Hæstiréttur íslands

Mál nr. 512/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Verjandi


                                     

Mánudaginn 29. september 2008.

Nr. 512/2008.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari)

gegn

X

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

 

Kærumál. Verjandi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að B yrði skipaður verjandi hans. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti, sagði að í máli þessu reyndi meðal annars á gildi ákvæða 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála en samkvæmt gögnum málsins var tekin skýrsla af B í þágu rannsóknar málsins 6. nóvember 2006 og hafði B þá réttarstöðu grunaðs manns. Vísað var í dóm Hæstaréttar í máli nr. 2/2008 þar sem sagði að óheimilt hefði verið að skipa tilgreindan mann sem verjanda ákærða samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 þar sem komið gat til greina að kveðja hann sem vitni í málinu. Með ofangreindum dómi hefði verið slegið föstu þeirri skýringu á 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 að nægjanlegt væri að það kæmi til greina að kveðja verjanda sem vitni. Í ljósi rannsóknar þessa máls hjá lögreglu væri á þessu stigi með engu móti unnt að útiloka að B hæstaréttarlögmaður yrði á síðari stigum kallaður fyrir dóm sem vitni í málinu. Féllst Hæstiréttur því á að ákvæði 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 stæði því í vegi að B yrði skipaður verjandi X í málinu. Að því gættu þyrfti ekki að taka afstöðu til þeirrar röksemdar Á að heimild brysti að lögum til að skipa ákærðum manni fleiri en einn verjanda í máli á hendur honum.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2008, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að B hæstaréttarlögmaður yrði skipaður verjandi hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að skipa B hæstaréttarlögmann verjanda sinn í máli þessu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður að fallast á með héraðsdómara að ákvæði 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 standi því í vegi að áðurnefndur hæstaréttarlögmaður verði skipaður verjandi hans í málinu. Að því gættu þarf ekki að taka afstöðu til þeirrar röksemdar sóknaraðila að heimild bresti að lögum til að skipa ákærðum manni fleiri en einn verjanda í máli á hendur honum.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2008.

Með ákæru ríkislögreglustjóra dagsettri 3. júlí sl. var höfðað opinbert mál á hendur ákærðu fyrir brot gegn almennum hegningarlögum með meiriháttar brotum á skatta-, bókhalds- og ársreikningalögum. Við þingfestingu málsins á dómþingi 16. júlí sl. krafðist ákærði X þess að bæði A hæstaréttar­lögmaður og B hæstaréttarlögmaður yrðu skipaðir verjendur sínir í málinu. Af hálfu sækjanda málsins var þá vakin athygli á því að svo kynni að fara að B hæstaréttarlögmaður yrði kvaddur fyrir dóm sem vitni í málinu. Kynnu þar af leiðandi ákvæði 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að standa í vegi fyrir því að lögmaðurinn yrði skipaður verjandi ákærða. Kvað héraðsdómari upp úrskurð sinn um álitaefnið 23. júlí sl. Verjandi ákærða X skaut ágreiningsefninu til Hæstaréttar Íslands, sem með dómi í málinu nr. 420/2008 felldi hinn kærða úrskurð úr gildi. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að eins og skilið hafði verið við efnið í þingbók 16. júlí sl. hafi verjandi ákærða ekki átt að þurfa að vænta annars en að tækifæri myndi gefast til að rökstyðja kröfu ákærða X frekar áður en afstaða yrði tekin til hennar, en í því sambandi yrði ekki horft fram hjá því að ekkert hafi verið fært til bókar um að héraðsdómari tæki þetta atriði til úrskurðar. Að því virtu væri óhjákvæmilegt að fella hinn kærða úrskurð úr gildi til þess að héraðsdómari tæki á ný afstöðu til kröfu ákærða X að gættum nauðsynlegum undirbúningi.

Á dómþingi 10. september sl. tjáðu verjandi ákærða og sækjandi sig um kröfu ákærða X um að B hæstaréttarlögmaður yrði skipaður verjandi ákærða, samhliða A, hæstaréttarlögmanni, í því sakamáli sem hér er til meðferðar.

Í máli þessu reynir m.a. á gildi ákvæða 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991. Samkvæmt ákvæðinu má ekki skipa eða tilnefna þann mann verjanda sem kann að verða kvaddur til að bera vitni eða hefur verið skipaður mats- eða skoðunarmaður í málinu, eða er að öðru leyti svo viðriðinn mál eða aðila að hætta sé á að hann geti ekki gætt hagsmuna sakbornings sem skyldi. Samkvæmt rannsóknargögnum málsins liggur það fyrir að mánudaginn 6. nóvember 2006 var tekin skýrsla af B hæstaréttarlögmanni í þágu rannsóknar málsins og hafði hann þá réttarstöðu grunaðs manns. Var yfirheyrslan m.a. í tengslum þá stöðu að B var fyrrverandi stjórnarmaður Y., Z og Þ., en fyrir lá kæra Skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna skattskila framangreindra lögaðila. B hæstaréttarlögmaður hefur ekki lengur stöðu grunaðs manns en mál sakarefni á hendur honum voru felld niður. Var hann því ekki ákærður samhliða öðrum ákærðu vegna þeirra sakarefna er fram koma í ákæru og varða m.a. lögaðilana Y, Z. og Þ

Verjandi ákærða hefur annars vegar byggt á því að svo sem stöðu B hæstaréttarlögmanns sé og hafi verið háttað muni ekki koma til þess að hann verði kvaddur fyrir dóm sem vitni í sakamálinu. Þá brjóti ákvæði 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 eins og þau séu skýrð, gegn ákvæðum 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, c-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og ákvæði b og c liðar 3. mgr. 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu í C-deild stjórnartíðinda nr. 10/1979.  

Í dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 2/2008, sem upp var kveðinn 8. maí 2008, reyndi m.a. á gildissvið ákvæða 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991. Í því máli hafði tiltekinn lögmaður verið yfirheyrður hjá lögreglu sem vitni í tengslum við viðskipti með aflamark. Við aðalmeðferð málsins óskaði ákærði eftir því að viðkomandi lögmaður yrði skipaður verjandi sinn og hreyfði ákæruvald ekki andmælum við því. Við aðalmeðferð málsins kom ekki til þess að viðkomandi lögmaður gæfi skýrslu fyrir dóminum. Í dómi Hæstaréttar, sem kvað upp efnisdóm í málinu, sagði að óheimilt hafi verið að skipa lögmanninn verjanda ákærða samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 þar sem komið gat til greina að kveðja hann sem vitni í málinu. Með ofangreindum dómi verður slegið föstu þeirri skýringu á ofangreindri 3. mgr. 39. gr. að ekki sé nægjanlegt að líklegt sé að viðkomandi muni koma fyrir dóm sem vitni í máli, heldur sé nægjanlegt að það komi til greina. Í ljósi rannsóknar málsins hjá lögreglu er á þessu stigi málsins með engu móti unnt að útiloka að B hæstaréttarlögmaður verði á síðari stigum kallaður fyrir dóm sem vitni í málinu. 

Að því er varðar álitaefni um gildi 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 gagnvart ákvæðum stjórnarskrár, mannréttindasáttmála og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, þá er það mat dómsins að verjanda ákærða hafi ekki með framlögðum gögnum og rökstuðningi tekist að sýna fram á að tilvitnað ákvæði laga nr. 19/1991 gangi gegn ákvæðum stjórnarskrár eða öðrum þeim réttarheimildum sem vitnað er til. Að auki telur dómurinn að Hæstiréttur Íslands hafi m.a. með dómi í máli nr. 2/2008 þegar slegið föstu að ákvæði 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 brjóti ekki í bága við ákvæði 70. gr. stjórnarskrár, c lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og b og c liði 3. mgr. 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, en að slíku ber réttinum að gæta ex officio. 

Samkvæmt öllu framansögðu er á grundvelli 3. mgr. 39. gr. laga nr. 19/1991 óheimilt að skipa B hæstaréttarlögmann verjanda í málinu og verður kröfu um það því hafnað.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kröfu ákærða, X, um að B hæstaréttar­lögmaður verði skipaður verjandi ákærða, er hafnað.