Hæstiréttur íslands
Mál nr. 221/2001
Lykilorð
- Skuldabréf
- Sjálfskuldarábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 29. nóvember 2001. |
|
Nr. 221/2001. |
Margeir Margeirsson(Guðmundur Kristjánsson hrl.) gegn Sparisjóðnum í Keflavík (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) |
Skuldabréf. Sjálfskuldarábyrgð.
M, N og B hf. gengust í sjálfskuldarábyrgð á greiðslu tveggja skuldabréfa. Þegar bréfin fóru í vanskil greiddi M eiganda þeirra, S, helminginn af eftirstöðvum skuldarinnar. M hélt því fram að hann hefði samið við S um að ábyrgð hans takmarkaðist við umrædda greiðslu, en N greiddi hinn helminginn. Talið var ósannað að S hefði gefið M bindandi loforð um að hann yrði ekki krafinn um nema helming skuldarinnar, hvort sem N greiddi hinn helminginn eða ekki. Var M dæmdur til að greiða S eftirstöðvar skuldarinnar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. júní 2001. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur, en þó þannig að um dráttarvexti af kröfu hans fari samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2001 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur með þeirri breytingu á dráttarvöxtum af kröfu stefnda, sem í dómsorði greinir.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar er mælt fyrir um í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að um dráttarvexti af kröfu stefnda, Sparisjóðsins í Keflavík, á hendur áfrýjanda, Margeiri Margeirssyni, fer eftir 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. júlí 2001 til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. mars 2001.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 5. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sparisjóðnum í Keflavík, kt. 610269-3389, Tjarnargötu 12, Keflavík, með stefnu birtri 20. september 2000 á hendur Margeiri Margeirssyni, kt. 280547-4419, Stapaseli 7, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 1.238.975, auk bankakostnaðar, kr. 5.680, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af kr. 134.326 frá 10.11.1997 til 10.01.1998, en af kr. 266.435 frá þ.d. til 10.03. s.á., en af kr. 396.260 frá þ.d. til 10.05. s.á., en af kr. 523.746 frá þ.d. til 10.07. s.á., en af kr. 648.893 frá þ.d. til 10.09. s.á., en af kr. 771.687 frá þ.d. til 10.1l. s.á., en af kr. 892.07 frá þ.d. til 10.01.1999, en af kr. 1.009.961 frá þ.d. til 10.03. s.á., en af kr. 1.125.580 frá þ.d. til 10.05. s.á., en af kr. 1.238.975 frá þ.d. til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun, kr. 70.149. Þá er krafizt málskostnaðar að mati dómsins, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, og dæmdur málskostnaður úr hendi hans að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
II.
Málavextir:
Málavextir eru þeir, að þann 04.04.1996 gaf Sina heildverslun ehf., kt. 610296-2039 út tvö samhljóða skuldabréf, nr. 83617 og 83618, samtals að höfuðstól kr 2.000.000. Skuldabréfin skyldu greiðast með 18 jöfnum afborgunum á tveggja mánaða fresti, í fyrsta skipti þann 10.7.1996. Skuldabréfin voru bundin meðalvöxtum óverðtryggðra lána, sem voru við útgáfu bréfanna 12,6%. Bréfin fóru í vanskil þann 10.09.1996, og voru þau tekin til lögfræðilegrar innheimtu í nóvember sama ár. Stefndi, Margeir, ábyrgðist bréfin sem sjálfskuldarábyrgðarmaður ásamt Níelsi Jónssyni og Benice hf.
Hinn 05.06.1997 greiddi stefndi, Margeir, kr. 1.179.936 inn á kröfuna. Af þeirri fjárhæð greiddust kr. 94.693 í innheimtuþóknun, kr. 14.470 í réttargjöld og kr. 1.073 í vexti vegna útlagðs kostnaðar. Kr. 1.070.000 greiddust upp í gjaldfallnar afborganir, vexti og áfallnar afborganir. Hinn 25.02.1998 greiddi svo ábyrgðarmaðurinn, Níels Jónsson, kr. 50.000 inn á kröfuna, eftir að innheimtuaðgerðum var beint að honum. Af þessum innborgunum greiddust kr. 70.149 inn á gjalddaga 10.11.1997.
Stefnandi kveður sjálfskuldarábyrgðarmanninum, Níelsi, ekki vera stefnt nú, þar sem gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá honum. Þá sé Sinu heildverslun ehf. ekki stefnt, þar sem félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota og hafi búið reynzt eignalaust.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi byggir kröfu sína á framangreindum skuldabréfum. Kröfu sína sundurliðar hann svo, en afborganir séu ógreiddar og allar gjaldfallnar:
Afborganir: HöfuðstóllSamningsvextirSamtals
10.11.1997 111.11123.215134.326
10.01.1998 111.11120.998132.109
10.03.1998 111.11118.714129.825
10.05.1998111.11116.375127.486
10.07.1998 111.11114.036125.147
10.09.1998 111.11111.683122.794
10.11.1998 111.1119.229120.340
10.01.1999 111.1116.823117.934
10.03.1999 111.1114.508115.619
10.05.1999 111.1112.284113.395
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttarins um skuldbindingargildi loforða, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936. Einnig vísar stefnandi til ákvæða skuldabréfsins sjálfs. Dráttarvaxtakrafan er byggð á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989. Krafan um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 35. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda:
Stefndi kveður samkomulag hafa verið gert í marz 1997 eftir samráð við stefnda, á þá leið, að sjálfskuldarábyrgðarmaðurinn, Níels Jónsson, greiddi annan helming skuldarinnar og stefndi hinn. Þetta hafi stefndi síðan gert með greiðslu þeirri 5. júní 1997, að upphæð kr. 1.179.936, sem lýst sé í stefnu.
Stefndi byggir á framangreindu samkomulagi við stefnanda. Stefndi hafi staðið við þennan samning fyrir sitt leyti og sé þar með laus allra mála. Samningurinn gangi framar ákvæðum skuldabréfanna að þessu leyti, og hann skuldi því ekki stefnanda hina umkröfðu skuld. Ekki sé við hann að sakast, þó að nefndur Níels hafi ekki staðið við samninginn fyrir sitt leyti.
Tómlæti stefnanda gagnvart stefnda staðfesti þetta, og áskilji stefndi sér einnig rétt til að byggja sjálfstætt á þeirri staðreynd.
Lagarök sín fyrir sýknu kveðst stefndi sækja til allra þeirra reglna kröfu- og samningaréttar um viðskiptabréf, loforð og gagnkvæma samninga, sem hér eigi við, sbr. og reglur laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Málskostnaðarkrafa hans byggi á 129. gr. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og krafan um virðisaukaskatt á kostnaðinn á lögum nr. 50/1988.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Stefndi byggir sýknukröfu sína á samkomulagi, sem gert var milli stefnanda og sjálfskuldarábyrgðarmannsins, Níelsar Jónssonar, og sem stefnda var kynnt. Virðist stefndi byggja á því, að með því að kynna stefnda þetta samkomulag, hafi stefnandi skuldbundið sig gagnvart honum þannig, að stefndi yrði ekki krafinn um nema helming skuldarinnar, sem hann ábyrgðist með undirritun sinni á skuldabréfið. Enginn skriflegur samningur í þessa veru liggur fyrir í málinu, og hefur stefnandi hafnað þessum skilningi stefnda á samkomulagi því, sem gert var við nefndan Níels. Fyrir liggur, að Níels stóð ekki við sinn hluta samkomulagsins og greiddi einungis kr. 50.000 inn á kröfuna. Með því að ósannað er, gegn andmælum stefnanda, að stefnda hafi verið gefið bindandi loforð um, að hann yrði ekki krafinn um nema helming skuldarinnar, hvort sem meðábyrgðarmaðurinn greiddi hinn helminginn eða ekki, og með því að engin gögn liggja fyrir í málinu, sem staðfesta það, að stefndi hafi verið leystur undan ábyrgð sinni samkvæmt undirritun hans á skuldabréfið, gegn greiðslu á helmingi skuldarinnar, ber að taka kröfur stefnanda til greina að öllu leyti, en ágreiningur er ekki um fjárhæð kröfunnar eða vexti.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 280.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Margeir Margeirsson, greiði stefnanda, Sparisjóðnum í Keflavík, kr. 1.244.655, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af kr. 134.326 frá 10.11.1997 til 10.01.1998, en af kr. 266.435 frá þ.d. til 10.03. s.á., en af kr. 396.260 frá þ.d. til 10.05. s.á., en af kr. 523.746 frá þ.d. til 10.07. s.á., en af kr. 648.893 frá þ.d. til 10.09. s.á., en af kr. 771.687 frá þ.d. til 10.1l. s.á., en af kr. 892.07 frá þ.d. til 10.01.1999, en af kr. 1.009.961 frá þ.d. til 10.03. s.á., en af kr. 1.125.580 frá þ.d. til 10.05. s.á., en af kr. 1.238.975 frá þ.d. til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun, kr. 70.149, og kr. 280.000 í málskostnað.