Hæstiréttur íslands
Mál nr. 362/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Vistun barns
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. apríl 2016, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að dóttir sóknaraðila, D, skyldi vistuð utan heimilis sóknaraðila í sex mánuði frá uppkvaðningu hins kærða úrskurðar að telja. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðilar krefjast þess að barninu verði komið í umsjá sóknaraðilans A. Þá krefjast sóknaraðilar kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður en um gjafsóknarkostnað sóknaraðila fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, A og B, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns þeirra, 350.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. apríl 2016.
I.
Krafa sóknaraðila, dagsett 9. mars 2016, barst dóminum 10. sama mánaðar. Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 19. apríl 2016.
Sóknaraðili er barnaverndarnefnd C, [...], [...].
Varnaraðilar eru A, kt. [...], og B, kt. [...].
Dómkröfur sóknaraðila eru þær að barnið D, kt. [...], til heimilis að [...], [...], verði vistað utan heimilis, á vegum sóknaraðila, í sex mánuði.
Af hálfu sóknaraðila er ekki krafist málskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að barnið verði þegar í stað afhent varnaraðila, móður barnsins, á heimili hennar.
Til vara er þess krafist að vistun barnsins verði ákveðin skemmri tími en sex mánuðir.
Þá krefjast varnaraðilar málskostnaðar úr hendi sóknaraðila eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
II.
Með úrskurði sóknaraðila, uppkveðnum 3. febrúar sl., var barn varnaraðila, D, sem er sjö ára, vistað utan heimilis til tveggja mánaða. Sú ákvörðun var borin undir dóm og með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 16. mars 2016 var ákvörðun nefndarinnar staðfest.
Á fundi barnaverndarnefndar C 8. mars 2015 var samþykkt með vísan til 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 að gerð yrði krafa um það fyrir héraðsdómi að vistun stúlkunnar yrði framlengd þar til viðtölum í Barnahúsi væri lokið eða í allt að sex mánuði til viðbótar við þann tíma sem kveðið hafi verið á um í úrskurði nefndarinnar 3. febrúar sl.
Málavextir eru þeir að 26. október 2015 barst sóknaraðila tilkynning þess efnis að barnið hefði skýrt sérkennslufulltrúa í skóla sínum frá því að faðir þess hefði beitt það kynferðislegu ofbeldi. Málið var strax tilkynnt til lögreglu og var faðir barnsins handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald í kjölfarið. Ákveðið var að vista barnið og yngra systkini þess utan heimilis þar sem móðir þeirra var í endurhæfingu á [...]. Barnið fór í tvær skýrslutökur í Barnahúsi þar sem það staðfesti fyrri framburð um kynferðislegt ofbeldi af hendi föður.
Barninu var aftur komið í umsjá móður sinnar eftir að hún sneri heim af [...]i, en faðirinn var þá fluttur af heimilinu. Gerð var áætlun um meðferð máls og var af hálfu sóknaraðila lögð áhersla á að barnið myndi ekki umgangast föður sinn nema að mjög takmörkuðu leyti um jól og áramót sem voru á næsta leiti.
Samkvæmt gögnum málsins lýsti móðir barnsins þeirri afstöðu sinni í samtali við tilsjónaraðila og á fundi með kennurum skólans í byrjun árs að tilkynning um kynferðisofbeldi væri byggð á misskilningi, að barnið hefði ruglast í frásögn sinni og að faðirinn hefði ekki gert það sem hann væri sakaður um. Jafnframt kom fram afstaða móður þess efnis að skóli barnsins hefði farið offari í tilkynningu um kynferðislegt ofbeldi og ekki staðið rétt að málum varðandi stuðning við barnið í þessum aðstæðum.
Í beiðni sóknaraðila segir að í sjálfstæðri greinargerð sem móðir barnsins hafi lagt fram á fundi barnaverndar 26. janúar sl. hafi hún jafnframt lýst þeirri afstöðu sinni að barnið ætti við geðrænan vanda að etja, jafnvel einhverfu. Jafnframt hafi hún talið vísbendingu hafa komið fram um að barnið fengi of mikla athygli fyrir vanlíðan og væri jafnvel umbunað fyrir vanlíðan með athygli.
Þá segir í beiðni sóknaraðila að við meðferð málsins hafi komið í ljós að barnið hafi á þeim tíma er það var vistað utan heimilis sýnt áberandi betri líðan og náð framförum með ýmsan vanda sem það hafði glímt við frá upphafi skólagöngu. Eftir að barnið sneri aftur á heimili móður sinnar hafi það sýnt verri líðan og sömuleiðis einkenni eins og ótímabær þvaglát sem það hafði glímt við frá upphafi skólagöngu. Vísbendingar hafi komið fram bæði frá skóla og tilsjónaraðila að barnið væri í meiri samskiptum við föður sinn en eðlilegt gæti talist í ljósi þess að hann væri grunaður um kynferðislegt ofbeldi gagnvart því.
Þrátt fyrir að brýnt hafi verið fyrir móður nauðsyn þess að barnið færi í meðferðarviðtöl í Barnahúsi hafi hún ekkert aðhafst í því efni fyrr en sóknaraðili leitaði eftir samþykki hennar til að vista barnið utan heimilis. Af hálfu sérfræðinga Barnahúss hafi hins vegar verið talið að viðtalsmeðferð svo ungs barns væri þýðingarlaus nema að því gefnu að barnið hefði stuðning foreldris og væri ekki í samskiptum við meintan geranda.
Þá segir í beiðninni að af hálfu sóknaraðila hafi verið á því byggt að viðtalsmeðferð í Barnahúsi væri barninu bæði nauðsynleg og brýn. Bæði að því er varðaði eðli frásagnar þess um kynferðislegt ofbeldi og það að barnið hefði búið yfir langvarandi vanlíðan sem hefði háð því með alvarlegum hætti í daglegu lífi. Í ljósi efasemda móður gagnvart frásögn barnsins og meðferð skólans og sóknaraðila, hafi verið talið nauðsynlegt í skilningi b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 að barnið væri vistað utan heimilis í allt að tvo mánuði.
Í beiðni sóknaraðila segir að samkvæmt upplýsingum frá Barnahúsi sé viðtalsmeðferð svo skammt á veg komin að ekki sé unnt að leggja mat á árangur hennar að svo stöddu. Viðtalsmeðferð af því tagi sem hér um ræði spanni a.m.k. 12 til 20 viðtöl. Af hálfu sérfræðings Barnahúss hafi verið ítrekað að barnið þurfi stuðning frá umhverfi sínu og að svo virtist sem mikið og gott traust væri á milli barnsins og núverandi vistmóður.
Eftir að barnið var vistað utan heimilis hafi það farið í umgengni til móður sinnar og yngri bróður í nokkur skipti, en samkvæmt skýrslu eftirlitsaðila verði ekki annað ráðið af orðum móður en að staða föður barnsins í fjölskyldu þess sé óbreytt. Jafnframt hafi móðir látið í ljós svo að barnið heyrði að hún væri ósátt við núverandi stöðu.
Varnaraðili kveður sig hins vegar hafa sýnt mikinn samstarfsvilja við meðferð málsins, en hún hafi m.a. sótt sálfræðitíma, tekið á móti tilsjón á heimili sínu, fengið óboðað eftirlit barnaverndarnefndar og lýst því margsinnis yfir að hún sé reiðubúin að eiga gott og náið samstarf við barnaverndarnefnd með hagsmuni dóttur sinnar að leiðarljósi. Þrátt fyrir yfirlýsingar móður og algeran samstarfsvilja í orði og verki hafi málið verið lagt fyrir barnaverndarnefnd C 26. janúar 2016 sem lokið hafi verið með úrskurði nefndarinnar 3. febrúar sl. um að barnið D skyldi vistað utan heimilis í tvo mánuði. Sú ákvörðun hafi verið borin undir héraðsdóm og hafi málinu lokið þar með úrskurði 16. mars sl. þar sem ákvörðun nefndarinnar hafi verið staðfest. Skammur tími hafi þá verið eftir af vistunartímanum og hafi úrskurðurinn því ekki verið kærður til Hæstaréttar, enda hafi einnig legið fyrir að sóknaraðili hygðist óska eftir áframhaldandi vistun barnsins sem fjallað sé um í máli þessu.
III.
Sóknaraðili kveður að með hliðsjón af gögnum málsins sé það óbreytt mat starfsmanna sóknaraðila að meðferðarviðtöl í Barnahúsi, sem séu barninu nauðsynleg, komi ekki að gagni ef barnið er í umsjá móður sinnar á sama tíma. Fullyrðing móður um að hún trúi frásögn barnsins og hafi vísað föður af heimilinu sé ótrúverðug í ljósi þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu.
Sóknaraðila beri skylda til að tryggja óskilyrtan rétt barnsins fyrir vernd og umönnun í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga og ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2003. Með hliðsjón af atvikum máls og í þágu hagsmuna barnsins sé nauðsynlegt að ráðstöfun samkvæmt framansögðu standi í sex mánuði, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga. Um frekari lagarök er vísað til IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002, meginreglna barnalaga nr. 76/2003 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
IV.
Af hálfu varnaraðila eru ýmsar athugasemdir gerðar við greinargerð barnaverndarnefndar frá 26. janúar sl. Meðal annars eru gerðar athugasemdir við þau ummæli starfsmanna sóknaraðila að móður barnsins skorti innsæi hvað varðar vanda stúlkunnar, að hún hafi brotið fyrirmæli sóknaraðila um umgengni, m.a. um umgengni stúlkunnar við föður sinn og að móðir hafi varpað ábyrgð á málinu yfir á stúlkuna með því að segja henni að faðir hennar byggi ekki á heimilinu vegna þess sem hún hefði sagt í Barnahúsi. Þá sé ekki rétt að móðir hafi sagt að hún tryði ekki framburði stúlkunnar. Þvert á móti hafi hún alla tíð trúað dóttur sinni og hennar framburði. Þá tekur varnaraðili fram að faðir barnsins hafi flutt af heimilinu um miðjan desember og búi hjá móður sinni, auk þess sem hann vinni mikið úti á landi. Einnig heldur varnaraðili því fram að öll tilmæli um umgengni hafi verið munnleg og að hún hafi farið eftir þeim tilmælum í hvívetna. Varnaraðili kveður dóttur sína fá fullan stuðning hjá sér, en hún hafi engar upplýsingar fengið um meðferð dóttur sinnar, í hverju hún sé fólgin eða hvers sé krafist af varnaraðila í því sambandi.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að verulegir gallar séu á málsmeðferð sóknaraðila, sem leitt hafi til þeirrar kröfu sem gerð sé í málinu, og beri því að hafna henni. Engin nauðsyn standi til þess að vista barnið utan heimilis. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé óheimilt að beita úrræði eins og vistun utan heimilis nema vægari úrræði hafi verið reynd án árangurs. Í því efni sé m.a. vísað til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Ljóst sé að móðir barnsins hafi farið í öllu eftir meðferðaráætlun sem gerð hafi verið í lok vistunar barna hennar í desember 2015. Hafi markmiði áætlunarinnar verið náð að öllu leyti og engin lagaskilyrði fyrir því að beita íþyngjandi ráðstöfun eins og vistun barnsins utan heimilis eins og nú sé gerð krafa um af hálfu sóknaraðila.
Vistun barns utan heimilis sé íþyngjandi ráðstöfun, sem ekki eigi að grípa til nema brýna nauðsyn beri til. Þurfi sú ákvörðun að vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum í kjölfar rannsóknar máls og álitsumleitanar þegar það eigi við. Í máli þessu hafi aldrei verið kallað eftir áliti óháðra sérfræðinga um þörf eða áhrif vistunar barnsins utan heimilis, heldur hafi verið stuðst við órökstutt bréf frá Barnahúsi og getgátur starfsmanna barnaverndar um að móðir styðji ekki barnið og því sé meðferð ekki líkleg til að skila árangri. Ekki hafi komið fram á hverju það mat sérfræðinga Barnahúss sé byggt, en aðeins einu sinni hafi komið fyrir að móðir barnsins hafi ekki svarað símtali frá Barnahúsi, þ.e. 11. janúar sl. Í stað þess að hringja aftur í móður hafi sú staðreynd að hún svaraði ekki símtalinu í greint sinn verið túlkað á þann veg að barnið nyti ekki stuðnings móður sinnar. Slík afstaða sé mjög ómálefnaleg.
Þá brjóti krafa sóknaraðila gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Komið hafi fram að sérfræðingar Barnahúss hafi talið að stúlkan þyrfti á 12 til 20 viðtölum að halda svo að meðferðin bæri árangur. Nú hafi barnið farið í á annan tug viðtala í Barnahúsi og hafi markmiði því sem að hafi verið stefnt því verið náð. Engin nauðsyn sé því á að vista barnið utan heimilis lengur.
Af hálfu varnaraðila er einnig á því byggt að sóknaraðili hafi vanrækt rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í stað þess að beita vægasta úrræði barnaverndarlaga, sbr. 24. gr. þeirra, hafi verið tekin ákvörðun um vistun barnsins utan heimilis. Ekkert hafi komið fram um að starfsfólk barnaverndar hafi leitast við að kanna réttmæti þeirra upplýsinga sem borist hafi frá Barnahúsi um að stuðningur móður væri ekki fyrir hendi. Þá hafi ekki verið kallað eftir afstöðu sérfræðings í málefnum barna um hvaða áhrif aðskilnaður móður og barns muni hafa á barnið. Umgengni móður við barnið sé afar takmörkuð eða í tvær klukkustundir aðra hverja helgi og undir eftirliti. Ekki hafi verið leitað álits sérfræðinga á því hvort þessi takmarkaða umgengni kunni að vera skaðleg barninu. Vakin er athygli á því að eftir því sem stjórnvaldsákvörðun er meira íþyngjandi þeim mun strangari kröfur verði að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að þær upplýsingar sem búi að baki ákvörðun séu sannar og réttar, sem og að ákvörðun sé byggð á málefnalegum sjónarmiðum þar sem hagsmunir barnsins séu hafðir að leiðarljósi.
Þá brjóti málsmeðferð sóknaraðila gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt því ákvæði skuli stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun að lögmætu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með öðru eða vægara móti. Önnur úrræði en vistun utan heimilis hafi ekki verið fullreynd, svo sem öflugur stuðningur við móður í uppeldishlutverkinu eða ríkt eftirlit með heimili. Móðir barnsins hafi annast dóttur sína og son af alúð og samviskusemi frá fæðingu þeirra, en um það geti allir þeim nákomnir borið vitni. Þá hafi hvorki barnaverndaryfirvöld né aðrir opinberir aðilar þurft að hafa afskipti af málefnum þeirra til þessa.
Auk ofangreinds vekur varnaraðili athygli á því að ákvörðun sóknaraðila um afar takmarkaða umgengni móður við dóttur sína og undir eftirliti brjóti gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Ekki verði séð að umgengni barnsins við móður sína og bróður skaði það á nokkurn hátt og sé afar brýnt að umgengnin verði regluleg og tíð til að móðir og barn geti viðhaldið eðlilegum tengslum.
Varnaraðili vísar til meginreglna stjórnsýsluréttar, ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, barnaverndarlaga nr. 80/2002 og barnalaga nr. 76/2003. Þá sé málskostnaðarkrafan reist á 1. mgr. 60. gr. laga nr. 80/2002 og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
V.
Í gögnum málsins kemur fram að við fyrri meðferð málsins hafi komið í ljós að barnið sýndi á þeim tíma sem það var vistað utan heimilis áberandi betri líðan og framfarir með ýmsan vanda sem það hafði glímt við frá upphafi skólagöngu. Eftir að barnið sneri aftur á heimili móður sinnar hafi það sýnt verri líðan og fyrri einkenni tekið sig upp aftur. Þá hafi vísbendingar komið fram, bæði frá skóla og tilsjónaraðila á heimili, um að barnið væri í meiri samskiptum við föður en eðlilegt gæti talist í ljósi þess að hann væri grunaður um kynferðislegt ofbeldi gagnvart barninu.
Á meðal gagna málsins nú er greinargerð starfsmanna sóknaraðila, dagsett 15. apríl sl., þar sem fram kemur að miklar breytingar hafi orðið á barninu frá upphafi vistunar hjá vistforeldrum. Í byrjun hafi stúlkan verið mjög bæld, talað lágt ofan í bringuna á sér og haft sig lítið í frammi. Nú sé hún létt og kát og hlaupi um brosandi. Hún taki virkan þátt í öllu og hafi frumkvæði að leikjum og tali hátt og skýrt. Þá hafi stúlkan opnað sig við annað barn á heimilinu um reynslu sína af viðtölum í Barnahúsi, sem og við vistmóður sína um ætlað kynferðisbrot. Einnig hafi barnið rætt við vistmóður um áhyggjur sínar af bróður sínum og að hún væri hrædd um að faðir þeirra meiddi hann. Jafnframt hafi hún tjáð vistmóður sinni að pabbi ætti að sofa heima hjá mömmu sinni en hann gerði það ekki alltaf.
Þá kemur fram í greinargerðinni að stúlkan sé búin að fara í sex viðtöl í Barnahúsi, en meðferðin krefjist þess að fram fari 12 til 20 viðtöl. Í viðtalsmeðferðinni sé enn verið að vinna með tilfinningar stúlkunnar, en starfsmenn barnaverndar vænti þess að það komi að því síðar í meðferðinni að rætt verði um ætlað kynferðisbrot gegn barninu.
Í skýrslu varnaraðila, A, fyrir dóminum kom fram að barnið hefði ekkert hitt föður sinn síðan í fjölskylduboðum um jólin. Hún staðfesti þó að hún væri í samskiptum við varnaraðila B, en þau deildu saman bifreið. Þá kæmi það fyrir að hann gisti á heimilinu, en þá færu hún og E til móður varnaraðila. Einnig sagði hún að faðir barnsins hringdi öðru hverju og fengi fréttir af syni sínum og þá hefði hann verið viðstaddur útför föður hennar og tekið þátt í aðdraganda og undirbúningi hennar. Jafnframt staðfesti varnaraðili að hún, móðir hennar, varnaraðili B og sonur þeirra hefðu farið í bústað yfir helgi um miðjan febrúar þar sem þau hefðu farið í göngutúra og í heita pottinn. Aðspurð sagðist hún samt sem áður hafa lagt trúnað á frásögn dóttur sinnar á sama tíma.
Loks staðfesti varnaraðili A að hafa tjáð dóttur sinni eftir að barnið kom aftur á heimilið í desember síðastliðnum að faðir hennar byggi ekki lengur á heimilinu vegna þess sem barnið hefði sagt frá í Barnahúsi. Með ummælum þessum þykir varnaraðili hafa varpað ábyrgð á málinu og þeirri aðstöðu sem fjölskyldan var í yfir á barnið og frásögn þess, í stað þess að útskýra fyrir dóttur sinni að aðstæður væru með þessum hætti vegna þess sem komið hefði fyrir. Þá hefur varnaraðili A borið um að hafa sagt við dóttur sína að barnavernd héldi að pabbi hefði meitt hana. Þykja þessi orð benda til þess að varnaraðili dragi frásögn dóttur sinnar í efa.
Með hliðsjón af öllu framangreindu, sérstaklega þeim breytingum sem orðið hafa á líðan barnsins eftir að það var vistað utan heimilis á ný, afstöðu móður til málsins, reglulegum samskiptum hennar við föður og þeim orðum sem hún hefur staðfest að hafa látið falla í viðurvist dóttur sinnar, þykja komnar fram sterkar vísbendingar um að móðir barnsins hafi tekið afstöðu með föður þess í málinu og sé því ekki líkleg til að sýna dóttur sinni fullan stuðning heima fyrir. Þá þykja vangaveltur varnaraðila um að eitthvað annað ami að barninu, svo sem að það sé á einhverfurófi, benda til hins sama.
Brýnt þykir að barnið ljúki viðtalsmeðferð í Barnahúsi sem nú er hafin en er skammt á veg komin. Fyrir liggur að slík meðferð kemur ekki að gagni nema barnið njóti stuðnings foreldris og sé ekki í samskiptum við ætlaðan geranda.
Ljóst er að önnur og vægari úrræði höfðu verið reynd án árangurs áður en ákvörðun var tekin um vistun telpunnar utan heimilis varnaraðila. Er skilyrðum 26. gr., sbr. b-lið 27. gr., barnaverndarlaga því fullnægt.
Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að fallast beri á kröfur sóknaraðila um að stúlkan verði vistuð utan heimilis varnaraðila í sex mánuði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Málskostnaðar var ekki krafist af hálfu sóknaraðila, en varnaraðili hefur krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Eins og atvikum er háttað þykir rétt að fella málskostnað niður.
Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 30. mars 2016, var varnaraðilum veitt gjafsókn til að taka til varna í málinu fyrir héraðsdómi, sbr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Þuríðar B. Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Barnið D, kt. [...], til heimilis að [...], [...] sem lýtur forsjár varnaraðila, A, kt. [...], og B, kt. [...], skal vistað utan heimilis, á vegum sóknaraðila, í sex mánuði frá uppkvaðningu úrskurðarins að telja.
Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, þ.m.t. þóknun lögmanns þeirra, Þuríðar B. Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanns, 400.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.