Hæstiréttur íslands

Mál nr. 235/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 28

 

Mánudaginn 28. apríl 2008.

Nr. 235/2008.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Erlendur Þór Gunnarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

                       

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 21. maí 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Heimild til gæsluvarðhalds samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er eðli máls samkvæmt háð því að ekki verði óhæfilegur dráttur á rannsókn máls og það sé síðan rekið með viðhlítandi hraða. Fram kemur í gögnum málsins að sóknaraðili bíði nú gagna um afleiðingar ætlaðs brots varnaraðila, sem nauðsynleg séu áður en ákvörðun er tekin um framhald málsins. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. apríl 2008.

             Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úr­skurði að X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæslu­varð­haldi allt til miðvikudagsins 21. maí 2008, kl. 16.00.

             Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að öryggisvörður í versluninni Tíu - ellefu, Austurstræti 17, Reykjavík, hafi orðið fyrir fólskulegri líkamsárás. Þyki ljóst að um mjög hættulega árás hafi verið að ræða, þar sem öryggisvörður hafi verið sleg­inn með glerflösku í höfuð við störf sín árla morguns.

             Brotaþoli málsins A hafi gefið lögreglu stutta lýsingu á undanfara árásarinnar og lýst því m.a. að kærði hefði þessa sömu nótt verið fjarlægður af lögreglu úr versluninni eftir að hafa verið þar til vandræða. Síðar, þegar hann hafi verið á leið út úr versluninni, hafi hann verið sleg­inn fyrirvaralaust í höfuðið með flösku, með þeim afleiðingum, að hann féll meðvitundarlítill í götuna.

             Hlaut hann lífshættulegan áverka í árásinni og þurfti að gangast undir læknisaðgerð, þar sem naum­lega tókst að bjarga lífi hans. Erfitt sé að spá fyrir um hverjar batahorfur hans séu að svo stöddu, en vísað sé í bráðabirgðalæknisvottorð í gögnum málsins. Enn sé verið að meta ástand hans og sé beðið frekari niðurstöðu lækna.

             Kærði þyki vera undir sterkum grun um sérstaklega alvarlega líkamsárás, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðar allt að 16 ára fangelsi. 

             Í upptöku úr eftirlitsmyndavél í miðborginni megi sjá hvar kærði standi nokkra stund fyrir utan verslunina og virðist sem hann sé þar að fylgjast með því sem gerist inni í versluninni. Þá sjáist hvar hann taki upp flösku og bíði færis. Síðar megi sjá hvernig hann veitist að öryggisverði verslunarinnar þegar að hann komi út úr verslun Tíu - ellefu. Myndskeiðið beri að mati lögreglu með sér einbeittan ásetning til þess að fremja alvarlegt ofbeldisverk. Í ljósi þessa þyki árásin sérstaklega alvarleg og sé þá einnig litið til þess að fyrr um nóttina hafi þurft atbeina lögreglu til að fjarlægja kærða úr versluninni. Hann hafi svo komið öðru sinni að versluninni og virðist þá hafa ráðist að sama starfsmanni og áður hafði haft af honum afskipti.

             Af myndskeiðinu megi jafnframt ráða að engin samskipti hafi verið á milli kærða og brotaþola áður en hann hafi slegið hann af afli í höfuðið. Hættueiginleikar verknaðarins, þ.e. að slá annan mann í höfuðið með glerflösku, séu afar miklir, enda mátti litlu muna, að mannsbani yrði af völdum verknaðarins.

             Rannsókn málsins sé nánast lokið, en beðið sé eftir frekari niðurstöðum lækna um afleiðingar árás­ar­inn­ar, ástand brotaþola og batahorfur. Þá þurfi að senda málið til ríkissaksóknara til þóknanlegrar með­ferðar og með því greinargerð rannsóknara, sbr. 77. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Ætla verði ríkissaksóknara eitthvert svigrúm til ákvörðunar um saksókn.

             Kærði hafi játað brotið, en segist ekki hafa farið að versluninni í þeim tilgangi að ráðast á öryggis­vörðinn, heldur hafi hann farið þangað í fylgd vinar síns, sem átti þangað erindi. Af mynd­skeiði af árásinni að dæma, sé það mat lögreglustjóra, að árásin sé fullkomlega tilefnislaus og fólskuleg.

             Það sé mat lögreglustjóra að lagaskilyrði 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, séu uppfyllt, enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið afbrot, sem varðar allt að 16 ára fangelsi og sé í eðli sínu svo svívirðilegt að almannahagsmunir krefjist þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi. Ætlað brot kunni að varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981. Brotið sé að mati lögreglu sérstaklega alvarlegt með tilliti til aðdraganda, hvaða aðferða kærði beitti og hinna alvarlegu afleiðinga sem urðu af völdum brotsins.

             Með hliðsjón af alvarleika brotsins, sem varðað geti allt að 16 ára fangelsi; þess sterka grunar, sem fram sé kominn um aðild kærða að árásinni, sem njóti stuðnings af myndskeiði af árásinni og játningu hans; þeirrar verknaðaraðferðar, sem um ræðir, að ráðast fyrirvaralaust aftan að manni og slá hann í höfuðið með glerflösku, og þeirra afleiðinga, sem af hlutust, þykir lögreglustjóra almannahagsmunir standa til þess, að fallist verði á framlagða kröfu.

             Hæstiréttur hafi tvívegis staðfest gæsluvarðhaldúrskurði í málinu. Nú síðast þann 11. apríl 2008 í máli nr. 197/2008, og þá með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Ekkert nýtt hafi komið fram í málinu, að mati lögreglu, sem haggað geti því mati Hæstaréttar í áðurnefndum dómi sínum, að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, sé fullnægt.

             Mun lögregla ljúka rannsókn málsins innan þess tíma, sem gæsluvarðhalds sé krafist yfir kærða, og koma málinu til ríkissaksóknara til þóknanlegrar meðferðar og ákvörðunar um saksókn.

             Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

             Kærði hefur viðurkennt bæði fyrir lögreglu og dómi að hafa slegið öryggisvörðinn í höfuðið með glerflösku aðfaranótt 6. apríl sl. Kærði hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 6. apríl sl., fyrst vegna rannsóknarhagsmuna skv. a-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en frá 9. apríl sl. á grundvelli almannahagsmuna skv. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Brot það sem kærði er grunaður um varðar allt að 16 ára fangelsi samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt áverkavottorði sem er meðal gagna málsins hlaut brotaþoli við árásina djúpan skurð vinstra megin á höfði og var greindur með lífshættulegan áverka vegna heilablæðingar og þurfti þegar í stað að gangast undir læknisaðgerð. Verður því að telja nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi. Er því fallist á að skilyrði 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 séu fyrir hendi í máli þessu. Ekki eru efni til að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en krafist er og verður því orðið við kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinnn.

Úrskurðarorð:

             Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 21. maí nk. kl. 16.00.