Hæstiréttur íslands
Mál nr. 569/2014
Lykilorð
- Bifreið
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Svipting ökuréttar
- Ítrekun
|
|
Miðvikudaginn 22. apríl 2015. |
|
Nr. 569/2014.
|
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir saksóknari) gegn Ragnari Ólafssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Bifreiðir. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Svipting ökuréttar. Ítrekun.
R var sakfelldur fyrir brot gegn umferðarlögum nr. 50/1987 með því að hafa ekið bifreið án ökuréttinda og undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega. Að því virtu að ávana- og fíkniefni fundust einungis í þvagi R en ekki blóði var refsing hans talin hæfilega ákveðin sekt að fjárhæð 100.000 krónur og svipting ökuréttar í tvö ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst aðallega sýknu af því að hafa 6. júní 2013 ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna en til vara refsimildunar. Þá krefst hann þess að ökuréttarsvipting verði felld úr gildi en henni að öðrum kosti markaður tími.
Eins og greinir í héraðsdómi stöðvaði lögregla ákærða við akstur bifreiðarinnar [...] og handtók hann í kjölfarið vegna gruns um refsiverða háttsemi. Samkvæmt gögnum málsins var ákærði síðan færður á lögreglustöð þar sem tekin voru af honum blóð- og þvagsýni. Samkvæmt matsgerð rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 25. júní 2013 fannst tetrahýdrókannabínólsýra í þvagsýni ákærða, en tetrahýdrókannabínól mældist ekki í blóðsýni.
Í 1. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987 segir að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að mælist ávana- og fíkniefni samkvæmt 1. mgr. í blóði eða þvagi ökumanns teljist hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega. Að virtri dómaframkvæmd Hæstaréttar, sbr. til dæmis dóma réttarins 19. júní 2008 í málum nr. 254/2008 og 260/2008, og þar sem óumdeilt er að tetrahýdrókannabínólsýra greindist í þvagsýni ákærða í kjölfar aksturs hans 6. júní 2013 hefur hann gerst brotlegur við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Þegar á hinn bóginn er litið til þess að ávana- og fíkniefnin fundust einungis í þvagi ákærða en ekki blóði er hæfilegt að dæma hann til greiðslu sektar að fjárhæð 100.000 krónur, en greiðist hún ekki fer um vararefsingu samkvæmt því, sem í dómsorði greinir. Þá verður ákærði jafnframt sviptur ökurétti í tvö ár, sbr. 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga, en með hinum áfrýjaða dómi var svipting ákveðin frá birtingu dómsins sem fór fram 9. maí 2014.
Staðfest er niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað. Ákærða verður gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talið af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði, svo og af útlögðum kostnaði hans að fjárhæð 22.998 krónur.
Dómsorð:
Ákærði, Ragnar Ólafsson, greiði 100.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæti ella fangelsi í átta daga.
Ákærði er sviptur ökurétti í tvö ár frá 9. maí 2014 að telja.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem í heild er 399.587 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur. Að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2014.
Mál þetta, sem var dómtekið 11. apríl 2014, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 12. ágúst 2013, gegn Ragnari Ólafssyni, kt. [...], [...], [...], en aðsetur að [...], [...], fyrir eftirtalin brot gegn umferðar-, lögreglulögum og lögum um ávana- og fíkniefni, föstudaginn 6. júní 2013:
I. Með því að hafa, ekið bifreiðinni [...], án ökuréttinda og undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (í þvagi ákærða mældist tetrahýdrókannabínólsýra) og því verið óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega suður Njarðarbraut, inn á Iðjustíg, Reykjanesbæ, án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu sem hugðist stöðva akstur ákærða. Ákærði ók áfram af Iðjustíg inn á Brekkustíg þar sem lögregla stöðvaði akstur ákærða við Brekkustíg nr. 36, en ákærði yfirgaf þar bifreiðina og reyndi í kjölfarið að komast undan lögreglu á hlaupum. Lögregla veitti ákærða eftirför á fæti en hann var handtekinn við [...], [...].
II. Með því að hafa, við afskipti lögreglu sbr. I. ákærulið, haft í vörslum sínum, samtals 0,25 g af kannabisefnum, er ákærði faldi í öskubakka á milli sæta að aftan, en lögregla fann fyrrnefnd fíkniefni við leit í framangreindri bifreið ákærða á lögreglustöðinni við Hringbraut 130, Reykjanesbæ.
Telst ofangreind háttsemi ákærða varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a., og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til sviptingar ökuréttar, skv. 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. l. nr. 44/1993 og 5. gr. l. nr. 66/2006. Auk þess er krafist að gerð verði upptæk 0,25 g af kannabisefnum sem hald var lagt á hjá ákærða umrætt sinn, skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233/2001.
Við fyrirtöku málsins þann 6. desember sl. neitaði ákærði að hafa verið undir áhrifum fíkniefna skv. ákærulið I. og að hafa átt fíkniefni þau er greinir í ákærulið II. en játaði að sök öðru leyti. Málinu var frestað til ákvörðunar aðalmeðferðar utan réttar. Málið var tekið fyrir að nýju 11. apríl sl. og við þá fyrirtöku féll ákæruvaldið frá ákæru í lið II.
Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað brot sitt í ákærulið I. og var því farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjandi og verjandi, höfðu tjáð sig stuttlega um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Verjandi ákærða krafðist vægustu refsingar. Hann taldi hins vegar að ekki bæri að svipta ákærða ökuréttindum. Rétt væri að líta til allra atvika málsins. Ákærði hefði verið með kannabisefni í þvagi og samkvæmt 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, bæri ekki að svipta aðila ökurétti við fyrsta brot. Sömu forsendur ættu við núna því þrátt fyrir að ákærði hafi verið að aka bifreiðinni í umrætt sinn þá hafi hann ekki verið óhæfur til þess að aka. Það sé hrópandi óréttlæti að hann eigi nú að missa ökuréttindi sín í mörg ár þrátt fyrir að hafa ekki verið óhæfur til aksturs, ekki síst vegna þess að hann hafi ekki haft tækifæri á því að bera sviptingu ökuréttar þann 24. febrúar 2012 undir Hæstarétt. Um væri að ræða álitaefni sem Hæstiréttur yrði að taka til meðferðar. Þá taldi verjandi ákærða að honum yrði ekki gert að greiða sakarkostnað þann sem fram kæmi í málinu með vísan til 217. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, enda bæri yfirlit sakarkostnaðar með sér að um væri að ræða kostnað sem annar nafngreindur aðili ætti að greiða.
Í máli sækjanda kom fram að ákærði hafi sjálfur komið sér í þessa aðstöðu og samkvæmt sakavottorði væri um að ræða þriðja brot ákærða gegn ákvæðum 45. gr. a umferðarlaga. Samkvæmt 6. mgr. 102. gr. sömu laga skuli svipting ökuréttar við ítrekuð brot ekki vara skemur en tvö ár. Þá kom fram í máli sækjanda að þrátt fyrir að á yfirliti kæmi fram rangt nafn þá bæru reikningar málsins það með sér að vera útlagður kostnaður þessa máls.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða, sem er í samræmi við framlögð sakargögn, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákæra á hendur honum tekur til samkvæmt framansögðu og er réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 930/2006 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, skal ákvarða sektir og sviptingu ökuréttar vegna einstakra brota á ákvæðum umferðarlaga í samræmi við fyrirmæli og leiðbeiningar sem birtast í viðaukum I-III við téða reglugerð. Heimilt er í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 930/2006 að víkja frá ofangreindu ef veigamikil rök mæla með því. Ákvæði þetta ber að skoða með hliðsjón af 2. málslið 1. mgr. 102. gr. umferðaralaga nr. 50/1987 en þar kemur fram að ef sérstakar málsbætur eru og ökumaður hefur ekki áður gerst sekur um sams konar brot eða annað verulegt brot gegn skyldum sínum sem ökumaður má sleppa sviptingu ökuréttar vegna brota á ákvæðum 1. mgr. 45. gr., sbr. 2. mgr. þeirrar greinar, eða 45. gr. a. Í reglugerð nr. 328/2009 kemur fram að sé um annað brot að ræða gegn 45. gr. a umferðarlaga, skuli svipting eigi vara skemur en 2 ár, sbr. 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga.
Í lögregluskýrslu málsins kemur fram lögreglan ákvað að kanna með ástand og ökuréttindi ökumanns en þá hafi ákærði tekið harkalega vinstri beygju og í veg fyrir bifreið þannig að litlu hafi mátt muna að árekstur yrði. Ákærði hafi síðan stöðvað bifreið sína þar sem lokun hafi verið fyrir umferð og hlaupið á brott.
Í dómum Hæstaréttar hefur verið talið að undanþáguákvæðið um „sérstakar málsbætur“ eigi við ef fíkniefni hafi aðeins fundist í þvagi eins og í máli ákærða. Það er hins vegar mat dómsins að slík undanþága um sérstakar málsbætur eigi ekki við ef ákærði hefur sýnt það með öðrum hætti að hann hafi verið óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega eins og að framan greindi. Þá eru heldur ekki uppfyllt ákvæði 1. mgr., sbr. 6. mgr. 102. gr. umferðarlaga um að ákærði hafi ekki áður gerst sekur um sams konar brot því hann hefur áður hlotið refsingu fyrir brot gegn ákvæðum 45. gr. a umferðarlaga og verið sviptur ökurétti.
Í gögnum málsins er að finna blóðtökuvottorð á nafni ákærða að fjárhæð 19.500 krónur og afrit reiknings að fjárhæð 83.666 krónur, frá Háskóla Íslands vegna rannsóknar á þvag- og blóðsýni. Umræddur reikningur ber það með sér að vera vegna þvag- og blóðrannsóknar á sýnum ákærða. Að mati dómsins hefur verið sýnt nægjanlega fram á það að umræddur kostnaður er vegna máls ákærða og skiptir þá ekki máli þó í yfirliti yfir sakarkostnað hafi misritast nafn annars aðila.
Ákærði er fæddur árið 1989. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum tvisvar sinnum áður verið gerð refsing fyrir brot gegn 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987. Fyrst með viðurlagaákvörðun þann 25. júní 2008 þar sem honum var gerð sekt og sviptur ökurétti í 4 mánuði og síðar með sátt þann 24. febrúar 2012 þar sem honum var gerð sekt og sviptur ökurétti í 24 mánuði. Með broti sínu nú hefur ákærði ítrekað í annað sinn brotið gegn nefndum ákvæðum 45. gr. a. umferðarlaga. Samkvæmt dómvenju þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga óskilorðsbundið.
Með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, ber að svipta ákærða ökurétti ævilangt frá birtingu dóms að telja.
Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, sem er samkvæmt yfirliti, 103.166 krónur auk þóknunar skipaðs verjanda síns fyrir dóminum, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 150.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari dæmir mál þetta.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Ragnar Ólafsson, sæti fangelsi í 30 daga.
Ákærði er sviptur ökuréttindum ævilangt frá birtingu dóms að telja.
Ákærði greiði 253.766 krónur í sakarkostnað, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 150.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.