Hæstiréttur íslands
Mál nr. 26/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Nauðasamningur
|
|
Þriðjudaginn 17. janúar 2012. |
|
Nr. 26/2012.
|
Eyjólfur Sveinsson (Helgi Jóhannesson hrl.) gegn Kaupþingi banka hf. (Anton B. Markússon hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Nauðasamningur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu sem E hafði lýst við slit K hf. sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með hinni lýstu kröfu E krafðist hann endurgreiðslu á fjárhæð sem skiptastjóri þrotabús E hafði innt af hendi til K hf. upp í lýsta kröfu bankans við gjaldþrotaskipti á þrotabúi E. Greiðslan var í samræmi við nauðasamning sem staðfestur var eftir að bú E hafði verið til gjaldþrotaskipta. E bar fyrir sig að greiðsla skiptastjórans hefði verið framkvæmd fyrir mistök, þar sem K hf. hefði þá verið búinn að fella niður allar skuldir á hendur sér. Í úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna, segir meðal annars að af gögnum málsins verði ekki annað ráðið en að nauðasamningur E hefði komist á án þess að E hefði gert athugasemdir við greiðslu skiptastjóra þrotabús hans til K hf., heldur hefði E þvert á móti farið fram á það við skiptastjórann, og síðan héraðsdóm, að nauðasamningurinn, þar sem gerð var grein fyrir umþrættri greiðslu, yrði staðfestur. Nauðasamningnum yrði ekki haggað og var kröfu E því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. janúar 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2011, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu að fjárhæð 3.954.205 krónur, sem sóknaraðili lýsti við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa sín verði viðurkennd og henni skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. sömu laga við slit varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Eyjólfur Sveinsson, greiði varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2011.
I.
Mál þetta, sem þingfest var 20. apríl 2011, var tekið til úrskurðar 13. desember sl.
Sóknaraðili, Eyjólfur Sveinsson, kt. 040164-4729, krefst þess að krafa hans nr. 20100105-1938 á kröfuskrá að fjárhæð 3.954.205 krónur, verði samþykkt sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila. Auk þess krefst hann þess að varnaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.
Varnaraðili, Kaupþing banki hf., 560882-0419, krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.
II.
Málavextir eru þeir að bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2002. Með bréfi, dags. 23. júní 2003, tilkynnti sóknaraðili skiptastjóra þrotabúsins um þá fyrirætlan sína að leita nauðasamninga við lánardrottna sína.
Hinn 5. mars 2004 gaf Kaupþing Búnaðarbanki hf. út yfirlýsingu um niðurfellingu skulda sóknaraðila. Var yfirlýsingin undirrituð af þáverandi yfirlögfræðingi bankans. Kemur fram í yfirlýsingunni að hún taki til „allra persónulegra krafna, ábyrgða og annarra skuldbindinga hverju nafni sem nefnast sem eru til staðar við undirritun yfirlýsingar þessarar “.
Með bréfi, dags. 23. júní 2008, tilkynnti skiptastjóri þrotabús sóknaraðila eigendum almennra krafna þrotabúsins um útborgun úr búinu að fjárhæð samtals 12.285.543 krónur. Kemur þar fram að tilgreind fjárhæð samsvari 1,7% af þeim almennu kröfum sem lýst hafi verið í búið. Þar af fái varnaraðili greiddar 3.255.681 krónu sem fylgi með í ávísun. Skiptameðferð í þrotabúi sóknaraðila lauk síðan með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 15. september 2010 þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings sóknaraðila til greiðsluaðlögunar.
Hinn 25. maí 2009 var varnaraðili tekinn til slitameðferðar og var honum skipuð slitastjórn samkvæmt heimild í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009. Sóknaraðili lýsti kröfu fyrir slitastjórn varnaraðila vegna hinnar útborguðu fjárhæðar skiptastjórans til varnaraðila, að viðbættum dráttarvöxtum að fjárhæð 698.524 krónur, með kröfulýsingu dags. 29. desember 2009. Kom í kröfulýsingunni fram sá rökstuðningur að varnaraðili hefði augljóslega ekki átt rétt á greiðslunni þar sem varnaraðili hefði fellt niður allar hans skuldir með fyrrgreindu samkomulagi frá 2004. Slitastjórnin hafnaði kröfu sóknaraðila og þar sem ekki tókst að jafna ágreining um hana vísaði slitastjórnin ágreiningsefninu til héraðsdóms, með vísan til 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991.
III.
Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili hafi ekki átt lögvarða kröfu til þess fjár sem bankanum hafi verið greitt við úthlutun úr búi sóknaraðila. Með því að sóknaraðili hafi fengið staðfestan úrskurð um nauðasamning hinn 15. september 2009 hafi skiptameðferð í búi hans lokið og hann fengið bú sitt aftur til frjálsra umráða. Hafi hann þar með fengið yfirráð yfir kröfu þeirri sem mál þetta varði og þar með aðild að þeim ágreiningi sem mál þetta snúist um.
Ljóst sé að um mistök hafi verið að ræða þegar varnaraðili fékk umrædda fjárhæð greidda. Leiki ekki á því nokkur vafi að mistökin hefðu verið leiðrétt eins og hver önnur af því tagi hefði varnaraðili ekki farið í slitameðferð. Ekki verði fallist á að sóknaraðili eigi að vera verr staddur hvað endurheimtu varði en ef varnaraðili hefði ekki farið í slitameðferðina.
Varnaraðili kveðst vísa til þess að sóknaraðili eigi ekki lögvarða fjárkröfu á hendur varnaraðila þar sem fyrir liggi úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. september 2009, í máli nr. N-69/2009, þar sem nauðasamningur sóknaraðila hafi verið staðfestur. Úrskurðurinn hafi verið endanleg dómsúrlausn sem bindi lánardrottna, og þá sem í stað þeirra komi, um samningskröfur þeirra, sbr. 3. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Telji varnaraðili að þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu sóknaraðila.
Jafnframt sé á því byggt að í kjölfar boðaðs fundar með kröfuhöfum hafi skiptastjóri tekið rökstudda afstöðu til þess í skriflegri greinargerð að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar kæmist á, sbr. 63. gr. g. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Hafi greiðsluáætlun sóknaraðila legið fyrir á framangreindum fundi en engar athugasemdir borist vegna hennar. Fyrir fundinn hafi sóknaraðila verið gefinn kostur á að kynna sér skrá skiptastjóra yfir samningskröfur, sbr. 63. gr. e. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009, en sóknaraðili hafi þá engar athugasemdir gert við skrána. Hinn 8. september 2009 hafi verið boðað til fyrirtöku fyrir dómi, með auglýsingu í Lögbirtingablaði. Hafi þar verið skorað á alla er andmæla vildu staðfestingu nauðasamningsins að mæta til þinghaldsins og hafa þar uppi andmæli. Engin slík mótmæli hafi komið fram og hafi nauðasamningur því verið samþykktur, sbr. 60. gr. laga nr. 21/1991. Hefði sóknaraðili álitið að greiðsluáætlun hans væri ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn hefði hann getað komið á framfæri mótmælum við henni, bæði á fundinum og fyrir dómi. Það hefði hann þó ekki gert og á komist bindandi nauðasamningur, sbr. 60. gr. laga nr. 21/1991.
Ekki verði ráðið af greinargerð sóknaraðila á hverju kröfugerð hans um endurgreiðslu umræddrar fjárhæðar sé byggð. Sé hins vegar reyndin sú að fjárhæðin hafi verið greidd varnaraðila fyrir mistök sé engu að síður ljóst að sóknaraðili eigi ekki réttmæta kröfu til fjárins, enda hefði fjárhæðin að öðrum kosti skipst á milli annarra kröfuhafa sem átt hafi samningskröfu í bú sóknaraðila. Kröfu sóknaraðila sé því ekki réttilega beint að varnaraðila og sé mótmælt þeirri staðhæfingu sóknaraðila að hann hafi eignast aðild að máli þessu við það að fá bú sitt aftur til frjálsra umráða. Þá sé því mótmælt að varnaraðili hafi auðgast á óréttmætan hátt með móttöku umræddrar greiðslu frá skiptastjóra.
Fari hins vegar svo að fallist verði á að sóknaraðili eigi réttmæta kröfu á hendur varnaraðila sé því hafnað að krafan beri vexti. Ekki sé hægt að fallast á að krafan beri vexti fyrr en frá uppkvaðningu úrskurðar eða í fyrsta lagi frá kröfulýsingu sóknaraðila. Í báðum tilvikum væri um að ræða eftirstæða kröfu skv. 114. gr. laga nr. 21/1991, en slitastjórnin muni ekki taka afstöðu til slíkra krafna, sbr. 199. gr. sömu laga.
IV.
Krafa sú á hendur varnaraðila sem sóknaraðili gerir í máli þessu, og krefst að verði samþykkt sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila, er endurgreiðslukrafa vegna greiðslu sem skiptastjóri þrotabús sóknaraðila innti af hendi til varnaraðila upp í lýsta kröfu hans við gjaldþrotaskiptin. Byggir sóknaraðili kröfu sína á því að skiptastjóri hafi innt greiðsluna af hendi fyrir mistök, enda liggi fyrir að varnaraðili hafi þá verið búinn að fella niður allar skuldir á hendur sóknaraðila.
Eins og rakið hefur verið lauk skiptum í þrotabúi sóknaraðila með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar, sem staðfestur var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 15. september 2009. Kemur fram í úrskurðinum að sóknaraðili hafi í bréfi til dómsins hinn 7. júlí 2009 krafist staðfestingar nauðasamnings til greiðsluaðlögunar skv. lögum nr. 21/1991, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 24/2009. Þá kemur og fram í úrskurðinum að í hinum staðfesta nauðasamningi sé út frá því gengið að þær greiðslur sem skiptastjóri innti af hendi upp í lýstar almennar kröfur, þar á meðal hin umdeilda fjárhæð til varnaraðila, verði einu greiðslurnar sem eigendur samningskrafna á hendur sóknaraðila fái í sinn hlut.
Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að fyrrgreindur nauðasamningur sóknaraðila hafi komist á án þess að sóknaraðili hafi á neinu stigi gert athugasemd við umrædda greiðslu skiptastjóra þrotabús hans til varnaraðila eins og hann hafði þó alla möguleika á að gera, bæði gagnvart skiptastjóra og fyrir dómi, á grundvelli ákvæða 63. gr. e., f. og g. og 159. gr. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Þvert á móti fór hann fram á það við skiptastjóra, og síðan héraðsdóm, að nauðasamningurinn, þar sem skýrlega var gert ráð fyrir umræddri greiðslu til varnaraðila, yrði staðfestur. Verður þeirri niðurstöðu er fram kemur í nauðasamningi sóknaraðila, sem staðfestur var með framangreindum úrskurði héraðsdóms hinn 15. september 2009, ekki haggað í máli þessu. Er kröfu sóknaraðila því hafnað.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem ákveðst hæfilegur 200.000 krónur.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kröfu sóknaraðila, Eyjólfs Sveinssonar, að fjárhæð 3.954.205 krónur, sem hann lýsti við slit varnaraðila, Kaupþings banka hf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 200.000 krónur í málskostnað.