Hæstiréttur íslands

Mál nr. 139/2012


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Riftun
  • Óvenjulegur greiðslueyrir
  • Endurgreiðslukrafa


Fimmtudaginn 6. desember 2012.

Nr. 139/2012.

Tryggingamiðstöðin hf.

(Bjarki H. Diego hrl.)

gegn

VBS eignasafni hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Riftun. Óvenjulegur greiðslueyrir. Endurgreiðslukrafa.

V hf. krafðist riftunar á greiðslu skuldar félagsins við T hf., sem fram fór 24. nóvember 2009, með afsali til T hf. á hlutum V hf. í N ehf., auk endurgreiðslu á því sem greitt hafði verið. Byggði V hf. riftunarkröfu sína m.a. á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri. T hf. byggði sýknukröfu sína m.a. á því að V hf. hafi ekki orðið fyrir fjártjóni þar sem félagið hafi með samkomulagi 9. nóvember 2009, sama dag og samningur um kaup T hf. á hlutum V hf. í N ehf. var gerður, fellt niður eftirstöðvar og áfallna vexti af nánar greindum kröfum á hendur V hf. og aflétt veði af tiltekinni fasteign og veðskuldabréfum. Hæstiréttur taldi T hf. ekki hafa fært sönnur á að ráðstafanir samkvæmt samkomulaginu hafi dregið úr tjóni því sem löglíkur væru á að V hf. hafi orðið fyrir við sölu á umræddum hlutum og T hf. notið samsvarandi auðgunar. Með vísan til þessa staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að uppfyllt væru skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um riftun á greiðslu skuldarinnar og 1. mgr. 142. gr. laganna um endurgreiðslu þess sem greitt hafði verið.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. mars 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, til vara að viðurkennd verði krafa hans „um skil á 160.250.000 hlutum í Nesvöllum ehf.“, en að því frágengnu að krafa stefnda verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hefur heiti stefnda breyst úr VBS fjarfestingarbanka hf. í VBS eignasafn hf.

Áfrýjandi reisir kröfur sínar um sýknu og lækkun á kröfu stefnda meðal annars á því að með samkomulagi 9. nóvember 2009, sama dag og samningur um kaup áfrýjanda á hlutum stefnda í Nesvöllum ehf. var gerður, hafi hann fellt niður eftirstöðvar og áfallna vexti af nánar greindum kröfum á hendur stefnda og aflétt veði af tiltekinni fasteign og veðskuldabréfum. Með þessu hafi stefndi ekki orðið fyrir fjártjóni af því að selja áfrýjanda fyrrgreinda hluti eða að minnsta kosti hafi tjón hans af þessum sökum orðið minna en ella og því beri að sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda eða lækka hana, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Áfrýjandi hefur ekki fært sönnur á að ráðstafanir samkvæmt áðurnefndu samkomulagi aðila hafi dregið úr því tjóni sem löglíkur eru á að stefndi hafi orðið fyrir við sölu á umræddum hlutum og áfrýjandi hafi notið samsvarandi auðgunar. Er þá óþarft að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu stefnda að áfrýjanda hafi verið kunnugt um riftanleika kaupanna á hlutunum. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnda, VBS eignasafni hf., 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 18. janúar sl. var höfðað 27. janúar 2011.

Stefnandi er VBS fjárfestingarbanki hf., Suðurlandsbraut 22, Reykjavík.

Stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þær að rift verði með dómi greiðslu á skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð 160.250.000 krónur sem fór fram með afsali á hlutum stefnanda í Nesjavöllum ehf., kt. 600905-1980, til stefnda hinn 24. nóvember 2009, að nafnvirði 160.250.000 krónur.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 160.250.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. nóvember 2009 til 1. nóvember 2010 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga, sbr. 6. gr. og 9. gr. s.l. frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er þess krafist að stefndi greiði stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og að tekið verði tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Til vara krefst stefndi þess að krafa hans um skil á 160.250.000 hlutum í Nesvöllum ehf. verði viðurkennd með dómi.

Til þrautavara krefst stefndi lækkunar á fjárkröfum stefnanda.

Í öllum tilvikum krefst stefndi þess að sér verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, þ.m.t. vegna kostnaðar af virðisaukaskattskyldu lögmannsþjónustu og verði þá tekið tillit til þess að stefndi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Málavextir

Hinn 3. mars 2010 skipaði Fjármálaeftirlitið bráðabirgðastjórn í VBS fjárfestingarbanka hf. (VBS) með heimild í 100. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009. Hinn 9. apríl 2010 var VBS tekið til slitameðferðar og skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn samkvæmt heimild í 4. mgr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Telst 3. mars 2010 vera frestdagur í skilningi 2. gr. laga um gjaldþrotaskipti, sbr. 101. gr. i.f. laga um fjármálafyrirtæki.

Í samræmi við 2. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki var gefin út innköllun til kröfuhafa og var lýst kröfum í slitabú stefnanda. Kveður stefnandi að kröfum að fjárhæð um 48 milljarðar króna hafi verið lýst í búið, þar af hafi sérstakar og veðsettar kröfur numið um 33 milljörðum. Lýstar almennar kröfur séu taldar vera um það bil 900 milljónir króna miðað við ætlað markaðsvirði óveðsettra eigna bankans. Sé því ljóst að stefnandi eigi ekki fyrir þeim skuldbindingum sem á honum hvíli.

Hinn 9. nóvember 2009 gerðu VBS fjárfestingarbanki hf. og Tryggingamiðstöðin hf. með sér kaupsamning um kaup stefnda á öllum hlutum VBS í Nesvöllum ehf. fyrir 160.250.000 krónur og skyldi stefnandi afhenda stefnda hina seldu hluti veðbanda- og kvaðalausa við undirritun afsals. Á þessum tíma átti stefnandi aðeins óbeinan eignarétt í hlutunum í Nesjavöllum ehf. á grundvelli handveðssamnings og var framsal hlutanna því háð innlausn hlutanna frá veðsala en sá var í skuld við stefnanda.  Sagði í kaupsamningnum að stefndi skyldi í tengslum við kaupin samþykkja afléttingu veðrétta sem stefndi hefði í 32 skuldabréfum í eigu stefnanda sem útgefin voru af Stórási ehf. og tryggð voru með 2. veðrétti í þeirri fasteign, en stofnað hafði verið til þeirrar veðsteningar hinn 30. september 2009 til tryggingar eldri skuld stefnanda við stefnda.

Kaupverð hins selda var 160.250.000 krónur og skyldi greiða „…með lækkun skuldar við kaupanda, skv. gr. 1.1 samkomulags milli seljanda og kaupanda, dags. 18. maí 2009, sbr. viðauki dags. 30. september 2009, upphaflega að fjárhæð 197.500.000…“ Stefndi hafði um langt skeið reynt að innheimta kröfur á hendur stefnanda sem eru til komnar vegna lánveitingar til hans í ársbyrjun 2008 sem slitastjórn stefnanda telur að hafi tengst samkomulagi stjórnenda VBS og FL group hf. um að stefnandi skyldi kaupa hlutabréf í FL group hf. sem skráð voru í kauphöll. Stefndi er og var þá í eigu FL group hf. Hafi samkomulagið frá 18. maí 2009 sem vísað sé til í kaupsamningnum um uppgjör á þeirri skuld verið gert til uppgjörs á framlagi stefnda til stefnanda sem nýtt hafi verið til kaupa stefnanda á hlutabréfum í FL group hf.

Þá sagði í kaupsamningnum að stefndi hefði kynnt sér eigna- og skuldastöðu Nesvalla ehf. miðað við 30. júní 2009. Í framhaldinu hafi stefnandi leyst til sín hlutina í Nesvöllum ehf. og afsalað þeim hinn 24. nóvember 2009 til stefnda í samræmi við ákvæði kaupsamningsins., Stefndi greiddi því stefnanda ekki kaupverðið,160.250.000 krónur, heldur tók undir sig hlutina í Nesvöllum ehf. sem greiðslu á samsvarandi skuldum stefnanda við stefnda, eins og kaupsamningurinn kvað á um. Í kjölfar þessa tók fulltrúi stefnda sæti í stjórn Nesvalla ehf. og kom stefnandi því aldrei að rekstri þess félags.

Í ljósi slitameðferðar stefnanda og ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. og XX. kafla laganna ákvað slitastjórn stefnanda að rifta framangreindri greiðslu með bréfin hinn 1. október 2010 á þeim grundvelli að greiðslan félli undir ákvæði 134. gr. gjaldþrotalaganna, sbr. og 141. gr. s.l. og að í raun hefði falist í þessum löggerningi greiðsla á skuld með óvenjulegum greiðslueyri, sbr. og að stefnda hefði verið fullkunnugt um bága fjárhagsstöðu stefnanda á þeim tíma er greiðslan fór fram. Stefndi, sem móttók riftunarbréfið 1. október 2010, hafnaði riftunarkröfu stefnanda með bréfi, dags. 15. október 2010. Áttu lögmenn aðila sáttafundi án árangurs.

Með bréfi hinn 30. desember 2010 krafðist stefndi þess að mega skila stefnanda hlutunum í Nesvöllum ehf. til stefnanda með vísan til 144. gr. laga nr. 21/1991 og sagði m.a. í bréfinu að ljóst væri að „…ef jafna skuli greiðslur eftir því sem þarf með peningagreiðslum sbr. niðurlag 144. gr. l. 21/1991, á TM kröfu á hendur VBS, en ekki öfugt,vegna þess kostnaðar sem TM hefur haft af eignarhaldinu…“ Túlkar stefnandi þessa kröfu þannig að þrátt fyrir afstöðu sína í bréfi 15. október 2010 hafi stefndi fallist á riftunarkröfu stefnanda og geri því ekki ágreining um annað en hvort skila megi bréfunum aftur til stefnanda og losna þannig undan kröfum stefnanda. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda.

Með bréfi 7. janúar 2011 hafnaði stefnandi kröfu stefnda um skil á hlutunum í Nesvöllum ehf., m.a. með þeim rökum að í tilkynningu sinni, dags. 1. október 2010, til stefnda hefði stefnandi lýst yfir riftun á þeirri ráðstöfun sem fór fram með afsali hlutanna til TM ehf., en í riftunartilkynningunni hafi ekki falist krafa um skil á hlutunum sem slíkum heldur krafa um að endurgjald fyrir hlutina yrði greitt til stefnanda. Þá benti stefnandi á að hlutirnir í Nesvöllum ehf. hefðu rýrnað verulega á tímabilinu.

Af hálfu stefnanda var bent á að samkvæmt ársreikningi Nesvalla ehf. fyrir árið 2009, sem dags. er 17. mars 2010, hafi hlutafé félagsins verið aukið á árinu 2009 á genginu 1:0 um 80 milljónir króna og verði því ályktað að nafnverð hlutanna, 160.000.000 króna, hafi endurspeglað sannvirði bréfanna er þeim var afsalað til stefnda ehf. Þá hafi stefnandi haft upplýsingar um það frá Ingva Jónassyni stjórnarformanni Nesvalla ehf. að félagið væri í talsverðum rekstrarerfiðleikum og ef ekki fengist nýtt fé til félagsins myndi það að líkindum fara í gjaldþrot. Með hliðsjón af víðtækri þekkingu stefnda á málefnum Nesvalla ehf., m.a. í gegnum fulltrúa sinn í stjórn þess, geti stefndi fráleitt borið fyrir sig að verðmæti hlutanna hafi ekki rýrnað frá árinu 2009 er stefndi eignaðist þá. Raunar megi álykta að ákvörðun TM hf. um að freista skilum á hlutunum staðfesti vitneskju félagsins um bága stöðu Nesvalla ehf.

Að endingu hafi því verið lýst yfir að vegna afstöðu stefnda væri stefnandi knúinn til að vísa málinu til dómstóla. Þessu svaraði stefndi engu.

Stefnandi telur að með því að stefndi hafi í raun viðurkennt riftun stefnanda á framangreindri greiðslu en neitað greiðslu á endurgjaldi hlutanna til stefnanda, sé hann knúinn til þess að höfða mál þetta á hendur stefnda til staðfestingar á riftun greiðslunnar og heimtu endurgjaldsins úr hendi stefnda auk vaxta og málskostnaðar.

Í greinargerð stefnda er lýst aðdraganda kaupsamnings er stefndi gerði við VBS fjárfestingarbanka hf. 9. nóvember 2009. Í kjölfar sölu stefnda á hlutabréfum á árunum 2007 og 2008 og vegna sterkrar lausafjárstöðu kveðst stefndi hafa leitað eftir tilboðum frá fjármálafyrirtækjum á Íslandi um innlánakjör sem leitt hafi til þess að stefndi hafi lagt inn skammtímainnlán hjá stefnanda. Sú ákvörðun stefnda að leggja peningamarkaðsinnlán til stefnanda hafi verið reist á þeirri trú fyrirsvarsmanna stefnda að staða stefnanda væri traust samanborið við önnur innlend fjármálafyrirtæki.

Um og eftir bankahrun í október 2008 reyndist stefnanda ekki unnt að greiða stefnda til baka umrædd peningamarkaðsinnlán, þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir stefnda og hafi stefndi þá hafið lögfræðiinnheimtu á hendur stefnanda.

Í kjölfar samkomulags stefnanda við ríkissjóð um skuldbindingar stefnanda, hafi aðilar leitað leiða til að fá efndir kröfu stefnda á hendur stefnanda með samkomulagi aðila. Ljóst hafi verið á þeim tíma að stefnandi gat ekki, frekar en fjármálafyrirtæki almennt, gert upp allar skuldbindingar sínar með handbæru fé. Hafi því verið gert samkomulag með aðilum um uppgjör á skuldbindingum stefnanda við stefnda hinn 18. maí 2009. Viðaukar við þetta samkomulag hafi verið gerðir 30. september og 9. október 2009. Samkomulagið hafi miðað að því að hámarka verðmæti eigna stefnanda til lengri tíma litið og hafi það verið í samræmi við samkomulag við ríkissjóð um skuldbindingar stefnanda, sem allt hafi miðað að því að tryggja hagsmuni stefnanda til lengri tíma litið til sameiginlegra hagsbóta fyrir stefnanda sjálfan, viðskiptavini, hluthafa og kröfuhafa.

Á þeim tíma hafi ekki litið út fyrir annað en að rekstur stefnanda væri tryggður til frambúðar, en fram komi í tilkynningu frá stefnanda, sem gefin var út í tilefni samkomulags við ríkissjóðs, að samkomulagið tryggi langtímafjármögnun á meginhluta skulda stefnanda og renni þar með styrkum stoðum undir framtíð hans, hagsmuni viðskiptavina, hluthafa og starfsfólks. Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins, sem gefin var út af sama tilefni, komi m.a. fram að stefnandi starfi undir eftirliti FME og Seðlabanka Íslands og beri að viðhalda viðunandi lausafé og rekstrarhæfi að mati þeirra stofnana. Segi þar jafnframt að verði lausafjárstaða stefnanda óviðunandi að mati Seðlabankans eða CAD-hlutfall stefnanda fari undir 10% á lánstímanum, geti fjármálaráðuneytið sem lánveitandi krafist þess að láninu, eins og það standi þá ásamt vöxtum og kostnaði, verði breytt í hlutafé, m.v. skiptihlutfallið 1. Vegna þess hafi stefndi talið að rekstur stefnanda stæði traustum fótum, m.a. vegna atbeina ríkissjóðs, og ef út af brygði þá myndi ríkissjóður breyta lánum sínum í hlutafé og taka þannig yfir rekstur stefnanda. Í ljósi þessa hafi fyrrgreint samkomulag um uppgjör skulda verið gert. Í trausti fyrrgreinds samkomulags hafi ráðstöfun sú, sem krafist er riftunar á, einnig verið gerð.

Kaupsamningur hafi síðan verið gerður 9. nóvember 2009 um kaup stefnda á öllum hlutum stefnanda í Nesvöllum ehf., en á þeim tíma hafi stefnandi átt veðrétt í nefndum hlutum, samkvæmt handveðssamningi við Fasteignafélagið Þrek ehf. og Eignarhaldsfélagið Þrek ehf., sem voru eigendur hlutanna, en stefnandi hafi þá átt kröfu á hendur Húsanesi ehf., sem tryggð var með veði í umræddum hlutum. Vegna þessa séu ákvæði í kaupsamningi aðila um að stefnandi muni leysa til sín hið selda samkvæmt handveðsyfirlýsingu þar að lútandi.

Krafa stefnanda á hendur Húsanesi ehf., sem tryggð var með handveði í hlutum í Nesvöllum ehf. hafi hins vegar verið veðsett Seðlabanka Íslands samkvæmt veðsamningi sem stefnandi hafði gert við Seðlabankann. Vegna þessa segi í kaupsamningi aðila, sjá grein 3.2. c, að stefnda sé kunnugt um að lánssamningur í eigu stefnanda sé tryggður meðal annars með handveði í hinu selda og að stefnandi hafi lagt framangreindan lánssamning fram sem tryggingu skuldar við ríkissjóð Íslands. Segi jafnframt í umræddri grein: „Í þeim tilgangi að ríkissjóður Íslands gefi út yfirlýsingu til seljanda mun seljandi annars vegar leggja fram eignir þær sem kaupandi afléttir skv. b) lið greinar 3.2. kaupsamnings þessa til tryggingar framangreindri skuld seljanda við ríkissjóð Íslands og aðrar eignir sem kaupandi hefur aflétt skv. samkomulagi milli kaupanda og seljanda dags. 9. 11. 2009.“

Áður en stefnandi framseldi hluti í Nesvöllum ehf. til stefnda hafi hann því þurft að aflétta veði Seðlabanka Íslands vegna kröfu stefnanda á hendur Húsanesi ehf., sem tryggð var með veði í hlutum í Nesvöllum ehf., sbr. yfirlýsing Seðlabanka Íslands, dags. 6. nóvember 2009, en sú staðreynd hafi að mati stefnda grundvallarþýðingu fyrir úrlausn þessa máls.

Gegn því að fá fyrrgreindu veði aflétt og hlutina í Nesvöllum ehf. framselda í kjölfarið, hafi stefnda verið gert að aflétta veði af samtals 32 samhljóða veðskuldabréfum, útgefnum af Stórási ehf., tryggðum með 2. veðrétti í fasteigninni Stórási 4-6, Garðabæ, hverju að fjárhæð 5.000.000 króna.

Í tengslum við fyrrgreindan kaupsamning aðila hafi stefndi jafnframt aflétt veðrétti sínum yfir fasteigninni Borgarbraut 57, Borgarnesi, samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu af stefnanda að fjárhæð 50.000.000 króna, sem tekin hafði verið að veði til tryggingar lánveitingu stefnda til stefnanda að fjárhæð 20.000.000 króna hinn 30. september 2009.

Auk þessa hafi stefndi aflétt veðréttindum yfir þremur samhljóða veðskuldabréfum, útgefnum af Leiguliðum ehf., tryggðum með 1. veðrétti í fasteigninni Ferjuvaði 13-15, Reykjavík, hverju að fjárhæð 4.500.000 krónur, auk þess að fella niður eftirstöðvar fyrrgreindrar lánveitingar að fjárhæð 20.000.000 króna, auk lánveitingar að fjárhæð 197.500.000 krónur, ásamt áföllnum vöxtum af lánveitingunni. Hafi nefnt samkomulag verið háð þeim fyrirvara að kaupsamningur milli stefnanda og stefnda um hluti stefnanda í Nesvöllum ehf. gengi eftir.

Af framangreindu sé ljóst að stefndi hafi bæði fallið frá veðrétti sínum yfir tilgreindum eignum samhliða framsali hluta í Nesvöllum ehf. til hans, sem síðan skyldu veðsettir Seðlabanka Íslands samkvæmt fyrrgreindri grein 3.2.c) í kaupsamningi aðila, auk þess að gefa eftir önnur réttindi sín til fjárkrafna á hendur stefnanda.

Þannig liggi fyrir að umræddir hlutir í Nesvöllum ehf. hefðu ekki verið til reiðu fyrir kröfuhafa stefnanda þar sem þeir voru veðsettir Seðlabanka Íslands og að í raun hafi verið skipt á veðum eða tryggingarréttindum, þar sem Seðlabanki Íslands hafi fengið veðrétt yfir eignum sem áður voru veðsettar stefnda gegn því að falla frá veðréttindum sínum yfir kröfu sem tryggð var með handveði í hinum framseldu hlutum í Nesvöllum ehf.

Hinir framseldu hlutir í Nesvöllum ehf. hefðu þannig ekki verið til reiðu fyrir almenna kröfuhafa stefnanda, auk þess sem stefndi hafi fallið frá bæði kröfu- og veðréttindum sínum í tengslum við kaupsamningsgerð um hluti í félaginu.

Stefndi kveðst hafa mótmælt riftunarkröfu stefnanda með bréfi, dags. 15. október 2010. Samningaviðræður sem aðilar áttu í kjölfarið hafi reynst árangurslausar. Með bréfi, dags. 30. desember sl., hafi stefndi krafist þess að skila umræddum hlutum í Nesvöllum ehf., með vísan til 144. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í umræddri kröfu hafi ekki falist viðurkenning á riftunarkröfu stefnanda heldur hafi þvert á móti verið tekið fram í bréfinu að ekki væri fallist á að fullnægt væri skilyrðum til riftunar, auk þess sem fjárkröfu stefnanda hafi verið sérstaklega mótmælt þar sem fyrir lægi að auðgun stefnda vegna umræddrar kaupsamningsgerðar um hluti í Nesvöllum ehf. væri engin og að tjón þrotabúsins vegna þessa væri augljóslega ekkert. Var jafnframt áskilinn allur réttur vegna þessa.

Í framhaldi af umræddri kröfu um skil hafi fulltrúar stefnda sagt sig úr stjórn Nesvalla ehf.

Kröfu stefnda um skil var hafnað af hálfu stefnanda með bréfi, dags. 7. janúar sl., eins og áður greinir.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst vera fjármálafyrirtæki í slitameðferð samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 9. apríl 2010. Áður, eða hinn 3. mars 2010, hafði stefnandi verið tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu sem skipaði stefnanda bráðabirgðastjórn á grundvelli 100. gr. a laga nr. 161/2002 Samkvæmt 102 gr. laganna gildi meginreglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. í slitameðferð fjármálafyrirtækis og samkvæmt 4. mgr. 103. gr. megi krefjast riftunar á ráðstöfunum eftir sömu reglum og gildi um ráðstafanir þrotamanns við gjaldþrotaskipti, ef sýnt þykir að eignir fyrirtækisins nægi ekki fyrir skuldum þess. Sé málshöfðunarfrestur  24 mánuðir. Frestdagur við skiptin sé 3. mars 2010, þ.e. sama dag og stefnanda var skipuð bráðabirgðastjórn, sbr. 5. mgr. 101 gr. laga nr. 161/2002.

Fyrir liggi að stefnandi eigi ekki fyrir skuldum og sé því heimilt í slitameðferð stefnanda að beita ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til riftunar á ráðstöfunum stefnanda sem falli undir þann kafla.

Stefnandi byggir á því að greiðsla stefnanda til stefnda með hlutum í Nesvöllum ehf. sé riftanleg á grundvelli ákvæða 1. mgr. 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti og 141. gr. sömu laga. Kaupsamningur aðila sé dags. 9. nóvember 2009, um það bil 4 mánuðum fyrir frestdaginn sem hafi verið 3. mars 2010. Samkvæmt samningnum hafi stefnandi skuldbundið sig til að greiða skuld sína við stefnda að fjárhæð 160.250.000 krónur með framsali á hlutum í Nesvöllum ehf. að nafnvirði 160.250.000 krónur þegar stefnandi hefði innleyst þau á grundvelli veðréttar síns. Kaupsamningurinn hafi því verið til málamynda og hafi í raun snúist um að stefnandi skyldi afhenda hluti sína í Nesvöllum ehf. til greiðslu á framangreindri skuld sinni við stefnda. Greiðslan hafi átt sér formlega stað 24. nóvember 2009 er afsal hlutanna til stefnda hafi verið undirritað og þeir afhentir honum til eignar án kvaða.

Stefnandi byggir á því að framsal hlutanna í Nesvöllum ehf. til greiðslu á skuld stefnda fari í bága við 1. mgr. 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti sem kveði á um að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem skert hafi greiðslugetu þrotamanns verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.

Ágreiningslaust sé að framsal hlutanna í Nesvöllum hafi átt sér stað innan við sex mánuði frá frestdegi við slitameðferð stefnanda og eigi tímafrestir 1. mgr. 124. gr. laga um gjaldþrotaskipti því við. Hluti í Nesvöllum ehf. verði að telja óeðlilegan greiðslueyri í þessum viðskiptum aðila enda verði greiðsla á peningakröfum með hlutabréfum, eða andvirði þeirra, ekki almennt talin venjulegur greiðslueyrir í viðskiptum. Þá hafi ekki verið um það samið að skuldina skyldi greiða með hlutum í einkahlutafélagi, eða eftir atvikum, í öðru en reiðufé, þá er til hennar var stofnað. Greiðsla stefnanda geti því ekki talist venjuleg eftir atvikum og alls ekki í ljósi þess að um langa hríð hafði stefnda verið kunnugt um bága fjárhagsstöðu stefnanda. Fari gerningurinn því einnig gegn almennu riftunarreglunni í 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti þar sem greiðslan hafi verið í senn ótilhlýðileg og mismunað einstökum kröfuhöfum stefnanda.

Á grundvelli þessa, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti, beri stefnda að greiða stefnanda það endurgjald sem hann hafi tekið undir sig samkvæmt framangreindum kaupsamningi, auk vaxta eins og krafist er.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að ekki séu lagaskilyrði til riftunar ráðstöfunar þeirrar sem fólst í kaupsamningi aðila, dagsettum 9. nóvember 2009.

Líkt og fram komi í lýsingu á málsatvikum fólst ráðstöfun sú sem krafist er riftunar á í því að stefndi skyldi fá framselda hluti í Nesvöllum ehf. gegn lækkun á skuldum stefnanda við stefnda.

Réttindi stefnanda til umræddra hluta í Nesvöllum ehf. höfðu hins vegar áður verið veðsett Seðlabanka Íslands. Það skilyrði hafi því verið sett fyrir framsali hlutanna til stefnda að hann aflétti samhliða veðrétti sínum yfir eignum sem hann hafði tekið til tryggingar lánveitingum til stefnanda. Vegna þessa var þannig ekki um það að ræða að stefndi tæki til sín eignir gegn lækkun krafna sinna á hendur stefnanda, sem ella hefðu verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, heldur hafi í raun verið um það að ræða að kröfu- og veðhafar skiptu á veðréttindum, þar sem stefndi hafi aflétt veðréttindum sínum yfir eignum, samtals að nafnvirði 223.500.000 krónur, en hafi fengið á móti hluti í Nesvöllum ehf. að nafnvirði 160.250.000 krónur, auk þess að fella samhliða niður umtalsverðan hluta af kröfum sínum á hendur stefnanda.

Hafi ástæða þessa verið sú að aðilar töldu að stefndi, sem langtímafjárfestir, væri betur til þess fallinn að fara með eignarhald yfir Nesvöllum ehf. auk þess sem fyrir lá að félagið þyrfti á áframhaldandi fjárframlagi að halda til frekari reksturs, en þær eignir sem stefndi aflétti veði yfir á móti hafi síður þurft á slíkum stuðningi að halda. Hafi því almenn hagkvæmnisrök verið fyrir umræddum viðskiptum sem ekki hafi verið til þess fallin að valda stefnanda eða kröfuhöfum hans tjóni, heldur hafi viðskiptin þvert á móti verið til hagsbóta fyrir stefnanda og kröfuhafa hans.

Telur stefndi því að greiðsla skuldar stefnanda og framsal á hlutum í Nesvöllum ehf. og samhliða aflétting veða yfir öðrum eignum stefnanda hafi verið rökrétt ákvörðun til hagsbóta fyrir alla aðila og hafi greiðslan því virst venjuleg eftir atvikum, sbr. niðurlag 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl..

Telur stefndi því að ekki sé fullnægt skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laganna til að rifta greiðslu á umræddri skuld stefnanda við stefnda.

Þá telur stefndi að fyrrgreind ráðstöfun sé heldur ekki riftanleg með vísan til 141. gr. laganna.

Samkvæmt 141. gr. laga um gjaldgjaldþrotaskipti megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra og leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaður var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.

Til þess að unnt sé að beita 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti þurfi öllum framangreindum skilyrðum að vera fullnægt. Af hálfu stefnda sé því haldið fram að engu af framangreindum skilyrðum sé fullnægt.

Áður hafi verið gerð grein fyrir því hvernig umrædd viðskipti fóru fram, þar sem stefndi fékk framselda til sín hluti í Nesvöllum ehf., en réttindi stefnanda til þeirra hafi áður verið veðsett Seðlabanka Íslands, gegn því að aflétta veðréttindum sínum yfir öðrum eignum stefnanda og lækka fjárkröfur sínar á hendur honum. Teljist ráðstöfunin því ekki ótilhlýðileg, auk þess sem hún hafi ekki verið stefnda til hagsbóta og hafi hún heldur ekki leitt til þess að umræddar eignir væru ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum, þar sem þær voru veðsettar fyrir, og leiddi þar af leiðandi ekki til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, heldur hafi ráðstöfunin þvert á móti eingöngu leitt til þess að skuldir stefnanda lækkuðu.

Þá sé með öllu ósannað að stefnandi hafi verið ógjaldfær í nóvember 2009 og ljóst að ekki hafi hann orðið það vegna umræddrar ráðstöfunar.

Þá sé einnig ljóst að stefndi hafi hvorki vitað né mátt vita um meinta ógjaldfærni stefnanda á umræddum tíma. Í lýsingu á málsatvikum sé rakið samkomulag stefnanda við fjármálaráðuneytið í mars 2009, sem hafi átt að tryggja langtímafjármögnun á meginhluta skulda stefnanda og renna styrkum stoðum undir framtíð félagsins, líkt og segi í tilkynningu frá stefnanda 23. mars 2009. Því sé og við þetta að bæta að þegar kaupsamningur og afsal aðila voru undirrituð í nóvember 2009 hafi stefnandi verið starfandi sem fjárfestingarbanki og hafi haft til þess starfsleyfi sem lánafyrirtæki frá Fjármálaeftirlitinu, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Megintilgangur laga um fjármálafyrirtæki sé að hafa eftirlit með aðilum á fjármálamarkaði og þá sérstaklega þeim sem veiti fjármálaþjónustu eins og henni sé lýst í 3. gr. laganna. Lögin setji ströng skilyrði fyrir veitingu starfsleyfa og í kjölfar veitinga slíkra leyfa hafi Fjármálaeftirlitið náið eftirlit með leyfishafa. Fyrrgreind skilyrði og náið eftirlit séu til að tryggja hagsmuni þeirra sem nýti sér þjónustu og geri samninga við fjármálafyrirtæki. Viðskiptavinir og viðsemjendur fjármálafyrirtækja eigi að geta treyst því að aðilar sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki uppfylli ströng skilyrði þeirra. Fjármálaeftirlitið hafi, við undirritun kaupsamnings og afsals í nóvember 2009, hvorki afturkallað starfsleyfi stefnanda, en til þess hafi Fjármáleftirlitið haft ríkar heimildir, né gert opinberlega athugasemdir við rekstur eða efnahag stefnanda. Á þeim tíma sem kaupsamningur og afsal voru undirrituð hafi stefndi því ekki haft neina ástæðu til að ætla að stefnandi gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum eða að hann væri ógjaldfær. Þá hafi heldur ekkert legið fyrir um að Seðlabanki Íslands hefði gert athugasemdir við lausafjárstöðu stefnanda í nóvember 2009, en í tilkynningu fjármálaráðuneytisins frá 26. mars 2009 komi m.a. fram að stefnanda beri, undir eftirliti Seðlabanka Íslands, að viðhalda viðunandi lausafé.

Með fyrrgreindri ráðstöfun hafi stefndi, líkt og áður segi, verið að vinna með stefnanda að uppgjöri hluta krafna sinna þannig að samrýmast mætti hagsmunum bæði stefnda og stefnanda og hafi aldrei annað komið fram í þeim samskiptum en að rekstrarhæfi stefnanda væri tryggt til lengri tíma litið. Megi einnig geta þess í þessu samhengi að kaupsamningur og afsal voru undirrituð rúmu ári eftir að viðskiptabankarnir þrír voru yfirteknir af Fjármálaeftirlitinu. Á þeim tíma hafi ekki legið annað fyrir en að stefnandi yrði rekinn áfram í óbreyttri mynd þar sem stefnandi starfaði þá enn eftir starfsleyfi frá yfirvöldum og hafði áður gert samkomulag við fjármálaráðuneytið sem tryggja átti rekstrarhæfi hans.

Með vísan til framangreinds verði því ekki talið að fullnægt sé skilyrðum 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Vegna þessa og þar sem skilyrðum 134. gr. laganna sé  heldur ekki fullnægt verði að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Til vara geri stefndi þá kröfu að viðurkennd verði krafa hans um skil á 160.250.000 hlutum í Nesvöllum ehf., með vísan til 144. gr. gjaldþrotalaga.

Samkvæmt 144. gr. getur annar hvor aðila krafist skila á greiðslum í þeim mæli sem þær eru enn til, enda verði það gert án óhæfilegrar rýrnunar verðmæta. Þá segir að jafna skuli greiðslur eftir því sem þarf með peningagreiðslum.

Telur stefndi að skilyrðum umræddrar greinar sé fullnægt og ef komist verði að þeirri niðurstöðu að skilyrði séu til riftunar sé rétt að fallast á kröfu hans um skil og stefnandi og stefndi verði þannig eins settir og greiðsla vegna kaupsamnings frá því í nóvember 2009 hefði aldrei farið fram.

Þar sem samningaviðræður stefnanda og stefnda í kjölfar riftunaryfirlýsingar stefnanda reyndust árangurslausar hafi stefndi krafist þess með bréfi til stefnanda, dags. 30. desember 2010, að umræddum hlutum í Nesvöllum ehf. væri skilað til stefnanda og aðilar þannig eins settir og greiðsla hefði aldrei farið fram. Jafnframt hafi verið áskilinn allur réttur til að halda uppi vörnum vegna riftunarkröfu og fjárkröfu stefnanda, myndi stefnandi ekki fallast á kröfu stefnda um skil á nefndum hlutum.

Með bréfi, dags. 7. janúar sl., hafnaði stefnandi kröfu um skil á umræddum hlutum í Nesvöllum ehf. Geri stefnandi því þá kröfu fyrir dómi að viðurkennd verði krafa hans um skil á 160.250.000 hlutum í Nesvöllum ehf.

Líkt og áður segi telur stefndi að fullnægt sé skilyrðum um að skila umræddri greiðslu á hlutum í Nesvöllum ehf., enda verði það gert án óhæfilegrar rýrnunar verðmæta, þar sem fyrrgreindir eignarhlutir í Nesvöllum ehf. eru með öllu óskertir og því unnt að skila þeim án rýrnunar. Skipti engu máli í því tilliti þótt verðmæti umræddra hluta kunni að hafa lækkað vegna efnahagsaðstæðna og erfiðra aðstæðna á fasteignamarkaði, ekki hvað síst á Reykjanesi, sem óhjákvæmilega hafi haft áhrif á rekstur Nesvalla ehf., en tilgangur félagsins sé þróun, uppbygging og rekstur byggðar fyrir eldri borgara á Reykjanesi; kaup, sala og útleiga fasteigna.

Eins og kunnugt er hafi aðstæður í íslensku hagkerfi, og þá sérstaklega á fasteignamarkaði, verið erfiðar á síðustu misserum og hafi Nesvellir ehf. ekki farið varhluta af þeirri staðreynd, án þess að stefnda verði þar kennt um. Þvert á móti hafi stefndi unnið að bættum hag og viðgangi Nesvalla ehf. eftir undirritun kaupsamnings og afsals, m.a. með því að skrá sig fyrir hlutafjáraukningu á genginu 1,0 í lok árs 2009, til að tryggja Nesvöllum ehf. aukið rekstrarfé og greiða til félagsins 30 milljónir króna vegna þessa.

Þá sé, hvað sem því líði, ljóst að unnt sé að skila greiðslum, þ.e. afhenda stefnanda hluti í Nesvöllum ehf., án þess að það hafi í för með sér nokkra rýrnun verðmæta, þ.e. hlutanna sem slíkra.

Ef ekki verði fallist á sjálfsagða og eðlilega kröfu stefnda um skil á hlutunum, og aðilar verði þar með eins settir og greiðsla hefði aldrei farið fram, kunni sú niðurstaða að leiða til þess að stefnda verði gert að greiða sömu fjárhæð tvisvar til stefnanda, fyrir eign sem í besta falli sé óljóst hvers virði er, þar sem stefndi greiddi fyrst fyrir eignina í nóvember 2009 með því að lækka kröfur sínar á hendur stefnanda og aflétta veðtryggingum, en stefnandi krefji stefnda nú aftur um greiðslu sömu fjárhæðar. Muni sú niðurstaða augljóslega leiða til ósanngjarnrar og óeðlilegrar niðurstöðu fyrir stefnda, sem ekki sé í samræmi við þau meginsjónarmið sem búi að baki ákvæðum gjaldþrotalaga um riftun á ráðstöfunum þrotamanns, sem séu að tryggja að þrotamaður og riftunarþoli verði eins settir fjárhagslega og ráðstöfunin hefði aldrei átt sér stað.

Megi í því samhengi vísa til dóms Hæstaréttar 1996:892 (nr. 410/1994), þar sem fallist var á kröfu riftunarþola um skil á greiðslu skuldar sem greidd hafði verið með kröfum þrotamanns á hendur öðrum aðilum.

Verði fallist á að skilyrði sé til riftunar telur stefndi því, með hliðsjón af þeim röksemdum sem fram komi hér að framan, að rétt sé að fallast á kröfu hans um skil á 160.250.000 hlutum í Nesvöllum ehf., með vísan til 144. gr. laga um gjaldþrotaskipti.

Stefnandi byggi fjárkröfu sína á 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga  þar sem fram komi að ef riftun fer fram með stoð í 131.-138. gr. skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun eða fullnustugerð greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Í 3. málslið 1. mgr. 142. gr. segi síðan að ef ljóst er að viðsemjanda var kunnugt um riftanleika ráðstöfunarinnar skuli þó dæma hann til greiðslu tjónsbóta.

Með vísan til þess sem áður hafi fram komið um huglæga afstöðu stefnda til sakarefnisins á þeim tíma sem kaupsamningur og afsal var gert við stefnanda, sem þá starfaði sem lánastofnun samkvæmt sérstakri heimild laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, sé ljóst að stefnda hafi ekki, og hafi ekki getað, verið kunnugt um meintan riftanleika ráðstöfunarinnar.

Eftir standi þá krafa stefnanda um auðgun stefnda af umræddum viðskiptum, sem skuli þó aldrei nema hærri fjárhæð en sem nemi tjóni stefnanda af viðskiptunum, sbr. 1. málslið 1. mgr. 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti.

Með vísan til þess sem fram komi hér að framan um umrædd viðskipti og þar sem fyrir liggi að réttindi stefnanda til hinna framseldu hluta í Nesvöllum ehf. voru leyst úr veðböndum hjá Seðlabanka Íslands, gegn því að stefndi aflétti veði yfir öðrum eignum stefnanda, sé ljóst að stefnandi hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna viðskiptanna, þar sem Seðlabanki Íslands hefði ella lýst veðkröfu vegna veðréttar síns yfir kröfu stefnanda á hendur eiganda umræddra hluta í Nesvöllum ehf. og þannig fengið úthlutað rétti til umræddra hluta.

Hafi því hvorki stefnandi né kröfuhafar hans orðið fyrir tjóni vegna viðskiptanna og verði því að sýkna stefnda af fjárkröfu stefnanda jafnvel þótt riftunarkrafa hans næði fram að ganga.

Sama eigi við um auðgunarkröfu stefnanda á hendur stefnda þar sem ljóst sé að stefndi hafi ekki auðgast um þá fjárhæð sem stefnandi krefur hann um, bæði þar sem hann aflétti veði yfir öðrum eignum stefnanda samhliða framsali á hlutum í Nesvöllum ehf., auk þess sem nafnverð hluta í Nesvöllum ehf., sem lagt var til grundvallar í kaupsamningi aðila, endurspegli ekki með nokkrum hætti núverandi verðmæti félagsins eða verðmæti þess á þeim degi sem stefnandi lýsti yfir riftun vegna nefndrar ráðstöfunar og þar með þá greiðslu sem orðið hafi stefnda „að notum“, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti.

Þar sem auðgun stefnda vegna umræddra viðskipta sé engin sé því rétt að sýkna hann af fjárkröfu stefnanda, jafnvel þótt riftunarkrafa stefnanda næði fram að ganga.

Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda samkvæmt framangreindu sé til þrautavara gerð krafa um verulega lækkun fjárkröfu stefnanda þar sem auðgun stefnda vegna viðskiptanna, sem og tjón þrotabúsins, sé langt frá því að nema stefnufjárhæð málsins. Lækkunarkrafa stefnda byggi á því að tjón stefnanda og meint auðgun stefnda vegna viðskiptanna hafi í öllu falli verið mun minna en stefnufjárhæð hljóði upp á, þar sem stefndi hafi, samhliða framsali á hlutum í Nesvöllum ehf., aflétt veðréttindum sínum yfir eignum, sem hafi samtals numið að nafnvirði hærri fjárhæð en fjárkrafa stefnanda hljóði upp á. Þannig hafi stefndi t.a.m. aflétt veðrétti sínum samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu 7. október 2009, að fjárhæð 50.000.000 króna, sem veitt hafði verið til tryggingar lánveitingu hinn 30. september 2009 að fjárhæð krónur 20.000.000, í tengslum við gerð kaupsamnings og afsals aðila í nóvember 2009. Þá hafi stefndi einnig aflétt veðréttindum sínum yfir öðrum eignum, líkt og fram komi í kaupsamningi og samkomulagi aðila, dags. 9. nóvember 2009. Hljóti þau verðmæti, sem felist í þeim réttindum sem aflétt var, að koma til lækkunar stefnukröfu.

Þá sé ljóst að verðmæti umrædds 45,7% hlutar í Nesvöllum ehf. sé mun lægra en nafnvirði félagsins sem lagt hafi verið til grundvallar kaupum í nóvember 2009, þar sem miðað hafi verið við gengið 1,0 samkvæmt samkomulagi aðila.

Vegna efnahagsaðstæðna og erfiðra aðstæðna á fasteignamörkuðum sé framtíð Nesvalla ehf., sem rekið hafi verið með umtalsverðu tapi um árabil, óvissu háð og ljóst að félagið þurfi á auknu eiginfjárframlagi að halda til að teljast rekstrarhæft. Auðgun stefnda vegna fyrrgreindrar ráðstöfunar sé því augljóslega mun minni en sem nemi fjárkröfu stefnanda.

Verði þannig ekki fallist á sýknukröfu stefnda eða kröfu um skil sé gerð krafa um verulega lækkun á fjárkröfu stefnanda.

Vaxtakröfu stefnanda er mótmælt, bæði kröfu um vexti af skaðabótakröfu samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sem og kröfu um dráttarvexti.

Stefnandi byggi fjárkröfu sína á 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotalaga, en samkvæmt nefndu ákvæði verði ekki greiddar tjónsbætur nema sannað sé að stefnda hafi verið kunnugt um riftanleika ráðstöfunar.

Líkt og áður komi fram sé ljóst að stefnda var hvorki né mátti vera kunnugt um meintan riftanleika ráðstöfunar frá því í nóvember 2009 og séu því ekki skilyrði til greiðslu skaðabóta. Sé þá heldur ekki unnt að reikna vexti af skaðabótakröfu með vísan til 8. gr. laga nr. 38/2001. Þá telur stefndi jafnframt að ekki séu lagaskilyrði til greiðslu vaxta af fjárkröfu stefnanda þar sem ekki sé um bótaskylt tilvik að ræða auk þess sem sú eign sem hin meinta riftanlega ráðstöfun lúti að, þ.e. hlutir í Nesvöllum ehf., sé ekki vaxtaberandi heldur hafi eignarhaldinu þvert á móti fylgt fjárútlát fyrir stefnda.

Dráttarvaxtakröfu og upphafsdegi dráttarvaxtakröfu er jafnframt mótmælt.

Stefndi byggir kröfur sínar og málsástæður meðal annars á niðurlagi 1. mgr. 134. gr., 1. mgr. 142. gr. og 144. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Málskostnaðarkrafa stefnda er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Eins og rakið hefur verið var VBS fjárfestingarbanki hf. tekinn til slitameðferðar hinn 9. apríl 2010 og skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn samkvæmt heimild í 4. mgr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Óumdeilt er að 3. mars 2010 teljist vera frestdagur í skilningi 2. gr. laga um gjaldþrotaskipti, sbr. 101. gr. i.f. laga um fjármálafyrirtæki.

Samkvæmt 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gilda meginreglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. í slitameðferð fjármálafyrirtækis. Í 4. mgr. 103. gr. laganna segir að ef ekki er sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu má krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti.

Stefnandi krefst í máli þessu riftunar á greiðslu á skuld stefnanda við stefnda  sem fór fram með afsali á hlutum stefnanda í Nesvöllum ehf. til stefnda hinn 24. nóvember 2009. Ágreiningslaust er að greiðslan átti sér stað innan við sex mánuði frá frestdegi.

Stefnandi heldur því fram að í bréfi sínu til stefnanda, dags. 30 desember 2010, hafi stefndi fallist á riftunarkröfu stefnanda. Gegn andmælum stefnda er ekki fallist á að í tilvitnaðri setningu úr nefndu bréfi félist afdráttarlaust samþykki stefnda á riftunarkröfu stefnanda.

Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem greitt hafi verið með óvenjulegum greiðslueyri. Þá hafi gerningur aðila farið gegn almennu riftunarreglunni í 141. gr. laga nr. 21/1991 þar sem greiðslan hafi í senn verið ótilhlýðileg og mismunað einstökum kröfuhöfum stefnanda.

Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á greiðslu á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem hefur skert greiðslugetu þrotamanns verulega, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Teljast skilyrði þessi sjálfstæð og nægir að einu þeirra sé fullnægt svo riftun nái fram að ganga, að því gefnu að greiðslan hafi ekki virst venjuleg eftir atvikum.

Fyrir liggur, sbr. greinargerð stefnda, að stefndi lagði peningamarkaðsinnlán til stefnanda sem stefnanda reyndist ekki unnt að greiða eftir bankahrunið í október 2008, þrátt fyrir innheimtutilraunir stefnda. Hinn 9. nóvember 2009 gerðu aðilar með sér samkomulag um uppgjör skulda stefnanda við stefnda, eins og nánar greinir í samkomulaginu. Sama dag gerðu aðilar með sér kaupsamning þar sem stefnandi lofar að selja stefnda 45,7% hlut í Nesvöllum ehf. að nafnvirði 160.250.000 krónur. Afsal fyrir hlutunum var gefið út 24. nóvember 2009.

Stefndi heldur því fram að þessir gerningar hafi miðað að því að tryggja hagsmuni stefnanda til lengri tíma litið og hafi samkomulagið verið til hagsbóta fyrir stefnanda, viðskiptavini, hluthafa og kröfuhafa.

Ekki hefur komið fram í málinu að í viðskiptum aðila hafi verið samið um að greitt yrði með öðrum greiðslueyri en peningum. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að slíkt hafi tíðkast í viðskiptum þeirra. Greiðsla á peningakröfum með hlutabréfum eða andvirði þeirra getur almennt ekki talist venjulegur greiðslueyrir í viðskiptum.

Eins og áður er lýst var kröfum að fjárhæð 48 milljarðar lýst í þrotabú stefnanda. Hefur stefndi ekki sýnt fram á í málinu að umræddar ráðstafanir aðila hafi verið til hagsbóta fyrir stefnanda eða kröfuhafa hans eða verið til þess að auka jafnræði kröfuhafa við skiptin. Er því ósannað að greiðslan, með þeim hætti sem hún fór fram, hafi mátt virðast venjulegur greiðslueyrir eftir atvikum.

Samkvæmt framansögðu telst fullnægt skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/199 til þess að riftunarkrafa stefnanda nái fram að ganga.

Á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 krefst stefnandi þess að stefndi endurgreiði sér kaupverð hlutanna í Nesvöllum ehf., 160.250.000 krónur. Varakrafa stefnda lýtur hins vegar að því að krafa hans um skil á 160.250.000 hlutum í Nesvöllum ehf. verði viðurkennd með dómi. Stefnandi hafnar þessari kröfu stefnda.

Samkvæmt 144. gr. laga nr. 21/1991 skal, ef annar hvor aðila krefst þess, skila greiðslum í þeim mæli sem þær eru enn til enda verði það gert án óhæfilegrar rýrnunar verðmæta. Jafna skal greiðslur eftir því sem þarf með peningagreiðslum.

Samkvæmt kaupsamningi aðila, er gerður var 9. nóvember 2009 keypti stefndi hlut stefnanda í Nesvöllum ehf. sem nam að nafnvirði 160.250.000 krónum. Eins og áður er rakið greiddi stefndi ekki stefnanda kaupverðið heldur tók undir sig hlutina í Nesvöllum ehf. sem greiðslu á samsvarandi skuldum stefnanda við stefnda. Hefur ekki verið sýnt fram á annað en að nafnverð hlutanna á árinu 2009 hafi endurspeglað sannvirði bréfanna á þessum tíma.

Fyrir liggur að fulltrúi stefnda tók sæti í stjórn Nesvalla ehf. Þá heldur stefndi því fram að hann hafi unnið að bættum hag og viðgangi félagsins, m.a. með því að skrá sig fyrir hlutafjáraukningu á genginu 1,0 í lok árs 2009 til að tryggja félaginu aukið rekstrarfé og hafi greitt til félagsins 30 milljónir vegna þessa.

Af hálfu stefnda var Sigurður Kiernan verkfræðingur dómkvaddur til þess að vinna verðmat á 45,7% hlut í Nesvöllum ehf. Skyldi verðmatið annars vegar miðað við núverandi stöðu og hins vegar stöðuna 1. október 2010, þ.e. á þeim tíma er riftun fór fram. Í matsgerð hans kemur fram að þar sem skuldastaða Nesvalla ehf. sé langt umfram verðmat eignanna sé hlutaféð einskis virði hvort sem miðað sé við 1. október 2010, þegar riftun fór fram, eða daginn í dag.

Í ljósi framangreinds þykir sýnt fram á að umræddur 45,7% hlutur í Nesvöllum ehf. hafi rýrnað á þeim tíma sem stefndi fór með hann og ber að fallast á með stefnanda að sú rýrnun sé á ábyrgð stefnda.

Samkvæmt framansögðu ber því að fallast á kröfu stefnanda um að stefnda beri að endurgreiða stefnanda 160.250.000 krónur sem nam verði þeirra hlutabréfa í Nesvöllum ehf. er stefndi keypti af stefnanda samkvæmt kaupsamningi 9. nóvember 2009. Er þá jafnframt hafnað varakröfu stefnda um skil á umræddum hlutum enda liggur fyrir, sbr. það sem áður er rakið, að verðmæti hlutafjárins hafði rýrnað verulega á þeim tíma frá því kaupsamningur var gerður og þar til riftunar var krafist, sbr. 144. gr. laga nr. 21/1991.

Til þrautavara krefst stefndi lækkunar á fjárkröfu stefnanda. Er sú krafa reist á því að tjón stefnanda og meint auðgun hans vegna viðskiptanna hafi verið minni en stefnufjárhæð hljóði upp á þar sem stefndi hafi, samhliða gerð kaupsamningsins, aflétt veðréttindum sínum yfir eignum stefnanda sem numið hafi hærri fjárhæð en fjárkrafa stefnanda hljóði upp á.

Mál þetta lýtur einvörðungu að riftun afsals á hlutum stefnanda í Nesvöllum ehf. til stefnda, dags. 24. nóvember 2009. Aðrir samningar er gerðir voru samhliða kaupsamningi í skuldauppgjöri aðila eru máli þessu óviðkomandi enda er engin grein gerð fyrir þeim viðskiptum er þar lágu að baki. Ber því að hafna þrautavarakröfu stefnda.

Stefnandi krefst vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 af endurgreiðslukröfu sinni. Þar sem krafan er ekki skaðabótakrafa er ekki fallist á að hún beri slíka vexti. Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um dráttarvexti og upphafsdegi dráttarvaxtakröfu. Þau mótmæli eru órökstudd og ber því að fallast á dráttarvaxtakröfu stefnanda.

Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 1.000.000 króna.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Rift er greiðslu á skuld stefnanda, VBS Fjárfestingarbanka hf., við stefnda, Tryggingamiðstöðina hf., að fjárhæð 160.250.000 krónur sem fór fram með afsali á hlutum stefnanda í Nesvöllum ehf. til stefnda hinn 24. nóvember 2009, að nafnvirði 160.250.000 krónur.

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnanda, VBS fjárfestingarbanka hf.,

160.250.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2010 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 1.000.000 króna í málskostnað.