða 80.000 króna sekt í ríkissjóð, en sæta ella fangelsi í 26 daga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. desember 2002 að fengnu áfrýjunarleyfi í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og hann sviptur ökurétti.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðna Á. Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, 175.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2002.

   Málið er höfðað með ákæruskjali, dagsettu 27. ágúst 2002, á hendur:

   Valdimar Jónssyni, kt. 070242-7299,

   Hólabergi 48, Reykjavík,

,,fyrir hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa, þriðjudaginn 1. janúar 2002, á leið vestur Stórhöfða í Reykjavík, við gatnamótin við Gullinbrú og Höfðabakka, ekið bifreiðinni R-14160 of hratt miðað við aðstæður að gatnamótunum, stórri og þungri bifreið á blautum vegi að gangbrautum við gatnamót í þéttbýli, án nægjanlegrar aðgæslu og gegn rauðu ljósi þar með þeim afleiðingum að harður árekstur varð við bifreiðina A-712, sem ekið var austur Stórhöfða og beygt norður Gullinbrú, farþegi í þeirri bifreið, Róbert Gerald Jónsson, fæddur 10. september 1984, hlaut mörg rifbrot með loftbrjósti, mjaðmargrindarbrot, spjaldhryggjarbrot, blæðingu inn í lifur og bólgu í eista og ökumaður hennar hlaut nokkra áverka.

Telst þetta varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 25. gr. og 1. mgr. og a-, c-, d- og h-liði 2. mgr. 36. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993.”

   Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og málskostnaður þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda greiðist úr ríkissjóði.

Málavextir.

   Þriðjudaginn 1. janúar 2000 kl. 17.27 var tilkynnt um alvarlegt umferðarslys á gatnamótum Höfðabakka og Stórhöfða í Reykjavík.  Samkvæmt lögregluskýrslu varð slysið með þeim hætti að fólksbifreiðinni A-712 var ekið austur Stórhöfða og beygt til vinstri áleiðis norður Gullinbrú.  Bifreiðinni R-14160, sem er strætisvagn, var í sömu mund ekið vestur Stórhöfða.  Varð árekstur með ökutækjunum á gatnamótunum með þeim hætti að hægri framendi strætisvagnsins rakst á hægri hlið fólksbifreiðarinnar.  Við áreksturinn snerist fólksbifreiðin og kastaðist inn á akbraut Gullinbrúar til suðurs, en þar stöðvaðist hún á vinstri akreininni með akstursstefnu til suðvesturs.  Bifreiðin mun einnig hafa rekist á hægri hlið strætisvagnsins er hún snerist.  Strætisvagninn stöðvaðist vestan gatnamótanna, þar sem aðrein að Gullinbrú til suðurs kemur inn á Stórhöfða til vesturs.  Lögregla kom fljótlega á vettvang ásamt sjúkrabifreið og lækni, en farþegi í fólksbifreiðinni, Róbert Gerald Jónsson, lá þá á götunni.  Sjáanleg hemlaför strætisvagnsins mældust 10,7 m eftir hægra hjól og 11,9 eftir vinstra hjól.  Mælt var í afturenda bifreiðarinnar, en ökumaður, sem er ákærði í málinu og var einn í vagninum þegar slysið var, bar að hann hefði bakkað eftir áreksturinn til að teppa ekki umferð. Ekki voru sjáanleg nein hemlaför eftir fólksbifreiðina. 

Umferð um gatnamót Gullinbrúr, Höfðabakka og Stórhöfða er stýrt með umferðarljósum.  Gilda sömu ljós fyrir umferð austur og vestur Stórhöfða, það er fyrir aksturstefnur umræddra bifreiða, og kváðust ökumenn beggja ökutækjanna, samkvæmt lögregluskýrslu, hafa ekið inn á nefnd gatnamót á móti gulu ljósi.  Á Gullinbrú, við gatnamótin við Höfðabakka/Stórhöfða, eru þrjár akreinar, tvær vestari akreinarnar eru fyrir umferð áfram til suðurs, það er hægri og vinstri akrein, en sú þriðja og austasta er fyrir umferð í vinstri beygju inn á Stórhöfða til austurs.  Umrætt sinn var engin bifreið á vinstri akrein, það er á þeirri akrein sem fólksbifreiðin stöðvaðist á eftir áreksturinn, heldur aðeins á hinum tveimur. Umrætt sinn var myrkur og yfirborð vegar blautt.

   Haft var samband við vitni á staðnum og bar þeim saman um að þeim hefði fundist að strætisvagninum hafi verið ekið hratt inn í gatnamótin.  Farþegi bifreiðarinnar A-712, Róbert Gerald Jónsson, var færður á slysadeild Landspítala háskólasjúkrahúss og leiddi röntgenrannsókn í ljós mörg rifbrot hægra megin og loftbrjóst.  Sneiðmynd af brjóstholi og kvið sýndi sömu áverka hægra megin á brjóstholi, en einnig kom í ljós brot á mjaðmagrind og brot á spjaldhrygg hægra megin.  Lítilsháttar blæðing sást yfir lifur. 

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

   Ákærði kvaðst umrætt sinn hafa ekið umrætt sinn vestur Stórhöfða.  Þessa leið hafi hann ekið sem strætisvagnstjóri í sex mánuði í tveggja ára starfi sem vagnstjóri.  Þegar um 10 metrar hafi verið eftir að umferðarljósunum á gatnamótum við Höfðabakka hafi skipt yfir í gult.  Hann hafi ekið áfram á 45-50 km hraða og hafi gult ljós logað þegar hann ók inn á gatnamótin.  Hann hafi séð fólksbifreiðina koma úr gagnstæðri átt síðar inn á gatnamótin og hafi henni verið ekið nokkuð hratt.  Taldi hann að bifreiðinni myndi vera ekið áfram austur Stórhöfða en engin akreinaskipti eru fyrir akstursstefnu bifreiðar í þá átt.  Þegar um 3-4 metrar hafi verið milli bifreiðanna hafi fólksbifreiðinni verið beygt í veg fyrir strætisvagninn án þess að gefin væru stefnuljós.  Ákærði kvaðst hafa hemlað en árekstri hafi ekki verið afstýrt. Síðan hafi hann sleppt hemlum og bifreiðin runnið eitthvað áfram og upp á kant.  Hann hafi þá bakkað bifreiðinni örlítið til að greiða fyrir umferð um aðrein. 

   Vitnið, Jón Ingi Björnsson, kvaðst hafa ekið fólksbifreiðinni umrætt sinn austur Stórhöfða.  Hann hafi ekið út á gatnamótin á 40-50 km hraða á undan vagninum en hann hafði séð ljós hans í fjarska.  Hann kveðst vera þess fullviss að hann hafi ekið á móti gulu ljósi og talið að strætisvagninn myndi stöðva við umferðarljósin.  Hann kvaðst ekki muna hvort hann notaði stefnuljós áður en hann beygði norður Gullinbrú en þá hafi hann séð strætisvagninn augnabliki áður en áreksturinn varð.  Í frumskýrslu lögreglu er haft eftir vitninu að hann hafi ekki gefið stefnumerki vegna fyrirhugaðrar vinstri beygju.  Í skýrslu sem tekin var af honum hjá lögreglu 29. janúar 2002 kvaðst hann ekki muna hvort hann gaf stefnumerki til vinstri, en slit hafi verið í rofanum og þau stundum viljað detta af.

   Vitnið, Róbert Gerald Jónsson, kvaðst hafa verið í farþegasæti fólksbifreiðarinnar umrætt sinn.  Hann kvaðst ekkert muna eftir árekstrinum eða aðdraganda hans.  Hann lýsti ástandi sínu í dag svo að hann hafi ekki náð fullum bata og eigi erfitt með ýmsar hreyfingar en hann stundi nú líkamsæfingar til að styrkja sig.  Læknismeðferð sé hins vegar lokið að sinni. 

   Vitnið, Ásdís Sigurjónsdóttir, kvaðst hafa setið sem farþegi í bifreið á bílastæði á leið út á Stórhöfða.  Hún hafi veitt strætisvagninum athygli þegar ökumaður bifreiðarinnar hafi ætlað að fara að beygja út í götuna.  Þrátt fyrir að hann væri talsvert í burtu hafi hún beðið ökumanninn að fara ekki út á götuna þar sem vagninn væri á mikilli ferð.  Hún hafi fylgst með vagninum þegar hann fór framhjá á mikilli ferð.  Vitnið taldi að vagninn hafi átt eftir um 1-2 metrar í stöðvunarlínuna þegar rautt ljós kviknaði en þó kveðst hún ekki viss á fjarlægðum.  Vagninum hafi hins vegar verið ekið áfram.  Það hafi vakið athygli hennar hversu mikilli ferð var á vagninn en gula ljósið hefði logað um stund en vagninum hafi verið ekið inn á gatnamótin á sama hraða eftir að rauða ljósið kviknaði.  Hún hafi litið eftir umferð þegar hún sá vagninn fara yfir á rauðu ljósi og séð litla bifreið sem var að beygja niður Gullinbrúna en síðan hafi áreksturinn orðið.

   Vitnið, Gunnar Ísdal Pétursson, kvaðst hafa ætlað að aka út af bifreiðastæði á horni Stórhöfða/Höfðabakka og séð strætisvagninn koma á töluvert mikilli ferð.  Hann kvaðst ekki geta sagt til um hraðann en það væri ekki spurning um að honum hafi verið ekið yfir leyfilegum hraða.  Taldi hann að rautt ljós hafi kviknað þegar vagninn hafi átti eftir um 2-3 metra að stöðvunarlínu.  Hann hafi síðan séð þegar vagninn lenti á fólksbifreiðinni.

   Vitnið, Bjarni Fannar Bjarnason, kvaðst hafa setið í aftursæti bifreiðar sem Gunnar Ísdal ók og séð þegar strætisvagninn kom eftir Stórhöfða.  Hafi hann fylgst með vagninum á meðan honum var ekið fram hjá bifreiðinni.  Engin tilraun hafi verið gerð til að stöðva vagninn þegar rautt ljós kviknaði en þá hafi hann átt eftir 4-5 metra að stöðvunarlínu.  Vitnið taldi að vagninum hefði verið ekið of hratt.  Vitnið kvaðst hafa séð fólksbifreiðina í þann mund er henni var beygt í veg fyrir strætisvagninn. 

   Vitnið, Sigurður Sigurðsson strætisvagnstjóri, kvaðst hafa umrætt sinn verið við beygju inn í Stórhöfða og séð þegar fólksbifreiðinni var ekið hratt inn á gatnamótin og beygt í veg fyrir strætisvagninn án þess að gefa stefnuljós.  Kvaðst vitnið hafa séð að rautt umferðarljós hafi logað á akstursstefnu fólksbifreiðarinnar en grænt og gult á akstursstefnu strætisvagnsins þegar bifreiðunum var ekið yfir viðkomandi gatnamót. 

   Vitnið, Már Elías Meyvant Halldórsson, kvaðst hafa ekið í áttina að Stórhöfða yfir Gullinbrú.  Hann hafi séð strætisvagninum ekið yfir gatnamótin og hann síðan stöðvast upp á umferðareyju.  Þá hafi rautt ljós logað á móti vitninu.  Hann hafi ekki séð áreksturinn sjálfan.

Rannsóknarlögreglumennirnir Birgir Straumfjörð Jóhannsson og Guðlaugur Einarsson komu fyrir dóminn og staðfestu skýrslur sem þeir tóku í málinu.  Ekki er ástæða til að rekja framburðinn frekar.

Niðurstaða.

Í málinu er óumdeilt að áreksturinn varð með þeim hætti að báðum bifreiðunum var ekið eftir Stórhöfða, fólksbifreiðinni til austurs en strætisvagninum, sem ákærði ók, til vesturs.  Ökumenn beggja bifreiðanna telja að þeir hafi ekið yfir gatnamótin á móti gulu ljósi.  Ákærði heldur því fram að hann hafi átt eftir um 10 metra að umferðarljósunum þegar gult ljós kviknaði fyrir aksturstefnu hans og hafi hann ekið á 45-50 km hraða inn á gatnamótin á móti því ljósi.  Hann ber að hann hafi séð til ferða fólksbifreiðarinnar og talið að henni yrði ekið austur Stórhöfða þegar henni var skyndilega beygt þvert á aksturstefnu hans án þess að stefnuljós væri gefið.  Framburður ökumanns fólksbifreiðarinnar, Jóns Inga, hefur verið nokkuð á reiki um notkun stefnuljóss en fyrir dóminum kvaðst hann ekki muna hvort hann gaf stefnuljós eða ekki.  Þykir verða að ganga út frá því að bifreiðinni hafi verið beygt án þess að ökumaður hennar gæfi stefnuljós enda styður framburður vitna það. 

   Vitnin, Ásdís, Gunnar Ísdal og Bjarni Fannar, hafa lýst því fyrir dóminum að þau hafi fylgst með strætisvagninum þar sem honum var ekið eftir Stórhöfða að gatnamótunum.  Er framburður þeirra samhljóða um að skipt hafi yfir á rautt umferðarljós á móti aksturstefnu vagnsins þegar hann átti eftir nokkra metra að gatnamótunum.  Engin tilraun hafi verið gerð til að stöðva vagninn en hann hafi verið á mikilli ferð.  Vitnin voru í góðri aðstöðu til að fylgjast með akstri vagnsins þar sem þau sátu í bifreið skammt frá gatnamótunum og biðu þess að komast inn á götuna. Framburður þeirra er samhljóða og trúverðugur í alla staði.  Þykir full sönnun fram komin um að ákærði hafi ekið gegn rauðu ljósi og of hratt miðað við aðstæður eins og í ákæru greinir. Þar sem rauð ljós loga samtímis um stund fyrir akstur Höfðabakka/Stórhöfða gengur framburður þeirra ekki gegn framburði Más Meyvants sem kvað rautt ljós hafa logað í akstursstefnu hans þegar vagninum var ekið yfir gatnamótin.  Dómurinn telur því að áreksturinn verði að mestu rakinn til gáleysislegrar háttsemi ákærða.  Óumdeilt er að afleiðingar hans urðu þær sem í ákæru greinir.  Þykir háttsemi ákærða því rétt lýst í ákæru og brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.

Ákærði hefur samkvæmt sakarvottorði tvívegis gengist undir sátt fyrir umferðarlagabrot en hvorugt þeirra brota hefur áhrif á mat refsingar í máli þessu.

Samkvæmt því þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 80.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 26 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

   Þess er krafist í ákæru að ákærði verði sviptur ökurétti sbr. 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1991.  Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga skal svipta mann ökurétti ef hann hefur orðið sekur um mjög vítaverðan akstur eða ef telja verður, með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans sem ökumanns vélknúins ökutækis, varhugavert að hann stjórni vélknúnu ökutæki.  Það er mat dómsins að alls óvíst sé hvort ákærði hefði hagað akstri sínum svo sem hann gerði hefði honum verið ljós leið fólksbifreiðarinnar af stefnumerkjum.  Með hliðsjón af því verður ekki talið að brot hans falli undir hugtakið „mjög vítaverður akstur” þannig að rétt sé að svipta hann ökurétti jafnhliða sektarrefsingu. Hann er því sýknaður af kröfunni um sviptingu ökuréttar.

   Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar héraðsdómslögmanns, 50.000 krónur.

   Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Þorsteini Skúlasyni fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík.

   Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

   Ákærði, Valdimar Jónsson, greiði 80.000 króna sekt í ríkissjóð en sæti ella 26 daga fangelsi verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Baldurssonar héraðsdómslögmanns, 50.000 krónur.