Hæstiréttur íslands

Mál nr. 207/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi
  • Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
  • Sératkvæði


Þriðjudaginn 12

 

Þriðjudaginn 12. maí 2009.

Nr. 207/2009.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson, settur saksóknari)

gegn

X

(Björn Jóhannesson hrl.)

 

Kærumál. Hæfi. Úrskurður felldur úr gildi. Sératkvæði.

X kærði lögreglu fyrir harðræði og illa meðferð á lögreglustöð í kjölfar handtöku vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis. Vararíkissaksóknari stýrði rannsókn vegna kæru ákærða en fól D, settum saksóknara, að annast tilgreind atriði við rannsóknina, þar á meðal skýrslutökur og gagnaöflun. Vegna sömu handtöku átti sér einnig stað rannsókn ríkissaksóknara á hattsemi X í garð lögreglumanna er leiddi til ákæru í þessu máli 18. febrúar 2009, undirritaðri af D, þar sem X var gefið að sök brot gegn 106. gr. laga nr. 19/1940. Ágreiningur aðila laut að því hvort D væri vanhæfur til að gefa út ákæru, sbr. 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008. Í 26. gr. laga nr. 88/2008 eru gerðar sömu kröfur um sérstakt hæfi handhafa ákæruvalds og gerðar eru til dómara samkvæmt 6. gr. laganna. Jafnríkar  kröfur gilda um hæfi þeirra sem flytja mál af hálfu ákæruvalds á grundvelli 25. gr. laganna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að hafa bæri í huga að það eitt að dómari sinnti þeim starfsskyldum sínum að taka skýrslu af sakborningi fyrir útgáfu ákæru ylli ekki vanhæfi hans. Þáttur ríkissaksóknara væri í meðferð framangreindra mála samkvæmt fyrirmælum í lögum um skipan rannsóknar- og ákæruvalds. Ekkert væri fram komið um að hlutlægnisskyldu við rannsókn á meintu broti X samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 hefði ekki verið gætt. Ákæruvaldið hefði jafnframt lýst því yfir að rannsóknargögn vegna kæru X lægju ekki til grundvallar ákæru og væru ekki meðal gagna málsins. Þá væri við útgáfu ákæru ekki að vænta þess að X myndi við meðferð málsins fyrir dómi óska eftir að saksóknari gæfi skýrslu þar sem hann var ekki vitni að málsatvikum sem voru tilefni ákærunnar. Var því hvorki talið að hinn setti saksóknari hefði ekki mátt gefa út ákæruna í umboði ríkissaksóknara né að atvik væru með þeim hætti að vísa bæri málinu frá héraðsdómi. Hinn kærði úrskurður var því fellur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. apríl 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2009, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að málinu yrði vísað frá dómi. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins var ákærði handtekinn af lögreglunni á Ísafirði 7. ágúst 2008 vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og færður á lögreglustöð. Ákærði kærði lögreglu fyrir harðræði og illa meðferð á lögreglustöðinni. Vararíkissaksóknari mun hafa stýrt rannsókn vegna kæru ákærða og fól hann Daða Kristjánssyni settum saksóknara að annast tilgreind atriði við rannsóknina. Mun starf hans hafa falist í að taka skýrslur af tveimur lögreglumönnum sem sakborningum, jafnframt því að yfirheyra ákærða og tvö önnur vitni, taka ljósmyndir af vettvangi og fá upplýsingar úr eftirlitsmyndavélakerfi á lögreglustöðinni á Ísafirði. Með bréfi ríkissaksóknara 6. mars 2009 var ákærða tilkynnt að lögreglumenn yrðu ekki saksóttir vegna kæru hans. Vegna sömu handtöku átti sér einnig stað rannsókn ríkissaksóknara á háttsemi ákærða í garð lögreglumanna er leiddi til  ákæru í þessu máli 18. febrúar 2009, undirritaðri af Daða Kristjánssyni, þar sem ákærða er gefið að sök brot gegn 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa bitið lögreglumann í hægri hendi.

II

Kærumál þetta snýst eingöngu um hvort hinn setti saksóknari hafi verið vanhæfur til að gefa út ákæru, sbr. 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008. Síðari tíma atriði svo sem ósk ákærða um að hinn setti saksóknari gefi skýrslu fyrir dómi um rannsókn í tilefni af kæru ákærða í öðru máli leiða ekki sjálfkrafa til vanhæfis saksóknarans þannig að vísa beri málinu frá dómi. Verði dómari hins vegar við ósk ákærða um þá skýrslugjöf kemur til sjálfstæðrar athugunar hvort ríkissaksóknara beri að fela öðrum saksóknara meðferð málsins.

Samkvæmt 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 fer ríkissaksóknari með rannsókn máls vegna kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans. Getur ríkissaksóknari við rannsóknina beitt þeim heimildum sem lögregla hefur endranær. Þá ber lögreglu að veita ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn slíks máls eftir því sem óskað er. Um meðferð ákæruvalds vegna ætlaðra brota gegn 106. gr. almennra hegningarlaga fer hins vegar samkvæmt 3. mgr. bráðabirgðaákvæðis VII. laga nr. 88/2008 og er ákæruvaldið einnig í höndum ríkissaksóknara.

Í 26. gr. laga nr. 88/2008 eru gerðar sömu kröfur um sérstakt hæfi handhafa ákæruvalds og gerðar eru til dómara samkvæmt 6. gr. laganna. Jafnríkar kröfur gilda um hæfi þeirra sem flytja mál af hálfu ákæruvalds á grundvelli 25. gr. laganna. Hafa ber í huga við úrlausn þessa máls að það eitt að dómari sinni þeim starfskyldum sínum að taka skýrslu af sakborningi fyrir útgáfu ákæru veldur ekki vanhæfi hans. Þáttur ríkissaksóknara í meðferð framangreindra tveggja mála var samkvæmt framansögðu í samræmi við fyrirmæli í lögum um skipan rannsóknar- og ákæruvalds. Ekkert er fram komið um að látið hafi verið hjá líða að gæta hlutlægnisskyldu við rannsókn á meintu broti ákærða samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008, sbr. áður 31. gr. laga nr. 19/1991. Þannig naut ákærði til að mynda við skýrslugjöf vegna kæru sinnar réttarstöðu samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 88/2008, sbr. áður 51. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Hinn setti saksóknari stjórnaði ekki rannsókn vegna kæru ákærða. Hann sinnti einungis tilgreindum starfsskyldum við skýrslutökur og gagnaöflun í því máli. Það eitt að saksóknari komi að rannsókn máls og sæki síðan fyrir dómi veldur ekki vanhæfi hans auk þess sem ákæruvaldið hefur lýst yfir því að rannsóknargögn vegna kæru ákærða liggi ekki til grundvallar ákæru og séu þau ekki meðal gagna málsins. Við útgáfu ákæru var þess ekki að vænta að ákærði myndi við meðferð málsins fyrir dómi óska eftir að saksóknarinn gæfi skýrslu þar sem hann var ekki vitni að málsatvikum sem voru tilefni ákærunnar. Verður samkvæmt framansögðu hvorki talið að hinn setti saksóknari hafi ekki mátt gefa út ákæruna í umboði ríkissaksóknara né að atvik séu annars með þeim hætti að vísa beri málinu frá héraðsdómi samkvæmt 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Sératkvæði

Hjördísar Hákonardóttur

Ég tel að staðfesta eigi hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 20. apríl 2009.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 24. mars sl., höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 18. febrúar 2009 á hendur ákærða, X, kt. [...], til heimilis að [...], Ísafirði;

„fyrir brot gegn valdstjórninni, með því að hafa fimmtudaginn 7. ágúst 2008, á lögreglustöðinni Hafnarstræti 1, Ísafjarðarbæ, bitið lögreglumanninn A, sem var við skyldustörf, í hægri hendi, með þeim afleiðingum að hann hlaut grunna rispu á hægri þumalfingri og væga bólgu umhverfis sárið.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 101/1976 og 1. gr. laga nr. 25/2007.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kt. [...], er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 313.198, auk vaxta samkvæmt 88. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. ágúst 2008 til 1. október 2008 en síðan dráttarvaxta til greiðsludags.“

Af hálfu ákærða er gerð sú krafa að málinu verði vísað frá dómi, auk þess að sakarkostnaður þess, að meðtöldum hæfilegum málsvarnarlaunum verjanda til handa, verði felldur á ríkissjóð.

Ákæruvaldið krefst þess að frávísunarkröfu ákærða verði hrundið og málið tekið til efnismeðferðar.

I.

Frávísunarkröfu sína byggir ákærði á 5. mgr. 26. gr., sbr. c- og g-liði 6. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Heldur ákærði því fram að ákærandi hafi verið vanhæfur til að gefa út ákæru í málinu þar sem hann hafi komið að rannsókn vegna kæru ákærða, mál lögreglu nr. 018-2008-4555, á hendur þeim þremur lögreglumönnum sem afskipti höfðu af honum fimmtudaginn 7. ágúst 2008. Þannig hafi ákærandi tekið skýrslu af ákærða vegna þess máls, sem og nefndum lögreglumönnum. Ennfremur hafi ákærandi tekið vitnaskýrslur af þremur öðrum lögreglumönnum vegna málsins. Rannsókn vegna kæru ákærða hafi því að langmestu leyti verið á könnu ákæranda í máli þessu. Þá bendir ákærði sérstaklega á að mál vegna kæru hans hafi ekki verið fellt niður fyrr en með bréfi ríkissaksóknara 6. mars sl., en þá hafi mál þetta þegar verið höfðað.

Við munnlegan málflutning nefndi verjandi ákærða sérstaklega sex atriði sem hann sagði þarfnast nánari skýringa við í málinu. Vegna þeirra sagði verjandi sennilegt að kalla þyrfti ákæranda til sem vitni í málinu. Samkvæmt því beri dómara að vísa málinu frá dómi, sbr. c-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 5. mgr. 26. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Verði það niðurstaða dómsins að c-liður 1. mgr. 6. gr. nr. 88/2008 um meðferð sakamála eigi hér ekki við segir ákærði allt að einu ljóst að ákærandi hafi verið vanhæfur til að höfða málið samkvæmt g-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 5. mgr. 26. gr., laganna. Ákærði hafi gefið vitnaskýrslu fyrir ákæranda vegna kæru sinnar á hendur lögreglumönnunum og með því í raun gefið vitnaskýrslu í eigin máli. Slíkt vinnulag standist ekki og valdi vanhæfi ákæranda, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála, og frávísun málsins, sbr. 5. mgr. 26. gr. laganna.

II.

Af hálfu ákæruvaldsins er kröfu um frávísun málsins mótmælt. Ákæruvaldið vísar til þess að samkvæmt 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 skuli kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans beint til ríkissaksóknara sem fari með rannsókn málsins. Við meðferð slíkra mála geti ríkissaksóknari beitt þeim heimildum sem lögregla hafi endranær. Það sé því lögbundin skipan mála að ríkissaksóknari rannsaki mál af umræddu tagi og slík rannsókn geti því ekki valdið vanhæfi ákæranda. Þá tekur ákæruvaldið fram að í þeim tilvikum sem sækjandi í sakamáli verði vitni í málinu sé skipt um sækjanda. Það haggi hins vegar ekki útgáfu ákærunnar þó að sú aðstaða komi upp.

Ákæruvaldið bendir jafnframt á að ákærandi í máli þessu hafi ekki stýrt rannsókn á kærumáli ákærða. Það hafi annar saksóknari við embætti ríkissaksóknara gert. Ákærandi hafi einungis tekið skýrslur af kærðu og vitnum samkvæmt fyrirmælum þess saksóknara. Hann hafi því engar ákvarðanir tekið í tengslum við kærumálið.

Ennfremur bendir ákæruvaldið á að rannsóknargögn ákæranda í kærumáli ákærða hafi ekki verið lögð fram í máli þessu, málatilbúnaði ákæruvaldsins til stuðnings, og þau hafi því hér enga þýðingu. Þá muni verjandi ákærða fá færi á að gagnspyrja öll vitni við aðalmeðferð málsins. Aðkoma ákæranda að kærumáli ákærða varði því mál þetta í engu.

Að endingu vísar ákæruvaldið til 2. og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem kveðið sé á um hlutverk og skyldur ákærenda.

III.

Í 1. málslið 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir svo: „Nú hefur ákæra verið gefin út og skal dómari þá, annaðhvort að eigin frumkvæði eða samkvæmt kröfu aðila, vísa máli frá dómi ef hann telur að ákærandi hafi verið vanhæfur til að höfða málið ...“ Skýra verður ákvæði þetta með hliðsjón af 1.-3. mgr. sömu greinar. Verður ákærandi því talinn vanhæfur í skilningi 5. mgr. 26. gr. til að höfða mál væri hann vanhæfur til að fara með málið sem dómari skv. 6. gr. laganna.

Upplýst er að rannsókn máls þess er varðaði kæru ákærða á hendur þremur lögreglumönnum vegna meints harðræðis og illrar meðferðar í kjölfar handtöku hans 7. ágúst 2008 var í raun að langmestu leyti á hendi ákæranda, þó svo forræði rannsóknarinnar hafi verið á hendi annars saksóknara. Meðal þeirra skýrslna sem ákærandi tók var ítarleg vitnaskýrsla af kæranda, ákærða í máli þessu, 21. nóvember sl., sbr. framlagðan útdrátt úr skýrslunni.

Þó svo ráð sé fyrir því gert í 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 að embætti ríkissaksóknara fari með rannsókn mála vegna kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot er það álit dómsins með vísan til g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 að vart fari saman að sami saksóknari rannsaki meint brot starfsmanns lögreglu gegn einstaklingi og taki ákvörðun um saksókn á hendur þeim manni vegna sömu atvika. Þá opnar það fyrirkomulag á þann möguleika að ákærandi verði af réttmætu tilefni kallaður til sem vitni í máli sem hann hefur höfðað. Að þessu virtu telst ákærandi hafa verið vanhæfur til að höfða mál þetta og er af þeim sökum fallist á frávísunarkröfu ákærða með vísan til c- og g-liða 1. mgr. 6. gr., sbr. 5. mgr. 26. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða, Björns Jóhannessonar hrl., sem hæfilega þykir ákveðin svo sem í úrskurðarorði greinir að virðisaukaskatti meðtöldum.

Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda ákærða, Björns Jóhannessonar hrl., 111.552 krónur.