Hæstiréttur íslands

Mál nr. 704/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dánarbússkipti
  • Jörð
  • Eignarréttur
  • Fasteignakaup


Miðvikudaginn 16

 

Miðvikudaginn 16. desember 2009.

Nr. 704/2009.

A

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

gegn

B

C

D

(Ásdís J. Rafnar hrl.)

E og

F

(enginn)

Kærumál. Dánarbússkipti. Jörð. Eignarréttur. Fasteignakaup.

A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum hans um að við skipti á dánarbúi G og H árið 2007 beri að úthluta honum fjárhæð sem svari til verðmætis 1,48 ha úr landi M og að tekið verði tillit til þess við skipti á dánarbúinu að endurgjald hans fyrir eignarhlut sínum í M hafi bersýnilega verið mjög ósanngjarnt  er hann seldi hann G árið 1972. Talið var að við sölu A til G á eignarhluta hans í M hafi ekki orkað tvímælis að báðir hafi litið svo á að kaupin tækju til alls hlutans sem A átti í M. Þegar af þeirri ástæðu var hafnað dómkröfu A um endurgjald fyrir 1,48 hektara lands úr jörðinni. Þá var á engan hátt skýrt hvernig meta ætti hvort endurgjaldið fyrir eignarhlutann hafi verið bersýnilega mjög ósanngjarnt og engin gögn hafi verið lögð fram til stuðnings því að endurgjald samkvæmt kaupsamningnum hafi ekki svarað til gangverðs eignarinnar á þeim tíma. Að auki verði að gæta að því að hafi verið munur þar á hafi A fyrir tómlæti löngu verið búinn að glata rétti til að hafa uppi kröfu af því tilefni þegar það var fyrst gert nánast 37 árum eftir kaupin. Var kröfu A því hafnað.      

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2009, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi í tengslum við opinber skipti á dánarbúi hjónanna G og H. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að við skipti á dánarbúinu verði honum úthlutuð „fjárhæð sem svari til verðmætis 1,48 ha úr landi M“, svo og „að tekið verði tillit til þess við skipti á dánarbúinu að endurgjald sóknaraðila fyrir eignarhlut sínum í M var bersýnilega mjög ósanngjarnt.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir B, C og D kærðu úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 2. desember 2009. Þær krefjast þess að úrskurðurinn verði staðfestur um annað en málskostnað, sem hækkaður verði frá því sem þar var ákveðið, og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

Varnaraðilarnir E og F hafa ekki látið málið til sín taka.

I

Samkvæmt gögnum málsins var G fæddur 1916 og voru foreldrar hans I og J, sem bjuggu á M. J lést á árinu 1947 og var skiptum eftir hana lokið með skiptagerð 20. september 1949. Samkvæmt henni kom helmingur jarðarinnar M í hlut I, en G og bróðir hans, K, fengu hvor sinn fjórðung í henni. Með landskiptagerð 21. júní 1960 skiptu feðgarnir með sér landi M og kom þar fram að hver þeirra ætti fyrrgreint hlutfall „hinnar upphaflegu jarðar“. Af landskiptagerðinni og öðrum fyrirliggjandi gögnum virðist mega ráða að hlutinn, sem G fékk þar úr jörðinni, hafi verið nefndur M I, en hluti K M II.

Á þessum tíma mun G hafa verið kvæntur L og voru börn þeirra sóknaraðili og varnaraðilinn E, en fyrir átti G eina dóttur, varnaraðilann F. Samkvæmt framlögðu endurriti úr hjónaskilnaðarbók Reykjavíkur 25. september 1961 var G og L veittur skilnaður að borði og sæng meðal annars með þeim skilmála að eignir, sem renna hefðu átt til konunnar, „falli til barna þeirra hjónanna og verði séreign þeirra“. Að því er varðar eignarhluta í M var sérstaklega tekið fram að G tæki „að sér að greiða sem sínar allar áhvílandi skuldir, en börnin eignist hálfa jörðina M I skuldlausa, en maðurinn heldur hinum helmingi jarðarinnar“. Endurrit þetta, sem var staðfest „25. sept. 1963“, ber með sér að því hafi verið þinglýst á manntalsþingi [...] á því ári.

I mun hafa látist í mars 1963, en hann hafði gert erfðaskrá 7. nóvember 1960, þar sem meðal annars var kveðið á um hvernig skipta ætti landi úr M, sem enn var í eigu hans, milli lögerfingjanna G og K og bréferfingja, varnaraðilans E. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að skipti eftir I hafi að þessu leyti farið samkvæmt erfðaskránni, en í henni var ekki rætt um hlutföll, sem hver erfingi fengi af jörðinni, heldur var hluti hvers þeirra afmarkaður sem tiltekið landsvæði innan hennar.

Fram er komið í málinu að G hafi á árinu 1967 gengið í hjúskap við H. Dætur þeirra eru varnaraðilarnir C og D, en fyrir átti H eina dóttur, varnaraðilann B. Hana mun G hafa gert jafnsetta börnum sínum til arfs eftir sig með erfðaskrá 18. september 1995.

Í málinu liggur fyrir afsal sóknaraðila til G, sem dagsett var 1. maí 1972 og þinglýst 2. júní sama ár, fyrir „eignarhluta mínum í jörðinni M, sem er 1/16 hluti jarðarinnar, sbr. heimildarbréf mitt dags. 25. september 1963.“ Einnig liggur fyrir kaupsamningur, sem dagsettur var 24. maí 1972 en tók þó til sömu lögskipta. Þar lýsti sóknaraðili því að hann seldi G „eignarhluta sinn í jörðinni M, en eignarhlutinn er í óskiptri sameign með öðrum eigendum jarðarinnar.“ Samkvæmt samningnum var kaupverð þessa eignarhluta 600.000 krónur, sem að helmingi áttu að greiðast nafngreindri eiginkonu sóknaraðila á tilteknum gjalddögum, en að öðru leyti átti kaupverðið að ganga til hans, að hluta með peningum og annars með því að G gæfi út „fullnaðarkvittun fyrir skuld“ sóknaraðila við sig. Ekki liggur annað fyrir en að kaupsamningur þessi hafi verið efndur af hendi G.

Samkvæmt gögnum málsins lést G 29. apríl 2007 og H 1. júlí sama ár. Dánarbú þeirra var tekið til opinberra skipta 2. október 2007. Ágreiningsefnið, sem er til úrlausnar í máli þessu, reis á skiptafundi, sem skiptastjóri í dánarbúinu hélt með erfingjum 12. maí 2009, og vísaði hann því til héraðsdóms 28. sama mánaðar.

II

Sóknaraðili ber því við að fyrrnefnt afsal hans frá 1. maí 1972 hafi ekki tekið til alls hlutans, sem hann átti þá í jörðinni M. Þetta styður hann þeim rökum að þegar hann eignaðist hlutdeild í jörðinni í tengslum við skilnað foreldra sinna 1961 hafi verið um að ræða fjórðung af þeim hlut, sem faðir hans, G, hafi fengið að arfi 1949 eftir J, en frekari hlut hafi G ekki eignast í jörðinni fyrr en við lát I á árinu 1963. Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt framlögðum útreikningum verkfræðingsins Sigurðar Sigurðssonar 10. desember 2007 hafi landið, sem G fékk með áðurnefndri landskiptagerð 21. júní 1960 í skjóli þáverandi eignarhluta síns í óskiptri jörðinni, verið samtals 97 hektarar að stærð, en landið, sem hann erfði síðan að föður sínum látnum, hafi verið 67 hektarar. Telur sóknaraðili að líta verði svo á að hann hafi eignast við skilnað foreldra sinna á árinu 1961 fjórðung af þeim 97 hekturum úr landi M, sem G hafi þá átt, eða 24,25 hektara. Land M hafi á hinn bóginn verið samanlagt 364,13 hektarar. Með afsalinu til G 1. maí 1972 hafi sóknaraðili ráðstafað 1/16 hluta af því landi eða 22,76 hekturum. Mismunurinn, sem sóknaraðili miðar við að sé 1,48 hektari í fyrri dómkröfu sinni, hafi því ekki horfið úr eigu hans, hvorki með afsalinu né á annan hátt. Líta verður svo á að sóknaraðili reisi þessa kröfu að öðru leyti á því að G og H hafi án tillits til þessa ráðstafað landinu, sem hér um ræðir, enda verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að dánarbúi þeirra hafi ekki tilheyrt neitt land að M.

Um þessa kröfu sóknaraðila er þess að gæta að á árinu 1949 eignaðist G ¼ hluta í óskiptri sameign um jörðina M og var ítrekað í landskiptagerð 21. júní 1960 að sá hafi verið eignarhluti hans. Við hjónaskilnað G og L á árinu 1961 skertist eignarhluti hans í jörðinni um helming og nam eftir það 1/8 ef tekið er mið af hlutdeild í óskiptu sameigninni, sem komst á 1949, en jafn stór hluti skiptist í tvennt, milli sóknaraðila og varnaraðilans E, sem þannig áttu 1/16 hluta hvort eftir sömu viðmiðun. Í áðurnefndu endurriti úr hjónaskilnaðarbók, sem var dagsett 25. september 1963 og þinglýst sem eignarheimild um þessa skiptingu á fyrri eignarhluta G, var á hinn bóginn rætt um að sóknaraðili og varnaraðilinn E fengju „hálfa jörðina M I“, en G héldi „hinum helmingi jarðarinnar“. Landskiptin, sem slitu óskiptri sameign um jörðina M, höfðu farið fram áður en þessi ráðstöfun var gerð. Ef ekki kæmi annað til gæti af þessum sökum leikið vafi á hvort líta ætti svo á að sóknaraðili hafi á árinu 1961 eignast sem svaraði 1/16 hluta af því, sem áður var óskipt land M, eða ¼ hluta jarðarinnar M I, en samkvæmt fyrrnefndum útreikningi frá 10. desember 2007 er munur á því tvennu ef aðeins er litið til flatarmáls lands. Til þess verður á hinn bóginn að líta að í afsali sóknaraðila til G 1. maí 1972 var rætt um að það tæki til eignarhluta sóknaraðila „í jörðinni M“, en ekki M I, og var því bætt við til nánari afmörkunar að þetta væri „1/16 hluti jarðarinnar, sbr. heimildarbréf mitt dags. 25. september 1963.“ Eftir gögnum málsins getur hér ekki verið um annað heimildarbréf að ræða en áðurgreint endurrit úr hjónaskilnaðarbók. Því til viðbótar var tekið fram í kaupsamningi þeirra sömu frá 24. maí 1972 að seldur væri eignarhluti sóknaraðila í jörðinni M, sem væri „í óskiptri sameign með öðrum eigendum jarðarinnar.“ Að þessu virtu getur ekki orkað tvímælis að sóknaraðili jafnt sem G hljóti að hafa litið svo á að þessi kaup tækju til alls hlutans, sem sóknaraðili átti þá í M. Þegar af þessari ástæðu verður hafna fyrri dómkröfu sóknaraðila, sem lýtur að endurgjaldi fyrir 1,48 hektara lands úr jörðinni.

Síðari dómkrafa sóknaraðila beinist sem fyrr segir að því að við skipti á dánarbúi G og H verði tekið „tillit til þess ... að endurgjald sóknaraðila fyrir eignarhlut sínum í M var bersýnilega mjög ósanngjarnt.“ Sóknaraðili hefur á engan hátt skýrt frekar hvernig hann ætlast til að tekið verði tillit til þessa atriðis við skiptin. Hann hefur heldur ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að endurgjald til hans samkvæmt kaupsamningnum 24. maí 1972 hafi ekki svarað til gangverðs eignarinnar á þeim tíma. Að auki verður að gæta að því að hafi verið munur þar á er óhjákvæmilegt að sóknaraðili hafi fyrir tómlæti löngu verið búinn að glata rétti til að hafa uppi kröfu af því tilefni þegar það var fyrst gert nánast 37 árum eftir kaupin. Kröfu þessari verður því hafnað.

Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um báðar kröfur sóknaraðila. Eftir þeim úrslitum málsins verður honum gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem er ákveðinn í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðilunum B, C og D hverri fyrir sig samtals 200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað, en gagnvart öðrum varnaraðilum fellur málskostnaður niður á báðum dómstigum.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. nóvember 2009.

Mál þetta barst dóminum 3. júní 2009 með bréfi skiptastjóra í dánarbúi hjónanna G, sem lést [...] og H, sem lést [...]. Málið var þingfest 22. júní 2009 og tekið til úrskurðar 20. október sl.

Sóknaraðili, A, krefst þess

1. að viðurkennt verði með dómi að við skipti á dánarbúi G og H beri að úthluta honum fjárhæð sem svari til verðmætis 1,48 ha úr landi M,

2. að tekið verði tillit til þess við skipti á dánarbúinu að endurgjald sóknaraðila fyrir eignarhlut sínum í M var bersýnilega mjög ósanngjarnt.

Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu úr hendi varnaraðila.

Varnaraðilar, B, C og D, krefjast þess að öllum kröfum sóknar­aðila verði hafnað. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila, auk virðisaukaskatts. 

F og E láta málið ekki til sín taka.

I.

Foreldrar G, hjónin I og J, bjuggu að M. J lést [...] og var dánar­búi hennar skipt með skiptagerð dags. 21. júní 1960. Eftirlifandi maki hennar, I, fékk helming jarðarinnar M, en tveir synir þeirra, G og K fengu hvor um sig ¼ hluta jarðarinnar.

G var tvíkvæntur en fyrir hjúskap átti hann dótturina F. Með fyrri konu sinni, Lr átti hann A, sóknaraðila þessa máls og E. G og L skildu að borði og sæng þann [...]. Í endurriti úr hjónaskilnaðarbók Reykja­víkur þann dag, kemur fram að sá hluti af félagsbúi þeirra hjóna er falla skyldi til konunnar, þar með talinn hlutur hennar í M, gengi til barna þeirra. Þessu skilnaðarsamkomu­lagi var ekki þinglýst á fasteignina M fyrr en 2. október 1963.

Við skilnað G og L að borði og sæng var G eigandi að ¼ hluta jarðarinnar M sem hann erfði eftir móður sína. I, faðir G, andaðist [...], eða einu og hálfu ári eftir skilnað G L og erfði G þá töluvert land í M eftir föður sinn til viðbótar því sem hann átti áður.

G og H gengur í hjónaband [...] en höfðu þá búið saman frá 1962. Þegar þau giftu sig voru dætur þeirra D og C fæddar og hafði G gengið B, dóttur H, í föðurstað og tekur hún arf eftir hann eins og hans eigin börn samkvæmt erfðaskrá dags. 18. september 1995. Börn G af fyrra hjóna­bandi, E og A, ólust upp á heimili þeirra H. Átti sóknaraðili A skráð lögheimili á M, heimili þeirra G og H, allt fram til ársins 2007.

Þann 24. maí 1972 keypti G eignarhluta A sonar síns í M með kaupsamningi og var afsalinu þinglýst í júní sama ár. Greiddi G kaupverð eignarhlutans kr. 600.000.

Dánarbú G og H var tekið til opinberra skipta með úrskurði héraðsdóms hinn 21. september 2007. Framangreind börn F, A, E, B, C og D, telja til arfs úr dánarbúinu. Á skipta­fundi í dánarbúi 12. maí 2009 kom krafa sóknaraðila fram. Tók skiptastjóri ákvörðun um það á fundinum að vísa ágreiningi um kröfu sóknaraðila til héraðsdóms, sem hann gerði með bréfi hinn 28. maí 2009. Alsystir sóknaraðila, E, og hálfsystir hans samfeðra F, láta málið ekki til sín taka.

II

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að hvorki hafi legið fyrir nákvæm mæling á stærð M á þeim tíma þegar því var skipt, við andlát J, föðurömmu hans, né þegar hann afsalaði 1/16 hluta af eignarhlut sínum í jörðinni til föður síns, 1. maí 1972. Við landmælingu Sigurðar Sigurðs­sonar, verkfræð­ings, á landi G í M, árið 1995, hafi komið í ljós að móðurarfur hans var 97 hektarar, sbr. og landskiptagerð G og E dóttur hans. Við útreikninga sama verkfræð­ings á árinu 2007, hafi komið í ljós að föðurarfur G hafi verið 67 hektarar. Samtals hafi því eignarhlutur G í M verið 164 hektarar. Sama eignar­hluta eða 164 hektara eigi K, bróðir G. Þá hafi E, systir sóknaraðila, fengið í arf frá afa sínum, I, samkvæmt erfða­skrá, 36,26 hektara. Samkvæmt þessu hafi M verið alls 364,26 ha (164 ha x 2 + 36,26 ha).

Landið sem sóknaraðili afsalaði til föður síns, 1/16 hluti jarðarinnar, hafi numið 22,77 hekturum. Eignarhluti sóknaraðila hafi hinsvegar verið bundinn við móðurarf hans, sem eins og að framan er rakið, hafi numið ¼ af 97 hekturum eða samtals 24,25 hekturum. Það sé mismunur þessara stærða 1,48 ha þ.e. 24,25 ha að frádregnum 22,77 ha sem sé krafa sóknaraðila.

Samkvæmt kaupsamningi G og A sonar hans, hafi G átt að greiða sóknaraðila gamlar kr. 600.000 (nýkr. 6.000) fyrir 1/16 hluta eignarhluta í M.

Þegar stærð landsins lá fyrir hafi G og dóttir hans E gert með sér land­skipta­gerð vegna móðurarfs hennar úr landinu, dags. 14. september 1995, og hafi nánar tilgreint landsvæði komið í hlut E.

Sóknaraðili kveður föður sinn hafa, eftir að stærð landsins hafði verið mæld, ávallt haft á orði að hann yrði að bæta sóknaraðila tilgreindan mismun. Þá kveður sóknar­aðili föður sinn hafa orðið enn eindregnari í þessari afstöðu sinni, þegar ljóst var söluverð á eignarhlut E, systur sóknaraðila, í M. E, seldi hluta af eignarhlut sínum (móðurarfi sínum) og arfi eftir afa sinn, I, svokallað N, fyrir alls kr. 36.132.000, þann 26. janúar 1996. E hélt eftir 3 ha sem hún seldi síðan í ágúst 2004, fyrir tæpar kr. 50.000.000.

Að sögn sóknaraðila urðu ýmsar breytingar til þess að ekkert hafi orðið úr eindregnum vilja G að bæta syni sínum bersýnilegt ranglæti sem hann hafi orðið fyrir við sölu á landinu til föður síns. Þegar samningur feðganna var gerður hafi sóknaraðili aðeins verið 22 ára gamall og hafi treyst föður sínum. Faðir hans hafi hins vegar kvænst ungri konu í árslok 1967, sem hafi fljótlega tekið stjórnina í sínar hendur. Hvað sem því líður hafi gamli maðurinn oft haft það á orði að hann þyrfti að bæta syni sínum, sóknaraðila máls þessa, þau augljósu rangindi sem hann hefði verið beittur. En breyttar aðstæður, ung kona og aðrir fjölskyldumeðlimir hafi tekið stjórn mála í sínar hendur og því hafi ekkert orðið úr fyrirætlun G.

Sóknaraðili vísar til þess að hann hafi ekki getað hugsað sér að þjarma með beinum eða óbeinum hætti að föður sínum þrátt fyrir að honum sviði sárt undan því að aðrir högnuðust með óréttmætum hætti á viðskiptum þeirra feðga. Jafnframt hafi hann lifað í þeirri von að faðir hans rétti hans hlut eins og ásetningur föður hans hafi staðið til.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi verið beittur bersýnilegri ósanngirni og verði það ekki leiðrétt auðgist varnaraðilar óeðlilega á hans kostnað.

Sóknaraðili byggir á framlögðum skjölum um stærð lóðar.

III

Varnaraðilar vísa til þess að eftir andlát G hafi H verið veitt heimild til setu í óskiptu búi, hinn 30. maí 2007. Hafi sóknaraðili vitað hverjar eignir búsins væru og hafi hann þegið fyrirframgreiddan arf úr búi föður síns skömmu eftir að H hafi fengið búsetuleyfið. Dánarbú G og H var tekið til opinberra skipta með úrskurði dags. hinn 21. september 2007. Sóknaraðili hafi fyrst komið með kröfur af þeim toga sem hann telji sig vera að sækja í þessu máli á skiptafundi 18. desember 2008. Hann hafi formlega fallið frá þessari kröfu í bréfi til skiptastjóra dags. 16. janúar 2009. Á skiptafundi í dánarbúinu hinn 12. maí 2009 hafi hann sett kröfu sína fram á ný

Varnaraðilar vísa til þess að eignir til skipta í dánarbúinu sem ágreiningur sé um í máli þessu séu annars vegar hlutafélagið O h.f., en hluthafar hafi verið tveir, hjónin G og H að 50 % hlut hvort. Hlutafélagið eigi meðal annars tæplega 1.5 hektara lands í M. Hins vegar söluandvirði einkahlutafélagsins P ehf., en þeir fjármunir séu í vörslu Kaupþings banka. Hluthafar og seljendur einkahlutafélags­ins hafi verið hjónin G og H að 50 % hlut hvort. 

Varnaraðilar benda jafnframt á að í landskiptagerð sem G og E systir sóknaraðila hafi gengið frá 14. september 1995 og þinglýst 6. október sama ár segi:  „.. G erfði sinn hlut eftir föður sinn en E eignaðist sinn hluta jarðarinnar með skiptayfirlýsingu dags. 25. 09. 1963....”

Yfirlýsing þessi sé ekki rétt. Ekki sé gerð grein fyrir því hvern hluta jarðarinnar M G erfði eftir móður sína, sem var sá hluti jarðarinnar sem hann átti er skipting á félagsbúi G og L fór fram við skilnað þeirra að borði og sæng [...]. I faðir G lést í mars 1963 eins og áður segir. Sú „skipta­yfir­lýsing” sem vitnað sé til í þessari landskiptagerð sé endurrit úr hjóna­skilnaðarbók Reykjavíkur dagsett 25. september 1961, sem sé bókun um skipti félagsbús við frágang skilnaðar foreldra E og A að borði og sæng. Hið þinglýsta endurrit sé hins vegar staðfest með áritun dags. 25. september 1963. Sé orðalag í landskipta­gerðinni einnig rangt að þessu leyti.

Eignir sem til skipta séu í dánarbúinu séu annars vegar hlutafélag og hins vegar söluandvirði einkahlutafélags. Um hlutafélög og einkahlutafélög gildi sérstök lög og sé hlutur í hlutafélagi ávísun á verðmæti. Í hvoru félagi hafi hjónin átt helming hlutafjár og verði þeim ráðstöfunum ekki rift. G og H hafi stofnað einkahlutafélagið P ehf., hinn 29. desember 2000.  Hinn 30. apríl 2002 hafi þau stofnað einkahlutafélagið O ehf., kt.  [...] og hafi notið við frágang málsins sérfræðiaðstoðar Deloitte Touche h.f. M hafi orðið eign einkahlutafélagsins að undanskildu íbúðarhúsinu og lóðinni í kringum það. Skráðir eigendur hlutafjár hafi verið G 50 % og H 50 %.

Varnaraðilar byggja kröfu sína á því að G hafi greitt sóknaraðila, syni sínum að fullu eign hans í jörðinni M sbr. framlagðan kaupsamning þeirra feðga, afsal og bréf lögmanns sóknaraðila til skiptastjóra dags. 16. janúar 2009. Það sé almenn regla íslensks réttar að fullveðja mönnum sé rétt og heimilt að ráðstafa í lifanda lífi þeim eignum sínum, sem engin bönd hvíli á, þannig að bindandi sé. Hefði sóknaraðili hugsanlega átt kröfu á föður sinn, sem hann hafi þó aldrei átt, þá falli skuld eða aðrar kröfur, sem ekki hafi verið viðurkenndar eða heimtar með lögsókn innan þeirra tíma­tak­marka, er ákveðin voru í lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfu­réttinda, úr gildi fyrir fyrningu. 

G hafi alla tíð verið hæfur til þess að ráðstafa eignum sínum með þeim hætti sem hann gerði í lifanda lífi og hið sama gildi um sóknaraðila. Framlögð gögn sanni að uppgjör hafi farið fram í fullu samkomulagi á milli þeirra feðga fyrir réttum fjörutíu árum. Engin stoð sé fyrir fullyrðingum í greinargerð sóknaraðila um að það uppgjör hafi á einhvern veg verið ósanngjarnt. G hafi ekki haft neinn vilja til að mismuna börnum sínum E og A og hafi ekki gert það.

Mótmælt er fullyrðingum í greinargerð sóknaraðila að G hafi einhvern tíma talið uppgjör þeirra feðga ósanngjarnt. Hafi sóknar­aðili aldrei haft ástæðu til að ætla það enda hafi hann aldrei haft uppi kröfur gagnvart föður sínum í lifanda lífi hans varðandi þessi kaup.  G hafi öllum stundum verið hæfur til þess andlega að fjalla um fjárhagsmálefni sín með þeim hætti sem hann gerði. Um aldamótin hafi aðstæður verið þær að N hafi lengi verið til skoðunar hjá skipu­lags­yfirvöldum sem byggingarsvæði fyrir íbúðabyggð. Meðal annarra hafi byggingaraðilar haft áhuga á landinu. G hafi leitað sér ráðgjafar um stöðu sína í þessum efnum og hafi fengið þá ráðgjöf, sem flestir aðrir í hans stöðu í íslensku fjármála­umhverfi eins og það hafi þá verið, að stofna hlutafélag um fjár­ráðstafanir vegna skattalegrar meðferðar hugsanlegs söluandvirðis landsins. Hafi G sjálfur tekið allar lokaákvarðanir um fjárhagsmálefni sín. Bent er á að E, systir sóknaraðila, hafi verið þátttakandi í mörgum þeim ráðstöfunum sem félög þau sem hjónin stofnuðu áttu aðild að og gerðar voru í tengslum við fyrirhugað byggingarland á M vegna hagsmuna sinna sem landeigandi.

Varnaraðilar byggja á því að verulegur brestur sé á skýrleika í kröfugerð sóknaraðila og rökstuðningi fyrir kröfum hans í greinargerð, sem og gagnaframlagningu af hans hálfu. Útlistun á mælingum lands í eigu G og umfjöllun um eign E, systur sóknaraðila, í landinu og um landskiptagerð 1995 sé marklaus í þessu máli, sbr. framangreint og arftöku hennar á landi í M eftir afa sinn I, sem var veruleg. Þá hafi E selt land sitt á allt öðrum tíma í íslensku samfélagi en sóknar­aðili og sé sóknaraðila fullkunnugt um það. Fullyrðingum í greinargerð sóknaraðila um að varnaraðilar hafi auðgast á hans kostnað er alfarið mótmælt.

Varnaraðilar telja málarekstur sóknaraðila með öllu óskiljanlegan og vítaverðan og til þess eins fallinn að draga skiptameðferð dánarbúsins á langinn og valda öðrum erfingjum tjóni og örðugleikum. Málatilbúnaður hans sé ófullnægjandi með vísan til 1. mgr. d. liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, sbr. kröfugerð í greinargerð „... beri að úthluta honum fjárhæð sem svari til verðmætis 1.48 ha úr landi ....o.s.frv.,“ Það sé með öllu óljóst hver verðmæti sóknaraðili telur sig vera að sækja.

Þá sé málatilbúnaðurinn í vafasömum farvegi hvað varði aðild og fyrirsvar. Sóknar­aðili sé fyllilega upplýstur um að verðmæti þau sem til skipta séu í dánarbúinu í dag séu annars vegar hlutafélag sem var í helmingseigu hvors hinna látnu hjóna og hins vegar söluandvirði einkahlutafélags sem var í helmingseigu þeirra hvors um sig. 

Varnaraðilar vísa til XVII. kafla nr. 20/1991 um skipti dánarbúa og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. m.a. 1. mgr. 80. gr. Vísað er til laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, m.a. 1. mgr. 1. gr. Ennfremur til erfðalaga nr. 8/1962, erfðalaga nr. 42/1949, laga um réttindi og skyldur hjóna nr. 20/1923, laga um stofnun og slit hjúskapar nr. 39/1921 og hjúskaparlaga nr. 31/1993. Kröfu um máls­kostnað styðja varnaraðilar við 130. gr. laga og 131. gr. s.l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 131. gr.laga nr. 20/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutn­ings­þóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. Varnaraðilar séu ekki virðisauka­skatt­skyldar og sé þeim því nauðsynlegt að fá skattinn tildæmdan úr hendi sóknaraðila.

IV

Vitnið Q, [...], bar fyrir dómi að hann og G, faðir sóknaraðila, hefðu verið nágrannar. Vitnið hefði, sem verktaki, keypt möl úr M af þeim síðarnefnda. A, sonur G, sóknaraðili þessa máls, hefði starfað hjá fyrirtæki vitnisins um skeið. Vitnið og G hefðu átt allmikil samskipti á árum áður.

Vitnið kvaðst hafa átt allmörg samtöl við G á M um málefni A. A hafi, vegna skilnaðar við eiginkonu sína, lenti í slæmri fjárhags­legri stöðu og hafi G faðir hans hlaupið undir bagga með A með því að kaupa af honum land. A hafi alla tíð talið að hann hefði borið skarðan hlut frá borði við þessi viðskipti og hafi samtöl vitnisins og G, föður A, snúist um það og hafi G trúað vitninu fyrir ýmsu í þessu efni. Hann hafi meðal annars oft nefnt að hann vildi rétta hlut A nokkuð þar sem jarðakaupin hafi borið að við mjög þvingaðar aðstæður hjá A, þar sem hann hafi þá staðið í skilnaði. G hafi þó ekki treyst sér til að gera það á þessum tíma ef hann þyrfti að hlaupa síðar meir undir bagga með A og hafi viljað láta kyrrt liggja í nokkurn tíma. Síðan hafi ekkert orðið úr þessum fyrirætlunum hans. Taldi vitnið að ekkert hefði orðið úr því að G rétti hlut A þar sem A hafi þá verið giftur annarri konu og í því hjónabandi hafi verið nýir erfingjar og hafi G því ekki átt hægt um vik.

Erfitt sé að segja til um það hvort verðið hafi verið of lágt á þessum tíma en vitnið taldi vafa hafa leikið á því allt hafi verið rétt mælt. Landið hafi orðið mjög verðmætt síðar.

Vitnið R bar fyrir dómi að hann hefði fyrst hitt G, tengdaföður sinn og föður sóknaraðila, árið 1984. Vitnið kvaðst hafa aðstoðað G við ýmis fjárhagsmál í gegnum árin. Vitnið hafi vitað af fjárslitum G við fyrri eiginkonu sína og málum sem tengdust því uppgjöri en vitnið hafi aldrei rætt þau mál náið við G. Vitnið vissi að börnin áttu að fá hlut fyrri konu G í sinn hlut. Bar vitnið að G hafi rætt það að A hafi oft talað um að hann hefði átt að bera meira út býtum úr þessum viðskiptum en G hafi sagt vitninu að hann hafi látið A hafa það sem honum bar.

V

Varnaraðilar krefjast sýknu á þeim grundvelli að aðild málsins sé röng þar sem dánar­búið eigi ekkert land. Til skipta séu hlutafélag og söluandvirði annars hluta­félags. Það sé hlutafélagið sem eigi enn 1,5 hektara lands í M. Þar sem félagið sé ekki aðili að þessu máli beri að sýkna varnaraðila. Í málum sem þessum geta ekki aðrir átt aðild en dánarbúið sjálft, kröfuhafar þess og þeir sem eiga eða telja sig eiga tilkall til arfs úr dánarbúinu. Það hlutafélag sem er til skipta sem eign dánarbúsins, á vitaskuld ekki tilkall til arfs eða eigna úr dánarbúinu og getur því ekki átt neina aðild að þessu máli. Verður því ekki fallist á að aðildarskortur leiði til sýknu.

Varnaraðilar telja jafnframt að dómkröfum sóknaraðila sé áfátt þar sem hann krefjist ekki greiðslu á tilgreindri fjárhæð. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 80 gr. EML er unnt að krefjast viðurkenningar á réttindum án þess að þau réttindi hafi þá þegar verið metin til fjármuna.

Viðurkenningarkrafa sóknaraðila grundvallast á því að hann hafi við fjárslit milli foreldra sinna L og G eignast 1/2 hluta móður sinnar í landi M. Þennan hlut hafi hann, aðeins 22 ára, neyðst til að selja frá sér vegna fjárslita milli sín og þáverandi eiginkonu sinnar. Hafi orðið úr að faðir hans keypti af honum þennan eignarhluta. Hafi þessi viðskipti farið fram án þess að jörðin væri mæld. Mælingar á jörðinni árið 1995 hafi leitt í ljós að faðir sóknaraðila hafi erft 97 ha. eftir móður sína, J. Eignar­hlutfall sóknaraðila af því landi, hafi numið ¼ og hafi því verið 24,25 ha.

Mælingar á jörðinni árið 2007 hafi ennfremur leitt í ljós að faðir sóknaraðila hafi einvörðungu erft 67 ha eftir föður sinn I. Heildarflatarmál jarðar­innar, þegar með sé talið land sem I arfleiddi E, systur sóknaraðila, að, hafi numið 364,26 ha. Flatarmál sem samsvari 1/16 hluta þess lands sé 22,77 ha. Þar sem sóknaraðili hafi samkvæmt orðalagi afsals 1. maí 1972 selt föður sínum 1/16 hluta jarðarinnar, hafi hann einungis selt honum 22,77 ha. Sóknaraðili hafi hinsvegar erft eftir móður sína 24,25 ha. Hann hafi því ekki afsalað til föður síns 1,48 ha. af sínum móðurarfi og eigi því tilkall til endurgjalds sem samsvari þessu landi úr búinu.

Til stuðnings kröfu sinni hefur sóknaraðili lagt fram ýmis opinber skjöl um framsal eða afsal eignaréttar að landi sem tilheyrði jörðinni M. Eldri skjölin eru eðlilega því marki brennd að í þeim er tilgreint framsal á tilteknu hlutfalli af eignar­réttindum í landinu, sem var þá í óskiptri sameign, en ekki er tilgreind mæld stærð þess flatarmáls sem samsvarar viðkomandi hlutfalli. Í skiptagjörð frá 20. september 1949 sem gerð var í kjölfar andláts J kemur einvörðungu fram að G fái í sinn hlut: „…Jörðin M að 1/4…“. K bróðir hans fékk sömu hlutdeild en faðir þeirra, I, fékk hálfa jörðina. Jafnframt er tekið fram að jörðin öll sé „að fasteignamati“ 24.900.- kr.“ Ljóst er að ekki er verið að skipta flatarmáli jarðarinnar nákvæmlega heldur verðmæti hennar, sem á þessum tíma var verðmæti í krónum samkvæmt fasteignamati en áður tíðkaðist að meta verðmæti jarða í kúgildum.

Á sama hátt stendur í endurriti úr hjóna­skiln­að­arbók Reykjavíkur frá 25. september 1961 um fjárslit milli L og G að „…börnin eignist hálfa jörðina M I skuldlausa, en maðurinn heldur hinum helmingi jarðarinnar,   „ Þar sem G hafði ekki tekið neinn arf eftir föður sinn á þessum tíma verður ekki annað ráðið en þarna sé skipt milli G og barna hans þeirri hlutdeild í jörðinni sem hann erfði frá móður sinni 1949 og sú hlutdeild nefnd M I. Í þessum skilnaðar­samningi er hvorki vísað til nánar tilgreindrar stærðar flatarmáls né heldur kennileita á jörðinni sem afmarka þann hluta sem börnin fá og þann hluta sem maðurinn heldur, enda var það allt í óskiptri sameign. Þar sem þarna er skipt ¼ af heildarjörðinni og A og E fá ¼ hvort verður hlutdeild hvors um sig 1/16 hluti. Heimildarbréf þeirra fyrir eignarréttindum sínum er þessi skilnaðarsamningur G og L frá 25. sept. 1961 en endurrit hans er dags. 25. sept. 1963.

Þann 21. júní 1960 gera I og synir hans G og K landskiptagjörð um jörðina. Segir þar m.a. að I sé eigandi hálfrar jarðarinnar M. Ennfremur að G sé þinglýstur eigandi ¼ hluta M og K, „þinglýstur eigandi M II, sem er ¼ hluti hinnar upphaflegu jarðar M,…“ Samkvæmt landskiptagjörðinni fær hver um sig reiti sem eru afmarkaðir af kenni­leitum og punktum. Verður að viðurkenna að þeir punktar eru ekki allir hárnákvæmir. Til dæmis má taka þessa afmörkun: „Frá J ræður bein lína til norðausturs 126 m leið að M, sem er hæll í girðingunni. Í M beygja merkin hornrétt í suðaustur í N, sem er hæll 100m frá girðingunni…“ Er ljóst að feðgarnir eru ekki að eltast við hárnákvæma mælingu á hekturum heldur eru þeir með þessari skiptagjörð að skipta landinu þ.a. hver um sig fái í sinn hlut land sem samsvarar því hlutfalli af verðmæti jarðarinnar sem hver á en á þessum tíma var þarna búskapur. Þannig er fyrst skipt landi utan túns þar á meðal ónýtanlegu landi svo sem M sjálfu en síðan skipt landi innan túngirðingar enda má ljóst vera að 1 ha af ræktuðu túni er mun verðmætari fyrir búskap en 1 ha af berangri uppi á fellinu.

Með þessu voru afmarkaðir þeir reitir úr jörðinni sem tilheyrðu G og býlinu M I og þeir reitir sem tilheyrðu K og býlinu M II. Annað tilheyrði I föður þeirra. Jafnframt stendur í landskipta­gjörðinni: „Við undirritun þessa samnings ganga skipti þessi þegar í gildi, og hefir hver aðili fullan og óskoraðan rétt yfir því landi, er hann fær í sinn hlut, sé annars ekki getið í skiptagjörð þessari.“ Þessum skiptum var þinglýst 4. júlí 1960.

Með erfðaskrá dags. 7. nóvember 1960 skipti I sínu landi, helmingnum sem hann hélt eftir við andlát J konu sinnar, milli bræðranna G og K og E, dóttur G. Í erfðaskránni er ekki heldur tilgreint neitt flatarmál þess reits sem hvert þeirra fékk. Hinsvegar er land hvers um sig afmarkað af nánar tilgreindum kennileitum og vísað til uppdráttar Ásgeirs H. Karlssonar, sem er þó ekki lagður fram í málinu. I lést [...] og tóku þessi landsskipti þá gildi.

Þann 1. maí 1972 afsalar A „til G, M, eignarhluta mínum í jörðinni M, sem er 1/16 hluti jarðarinnar, sbr. heimildarbréf mitt dags. 25. september 1963.“ Heimildarbréf sóknaraðila hljóðar upp á að hann og systir hans skipti með sér hlut móður þeirra í „M I“. Í afsalinu stendur að eignarhlutinn sé „í óskiptri sameign með öðrum eigendum samkvæmt ofangreindri heimild.“ Þarna er vísað til þess að „býlið M I“ sé í óskiptri sameign systkinanna og föður þeirra en ekki að upphaflega jörðin M sé í óskiptri sameign enda var hún það ekki eftir skiptagjörðina sem þinglýst var 4. júlí 1960.

Eins og vísunin í afsalinu í heimildarbréfið sýnir er sóknaraðili, A, einvörð­ungu að afsala til föður síns því hlutfalli af verðmæti M I sem kom í hans hlut við skilnað G og L. Ráðstöfunarrétt yfir öðru verðmæti heildarjarðarinnar hafði hann ekki. Á þeim grundvelli er því hafnað að við skipti á dánarbúi G og H beri að úthluta honum fjárhæð sem svari til verðmætis 1,48 ha úr landi M.

Mælingar sem Sigurður Sigurðsson, verkfræðingur, gerir árið 1995 í tilefni af land­skipta­gerð G og E byggir hann á landskiptagjörðinni frá 1960 og uppdrætti Ásgeirs H. Karlssonar. Eins og áður hefur komið fram er tilgreining kennileita og viðmiðunarpunkta í landskiptagjörðinni ekki hárnákvæm vísindi enda var hvorki ástæða til þegar skjalið var samið né tækni fyrir hendi. Sigurður tekur það einnig fram í texta sem er á framlögðu, en óskýru, korti af eignar­hlutum E úr M I, að „Landeigendum að M I hafi verið gerð grein fyrir að þessi mælingaraðferð hafi vissar takmarkanir varðandi nákvæmni en ekki var óskað eftir að nákvæmari mælingar væru gerðar.“ Það er því afar vafasamt að beita nútíma­flatar­máls­mælingum og útreikningum út frá þeim aftur í tímann til að finna út hlutfalls­skiptingu á tímum þegar landi var ekki skipt og verðmæti þess ekki ákveðið einvörðungu eftir flatarmáli heldur fyrst og fremst eftir landgæðum. Verður þessi málsástæða því ekki talin breyta greindri niðurstöðu um að hafna kröfu sóknaraðila um úthlutun til hans úr dánarbúinu.

Sóknaraðili byggir seinni lið kröfu sinnar á því að það endurgjald sem faðir hans greiddi honum árið 1972 fyrir 1/16 hluta jarðarinnar hafi ekki verið sanngjarnt. Vel má vera að þessi viðskipti feðganna hafi borið að með þeim hætti að endurgjald fyrir hlutdeild sóknaraðila í M I, hefði verið hærra hefði verið hægt að selja hann á frjálsum markaði. Til sönnunar því að eitthvað kunni að hafa hallað á sóknaraðila í þessum viðskiptum hefur hann fært framburð vitnis, sem er fyrrum vinnuveitandi hans og vinur föður hans. Á móti hefur eiginmaður eins varnaraðila, sem aðstoðaði föður aðila við fjárhagsmálefni, borið um að faðir aðila hafi tjáð honum að sóknaraðili hafi fengið það sem honum bar. Framburður fyrrnefnda vitnisins er ekki vefengdur en til sönnunar slíkri kröfu verður að færa veigameiri sönnun­ar­gögn til dæmis matsgerð dómkvadds matsmanns. Kynni slík krafa einhvern tíma að hafa verið fyrir hendi er hún auk þess nú, 37 árum eftir útgáfu afsals, fallin niður fyrir fyrningu. Verður því einnig þessum hluta kröfu sóknaraðila hafnað.

Eftir atvikum verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðilum hverjum um sig 80.000 krónur í málskostnað.

Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er öllum kröfum sóknaraðila, A, í máli þessu

Sóknaraðili greiði varnaraðilunum, B, C og D, 80.000 krónum hverri um sig í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.