Hæstiréttur íslands
Mál nr. 382/2015
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Óvenjulegur greiðslueyrir
- Endurgreiðsla
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. júní 2015. Hann krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um riftun greiðslu sinnar á 1.043.621.412 krónum til gagnáfrýjanda, en gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 960.068.761 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 5. júní 2015. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfum aðaláfrýjanda, en að því frágengnu að hafnað verði kröfu aðaláfrýjanda um greiðslu eða fjárhæð hennar lækkuð. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Málið á rætur að rekja til þess að aðaláfrýjandi, sem þá hét Saga Capital Fjárfestingarbanki hf., gaf út skuldabréf 29. janúar 2010 til gagnáfrýjanda að fjárhæð 1.560.000.000 krónur sem taka átti breytingum eftir vísitölu neysluverðs frá nóvember 2009. Átti skuldin að bera 13% ársvexti frá 31. október 2009 og skyldu þeir greiðast árlega, en standa átti skil á höfuðstól skuldarinnar og lokagreiðslu vaxta í einu lagi 31. október 2015. Aðaláfrýjanda var þó heimilað hvenær sem er á lánstímanum greiða upp skuldina að hluta eða öllu leyti að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Í skuldabréfinu var kveðið á um að krafa samkvæmt því skyldi víkja fyrir öðrum skuldum aðaláfrýjanda, en við slit á honum eða gjaldþrotaskipti á búi hans nyti krafan stöðu í réttindaröð eftir 4. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Aðilarnir gerðu samning 6. desember 2010 um kaup gagnáfrýjanda á kröfum í eigu aðaláfrýjanda samkvæmt sex nánar tilgreindum lánssamningum. Í samningnum kom fram að samanlögð fjárhæð þessara krafna væri 1.746.245.864 krónur, en kaupverð þeirra, 1.043.621.412 krónur, skyldi „innt af hendi með niðurfærslu á víkjandi kröfu kaupanda á hendur seljanda“ samkvæmt framangreindu skuldabréfi. Uppgjör á þessum kaupum átti að miða við 1. júlí 2010 og verja 83.552.651 krónu af kaupverðinu til að greiða áfallna vexti, en mismuninum, 960.068.761 krónu, átti að ráðstafa sem innborgun á höfuðstól skuldabréfsins með áföllnum verðbótum. Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. maí 2012 var aðaláfrýjandi tekinn til slita eftir ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í málinu leitar hann riftunar á greiðslu sinni til gagnáfrýjanda samkvæmt samningnum frá 6. desember 2010, svo og endurheimtu á fjárhæðinni sem gekk inn á höfuðstól skuldarinnar, 960.068.761 krónu. Krafa um riftun er aðallega reist á 134. gr., en til vara 141. gr. laga nr. 21/1991.
Samkvæmt skrá, sem slitastjórn aðaláfrýjanda lagði fram á kröfuhafafundi 16. ágúst 2012, nam heildarfjárhæð lýstra krafna á hendur honum 2.297.813.055 krónum, en meðal þeirra voru eftirstöðvar kröfu gagnáfrýjanda samkvæmt skuldabréfinu frá 29. janúar 2010, 876.803.883 krónur. Í yfirliti slitastjórnar 27. febrúar 2014 kom meðal annars fram að heildareignir aðaláfrýjanda hafi á því tímamarki numið 228.500.000 krónum. Þótt slitastjórn hafi eftir gögnum málsins ekki enn tekið afstöðu til allra lýstra krafna eru ekki í þessu ljósi efni til að hnekkja því mati slitastjórnar, sem kom meðal annars fram á fyrrnefndum kröfuhafafundi 16. ágúst 2012, að það yrði að „teljast afar ólíklegt“ að eignir aðaláfrýjanda kæmu til með að nægja fyrir skuldbindingum hans. Að þessu virtu verður að hafna aðalkröfu gagnáfrýjanda um að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en fyrir henni hafa ekki að öðru leyti verið færð haldbær rök.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að rifta greiðslu aðaláfrýjanda til gagnáfrýjanda 6. desember 2010 á 1.043.621.412 krónum, sbr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Fyrir Hæstarétti hefur gagnáfrýjandi fallið frá varakröfu, sem hann gerði í héraði, um að mælt yrði fyrir í dómi um heimild hans til að standa aðaláfrýjanda skil á endurgreiðslu vegna riftunar með því að afhenda honum á ný kröfuréttindin sem gagnáfrýjandi fékk með samningnum 6. desember 2010, sbr. 144. gr. laga nr. 21/1991. Stendur því eftir krafa gagnáfrýjanda um að kröfu aðaláfrýjanda um endurgreiðslu verði hafnað eða fjárhæð hennar lækkuð. Um þessa kröfu hefur gagnáfrýjandi einkum vísað til þess að hann hafi fram að flutningi málsins hér fyrir dómi fengið greiddar samtals 220.871.512 krónur af kröfum samkvæmt lánssamningunum, sem samningur aðilanna 6. desember 2010 tók til, en að öðru leyti hafi ekki verið unnt að innheimta þessar kröfur, meðal annars vegna gjaldþrotaskipta á búum skuldara, og hafi þær verið afskrifaðar. Um þessar röksemdir gagnáfrýjanda verður að gæta að því að í samningnum 6. desember 2010 sagði meðal annars eftirfarandi: „Hvorki liggur fyrir markaðsverð lánssamninganna eða víkjandi skuldabréfsins sem endurgjalds. Kaupverð lánssamninganna er í samræmi við bókfært virði seljanda á lánunum samkvæmt reikningum seljanda sem endurskoðaðir hafa verið af endurskoðanda hans. Kaupandi lýsir því yfir að ... honum er ljóst að staða þeirra fyrirtækja sem eru útgefendur og greiðendur af ofangreindum lánssamningum er ótrygg, að mikil óvissa er um hvort heimtur verði í samræmi við kaupverð lánssamninga og jafnvel lögmæti samninganna sem lánssamninga í erlendum myntum. Kaupandi lýsir því yfir að hann mun sjálfur bera alla þá áhættu sem af þessu leiðir og metur áhættuna ásættanlega í ljósi kaupverðs lánssamninganna, sem reitt er af hendi í formi lækkunar á víkjandi kröfu kaupanda á hendur seljanda.“ Líta verður svo á að gagnáfrýjandi hafi með þessum samningsákvæðum gengist undir að líta mætti svo á að kröfuréttindin að nafnvirði samtals 1.746.245.864 krónur, sem hann fékk afhent, kæmu honum í skilningi 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að notum sem greiðsla á 1.043.621.412 krónum. Þá verður einnig að miða við að aðaláfrýjandi hafi með framsali þessara kröfuréttinda farið á mis við tilkall til greiðslu á sömu fjárhæð og orðið þannig fyrir tjóni sem því svarar. Í málinu liggja aðeins fyrir yfirlýsingar gagnáfrýjanda um hvað hann hafi fengið greitt af þessum kröfum og hefur ekkert verið lagt fram til skýringar á því að þær séu að öðru leyti verðlausar eða af hvaða ástæðu svo sé. Óhjákvæmilegt er að gagnáfrýjandi verði látinn bera halla af því og verður hann af þeim sökum dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 960.068.761 krónu. Samkvæmt gögnum málsins beindi aðaláfrýjandi yfirlýsingu um riftun og fjárkröfu af því tilefni til gagnáfrýjanda fyrst með bréfi 25. september 2013. Með því að málið var höfðað innan mánaðar frá þeim degi með ódagsettri yfirlýsingu gagnáfrýjanda á héraðsdómsstefnu um birtingu hennar verður að dæma dráttarvexti af kröfu aðaláfrýjanda frá þingfestingardegi málsins í héraði, svo sem í dómsorði greinir, sbr. 3. og 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Gagnáfrýjanda verður gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um riftun á greiðslu aðaláfrýjanda, Saga Capital hf., til gagnáfrýjanda, Hildu ehf., 6. desember 2010 á 1.043.621.412 krónum.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 960.068.761 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. október 2013 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 22. maí 2015.
Mál þetta er höfðað 10. október 2013 og var dómtekið 27. mars sl.
Stefnandi er Saga Capital hf. Hafnarstræti 91, Akureyri. Stefnda er Hilda ehf., Kalkofnsvegi 1, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda í málinu eru þær að staðfest verði með dómi riftun greiðslu skuldar stefnanda til stefndu að fjárhæð 1.043.621.412 krónur og að stefnda verði dæmd til að endurgreiða stefnanda 960.068.761 krónu ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2010. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefnda krefst þess að verða sýknuð af öllum kröfum stefnanda.
Til vara krefst stefnda þess að viðurkennt verði að sér sé heimilt að skila stefnanda kröfum á hendur Gufunes Holding ehf., Íslenska gámafélaginu ehf. og Við Eyrarbakka ehf. í samræmi við ákvæði 144. gr. laga nr. 21/1991.
Til þrautavara krefst stefnda þess að endurgreiðslukröfu stefnanda verði hafnað, eða hún lækkuð verulega.
Í öllum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Kröfu stefndu um frávísun var hafnað með úrskurði 3. desember sl.
I
Stefnandi var tekinn til slitameðferðar með úrskurði upp kveðnum 16. maí 2012. Frestdagur við slitameðferðina er 24. ágúst 2011.
Stefnandi mun hafa skuldað Seðlabanka Íslands (SÍ) tæpa 20 milljarða króna vegna veðlánaviðskipta við setningu svokallaðra neyðarlaga haustið 2008. Mun skuldin hafa stofnast þannig að stefnandi tók lán hjá SÍ og keypti skuldabréf útgefin af Glitni hf. og Kaupþingi hf. Veðsetti stefnandi skuldabréfin SÍ til tryggingar lánunum. Við setningu svokallaðra neyðarlaga haustið 2008 rýrnaði verðmæti veðanna umtalsvert og stóð stefnandi frammi fyrir því að þurfa að setja viðbótartryggingar.
Krafa SÍ á hendur stefnanda mun hafa verið framseld íslenska ríkinu í árslok 2008.
Stefnandi segir að í byrjun febrúar árið 2009 hafi SÍ lagt til að veðlánunum yrði skuldbreytt í verðtryggt lán til 7 ára á 2% vöxtum. Mánuði síðar, 16. mars 2009, hafi verið gerðir tveir lánasamningar til skuldbreytingar. Heildarfjárhæð þeirra hafi verið 19.668.664.668 krónur. Lánin hafi verið til sjö ára og átt að endurgreiðast með fimm jöfnum afborgunum, fyrst 27. desember 2011 og síðast 27. desember 2015. Vextir skyldu greiðast árlega í lok árs.
Stefnandi segir að viku eftir að þetta samkomulag var gert hafi komið fram efasemdir hjá Fjármálaeftirlitinu um að stefnanda væri heimilt að færa eigið fé vegna tekjufærslu í kjölfar samkomulagsins sem lögbundið eigið fé. Hafi stefnandi byrjað aftur viðræður við fjármálaráðuneytið í lok mars um mögulega uppgreiðslu á skuldinni og/eða breytingu á henni í víkjandi kröfu eða hlutafé. Gert hafi verið samkomulag 11. september 2009. Samkvæmt því hafi verið stofnað nýtt félag, Saga eignarhaldsfélag, sem yrði móðurfélag stefnanda. Hafi félagið átt að taka yfir skuld stefnanda og fá sem endurgjald eignir að verðmæti 14,1 milljarð króna, m.a. allar þær eignir sem hefðu verið veðsettar til tryggingar skuldinni og allt hlutafé í stefnanda. Fjármálaeftirlitið hafi gert nánar greinda athugasemd við samkomulagið. Vegna þess hafi Sögu eignarhaldsfélagi verið skipt upp og stofnað til stefndu. Stefnda hafi yfirtekið skuld stefnanda við ríkissjóð og fengið sem endurgjald þær eignir sem hefðu verið veðsettar til tryggingar skuldinni, auk tæplega 10% hlutar í stefnanda og víkjandi skuldabréf sem stefnandi hafi gefið út, að fjárhæð tæplega 1,6 milljarðar króna. Saga eignarhaldsfélag hafi eignast 90% hlut í stefnanda, sem hafi verið veðsettur ríkissjóði til tryggingar skuld stefndu við ríkissjóð. Stefnda og Saga eignarhaldsfélag hafi verið í eigu hluthafa í stefnanda. Hafi verið gengið endanlega frá endurskipulagningunni með yfirtöku stefndu á skuldinni við ríkissjóð þann 23. febrúar 2010.
II
Stefnandi gaf þann 29. janúar 2009 út framannefnt víkjandi skuldabréf til stefndu, að fjárhæð 1.560.000.000 krónur, vísitölutryggt og með 13% ársvöxtum, sem áttu að greiðast árlega. Greiða átti skuldabréfið upp 31. október 2015, en ákvæði er í því um heimild til framlengingar, til 31. október 2020. Ákvæði er í skuldabréfinu um að við slit eða gjaldþrot stefnanda greiðist það á eftir öllum almennum kröfum og eftirstæðum kröfum samkvæmt nánar greindum ákvæðum laga nr. 21/1991, öðrum en kröfum um endurgreiðslu hlutafjár. Þá er tekið fram að óheimilt sé að greiða af láninu eða greiða af því vexti ef eiginfjárkrafa útgefanda sé undir lágmarkskröfu samkvæmt 1. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002, eða greiðsla valdi því að hún fari undir það lágmark.
Stefnandi segir skuldina hafa verið sér íþyngjandi í rekstri. Stefnda tekur fram að hinn 12. júní 2010 hafi verið sett lög nr. 75/2010 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hafi m.a. verið breytt reglum um útreikning eigin fjár fjármálafyrirtækja. Fyrir stefnanda hafi breytingarnar þýtt að eigið fé stefnanda hafi lækkað um 1.875 milljónir króna í einu vetfangi, forsendur sem hafi verið gengið út frá við endurskipulagningu hans hafi brostið að töluverðu leyti og stærstu áhættuskuldbindingar hans sem hlutfall af eiginfjárgrunni hafi farið yfir leyfileg mörk.
Hafi hann óskað eftir heimild Fjármálaeftirlitsins til að greiða inn á víkjandi lánið frá stefnda, með kröfum sem honum hafi í raun verið óheimilt að eiga. Var heimildin veitt þann 2. desember 2011.
Með samningi aðila 6. desember 2010 greiddi stefnandi 1.043.621.412 krónur inn á víkjandi lánið með framsali nánar greindra sex krafna til stefndu. Segir í samningnum að uppgjör miðist við 1. júlí 2010 og að verðbótum og vöxtum greiddum greiðist inn á höfuðstól 918.806.567 krónur. Segir einnig í samningnum að fyrir liggi samþykki Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. og Fjármálaeftirlitsins.
Er hér um að ræða þá greiðslu sem stefnandi krefst að verði rift, að því er tekur til greiðslu inn á höfuðstól skuldarinnar.
Þann 21. september 2011 óskaði stefnandi eftir heimild til nauðasamningsumleitana. Hljóðaði frumvarpið um lágmarksgreiðslu að fjárhæð 11.000.000 króna, 1% af skuldum yrði breytt í hlutafé og 99% yrðu greiddar með skuldabréfi, sem yrði greitt að fullu í júní 2012. Víkjandi láninu yrði breytt í hlutafé, sem nyti forgangs til arðgreiðslna. Í greinargerð með frumvarpinu var tekið fram að í árslok 2010 hefði bókfært eigið fé stefnanda numið 823 milljónum króna. Eignir væru metnar á 1,7 milljarða króna, en ótryggðar almennar skuldir væru um 817 milljónir króna, auk venjulegra viðskiptakrafna. Ekki væri talið að ráðstafanir undanfarna mánuði kynnu að vera riftanlegar. Fallið var frá þessum nauðasamningsumleitunum.
Bú stefnanda var tekið til slitameðferðar 16. maí 2012 eins og áður segir, að kröfu Fjármálaeftirlitsins, sem hafði þann 28. september 2011 svipt stefnanda starfsleyfi sem fjárfestingarbanki.
III
Stefnandi vísar til 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, þar sem segir að ef ekki sé sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti, en málshöfðunarfrestur sé þó 30 mánuðir. Kveðst hann telja að almenn skilyrði riftunar séu fyrir hendi. Aukist möguleikar kröfuhafa á að fá fullnustu krafna, ef riftun nái fram að ganga, og einnig sé ljóst að greiðslan til stefndu hafi ekki verið í samræmi við greiðslur til annarra kröfuhafa og því leitt til mismununar milli kröfuhafa.
Stefnandi kveðst byggja á því að greiðsla inn á víkjandi lánið sé riftanleg með vísan til 1. mgr. og 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991.
Stefnandi kveður í fyrsta lagi vera uppfyllt skilyrði um að greidd hafi verið skuld. Sé bersýnilegt að greidd hafi verið skuld sem hafi stofnast milli aðila áður en greiðslan var innt af hendi og hún gengið til lækkunar á skuldinni.
Þá hafi greiðslan verið innt af hendi á síðustu 24 mánuðum fyrir frestdag. Samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 megi krefjast riftunar greiðslu samkvæmt 1. mgr., ef hún sé innt af hendi til nákominna sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag, nema leitt sé í ljós að þrotamaður hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna. Aðilar séu nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Stefnda hafi verið stofnað af Saga eignarhaldsfélagi, sem hafi verið stofnað af stefnanda. Stefnda og móðurfélag stefnanda, Saga eignarhaldsfélag, hafi verið í eigu sömu aðila og að auki hafi stefnda átt 10% hlut í stefnanda. Aðilar málsins hafi hvor um sig lotið sömu 5 manna stjórn og áheyrnarfulltrúi, skipaður af Eignasafni SÍ hafi átt rétt til setu á stjórnarfundum beggja. Framkvæmdastjóri stefndu hafi auk þess verið framkvæmdastjóri áhættustýringar stefnanda. Greiðslan hafi verið innt af hendi 6. desember 2010 og frestdagur við skiptin sé 24. ágúst 2011. Skilyrði um tímamark sé því uppfyllt.
Greitt hafi verið fyrr en eðlilegt hafi verið. Gjalddagi höfuðstóls hafi verið 31. október 2015. Hafi því verið greitt tæpum fimm árum fyrir gjalddaga.
Þá hafi greiðslan skert greiðslugetu stefnanda verulega. Eigið fé hans hafi í lok árs 2010 verið talið nema um 800.000.000 króna. Megi nærri geta að greiðsla skuldar að fjárhæð 1.043.621.412 hafi verið til þess fallin að skerða greiðslugetu stefnanda verulega.
Enn fremur hafi verið greitt með óvenjulegum greiðslueyri. Megi hér vísa til langvarandi dómvenju og óumdeildrar túlkunar 134. gr. laga nr. 21/1991. Venjulegur greiðslueyrir sé almennt peningar. Greiðsla með lánasamningum sé hvorki venjuleg almennt séð, né verði séð að slíkir greiðsluhættir hafi áður tíðkast eða verið venjulegir milli aðila.
IV
Stefnandi kveðst einnig byggja riftunarkröfu sína sjálfstætt á 141. gr. laga nr. 21/1991. Greiðslan hafi verið ótilhlýðileg sem slík, m.a. vegna grandsemi stefndu um ógjaldfærni stefnanda, sem hafi verið ógjaldfær þegar hún hafi verið innt af hendi og að stefnda hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni stefnanda þá og þau atvik sem hafi gert að verkum að hún hafi verið ótilhlýðileg.
Um ógjaldfærni kveðst stefnandi vísa til skýrslu Ernst & Young ehf. frá 22. maí 2103, þar sem komi fram það mat endurskoðenda að stefnandi hafi orðið ógjaldfær við fall viðskiptabankanna haustið 2008. Hafi þá þegar verið ljóst að eigið fé stefnanda hafi verið uppurið og hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þá hafi endurskoðendurnir gert viðbótarskýrslu að beiðni stefnanda um þróun gjaldfærni hans frá árslokum 2008 og fram á árið 2011, með sérstakri áherslu á það hvort stefnandi hafi verið gjaldfær í desember 2010, þegar greiðslan til stefndu hafi verið innt af hendi.
Í ljósi tengsla aðila sé ljóst að stefndu hafi verið fullkunnugt um ógjaldfærni stefnanda og þau atvik sem hafi gert það að verkum að greiðslan hafi verið ótilhlýðileg.
V
Stefnandi kveðst reisa kröfu sína um endurgreiðslu á 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að því leyti sem riftunarkrafan sé reist á 134. gr. laganna, en á 3. mgr. 142. gr. að því leyti sem hún sé reist á 141. gr. Kröfufjárhæðin svari til þeirrar fjárhæðar sem hafi komið stefndu að notum til lækkunar á kröfu sinni gagnvart stefnanda, að teknu tilliti til þess sem hafi átt að koma til greiðslu í október 2010. Fjárhæðin sem hafi komið stefndu að notum svari til verðmætis þeirra eigna sem greitt hafi verið með og aðilar hafi verið sammála um hvert væri. Tjón stefnanda nemi verðmæti þeirra eigna sem hafi verið greitt með og séu ekki lengur til staðar til greiðslu til almennra kröfuhafa. Dráttarvaxta sé krafist frá þeim degi sem stefnda hafi notið greiðslunnar, eða frá 1. janúar 2011.
VI
Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að ekki séu uppfyllt skilyrði riftunar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991. Hafi greiðsla til stefndu ekki verið innt af hendi fyrr en eðlilegt hafi verið. Hafi útgefanda verið heimilt að greiða hvenær sem væri inn á skuldina án sérstaks uppgreiðslugjalds, að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Geti ekki talist óeðlilegt að stefnandi hafi viljað nýta þessa heimild, sérstaklega þegar haft sé í huga að lögum um fjármálafyrirtæki hafi verið breytt með þeim afleiðingum að eiginfjárgrunnur stefnanda lækkaði verulega og einstakar áhættuskuldbindingar hækkuðu þannig langt umfram leyfileg mörk.
Þá mótmælir stefnda því að greiðslan hafi skert greiðslugetu stefnanda verulega. Með henni hafi stefnandi haldið eiginfjárhlutfalli sínu í betra horfi en ella og losnað við stærstu áhættuskuldbindingarnar, sem hafi í raun verið ólöglegar eftir fyrrnefnda lagabreytingu. Hefði þess ekki verið langt að bíða að Fjármálaeftirlitið myndi gera athugasemdir og hefja viðurlagaferli, sem hefði vafalítið haft neikvæð áhrif á fjármögnun og þar með greiðslugetu stefnanda. Þá hefðu slík viðurlög haft verulega neikvæð áhrif á verkefnastöðu stefnanda, en hann sem fjárfestingarbanki hafi fengið mest af tekjum sínum í gegnum ráðgjafarverkefni, frekar en með vaxtamun á útlánum, líkt og viðskiptabanki. Með greiðslunni hafi stefnanda verið forðað frá slíkum aðgerðum. Þá sé óumdeilt að greiðslan hafi átt sér stað tæpu ári eftir fjárhagslega endurskipulagningu stefnanda, þar sem öllum skuldum hafi verið skuldskeytt til stefndu. Stefnandi hafi því ekki borið aðrar skuldir en víkjandi lánið, hefðbundnar rekstrarskuldir og skuldir vegna stöðutöku. Greiðsla skuldarinnar hafi því ekki skert greiðslugetu stefnanda, þar sem hann hafi engar aðrar greiðsluskuldbindingar haft. Jafnvel þótt svo yrði talið, eða jafnvel litið svo á að uppgreiðsla samkvæmt uppgreiðsluheimild sem kveðið sé á um í texta skuldabréfs sé óeðlileg, telji stefnda í þriðja lagi ekki skilyrði til að fallast á riftun, þar sem greiðslan hafi verið eðlileg og raunar nauðsynleg, eftir atvikum. Lagabreyting hafi verið helsta ástæða greiðslunnar. Hún hafi haft þau áhrif á efnahagsreikning stefnanda að eiginfjárþáttur A, samkvæmt 5. mgr. 84. gr. laga nr. 181/2002 hafi lækkað um 1.250 milljónir króna og þar með hafi eiginfjárþáttur B lækkað um 825 milljónir króna, þar sem hann megi að hámarki vera 50% af eiginfjárþætti A, sbr. 4. mgr. 84. gr. laganna. Eftir lagabreytinguna hafi þáttur A verið um 890 milljónir króna og því hafi ekki nema 445 milljónir króna af víkjandi láninu nýst sem lögbundið eigið fé. Hefði lagabreytingin ekki verið samþykkt hefði víkjandi lánið nýst sem eigið fé að fjárhæð 1.070 milljónir króna. Lækkun lögbundins eigin fjár hafi einnig leitt til þess að einstakar áhættuskuldbindingar hafi hækkað mikið sem hlutfall af eigin fé. Stærst þeirra hafi verið á Gufunes Holding ehf. og numið tæpum 50% af eiginfjárgrunni stefnanda eftir lagabreytinguna, en samkvæmt 30. gr. laga nr. 161/2002 megi einstök áhættuskuldbinding nema að hámarki 25% af eiginfjárgrunni. Hafi lagabreytingin þannig orðið til þess að ólögmætt ástand hafi skapast hjá stefnanda, sem honum hafi borið að bæta úr, auk þess sem hún hafi valdið því að ein helsta grunnforsendan fyrir víkjandi láninu, sú að hún nýttist sem eigið fé, hafi að mestu verið brostin. Með greiðslunni, sem Fjármálaeftirlitið hafi samþykkt, hafi verið bætt úr þessum atriðum báðum. Eftirstöðvar víkjandi lánsins hafi þannig nýst að mestu sem eigið fé og einstakar áhættuskuldbindingar hafi verið innan lögákveðinna marka eftir greiðsluna. Telur stefnda að að öllu þessu virtu verði að líta svo á að greiðslan hafi verið eðlileg eftir atvikum.
Þá kveðst stefnda hafna því að skilyrði 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 séu uppfyllt. Þótt aðilar hafi verið nákomnir í skilningi 3. gr. laganna, sé því með öllu hafnað að stefnandi hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna greiðslunnar. Stefnandi hafi nýlokið fjárhagslegri endurskipulagningu, þar sem nær öllum skuldum hans hafi verið skuldskeytt til stefndu. Hann hafi því verið sem næst skuldlaus á þeim tíma sem hann hafi greitt inn á hið víkjandi lán og því verið vel greiðslufær á þessu tímabili. Skýrslur Ernst og Young ehf. hafi ekki sönnunargildi um þetta. Séu þær skýrslur ,,hlutdrægra sérfræðinga stefnanda“, sem uppfylli ekki kröfur IX. kafla laga nr. 91/1991 og fjalli auk þess um eiginfjárkröfur samkvæmt lögum nr. 161/2002, en ekki greiðslugetu í skilningi laga nr. 21/1991. Þá kveðst stefnda benda á framangreint nauðasamningsfrumvarp, þar sem fram komi að í september 2011, 10 mánuðum eftir greiðsluna, að eignastaða stefnanda sé jákvæð og þar sé fullyrt að hægt sé að greiða allar kröfur kröfuhafa. Sé þetta í samræmi við skrá um kröfuhafa í slitabú stefnanda, þar sem komi fram að allir kröfuhafar fái greitt að fullu. Enn megi benda á málflutning stefnanda sjálfs við meðferð kröfu um slitameðferð, þar sem hann hafi haldið því fram að ekki væri nauðsyn á henni vegna hagsmuna kröfuhafa og að stefnandi væri gjaldfær. Hann hafi því verið gjaldfær í desember 2010 og sé því ekki heimilt að rifta greiðslunni á grundvelli 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Beri því að sýkna stefndu.
VII
Stefnda kveðst mótmæla því að skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun séu uppfyllt. Kveðst stefnda vísa til umfjöllunar sinnar í næsta kafla hér að framan, en einnig benda á að stefnandi byggi hér á einhliða mati Ernst & Young ehf., sem eins og áður segi hafi ekki sönnunargildi. Kveðst stefnda hafna því alfarið að greiðslan hafi verið sér til hagsbóta eða verið ótilhlýðileg. Stefnanda hafi verið nauðsynlegt að grípa til ráðstafana vegna þeirra lána sem hafi verið framseld stefndu, þar sem þau hafi verið of há miðað við eiginfjárgrunn eins og að framan greinir. Hefði stefnandi ella þurft að þola sektir, sbr. 110. gr. laga nr. 161/2002, auk þess sem brot á reglum hefðu getað leitt til fangelsisrefsingar fyrir stjórnendur, sbr. 112. gr. b sömu laga. Hefði því verið ótilhlýðilegt að ráðstafa þessum lánum ekki til stefndu. Hafi greiðslan verið samþykkt af Fjármálaeftirlitinu, sem hafi gefið báðum aðilum væntingar um að hún væri eðlileg, í samræmi við lög og hefði góð áhrif á eiginfjárstöðu stefnanda.
Þá sé bent á að til að riftun nái fram að ganga á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 þurfi ráðstöfun að hafa verið stefndu til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og að hafa leitt til þess að eignir yrðu ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum. Eins og rakið hafi verið séu engir aðrir kröfuhafar í slitameðferð stefnanda sem ekki fái að fullu greitt. Hafi greiðslan því síður en svo mismunað kröfuhöfum.
Þá sé ítrekað að ósannað sé að stefnandi hafi verið ógjaldfær. Hafi útreikningar á eigin fé ekkert að gera með sönnun á ógjaldfærni. Stefnandi hafi farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og henni hafi lokið með samkomulagi 13. nóvember 2009. Kveðst stefnda telja að Fjármálaeftirlitið hefði ekki samþykkt hana nema vegna þess að það hafi talið að með henni væri rekstrarhæfi og gjaldfærni stefnanda tryggt til framtíðar. Hafi það enda komið á daginn og eigi stefnandi nægar eignir til að gera upp almennar kröfur. Eigi það ekki að koma á óvart, enda hafi bú hans verið tekið til slitameðferðar vegna þess að hann hafi misst starfsleyfi, en ekki vegna þess að hann væri ógjaldfær. Öll þessi atriði geri það að verkum að stefnda hafi ekki vitað, eða mátt vita, um ógjaldfærni stefnanda er greitt var. Verði greiðslunni því ekki rift á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991.
VIII
Stefnda krefst þess, verði fallist á riftun að einhverju leyti eða öllu, að fá að skila greiðslum í samræmi við ákvæði 144. gr. laga nr. 21/1991. Stefnda hafi fengið framseldar kröfur á þrjú tiltekin félög og sé ekkert því til fyrirstöðu að þær verði framseldar stefnanda. Kröfur á hendur Við Eyrarbakka ehf. og Íslenska gámafélaginu ehf. hafi ,,farið í gegnum endurskipulagningu“, en stefnanda hafi verið kunnugt um þær aðgerðir, enda sé upplýst um nauðsyn þeirra í samningi aðila. Þriðja félagið, Gufunes Holding ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Virði krafnanna sé af þessum sökum hið sama og þegar stefnda hafi fengið þær framseldar, en rýrnun á verðmæti þeirra hafi átt sér stað löngu áður en stefnda hafi fengið þær í hendur. Hafi rýrnun átt sér stað eftir framsal sé hún ekki á ábyrgð stefndu eða vegna saknæmra eða ólögmætra athafna hennar.
IX
Þá er þess krafist, verði að einhverju leyti fallist á riftun, að endurgreiðslukröfum stefnanda verði hafnað eða þær lækkaðar verulega. Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 skuli sá sem hefur hag af riftanlegri ráðstöfun samkvæmt 131. gr. – 138. gr. laganna greiða þrotabúinu fé sem greiðsla þrotamannsins hafi orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en nemi tjóni þrotabúsins. Kveður stefnda greiðsluna ekki hafa komið sér að notum eða að það hafi auðgast vegna hennar. Heimtur stefndu af lánasamningunum séu með öllu óvissar, en ljóst að verðmætin séu hvergi nálægt stefnufjárhæð málsins. Sé engin auðgun fólgin í því að lækka kröfur á hendur stefnanda gegn því að fá í staðinn óvissar kröfur á hendur öðrum. Að sama skapi sé tjón stefnanda ósannað. Telji stefnda hann hafa hagnast mjög á viðskiptunum. Hann hafi sloppið undan sektargreiðslum, sem Fjármálaeftirlitið hefði hugsanlega lagt á hann, eiginfjárgrunnur hans hafi hækkað og ósannað sé að kröfur sem framseldar voru hafi verið 960.068.781 krónu virði. Yrði fallist á endurgreiðslukröfu stefnanda sé ljóst að hann myndi njóta óeðlilegrar auðgunar á kostnað stefndu.
Með sömu rökum kveðst stefnandi hafna öllum bótagreiðslum samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laganna.
Þá sé dráttarvaxtakröfu sérstaklega mótmælt. Sé ósamræmi milli kröfugerðar hans um þá vexti og reifunar í málsástæðum. Megi fyrst dæma dráttarvexti frá þingfestingardegi, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
X
Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur Haukur C. Benediktsson, stjórnarformaður stefndu og vitnið Hersir Sigurgeirsson. Með dómi Hæstaréttar Íslands 9. mars sl. var hafnað kröfu stefnanda um að leiða endurskoðanda sem ritaði framangreindar skýrslur Ernst & Young ehf. fyrir dóminn sem vitni.
Stefnandi krefst í þessu máli riftunar greiðslu inn á víkjandi lán frá stefndu, sem fram fór með framsali sex lánasamninga til stefndu. Verður að fallast á að hér hafi verið um að ræða óvenjulegan greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þótt fyrir liggi að með greiðslunni tókst stefndu að bæta eiginfjárgrunn sinn, svo sem rakið er í VI kafla hér að framan, verður ekki á það fallist með stefndu að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum.
Ekki er deilt um að aðilar hafi verið nákomnir. Má því krefjast riftunar með heimild í 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991, að því tilskildu að ekki sé leitt í ljós þrotamaður hafi verið gjaldfær er greiðslan fór fram og það þrátt fyrir hana.
Stefnda mótmælir því að stefnandi hafi verið ógjaldfær á þessum tíma.
Hér að framan er rakið hvernig stefnandi lenti í verulegum fjárhagsörðugleikum við fall viðskiptabankanna haustið 2008 og hvernig leitast var við að koma fjármálum hans á réttan kjöl. Þær ráðstafanir sem gerðar voru í því skyni reyndust þó ekki duga lengra en svo að stefnandi óskaði eftir heimild til nauðasamningsumleitana í september 2011. Segir í greinargerð með frumvarpi að nauðasamningi að stefnandi hafi tapað 1.777 milljónum króna eftir skatta á árinu 2010. Í byrjun ágúst 2011 hafi verið ljóst að ekki tækist að styrkja eiginfjárstöðu með hlutafjárútboði. Þá segir í greinargerðinni að eftir standi ótryggðar skuldir að fjárhæð 817 milljónir króna, sem allar falli í gjalddaga fyrir 20. janúar 2012. Laust fé sé um 600 milljónir króna til að greiða þær, en afla þurfi 200 milljóna króna með innheimtu krafna og sölu eigna.
Samkvæmt því sem fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 16. maí 2012 var nauðasamningsumleitunum hætt eftir að fulltrúi Eignasafns SÍ tilkynnti að frumvarp að nauðasamningi yrði ekki samþykkt.
Í skýrslu Ernst & Young ehf. sem getið er um hér að framan, um mat á gjaldfærni stefnanda segir í niðurstöðukafla að á haustmánuðum ársins 2010 hafi verið farið að ræða hlutafjáraukningu og hagræðingaraðgerðir. Í desember 2010 hafi aðilar haft verulegar áhyggjur af starfsemi stefnanda. Fyrirsjáanlegt hafi verið að auka yrði hlutafé, selja eignir, selja hluta af starfseminni eða hana jafnvel alla, til að stefnandi gæti talist greiðslufær og að eigið fé héldist yfir lögbundnu lágmarki. Ekki hafi legið fyrir fyrr en í apríl 2011 að stefnandi gæti talist ,,tæknilega greiðslufær“ í árslok 2010, sem hann hafi í raun ekki verið.
Þótt þessarar skýrslu hafi verið aflað einhliða af stefnanda, sem rýrir sönnunargildi hennar, þykir í ljósi þeirrar vísbendingar sem hún gefur, svo og þess sem ráðið verður af öðrum gögnum um viðvarandi fjárhagserfiðleika stefnanda, eins og rakið var hér næst að framan, hefur stefnda ekki axlað sönnunarbyrði um að stefnandi hafi verið gjaldfær í skilningi 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 þegar greiðslan fór fram.
Ekki verður ráðið af skrá um kröfuhafa í slitabú stefnanda að allir kröfuhafar fái greitt að fullu.
Samkvæmt þessu verður fallist á að greiðslan sé riftanleg samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991. Þykir þá ekki þurfa að taka sérstaklega afstöðu til þess hvort einnig mætti rifta henni á grundvelli 141. gr. laganna.
XI
Í yfirlýsingu stefndu í samningi um kaup hennar á lánasamningunum segir að hvorki liggi fyrir markaðsverð lánasamninganna né víkjandi skuldabréfsins sem endurgjalds. Kaupverð samninganna sé í samræmi við bókfært virði stefnanda á þeim samkvæmt reikningum stefnanda, sem hafi verið endurskoðaðir af endurskoðanda hans. Stefndu sé ljóst að staða fyrirtækja sem séu útgefendur og greiðendur af samningunum sé ótrygg, mikil óvissa sé um hvort heimtur verði í samræmi við kaupverð lánasamninga og jafnvel lögmæti þeirra sem lánasamninga í erlendum myntum. Stefnda muni sjálf bera alla áhættu sem af þessu leiði og meti áhættuna ásættanlega í ljósi kaupverðs samninganna, sem reitt sé af hendi í formi lækkunar á víkjandi kröfu stefndu á hendur stefnanda.
Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu þykir ekki unnt að líta svo á að tjón stefnanda nemi sjálfkrafa þeirri fjárhæð sem aðilar komu sér saman um við framsalið.
Stefnda hefur lagt fram yfirlýsingu löggilts endurskoðanda síns dagsetta 16. janúar 2015, þar sem fram kemur að endurskoðendur stefndu hafi skoðað endurheimtur á þeim lánum sem stefnandi framseldi til stefndu. Við yfirtöku Eignasafns SÍ á stefndu á árinu 2011 hafi uppreiknuð staða lánanna verið 825.865.491 króna samkvæmt bókhaldi stefndu. Kemur fram að þeir hafi greint innborganir að fjárhæð samtals 139.686.189 krónur vegna þessara lána á árunum 2012 og 2013 samkvæmt bókhaldinu. Í lok árs 2013 hafi jafnframt eftirstöðvar lána til eins skuldarans numið 81.185.323 krónum með áföllnum vöxtum og verðbótum, en önnur lán hafi verið afskrifuð.
Greiðsla stefnanda kom stefndu að notum í skilningi 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 með þeirri fjárhæð sem aðilar sömdu um í öndverðu, þar sem það fékk með henni greiddan hluta víkjandi lánsins. Til hins verður að líta að samkvæmt ákvæðinu ber stefndu ekki að greiða hærri fjárhæð en nemur tjóni stefnanda. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir meira tjóni af framsali samninganna en nemur þeim fjárhæðum sem stefnda hefur náð að innheimta og ekki þurft að afskrifa, sem samtals nemur 220.871.512 krónum, samkvæmt framangreindri yfirlýsingu endurskoðanda stefnda. Verður stefnda dæmd til að greiða stefnanda þá fjárhæð.
Samkvæmt 144. gr. laga nr. 21/1991 skal að kröfu aðila skila greiðslum í þeim mæli sem þær eru ennþá til. Ber að fallast á viðurkenningarkröfu stefndu þess efnis, að því er varðar þau verðmæti sem ennþá eru til samkvæmt framansögðu. Er þar um að ræða lánasamninga við Við Eyrarbakka ehf. Verður því viðurkennt að stefndu sé heimilt að inna greiðsluna af hendi að hluta með framsali þeirra til stefnanda. Ekki liggur fyrir hver staða þeirra er nú, en framangreind fjárhæð miðast við árslok 2013. Verður stefnanda ekki gert að taka við henni á hærra verði en þar er greind, þannig að ekki verði skert endurgreiðsla peninga sem stefnda hefur náð að innheimta.
Fallist verður á það með stefndu að rétt sé að dæma dráttarvexti frá þingfestingardegi, 10. október 2013.
Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda dæmd til að greiða stefnanda málskostnað, sem ákveðst 1.500.000 krónur.
Gætt var ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður flutti málið af hálfu stefnanda, en Einar Ingimundarson héraðsdómslögmaður af hálfu stefndu.
DÓMSORÐ:
Rift er greiðslu stefnanda, Sögu Capitals hf., til stefndu, Hildu ehf., að fjárhæð 1.043.621.412 krónur.
Stefnda greiði stefnanda 220.871.512 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. október 2013 til greiðsludags og 1.500.000 krónur í málskostnað.
Viðurkennt er að stefndu sé heimilt að inna allt að 81.185.323 krónur af tildæmdri greiðslu af hendi með því að skila stefnanda kröfum á hendur Við Eyrarbakka ehf.