Hæstiréttur íslands
Mál nr. 404/2003
Lykilorð
- Verksamningur
- Frávísun frá Hæstarétti að hluta
|
|
Fimmtudaginn 21. október 2004. |
|
Nr. 404/2003. |
S.S. Byggir ehf. (Árni Pálsson hrl.) gegn Smáratorgi ehf. (Ásgeir Þór Árnason hrl.) og gagnsök |
Verksamningur. Frávísun gagnsakar frá Hæstarétti.
SSB ehf. og S ehf. gerðu með sér verksamning þar sem SSB ehf. tók að sér að reisa verslunarmiðstöð fyrir S ehf. Ágreiningur reis um uppgjör vegna verksins. Höfðaði SSB ehf. mál á hendur S ehf. og krafðist greiðslu vegna ýmissa aukaverka o.fl. S ehf. tók til varna í héraði og krafðist aðallega sýknu. Andmælti félagið kröfum SSB ehf. og hélt fram gagnkröfum til skuldajafnaðar vegna dagsekta og galla á verkinu. Með dómi héraðsdóms 16. júlí 2003 var S ehf. dæmt til að greiða SSB ehf. 11.455.000 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Þann 1. ágúst sama árs greiddi S ehf. SSB ehf. 13.210.098 krónur. SSB ehf. áfrýjaði málinu til Hæstaréttar 15. október 2003 og gagnáfrýjunarstefna S ehf. var gefin út 6. janúar 2004. Hæstiréttur taldi að miða yrði við að umrædd greiðsla hafi verið innt af hendi fyrirvaralaust. Yrði hvorki ráðið af fjárhæð greiðslunnar né málatilbúnaði S ehf. fyrir Hæstarétti að hún varðaði tiltekna þætti í dómkröfum S ehf. í héraði þannig að öðrum þáttum yrði haldið til streitu án tillits til hennar. Yrði því ekki hjá því komist að telja að gagnáfrýjun málsins væri ósamrýmanleg greiðslunni á meginhluta kröfunnar samkvæmt hinum áfrýjaða dómi og yrði gagnsök því vísað frá Hæstarétti. Endanleg kröfugerð SSB ehf. fyrir Hæstarétti varðaði, auk þeirrar fjárhæðar sem honum var tildæmd í héraði, reyklosunarbúnað, festingar á þakpappa og kröfu vegna lækkunar S ehf. á áður greiddum reikningum. Af gögnum málsins var ljóst að það voru alfarið ástæður sem vörðuðu SSB ehf. sem urðu til þess að keyptur var annar reyklosunarbúnaðar en gert var ráð fyrir í verklýsingu. Talið var að SSB ehf. gæti ekki reist fjárkröfu á hendur S ehf. á því einu að hann hafi veitt samþykki sitt fyrir því að notaður yrði annar búnaður en sá sem verklýsing gerði ráð fyrir. Þá tókst SSB ehf. ekki að sanna að S ehf. hafi samþykkt að greiða meira vegna umrædds búnaðar en um var samið í verksamningi aðila. Að því er snerti festingar á þakpappa tók Hæstiréttur fram að S ehf. yrði að bera þann kostnað sem hafi hlotist af ónákvæmni í teikningum. Var því þessi liður í kröfu SSB ehf. tekinn til greina. Í tilefni af lækkun S ehf. á reikningum var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ekki væru efni til að fallast á þær kröfur sem SSB ehf. reisti alfarið á því að S ehf. hafi einhliða og með óheimilum hætti lækkað áður greidda reikninga. Þeim liðum kröfu SSB ehf., sem jafnframt voru reistir á öðrum málsástæðum, þ.e. vegna girðingar á vinnusvæði og stálslípunar steypiyfirborðs á gólfi byggingarinnar, var hafnað, en fallist á kröfu félagsins vegna breytinga á verkinu vegna stærri þakeininga en gert hafði verið ráð fyrir. Var S ehf. samkvæmt því dæmt til að greiða SSB ehf. 15.195.345 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum að frádreginni framangreindri innborgun.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. október 2003. Hann krefst að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 41.295.603 krónur með dráttarvöxtum af 25.657.932 krónum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 2. maí 2001 til 1. júlí sama árs, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 27. júlí 2001, en af 41.295.603 krónum frá þeim degi til greiðsludags, að frádreginni innborgun á 13.210.098 krónum 1. ágúst 2003. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjunarstefna var gefin út 6. janúar 2004. Gagnáfrýjandi krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Aðilar gerðu með sér verksamning 10. maí 2000 þar sem aðaláfrýjandi tók að sér að reisa verslunarmiðstöð á Gleráreyrum á Akureyri fyrir gagnáfrýjanda. Um var að ræða breytingar á eldra húsi og viðbyggingar. Voru útboðsgögn, tilboð verktaka og verkáætlun hans hluti samningsins sem og ÍST 30 eftir því sem við gæti átt. Samningsfjárhæð var 368.830.439 krónur og skyldi verkinu lokið 1. nóvember 2000. Ágreiningur reis með aðilum um uppgjör vegna verksins. Í uppgjörtillögu byggingastjóra gagnáfrýjanda 27. júní 2001 kom fram að hann taldi sig eiga eftir að greiða 9.276.023 krónur vegna samningsverksins auk þess sem hann samþykkti kröfur vegna tilgreindra aukaverka að fjárhæð 6.089.558 krónur. Hann taldi sig hins vegar eiga gagnkröfur á aðaláfrýjanda vegna tiltekinna „vanefnda (og sparnaðar)“ að fjárhæð samtals 3.425.000 krónur og dagsekta að fjárhæð 8.030.000 krónur þannig að aðaláfrýjandi ætti rétt á greiðslu vegna verksins sem næmi 3.910.581 krónu umfram það sem þegar hefði verið greitt. Þann 15. ágúst 2001 samþykkti gagnáfrýjandi þar að auki kröfu aðaláfrýjanda vegna aukaverka við raflögn að fjárhæð 1.789.035 krónur þannig að samtals taldi hann sig eiga ógreiddar 5.699.616 krónur vegna verksins. Mun gagnáfrýjandi hafa greitt aðaláfrýjanda þá fjárhæð með þremur greiðslum á tímabilinu 16. ágúst 2001 til 14. september sama árs.
Aðaláfrýjandi taldi sig hins vegar eiga frekari kröfur á gagnáfrýjanda og höfðaði mál þetta í héraði 24. júní 2002 til heimtu á 63.182.388 krónum. Gerði hann fjárkröfur á hendur gagnáfrýjanda vegna ýmissa aukaverka er hann taldi sig hafa unnið, tjóns vegna stöðvunar steypuframkvæmda, kostnaðar vegna breyttra teikninga, kostnaðar vegna reyklosunarbúnaðar og óheimillar einhliða lækkunar gagnáfrýjanda á þegar greiddum reikningum. Þá taldi hann gagnáfrýjanda hvorki eiga á sig gagnkröfu til skuldajafnaðar vegna galla á verkinu né dagsekta. Gagnáfrýjandi tók til varna í héraði og krafðist aðallega sýknu. Andmælti hann kröfum aðaláfrýjanda og hélt fram gagnkröfum til skuldajafnaðar vegna dagsekta og galla á verkinu eins og að framan er nefnt.
Héraðsdómur hafnaði öllum kröfum aðaláfrýjanda á hendur gagnáfrýjanda umfram það sem hinn síðarnefndi hafði viðurkennt 27. júní 2001 og 15. ágúst sama árs eins og fyrr segir. Þá hafnaði héraðsdómur einnig öllum skuldajafnaðarkröfum gagnáfrýjanda, þó þannig varðandi einn þátt þeirra að hann yrði ekki ákveðinn að svo stöddu. Að teknu tilliti til fyrrgreindra innborgana dæmdi héraðsdómur gagnáfrýjanda því til að greiða aðaláfrýjanda 11.455.000 krónur með dráttarvöxtum frá 27. júní 2001.
Héraðsdómur var upp kveðinn 16. júlí 2003. Þann 1. ágúst sama árs greiddi gagnáfrýjandi aðaláfrýjanda 13.210.098 krónur. Meðal gagna sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt er greiðsluseðill frá Búnaðarbankanum, sem staðfestir að framangreind greiðsla var þann dag innt af hendi. Hins vegar liggur ekki fyrir sérstök kvittun aðaláfrýjanda vegna móttöku á þessari greiðslu. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti skýrði lögmaður gagnáfrýjanda svo frá að endurskoðandi gagnáfrýjanda, sem fyrir héraðsdómi kvaðst hafa haft fyrir hans hönd fjárhagslegt eftirlit með verkinu og annast samningsgerð vegna þess, hafi upplýst sig um að hann hafi eftir uppsögu héraðsdóms leitað samkomulags við lögmann aðaláfrýjanda um uppgjör samkvæmt dóminum, sem hann hafi ekki búist við að yrði áfrýjað af hálfu dómhafa. Hafi hann haft í hyggju að höfða sérstakt mál til heimtu á gagnkröfum í þessu máli. Gjaldkeri áfrýjanda hafi síðan með aðstoð hagdeildar Búnaðarbankans reiknað dómkröfuna með áföllnum dráttarvöxtum til greiðsludagsins og greitt hana eins og hún stóð þá að frádregnum 3.000.000 krónum. Lögmaður aðaláfrýjanda skýrði svo frá við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti að endurskoðandinn hafi rætt við sig í síma um greiðslu á dómkröfunni og hafi endurskoðandinn þá verið búinn að ákveða greiðslu af hálfu gagnáfrýjanda. Ekki hafi verið tilgreint að greiðslan varðaði ákveðinn hluta kröfunnar og hafi hún verið innt af hendi án nokkurs fyrirvara.
Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti verður við það að miða að umrædd greiðsla hafi verið innt af hendi fyrirvaralaust. Þá verður hvorki ráðið af fjárhæð greiðslunnar né málatilbúnaði gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti að hún varði tiltekna þætti í dómkröfum gagnáfrýjanda í héraði þannig að öðrum þáttum verði haldið til streitu án tillits til hennar. Verður í ljósi framanskráðs ekki hjá því komist að telja að gagnáfrýjun málsins sé ósamrýmanleg þessari greiðslu á meginhluta kröfunnar samkvæmt hinum áfrýjaða dómi og verður gagnsök því vísað frá Hæstarétti.
II.
Aðaláfrýjandi sættir sig við niðurstöðu héraðsdóms um ýmsa þætti kröfugerðar sinnar þar fyrir dómi. Endanleg kröfugerð hans fyrir Hæstarétti varðar, auk þeirrar fjárhæðar sem honum var tildæmd í héraði, reyklosunarbúnað, festingar á þakpappa og kröfu vegna lækkunar gagnáfrýjanda á áður greiddum reikningum.
Samkvæmt verklýsingu, sem var hluti útboðsgagna, skyldi verktaki leggja til og koma fyrir reyklúgum á þaki byggingarinnar. Skyldi einingarverð innihalda allt efni og alla vinnu sem til þurfti til að fullgera þennan verkþátt þar með talið stýrikerfi og opnunarbúnað. Eins og rakið er í héraðsdómi festi aðaláfrýjandi kaup á reyklosunarbúnaði, sem var annar en sá sem verklýsing gerði ráð fyrir. Gerir hann kröfu um að gagnáfrýjandi greiði sér 3.512.326 krónur sem sé sá umframkostnaður sem af þessu hlaust. Ljóst er af gögnum málsins, sem rakin eru í héraðsdómi, að það voru alfarið ástæður er vörðuðu aðaláfrýjanda sem urðu til þess að í október 2000 var vikið frá verklýsingu og annar búnaður keyptur. Þá er einnig fram komið að ekki náðist á þessum tíma samkomulag með aðilum um að gagnáfrýjandi tæki þátt í þessum viðbótarkostnaði. Getur aðaláfrýjandi ekki eins og hér stendur á reist fjárkröfu á hendur gagnáfrýjanda á því einu að hann hafi veitt samþykki sitt fyrir því að notaður yrði sá búnaður, sem aðaláfrýjandi hafði keypt. Aðaláfrýjandi heldur því fram að hvað sem þessu líði hafi náðst um það samkomulag á fundi 8. ágúst 2001 að gagnáfrýjandi greiddi 2.850.000 krónur vegna þessa. Fyrir héraðsdómi báru fimm menn um niðurstöðu þessa fundar. Töldu þrír þeirra að þar hafi náðst samkomulag um þennan þátt en tveir að svo hafi ekki verið. Verður að telja þá alla tengda ágreiningsefninu með þeim hætti að af framburði þeirra verði ekki leidd sönnun um slíkt samkomulag. Samkvæmt því hefur aðaláfrýjanda ekki tekist að sanna að gagnáfrýjandi hafi samþykkt að greiða meira vegna umrædds reyklosunarbúnaðar en um var samið í verksamningi aðila og verður þessi þáttur kröfu hans því ekki tekinn til greina.
Aðila greinir ekki á um að í verklýsingu hafi verið við það miðað að bræða skyldi tvö lög af nýjum þakpappa, sem leggja skyldi yfir eldra þak, við þann pappa, sem fyrir var á þakinu eftir að eldri pappinn hefði verið hreinsaður. Þá er ekki ágreiningur um að gagnáfrýjandi samþykkti tillögu undirverktaka aðaláfrýjanda um að breyta þessari verktilhögun þannig að nýi pappinn yrði festur niður með þar til gerðum festingum, sem borað yrði fyrir í gegn um eldra pappalag og einangrun og þær festar við undirlag þaksins. Í ljós kom að festingar þær sem undirverktakinn pantaði reyndust of stuttar og þurfti því að panta nýjar. Gerir aðaláfrýjandi kröfu um greiðslu á 670.345 krónum af þessu tilefni. Eins og rakið er í héraðsdómi reis af þessu ágreiningur milli aðaláfrýjanda og undirverktakans, sem lyktaði með dómi Hæstaréttar 12. desember 2002 í máli nr. 297/2002. Var þar á því byggt að teikningar af þakinu væru misvísandi og mætti rekja aukakostnað undirverktakans til þess og var aðaláfrýjandi því dæmdur til að greiða undirverktakanum umræddan kostnað. Verður gagnáfrýjandi að bera þann kostnað sem aðaláfrýjandi varð fyrir vegna þessarar ónákvæmni í teikningum sem stöfuðu frá gagnáfrýjanda. Verður þessi liður í kröfu aðaláfrýjanda því tekinn til greina.
Aðaláfrýjandi gerir loks kröfu um að gagnáfrýjandi greiði sér 25.657.932 krónur vegna lækkunar á áður greiddum reikningum. Með vísan til forsendna hin áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að ekki séu efni til að fallast á þær kröfur sem aðaláfrýjandi reisir alfarið á því að gagnáfrýjandi hafi einhliða og með óheimilum hætti lækkað áður greidda reikninga. Í þessu sambandi verður þó til þess að líta að aðaláfrýjandi reisir þrjá hluta þessarar kröfu jafnframt á öðrum málsástæðum.
Í fyrsta lagi hafi aðaláfrýjandi ekki girt vinnusvæðið á þann hátt, sem verklýsing kvað á um. Hafi hann þess í stað notað lausar girðingar og aukna vörslu á svæðinu. Þessi liður hafi verið unninn á annan hátt en í verklýsingu greinir og því sé um að ræða breytingu á verkinu en ekki frávik frá áætluðu magni. Í verksamningi mun hafa verið miðað við 1.500.000 krónur fyrir þennan þátt verksins. Þegar verkþættir, sem varða þennan kafla verklýsingar, voru magnteknir af fulltrúum aðila 12. mars 2001 var bókað að verkkaupi teldi að fyrir þennan lið skyldi greiða 500.000 krónur en liðurinn yrði athugaður nánar af verktaka. Verður ekki séð að frekari athugasemdir hafi komið frá aðaláfrýjanda varðandi þennan lið og var heildarverð hans 500.000 krónur í magnskrá, sem lá til grundvallar áðurnefndri uppgjörstillögu gagnáfrýjanda. Sé litið til málatilbúnaðar aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti verður við það að miða að frumkvæði að þessari breyttu verktilhögun sé frá honum komið. Hafi þetta leitt til sparnaðar fyrir gagnáfrýjanda á aðaláfrýjandi samkvæmt ÍST 30 rétt á hluta af þeim sparnaði, en náist ekki um það samkomulag skal umsjónarmaður verkkaupa úrskurða um skiptinguna. Það gerði umsjónarmaður gagnáfrýjanda við magntöku verksins með því að lækka einingarverð fyrir þennan þátt úr 1.500.000 krónum í 500.000 krónur. Hefur aðaláfrýjandi ekki fært nein efnisleg rök fyrir annarri niðurstöðu og verður hún því látin óbreytt standa.
Í annan stað telur aðaláfrýjandi að ekki séu forsendur til að lækka endurgjald fyrir stálslípun steypuyfirborðs á gólfi byggingarinnar. Í ljós hafi komið misfellur á gólfinu, en þessi hluti verksins hafi verið afhentur 1. september 2000. Hér sé því um að ræða ágreining vegna ætlaðs galla á verkinu. Hafi leigutaki í þessum hluta hússins tekið að sér að gera við misfellur á gólfinu og krefja aðaláfrýjanda um kostnað vegna þess. Frágangi gólfsins sé nú lokið og ekki hafi komið fram krafa leigutaka vegna galla á gólfinu. Sé ósannað að það hafi verið gallað. Gagnáfrýjandi heldur því fram að aðaláfrýjandi hafi aðeins framkvæmt lágmarks viðgerðir á gólfinu og á engan hátt bætt úr göllum á vélslípun þess. Á hinum gallaða hluta gólfsins hafi vélslípun því ekki tekist og því hafi umfang verksins réttilega verið minnkað að þessu leyti við magntöku. Í aðilaskýrslu Sigurðar Sigurðssonar framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda fyrir héraðsdómi kom fram að undirverktaki sá sem þetta annaðist hafi byrjað að pússa gólfplötuna. Upp hafi komið smávægilegur galli í gólfinu og undirverktakinn hafi í framhaldi þess verið látinn fara frá verkinu. Þennan galla hafi aðaláfrýjandi síðar lagað. Meðal gagna málsins eru ljósmyndir sem sýna misfellur á gólfinu. Samkvæmt magnskrá sem fylgdi verklýsingu var gert ráð fyrir að stálslípun yfirborðs tæki til 8.680 m2. Við magntöku verksins 13. mars 2001 var það talið minna sem nemur 1.098 m2 vegna galla á yfirborði gólfs, en fyrirvari gerður af fulltrúa aðaláfrýjanda um nánari athugun. Ekki verður séð að í framhaldi af þessu hafi komið frekari athugasemdir af hálfu aðaláfrýjanda og var þessi magntala lögð til grundvallar fyrrnefndri uppgjörstillögu gagnáfrýjanda. Verður við það miðað að stálslípun hafi ekki gengið eftir í samræmi við verklýsingu á þeim hluta gólfsins, sem misfellur voru á. Uppgjör verksins skal því miðað við framangreinda magntöku þess. Verður því ekki orðið við kröfu aðaláfrýjanda vegna þessa verkþáttar.
Í þriðja lagi telur aðaláfrýjandi að ekki hafi verið forsendur til að lækka umsamið endurgjald vegna uppsetningar og frágangs þakeininga. Í verklýsingu var kveðið á um að á þak hússins skyldu koma innfluttar einingar, sem lagðar skyldu til af verkkaupa. Væri hver eining um 700 kg og þekti um 13 m2. Í magnskrá var miðað við að þessar einingar væru 375 talsins. Gagnáfrýjandi keypti stærri þakeiningar til verksins en verklýsing gerð ráð fyrir og þurfti einungis 210 einingar til að loka þakinu. Við magntöku á verkinu 5. apríl 2001 var miðað við 210 stykki en fulltrúi aðaláfrýjanda gerði fyrirvara um þennan þátt. Í magnskrá var miðað við óbreytt einingarverð frá verksamningi en fækkun eininga úr 375 í 210 sem leiddi til þess að endurgjald vegna þessa liðar lækkaði um 3.069.000 krónur. Aðaláfrýjandi telur að hér sé um að ræða breytingu á verkinu af hálfu verkkaupa en ekki minnkun á umsömdu magni. Hafi þessi breyting ekki leitt til sparnaðar fyrir sig. Fallast verður á það með aðaláfrýjanda að val gagnáfrýjanda á stærri þakeiningum en gert var ráð fyrir í verklýsingu feli í sér breytingu á verkinu. Samkvæmt ÍST 30 getur verkkaupi krafist lækkunar á samningsfjárhæð leiði breyting á verkinu til lægri kostnaðar enda sé sú krafa gerð þegar í stað. Áfrýjandi gerði reikning fyrir þennan verkþátt í samræmi við tilboð sitt og var hann áritaður af byggingastjóra gagnáfrýjanda og greiddur. Verður ekki séð að krafa hafi komið fram af hálfu gagnáfrýjanda um lækkun endurgjalds af þessu tilefni fyrr en löngu síðar í tengslum við uppgjör verksins í heild. Var hún allt of seint fram komin samkvæmt ákvæðum staðalsins og verður þessi kröfuliður aðaláfrýjanda því tekinn til greina. Samkvæmt öllu framansögðu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 15.194.345 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir allt að frádreginni innborgun á 13.210.098 krónum 1. ágúst 2003.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Gagnsök er vísað frá Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi, Smáratorg ehf., greiði aðaláfrýjanda, S.S. Byggi ehf., 15.194.345 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júlí 2001 til greiðsludags að frádreginni innborgun á 13.210.098 krónum 1. ágúst 2003.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. júlí 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 28. maí sl., er höfðað 24. júní 2002.
Stefnandi er S.S. Byggir ehf., Kaldbaksgötu 1, Akureyri.
Stefndi er Smáratorg ehf., Sundaborg 7, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 63.124.894 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 25.657.932 krónum frá 2. maí 2001 til 1. júlí sama árs, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 27. sama mánaðar, en af 63.124.894 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur hans verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I.
Málavextir eru þeir að með verksamningi aðila 10. maí 2000 og að undangengnu útboði tók stefnandi að sér að byggja verslunarmiðstöð fyrir stefnda að Dalsbraut 1 á Akureyri. Er verslunarmiðstöðin nefnd Glerártorg. Verkið fólst einkum í því að breyta um það bil 4000 m² iðnaðarhúsnæði í verslunarhúsnæði og byggja við það um 4700 m² verslunarhús. Í byggingunni áttu að vera um 24 verslanir, auk sameiginlegs rýmis. Samkvæmt verklýsingu átti stefnandi að ljúka að fullu við húsið að utan og ganga frá sameiginlegu rými að innan. Verslunarrýmum átti að skila með vélslípuðum gólfum, en annars var frágangur þeirra ekki innifalinn í verki stefnanda. Umsamið endurgjald til stefnanda samkvæmt verksamningnum var 368.830.439 krónur. Var í samningnum vísað til útboðsgagna frá 1. apríl 2000, tilboðs stefnanda frá 27. sama mánaðar, verkáætlunar hans og íslensks staðals um almenna útboðs- og samningsskilmála um verkframkvæmdir, ÍST-30, og tekið fram að þessi gögn væru, eftir því sem við gæti átt, hluti verksamnings. Samkvæmt 5. gr. hans skyldi verkinu að fullu lokið 1. nóvember 2000. Þá var í þessu ákvæði mælt fyrir um skilatíma á verslunarrýmum til eigenda einstakra verslana þannig að þeir gætu sjálfir hafið vinnu við innréttingar þar. Þannig skyldi flestum verslunarrýmum skilað 15. september 2000, þremur stærstu rýmunum 1. sama mánaðar og einn verslunareigandi átt að fá sitt rými afhent mánuði áður. Í 6. gr. samningsins var svohljóðandi ákvæði, sem bar yfirskriftina „Févíti/bónus“: „Ljúki verktaki ekki verkinu að fullu 1. nóvember 2000 skal hann greiða verkkaupa févíti (dagsektir) kr. 730.000 [...] fyrir hvern almanaksdag sem það dregst að verkinu sé að fullu lokið. Verkkaupi mun ekki beita dagsektum fyrir 15. nóv. 2000, þó að verktaki hafi ekki lokið minniháttar verkum þann 1. nóvember 2000, svo fremi að viðskipti geti hafist 5. nóvember 2000, án þess að þau truflist og að viðskiptavinir verði ekki fyrir óþægindum vegna ólokinna verka.“ Í 2. gr. verksamningsins sagði síðan að stefnandi ætti að leggja til allt efni til verksins, þó að því undanskildu að stefndi skyldi leggja til steypta forspennta bita fyrir þak og þakeiningar.
Málið hefur stefnandi höfðað til heimtu eftirstöðva fyrir það verk sem framangreindur samningur málsaðila tók til. Er á því byggt af hálfu stefnanda að í ljósi endanlegra magntalna, aukaverka sem stefnandi hafi unnið og annarra verkþátta sem snúa að byggingu verslunarmiðstöðvarinnar eigi stefnandi rétt til greiðslu úr hendi stefnda að fjárhæð 63.124.894 krónur til viðbótar greiðslu að fjárhæð 354.709.607 krónur sem stefndi hafi þegar innt af hendi fyrir samningsverk. Fjárhæð þessa sundurliðar stefnandi svo, að í fyrsta lagi er gerð krafa að fjárhæð 2.037.051 króna vegna eftirstöðva samningsverks samkvæmt endanlegum magntölum að mati stefnda. Í öðru lagi er um að ræða kröfu vegna samningsverks að fjárhæð 7.238.972 krónur sem stefndi á að hafa haldið eftir sem geymslufé. Samkvæmt þessu hafi stefnda samkvæmt endanlegum magntölum hans sjálfs borið að standa stefnanda skil á 363.985.630 krónum fyrir samningsverkið, en 9.276.023 (2.037.051 + 7.238.972) krónur vanti upp á að fullnaðarskil hafi átt sér stað. Í þriðja lagi lýtur krafa stefnanda að kostnaði sem stefnandi telur sig annars vegar hafa orðið fyrir vegna stöðvunar á steypuframkvæmdum í 7 daga, en krafa vegna þessa nemur 4.200.000 krónum, og hins vegar vegna vinnu tæknimanns, yfirverkstjóra og smiða vegna nýrra og breyttra teikninga, sem krafa er gerð um að greitt verði fyrir með 4.718.100 krónum. Samtals nema þessi kröfuliðir þannig 8.918.100 krónum. Í fjórða lagi tekur krafa stefnanda til kostnaðar vegna reyklosunarbúnaðar að fjárhæð 3.512.326 krónur. Í fimmta lagi er því haldið fram að stefndi hafi í endanlegu uppgjöri lækkað áður greidda reikninga um samtals 25.657.932 krónur. Í sjötta lagi krefur stefnandi stefnda um greiðslu fyrir aukaverk samtals að fjárhæð 21.460.129 krónur. Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til þriggja innborgana 16. ágúst og 4. og 14. september 2001 samtals að fjárhæð 5.699.616 krónur nemi skuld stefnda 63.124.894 krónum.
Að því er tölulegan grundvöll málsins varðar vísar stefndi til þess í greinargerð sinni að sú fjárhæð sem stefnandi geri kröfu til á hendur stefnda sé ekki í neinu samræmi við þær kröfur sem stefnandi hafi áður sett fram. Þannig hafi krafa stefnanda 10. ágúst 2001 numið 44.853.092 krónum og rúmum einum og hálfum mánuði síðar 34.373.290 krónum. Byggingarstjóri stefnda hafi kynnt stefnanda með bréfi 27. júní 2001 að hann teldi að uppgjör milli aðila gæti farið fram þannig, að stefndi greiddi stefnanda 3.910.581 krónu, enda gæfi stefnandi út reikning og léti stefnda í té tilteknar upplýsingar varðandi snúningshurð og panikopnunarbúnað. Þá greiðslu hafi stefndi innt af hendi hinn 16. ágúst og 14. september 2001, en auk þess hafi hann greitt til 1.789.035 krónur vegna aukaverka við raflagnir 4. september sama árs. Samkvæmt verksamningi málsaðila 10. maí 2000 hafi umsamið verð til viðmiðunar fyrir verktöku stefnanda numið 368.830.439 krónum. Fyrir hafi legið að sú fjárhæð kynni að taka breytingum eftir því sem endanlega staðreyndar magntölur segðu til um á grundvelli einingarverða í tilboðsskrá stefnanda samkvæmt 2. mgr. greinar 0.22 í útboðsgögnum og grein 31.14 í ÍST-30. Við skoðun á kröfum stefnanda verði málatilbúnaður hans ekki skýrður öðru vísi en svo að hann leggi til grundvallar að miða eigi við að heildargreiðsla til hans vegna aðalverksins, eins og það er skilgreint í verksamningi, fyrir utan öll hugsanleg aukaverk, eigi að nema 363.985.630 krónum á grundvelli endurskoðaðra magntalna. Sú fjárhæð sé í samræmi við útreikninga stefnda og uppgjörstillögu hans frá 27. júní 2001 og sæti ekki andmælum. Þá leggi báðir aðilar til grundvallar að stefndi hafi hinn 27. júní 2001 þegar greitt vegna aðalverksins 354.709.607 krónur (kr. 361.948.579 að frádregnu 2% geymslufé kr. 7.238.971) og ennfremur liggi fyrir að stefndi hafi til viðbótar greitt síðasta reikning stefnda nr. 128, útgefinn 12. júlí 2001, að fjárhæð 3.910.581 króna, annars vegar með 3.317.781 krónu 16. ágúst 2001 og hins vegar með 592.800 krónum 14. september sama árs, til samræmis við uppgjörstillögu sína og að stefnandi hafi móttekið þá fjárhæð með fyrirvara. Þá hafi stefndi ennfremur greitt stefnanda 1.789.035 krónur 4. september 2001. Vegna þeirra krafna sem uppi eru í máli þessu hafi stefndi því samtals staðið stefnanda skil á 360.409.223 krónum. Stefndi hafi með uppgjörstillögu sinni 27. júní 2001 gert kröfu til þess, að til viðbótar framangreindri fjárhæð verði honum taldar til tekna við uppgjör málsaðila annars vegar frádráttur vegna vanefnda stefnanda að fjárhæð 3.425.000 krónur og hins vegar tafabætur að fjárhæð 8.030.000 krónur, eða samtals kr. 11.455.000 er leggist við þegar greiddar 360.409.223 krónur, þannig að líta beri svo á að stefndi hafi þegar innt af hendi til stefnanda fyrir umsamið verk og aukaverk samtals 371.864.223 krónur. Til viðbótar þeim 363.985.630 krónum sem málsaðilar eru sammála um að stefnandi eigi rétt á úr hendi stefnda vegna aðalverksins geri stefnandi með málsókn þessari kröfur til þess að stefndi verði dæmdur til að inna enn frekari greiðslu af hendi til hans auk þess sem hann samþykki ekki rétt stefnda til frádráttar vegna meintra vanefnda og tafabóta. Af viðbótarkröfum stefnanda viðurkenni stefndi einungis kröfu stefnanda að fjárhæð 6.089.558 krónur vegna óuppgerðra aukaverka samkvæmt uppgjörstillögu byggingarstjóra stefnda og 1.789.035 krónur vegna samþykktra viðbótarkrafna er tengist rafmagni, eða samtals viðbótarkröfur að fjárhæð 7.878.593 krónur. Heildarkrafa stefnanda, sem viðurkennd sé af stefnda, nemi því 371.864.223 krónum. Þá fjárhæð hafi stefndi hins vegar þegar greitt samkvæmt því sem að framan er rakið. Sé það aðalmálsástæða stefnda fyrir sýknu að hann hafi þannig að fullu staðið stefnanda skil á umsaminni þóknun vegna verksamnings aðila. Ofangreindum skuldajafnaðarkröfum stefnda til viðbótar komi síðan krafa hans til frekari dagsekta þannig að stefndi verði allt að einu sýknaður af öllum kröfum stefnanda þó dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi ekki enn að fullu greitt stefnanda fyrir verkið.
Ágreiningur aðila lýtur samkvæmt framansögðu í fyrsta lagi að því hvort stefndi hafi átt rétt til dagsekta úr hendi stefnanda og hvort honum hafi verið heimilt að taka sér greiðslu á þeim með skuldajöfnuði við kröfu stefnanda. Þá deila aðilar í öðru lagi um uppgjör vegna aukaverka og kröfum að fjárhæð samtals 12.430.426 krónur vegna reyklosunarbúnaðar og kostnaðar af stöðvun steypuframkvæmda og vinnu sem stofnað hafi verið til vegna breyttra teikninga hafnar stefndi alfarið. Þá er því mótmælt af hálfu stefnda að áðurgreind krafa stefnanda að fjárhæð 25.657.932 krónur eigi rétt á sér. Loks hefur stefndi samkvæmt framansögðu uppi gagnkröfu vegna meintra vanefnda stefnanda, en þeirri kröfu hafnar stefnandi.
Hér á eftir verða einstök ágreiningsefni tekin til úrlausnar hvert um sig.
II.
Dagsektir.
1.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að á verktímanum hafi verið unnin mjög veruleg aukaverk. Verulegur hluti þeirra hafi komið til á síðustu dögum verksins og þá einkum verk sem tengdust raflögnum. Telur stefnandi að aukaverk hafi valdið allt að 10% hækkun á verkinu. Auk þess hafi verið mikið um breytingar á hönnun þannig að breytingateikningar hafi á endanum orðið um 300 talsins. Þrátt fyrir þetta hafi tekist að afhenda verkið þannig að unnt hafi verið að opna verslunarmiðstöðina 2. nóvember 2000. Enginn áskilnaður hafi komið fram um dagsektir af hálfu stefnda þegar verkið var afhent. Slík tilkynning hafi fyrst borist með bréfi sem dagsett er 29. maí 2001. Hafi stefnandi með bréfi 19. júní sama árs mótmælt því að stefndi ætti rétt á dagsektum. Engu að síður hafi dagsektir að fjárhæð 8.030.000. krónur verið dregnar frá greiðslum til stefnanda og honum tilkynnt það með bréfi 27. júní 2001.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að verslunarmiðstöðin hafi verið afhent stefnda til notkunar 2. nóvember 2000. Eftir það hafi einkum verið unnið við frágang og stillingu búnaðar í húsinu, sem hafi engin áhrif haft á viðskipti í því. Telur stefnandi samkvæmt þessu að hann hafi staðið við að afhenda húsið á umsömdum afhendingartíma. Er í því sambandi bent á grein 28.9 í ÍST-30, en þar sé kveðið á um það að taki verkkaupi verk eða hluta þess í notkun teljist verktaki hafa skilað þeim hluta eða verkinu í heild. Í ljósi þessa sé ljóst að stefndi eigi ekki rétt á dagsektum. Einnig er á það bent að engin tilkynning hafi borist frá stefnda á verktímanum um að hann hygðist beita dagsektum. Um það hafi fyrst og svo sem að framan greinir verið tilkynnt með bréfi 29. maí 2001. Það hafi verið talin meginregla, sem eigi sér stoð í grein 24.3 í ÍST-30, að verktaki þurfi að tilkynna það sérstaklega ef hann telur sig eiga rétt á framlengingu á skilafresti. Hliðstæð regla gildi um verkkaupa. Eigi verktaki að geta gert ráðstafanir til að afhenda verkið á réttum tíma beri verkkaupa að tilkynna án tafar ef hann telur að afhendingartími verksins standist ekki. Af þessu leiði að stefndi eigi ekki rétt á dagsektum, eins og hann hafi einhliða tekið sér. Þá sé einnig að líta til dagsektaákvæðis í verksamningi. Þar sé tekið fram að stefndi muni ekki beita dagsektum „þó að verktaki hafi ekki lokið minniháttar verkum þann 1. nóvember 2000, svo fremi að viðskipti geti hafist 5. nóvember 2000, án þess að þau truflist og að viðskiptavinir verði ekki fyrir óþægindum vegna ólokinna verka“. Í bréfinu frá 29. maí 2001 segi það eitt um þetta, að eftir hafi verið að ljúka meiriháttar verkum, vegna þess að slökkviliðið hafi þurft að vakta húsið fyrst eftir opnun eða til 10. nóvember. Önnur rök fyrir dagsektum hafi ekki komið frá stefnda. Þannig hafi ekki komið fram hvaða „meiriháttar“ verk hafi verið eftir þegar verkið var afhent. Aðeins hafi verið vísað til þess að slökkviliðið hafi þurft að hafa vakt í húsinu. Eins og skýrt komi fram í útboðsgögnum og verksamningi hafi það ekki verið í verkahring stefnanda að innrétta eða ganga frá einstökum verslunareiningum. Því sé útilokað að unnt sé að beita dagsektum þó ekki hafi verið búið að ganga frá einstökum verslunarrýmum samkvæmt kröfum eldvarnareftirlits. Hvað sem þessu líði þá hljóti stefndi að verða að sýna fram á hvaða „meiriháttar verk” hafi verið eftir þegar hann tók athugasemdalaust við húsnæðinu, auk þess sem hann verði að sanna að öðrum skilyrðum ákvæðisins fyrir beitingu dagsekta sé fullnægt. Eins virðist stefndi telja að hann eigi sjálfdæmi um það hvað teljist „meiriháttar verk”og geti þannig ákveðið hvort stefnanda beri að greiða dagsektir. Stefnandi hafi með bréfi 19. júní 2001 mótmælt því að stefndi ætti rétt á dagsektum, en allt að einu hafi engar skýringar komið fram á því hvaða meiriháttar verk hafi verið eftir þegar húsið var tekið í notkun, aðeins vísað til þess að slökkviliðið hafi þurft að hafa vakt í húsinu. Í grein 28.9 í ÍST-30 komi fram að taki verkkaupi verk í notkun án úttektar beri að líta svo á að verktaki hafa skilað verkinu. Það sé ljóst og óumdeilt að verslunarmiðstöðin var opnuð eða tekin í notkun 2. nóvember 2000. Jafnljóst sé að eftir að verk er afhent verði ekki krafist dagsekta. Ef verki er ekki að fullu lokið þegar það er tekið í notkun þá sé um gallað verk að ræða og það veiti verkkaupa, stefnda í þessu tilviki, rétt til að krefjast úrbóta á göllunum eða skaðabóta, en ekki dagsekta. Stefndi hafi skuldajafnað einhliða þeirri fjárhæð sem hann samkvæmt framansögðu taldi vera hæfilegar dagsektir á móti gjaldföllnum greiðslum til stefnda samkvæmt verksamningnum eins og fram komi í bréfi byggingastjóra frá 27. júní 2001.
Það er sérstaklega áréttað af hálfu stefnanda að verulegar breytingar hafi verið gerðar á verkinu á verktímanum. Hér áður hafi verið tekið fram að breytingateikningar hafi verið um 300. Einnig sé rétt að benda á að verulegar breytingar hafi til dæmis verið gerðar á raflögnum, sem að mestu hafi komið til á síðustu dögunum fyrir opnun verslunarmiðstöðvarinnar. Megi benda á að 30% hækkun hafi orðið á raflagnaþætti verksins, sem stefndi hafi samþykkt, þannig að ljóst sé að stefnandi hefði þess vegna átt rétt á framlengingu á skilum á verkinu.
Verði ekki fallist á að stefnda hafi verið óheimilt að taka sér dagsektir með þeim hætti sem hann gerði er gerð krafa um að þær verði lækkaðar. Ljóst sé að stefndi hafi tekið verslunarmiðstöðina í notkun 2. nóvember 2000. Ekkert tjón hafi þannig hlotist vegna þeirra tafa sem hann telur vera á skilum á verkinu. Vegna þessa telur stefndi að heimilt sé að lækka dagsektir með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936, enda hljóti það að teljast bersýnilega ósanngjarnt að taka dagsektir í þessu tilviki.
2.
Í greinargerð stefnda er vísað til þess, að þegar nær dró skiladegi hafi orðið ljóst að ekki tækist að ljúka verkinu á tilskildum tíma. Í kjölfar úttektar 1. nóvember 2000, þegar verkinu átti að vera lokið samkvæmt verksamningi, hafi Slökkvilið Akureyrar bréflega sett fram skilyrði fyrir því að stefnda yrði heimilað að opna verslunarmiðstöðina. Hafi þar komið fram að með því að ýmsum verkum, sem miðað hafi verið við að lokið yrði við fyrir opnun og vörðuðu öryggi fólks, hafi verið ólokið yrði opnun hússins ekki leyfð nema slökkviliðsmenn yrðu á vakt á opnunartíma og að þeir hefðu einkennisklædda öryggisverði sér til aðstoðar. Þá hafi slökkviliðið ekki heimilað opnun efri hæðar Rúmfatalagersins, stærstu verslunarinnar í verslunarmiðstöðinni, þar sem sjálfvirkur reykblásari í rýminu hafi verið óvirkur. Hafi þetta valdið stefnda ófyrirséðum aukakostnaði og óþægindum. Þá megi ráða af gögnum málsins að mjög mikil vinna hafi verið óunnin á þeim tíma þegar öllum meiriháttar verkum hafi átt að vera lokið samkvæmt verksamningi. Þrátt fyrir þetta hafi verslunarmiðstöðin verið opnuð þann 2. nóvember 2000, en vegna seinkunar á framkvæmdum stefnanda hafi sá tími, sem stefndi hafði ætlað sér til að undirbúa opnunina, orðið skemmri en stefndi hafi mátt ganga út frá. Mörgum verkum hafi síðan enn verið ólokið þegar rúmur mánuður var liðinn frá því að verkskil áttu að eiga sér stað. Þann 13. janúar 2001 hafi stefnanda verið tilkynnt að ekki væri hægt að gefa lengri frest til að ljúka verkum og að lokaúttekt ætti að fara fram þann 6. febrúar 2001. Þau verk, sem ekki yrði lokið fyrir þann tíma, yrðu metin og dregin frá lokagreiðslu í samræmi við verksamning og ákvæði ÍST-30. Í bréfi byggingarstjóra til stefnanda 13. febrúar 2001 hafi stefnanda verið veittur einnar viku frestur til viðbótar til að ljúka þeim verkum sem eftir voru. Hafi verið boðað til endanlegrar úttektar þann 20. febrúar 2001 og stefnanda gerð grein fyrir að um lokafrest væri að ræða. Yrði verkinu ekki lokið innan þessa frests myndi stefndi láta vinna verkin á kostnað stefnanda, sbr. ákvæði 28.8 í ÍST-30. Nokkur verk hafi þó verið undanskilin þar sem að ekki hafi verið talið líklegt að það myndi viðra til slíkrar vinnu næstu daga eftir að bréfið var skrifað. Hafi verið veittur frestur til 15. maí 2001 til að ljúka þeim, en um hafi verið að ræða viðgerð á sjónsteypu, viðgerð á þakdúk í línu 6 og seinni umferð málningar á sedrusvið. Þá hafi komið fram í bréfinu að 3.000.000 krónum yrði haldið eftir þar til umræddum verkþáttum væri að fullu lokið og þau yrðu unnin á kostnað stefnanda ef hann sinnti því ekki að ljúka þeim fyrir hin tilgreindu tímamörk. Þann 27. júní 2001 hefði staða mála verið óbreytt að þessu leyti.
Stefndi gerir kröfu til þess að viðurkennt verði að honum hafi verið rétt að áskilja sér dagsektir úr hendi stefnanda vegna tafa sem orðið hafi á afhendingu hans á verkinu. Í uppgjörstillögu stefnda frá 27. júní 2001 sé gert ráð fyrir því að tafabæturnar nemi alls 8.030.000 krónum. Stefndi áskilji sér þó rétt til frekari tafabóta þannig að nægi til sýknu af öllum kröfum stefnanda. Stefndi gerir hins vegar ekki kröfu til frekari tafabóta er leitt gætu til þeirrar niðurstöðu að hann teldist hafa greitt stefnanda meira en hann á réttmætt tilkall til, enda sætti stefndi sig við að máli þessu ljúki með því að hvorugur aðila teljist eiga kröfur á hinn umfram kröfu stefnda til þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar vegna meðferðar málsins.
Stefndi reisir kröfur sínar um dagsektir á ákvæði 6. gr. verksamnings málsaðila og ákvæðum 24. kafla ÍST-30. Byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki lokið verki sínu að fullu hinn 1. nóvember 2000 eins og áskilið hafi verið í 5. gr. verksamningsins. Stefnanda beri því að greiða stefnda 750.000 krónur fyrir hvern almanaksdag sem það dróst að ljúka verkinu. Af hálfu stefnanda sé viðurkennt að verkinu hafi ekki verið að fullu lokið 1. nóvember 2000. Samkvæmt ÍST-30 grein 28.6 teljist verktaki hafa skilað verki að úttekt lokinni. Eftir samningsbundinn afhendingartíma hafi stefndi ítrekað krafið stefnanda um að verkinu yrði lokið án tafar, meðal annars með bréfum byggingarstjóra 4. desember 2000, 13. janúar og 9. og 13. febrúar 2001. Samkvæmt skýrslu byggingarstjóra stefnda hafi úttektir á verkinu farið fram á tímabilinu frá 14. desember 2000 til 12. mars 2001, en flestar úttektir hafi verið gerðar í lok febrúar. Sé við það miðað af hálfu stefnda að verkinu hafi verið lokið 28. febrúar 2001. Stefndi eigi því rétt til tafabóta fyrri afhendingardrátt vegna tímabilsins 1. nóvember 2000 til 28. febrúar 2001. Stefnandi hafi borið því við að niðurlagsákvæði 1. mgr. 6. gr. verksamningsins girði fyrir rétt stefnda til tafabóta og vísar til þess að viðskipti hafi hafist í hluta verslunarmiðstöðvarinnar 2. nóvember 2000. Niðurlagsákvæðið kveði hins vegar á um að stefndi muni ekki beita dagsektarheimild sinni fram til 15. nóvember ef einungis minniháttar verkum er ólokið, viðskipti geti hafist og að þau geti hafist án truflunar og óþæginda fyrir viðskiptavini. Engum þessara þátta hafi verið til að dreifa. Viðskipti hafi aðeins hafist í hluta verslunarmiðstöðvarinnar með því að efri hæð Rúmfatalagersins hafi verið haldið lokaðri, meiriháttar verkum verið ólokið og viðskiptavinir orðið fyrir óþægindum og truflunum.
Af hálfu stefnda er á því byggt að hinn 2. nóvember 2000 hafi ekki verið búið að ljúka meiriháttar verkum. Byggingaryfirvöld hafi í fyrstu neitað stefnda um leyfi til að opna verslunarmiðstöðina. Leyfi hafi að lokum verið veitt gegn því skilyrði að slökkviliðið myndi vakta bygginguna allan sólarhringinn auk gæslufyrirtækisins Securitas hf., þó þannig að efri hæð Rúmfatalagersins hafi af öryggisástæðum verið lokuð. Vakt slökkviliðsins hafi staðið til 11. nóvember, en vakt Securitas hf. til 21. sama mánaðar. Stefndi hafi fallist á að meiriháttar verkum hafi verið lokið er slökkviliðið lét af vakt sinni. Stefndi líti jafnframt svo á að þann dag hafi ennfremur lokið því ástandi að viðskiptavinir yrðu fyrir truflun og óþægindum í verslunarmiðstöðinni. Stefndi geri því kröfu til tafabóta fyrir 11 almanaksdaga frá 1. til 11. nóvember eða samtals að fjárhæð 8.030.000 krónur. Eftir 10. nóvember hafi mörgum samningsbundnum verkþáttum enn verið ólokið. Stefnandi hafi ekki sinnt þeirri augljósu skyldu sinni að ljúka þeim eins fljótt og verða mátti. Við endanlega úttekt 28. febrúar 2000 hafi ennþá verið eftir að ljúka við verk sem stefndi hafi yfirtekið í skjóli heimilda sinna samkvæmt ÍST-30. Stefndi eigi því aftur rétt til tafabóta fyrir tímabilið frá 15. nóvember til 28. febrúar 2001 eftir grunnreglu 6. gr. verksamnings aðila, samtals fyrir 105 almanaksdaga, og geri því kröfu til þess að tafabætur fyrir það tímabil verði viðurkenndar til að mæta hugsanlegum kröfum stefnanda.
Stefndi hafnar því að hann hafi glatað rétti sínum til samningsbundinna tafabóta með einhverskonar tómlæti eða þegjandi samþykki. Byggingarstjóri stefnda hafi ítrekað kvartað við stefnanda á haustmánuðum 2000 og minnt hann á samningsákvæði og ákvæði ÍST-30 varðandi skil verksins. Er vegna þessa af hálfu stefnda vísað til verkfundargerðar frá 14. nóvember 2000 og bréfa byggingarstjóra 4. og 9. desember 2000 og 9. og 15. febrúar 2001. Krafa um tafabætur hafi síðan verið ítrekuð með bréfi umboðsmanns stefnda, Einars Hálfdánarsonar hæstaréttarlögmanns, 15. febrúar 2001 og bréfi verkefnisstjóra stefnda 29. maí 2001. Þá hafi úttektum á verkinu ekki verið lokið þá er umboðsmaður stefnda ritaði framangreint bréf sitt 15. febrúar 2001 og því teljist áskilnaður um tafabætur hafa verið kynntur stefnanda í tíma.
Þá hafnar stefndi þeirri málsástæðu stefnanda að umfang verksins hafi aukist og hann hafi því fengið rýmri afhendingartíma. Í því sambandi sé einungis á það bent að endanlegar magntölur hafi orðið lægri en gert hafi verið ráð fyrir í útboðslýsingu og tafir vegna nýrrar hönnunar á reyklosunarbúnaði hafi algerlega verið á ábyrgð stefnanda sjálfs. Þá sé ennfremur augljóst að stefnandi hafi aldrei áskilið sér lengri afhendingartíma þó samið hafi verið um nokkur aukaverk. Auk þess hafi stefnanda ekki getað dulist að það varðaði stefnda miklu að geta opnað verslunarmiðstöðina á tilsettum tíma.
Til frekari fyllingar kröfum stefnda um tafabætur er á því byggt af hans hálfu að hann hafi orðið fyrir töluverðum fjárútlátum vegna afhendingardráttarins. Hann hafi þurft að greiða slökkviliði Akureyrar og Securitas hf. sérstaklega fyrir gæslu. Þá hafi töfin leitt til umtalsvert meiri umsjónarkostnaðar en ella hefði orðið. Stefndi hafi þannig orðið að greiða ráðgjöfum sínum fyrir vinnuframlag þeirra vegna málsins löngu eftir að verkið átti að vera klárað og uppgert. Fallist dómurinn ekki á rétt stefnda til tafabóta er þess krafist að til lækkunar á kröfum stefnanda komi hæfilegar skaðabætur til stefnda af þessum sökum metnar af dóminum að álitum með hliðsjón af framlögðum dómskjölum.
3.
Ákvæði verksamnings aðila frá 10. maí 2000 um dagsektir er tekið upp orðrétt í kafla I hér að framan. Í ákvæðinu fólst meðal annars að svo framarlega sem viðskipti í verslunarmiðstöðinni gætu hafist án truflunar 5. nóvember 2000 og án þess að viðskiptavinir yrðu fyrir óþægindum vegna ólokinna verka myndi stefndi ekki eiga rétt til dagsekta fyrir tímabilið 2. til 15. nóvember 2000 enda þótt stefnandi hefði ekki lokið minniháttar verkum 1. sama mánaðar. Ágreiningslaust er að viðskipti í verslunarmiðstöðinni hófust 2. nóvember 2000. Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að önnur skilyrði sem samkvæmt framansögðu voru sett fyrir því að til þess gæti komið að dagsektum yrði beitt fyrir hið tilgreinda tímabil hafi verið fyrir hendi. Er þá sérstaklega til þess að líta að í málatilbúnaði stefnda hefur nær eingöngu verið látið við það sitja að vísa um rök fyrir heimild til töku dagsekta til þess að opnun verslunarmiðstöðvarinnar hafi verið bundin því skilyrði að slökkvilið vaktaði bygginguna og að önnur öryggisgæsla yrði þar innan dyra. Um ástæður þess að þessi skilyrði voru sett segir í bréfi slökkviliðsstjóra og byggingafulltrúa Akureyrarbæjar að í ljós hafi komið að ólokið væri vinnu við brunaviðvörunarkerfi, reykblásara og neyðarlýsingu að einhverju leyti. Í vitnisburði Tómasar Sæmundssonar, en fyrirtæki í eigu hans annaðist sem undirverktaki stefnanda vinnu við raflagnir í verslunarmiðstöðinni, kom fram að þessi óloknu verk hafi eingöngu að litlu leyti varðað verkþætti sem verksamningur málsaðila tók til. Þá kom meðal annars fram hjá vitninu að reykblásari á efri hæð Rúmfatalagersins hafi komist í gagnið seinni part þess dags sem verslunarmiðstöðin var opnuð, en lokað hafi verið fyrir aðgang að þessu rými fram að því þar eð vinnu við reykblásarann var ekki lokið. Að þessu virtu og með hliðsjón af sönnunarfærslu stefnda að öðru leyti eru ekki efni til að líta svo á að meiriháttar verkum hafi verið ólokið þá er verslunarmiðstöðin var opnuð. Telur dómurinn þannig ekki unnt að leggja annað til grundvallar en að á tilgreindu tímamarki hafi eingöngu verið ólokið minniháttar verkum og að þau hafi að auki ekki snert viðskipti í verslunarmiðstöðinni með þeim hætti sem áskilið var samkvæmt dagsektarákvæði verksamnings. Við þetta bætist að í grein 28.9 í ÍST-30, sem var hluti verksamnings, er kveðið á um það að taki verkkaupi verk eða hluta þess í notkun telst verktaki hafa skilað þeim verkhluta af sér sem verkkaupi tekur í notkun. Þótt í ljós sé leitt að verkinu hafi ekki endanlega verið lokið 2. nóvember 2000 leiðir þetta ákvæði staðalsins og sú staðreynd að verslunarmiðstöðin var að fullu tekin í notkun þann dag sjálfstætt til þess að réttur til dagsekta stofnaðist ekki. Loks er það svo, að ekki verður séð að áskilnaður um dagsektir hafi fyrst verið hafður uppi fyrr en í bréfi til stefnanda 15. febrúar 2001. Þeim áskilnaði var síðan ekki fylgt eftir fyrr en með bréfi 29. maí sama árs, þar sem fyrst var sett fram töluleg kröfugerð, en hún tók eingöngu til tímabilsins 1. til og með 10. nóvember 2000. Þótt ekki kæmi annað til stæðu þessi atvik því í vegi að stefndi ætti lögvarða kröfu til dagsekta úr hendi stefnanda.
Samkvæmt framansögðu er því hafnað að stefndi eigi kröfu á hendur stefnanda um greiðslu dagsekta. Þá hefur stefndi ekki heldur sýnt fram á að þau fjárúrlát sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna öryggisgæslu og aukins umsjónarkostnaðar verði rakin til atvika sem talist geta á ábyrgð stefnanda, en svo sem fram hefur komið var frágangur einstakra verslunarrýma ekki í höndum stefnanda að öðru leyti en því að honum bar að skila þeim með vélslípuðum gólfum. Er því ekki fallist á kröfu sem stefndi gerir til skaðabóta úr hendi stefnanda vegna afhendingardráttar, en stefndi hefur krafist þess að þær verði metnar að álitum.
III.
Krafa stefnda vegna meintra vanefnda stefnanda.
1.
Í bréfi sem byggingarstjóri stefnda ritaði stefnanda 27. júní 2001 kemur fram að 9.276.023 krónur hafi þá vantað upp á að stefndi hefði að fullu gert upp við stefnanda vegna samningsverks. Þannig hefði stefnandi þá átt inni hjá stefnda geymslufé að fjárhæð 7.238.972 krónur og eftirstöðvar miðað við endanlegar magntölur að fjárhæð 2.037.051 krónu. Er áður gerð grein fyrir þessu í umfjöllun um tölulegan grundvöll málsins. Þá féllst stefndi á það í þessu bréfi að greiðsla fyrir óuppgerð aukaverk ætti að nema 6.089.558 krónum. Á móti setti stefndi fram gagnkröfu á hendur stefnanda sem auk dagsekta, sbr. kafli II hér að framan, laut að meintum vanefndum stefnanda. Nemur gagnkrafa vegna vanefndanna samtals 3.425.000 krónum og skiptist hún í fjóra liði. Í fyrsta lagi er gerð krafa um greiðslu á kostnaði að fjárhæð 2.625.000 krónur vegna viðgerðar á sjónsteypu og þakdúk í línu 6. Í öðru lagi er krafist frádráttar vegna „ófullnægjandi einangrunar almennt“. Í þriðja lagi tekur þessi gagnkrafa til sparnaðar sem staðhæft er að stefnandi hafi notið með því að notaðir hafi verið ádráttarhólkar utan um pípulagnir í stað vafinnar steinullareinangrunar.
Í tilvitnuðu bréfi var inneign stefnanda hjá stefnda skuldajafnað á móti meintri kröfu stefnda vegna vanefnda stefnanda og dagsekta. Stefnandi telur að engin skilyrði hafi verið til að skuldajafna einhliða með þessum hætti. Ekki verður séð að heimild sé til þess í samningi aðila eða ÍST-30. Í grein 31.4.2 í staðlinum segi þvert á móti að geymslufé falli í gjalddaga þegar verki er skilað fullgerðu. Þá sé það svo að almennar reglur eigi að gilda um skuldajöfnuð sem þennan. Þegar umræddur skuldajöfnuður var framkvæmdur hafi legið fyrir að stefnandi taldi engin skilyrði vera fyrir hendi til þess að beita dagsektum. Þá hafi stefndi á þessum tíma engan reka gert að því að sanna að verkið væri gallað og þá eftir atvikum hvaða kostnaður hlytist af því að bæta úr göllunum. Skuldajöfnuðurinn hafi því ekki verið heimill.
Að því er einstaka kröfuliði í gagnkröfu stefnda varðar heldur stefnandi því fram að ekki hafi verið sýnt fram á af verkkaupa að svonefnd sjónsteypa hafi verið gölluð, en með sjónsteypu er átt við steyptan flöt sem ekki er gert ráð fyrir að verði meðhöndlaður frekar eftir fráslátt móta. Stefnandi hafi mótmælt þegar í stað þessum frádrætti með bréfi 29. júní 2001. Ekkert mat liggi fyrir, aðeins einhliða ákvörðun byggingastjóra um að sjónsteypan hafi verið gölluð. Í verklýsingu sé ekki að finna leiðbeiningar hér að lútandi umfram almennar leiðbeiningar í kafla 2.3. Stefndi hafi ekki látið gera við sjónsteypuna eða með öðrum hætti sýnt fram á að sú fjárhæð, sem haldið var eftir, hafi verið í einhverju samræmi við kostnað sem hlotist hafi af því að bæta úr hugsanlegum galla. Það sé ekki í samræmi við almennar reglur að stefndi geti ákveðið einhliða að verkið hafi verið gallað og hvað kosta muni að gera við galla. Grein 20.6 í ÍST-30 breyti engu í þessu sambandi því að með henni sé ekki verið að breyta þeirri almennu reglu að sá sem bera vill fyrir sig galla á verki verði að sanna tilvist hans og eftir atvikum hvað kosta muni að bæta úr honum. Hið sama eigi við um meintan galla í þakdúk. Stefnandi hafi strax mótmælt því að um galla væri að ræða. Þá sé sérstaklega til þess að líta varðandi þennan kröfulið að eftir að stefnandi hafði lokið verkinu hafi verið unnið á þakinu við að koma fyrir loftræstitúðum og tilheyrandi búnaði fyrir fjöldann allan af verslunum í húsinu. Pappinn á þakinu hafi því verið gataður eftir að verkþætti stefnanda var lokið, auk þess sem fjöldi manna hafi verið að vinna á þakinu á vegum verslunareigenda allt fram að því að húsið var tekið í notkun 2. nóvember. Þá hafi stefndi sjálfur lagt til einingarnar í þakið, þannig að hafi galli komið fram þar geti hann allt eins hafa verið til staðar í þakeiningunum. Loks teflir stefnandi því fram að því er þennan kröfulið varðar að sá undirverktaki sem annaðist þennan verkþátt hafi þegar lagfært það sem úr þurfti að bæta án þess að krefjast greiðslu fyrir það.
Stefnandi telur að hann hafi einangrað lagnir í samræmi við verklýsingu, enda liggi ekkert fyrir um þennan galla annað en fullyrðing byggingarstjóra, sem fyrst hafi verið sett fram löngu eftir að verkinu er lokið. Hluti af þessum galla sé vegna þess að sleppt hafi verið, með samþykki eftirlitsmanns stefnda, að einangra súlur í einu verslunarrýminu. Engu að síður hafi reikningar vegna þess þáttar verið greiddir að fullu og síðan bakfærðir. Hér sé því ekki um vanefnd að ræða af hálfu stefnanda heldur breytingu á verki, sem eftirlitsmaður stefnda hafi samþykkt og greitt fyrir að fullu, en mörgum mánuðum síðar lækki sami maður síðan greiðsluna einhliða. Að því er varðar galla á frágangi á einangrun er því haldið fram að stefnandi hafi með bréfi 29. júní 2001 boðist til að laga þá galla sem rekja mætti til vinnubragða starfsmanna hans. Þessu tilboði hafi ekki verið svarað af hálfu stefnda. Samkvæmt almennum reglum og grein 20.6 í ÍST-30 eigi stefnandi rétt á að bæta úr göllum sem kunna að hafa verið á verkinu. Þar sem stefndi hafi ekki tekið boði hans um úrbætur verði stefndi sjálfur að bera þann kostnað sem hugsanlega hlaust af þeim. Þá telur stefnandi að hafi frágangi á einangrun verið áfátt þá sé það að rekja til skemmda sem átt hefðu sér stað eftir að tekið var til við að innrétta verslunarrýmin.
2.
Stefndi telur viðurkennt af stefnanda að gagnkröfur hans vegna vanefnda séu réttmætar og þær eigi að koma stefnda til tekna í uppgjöri aðila. Telur stefndi galla á sjónsteypu augljósa og frágangur útveggja sé að því leyti ekki í þeirri mynd sem stefndi hafi mátt gera ráð fyrir að teknu tilliti til verklýsingar. Vísar stefndi til fjölmargra funda byggingarstjóra stefnda með stefnanda varðandi kröfu hans um að gert yrði við sjónsteypu. Þá sé einagrun augljóslega ábótavant. Sparnaður stefnanda af því að nota ádráttarhólka í stað steinullareinangrunar sé ennfremur óumdeildur. Telur stefndi að hann hafi stillt gagnkröfum sínum mjög í hóf. Úrskurði stefnda sem verkkaupa um ágreiningsefnin liggi fyrir, sbr. greinar 16.4 og 32.1 í ÍST-30. Stefnandi hafi í engu hnekkt þessum úrskurði með viðhlítandi hætti og hljóti því uppgjör aðila að byggjast á honum.
3.
Andstætt því sem fram kemur í greinargerð er þeim gagnkröfum stefnda sem hér eru til umfjöllunar alfarið mótmælt af hálfu stefnanda.
Stefndi krefst viðurkenningar á því að hann eigi gagnkröfu á hendur stefnanda vegna galla í svokallaðri sjónsteypu, en að auki tekur gagnkrafan til þriggja annarra verkþátta. Í bréfi sem byggingarstjóri stefnda ritaði stefnanda 27. júní 2001 nam krafa vegna sjónsteypunnar og viðgerðar á þakdúk í línu 6 samtals 2.625.000 krónum, en sú fjárhæð var ekki sundurliðuð í bréfinu. Í greinargerð segir að gagnkrafa stefnda vegna sjónsteypu nemi framangreindri fjárhæð, en ekki er þar minnst sérstaklega á kröfu vegna viðgerðar á þakdúk. Í skýrslu byggingarstjóra er framangreind fjárhæð sundurliðuð þannig að 1.574.000 krónur eru vegna sjónsteypu og 1.051.000 krónur vegna þakdúks. Gagnkrafa vegna þeirra tveggja verkþátta sem eftir standa nemur samtals 800.000 krónum og skiptist sú fjárhæð þannig að gerð er krafa um greiðslu á 500.000 krónum vegna galla á einangrun og 300.000 krónum vegna sparnaðar stefnanda af því að nota ádráttarhólka í stað vafinnar steinullareinangrunar.
Stefndi hefur ekki með matsgerð rennt stoðum undir þá gagnkröfu sem hann samkvæmt framansögðu hefur uppi á hendur stefnanda. Þannig hafa þeir annmarkar sem gagnkrafan tekur til ekki verið sannreyndir með matsgerð og fjárhæð gagnkröfu er eingöngu byggð á áætlun stefnda sjálfs. Stendur þessi aðstaða því alfarið í vegi að taka megi til greina þann hluta gagnkröfunnar sem snýr að öðrum verkþáttum en sjónsteypu, enda telst hann ekki með öðrum hætti studdur viðhlítandi gögnum.
Í grein 2.3.0 í verklýsingu kemur meðal annars fram að áríðandi sé að öll steypa verði gallalaus og áferðarfalleg, ekki síst þar sem steypuyfirborð verður sýnilegt. Skuli hafa þetta ríkt í huga við alla steypuvinnu. Dómurinn telur að þessa ákvæðis útboðslýsingar hafi ekki verið nægilega gætt að því er varðar sýnilegt yfirborð steyptra útveggja. Kom þannig að mati dómsins í ljós í vettvangsgöngu við aðalmeðferð málsins að frágangur svokallaðrar sjónsteypu er víða ekki með þeim hætti sem stefndi mátti með réttu gera kröfu til. Vegna þessa á stefndi fjárkröfu á hendur stefnanda, enda er ekki fallist á það með stefnanda að réttur hans til úrbóta standa því í vegi að þessi krafa geti að svo stöddu verið fyrir hendi, en undir rekstri málsins hefur þeirri málsástæðu verið teflt fram. Til þess er hins vegar að líta að fjárhæð þeirrar kröfu stefnda sem að þessum galla lýtur styðst með sama hætti og aðrir liðir gagnkröfu eingöngu við áætlun hans sjálfs. Eru engin efni til að styðjast við þessa áætlun stefnda við ákvörðun bóta til hans vegna þess galla sem hér um ræðir. Ákvörðun um bótafjárhæð verður ekki heldur reist á öðrum framlögðum gögnum og dómurinn hefur engar forsendur til að meta bætur að álitum. Verður að þessu virtu leyst úr ágreiningi málsaðila án tillits til þessarar gagnkröfu stefnda.
IV.
Krafa stefnanda vegna stöðvunar steypuframkvæmda.
1.
Eins og vikið hefur verið að kom upp ágreiningur milli aðila vegna þeirrar steypu sem stefnandi hugðist nota í svokallaða sjónsteypu. Stefnandi telur að þessar aðfinnslur stefnda hafi verið óréttmætar og þær hafi ekki stuðst við verklýsingu, sem verið hafi ákaflega takmörkuð að því er varðar þennan verklið. Þessi ágreiningur hafi orðið til þess að ekki var steypt í sjö daga, en auk þess hafi byggingarstjóri gert kröfu um að önnur og dýrari steypa, en gert hafi verið ráð fyrir í útboðsgögnum, yrði notuð. Stefnandi telur að stefnda hafi ekki verið heimilt að stöðva verk hans með þessum hætti. Samkvæmt ÍST-30 greinum 20.4 og 20.4.1 sé gert ráð fyrir að verkkaupi geti krafist þess að verktaki láti í té gögn til að meta efni, sem notað er til verksins. Þessi ákvæði staðalsins hafi þann tilgang að unnt sé að sannreyna að efni sé í samræmi við samning aðila. Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar sé ekki um það að ræða, þar sem byggingarstjóri stefnda hafi gert kröfur sem eigi sér enga stoð í verklýsingu. Sjáist það best á því að önnur steypugerð en gert sé ráð fyrir í verklýsingu hafi verið valin. Þess vegna telur stefnandi að stefnda beri að bæta honum það tjón, sem hann varð fyrir vegna þessa. Stefnandi hafi fengið undirverktaka frá Reykjavík til að vinna þennan verkþátt og sé krafan sundurliðuð á skjali sem hann hafi lagt fram í málinu.
2.
Í greinargerð er því haldið fram að í byrjun steypuframkvæmda við verkið hafi komið í ljós að steypan leit ekki vel út þegar slegið var frá mótunum. Mikið var um steypuhreiður, steypan hafi skilið sig í mótunum og sementsefjan lekið út. Upphaflega hafi byggingarstjóri stefnda talið að stefnandi hefði ekki lagt nægilega vinnu í að titra steypuna og jafna yfirborð í veggjamótum. Eftir aðfinnslur byggingarstjórans hafi því verið lofað af hálfu stefnanda að betur yrði vandað til verksins. Þrátt fyrir augljós merki um vandaðari vinnubrögð hafi þau ekki skilað tilætluðum árangri. Þegar nánar hafi verið gætt hafi komið í ljós að sú steypa sem stefnandi notaði hafi ekki verið nægjanlega góð. Hún hafi skilið sig að við niðurlögn og greinilega vantað í hana fylliefni. Af verkfundargerðum megi ráða að málsaðilar hafi ítrekað fundað um þetta vandamál og meðal annars átt fundi með fulltrúum steypustöðvarinnar, Arnarfells ehf., en frá þeirri stöð hafi stefnandi hugsað sér að kaupa steypu til verksins. Hafi þeim viðskiptum lokið þannig að fulltrúar steypustöðvarinnar neituðu að gefa upplýsingar um efnasamsetningu steypunnar. Hafi byggingarstjóri stefnda þá neyðst til að stöðva notkun á umræddri steypu í sökkla og veggi, en leyft notkun hennar í gólfplötu. Sökklar og veggir hefðu síðan verið steyptir með steypu frá steypustöðinni Möl og Sandi hf.
Byggingarstjóri stefnda hafi samkvæmt framansögðu stöðvað notkun á steypu frá Arnarfelli ehf. þegar ekki fengust upplýsingar um innihald hennar. Samkvæmt grein 20.4 í ÍST-30 beri verktaka skylda til að koma með umbeðnar upplýsingar um efni ef verkkaupi óskar þess. Þá komi fram í grein 20.5. að verkkaupi eða umsjónarmaður hans geti hafnað efni eða unnu verki sem ekki er eins og samningur áskilur. Beri verktaka þá að bæta úr því sem áfátt er án ástæðulauss dráttar. Það hafi stefnandi ekki gert í umræddu tilviki og verði hann að bera hallann af því. Þá komi fram í grein 2.3.0 í verklýsingu að áríðandi sé að steypa í útveggjum sé veðrunarþolin og vatnsheld. Óski verkkaupi eftir því skuli verktaki leggja fram fullnægjandi gögn frá Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins hvað þessi atriði varðar. Stefnandi hafi eingöngu að hluta til lagt fram umbeðin gögn og þá eftir mikla eftirgangssemi byggingarstjóra. Sé því ljóst að samkvæmt verklýsingu og ÍST-30 hafi stefndi verið í fullum rétti með að hafna því að steypan væri notuð í gólf, veggi og sjónsteypuveggi. Þrátt fyrir það hafi stefnanda verið leyft að nota steypuna í gólfplötur og veggi sem ásættanlegt var að gert yrði við eftir á. Eftir stóð að ekki hafi verið ásættanlegt að leyfa notkun á steypunni í sjónsteypuvegg, þar sem allir gallar og allar viðgerðir á steypunni yrðu sýnilegar eftir á og til lýtis. Ennfremur hafi ekki verið ásættanlegt að nota steypu frá umræddu fyrirtæki í sjónsteypuvegg þar sem vafi hafi leikið á því hvert væri veðrunarþoli hennar. Þar sem upplýsingar um innihald steypu Arnarfells ehf. bárust ekki hafi sú ákvörðun verið tekin að steypa frá öðru fyrirtæki skyldi notuð. Á verkfundi 21. júlí 2000 hafi stefnandi áskilið sér rétt til að fá greitt fyrir þann aukakostnað sem af þessu hlytist. Hafi eftirlitsaðili á vegum stefnda ítrekað af því tilefni að steypan sem Arnarfell ehf. bauð væri ekki nægilega góð og að stefndi myndi ekki borga þann aukakostnað sem af því myndi hljótast fyrir stefnanda að kaupa steypu sem væri í lagi. Einnig hafi verið lögð áhersla á það væri alfarið á ábyrgð stefnanda að sjá til þess að steypa fullnægði áskildum kröfum og niðurlögn á henni væri ásættanleg.
Stefndi telur að byggingarstjóri hans hafi haft fulla heimild til að krefjast allra upplýsinga um samsetningu þeirrar steypu sem stefnandi hugðist nota, ekki síst eftir að ágallar á henni höfðu komið í ljós. Þá telur stefndi að hann hafi verið í fullum rétti með að stöðva vinnu stefnanda með þeirri steypu. Vísar stefndi í þessu sambandi til 20. kafla ÍST-30, einkum greinar 20.4 og kafla 2.3 í verklýsingu.
Samkvæmt þeim kröfulið sem hér um ræðir fari stefnandi fram með kröfu á hendur stefnda um greiðslu á 4.200.000 krónum vegna meintra tafa á steypuvinnu í 7 daga. Hafna verði þessari kröfu að öllu leyti vegna þess að meint töf á steypuframkvæmdum verði ekki metin stefnda til sakar eins og málið er vaxið og því skorti huglæg skilyrði þess að skaðabótaábyrgð verði lögð á stefnda vegna hugsanlegs tjóns stefnanda af þessum sökum. Stefndi hafi haft ríka hagsmuni af því að fá fullvissu fyrir því að steypa sú sem stefnandi hugðist nota myndi uppfylla almennar og sérstakar gæðakröfur. Töf sem orðið hafi á því að þær upplýsingar yrðu lagðar fram sé því algerlega á ábyrgð stefnanda sjálfs. Byggingarstjóri hafi með engu móti getað heimilað notkun steypunnar, enda sjálfur ábyrgur gagnvart byggingaryfirvöldum ef útaf kynni að bera við framkvæmdina, sbr. 44. og 51. gr.skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 32. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.
Þá verði ennfremur að hafna þessari kröfu stefnanda þar sem hann hafi ekki lagt fram fullnægjandi gögn til stuðnings henni. Stefnandi hafi með öðrum orðum ekki sannað umfang hins meinta tjóns. Sundurliðun kröfunnar á framlögðu dómskjali sé sérstaklega mótmælt og vísa beri þar greindum rökstuðningi algerlega á bug. Þá séu skýringar stefnanda í stefnu í meira lagi vafasamar um að hann hafi þurft að halda uppi vinnuflokki frá Reykjavík á meintum tafatíma. Þvert á móti liggi fyrir að steypuvinnuflokkur á vegum stefnanda, sem stefndi telur vera þann sama og stefnandi prjónar kröfugerð sína utan um, hafi á meintum tafatíma unnið að uppsteypu á einbýlishúsi á Akureyri. Þannig hafi stefnanda verið fært að nota þennan flokk manna á öðrum stað þegar steypuvinna fyrir stefnda lá niðri.
3.
Krafa stefnanda vegna stöðvunar á steypuframkvæmdum nemur svo sem fram er komið 4.200.000 krónum. Krafa þessi sundurliðast þannig að í fyrsta lagi er þess krafist að stefndi greiði laun 6 manna steypuflokks í 7 daga miðað við 15 stunda vinnudag, eða alls 630 vinnustundir. Er í kröfugerð stefnanda við það miðað að endurgjald fyrir hverja vinnustund eigi að nema 3.800 krónum. Þessi kröfuliður nemur því 2.394.000 krónum (630 x 3.800). Þá er í öðru lagi gerð krafa til þess að stefndi greiði laun verkstjóra í 7 daga og nemur sá kröfuliður 235.200 krónum. Í þriðja lagi tekur þessi krafa stefnanda til greiðslu launa fjögurra járnamanna í 7 daga, þrettán tíma á dag, og nemur krafa vegna þessa 1.164.800 krónum. Í fjórða lagi gerir stefnandi kröfu til þess að stefnda verði gert að greiða fyrir leigu á tveimur lyftum og nemur krafa vegna þess 245.000 krónum. Loks er þess krafist að stefndi greiði gistingu og fæði í 7 daga fyrir alls 7 menn, en samtals hljóðar krafa stefnanda vegna þessa upp á 161.000 krónur.
Með bréfi byggingarstjóra stefnda til stefnanda 15. júní 2000 var farið fram á það að öll steypuvinna yrði stöðvuð strax þar sem steypa frá Arnarfelli ehf. uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar væru í útboðsgögnum. Þennan sama dag óskaði byggingarstjóri skriflega eftir því við stefnanda að veittar yrðu upplýsingar um innihald steypu frá Arnarfelli ehf., þar á meðal upplýsingar um kornadreifingu, en af því bréfi verður ráðið að ósk þessa efnis hafi áður verið sett fram. Ekki verður séð að umbeðnar upplýsingar hafi verið veittar. Á þessum tíma og svo sem áður greinir lá fyrir að frágangur steypu úr mótum og gæði hennar var víða ekki með þeim hætti sem stefndi mátti gera kröfu til. Var byggingarstjóri stefnda að þessu virtu í fullum rétti með að leggja bann við því að steypa frá Arnarfelli ehf. yrði við óbreyttar aðstæður notuð við sjónsteypuvinnu, sbr. meðal annars grein 20.4 í ÍST-30. Ekki er unnt að líta svo á að bréf byggingarstjóra hafi í reynd falið annað og meira í sér. Verður bréfið þannig ekki skilið svo að með því hafi verið mælt fyrir um skilyrðislausa stöðvun steypuframkvæmda, heldur eingöngu að steypa frá öðrum framleiðanda skyldi að óbreyttu notuð. Að þessu virtu telur dómurinn að leggja verði til grundvallar við úrlausn um þessa fjárkröfu stefnanda að steypuvinna hafi ekki stöðvast vegna atvika sem talist geta á ábyrgð stefnda. Leiðir þetta eitt og sér til þess að skilyrði brestur til að taka megi kröfuna til greina. Þess utan hefur stefnandi í engu fært fyrir því sönnur að hann hafi vegna stöðvunar steypuframkvæmda orðið fyrir því tjóni sem þessi krafa hans felur í sér.
V.
Krafa stefnanda vegna vinnu við breyttar teikningar.
1.
Svo sem fram er komið gerir stefnandi kröfu til þess að fá greiddan úr hendi stefnda kostnað sem hann kveðst hafa orðið fyrir og sem rakinn verði til vinnu tæknimanns, yfirverkstjóra og smiða vegna móttöku og yfirferðar á nýjum og breyttum teikningum. Nemur þessi krafa 4.718.100 krónum. Stefndi hefur að því er þessa kröfu varðar vísað til þess að hvergi í stefnu eða öðrum framlögðum skjölum sé að finna rökstuðning fyrir henni eða hvernig umkrafin fjárhæð sé til komin. Einungis sé í stefnu vísað til þess að breytingateikningar hafi verið „um 300 á verktímanum“. Krafa þessi sé því vanreifuð og ómögulegt sé fyrir stefnda að bregðast við henni svo eitthvert vit sé í. Augljóslega verði því að sýkna stefnda af þessum kröfulið þegar af þeirri ástæðu að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að stefndi beri skaðabótaábyrgð á meintu tjóni stefnanda auk þess sem umfang meints tjóns sé hvorki sannað né gerð tilraun til að leiða líkur að umfangi þess.
Stefndi mótmælir því sérstaklega að gerðar hafi verið allt að 300 breytingateikningar. Flestar teikningar sem gerðar voru eftir að verkið byrjaði hafi verið venjulegar og eðlilegar vinnuteikningar með nánari útskýringum og málsetningum og í mörgum tilfellum hafi stefnandi óskað eftir slíkum teikningum til að einfalda vinnu sína. Þá sé rétt að taka fram að breytingar sem gerðar voru á raflagnateikningum í lok verksins hafi verið gerðar að beiðni stefnanda vegna þess að hann hafi fest kaup á brunaviðvörunarkerfi sem ekki hafi verið í samræmi við það sem útboðsgögn gerðu ráð fyrir. Þá vísar stefndi til greinar 6.1.0 í útboðslýsingu, en þar komi fram að ekki hafi allri hönnun verslunarmiðstöðvarinnar verið lokið við samningsgerðina. Þá bendir stefndi á að þar sem um ca. 10.000 m² byggingu hafi verið að ræða hafi stefnandi mátt gera ráð fyrir miklum fjölda teikninga og að hann gæti ekki áskilið sér sérstaka þóknun fyrir að handleika þær og fara eftir þeim við smíðina. Að auki sé til þess að líta að samkvæmt grein 0.25 í útboðslýsingu hafi allur kostnaður vegna þessa verið innifalinn í tilboði stefnanda.
Enn er það málsástæða stefnda varðandi þennan kröfulið að krafan sé allt of seint fram komin og að hún hafi verið sett fram löngu eftir að allir frestir til þess voru liðnir. Þá sé fjárhæð kröfunnar mótmælt ex tuto sem allt of hárri.
2.
Í stefnu er í engu gerð grein fyrir þeirri kröfu stefnanda sem hér um ræðir. Þar er að vísu nefnt að breytingateikningar hafi verið um það bil 300 talsins, en sú umfjöllun er sett fram í tengslum við kröfu stefnda um dagsektir. Rök fyrir greiðsluskyldu stefnda skortir þannig alfarið í stefnu og útlistun á tölulegum grundvelli þessarar kröfu er ekki heldur að finna þar. Málatilbúnaður stefnanda að öðru leyti hefur í litlu sem engu varpað ljósi á þessa kröfu hans. Verður í ljósi þessa ekki ályktað á annan veg en þann að breytingar á teikningum hafi ekki verið umfangsmeiri en stefnandi mátti búast við þá er verksamningur var gerður. Er með vísan til þessa fallist á það með stefnda að engin efni séu til að fella á hann skyldu til að greiða þessa kröfu stefnanda eða hluta hennar.
VI.
Krafa stefnanda vegna reyklosunarbúnaðar.
1.
Á byggingartíma verslunarmiðstöðvarinnar var meðal annars gerð breyting á verkinu frá upphaflegum hugmyndum sem laut að reyklosunarlúgum og reykblásurum. Í stefnu er tekið fram að því er þetta varðar að á verkfundi 11. október 2000 hafi verið rætt um að keyptur yrði annar búnaður af stefnanda en gert hafi verið ráð fyrir í útboðsgögnum, en aðilar hafi nokkru fyrr rætt um þetta sín á milli. Aftur hafi verið rætt um málið á verkfundi 18. október og síðan bókað um breytingu á fundi viku síðar. Af þessum gögnum verði ekki annað ráðið en að fulltrúar stefnda hafi samþykkt án nokkurs fyrirvara að nota þann búnað sem stefnandi lagði til. Stefndi hafi athugasemdalaust látið breyta teikningum og hann hafi sjálfur fest kaup á nýjum strengjum, sem þörf hafi verið á til að unnt væri að nota þann búnað sem stefnandi keypti. Stefndi hafi ekki hreyft athugasemdum vegna aukins kostnaðar sem af þessu hlaust fyrr löngu eftir að verkinu var lokið. Aðilar hafi haldið fund um þennan ágreining 8. ágúst 2001 þar sem samþykkt hafi verið af fulltrúum stefnda að greiða aukalega 2.850.000 krónur vegna þessarar breytingar, en þennan fund hefðu setið af hálfu stefnda byggingastjóri, verkefnisstjóri og hönnuður. Hinn 4. september 2001 hafi stefnanda síðan borist uppgjör, sem hann hafi búist við að yrði í samræmi við samkomulag sem gert hafi verið á fundinum. Annað hafi komið á daginn og hafi stefnandi með uppgjörinu aðeins fengið greiðslu á hluta þeirrar kröfu sem hann telur að samkomulag hafi tekist um. Hafi stefnandi mótmælt þessu með bréfi þennan sama dag og ítrekað þau sjónarmið sín að búið væri að semja um kostnað við reyklosunarbúnaðinn. Telur stefnandi að líta verði til þess að stefndi hafi samþykkt fyrirvarlaust að breyta reyklosunarbúnaði og hann hafi sjálfur keypti efni svo að unnt yrði að nota hann. Því beri honum að greiða þann aukna kostnað sem af þessu hlaust. Þar sem stefndi hafi ekki staðið við samkomulagið sem gert var 8. ágúst 2001 geri stefnandi kröfu um að fá greitt fyrir verkið samkvæmt reikningum sem hann hefur lagt fram með 20% álagi. Nemur krafa stefnanda vegna þessa 3.512.326 krónum.
2.
Í greinargerð er því haldið fram að stefnandi hafi fest kaup á reyklosunarbúnaði sem ekki hafi uppfyllt kröfur í útboðsgögnum þar eð búnaðurinn hafi verið gerður fyrir 24 volta rafspennu en ekki 230 volta. Jafnskjótt og stefndi hafi verið upplýstur um þessi mistök, en það hafi verið 5. október 2000, hafi verið haldinn neyðarfundur um málið, enda einungis fjórar vikur til fyrirhugaðarar opnunar verslunarmiðstöðvarinnar. Á fundinum hafi stefnandi upplýst að hann fengi ekki að skila þeim búnaði sem hann hefði keypt og ekki væri unnt að fá réttan búnað í tíma. Hafi stefndi þegar falið hönnuðum að kanna hvort unnt væri að breyta hönnun reyklosunarkerfisins þannig að notast mætti við búnað þann sem stefnandi hafði höndlað. Hönnuðirnir hefðu svarað því til að það væri tæknilega mögulegt. Hafi stefndi þá samþykkt að heimila stefnanda að notast við hinn keypta búnað og að breyta hönnuninni til samræmis við búnaðinn enda myndi þá ennfremur liggja fyrir staðfesting á því að hann uppfyllti skilyrði brunamálayfirvalda. Hafi stefnda verið nauðugur einn sá kostur að samþykkja þennan nýja búnað því ella hefði hann staðið frammi fyrir því að geta ekki opnað verslunarmiðstöðina á áður auglýstum tíma. Í bréfi stefnda hafi skýrt verið tekið fram að geyma yrði ákvarðanir varðandi kostnaðarþátttöku stefnda og að slík umræða mætti á engan hátt tefja framkvæmdir verksins. Með breyttri rafhönnun vegna hins nýja búnaðar telji stefnandi að til hafi orðið nokkurskonar aukaverk, sem stefndi hafi samþykkt og því beri honum að greiða kröfu stefnanda samkvæmt þessum kröfulið. Á fundi aðila 8. águst 2001 þar sem meðal annars hafi verið tekist á um kröfu stefnanda til sérstakrar greiðslu vegna reyklosunarbúnaðarins sem hann hafi keypt fyrir mistök og breytinga á verkinu sem hlotist hefðu af þeim mistökum. Hafi þar komið skýrt fram að stefndi hafnaði kröfu stefnanda og að stefnandi bæri sjálfur ábyrgð á öllum aukakostnaði sem hann kynni að hafa orðið fyrir af þessum sökum. Afstaða stefnda hafi síðan verið áréttuð með bréfi Einars S. Hálfdánarsonar hæstaréttarlögmanns, umboðsmanns stefnda, 5. október 2001.
Varðandi þennan kröfulið vísar stefndi ennfremur til þess að hann hafi sjálfur orðið fyrir töluverðum útgjöldum í tengslum við framangreind mistök stefnanda. Þannig hefðu verkefnisstjóri og byggingarstjóri stefnda varið töluverðum tíma í málið, en auk þess hafi stefndi orðið að greiða raflagnahönnuðum sérstaklega fyrir nýja hönnun. Telji dómurinn að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda vegna reyklosunarbúnaðarins krefst stefndi þess að frá þeirri kröfu verði dreginn allur kostnaður stefnda að álitum. Loks er því sérstaklega mótmælt að stefndi hafi samþykkt á fundi málsaðila 8. ágúst 2001 að greiða stefnanda kr. 2.850.000 vegna þessa kröfuliðar og ennfremur að stefnandi geti átt rétt á 20% álagi á reikning sinn, svo sem krafist er.
3.
Ekki eru næg efni til að líta svo á að á fundi 8. ágúst 2001 hafi af hálfu stefnda verið tekin um það skuldbindandi ákvörðun að hann stæði stefnanda skil á 2.850.000 krónum vegna reyklosunarbúnaðar.
Á fundi sem haldinn var 5. október 2000, en hann sótti af hálfu stefnanda Haraldur Árnason byggingatæknifræðingur, var fjallað um stjórnbúnað á reyklúgum. Í fundargerð segir meðal annars svo: „[Jóhann G. Sigurðsson] fór yfir verklýsingu þar sem fjallað er um stjórnbúnað á reyklúgum. Verktaki hefur keypt búnað sem vinnur á öðrum forsendum en reiknað var með í útboðinu. Ákveðið var að Raftákn og VST fari yfir þann búnað sem verktaki er að bjóða og komi með sitt mat á hvort breyta eigi út frá verklýsingu. Í meginatriðum má segja að samkvæmt útboðslýsingu átti að nota iðntölvu sem stýrt gæti öllum hlutum eftir þeim óskum sem fram myndu koma í kerfislýsingu, en sá búnaður sem verktaki er að bjóða vinnur í meginatriðum samkvæmt fyrirfram ákveðnum stýringum. Þá eru mótorarnir fyrir reyklúgurnar 24VDC en gert hafði verið ráð fyrir að nota 230VAC.“ Samkvæmt því sem fram kemur í fundargerð verkfundar 11. október 2000 var málið enn í skoðun þann dag. Í fundargerð verkfundar 18. sama mánaðar er eftirfarandi bókað: „Verkkaupi óskar eftir teikningu og nánari upplýsingum um opnunarbúnað sem verkkaupi (svo í fundargerð) hyggst nota fyrir reykblásara. Verktaki telur að leggja þurfi sérstaklega rafstrengi að opnunarbúnaði fyrir reykblásara þar sem strengur að blásara er 400V. Eftirlitið bendir á að best sé ef opnunarbúnaður geti keyrt á sama streng og reykblásarar.“ Í verkfundargerð frá 25. október eru síðan bókaðar athugasemdir málsaðila vegna þess verkþáttar sem hér um ræðir.
Í grein 3.3.14 í verklýsingu segir svo um reyklúgur að einingaverð skuli innihalda allt efni og alla vinnu sem þurfi til að „fullgera þennan verkþátt, þar með talið stýrikerfi, sjálfvirkur og handstýrður opnunarbúnaður o.s.frv.“. Þá er í grein 6.5.1 verklýsingar ákvæði þess efnis að verktaki skuli tengja reykblásara og reyklúgur í þaki. Af ástæðum sem alfarið eru á ábyrgð stefnanda festi hann kaup á reyklosunarbúnaði sem var annar en sá sem verklýsing gerði ráð fyrir. Málatilbúnaður stefnanda verður ekki skilinn öðru vísi en svo að hann geri hér kröfu um greiðslu úr hendi stefnda sem eigi að fullu að koma til viðbótar þeirri greiðslu sem stefnda hefði borið að inna af hendi til hans fyrir þennan verkþátt miðað við réttar efndir á verksamningi. Hefur stefnandi í öllu falli ekki sýnt fram á að annað eigi við um þessa kröfu hans.
Í ljósi þess sem nú hefur verið rakið verður skylda til að greiða þá kröfu stefnanda sem hér um ræðir ekki felld á stefnda.
VII.
Lækkun á reikningum fyrir samningsverk.
1.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi hafi tilkynnt stefnanda 2. maí 2001 að hann hefði ákveðið að lækka reikninga sem hann hafði áður greitt að fullu á verktímanum um 25.657.932 krónur. Hafi lækkun þessi að því er virðist byggst á breytingum á magntölum og því að stefndi hafi lækkað einstaka verkliði vegna galla, sem hann taldi vera á verkinu eða breytinga sem gerðar voru á verktímanum. Telur stefnandi að þessi lækkun á reikningum sem greiddir höfðu verið að fullu hafi verið óheimil svo löngu eftir að greiðsla á þeim var innt af hendi. Hafi þetta verklag stefnda haft það í för með sér að stefnandi hafi ekki átt þess kost að leiðrétta uppgjör sitt við undirverktaka og hafi því sjálfur orðið að bera þessa lækkun á verkinu. Þeir reikningar sem voru lækkaðir einhliða af stefnda hinn tilgreinda dag hefðu ekki fyrir þann tíma sætt athugasemdum af hálfu eftirlitsmanns stefnda. Í grein 31.3 í ÍST-30 komi fram að greiðslu inn á verk skuli lokið innan þriggja vikna frá því að hennar var krafist nema verkkaupi hafi borið fram skrifleg mótmæli gegn reikningi. Samkvæmt grein 31.13.1 beri síðan að líta svo á að ef ekki koma fram skrifleg mótmæli gegn upplýsingum innan hálfs mánaðar frá því að verkkaupi tók við þeim séu þær samþykktar. Stefndi hafi haft byggingaverkfræðinga á sínum vegum sem annast hafi eftirlit með verkinu. Því hafi stefnandi mátt treysta því að reikningunum yrði ekki breytt eftir að þeir höfðu hlotið samþykki eftirlitsmanna og verið greiddir. Telur stefnandi því að umrædd lækkun á greiðslu til hans 2. maí 2001 hafi verið í andstöðu við skýr ákvæði í samningi aðila, sbr. sérstaklega 2. gr. verksamnings og grein 0.22 í útboðslýsingu, og því ólögmæt. Beri stefnda að endurgreiða honum þá fjárhæð sem af hafi verið dregin.
Á meðal gagna málsins er bréf starfsmanns Endurskoðunar Norðurlands hf., en tölulega er sú krafa stefnanda sem hér um ræðir byggð á því skjali. Samkvæmt því gerði stefnandi stefnda á tímabilinu 15. júní til 31. október 2000 alls 10 framvindureikninga samtals að fjárhæð 298.621.769 krónur. Reikningar þessir voru að fullu greiddir á tímabilinu 3. júlí til 17. nóvember 2000. Þá gaf stefnandi út framvindureikning 28. desember 2000 að fjárhæð 8.257.110 krónur. Er í málatilbúnaði stefnanda á því byggt að í maí 2001 hafi stefndi lækkað þessa reikninga um 25.657.932 krónur. Við endanlegt uppgjör hafi stefndi þannig lækkað þegar greidda reikninga um 24.894.714 krónur og því til viðbótar lækkað reikninginn frá 28. desember 2000 um 763.218 krónur áður en hann kom til greiðslu.
Að því er þessa kröfu varðar er í stefnu vísað til þess að samkvæmt lið 1.1.0 í verklýsingu hafi stefnandi átt að girða vinnusvæðið af. Samkomulag hafi hins vegar orðið um það að nota lausa girðingu, en jafnframt hafi eftirlit stefnanda á með svæðinu verið aukið. Stefnandi hafi gert stefnda reikning fyrir þennan verkþátt í samræmi við tilboð sitt og hafi hann verið greiddur. Í maí 2000 hafi 1.000.000 krónur verið bakfærðar vegna þessa verkþáttar. Hér hafi þó engin magnbreyting orðið heldur breyting á verkinu frá verklýsingu. Af einhverjum ástæðum telji stefndi sér heimilt að lækka greiðslu fyrir þennan þátt verksins löngu eftir að reikningur fyrir hann hafi verið greiddur að fullu. Vísar stefnanda sérstaklega að því er þennan verkþátt varðar til greinar 16.3 í ÍST-30, en þar sé kveðið á um það að leiði breyting til lægri kostnaðar geti verkkaupi krafist lækkunar á samningsfjárhæð, enda sé krafan gerð þegar í stað. Þá vísar stefnandi til liðar 2.3.2 í verklýsingu, sem ber yfirskriftina „stálslípun steypuyfirborðs“. Þessi liður hafi einnig verið lækkaður einhliða vegna galla sem byggingastjóri hafi talið vera á slípun yfirborðs gólfa, en áður hafi stefndi greitt þennan lið að fullu. Nemi lækkunin 2.348.000 krónum. Hér hafi verið um að ræða gólf í rými sem gert hafi verið ráð fyrir að Byko hf. fengi til umráða. Á verkfundi 1. september 2000 hafi rýmið verið afhent og hafi stefndi þá gert athugasemdir varðandi ástand gólfsins. Samið hafi verið um að múrari sem annaðist flísalögn fyrir Byko hf. gerði við gólfið og krefði stefnanda um kostnað því samfara. Með þessu hafi verið samið um uppgjör vegna þessa verkþáttar og því geti stefndi ekki lækkað greiðslu til stefnanda vegna hans. Loks bendir stefnandi í stefnu á lið 2.7.3 í verklýsingu, en hann ber yfirskriftina „uppsetning og frágangur þakeininga“. Í magnskrá hafi verið gert ráð fyrir að þakeiningar yrðu 375, en í verklýsingu hafi verið gert ráð fyrir að hver eining væri um 13 m². Þær einingar sem stefndi lagði reyndar sjálfur til hafi verið stærri þannig að notaðar hafi verið 210 einingar í stað 375. Þessa breytingu á stærð eininganna hafi stefnda frá öndverðu verið kunnugt um, en samt sem áður hafi hann ekki gert stefnanda viðvart um hana. Hafi stefnanda ekki orðið þessi breyting ljós fyrr en vinna við þennan verkþátt hófst. Vegna þessarar breytingar eða öllu heldur mistaka stefnda í verklýsingu hafi tilboð stefnanda í þennan lið verksins verið lækkað um 3.069.000 krónur án þess að nokkur rök væru færð fyrir því önnur en að einingum hefði fækkað. Þegar stefndi fékk í hendur reikning vegna þessa verkþáttar hafi hann verið greiddur án nokkurra athugasemda. Geti stefndi ekki löngu síðar lækkað þennan lið um nær helming vegna þess eins að einingum fækkaði, enda hafi engin breyting orðið á flatarmáli þaksins og vinnu við að ganga frá einingunum. Vísar stefnandi sérstaklega að því er þetta varðar til greinar 16.3 í ÍST-30.
2.
Í greinargerð er því haldið fram að umsamið hafi verið að stefndi skyldi inna greiðslur af hendi eftir því sem verkinu miðaði áfram á byggingarstað 2. og 15. hvers mánaðar eftir nánari fyrirmælum í grein 0.22 í útboðslýsingu. Endanlegt samningsverð hafi síðan átt að taka mið af einingarverðum samkvæmt tilboðsskrá, sbr. og grein 31.14 í ÍST-30.
Stefndi kannast ekki við að hafa 2. maí 2001 lækkað einhliða reikninga frá stefnanda. Hins vegar liggi fyrir að Magnús Bjarnason verkfræðingur, sem var umsjónarmaður verkkaupa, það er stefnda, við byggingu verslunarmiðstöðvarinnar, hafi ritað stefnanda bréf 5. febrúar 2001 er laut að uppgjöri vegna verksins og telur stefndi að stefnandi eigi við það í þessu sambandi. Með bréfi verkefnisstjórans hafi verið áréttuð tilkynning byggingarstjóra um að framvindureikningur stefnanda nr. 3576, útgefinn 28. desember 2000, yrði ekki greiddur að svo stöddu vegna þess að skoða þyrfti magn allra liða í verkinu enda hefði skoðun sem fram hefði farið á vegum stefnda leitt í ljós að í heild yrði líklega um magnminnkun að ræða. Þessi reikningur stefnanda nam 8.257.110 krónum. Í framhaldi af þessu hafi allt verk stefnanda verið magntekið í sameiningu af báðum málsaðilum. Hafi þá orðið ljóst að flestir framvindureikningar stefnanda væru ekki í samræmi við raunverulegt magn og því sjálfgefið að leiðréttingu þyrfti að gera á uppgefnu magni og raunverulegu þegar heildarverkið yrði gert upp enda um það samið, sbr. 2. mgr. greinar 0.22 í útboðslýsingunni og grein 31.14 í ÍST-30. Ekki hafi því verið um sérstaka leiðréttingu á einstökum framvindureikningum að ræða og ekki hafi verið gerð sérstök krafa af hálfu stefnda um að stefnandi gæfi út kreditreikninga vegna of hárra framvindureikninga. Við lokauppgjör hafi einungis borið að leggja hinar staðreyndu magntölur til grundvallar og út frá því hafi stefndi gengið í lokauppgjörstillögu sinni 27. júní 2001, það er að stefnanda bæru 363.985.630 krónur fyrir aðalverkið. Sjái þess reyndar ekki stað að stefnandi hafi haft uppi sérstök andmæli við þeim útreikningi í málatilbúnaði sínum. Á þeim tíma hefði samtala útgefinna framvindureikninga stefnanda numið 361.948.579 krónum og hafi stefndi tekið fullt tillit til þeirra í uppgjörstillögunni. Krafa stefnanda um greiðslu á 25.657.932 krónum sé því krafa um greiðslu á 7,05% hærri fjárhæð úr hendi stefnda en hann eigi réttmætt tilkall til fyrir smíði verslunarmiðstöðvarinnar á grundvelli verksamnings málsaðila frá 10. maí 2000. Stefndi hafi að fullu greitt stefnanda fyrir verkið á grundvelli staðreyndra magntalna í takt við samning aðila og geti stefnandi því ekki átt kröfu til frekari greiðslu fyrir aðalverkið. Því sé algerlega mótmælt að athugasemdarlausar greiðslur stefnda á framvindureikningum stefnanda skapi stefnanda einhvern rétt til þess að vinna fjármuni úr höndum stefnda með þessum hætti. Stefnandi virðist byggja á því að hver framvindureikningur vegna verksins hafi sjálfstæðan tilverurétt að því marki að með greiðslu hans hafi stefndi viðurkennt að uppgefnar magntölur í fylgiskjali væru þar með samþykktar og að stefndi sé bundinn af þeim við heildaruppgjör verksins. Stefnda hafi með öðrum orðum borið að kanna sérstaklega við móttöku hvers framvindureiknings hvort stefnandi hafi raunverulega skilað því vinnumagni sem hann tilgreindi í meðfylgjandi yfirlitum sínum yfir verkstöðuna og að stefndi beri hallann af því að hafa ekki gert það. Þessum skilningi stefnanda mótmælir stefndi sérstaklega. Greiðslur stefnda á framvindureikningum stefnanda hafi ekki falið í sér samþykki hans fyrir því að yfirlit stefnanda yfir verkstöðu, sem fylgdi hverjum reikningi, væri rétt og að stefnandi hefði þar með fengið óskoraða heimild til að krefja stefnda um 7,05% hærri fjárhæð fyrir verkið en verksamningur kvað á um. Ákvæði þau sem stefnandi vísar til og hann telur leggja þá skyldu á herðar stefnda að kanna réttmæti þeirra yfirlita þegar í stað í þaula, það er greinar 31.3 og 31.13.1 í ÍST-30, verði ekki skýrð með þessum hætti. Greinarnar fjalli eingöngu um að verkkaupi megi ekki draga greiðslur úr hófi án þess að tilgreina ástæðu. Þær leggi enga slíka rannsóknarskyldu á herðar verkkaupa.
Í viðskiptum málsaðila hafi byggingarstjóri stefnda ekki rengt þær upplýsingar um verkstöðuna sem stefnandi lét á hverjum tíma fylgja framvindureikningum sínum. Byggingarstjóri hafi einfaldlega farið lauslega yfir uppgefna verkstöðu og talið að hún væri nærri lagi. Í samningi aðila, fylgigögnum hans eða meginreglum verksamningaréttar verði ekki fundin stoð fyrir því að sú skylda verði lögð á herðar verkkaupa að yfirfara með ítrustu nákvæmni alla framvindureikninga frá verktaka þegar um er sé ræða verk sem að endingu verði gert upp á grundvelli einingarverða samkvæmt tilboði. Um þetta atriði hafi verkkaupi val. Hann geti haft uppi mjög virkt eftirlit og fylgst nákvæmlega með framvindu verksins og ekki samþykkt aðra framvindureikninga en þá sem nákvæmlega eru í takt við verkstöðuna á hverjum tíma. En hann geti líka greitt framvindureikninga algerlega athugasemdalaust og beðið lokaúttektar og þar með niðurstöðu um það hvert sé endanlegt heildarverð á grundvelli einingarverða. Þar með taki hann þá áhættu að vertaki hafi á verktímanum fengið greitt meira en verkstaðan hafi raunverulega gefið tilefni til og að verktakinn komist til dæmis í greiðsluþrot á síðustu metrunum með þeim afleiðingum að hann geti ekki klárað verkið en hafi fengið það greitt að fullu.
Af hálfu stefnda er sérstök athygli vakin á því, að framvindureikningar stefnanda hafi verið gerðir á hálfs mánaðar fresti og að þeir hafi náð til 575 mismunandi verkþátta. Ef stefndi hefði borið skylda til að kanna þá í hvert skipti af sérstakri nákvæmni, en hver þeirra stæði ella sem sjálfstæður uppgjörssamningur, sé augljóst að stefndi hefði þurft að ráða til eftirlitsins her manna og stofna til óþarfa aukakostnaðar.
Stefndi hafnar algerlega þeirri málsástæðu stefnanda að hann verði fyrir tjóni fái hann ekki hina umkröfðu fjárhæð tildæmda úr hendi stefnda vegna þess að hann hafi gert upp við undirverktaka sína á röngum grundvelli. Í fyrsta lagi hljóti stefnandi að beri sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni um tjón. Í öðru lagi sé alveg ljóst að stefndi hafi með verksamningnum við stefnanda ekki tekið að sér að annast endurskoðun á viðskiptum stefnanda við undirverktaka sína. Stefnandi verði sjálfur að kanna lögmæti reikninga undirverktaka og vinna síðan reikningsgerð sína á hendur stefnda með heiðarlegum og réttum hætti.
Hvernig sem á framangreindar málsástæður er litið sé hins vegar alveg ljóst að til fyllingar þeim öllum sé sú einfalda staðreynd að dómstólar geta aldrei veitt kröfu stefnanda samkvæmt þessum lið brautargengi með því að þá væru honum fengnir í hendur fjármunir úr hendi stefnda sem hann hafi ekki unnið fyrir.
Í niðurlagi umfjöllunar um þá kröfu stefnanda sem hér um ræðir er í greinargerð vísað til þess að á verkfundi 14. nóvember 2000 hafi verið bókað af hálfu stefnda að óskað væri eftir því að næsti reikningur frá stefnanda yrði rökstuddur með magnútreikningum. Þrátt fyrir það hafi stefnandi sent reikning nr. 3576 hinn 28. desember 2000 án útreiknings á magntölum. Stefndi hafi hafnað þeim reikningi með bréfi byggingarstjóra 8. janúar 2001, en í framhaldi af því hefðu málsaðilar sameiginlega staðið að magntöku verksins. Þær magntökuskýrslur liggi til grundvallar uppgjörstillögu stefnda frá 27. júní 2001 og hafi útreikningur stefnda á kostnaðarverði aðalverksins, sem unninn hafi verið á grundvelli þeirra magntalna, ekki sætt mótmælum af hálfu stefnanda. Verði því að leggja hann til grundvallar við úrlausn málsins.
3.
Sú krafa stefnanda sem hér er til umfjöllunar felur það í raun í sér að honum beri samtals 389.643.562 krónur (363.985.630 + 25.657.932) fyrir samningsverk. Er þessi krafa hans að meginstefnu til byggð á því einu að stefndi hafi greitt framvindureikninga samtals að fjárhæð 306.878.879 krónur, en síðan lækkað þá í endanlegu uppgjöri sínu um 25.657.932 krónur. Er þannig á því byggt að með því að stefndi hafi greitt reikningana að fullu án fyrirvara hafi hann ekki getað lækkað þá í hinu endanlega uppgjöri sínu. Væri fallist á það með stefnanda að hann ætti á þessum grunni kröfu til þess að stefndi greiddi honum hina tilgreindu fjárhæð fæli sú niðurstaða í sér að felld væri á stefnda greiðsluskylda vegna samningsverka sem ekki ætti sér stoð í verksamningi málsaðila.
Í vitnisburði Magnúsar Bjarnasonar verkfræðings, sem var svo sem fram er komið umsjónarmaður verkkaupa við byggingu verslunarmiðstöðvarinnar, kom fram að litið hafi verið svo á að greiðsla á einstökum framvindureikningum stefnanda væri innborgun fyrir verkið sem heild. Er á þessu byggt af hálfu stefnda og að endanlegt samningsverð hafi átt að taka mið af einingarverðum samkvæmt tilboðsskrá. Er þessi skilningur í bestu samræmi við grein 0.22 í útboðslýsingu og grein 31.14 í ÍST-30 og hann fer ekki í bága við önnur þau ákvæði í þessum gögnum sem til skoðunar koma við úrlausn málsins. Í ljósi þessa getur greiðsla stefnda á reikningum stefnanda ekki ein og sér skapað honum rétt til endurgjalds úr hendi stefnda sem væri umfram það sem endanlegar magntölur samkvæmt verksamningi segðu til um.
Í stefnu hefur stefnandi sérstaklega vísað til lækkunar stefnda á þremur framvindureikningum og lýtur hún að greinum 1.1.0, 2.3.2 og 2.7.3 í verklýsingu. Samtals nemur lækkun stefnda vegna þeirra verkþátta sem hér um ræðir 6.417.000 krónum. Tekur grein 1.1.0 í verklýsingu til vinnusvæðis, grein 2.3.2 til stálslípunar steypuyfirborðs og grein 2.7.3 til uppsetningar og frágangs þakeininga. Að öðru leyti er ekki í stefnu fjallað um einstaka verkþætti sem þessi krafa stefnanda snýr að, en um hana vísað til samantektar starfsmanns Endurskoðunar Norðurlands hf., sem vikið er að hér að framan. Er hún dagsett 5. apríl 2002 og stíluð á lögmann stefnanda. Í bréfi sem byggingarstjóri stefnda ritaði stefnanda 27. júní 2001 kom fram það álit stefnda að miðað við leiðréttar magntölur ætti endurgjald til stefnanda fyrir samningsverk að nema 363.985.630 krónum. Í bréfi sem fyrirsvarsmaður stefnanda ritaði byggingarstjóranum 10. ágúst sama árs, en það laut að uppgjöri vegna aðalverks og aukaverka, auk þess sem kröfur voru settar fram vegna stöðvunar steypuframkvæmda og vinnu vegna yfirferðar á nýjum og breyttum teikningum, var í engu vikið að því að stefnandi ætti kröfu umfram framangreinda fjárhæð fyrir samningsverkið sem slíkt, en fyrirvari almenns eðlis gerður um endanlega yfirferð magntalna, „s.s. vegna neyðarstiga á norðurenda hússins o.fl.“. Í bréfi endurskoðanda stefnanda 27. september 2001 var þessi sami fyrirvari gerður, en sem fyrr út frá því gengið að stefnandi ætti annars rétt á 363.985.630 krónum fyrir tilboðsverkið og skuld stefnda vegna þess næmi samtals 9.276.023 krónum. Samanstóð sú fjárhæð af geymslufé að fjárhæð 7.238.972 krónur og ógreiddum eftirstöðvum að fjárhæð 2.037.051 króna. Í kjölfar þessa, eða 5. október 2001, ritaði lögmaður stefnanda þáverandi lögmanni stefnda bréf, þar sem meðal annars var vikið að því að á fundi aðila 28. september 2001 hafi af hálfu stefnanda verið óskað skýringa á því að reikningar fyrir einstaka verkþætti „sem greiddir höfðu verið að fullu voru lækkaðir af verkkaupa í maí“. Lýsir lögmaðurinn síðan því áliti sínu að engin heimild sé til að viðhafa vinnubrögð af þessu tagi. Þá segir svo í bréfinu: „Endurskoðandi [verktaka] er að taka fram endanlegar kröfur vegna þessa, sem verður kynnt verkkaupa um leið og hún liggur fyrir.“ Sú úttekt lá samkvæmt framansögðu fyrir 5. apríl 2002.
Af málatilbúnaði stefnanda er ljóst að sú krafa sem hann hér gerir á hendur stefnda hafi orðið til 2. maí 2001, með því að stefndi hafi þá tilkynnt honum um lækkun á reikningum sem áður hefðu þegar verið greiddir að fullu. Formlegri kröfu vegna þessa var ekki svo séð verði beint að stefnda fyrr en við höfðun málsins 24. júní 2002. Verður þannig ekki ráðið af tilvitnuðum bréfum 10. ágúst og 27. september 2001 að stefnandi hafi á þeim tíma sjálfur litið svo á að hann ætti sérgreinda fjárkröfu á hendur stefnda vegna samningsverksins að því leyti sem hér skiptir máli umfram þá fjárhæð sem stefndi lagði þá til grundvallar í uppgjöri sínu. Er einnig fallist á það með stefnda að þess sjái ekki stað í málatilbúnaði stefnanda á hvaða grunni hann ætti rétt á greiðslu fyrir samningsverkið umfram það sem útreikningur stefnda felur í sér. Að því marki sem stefnandi telst byggja kröfu sína um greiðslu á 25.657.932 krónum á þeirri málsástæðu að hún styðjist við verksamning málsaðila, en um það atriði er málatilbúnaður stefnanda óljós, ber þegar af þessum ástæðum að hafna henni. Er þá að auki til þess að líta að svo sem stefnandi hefur að þessu leyti hagað málatilbúnaði sínum kæmi eingöngu til álita að hann ætti rétt á frekari greiðslu úr hendi stefnda fyrir þá verkþætti sem hann hefur sérstaklega gert grein fyrir í stefnu.
Samkvæmt framansögðu er í engu fallist á þá kröfu stefnanda sem hér hefur verið til umfjöllunar.
VIII.
Aukaverk almenn atriði.
1.
Ljóst er af því sem fram hefur komið undir rekstri málsins að aðilar hafa náð samkomulagi um uppgjör fyrir fjölmörg aukaverk, en tölulegra upplýsinga um þetta nýtur ekki við í málinu. Í framburði fyrirsvarsmanns stefnanda kom þó fram það mat hans að hann teldi að stefndi hefði þegar staðið stefnanda skil á greiðslu fyrir aukaverk sem samsvaraði fjárhæð umdeildrar aukaverkakröfu hans. Þá kemur fram í bréfi Einars S. Hálfdánarsonar hæstaréttarlögmanns, sem kom að verkinu fyrir hönd stefnda, að samþykkt aðal- og aukaverk hafi 5. október 2001 numið alls 400.897.473 krónum.
Með bréfi til stefnanda 27. júní 2001 féllst stefndi á að réttmæt krafa stefnanda fyrir óuppgerð aukaverk næmi 6.089.558 krónum. Þar af nam krafa fyrir aukaverk, sem byggingarstjóri gerði grein fyrir á sérstöku fylgiskjali, samtals 2.236.663 krónum. Með þessu var á það fallist af hálfu stefnda að stefnandi ætti meðal annars og að hluta til rétt á greiðslu fyrir sum þeirra aukaverka sem þessi málssókn hans tekur til, sbr. aukaverk samkvæmt liðum A, B, C og D hér á eftir. Taka kröfufjárhæðir, sem tilgreindar verða í þessum liðum, einvörðungu til þess hluta krafna fyrir aukaverk sem umdeildur er.
2.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að aðilar hafi samið þannig um verð fyrir aukaverk að ef um væri að ræða verk sem unnið væri af undirverktaka legði stefnandi 20% ofan á það verð sem hann semdi um við undirverktaka. Séu kröfur stefnanda vegna aukaverka við þetta miðaðar.
Meginkrafa stefnda um sýknu af kröfum vegna aukaverka er studd við þá málsástæðu að kröfurnar séu allar allt of seint fram settar af hálfu stefnanda og að hafna verði þeim þegar af þeirri ástæðu með vísan til 16. kafla ÍST-30 og greinar 31.2.
Almennt varðandi kröfurnar tekur stefndi fram að nauðsynlegt hafi ennfremur verið að hafna þeim öllum vegna þess að allan rökstuðning fyrir þeim hafi skort. Þannig hafi fylgiskjöl vantað, til dæmis efnisnótur og reikninga. Ennfremur liggi fyrir að stefnandi hafi unnið sum verkin fyrir þriðja mann og í einhverjum tilfellum þegar fengið þau greidd. Verðlagning umkrafinna aukaverka hafi verið langt umfram verðlag samningsins og stefnandi hafi áskilið sér 20% viðbótarþóknun sem ekki hafi verið samið um.
Hluti af kröfu stefnanda vegna aukaverka tekur til aukaverka sem tengjast raflögnum og nemur hún 5.625.940 krónum. Af hálfu stefnda er vísað til þess að því er þessa kröfu varðar að í stefnu sé ekki gerð sérstök grein fyrir henni, hvorki um það í hverju hin meintu aukaverk hafi verið fólgin né um það hvernig umkrafin fjárhæð sé til fundin. Augljóslega verði því að sýkna stefnda af þessari kröfu þegar af þeirri ástæðu að engin gögn eða rökstuðningur liggi fyrir til grundvallar henni. Telur stefndi helst að stefnandi ætli sér varðandi þennan lið að byggja á meintu samkomulagi sem endurskoðandi stefnanda telji að komist hafi á með málsaðilum um uppgjör vegna aukaverka í raflögnum hinn 8. ágúst 2001, með þeim hætti að stefndi hafi samþykkt að greiða 8.475.940 krónur. Vísar stefndi að því er þetta varðar til samantektar endurskoðanda stefnanda frá 27. september 2001, sem meðal annars tekur til óuppgerðra aukaverka, en þar sé þessi tala tilgreind. Stefndi mótmæli því hins vegar að samkomulag hafi orðið með aðilum í framangreinda átt. Uppgjöri magntalna í raflögnum hafi lokið með undirskrift málsaðila á þar gerða skýrslu hinn 24. apríl 2001. Hafi stefndi lagt þær magntölur til grundvallar uppgjörstillögu sinni frá 27. júní 2001. Telji stefnandi að þrátt fyrir það beri stefnda að greiða honum frekari fjármuni vegna aukaverka við raflagnir sem ekki tilheyri aðalverkinu og stefndi hafi ekki sérstaklega áður greitt fyrir verði hann eftir almennum reglum að sýna fram á réttmæti þeirra krafna. Það geti hann ekki talist hafa gert með málatilbúnaði sínum og því beri að sýkna stefnda af þessari kröfu. Tekur stefndi fram að hinn 15. ágúst 2000 hafi hann samþykkt bréflega tilteknar kröfur stefnanda vegna aukaverka í rafmagni. Hin samþykkta fjárhæð, 1.789.035 krónur, sem hafi verið nákvæmlega sundurliðuð í bréfinu, hafi síðan verið greidd stefnanda 4. september 2000.
Sérstök athygli er vakin á því af hálfu stefnda á því að í stefnu sé rökstudd krafa vegna aukaverks (aukaverk nr. 41), sem muni vera vegna stálstyrkinga. Beina kröfu vegna þess liðar sé hins vegar ekki að finna í sundurliðun dómkrafna. Sú málsreifun sé því þýðingarlaus í málinu, en réttmæti þeirrar kröfu sé allt að einu mótmælt og vísað um það til skýrslu byggingarstjóra.
3.
Í vitnisburði Magnúsar Bjarnasonar verkfræðings, sem var umsjónarmaður stefnda með byggingu verslunarmiðstöðvarinnar, kom fram að samkomulag hafi tekist á milli aðila þess efnis að stefnandi myndi haga reikningsgerð sinni vegna aukaverka sem unnin væru af undirverktökum á þann veg að til viðbótar fjárhæð sem hann stæði undirverktökum sínum skil á kæmi 20% álag. Í ljósi þessa eru varnir stefnda sem að þessu lúta haldlausar.
A.
Í fyrsta lagi gerir stefnandi kröfu um greiðslu fyrir aukaverk sem samkvæmt málatilbúnaði hans tekur eftir því sem best verður séð til aukakostnaðar vegna 26 stálstyrkinga undir rifjaplötur í göflum verslunarmiðstöðvarinnar. Samkvæmt gögnum málsins nemur krafa stefnanda vegna þessa 119.025 krónum.
Í bréfi byggingarstjóra stefnda til stefnanda 27. júní 2001 var svo sem áður greinir tekið fram, að stefndi hafi fallist á að greiða stefnanda samtals 2.236.663 krónur vegna óuppgerðra aukaverka. Ekki verður annað séð en að stefndi hafi þar samþykkt að greiða þá kröfu stefnanda sem hér um ræðir að hluta, eða með 91.514 krónum. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann eigi frekari kröfu á hendur stefndi vegna þessa aukaverks.
B.
1.
Í öðru lagi tekur krafa stefnanda vegna aukaverka til svokallaðrar sjónsteypu og nemur sá hluti hennar 7.369.234 krónum. Í fyrsta lagi er hér gerð krafa um greiðslu verðmunar á steypu sem stefnandi hugðist nota og steypu sem hann kveðst hafa verið skikkaður til að nota við uppsteypu sjónsteypuveggja. Í annan stað lýtur þessi krafa stefnanda að aukakostnaði vegna uppsláttar, sem aftur greinist í efniskostnað og vinnulaun. Loks er innifalinn í þessari kröfu kostnaður stefnanda vegna leigu á krana.
Til stuðnings þessari kröfu sinni vísar stefnandi til greina 2.1, 2.2, 2.3 og 2.1.1.1 í verklýsingu. Verklýsing hafi annars haft litla leiðbeiningu að geyma um hvernig sjónsteypan skyldi líta út. Þar hafi einungis verið að finna almenna lýsingu, en að auki tekið fram hvernig mót skyldi nota. Stefnandi hafi notað þau mót sem tilskilin voru samkvæmt verklýsingu og steypu frá framleiðanda í samræmi við kröfu stefnda. Byggingarstjóri hafi samþykkt að greiða hluta af þessum kostnaði, það er mismun á steypuverði frá þeim framleiðanda sem hann valdi og framleiðanda sem stefnandi valdi sjálfur, en þó aðeins að hluta. Byggingarstjóri stefnda hafi hins vegar gert kröfur um að allt önnur vinnubrögð en ráða mátti af verklýsingu. Af þessu hafi hlotist verulega aukinn kostnaður. Byggingarstjóri stefnda hafi talið þau mót sem stefnandi notaði ekki vera sjónsteypumót, sem sé rangt því að mótin hafi verið í samræmi við verklýsingu. Þetta sé eina ástæðan sem gefin hafi verið fyrir því að þessari kröfu er hafnað og það þrátt fyrir að byggingarstjórinn hafi krafist þeirrar auknu vinnu sem stefnandi hafi lagt í verkið umfram það sem gera hafi mátt ráð fyrir samkvæmt verklýsingu.
Í greinargerð segir svo um þessa kröfu stefnanda að stefndi hafi samþykkt og greitt tvo liði hennar, annars vegar mismun á verði venjulegrar steypu, S-250 steypu, og þeirrar steypu sem málsaðilar hafi verið sammála um að nota, þ.e. S-300+ steypu. Hins vegar hafi stefndi umfram skyldu fallist á að greiða 5% álag á mótaverð. Samtals hafi greiðsla stefnanda vegna þessa numið 699.617 krónum. Kröfu stefnanda vegna sjónsteypu hafi stefndi að öðru leyti hafnað. Sé þessi afstaða stefnda byggð á því að stefnandi fari hér fram með kröfu vegna verka sem augljóslega hafi verið innifalin í verksamningi aðila. Upphaflega hafi stefnandi ætlað sér að spara verkkostnað sinn með því að vinna verkið með ófullnægjandi mótauppslætti, nota ónothæfa steypu og láta verkamenn sína kasta til þess höndunum. Byggingarstjóri stefnda hafi hins vegar gripið inn í þessar fyrirætlanir stefnanda og náð í tíma að koma skikki á framkvæmdina og þar með fyrirbyggt að verulegir gallar yrðu á verkinu umfram þá sem þegar hefðu verið komnir fram. Áður hafi verið fjallað um rétt stefnda til þess að krefjast þess að stefnandi notaði aðra steypu en þá sem hann hugðist upphaflega brúka. Vísar stefndi til þeirra málsástæðna hans sem að þessu lúta. Stefnandi eigi því ekki réttmæta kröfu til mismunar á verði steypu frá Arnarfelli ehf. annars vegar og verði á steypu frá Möl & Sandi hf. hins vegar. Efnasamsetningu steypu frá Arnarfelli ehf. hafi verið haldið leyndri fyrir stefnda og honum því verið heimilt þegar af þeirri ástæðu að hafna henni. Samkvæmt verksamningi aðila hafi stefnanda borið að leggja steypu til verksins og hann geti því ekki krafið stefnda um bætur á grundvelli þess að steypa sem hann lagði til hafi reynst dýrari en hann hugði við tilboðsgerðina.
Stefndi tekur sérstaklega fram að hann hafi hafnað kröfu stefnanda um sérstaka aukaþóknun vegna þess að honum hafi ekki verið leyft að nota öll sín steypumót við uppsteypu sjónsteypuveggjanna, en stefnandi hafi ýmist ætlað að nota stóra og litla mótafleka. Varðandi þetta tekur stefndi taka fram að við sjónsteypuvinnu sé afar mikilvægt að öll mót séu af sömu stærð þannig að veggurinn líti út sem heillegastur. Þá vísar stefndi í þessu sambandi í grein 2.1.0 í verklýsingu. Stefnandi hafi því við tilboðsgerð sína mátt gera ráð fyrir að hann þyrfti að hlíta fyrirmælum arkitekts varðandi uppsteypuna.
Kröfum stefnanda um aukagreiðslur vegna aukinnar vinnu járnamanna, vélamanna og verkstjóra vísar stefndi alfarið á bug. Vinna þessara manna hafi verið í samræmi við verksamning aðila og rétta aðferð við sjónsteypu. Þá sé kröfu vegna leigu á krana hafnað með sömu rökum.
Með vísan til framangreinds telur stefndi að algerlega beri að sýkna hann af þeirri kröfu sem hér um ræðir. Að auki sé til þess að líta að krafan sé að öðru leyti algerlega órökstudd. Láti nærri að stefnandi sé með þessari kröfu sinni að fara fram á að fá greitt þrefalt gjald fyrir uppsláttinn miðað við eðlilegan kostnað samkvæmt kostnaðaráætlun og tilboð hans.
2.
Það er mat dómsins að verklýsing hafi verið nægilega skýr að því er varðar þann verkþátt sem þessi krafa stefnanda snýr að. Þá hefur stefndi samþykkt að greiða stefnanda þann mismun sem var á verði S-250 steypu og S-300+ steypu, svo og 5% álag vegna steypumóta. Er ekki á það fallist með stefnanda að stefndi hafi að öðru leyti gert kröfur sem lutu að þessum verkþætti umfram það sem verklýsing gerði ráð fyrir. Ber þegar af þessari ástæðu að hafna þeim hluta kröfu stefnanda vegna sjónsteypu sem umdeildur er.
C.
1.
Í þriðja lagi lýtur krafa stefnanda um greiðslu fyrir aukaverk að ýmsum verkum sem unnin voru í tengslum við stálvirki sem greinar 2.8 og 3.3.17 í verklýsingu taka til. Er í stefnu vísað að því er þessi verk varðar til greinargerðar sem unnin var af þeim undirverktaka sem hafði þessi verk með höndum. Í henni segir svo: „1. Í verklýsingu eða teikningu er ekkert sýnt eða skrifað hvernig eigi að festa RHS prófíl í vegg eða vinkil að framan sem ber upp glerið í skyggninu. Sérsmíði á klofi með stoppskrúfu yfir vinkilinn að framan, múrbolti og smíði á eyrum sem ná niður á vegg og breyting á 38 stk. prófílum vegna þess að skyggnið er dregið að vegg að sunnan. Alls 245 prófílar á 2.500 stk. [Samtals] 612.500. 2. Vinklar sem standa út frá enda og ákveðið að setja á síðustu stundu. Alls 8 stk. x 10.000. [Samtals] 80.000. 3. Viðbót vegna breytinga á festingum á stífum í HEB standandi stoð og álag vegna mislangra stífa að sunnan. 48 m x 3.000 kr. [Samtals] 144.000. 4. Viðbótarkostnaður við að gera beyju á enda á drenröri niður við jörð. Alls 22 niðurfallsrör x 2.700 kr. stk. [Samtals] 59.400. 5. Völsun á prófíl alls 44 metrar er bætt inn í magnskrá í bognum vinklum en dregið frá í beinum vinklum. Viðbótarálag vegna þess að verktaki þurfti að kaupa sér sérstakal aðstoð við að framkvæmda þetta verk. Samtals kr. 280.000.“ Að teknu tilliti til 20% álags á kröfu undirverktaka nam krafa stefnanda upphaflega 1.411.080 krónum, en umdeild krafa nemur nú 1.146.245 krónum.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að ekki sé um það ágreiningur að um aukaverk hafi verið að ræða. Aðilar deili hins vegar um verð fyrir þau. Byggingarstjóri stefnda hafi ekki tekið afstöðu til kröfunnar í heild, en meti hluta verksins þrátt fyrir að fyrir hafi legið greinargerð frá undirverktakanum vegna þessa kostnaðar. Í samræmi við almennar reglur sé það í verkahring stefnda að sanna að krafa stefnanda sé bersýnilega ósanngjörn, en það hafi hann ekki gert. Því beri honum að greiða þann kostnað sem þessi krafa stefnanda taki til.
Í greinargerð er tekið fram að stefnandi geri hér kröfu til þess að stefndi greiði honum að fullu reikning undirverktakans, Tréverks ehf., vegna breytinga á stálvirki í skyggni, en upphaflega hafi stefnandi farið fram á að fá greiddar 974.250 krónur fyrir breytingarnar, sbr. verkbeiðni hans frá 9. nóvember 2000. Stefndi viðurkenni að hönnun skyggnisins hafi verið breytt frá því sem gert var ráð fyrir í útboðsgögnum. Til þess hafi hann hins vegar haft fulla heimild samkvæmt 16. kafla ÍST-30. Stefndi hafi aftur á móti ekki fallist á þessa kröfu stefnanda þar sem unnt hafi verið að gera kostnað vegna þessara breytinga að mestu upp í magntölum í samræmi við verksamning aðila. Því hafi stefndi óskað eftir því að aðrir kröfuliðir yrðu rökstuddir. Þegar breytingar þær sem unnt hafi verið að gera upp í magntölum voru magnteknar hafi komið í ljós að kostnaður við verkið hafi numið 10.590.819 krónum. Í uppgjörstillögu stefnda hinn 27. júní 2001 hefðu ennfremur verið gerð upp aukaverk þessu tengd að fjárhæð 264.835 krónur. Stefnandi fari nú fram með heildarreikning undirverktakans að frádreginni þeirri fjárhæð, þó svo að fyrir liggi að uppgjör byggingarstjóra stefnda miði við greiðslu á 11,2% hærri fjárhæð en krafa stefnanda hinn 9. nóvember 2000 hljóðaði upp á.
Stefndi byggir nú á því að krafa stefnanda á grundvelli framangreinds reiknings Tréverks ehf. sé í fyrsta lagi allt of seint fram komin og því beri að hafna henni þegar af þeirri ástæðu. Efnislega telur stefndi að hann hafi þegar gert stefnanda full skil á vinnu vegna skyggnisins og vísar þar um auk framangreinds til eftirfarandi raka:
1. Ekki sjáist á útboðsteikningum hvernig festingar við RHS prófíl áttu að vera en hins vegar sé alveg ljóst að stefnandi hafi í tilboði sínu miðað við uppsettan og frágenginn prófíl. Stefnandi hafi ekki sett fyrirvara um þetta atriði. Útfærsla sú á festingum sem valin var sé ekki kostnaðarsamari en stefnandi hafi mátt búast við er hann gerði tilboðið.
2. Krafa sé gerð vegna vinkla samkvæmt lið 2.8.5 í verklýsingu. Hefðu þeir verið magnteknir við lokauppgjör. Kostnaður vegna þeirra hafi því verið gerður upp.
3. Krafa vegna breytinga á festingum á stífum í HEB standandi stoð og álag vegna mislangra stoða að sunnan. Um hafi verið að ræða breytingu á festingum í vegg að ósk stefnanda en kostnað vegna þessa liðar hafi stefndi þegar samþykkt og tekið tillit til í uppgjörstillögu sinni frá 27. júní 2000.
4. Stefndi hafi ekki beðið um að gerð yrði beygja á enda á drenröri eins og krafist sé greiðslu fyrir.
5. Prófill sem krafa tekur til hafi verið gerður upp í magntölum. Stefndi hafi þó þegar samþykkt og tekið tillit til þess í uppgjörstillögu sinni að aukakostnaður vegna þess að prófílarnir voru beygðir í „S“ en ekki „U“ væri 170.883 krónur.
2.
Í skýrslu byggingarstjóra stefnda er því haldið fram að samkvæmt tilboði stefnanda hafi stálvirki í skyggni verið verðlagt á 8.787.675 krónur. Vísar byggingarstjóri í þessu sambandi til greina 2.8.1, 2.8.2, 2.8.3, 2.8.4, 2.8.5, 2.8.6 og 3.3.17 í verklýsingu. Þann 9. nóvember 2000 hafi stefnandi lagt fram verkbeiðni sem tekið hafi til stálvirkis í skyggni. Hafi þar verið farið fram á að stefndi greiddi álag á allt stálvirki í skyggni „vegna ýmissa breytinga sem gerðar hafa verið á verktímanum“. Krafa stefnanda vegna þessa hafi numið 974.250 krónum. Heildarkrafa stefnanda vegna stálvirkis í skyggni hafi þannig numið 9.761.925 krónum. Í magnuppgjöri hafi verkið í heild verið gert upp með 10.590.819 krónum, en að auki hafi stefndi samþykkt að greiða til viðbótar 264.835 krónur vegna þessa verkþáttar, eða í heild 10.855.654 krónur. Er viðbótarfjárhæðin innifalin í þeirri fjárhæð sem stefndi samþykkti að standa stefnanda skil á fyrir aukaverk, önnur en aukaverk í rafmagni, samkvæmt bréfi hans 27. júní 2001, en sú fjárhæð nemur svo sem fram er komið 2.236.663 krónum.
Að mati dómsins hefur stefnanda ekki tekist að hnekkja þeirri staðhæfingu stefnda, sem byggð er á framangreindri umfjöllun byggingarstjóra í skýrslu hans, að réttilega hafi verið staðið að uppgjöri vegna stálvirkis í skyggni. Hefur stefnanda þannig ekki tekist að sýna fram á að hann eigi frekari kröfu á hendur stefnda vegna þess. Er þá ennfremur til þess að líta að samkvæmt bréfi sem fyrirsvarsmaður stefnanda ritaði stefnda 10. ágúst 2001, sem meðal annars tók til óuppgerðra aukaverka, var litið svo á að stefnandi ætti kröfu á hendur stefnda vegna stálvirkis að fjárhæð 974.250 krónur. Þá kröfu samþykkti stefndi samkvæmt framansögðu með 264.835 krónum. Kemur krafa stefnanda að fjárhæð 1.146.245 krónur fyrst fyrir í bréfi endurskoðanda stefnanda 27. september 2001.
Samkvæmt framansögðu verður kröfu stefnanda vegna stálvirkis í skyggni að fjárhæð 1.146.245 alfarið hafnað.
D.
1.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefndi hafi falið honum að vinna ýmis aukaverk er lutu að pípulögn. Verk þessi hafi meðal annars falist í því að settir hafi verið 3” einstreymislokar á bakrás og aukastútar á stofna að litlum rýmum vestan göngugötu. Þá hafi verið komið fyrir þrýstijöfnurum á kalt neysluvatn, breytingar verið gerðar á stærð á sprinklerlokum og ofnlokar settir á blásara. Loks hafi verið gengið frá brunaþéttingum með lögnum sem liggja í gegnum veggi.
Krafa sem stefnandi gerir á hendur stefnda vegna þessa nemur 271.480 krónum. Þrátt fyrir að stefnandi hafi lagt fram yfirlit yfir þessi verk frá þeim aðila sem hafi unnið þau telji byggingarstjóri stefnda að ekki sé unnt að taka þessa kröfu til greina þar sem gögn um hana vanti. Það sé hins vegar ekki tilgreint sérstaklega hvaða gögn sé þar um að ræða.
Af hálfu stefnda er sýknukrafa á því byggð að engin gögn hafi verið lögð fram í málinu er sýni hvaða vinna hafi verið lögð í þau verk sem hér um ræðir, né heldur liggi fyrir hver efniskostnaður í tengslum við þau hafi verið. Mestu skipti þó að ekki verði annað séð af framlögðum gögnum en að stefnandi sé hér að mestum hluta að gera kröfu um greiðslu fyrir verk sem tilheyrt hafi samningsverkinu og gerð hafi verið upp í magntölum, það er brunaþéttingar með lögnum í gegnum veggi, 15 og 18 mm rústfrí rör og ofnlokar á blásara. Vísar stefndi að því er þetta varðar til skýrslu byggingarstjóra. Af þessum sökum beri að hafna þessari kröfu stefnanda.
2.
Mótmæli stefnda gegn þeirri kröfu stefnanda sem tengist aukaverkum við pípulögn beinist samkvæmt framansögðu að því meðal annars, að ekki liggi fyrir viðhlítandi gögn til stuðnings henni. Eina skjalið sem stefnandi hefur lagt fram til stuðnings þessari kröfu sinni er sundurliðun sem unnin var af Haraldi Sigmari Árnasyni byggingatæknifræðingi fyrir hönd stefnanda 9. júlí 2001. Upphafleg krafa vegna þessara aukaverka nam 554.280 krónum. Samþykkti stefndi að taka hana til greina að hluta, eða með 282.800 krónum og er sú fjárhæð hluti af þeim 2.236.663 krónum sem stefndi samþykkti að standa stefnanda skil á fyrir aukaverk, önnur en aukaverk í rafmagni, samkvæmt bréfi hans 27. júní 2001.
Þegar litið er til þess með hvaða hætti stefnandi hefur lagt umdeilda kröfu sína vegna aukaverka við pípulögn fyrir dóminn og þar sem stefnandi hefur ekki hnekkt þeirri staðhæfingu stefnda, að sá kostnaður sem þessi krafa hans snýr að hafi að stórum hluta komið til vegna verka sem tilheyri samningsverkinu og hafi þar af leiðandi verið gerður upp í magntölum, telst stefnandi ekki hafa rennt viðhlítandi stoðum undir þá kröfu sína sem hér um ræðir. Ber því að hafna henni.
E.
1.
Í fimmta lagi lýtur krafa stefnanda um greiðslu fyrir aukaverk að vinnu við stálstiga sem settur hefur verið upp við suðurhlið verslunarmiðstöðvarinnar. Greinir aðilana á um það hvort um aukaverk sé að ræða eða hvort það eigi undir grein 3.3.18 í verklýsingu. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að gerðar hafi verið breytingar frá útboðslýsingu varðandi festingar á stiganum, auk þess sem gerð hafi verið krafa um að notaðar yrðu festingar sem ekki hafi verið getið um í verklýsingu. Auk þessa hafi verið smíðaðir tveir aukastigar á norðurvegg hússins og sé hliðstæður ágreiningur uppi varðandi þá. Nemur þessi krafa stefnanda 257.626 krónum.
Af hálfu stefnda er því haldið fram í greinargerð að verkbeiðni stefnanda vegna þessa aukaverks sé dagsett 4. júlí 2000. Hún hafi hljóðað uppá 96.000 krónur. Stefnandi geti ekki nú breytt frá þeirri kröfugerð. Sé hin breytta kröfugerð alltof seint fram komin. Þá hafi stefnandi í tilboði sínu boðið fast verið í stigann. Það sé að vísu rétt að vinnuteikning af knektum hafi ekki fylgt útboðsgögnum, en stefnandi hafi að sjálfsögðu mátt gera ráð fyrir að festa þyrfti stigann. Loks er tiltekið af hálfu stefnda að það hafi verið álit byggingarstjóra hans að breytingar frá útboðslýsingu ættu að hafa í för með sér minni kostnað fyrir stefnanda en ella. Samkvæmt þessu beri að hafna þeirri kröfu stefnanda sem hér um ræðir.
2.
Samkvæmt gögnum málins gerði Tréverk ehf. stefnanda reikning 20. febrúar 2001 fyrir það verk sem þessi krafa stefnanda tekur til, en af gögnum málsins verður ráðið að vinnu við það hafi að fullu verið lokið 20. desember 2000. Var fjárhæð reikningsins 214.688 krónur, en að viðbættu 20% álagi stefnanda nemur krafa hans á hendur stefnda 257.626 krónum. Í bréfi stefnanda til byggingarstjóra stefnda 10. ágúst 2001 var þessarar kröfu ekki getið, en hins vegar er hún tiltekin í yfirliti sem endurskoðandi stefnanda tók saman 27. september sama árs. Ekki verður séð að kröfunni hafi fyrir þennan tíma verið beint að stefnda. Að þessu virtu og með hliðsjón af grein 31.2 í ÍST-30 er á það fallist með stefnda að krafan sé of seint fram komin. Ber þegar af þeirri ástæðu að hafna henni.
F.
1.
Á norðurhlið verslunarmiðstöðvarinnar er vindfang með sjálfstæðu þaki sem klætt var með þakdúk ofan á einangrun. Um einangrun vindfangs sagði svo í grein 3.3.3 í verklýsingu: „Einangra skal ofan á steypta plötu við aðalinnganga, norðan- og sunnanmegin, með steinullarplötum sem framleiðandi þakdúks mælir með. Einangrunina skal festa tryggilega.“ Um þakdúk sagði meðal annars svo í grein 3.3.16 í verklýsingu: „Klæða skal ofan á einangrun vindfangs norðanmegin“. Stefnandi telur þessa lýsingu ekki ná nema að litlu leyti yfir þann verkþátt sem vinna þurfti við þak vindfangsins. Teikningar af kantfrágangi á þaki vindfangsins vanti alfarið og lýsingu á verkinu hafi alfarið skort. Hafi hann því ekki getað gert sér grein fyrir umfangi þessa verkþáttar. Gerir hann kröfu á hendur stefnda vegna þessa og nemur hún 343.352 krónum. Stefndi telur hins vegar að tilvitnaðar greinar í verklýsingu skýri það fullkomlega hvernig þessum frágangi skyldi háttað og að auki hafi stefnandi fengið greitt aukalega fyrir frágang á þakdúk við þakniðurföll og þakkant.
Ágreiningur aðila lýtur samkvæmt framansögðu að því um það hvort fella megi umrætt verk undir greinar 3.3.3 og 3.3.16 í verklýsingu. Heldur stefnandi því fram að verklýsing sé mjög takmörkuð um það hvernig staðið skyldi að því að einangra vindfang, leggja á það dúk og ganga frá honum. Að mati stefnanda sé ekki að finna í verklýsingu neitt um þetta verk annað en það sem fram komi í lið 3.3.3. Byggingastjóri stefnanda hafi gert kröfu um lagningu á dúk ofan á þak og að hann yrði festur niður á kanta vindfangsins. Stefnandi hafi leitað tilboðs í verkið og sé krafa hans byggð á því. Telur stefnandi að um aukaverk sé að ræða vegna þess að gleymst hafi í verklýsingu að gera ráð fyrir þeim frágangi sem byggingastjóri stefnda hafi gert kröfu um.
Stefndi telur að hér sé ekki um aukaverk að ræða. Samkvæmt grein 3.3.16 í verklýsingu sé greinilegt að einangrun vindfangs falli þar undir og því hafi verkið verið magntekið. Þá hafi niðurfall í þakdúk einnig verið magntekið í samræmi við grein 7.2.5, en þakkantur kringum vindfangið hafi verið gerður upp í aukaverki nr. 55 með 164.350 krónum. Augljóst sé því að stefndi hafi að fullu staðið stefnanda skil á greiðslu fyrir þann verkþátt sem hér um ræðir.
2.
Ekki verður annað séð en að stefnandi hafi beint þeirri kröfu sem hér um ræðir að stefnda með reikningi útgefnum 30. október 2000. Er sá reikningur ennfremur tilgreindur í bréfi sem fyrirsvarsmaður stefnanda ritaði byggingarstjóra stefnda 10. ágúst 2001. Kröfuna telst stefnandi því hafa gert í tíma.
Þær greinar í verklýsingu, sem þýðingu hafa við úrlausn um þessa kröfu stefnanda, eru tilgreindar í kafla 1 hér að framan. Dómurinn telur að verklýsing samkvæmt þessum greinum sé fullnægjandi og tæmandi að því er varðar annað en kantfrágang á þaki vindfangs. Stefnanda hefur hins vegar ekki tekist að hnekkja þeirri staðhæfingu stefnda að sá verkþáttur hafi verið gerður upp í aukaverki nr. 55. Verður því að leggja til grundvallar að fyrir það verk hafi stefndi þegar greitt. Aðrir verkþættir teljast samkvæmt framansögðu til samningsverksins. Verður ekki annað séð en það hafi að því leyti verið magntekið og gert upp á grundvelli einingarverða. Þessari kröfu stefnanda er samkvæmt þessu alfarið hafnað.
G.
1.
Í sjöunda lagi tekur krafa stefnandi um greiðslu fyrir aukaverk til verks sem fólst í því að hurðargötum á verslunarmiðstöðinni var breytt. Af hálfu stefnanda er því haldið fram að þetta verk hafi verið unnið að beiðni byggingarstjóra stefnda. Allt að einu hafi hann hafnað því að greiða þann kostnað sem þetta hafi haft í för með sér og að því er virðist vegna þess að hann telji að verslunareigandi í viðkomandi rými eigi að greiða hann. Á það geti stefnandi ekki fallist, enda hafi hann ekki verið í samningssambandi við verslunareigandann. Þá skipti hér öllu máli að byggingarstjóri stefnda hafi sjálfur beðið um að þetta verki yrði unnið. Nemur krafa stefnanda vegna þessa 180.177 krónum.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að það verk sem hér um ræðir hafi að stórum hluta var unnið fyrir Nettó, það er Matbæ ehf. Stefndi hafi þó tekið á sig hluta kostnaðarins. Stefndi hafi þannig þegar greitt sinn hlut og kveðst jafnframt fullviss um að Matbær ehf. hafi einnig greitt stefnanda það sem félaginu ber vegna þessa aukaverks. Stefndi hafi átt að greiða fyrir eina hurð en Matbær ehf. fyrir aðra. Tilboðsverð frá stefnanda í hurðir samkvæmt grein 3.3.10.2 í verklýsingu hafi verið 220.000 krónur á hurð. Stefndi hafi gert upp kostnað vegna einnar hurðar í magnuppgjöri, en aukakostnað við breytingu á grind með kröfu stefnanda nr. 75 að fjárhæð 114.059 krónur, sem þegar hafi verið greidd.
Stefndi vekur sérstaka athygli á því að samkvæmt framlögðu dómskjali hafi stefnandi þegar beint kröfu að Matbæ ehf. vegna verka sem þessi krafa hans tekur til og fengið hana greidda.
2.
Afstaða stefnda til þessarar kröfu stefnanda er byggð á skýrslu byggingarstjóra. Henni til stuðnings hefur stefndi lagt fram í málinu ljósrit af tveimur reikningum sem stefnandi gerði Matbæ ehf. 30. október 2000 vegna tveggja hurða samtals að fjárhæð 472.169 krónur. Þá er á meðal gagna málsins ljósrit af verkbeiðni, þar sem Matbær ehf. óskar sem leigutaki eftir tilteknum breytingum frá hönnun á leigurými. Þar er þess meðal annars óskað að söguð verði ný göt í vegg fyrir glugga og hurðir. Þá segir í verkbeiðninni að leigutaka beri að greiða kostnað vegna þessa beint til verktaka. Stefnandi hefur ekki hnekkt þeirri staðhæfingu stefnda að framangreindir reikningar, sem stefnandi hafi fengið greidda, taki að hluta til þess verks sem stefndi er hér krafinn um og að verkið hafi að öðru leyti verið gert upp með þeim hætti sem byggingarstjóri lýsir. Af þessari ástæðu eru ekki efni til að taka þessa kröfu stefnanda til greina.
H.
1.
Í upphafi mun hafa verið við það miðað að nýr þakpappi yrði límdur niður. Á verktíma lagði stefnandi það til að í stað þess að bræða asfaltpappa á eldri pappa yrði nýja lagið fest niður með þar til gerðum festingum sem borað yrði fyrir í gegnum eldra pappalag og einangrun og þær festar í strengjasteypu þaksins. Ákveðið hafi verið að vinna verkið með þessum hætti. Er þakfestingar komu á staðinn voru þær of stuttar. Mun hafa verið gert ráð fyrir því að allt eldra þakið væri einangrað með 50 mm einangrun, svo sem sýnt hafi verið á teikningu. Síðar hafi komið í ljós að þykkt einangrunarinnar á þakinu væri 80 mm. Vegna þessa kveðst stefnandi hafa þurft að panta nýjar festingar með hraðsendingu. Krefur hann stefnda um kostnað sem af þessu hlaust að teknu tilliti til 20% álags. Nemur þessi krafa stefnanda 515.000 krónum.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að sá undirverktaki sem unnið hafi þetta verk hafi fengið samþykki stefnda fyrir því að breyta um festingar á þakdúk frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í verklýsingu. Á teikningu sem unnin hafi verið af stefnda komi fram að þykkt einangrunar á þaki sé 5 cm. Eftir þessu hafi undirverktakinn farið þegar hann keypti bolta, sem hann hugðist nota til að festa dúkinn. Síðar hafi komið í ljós að teikningarnar voru ekki réttar að þessu leyti og því hafi þurft að panta lengri bolta. Telur stefnandi að stefndi beri samkvæmt almennum reglum ábyrgð á því að teikningar séu réttar að því er þetta varðar og því beri honum að greiða þann kostnað sem var því samfara að panta nýjar festingar.
Af hálfu stefnda er vísað til þess að samkvæmt útboðsgögnum hafi verið miðað við að bræða ætti nýjan þakpappa á þann pappa sem fyrir var, enda hafi verið mælt fyrir um það í verklýsingu að gera ætti við gamla pappann og grunna hann. Stefnandi hafi sennilega viljað losna við þessa vinnu og því ákveðið að stefnda fornspurðum að vinna verkið með framangreindum hætti. Hann hafi síðan fest kaup á umræddum festingum án samráðs við stefnda. Þegar stefnandi hafi tilkynnt byggingarstjóra stefnda um þessa breyttu tilhögun hafi hann ekkert haft við hana að athuga þótt vikið væri með þessum hætti frá útboðsgögnunum. Stefnandi verði hins vegar sjálfur að bera það tjón sem hann hafi orðið fyrir vegna þess að þær festingar, sem hann hafi sjálfur ákveðið að nota og fest kaup á að stefnda forspurðum, pössuðu ekki þegar til átti að taka, enda hafi þau innkaup ekki verið byggð á upplýsingum frá stefnda.
Stefndi andmælir sérstaklega þeirri kröfu stefnanda að stefnda verði gert að greiða honum kostnað við hraðpóstsendingu (DHL), en í fjárhæðardálki þess reiknings sem undirverktaki stefnanda gerði honum vegna þessa verkþáttar nemur sá kostnaður 54.000 krónum.
2.
Fyrir liggur að með reikningi útgefnum 10. nóvember 2000 krafði undirverktaki stefnanda hann meðal annars um greiðslu fyrir það verk sem þessi krafa stefnanda tekur til. Nam krafa undirverktakans 429.000 krónum. Dómsmál reis á milli stefnanda og undirverktakans, sem meðal annars tók til þessa verks. Var endanlega leyst úr þeim ágreiningi með dómi Hæstaréttar 12. desember 2002. Í þeim dómi segir svo: „Á teikningu, sem vísað er til í verksamningi, er á þversniði gefið upp að þykkt einangrunar á þakinu sé 50 mm. Annars staðar á teikningunni er við sérmynd textinn „þykkt eins og á eldra þaki (100 mm?)“. Það var mat sérfróðra meðdómsmanna í héraði að umrædd teikning væri misvísandi, því að hún hefði átt að bera með sér að þykkt einangrunar væri breytileg. Verður á því mati byggt. Ekki verður séð að S.M. verktakar ehf. hafi getað staðreynt þykkt einangrunar á þakinu með skoðun, heldur hefði þurft að bora göt á þakið til þess. Verður því ekki talið að undirverktakinn hafi vanrækt skoðunarskyldu sína. Verður áfrýjandi samkvæmt þessu að bera kostnað, sem hlaust af framangreindum hnökrum á teikningunni, og verður fallist á kröfur samkvæmt þessum lið.“ Með reikningi útgefnum 13. sama mánaðar beindi stefnandi kröfu að stefnda vegna þessa sama verks og nam fjárhæð hans svo sem fram er komið 515.000 krónum, sem er rétt rúmlega 20% hækkun frá reikningi undirverktaka.
Leggja ber til grundvallar við úrlausn málsins að út frá því hafi jafnan verið gengið af hálfu stefnda að sú breytta verktilhögun, sem gerð hefur verið grein fyrir í kafla 1 hér að framan, hefði ekki í för með sér aukakostnað fyrir hann, svo og að hann hafi samþykkt hana í kjölfar þess að fyrri festingarnar höfðu verið keyptar. Til aukakostnaðar hefði ekki komið ef framangreindir annmarkar á teikningu, sem átti að sýna þykkt einangrunar á þakinu, hefðu ekki verið til staðar. Á þeim annmörkum gat stefndi hins vegar enga ábyrgð borið, enda skiptu þeir engu máli ef verkið hefði verið útfært með þeim hætti sem upphaflega var gert ráð fyrir. Þá getur það eitt, að stefndi samþykkti fyrir sitt leyti að verkið yrði unnið á þann veg sem raun varð á, ekki leitt til þess að greiðsluskylda gagnvart stefnanda hafi stofnast. Að framangreindu virtu var það þannig alfarið á ábyrgð stefnanda að kostnaður vegna þessa verkþáttar yrði ekki umfram það sem verksamningur gerði ráð fyrir. Stoðar stefnanda þannig ekki gagnvart stefnda að bera fyrir sig þau atvik sem urðu til þess að stofnað varð til þess aukna kostnaðar við festingu þakpappa sem hér um ræðir. Þessari kröfu stefnanda er því hafnað.
I.
1.
Í níunda lagi tekur krafa stefnandi um greiðslu fyrir aukaverk til ýmissa verka sem unnin voru af einum af undirverktaka hans, Tréverki ehf., en það félag kom einnig að vinnu við það verk sem fjallað er um í lið E hér að framan. Nemur krafa stefnanda vegna þessa samtals 2.092.200 krónum og á hún að sögn hans rót sína að rekja til fjögurra mismunandi verkþátta. Þrír fyrstu kröfuliðirnir séu til komnir vegna breytinga á samningsverkinu, sem stefnandi segir að fulltrúi stefnda hafi beðið hann um að vinna. Þar sé í fyrsta lagi um að ræða færslu á sorplúgu fyrir Matbæ ehf., en verkið hafi falist í því að taka sorplúgu úr og koma henni fyrir aftur, breyta grind og ganga frá gati eftir tilfærsluna. Krafa vegna þessa nemur 102.000 krónum. Í öðru lagi hafi Tréverk ehf. haft með höndum aukaverk er tengdust álhurðum, en í sérstakri sundurliðun er í þessu sambandi getið um færslu á radar í opnunarbúnaði, færslu á gólfstýringum vegna múrbrots fyrir gólfmottu og vegna flísalagnar og lagfæringu á slitinni reim. Nemur krafa vegna þessa 68.400 krónum. Þá er í þriðja lagi gerð krafa vegna breytingar sem á að hafa verið gerð á ál- og trégluggum eftir að framleiðsla á þeim hófst og nemur krafa vegna þessa 93.600 krónum. Fjórði kröfuliðurinn tekur hins vegar að sögn stefnanda til aukningar á magni vegna ákveðinna liða í verklýsingu og magnskrá. Vísar stefnandi að því er þennan kröfulið varðar til skjals sem hann hefur lagt fram í málinu og segir stafa frá þeim undirverktaka hans sem hafi haft verkið með höndum. Í því skjali er vísað til greina 3.3.9.1, 3.3.9.2, 3.3.9.3, 3.3.10.2, 3.3.17 og 3.3.18.1 í verklýsingu og viðbótarmagn í hverjum verkþætti tilgreint ásamt einingarverðum og heildarkostnaði sem á að hafa hlotist af aukningunni. Að teknu tilliti til 20% álags frá reikningi undirverktaka nemi krafa stefnanda vegna þessarar magnaukningar 1.828.200 krónum.
Að því er varðar kröfu stefnanda vegna færslu á sorplúgu tekur stefndi fram að ekki þurfi að deila um það að krafan sé honum óviðkomandi enda hafi verkið verið unnið fyrir Nettó, það er Matbæ ehf. Byggingarstjóri hafi beðið um að verkið yrði unnið en hann hafi haft sérstakt umboð frá Nettó til þess. Hafi byggingarstjóri óskað sérstaklega eftir því við stefnanda að reikningur vegna verksins yrði stílaður á Matbæ ehf. og hann myndi skrifa uppá reikninginn fyrir hönd félagsins á grundvelli umboðsins. Þá liggi fyrir að Matbær ehf. hafi innt af hendi til stefnanda greiðslu fyrir verkið.
Stefndi mótmælir því að byggingarstjóri hans hafi óskað eftir færslu á gólfstýringum, sbr. 2. liður í kröfu stefnanda. Sennilegast sé að þetta hafi verið gert að beiðni stefnanda vegna þess að gólfstýringar hafi ekki verið rétt staðsettar í upphafi. Þá geti stefnandi ekki með réttu átt kröfu á hendur stefnda vegna þess að reim hafi slitnað á verktímanum, enda beri stefnanda sjálfur áhættu af slíku óhappi fram að afhendingu.
Þá mótmælir stefndi kröfu stefnanda vegna glugga, sbr. 3. liður í þessari kröfu stefnanda. Heldur stefndi því fram að endanlegar teikningar af gluggum hafi legið fyrir í tíma og áður en gluggar fóru í framleiðslu. Þá hafi stefnandi engan áskilnað gert um aukakostnað vegna þessa.
Kröfu stefnanda vegna meintrar aukningar á magni mótmælir stefndi alfarið. Lítil sem engin grein sé gerð fyrir þessari kröfu í málatilbúnaði stefnanda. Af þeirri umfjöllun verði ekki séð hvort um sé að ræða aukaverk sem unnið hafi verið af Tréverki ehf., þó svo að það megi að vissu leyti ráða af því skjali sem töluleg kröfugerð stefnanda í málinu grundvallist á. Eina rökstuðninginn fyrir kröfunni sé að finna í stefnu, en þar segi að um sé að ræða „aukningu á magni vegna ákveðinna liða í verklýsingu og magnskrá, sem nánar eru tilgreindir í framlögðu skjali frá undirverktakanum, sem vann verkið“. Kröfu þessari verði samkvæmt þessu að hafna vegna vanreifunar. Þá telur stefndi að fyrir liggi samkomulag um uppgjör á verkinu á grundvelli magntalna og að útreikningi á kostnaðarverði samningsverksins á grundvelli staðreyndra magntalna, sbr. bréf hans 27. júní 2001, hafi ekki verið andmælt. Þreföld hurð hafi verið gerð upp í magntölum sem ein tvöföld hurð og ein einföld samkvæmt samkomulagi við stefnanda. Hert gler hafi verið magntekið í lokauppgjöri. Stálstigar séu þrír á húsinu og hafi stefnda borið að greiða fyrir tvo þeirra en Matbæ ehf. fyrir einn. Byggingarstjóri stefnda hafi sérstaklega beðið stefnanda að stíla reikning vegna eins stigans á Matbæ ehf. og að hann myndi skrifa samþykkja reikninginn til greiðslu fyrir hönd félagsins á grundvelli umboðs. Þá liggi fyrir að Matbær ehf. hafi greitt reikninga stefnanda vegna þessa. Vísar stefndi í því sambandi til dómskjals nr. 102.
Af framansögðu telur stefndi ljóst að sýkna beri hann að öllu leyti af þeim kröfum stefnanda sem hér hafa verið til umfjöllunar.
2.
Samkvæmt gögnum málins beindi Tréverk ehf. kröfu að stefnanda vegna færslu á sorplúgu með reikningi 20. desember 2000. Reikningar vegna aukaverka er tengdust annars vegar álhurðum og hins vegar breytingum á gluggum voru hins vegar gefnir út 20. febrúar 2001 og verður að leggja til grundvallar að þeir hafi þá verið sendir stefnanda. Í bréfi stefnanda til byggingarstjóra stefnda 10. ágúst 2001 var ekki um það getið að stefnandi teldi sig eiga kröfu á hendur stefnda á grundvelli þessara reikninga og á yfirliti endurskoðanda stefnanda frá 27. september sama árs er hennar í engu getið. Verður ekki séð að kröfu vegna þessara þriggja reikninga og framangreindri kröfu stefnanda að fjárhæð 1.828.200 krónur hafi verið beint að stefnda fyrr en með höfðun málsins. Að þessu virtu og með hliðsjón af grein 31.2 í ÍST-30 er á það fallist með stefnda að framangreindar kröfur stefnanda, samtals að fjárhæð 2.092.200 krónur, séu of seint fram komnar. Ber þegar af þeirri ástæðu að hafna þeim.
J.
1.
Á verktíma lagði stefnandi strengi að rennslis- og fiktnemum fyrir sprinklerkerfi hússins. Strengir þessir eru eldþolnir. Ekki var gert ráð fyrir því í útboðsgögnum að slíkir strengir yrðu notaðir og telur stefnandi því að um aukaverk sé að ræða. Nemur krafa hans vegna þessa 1.422.213 krónum. Stefndi telur hins vegar að í verklýsingu og magnsskrá sé lýst strengjum sem hafi átt að nota og að þeir uppfylli þær kröfur sem gerðar séu til stýristrengja, en ekki sé gert ráð fyrir að þeir séu eldþolnir. Telur stefndi að það val stefnanda að nota dýrari strengi en útboðsgögn kváðu á um hljóti að vera á ábyrgð hans sjálfs. Hann geti ekki í þessu tilviki eignast kröfu á hendur stefnda, enda verði ekki annað séð en að ástæða þessa hafa verið misskilningur undirverktaka hans í rafmagni.
2.
Stefnanda hefur gegn andmælum stefnda ekki tekist að sýna fram á að það hafi verið á ábyrgð stefnda að lagðir voru eldþolnir rafmagnsstrengir að rennslis- og fiktnemum fyrir vatnsúðunarkerfi (sprinklerkerfi) verslunarmiðstöðvarinnar, en ekki verður talið að útboðsgögn hafi gert ráð fyrir því að strengir af þessu tagi yrðu notaðir til verksins. Telst stefnandi því ekki hafa rennt stoðum undir það að hann eigi kröfu til þess að stefndi greiði þann aukakostnað sem af þessu hlaust, en telja verður að sá verkþáttur sem hér um ræðir hafi að öðru leyti verið gerður upp á grundvelli þess sem verksamningur gerði ráð fyrir. Við þetta bætist síðan að samkvæmt gögnum málsins beindi Raftó ehf., sem var undirverktaki stefnanda í raflögn, kröfu að stefnanda vegna þessa aukakostnaðar með reikningi útgefnum 1. maí 2001. Í bréfi fyrirsvarsmanns stefnanda til byggingarstjóra stefnda, sem getið hefur verið um hér áður og er dagsett 10. ágúst 2001, var tekið fram að eftir væri að gera upp samþykkt aukaverk vegna raflagna að fjárhæð samtals 8.475.940 krónur. Stefndi hefur jafnan andmælt því að samkomulag þessa efnis hafi náðst á milli aðila, en í bréfi hans til stefnanda 27. júní 2001 var við það miðað að kostnaður hans vegna samþykktra aukaverka í rafmagni næmi 3.852.895 krónum. Er ljóst að sá aukakostnaður sem hér er til umfjöllunar er ekki innifalinn í þeirri fjárhæð. Hvað sem þessu líður er ljóst að stefnandi gerði ekki sérgreinda kröfu um greiðslu aukakostnaðar vegna framangreindra rafmagnsstrengja fyrr en með höfðun málsins 24. júní 2002, rúmu ári eftir að kröfu hér að lútandi var beint að honum. Styðst hún ekki svo séð verði við reikning frá stefnanda. Leiðir framangreind aðstaða ein og sér til þess að lögvarin krafa á hendur stefnda vegna umrædds aukakostnaðar telst ekki vera fyrir hendi.
IX.
Það er samkvæmt öllu framansögðu niðurstaða dómsins að endurgjald til stefnanda fyrir samningsverk samkvæmt verksamningi aðila frá 10. maí 2000 eigi að nema 363.985.630 krónum, en þá fjárhæð lagði stefndi til grundvallar í uppgjörs-tillögu byggingarstjóra síns 27. júní 2001. Óumdeilt er að hinn tilgreinda dag hafi stefndi verið búinn að standa stefnanda skil á 354.709.607 krónum vegna samningsverksins. Þá samþykkti stefndi með þessu bréfi sínu að stefnandi ætti kröfu á hendur honum vegna aukaverka að fjárhæð samtals 6.089.558 krónur. Frá því samþykki sínu hefur hann ekki fallið. Samtals telst því gjaldfallin krafa stefnanda á hendur stefnda hinn tilgreinda dag hafa numið 15.365.581 krónu. Þá samþykkti stefndi síðar frekari kröfu stefnanda vegna aukaverka í rafmagni að fjárhæð 1.789.035 krónur. Er þannig ljóst að heildarfjárhæð samþykktra krafna vegna aukaverka, sem þýðingu hafa við úrlausn málsins, nemur 7.878.593 krónum. Dómurinn hefur hér að framan komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi eigi ekki frekari kröfur á hendur stefnda. Þá hefur dómurinn hafnað því að stefndi eigi gagnkröfu á hendur stefnanda sem komið geti til frádráttar við það uppgjör sem nú getur farið fram. Er því þannig alfarið hafnað að stefndi eigi rétt til dagsekta, svo sem hann hefur gert kröfu til, svo og gagnkröfur vegna galla samtals að fjárhæð 1.851.000 krónur. Í síðarnefndu fjárhæðinni er ekki innifalin gagnkrafa stefnda vegna svokallaðrar sjónsteypu, en það er svo sem fram kemur í kafla III.3 hér að framan niðurstaða dómsins að frágangur sjónsteypu sé víða ekki með þeim hætti sem stefndi mátti með réttu gera kröfu til og hann eigi vegna þessa fjárkröfu á hendur stefnanda. Svo sem þar kemur einnig fram verður hins vegar að leysa úr ágreiningi aðila án tillits til þessarar gagnkröfu stefnda þar sem fjárhæð hennar verður að svo stöddu ekki ákveðin.
Á tímabilinu 16. ágúst til 14. september 2001 innti stefndi af hendi til stefnanda þrjár greiðslur, samtals að fjárhæð 5.699.616 krónur. Hefur stefnandi miðað við það að þessum innborgunum verði í heild ráðstafað til lækkunar á höfuðstól kröfu hans.
Samkvæmt framansögðu verður stefnda með dómi þessum gert að greiða stefnanda 11.455.000 (15.365.581 + 1.789.035 5.699.616) krónur ásamt dráttarvöxtum svo sem í dómsorði greinir.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Mál þetta dæma Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Gústaf Vífilsson byggingaverkfræðingur og Helgi S. Gunnarsson bygginga-verkfræðingur.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Smáratorg ehf., greiði stefnanda S.S. Byggi ehf., 11.455.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. júlí 2001 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.