Hæstiréttur íslands
Mál nr. 569/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Tilhögun gæsluvarðhalds
|
|
Þriðjudaginn 1. september 2015. |
|
Nr. 569/2015.
|
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Guðmundur Þórir Steinþórsson saksóknarfulltrúi) gegn X (Helga Leifsdóttir hdl.) |
Kærumál. Tilhögun gæsluvarðhalds.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. ágúst 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. ágúst 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. september 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er einangrunarvist varðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með hinum kærða úrskurði var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi meðal annars á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með vísan til þeirra atriða sem rakin eru í úrskurðinum er fallist á að fullnægt sé skilyrðum b. liðar 1. mgr. 99. gr. laganna til að varnaraðila verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. ágúst 2015.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness að erlendum ríkisborgara, X, fd. [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. september 2015 klukkan 16:00 og að á tímabilinu verði honum gert að sæta einangrun.
Krafan er reist á a, b og c liðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála, sbr. b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/ 2008.
Lögregla telur að kærði sé undir grun um brot gegn 210., 244. gr., 248. gr. og 2. mgr. 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Kærði mótmælir kröfunni.
Í greinargerð lögreglu segir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum hafi frá júní sl. haft til rannsóknar mál er varði ætlaða refsiverða háttsemi kærða. Annars vegar ætluð fjársvik í farmiðakaupum en hins vegar ætlaðar vörslur og dreifing kærða á myndum og myndböndum sem sýni börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar þeirra mála samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 16. júní, 24. júní og 22. júlí sl. Þann 27. júlí sl. hafi Hæstiréttur Íslands hins vegar úrskurðað að kærði skyldi sæta farbanni til mánudagsins 17. ágúst nk.
Kærði hafi því gengið laus frá 27. júlí s.l. og frá þeim tíma hafi lögregla fengið fjölda tilkynninga um ætluð fjársvik kærða. Séu þau tilvik forsenda kröfu þessarar og hafi leitt til handtöku kærða hinn 12. ágúst sl. og kröfu lögreglustjóra um að honum yrði á ný gert að sæta gæsluvarðhaldi fram til dagsins í dag sem Héraðsdómur Reykjaness hafi fallist á.
Upphaf rannsóknar lögreglu á málefnum kærða megi rekja til þess að lögreglunni hafi borist tilkynning frá [...] um að kærði væri á leið hingað til lands og að farmiði hans hefði verið greiddur með illa fengnu greiðslukortanúmeri. Farmiðinn hafi verið bókaður í gegnum vef félagsins í ferðaleið með fluglegginn frá [...], 16. júní 2015 og til baka fluglegginn [...] 17. júní 2015. Greiðsla að fjárhæð 3526,95 GBP, eða 722.178 krónur, miðað við miðgengi Seðlabanka Íslands á kaupdegi, hafi verið innt af hendi á sama tíma í gegnum vef félagsins. Nemi áætlað tjón [...] í það minnsta sömu fjárhæð. Kærði hafi verið handtekinn á Keflavíkurflugvelli við komu hingað til lands hinn 16. júní 2015. Degi síðar, hinn 17. júní 2015, hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald sem fyrr segi. Hafi hann nú játað að hafa keypt umrædda farmiða með illa fengnu greiðslukortanúmeri og sé rannsókn þess máls lokið.
Við meðferð málsins hjá lögreglu hafi rannsókn farið fram á þeim tölvubúnaði sem kærði hafi haft meðferðis og hafi fjöldi flugbókana á vegum kærða og greiðslukortanúmer sem tilheyrðu öðrum aðilum fundist þar. Þá hafi umtalsvert magn skráa sem geyma myndir og myndbönd af börnum, mestmegnis ungum drengjum, í kynferðislegum athöfnum einnig fundist. Sé kærði undir rökstuddum grun um að hafa haft í vörslum sínum og til dreifingar þúsundir myndbanda og mynda sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt í skrám á hörðum diskum og s.k. tölvuskýjum (Dropbox). Í heild sé um að ræða 27 aðganga sem lögregla telur að kærði hafi haft umráð yfir og innihaldi slíkt efni. Lögregla hafi aðgengi að sex þeirra og sé skoðun á þeim langt á veg komin. Telji skrár sem innihalda slíkt efni á áttunda þúsund. Telji lögregla að mun meira magn af slíku efni sé að finna á þeim 21 aðgöngum sem eftir standi. Jafnframt hafi gögn fundist um það að kærði hafi dreift slíku efni til ótilgreindra aðila í spjallhópum á veraldarvefnum sem kynferðislegar kenndir hafa til barna. Sé rannsókn þessa máls á lokastigum en beðið sé tölvugagna frá Dropbox Inc. í gegnum bandarísku alríkislögregluna (FBI).
Undanfarnar vikur hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu haft til rannsóknar ætluð fjársvik kærða í fjölda tilvika frá þeim tíma sem honum hafi verið gert að sæta farbanni hinn 27. júlí eins og áður var rakið. Um sé að ræða pantanir á vöru og þjónustu með illa fengnum greiðslukortaupplýsingum. Kærði hafi verið handtekinn hinn 6. ágúst 2015 er hann hafi gert tilraun til að sækja muni sem greitt hafði verið fyrir með stolnum greiðslukortaupplýsingum. Hafi þá legið fyrir að kærði tengdist ætluðum fjársvikabrotum hjá versluninni A svo og B. Framburður kærða um þær pantani, sem gerðar hafi verið á veraldarvefnum, hafi verið á þá leið að erlendur aðili, C, hafi pantað vörur fyrir hann og sagt honum að sækja þær. Kærða hafi verið sleppt degi síðar, hinn 7. ágúst 2015, og hafi frá þeim tíma fjöldi áþekkra tilvika bæst við eins og fram komi í rannsóknargögnum. Hafi kærði verið handtekinn 12. ágúst 2015 á [...]. Þar hafi kærði bókað sig inn á hótelið undir nafni [...].
Eins og fram komi í rannsóknargögnum sé um að ræða fjölda tilvika þar sem pöntun sé gerð á veraldarvefnum fyrir vörum, einkum dýrum tölvubúnaði og þjónustu, t.a.m. dýrum dagsferðum í ferðaþjónustu, og loks eru til rannsóknar nokkur tilvik þar sem kærði sé grunaður um fjársvik, með því að hafa stungið af frá ógreiddum reikningum hjá hótelum í Reykjavík. Tekið skal fram að lögreglu eru enn að berast upplýsingar um ætluð fjársvik sem kærði er grunaður um aðild að.
Við rannsókn málsins hafi lögregla lagt hald á eina fartölvu, tvo Iphone farsíma og Ipad spjaldtölvu sem kærði hafi verið með undir höndum við handtöku. Hefur sá búnaður verið í tæknirannsókn, m.a. til að afla sönnunargagna um ætluð fjársvik kærða. Við þá rannsókn hafi enn bæst við tilvik sem snúi að ætluðum fjársvikum kærða svo og tilraunum til þeirra og séu þau yfir 30 talsins.
Síðan kærða hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi hafi jafnframt komið í ljós að hluti þeirra muna sem kærði hafði meðferðis við síðari handtöku, og fundist hafi við leit lögreglu, hafi verið stolið af ferðamönnum hér á landi í lok júlí á [...]. Um sé að ræða Macbook Pro fartölvu og Sony NEX-6 ljósmyndavél. Virðist kærði eða annar á hans vegum hafa eytt öllum gögnum úr tölvunni og sett upp nýtt stýrikerfi með sínum notendaupplýsingum. Lögregla rannsaki nú jafnframt innbrot í tölvukerfi gistiheimilisins og leiki grunur á að kærði hafi þar komist yfir fjölda kortanúmera frá ferðamönnum sem pantað höfðu gistingu þar. Hafi þau kortanúmer komið heim og saman við þau kortanúmer sem notuð hafi verið við kaup á varningi, sbr. það sem áður var rakið.
Rannsókn lögreglu hafi beinst að því að upplýsa um ferðir kærða frá því að hann losnaði úr gæsluvarðhaldi og þannig ná utan um ætluð brot hans hér á landi. Hafi lögregla unnið hörðum höndum að því að afla sönnunargagna varðandi framangreint, m.a. með rannsókn á tölvubúnaði þeim sem haldlagður hafi verið svo og gagnaöflun frá greiðslukortafyrirtækjum og söluaðilum hér á landi sem sé mjög mikil að umfangi. Þá virðast enn vera að bætast við ósóttar póstsendingar hjá flutningsfyrirtækjum hér á landi.
Framburður kærða um framangreind mál sé að mati lögreglu mjög ótrúverðugur og haldinn miklum ólíkindablæ. Hafi hann neitað aðkomu að framangreindum rannsóknartilvikum en sagt að téður vinur sinn erlendis hafi sent honum muni og látið senda honum varning. Þess skal getið hér að kærða hefur verið gert að sæta geðrannsókn og er sú rannsókn í gangi þegar þetta sé ritað.
Kærði sé að mati lögreglu undir sterkum rökstuddum grun um að hafa á þeim rúmlega tveimur vikum sem hann hafi verið í farbanni náð að svíkja út vörur og þjónustu og hárrar fjárhæðar hér á landi.
Samkvæmt því sem að framan hafi verið rakið telji lögreglustjóri fram kominn rökstuddan grun um að kærði hafi með háttsemi sinni gerst sekur um brot á annars vegar 244. gr., 248. gr. og 249. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem við liggi allt að sex ára fangelsi og hins vegar 210. gr. a. sömu laga, sem við liggi allt að tveggja ára fangelsi. Að mati lögreglustjóra sé sýnt að þau brot sem kærði sé sakaður um muni ekki hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna refsingu miðað við aðstæður og að lengd þess gæsluvarðhalds sem krafist er að kærða verði gert að sæta sé ekki lengri en sýnt þyki að fangelsisrefsing verði dæmd. Byggi sú afstaða annars vegar á réttarframkvæmd um viðlíka brot og hins vegar á þeim upplýsingum sem borist hafa um þau brot sem kærði hafi verið dæmdur fyrir á Bretlandseyjum, sem lögreglustjóri ætli að verði til refsiþyngingar, verði kærði sakfelldur fyrir þau brot sem hann er sakaður um.
Af framansögðu telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til rannsóknar og meðferðar hjá lögreglu. Vísist einkum í það sem áður hefur verið rakið, þ.e. að kærði hafi við fyrsta tækifæri haldið brotastarfsemi sinni áfram. Telji lögregla þannig að skilyrði a liðar 1. mgr. 95. sakamálalaga séu uppfyllt þar sem kærði sé undir rökstuddum grun um brot sem fangelsisrefsing er lögð við.
Sé rannsókn lögreglu nú í fullum gangi og telji lögregla raunverulega hættu á að kærði kunni að torvalda rannsókn málsins, m.a. með því að koma undan sönnunargögnum, s.s. viðskiptafærslum vegna kaupa á vörum og þjónustu sem kunni að hafa verið greitt fyrir með stolnum eða illa fengnum greiðslukortaupplýsingum og munum sem greitt hafi verið fyrir með stolnum eða illa fengnum greiðslukortaupplýsingum. Vegna þessa telji lögregla brýnt, vegna rannsóknarhagsmuna í lögreglumáli að lögregla fái svigrúm til að rannsaka og tryggja varðaveislu gagna á rafrænu formi. Telji lögregla mikla hættu á því að kærði kunni að eyða sönnunargögnum, einkum á rafrænu formi, fái hann tækifæri til þess, hafi hann t.d. aðgang að tölvu. Eins og fram hafi komið áður séu enn að bætast við rannsóknartilvik sem auðvelt sé að spilla sakargögnum í. Þess sé því jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, sbr. b lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Framangreindu til viðbótar telji lögregla að mikil hætta sé á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast og koma sér þannig undan málsókn eða fullnustu refsingar, gangi hann laus. Er á það bent að kærði, sem sé erlendur ríkisborgari, virðist ekki eiga nein tengsl við landið önnur en að ætluð brot hans séu til rannsóknar hér á landi. Þannig sé skilyrðum b liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála einnig fullnægt.
Jafnframt telji lögregla að skilyrðum c liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé fullnægt í málinu, þ.e. að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum á meðan máli hans er ekki lokið hér á landi. Í þessu sambandi bendi lögregla á að kærði eigi sér nokkra sögu fjársvika erlendis. Þá sé kærði undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið fjársvik hér á landi og hafa haft í vörslum sínum barnaklám. Þá liggi ennfremur fyrir að kærði sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið fjársvik hér á landi frá því honum var gert að sæta farbanni. Kærði sé því að mati lögreglu vanaafbrotamaður sem láti sér ekki segjast og hafi sýnt það í verki að hann hafi og muni halda brotum sínum áfram verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi á nýjan leik. Því sé nauðsynlegt að svipta kærða frelsi sínu á nýjan leik.
Eins og að framan er rakið sat kærði í gæsluvarðhaldi frá 17. júní sl. til 27. júlí sl. vegna brota sem lokið er rannsókn á. Kærði hóf brotastarfsemi á ný eftir að hann var laus úr gæluvarðhaldi 27. júlí og eru þau mál nú til rannsóknar hjá lögreglu. Af þeim sökum var hann úrskurðaður á ný í gæluvarðhald 13. ágúst sl. Með vísan til alls framanritaðs svo og gagna málsins er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem fangelsisrefsing liggur við. Ljóst er af því sem að framan er rakið, sem og rannsóknargögnum lögreglu, að rannsókn málsins er hvergi nærri lokið. Rannsóknin er tiltölulega viðamikil og er eftir að afla frekari gagna erlendis frá. Að því gættu verður að fallast á það með lögreglustjóra að gangi kærði laus megi ætla að hann kunni að torvelda rannsókn málsins svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á samseka eða vitni. Skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru því uppfyllt í málinu. Þá liggur fyrir að kærði er erlendur ríkisborgari sem engin tengsl hefur við Ísland svo vitað sé. Má ætla að kærði muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér undan málssókn með öðrum hætti fari hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt því telst einnig fullnægt skilyrðum b liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Þá telur dómurinn að skilyrði c liður 1. mgr. 95. gr. sé einnig uppfyllt svo og skilyrði b liðar 1. mgr. 99. gr. til þess að kærði sæti einangrun.
Samkvæmt framansögðu verður krafa lögreglustjórans tekin til greina eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, fd. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 10. september nk. kl. 16:00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.