Hæstiréttur íslands
Mál nr. 70/2007
Lykilorð
- Börn
- Forsjársvipting
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 20. september 2007. |
|
Nr. 70/2007. |
X(Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl. Hjördís E. Harðardóttir hdl.) gegn Félagsmálaráði Kópavogs (Helgi Birgisson hrl. Jóhannes Ásgeirsson hdl.) |
Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn.
Félagsmálaráð K krafðist þess að X yrði sviptur forsjá tveggja dætra sinna sem fæddar eru 1991 og 1992. Undir rekstri málsins í héraði var dómkvaddur matsmaður sem taldi hæfni X til að fara með forsjá dætra sinna vera verulega skerta og mælti með því að þær dveldu áfram á fósturheimili. Í héraðsdómi, sem var staðfestur með vísan til forsendna hans, var meðal annars gerð grein fyrir afskiptum Félagsmálaráðs K af málefnum X og dætra hans sem hófust í árslok 2001, óviðunandi aðbúnaði á heimili X og því að stúlkurnar hefðu tekið sýnilegum framförum eftir að þær voru vistaðar utan heimilis hans. Með vísan til þessa og því sem fyrir lá um hagi X var talið að skilyrðum fyrir forsjársviptingu samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002 væri fullnægt og að önnur vægari úrræði kæmu ekki að haldi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. febrúar 2007. Hann krefst þess að „hafnað verði kröfu stefnda um að áfrýjandi skuli sviptur forsjá dætra sinna, A og B“, en til vara að kröfunni verði hafnað að því er þá síðarnefndu varðar. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, X, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 21. nóvember 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. október sl., er höfðað 1. desember 2005 af Félagsmálaráði Kópavogs, Fannborg 2 í Kópavogi, á hendur X, með fasta búsetu að [...] í Kópavogi en lögheimili að [...] í Reykjavík.
Í málinu gerir stefnandi þá dómkröfu að stefndi verði með dómi sviptur forsjá dætra sinna, A, kt. [...], og B, kt. [...]. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu.
Stefndi krefst þess að kröfum stefnanda verði hafnað og málskostnaðar úr hendi hans auk virðisaukaskatts.
Undir rekstri málsins náði A, dóttir stefnda, 15 ára aldri og var henni þá, með vísan til ákvæða 55. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, skipaður talsmaður til að gæta hagsmuna hennar við rekstur málsins. Skipaður talsmaður stúlkunnar, Guðrún Björg Birgisdóttir hdl., lagði fram greinargerð í málinu þar sem fram kemur að stúlkan mótmæli ekki kröfum stefnanda og geri ekki sérstakar kröfur í málinu.
Hinn 13. október sl. kvað dómsformaður upp úrskurð þar sem hafnað var kröfu stefnda um að Sæmundur Hafsteinsson sálfræðingur viki sæti sem meðdómsmaður. Var sú niðurstaða staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands uppkveðnum 23. október sl.
I.
Í stefnu er því lýst að atvik að því barnaverndarmáli sem hér er til umfjöllunar megi rekja aftur til ársins 1995 er stefndi skildi við eiginkonu sína, móður fyrrgreindra dætra hans. Komið hafi til harðvítugra deilna milli stefnda og fyrrum eiginkonu hans um forsjá stúlknanna sem hafi lokið með því að konunni var dæmd forsjá dætranna með dómi 18. september 1997. Var það gert þrátt fyrir að konan væri talin vera veikburða einstaklingur. Félagsmálayfirvöld í Reykjavík höfðu afskipti af stúlkunum og móður þeirra fram í september 2001 en þá flutti móðirin í C. Stúlkurnar fluttu þá til stefnda í Kópavog en móðir þeirra svipti sig lífi í nóvember 2001 og hvarf forsjá stúlknanna þá til stefnda.
Afskipti stefnanda af stefnda og dætrum hans hófust í árslok 2001 en þá bárust tilkynningar sem lýstu áhyggjum af velferð stúlknanna. Lutu þær að aðbúnaði á heimilinu, auk þess sem barnaverndarnefnd Reykjavíkur lýsti yfir áhyggjum sínum af því að ekki næðist í stefnda til að bjóða dætrum hans aðstoð vegna móðurmissisins.
Stefnandi kvað upp úrskurð á grundvelli 26. gr. barnaverndarlaga þann 5. september 2002. Þar kemur fram að barnaverndaryfirvöld hafi í kjölfar tilkynninga um áhyggjur af aðbúnaði stúlknanna reynt að eiga samstarf við stefnda um málefni þeirra. Stefndi hafi hins vegar ekki mætt í viðtöl þrátt fyrir ítrekaðar boðanir og ekki sinnt boðum yfirvalda um aðstoð til stúlknanna vegna móðurmissisins. Þá hafi heimilisaðstæður verið ófullnægjandi og stúlkurnar ekki mætt í skóla frá 27. ágúst það ár. Á grundvelli þessa var úrskurðað að stefndi skyldi sæta eftirliti starfsmanna félagsmálaráðs með heimili hans að [...] þegar þess væri krafist, að dæturnar skyldu sækja skóla samkvæmt stundaskrá, fara í læknisskoðun samkvæmt fyrirmælum stafsmanna félagsmálaráðs, undirgangast önnur meðferðar- og rannsóknarúrræði eftir því sem þörf þætti og loks að stúlkurnar mættu ekki flytja úr landi. Haustið 2002 skráði stefndi dæturnar í D og var haft eftirlit með líðan þeirra og aðstæðum gegnum skólann. Hefði þeim virst líða vel og því hefði stefnandi ákveðið á fundi í desember sama ár að ekki væri þörf á að leggja málið fyrir að nýju að óbreyttum forsendum.
Í október 2003 bárust stefnanda tilkynningar um áhyggjur af líðan og aðstæðum stúlknanna og kom fram að þær hefðu ekki sótt skóla það sem af var skólaárinu eins og fram kemur í bréfi Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur dagsettu 18. nóvember 2003. Ítrekað var reynt að hafa samband við stefnda vegna þessa en án árangurs. Með úrskurði stefnanda 5. febrúar 2004 var ákveðið að stúlkurnar skyldu teknar af heimili sínu í allt að tvo mánuði svo hægt yrði að gera viðeigandi rannsóknir á þeim og veita þeim nauðsynlega meðferð. Voru stúlkurnar vistaðar að E og hófu skólagöngu þar síðar í sama mánuði.
Stefndi skaut framangreindum úrskurði til héraðsdóms til ógildingar. Málinu lauk með dómsátt 17. mars 2004 þess efnis að stefndi samþykkti áframhaldandi dvöl stúlknanna hjá vistforeldrum fram til loka skólaársins í maí/júní 2004 en þá skyldu þær snúa aftur til stefnda. Var í sáttinni jafnframt mælt fyrir um umgengni stefnda við stúlkurnar á meðan á vistuninni stæði.
Í framhaldi af dómsáttinni og könnun á aðstæðum systranna var stefndi boðaður í viðtöl til starfsmanna stefnanda en hann hvorki mætti né afboðaði sig. Hinn 15. september 2004 barst félagsmálayfirvöldum í Kópavogi tilkynning um að stúlkurnar væru í F og í desember sama ár bárust upplýsingar frá skólanum um að líðan og umhirða þeirra væri í lagi. Í ársbyrjun 2005 ákvað stefnandi að útskrifa mál stúlknanna á grundvelli fyrirliggjandi gagna.
Hinn 26. ágúst 2005 barst tilkynning um óviðunandi aðstæður stúlknanna. Var fullyrt að heimilið væri rafmagnslaust og stefndi atvinnulaus og lýsti tilkynnandi áhyggjum af andlegri líðan hans. Kom fram að stefndi tíndi flöskur sem dætur hans seldu sér til framfærslu. Héraðsdómur Reykjaness heimilaði húsleit á heimili stefnda 3. október sama ár í því skyni að handtaka hann til að koma honum í skýrslutöku vegna lögreglurannsóknar á ætluðu hegningarlagabroti hans. Þegar inn á heimilið var komið, óskaði lögregla eftir því við stefnanda að fram færi úttekt á húsnæðinu. Í lögregluskýrslum er ástandi á heimilinu lýst þannig að sóðaskapur hafi verið mikill og væg ýldulykt innan dyra, umgengni hræðileg og vandkvæðum bundið að drepa niður fæti. Starfsmenn stefnanda tóku út íbúð stefnda og ákváðu síðan að beita neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og taka stúlkurnar úr umráðum stefnda og vista þær öðru sinni að E. Var framangreind neyðarráðstöfun staðfest á fundi stefnanda 20. október 2005 og var ennfremur ákveðið með vísan til a liðar 27. gr. barnaverndarlaga að stúlkurnar skyldu dvelja áfram að E í allt að tvo mánuði. Þá var starfsmönnum stefnanda falið að undirbúa mál fyrir héraðsdómi til að svipta stefnda forsjá dætra sinna.
Stefndi mótmælti aðgerðum stefnanda og krafðist þess í bréfi til héraðsdóms að úrskurður stefnanda yrði felldur úr gildi. Dómari málsins ræddi við stúlkurnar undir meðferð málsins og naut til þess aðstoðar sálfræðings. Hinn 18. nóvember 2005 var kveðinn upp úrskurður dómsins þar sem kyrrsetningin og vistun stúlknanna utan heimilis í allt að tvo mánuði var staðfest. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 6. desember 2005 var úrskurður héraðsdóms staðfestur.
Í málinu liggja frammi tvær skýrslur Brynjólfs G. Brynjólfssonar sálfræðings sem var, í framhaldi af úrskurði stefnanda 5. febrúar 2004 um að taka stúlkurnar af heimilinu í tvo mánuði, fenginn til að leggja mat á greind stúlknanna, tengsl, tilfinningalega líðan og félagslega stöðu. Skýrsla um B er dagsett 20. mars 2004 en skýrsla um A er dagsett 21. mars sama ár. Helstu niðurstöður eru þær að báðar stúlkurnar mældust með greind yfir meðallagi og þá kom fram að þær hefðu á fjölskyldutengslaprófi sýnt lítil tilfinningaleg tengsl við föður. Einnig kom fram í samantektarköflum skýrslnanna að B virtist vera í góðu tilfinningalegu jafnvægi þrátt fyrir erfiðar aðstæður en að A virtist vera döpur og kvíða framtíðinni.
Félagsþjónusta Kópavogs óskaði eftir því við Helga Viborg sálfræðing að hann gerði sálfræðiathugun á stúlkunum og er sálfræðiskýrsla hans dagsett 6. desember 2005 en viðtöl við stúlkurnar fóru fram í nóvember sama ár. Í skýrslunni er A lýst sem daufgerðri í fasi og að hún virðist feimin og tilfinnningalega lokuð. Í viðtali hafi hún gefið lítið af sér og ekki haft frumkvæði en svarað með stuttum setningum og hafi einnig oft vikið sér undan að svara spurningum. A hafi virkað vel greind og sé mjög vel að sér um dægur- og þjóðfélagsmál. Hafi hún sagst vera ánægð að E, hún kynni vel við fósturforeldra sína og dóttur þeirra og þá væri hún einnig ánægð í G og þætti kennararnir góðir og krakkarnir ágætir. Segir í skýrslunni að A sé óvenju ákveðin varðandi framtíð sína og lýsir áætlunum sínum um menntaskólagöngu og háskólanám í útlöndum. Um tengsl A við föður sinn segir: „Aðspurð um föður sinn svarar hún spurningum á stuttan og málefnalegan hátt án tilfinningasemi. Hún segir frá menntun hans, störfum og lífi hans af skilningi og góðvild. Í engu hallar hún á hann og ekki ber á ósætti eða óánægju í hans garð. En ekki gefur hún heldur á neinn hátt í skyn vilja til að tala við hann eða umgangast hann og aldrei minnist hún á hann í tengslum við framtíðaráform sín.“ Loks segir að A hafi neitað að taka tengslapróf með þeim skýringum að það væri leiðinlegt og asnalegt og hafi hún ekki gefið sig þótt gengið væri á hana.
Um B segir að hún sé fremur hispurslaus í fasi og hrein og bein í framkomu auk þess sem hún svari spurningum strax og án málalenginga. Yfirbragð hennar hafi verið fremur alvarlegt og hún brosi lítið og hlæi ekki. Hafi B lýst því að hún sé ánægð að E og að henni líði vel og líki vel við fósturforeldra sína og dóttur þeirra. Hún sé ánægð í skólanum og gangi vel. B hafi lýst því að hún ætli í framhaldsskóla en sé ekki búin að ákveða hvað hún læri eftir það. Hún tali vel um föður sinn og segir hann oft skemmtilegan. Hins vegar sé hann með „ofsóknar-eitthvað“ og haldi að allir séu á móti þeim. Um ástæðu þess að þær systur séu ekki hjá stefnda, hafi B sagt að það væri vegna þess að á heimilinu hafi allt verið í drasli og þá hafi alltaf vantað mat nema í byrjun mánaðar. Stefndi hafi ekki unnið heldur verið heima og lesið. Kemur fram að B hafi tekið fram að hún vilji ekki tala illa um stefnda og vilji ekki að hann frétti neitt slíkt frá sér en hún hafi ekki heyrt frá honum síðan systurnar komu að E. Loks segir að B hafi sagt að hún vildi vera á E næstu árin.
B gekkst undir Bene-Anthony fjölskyldutengslapróf fyrir eldri börn. Samkvæmt niðurstöðum prófsins upplifi B að hún sé ekki í nánum tilfinningatengslum við neinn en upplifi ekki að einhver vilji sér illt og þá komi fram að henni sé ekki illa við neinn. Síðan segir: „Hún upplifir engan verulega góðan við sig eða að einhver haldi mikið upp á sig. Hún upplifir að pabbi sýni henni ekki áhuga eða umhyggju.“
Í samantektarkafla sálfræðiskýrslunnar segir að A sé hrædd og óörugg í samskiptum og verji sig með því að loka á aðstæður sem gætu berskjaldað tilfinningalíf hennar. Hún sé fámál, ómannblendin og áhyggjufull í fasi. Síðan segir: „Henni er mjög umhugað um að styggja ekki föður sinn eða gera honum illt en sýnir engin merki þess að vilja búa hjá honum eða vera í nánum tengslum við hann. Virðist líða vel að E a.m.k. kvartar hún ekki undan neinu og óskar ekki eftir neinu öðru. Hún virðist vera mikill einstæðingur sem á í erfiðleikum með að treysta fólki og er að öllum líkindum hrædd við höfnun. Hún er hrædd við að opinbera tilfinningar sínar og afgreiðir samskipti og tengsl á rökrænan hátt en blandar aldrei tilfinningum í málið.“ Um B segir að hún sé opnari og skýrari í afstöðu sinni og tengsl hennar við föður séu greinilega ekki náin og fremur á praktísku og röklegu plani fremur en tilfinningalegu. Þá segir einnig: „Afstaða hennar er skýr og afgerandi. Henni líður vel á heimili H og I að E og vill vera þar áfram næstu árin. Hún setur ekki fram neinar hugmyndir um samskipti eða umgengni við föður.“ Sálfræðingurinn bætir því við í skýrslulok að ástæða sé til að ætla að systurnar þurfi báðar sálfræðimeðferð sem hafi það að markmiði meðal annars að hjálpa þeim að skilja eigið tilfinningalíf og að treysta öðru fólki auk þess sem það þurfi að hjálpa þeim að umgangast föður án þess að þær skaðist af því.
Helgi Viborg staðfesti sálfræðiskýrslu sína fyrir dómi. Hann taldi stúlkurnar ekki vera mjög tengdar stefnda. Þær hefðu virst óöruggar gagnvart stefnda og taldi sálfræðingurinn að þær þyrftu hjálp við að ræða við stefnda auk þess sem hann þurfi hugsanlega hjálp við að tala við börn. Var það mat sálfræðingsins að það væri verra fyrir stúlkurnar að stefndi talaði um þetta mál við þær en ef hann gæti látið það vera, hefðu stúlkurnar gott af umgengni við hann. Þá hefði komið fram í viðtölum við stúlkurnar að þeim liði ágætlega að E og að þær væru sáttar við heimilisfólkið þar.
Að kröfu stefnda var Brynjar Emilsson sálfræðingur dómkvaddur hinn 25. apríl sl. til að gera nákvæma skoðun og mat á hæfni stefnda til að fara með forsjá dætra sinna og fleiri atriðum því tengdum. Ræddi sálfræðingurinn við stefnda á heimili sínu en viðtöl hans við A og B fóru fram að E. Kemur fram í framlagðri matsgerð að fyrir stefnda hafi verið lögð fjögur sálfræðipróf til að meta tengsl hans við dætur sínar sem og sjálfsmat hans og persónuleika. Engar áreiðanlegar niðurstöður verði hins vegar lesnar út úr prófunum þar sem stefndi svaraði ekki nægilega mörgum spurningum þeirra til þess að á þeim væri byggjandi. Hafi virst sem stefndi væri tortrygginn og vildi því ekki svara hreinskilnislega og þá hafi hann álitið sumar spurningarnar út í hött.
Um aðstæður á heimili stefnda segir í matsgerðinni að þar hafi verið afar slæmt ástand, fyrst og fremst vegna óþrifnaðar. Þá kemur fram að stefndi sé einangraður og hafi ekkert samband við fjölskyldu sína eða við annað fólk yfirleitt. Þá efast matsmaður um að stefndi geti séð fyrir dætrum sínum og telur útskýringar stefnda á ýmsum atriðum ótrúverðugar. Skilningur stefnda á þörfum dætra sinna sé að sumu leyti í lagi en að öðru leyti ekki. Þannig velti stefndi fyrir sér hvernig manngerðir þær séu en hafi hins vegar lítið gert til að styðja þær í samskiptum við aðra og hafi hann meira og minna einangrað þær frá fjölskyldu sinni. Er það mat matsmannsins að stefndi hafi takmarkaðan skilning á þörfum dætra sinna og takmarkaða getu til að sinna þörfum þeirra og þá séu tengsl þeirra ekki sterk.
Um samvinnu stefnda við félagsmálayfirvöld í Kópavogi segir að stefndi virðist sjá óvin í hverju horni og sé sama um hvern hann ræði en hann sjái samsæri gegn sér bæði hjá félasgmálayfirvöldum og lögreglu. Ekki verði séð að hann telji sig bera nokkra ábyrgð á samskiptum sínum við aðra.
Í matsgerðinni er því lýst að matsmaður hafi rætt við H, fósturmóður stúlknanna að E, og hafi hún sagt stúlkurnar hafa verið í ójafnvægi þegar þær komu til hennar, óþrifalegar og óviljugar til að leggja sitt af mörkum á heimilinu, en nú gengi þeim vel og væru orðnar samrýndar. Hafi H jafnframt lýst því að stefndi mætti hringja í stúlkurnar á miðvikudögum en það hafi hann ekki gert.
Um viðtal sitt við B segir matsmaður að hún hafi virst ánægð á heimilinu að E, gangi vel í skóla og eigi þar vini. Komið hafi fram hjá stúlkunni að henni hafi ekki liðið eins vel hjá stefnda og að stundum hafi ekki verið til matur fyrir þær systurnar. Heimili þeirra hjá stefnda hafi verið mjög skítugt og þar hafi hvorki verið þrifið né tekið til. Hefði B lýst því að henni hefði leiðst mikið hjá stefnda en samband þeirra við fjölskylduna hafi verið lítið sem ekkert.
Matsmaður lýsir því í matsgerðinni að nokkuð hafi borið á vörnum í svörum A við spurningum hans en hún hafi ekki virst vilja svara spurningum um tengsl sín við stefnda. Hefði hún lýst því að sér liði ágætlega eins og áður hjá stefnda en hún eigi þó fleiri vini í skólanum nú en áður. Aðspurð hafi stúlkan sagt að alltaf hafi verið nóg að borða hjá stefnda og þá hafi hún ekki talið neitt athugavert við þrifnað á heimilinu.
Fram kemur í matsgerðinni að stefndi hafi verulega skerta heimsmynd og mistúlki fyrirætlanir fólks á þann hátt að það sé á móti honum og sé viljandi ósanngjarnt. Þetta hafi áhrif á öll samskipti hans og hæfni sem uppalanda og geti þess konar umhverfi haft skaðleg áhrif á uppeldi barna. Þá hafi stefndi einangrað dætur sínar frá öðrum fjölskyldumeðlimum sem sé í samræmi við þær hugmyndir hans um að heimurinn sé hættulegur og fólk sé á móti honum.
Um forsjárhæfni stefnda segir svo í lok matsgerðarinnar: „Ljóst er að X mun ekki vera til samvinnu við félagsmálayfirvöld í Kópavogi og hefur hann lítinn sveigjanleika, hefur fastmótuð neikvæð viðhorf til fólks og líklegast á hann eftir að einangra þær ennþá meira. Ber hann greinilega hag þeirra fyrir brjósti, vill þeim vel og talar hlýlega um þær. Hann virðist aftur á móti ekki hafa getu til að fylgja góðum hug eftir. Stúlkurnar eru vel aðlagaðar í núverandi vistunarúrræði og líðum báðum vel þar. Þeim kemur betur saman og eru báðar virkar og eiga vinkonur. Undirritaður telur að núverandi aðstæður gefi þeim tækifæri á að umgangast fjölskyldu og vini og að þær verði styrktar til meira sjálfsöryggis og vellíðunar. Niðurstöður eru því skýrar með að hæfni X til að fara með forsjá dætra sinna er verulega skert og mælt er með áframhaldandi veru þeirra í núverandi vistunarúrræði.“
Brynjar Emilsson staðfesti matsgerð sína fyrir dómi. Hann kvað stefnda ekki vera með alvarlega geðveiki en hins vegar hefði hann haft aðsóknarhugmyndir að því er varðar afskipti barnaverndaryfirvalda af honum.
II.
Forsjársviptingarkrafa stefnanda byggist á meginreglu 1. og 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um að foreldrum beri að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Barnaverndaryfirvöldum sé falið það verkefni að tryggja að börn sem búi við óviðunandi aðstæður fái nauðsynlega aðstoð, en leitast skuli við að ná því markmiði með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Barnaverndarstarf skuli stuðla að stöðugleika í uppvexti barna þar sem tekið sé tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur og þroski gefa tilefni til. Stefnandi vísar til þess að málefni dætra stefnda hafi verið til meðferðar hjá stefnanda allt frá árslokum 2001 en á þeim tíma hafi stefndi brugðist mikilvægum forsjár- og uppeldisskyldum sínum gagnvart stúlkunum. Til þess að tryggja viðunandi aðbúnað og öryggi stúlknanna á heimili stefnda þurfi til að koma eftirlit, stuðningur og ráðgjöf starfsmanna stefnanda en allar tilraunir þeirra til þess að leiðbeina stefnda og fá hann til samstarfs hafi verið árangurslausar. Ljóst sé af forsögu málsins að stefnandi hafi reynt til þrautar að finna viðunandi og síður íþyngjandi úrræði til lausnar á alvarlegum og langvarandi vandamálum stefnda og dætra hans, í samráði og samvinnu við hann. Stefndi líti hins vegar á afskipti barnaverndaryfirvalda sem ofsóknir og því hafi hann ekki tekið á vanda sínum.
Um lagarök vísar stefnandi til ákvæða a, c og d liða 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og ákvæða 1., 2. og 4. gr. og III., VI. og VIII. kafla sömu laga. Um málsmeðferð vísar stefnandi til ákvæða X. kafla barnaverndarlaga. Krafan um málskostnað er byggð á ákvæðum 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 129. gr. sömu laga.
III.
Stefndi byggir kröfur sínar á því að ekki hafi verið reynt til þrautar að styrkja hann í uppeldishlutverkinu eins og beri að gera, sbr. ákvæði 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ekkert bendi til þess að uppeldi þeirra A og B hafi verið ábótavant en þá hluti sem gera megi athugasemdir við, megi auðveldlega laga. Einnig sé til þess að líta að ekki liggi fyrir með ótvíræðum hætti hver sé vilji stúlknanna að því er varðar búsetu þeirra til framtíðar auk þess sem þeim sé ókunnugt um þá möguleika sem fyrir hendi séu. Loks bendir stefndi á að það sé varhugavert að vista stúlkurnar á stað sem leiði til þess að samskipti þeirra við fjölskyldu og vini verði lítil sem engin og þá sé hætta á að það slitni upp úr samskiptum stúlknanna við vinkonur í Reykjavík og Kópavogi.
Um lagarök vísar stefndi til ákvæða 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, aðallega 129. og 130. gr.
IV.
Samkvæmt 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 skulu barnaverndaryfirvöld eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þá skulu þau jafnframt ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Skal því aðeins gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.
Eins og rakið er hér að framan og ráðið verður af gögnum málsins, hefur stefnandi gert fjölmargar tilraunir til að fá stefnda á sinn fund og til samstarfs um uppeldi og aðbúnað dætra hans en oftast án árangurs. Þegar litið er til gagna málsins og vættis J og K, starfsmanna stefnanda, fyrir dómi er ljóst að stefndi hefur ekki verið til samstarfs við yfirvöld. Er komið fram að ítrekað hefur verið haft samband við barnaverndaryfirvöld og lýst áhyggjum af velferð stúlknanna og þá liggur fyrir að stefndi hefur ítrekað fært stúlkurnar á milli skólahverfa auk þess sem þær sóttu ekki skóla um nokkurra mánaða skeið án skýringa af stefnda hálfu. Af því sem fyrr er rakið og gögnum málsins liggur fyrir að barnaverndaryfirvöld hafa tvisvar nýtt það úrræði að vista stúlkurnar tímabundið utan heimilis auk þess sem stefndi hefur verið margboðaður á fundi til að ræða samstarf um mál dætra sinna. Þá kemur fram í gögnum málsins að tvisvar sinnum hefur málum fjölskyldunnar verið lokað og afskiptum af henni hætt þegar ástandið var talið viðunandi. Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á það með stefnda að barnaverndaryfirvöld hafi ekki reynt til þrautar að styrkja hann í foreldrahlutverkinu og neyta vægari úrræða.
Um aðbúnað á heimili stefnda eru lýsingar í greinargerðum starfsmanna stefnanda, í lögregluskýrslu frá 7. október 2005, í skýrslu heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá sama degi og í matsgerð Brynjars Emilssonar sálfræðings. Eru gögnin öll á sama veg um verulegan sóðaskap og óþrifnað á heimilinu. Er það í samræmi við vætti J og K fyrir dóminum. Stefndi hefur gefið skýringar á ástandi heimilisins sem dóminum þykja benda til þess að hann hafi hvorki innsýn í þarfir dætra sinna né foreldrahlutverk sitt að þessu leyti. Afstaða stefnda til umhverfisins einkennist af verulegri tortryggni og neikvæðum viðhorfum. Ætla má að það leiði til einangrunar og árekstra sem óhjákvæmilega hafi áhrif á félagslegar aðstæður dætranna, viðhorf þeirra og líðan. Draga má þá ályktun að tortryggni, neikvæð viðhorf í garð stuðningsaðila og skert tilfinning fyrir þrifnaði og heimilishaldi samræmist illa þörfum stúlkna á viðkvæmu mótunarskeiði og stefndi geti ekki talist þeim sá stuðningur og fyrirmynd sem æskilegt verður að teljast. Í ljósi framanritaðs er það niðurstaða dómsins að stefnda hafi ekki tekist að búa dætrum sínum viðunandi uppeldisaðstæður á undanförnum árum þótt ekki verði efast um að það hafi hann þó viljað, sbr. það sem fram kemur í framlagðri matsgerð Brynjars Emilssonar sálfræðings um að stefndi virðist ekki hafa getu til að fylgja góðum hug eftir. Barnaverndaryfirvöldum ber að tryggja viðunandi aðbúnað og öryggi stúlknanna en eins og fram er komið hefur stefndi ekki verið til neins samstarfs við yfirvöld. Þá liggur ekki fyrir hvar stefndi mun búa í framtíðinni en við aðalmeðferð málsins kvaðst hann fljótlega myndu flytja í íbúð í L en var ófáanlegur til að upplýsa um nákvæmari staðsetningu hennar.
Af framlögðum skýrslum sálfræðinga verður ráðið að tengsl stefnda og dætra hans eru ekki náin en þó virðist sem eldri stúlkan hafi haft sterkari tengsl við föður sinn en sú yngri. Þá lýsti matsmaður því í framlagðri matsgerð að það gæti haft skaðleg áhrif á andlega heilsu stúlknanna og stuðla að einangrun þeirra frá öðru fólki að vera í umsjá stefnda. Eins og rakið er hér að framan kemur fram í sálfræðiskýrslum og matsgerð að stúlkunum líður vel þar sem þær eru nú vistaðar að E og gengur vel í skóla. Hafa sálfræðingarnir Helgi Viborg og Brynjar Emilsson ítrekað þá niðurstöðu hér fyrir dóminum og fær hún jafnframt stuðning í öðrum gögnum málsins og vætti vitnanna J og K, starfsmanna stefnanda, og H, fósturmóður stúlknanna á E. Af vætti vitna verður ráðið að stúlkurnar hafa tekið sýnilegum framförum tilfinningalega og félagslega frá því að þær voru vistaðar utan heimilis stefnda. Þá kemur fram í gögnunum að stúlkurnar hafa ekki sett fram ákveðnar óskir um að núverandi vistun þeirra verði breytt og er það í samræmi við það sem fram kom í viðtali dómenda málsins við stúlkurnar 29. ágúst sl.
Með vísan til framanritaðs og gagna málsins, einkum þess sem fram kemur í matsgerð dómkvadds matsmanns um að hæfni stefnda til að fara með forsjá dætra sinna sé verulega skert og því sé mælt með því að stúlkurnar verði áfram í núverandi vistunarúrræði, og með hliðsjón af því sem liggur fyrir um hagi stefnda, verður að telja fyllilega í ljós leitt að skilyrðum fyrir forsjársviptingu samkvæmt a og d liðum 29. gr. barnaverndarlaga sé fullnægt, svo og að önnur og vægari úrræði komi ekki að haldi. Er það því niðurstaða dómsins að þarfir og hagsmunir dætra stefnda krefjist þess að stefndi verði sviptur forsjá þeirra.
Samkvæmt framansögðu er krafa stefnanda tekin til greina.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hans að meðtöldum virðisaukaskatti, annars vegar Hilmars Baldurssonar hdl., 498.000 krónur, og hins vegar Þorbjargar Ingu Jónsdóttur hrl., 824.377 krónur, auk útlagðs kostnaðar að fjárhæð 233.300 krónur.
Dóminn kveða upp Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari og sálfræðingarnir Sæmundur Hafsteinsson og Haukur Haraldsson.
D ó m s o r ð :
Stefndi, X, er sviptur forsjá dætra sinna, A og B.
Málskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna hans, Hilmars Baldurssonar hdl., 498.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og Þorbjargar Ingu Jónsdóttur hrl., 824.377 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagður kostnaður að fjárhæð 233.300 krónur.