Hæstiréttur íslands

Mál nr. 187/2008


Lykilorð

  • Ættleiðing
  • Lagaskil


                                     

Fimmtudaginn 20. nóvember 2008.

Nr. 187/2008.

X

(Jón Einar Jakobsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.

 Skarphéðinn Pétursson hdl.)

 

Ættleiðing. Lagaskil.

X krafðist þess að felldir yrðu úr gildi tveir úrskurðir dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þar sem synjað var umsókn hans um leyfi til að ættleiða stjúpdætur sínar A og B. Talið var að sú málsástæða X um að ráðuneytið hefði brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins væri of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Þá var ekki talið að ákvæði reglugerðar um fimm ára sambúðartíma foreldris og umsækjanda skorti lagastoð, né að slíkri reglu hefði verið beitt afturvirkt um umsókn X. Með lögum nr. 69/2006 hafði 41. gr. ættleiðingarlaga verið breytt á þann veg að ráðherra hefði verið heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði sem umsækjendur þyrftu að uppfylla við ættleiðingu. Þar sem þessi breyting hafði tekið gildi þegar ráðuneytið afgreiddi umsókn X og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu íslenska ríkisins staðfest. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. apríl 2008 og krefst þess að felldir verði úr gildi tveir úrskurðir dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 18. október 2006, þar sem synjað var umsókn hans um leyfi til að ættleiða stjúpdætur sínar, A og B. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

Í munnlegum málflutningi fyrir Hæstarétti lagði áfrýjandi áherslu á að stefndi hefði brotið rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að hafa ekki nægilega leitað umsagnar kynföður barnanna í Svíþjóð um umsókn áfrýjanda um ættleiðingu þeirra, sbr. 11. gr. laga nr. 130/1999 um ættleiðingar. Þessi málsástæða var fyrst höfð uppi við munnlegan málflutning í héraði og þá mótmælt af stefnda sem of seint fram kominni. Þar sem hún komst ekki að í héraði verður heldur ekki byggt á henni fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Áfrýjandi byggir á því að reglu um fimm ára sambúðartíma hjóna sé ekki að finna í lögum nr. 130/1999, enda séu í I. kafla þeirra tæmandi talin skilyrði til ættleiðingar. Ákvæði 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 238/2005 um ættleiðingar, sem áskilji að umsækjandi um stjúpættleiðingu hafi sannanlega verið í samfelldri sambúð með foreldri barns í að minnsta kosti fimm ár, hafi skort lagastoð og hafi stefndi oftúlkað 9. gr. laga nr. 69/2006, sem breytt hafi 41. gr. laga nr. 130/1999, og nefnd 9. gr. geti ekki haft afturvirk áhrif, þar sem umsókn áfrýjanda hafi þegar legið fyrir hjá stefnda áður en lög nr. 69/2006 tóku gildi.

Með 9. gr. laga nr. 69/2006, sem tóku gildi 30. júní 2006, var bætt aftan við 41. gr. laga nr. 130/1999, sem heimilaði ráðherra að setja nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í reglugerð, orðunum „þar á meðal um þau skilyrði sem umsækjendur þurfa að uppfylla.“ Þegar úrskurðir stefnda voru kveðnir upp 18. október sama ár var 41. gr. svo orðuð því í gildi og stefnda bar að fara þá að gildandi lögum. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, X, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. janúar 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 27. nóvember sl., var höfðað 20. nóvember 2006 af X, heimilisfang [...], gegn íslenska ríkinu, Skuggasundi 3, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að tveir úrskurðir dómsmálaráðuneytis frá 18. október 2006, þar sem umsókn stefnanda um leyfi til að ættleiða stjúpdætur sínar, A og B, var synjað, verði felldir úr gildi. Einnig er krafist máls­­­kostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda auk virðisaukaskatts að mati dómsins.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara er þess krafist að málskostnaður verði látinn falla niður.

Stefnandi krafðist jafnframt viðurkenningar á því að hann ætti rétt á að fá að ættleiða stjúpdætur sínar en þeirri kröfu var vísað frá dóminum með úrskurði 4. maí sl. þegar leyst var úr kröfu stefnda um að málinu yrði vísað frá dómi.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi sótti um leyfi dómsmálaráðuneytisins til að ættleiða tvær stjúpdætur sínar með umsóknum 22. júlí 2005. Umsóknunum var synjað með úrskurðum ráðuneytisins 18. októ­ber sama ár þar sem vísað er til þess að ekki verði komist hjá því að synja um­sóknum stefnenda þar sem skilyrði 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 238/2005 um ætt­leið­ingar sé ekki uppfyllt. Í reglugerðarákvæðinu segir að þegar umsókn um stjúp­ættleið­ingu sé lögð fram skuli umsækjandi sannanlega hafa verið í samfelldri sambúð með for­eldri eða kjör­foreldri barns í að minnsta kosti fimm ár. Fram hefur komið að stefn­andi og móðir stúlknanna hafi verið í sambúð frá janúar 2004 en þau gengu í hjúskap 2. júlí það ár.

Krafa stefnanda um að úrskurðir ráðuneytisins verði felldir úr gildi er byggð á því að þeir séu ólögmætir. Stefnandi vísar til þess að synjun ráðuneytisins byggðist á því að hann uppfyllti ekki skilyrði samkvæmt reglugerðarákvæðinu um sambúðartíma til að fá umbeðin leyfi. Stefnandi heldur því fram að þetta ákvæði skorti nægilega laga­stoð. Enn fremur séu úr­skurð­­irnir byggðir á röngum forsendum en þar komi fram misskilningur á röksemdum stefnanda. Loks vísar stefnandi til þess að hvorki hafi verið gætt sam­ræmis né jafnræðis í lagalegu tilliti þegar stefnanda var synjað um um­beðin ætt­leiðingarleyfi. Meðalhófsreglu stjórnsýslulaga hafi heldur ekki verið gætt.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að lagastoð skorti fyrir umræddu reglugerðar­ákvæði um sambúðartíma. Einnig er staðhæfingum stefnanda um ólögmæti úrskurð­anna mótmælt svo og röksemdum og sjónarmiðum sem stefnandi færir fyrir þeim.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar til þess að dómsmálaráðuneytinu hafi borist umsókn hans um leyfi til að ættleiða tvær dætur eiginkonu sinnar 22. júní 2005. Báðar dæturnar séu til heimilis að [...] þar sem þær lúti forsjá hjónanna, sbr. 3. mgr. 29. gr. laga nr. 76/2003.

Ráðuneytið hafi synjað um leyfin með tveimur úrskurðum 18. október 2006, en þeir hafi borist stefnanda 23. sama mánaðar. Úrskurðirnir séu nákvæmlega eins að allri gerð og rökstuðningur fyrir synjun hinn sami. Því sé höfðað eitt mál vegna þeirra, enda aðilar einnig hinir sömu.

Stefnandi vísi til þess að hann hafi frá unga aldri stundað íþróttir og heilbrigt líferni með öflugum stuðningi og uppeldi góðrar fjölskyldu í Keflavík ásamt tveimur bræðrum. Hann sé mjög vel menntaður með M.sc. prófgráðu í rekstrarverkfræði frá Álaborgar­háskóla, próf í iðnrekstrarfræði af útgerðarsviði frá Tækniskóla Íslands og fiskiðnaðarmannspróf frá Fiskvinnsluskóla Íslands. Jafnframt hafi hann hlotið góða reynslu af störfum til sjós og lands. Að loknu námi hafi honum ungum verið trúað fyrir erfiðum ábyrgðarstörfum. Hann hafi snemma hafið afskipti af félagsmálum og tekið virkan þátt í slíkum störfum til þessa dags. Áhugamál hans utan vinnutíma snúi að heilbrigðu líferni, svo sem útiveru, skíðaiðkun, golfi, hestamennsku og ferðalögum. Efnahagur stefnanda sé með ágætum.

Stefnandi hafi annast börnin frá janúar 2004 af kostgæfni, alúð og ást, enda hafi hann hlotið jákvæða umsögn barnaverndarnefndar, sem mælt hafi með að honum yrðu veitt umbeðin leyfi. Í umsögnum lækna og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins komi fram að eldri stúlkan hafi ríka þörf fyrir sérstaklega krefjandi umönnun vegna sjúkdóms síns og fötlunar. Slíka umönnun hafi stefnandi veitt henni af stakri kostgæfni, þolinmæði og ástúð. Niðurstaða barnaverndarnefndar hafi verið að stefn­andi sé vel hæfur til að taka að sér föðurhlutverkið við uppeldi stúlkn­anna og mæli með því að umsókn hans verði afgreidd samkvæmt ósk þeirra hjóna. Ættleiðingin sé einnig einlægur og eindreginn vilji eiginkonu hans og móður barnanna og hafi hún stutt umsókn hans í hvívetna.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, m.a. af hálfu dómsmálaráðuneytis, hafi ekki tekist að ná til kynföður barnanna sem sé sænskur ríkisborgari. Úrskurðir ráðuneytis hafi því verið kveðnir upp án þess að fyrir lægi formleg umsögn hans, sbr. 11. gr. laga nr. 130/1999, að öðru leyti en því að móðirin hafi borið að hann hefði sjálfur vakið máls á að stefnandi ættleiddi börnin. Hagur og aðstæður kynföður séu erfiðar og jafnframt hafi viðhorf hans til barnanna einkennst af afskipta- og áhugaleysi um hag þeirra og velferð. Hann hafi aðeins einu sinni, þ.e. í apríl 2005, sýnt áhuga á umgengni við þau, allt frá í september 2003, en hann hafi hætt fljótlega við þær óskir þar eð hann hefði ráðið sig í vinnu.

Kröfur stefnanda byggðust á því að hann hafi uppfyllt öll skilyrði ættleiðingar­laga til að fá ættleiðingarleyfi samkvæmt umsókn sinni. Hagur og velferð barnanna sé þá fyrst og fremst höfð að leiðarljósi og sé meðal annars lögð sérstök áhersla á aðstæður B og þá umönnun sem hún þurfi á að halda sem stefnandi sé fús og fær um að veita henni.

Úrskurðir dómsmálaráðuneytis virtust byggðir á eftir­farandi rökum:

Í fyrsta lagi á því að skilyrði samkvæmt 3. mg. 10. gr. reglu­gerðar nr. 238/2005 um fimm ára sambúðartíma sé ekki uppfyllt. Hjónin hafi hafið sambúð í janúar 2004.  Reglugerðin hafi verið undirrituð 28. febrúar 2005 og henni ætlað að taka gildi við birtingu. Reglugerð um ættleiðingar, annarra barna en erlendis, hafi ekki verið fyrir hendi áður. Stefnandi líti svo á að skilyrði, sem dómsmála­ráðuneytið setji sjálft í framangreinda reglugerð um sambúðartíma, eigi sér ekki næga lagastoð. Ekkert slíkt skilyrði sé í lögum um ættleiðingar. Lög nr. 69/2006 frá 13. júní 2006, þar sem 41. gr. laga nr. 130/1999 hafi verið breytt á þann veg að ráðherra væri heimilað að setja reglugerðarákvæði um þau skilyrði sem umsækjendur þurfi að upp­fylla samkvæmt ættleiðingarlögum, hafi ekki verið í gildi við afhendingu umsóknar til ráðuneytisins. Stefnandi telji þau því ekki koma til álita við ákvörðun um leyfis­umsókn hans, sbr. grundvallarreglur um afturvirkni laga.

Stefnandi telji jafnframt að ákvæði 9. gr. breytingalaga nr. 69/2006 sé oftúlkað af ráðuneytinu. Ætlun löggjafans hafi ekki verið að setja ný eða aukin skilyrði með reglugerð, en jafnvel þótt sú væri raunin, væri um að ræða óhóflegt og ólögmætt fram­sal á löggjafarvaldi, sbr. m.a. 2. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Loks sé eðli­legra að líta svo á með gagnályktun að talið hafi verið skorta á lögfestingu skilyrðis um lengd sambúðartíma, en ekki verið „að hnykkja á“ slíku skilyrði, eins og orðað sé í úrskurðum ráðuneytis. Stefnandi skírskoti til 60. gr. stjórnarskrárinnar.

Í öðru lagi væru úrskurðirnir byggðir á því að af rökstuðningi með umsókn stefnanda um ættleiðingu mætti ráða að umsækjandi leitaðist við að koma í veg fyrir umgengnisrétt kynföður samkvæmt barnalögum nr. 76/2003, sbr. m.a. 1. gr. 5. mgr. 28. gr. og 1. og 2. mgr. 46. gr. þeirra laga. Hér sé um grundvallarmisskilning ráðuneytisins að ræða á rökum stefnanda fyrir umsókninni og hafi ráðuneytið því byggt synjun sína á röngum forsendum. Þvert á móti sé stefnandi fylgjandi sambandi og umgengni við kynföður „enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess“, eins og barna­lög mæli fyrir um, sbr. m.a. 46. gr. laga nr. 76/2003. Frásögn hjónanna um afskipta- og áhugaleysi kynföður gagnvart börnunum hafi verið sett fram til að sýna augljósa og enn brýnni þörf en ella til að börnunum yrði tryggður réttur kjörbarns á hendur kjörforeldri. Í bréfi þeirra til ráðuneytis 9. september 2006 komi skýrt fram að ástæður fyrir umsóknunum sé fyrst og fremst ást og umhyggja fyrir börnunum.

Í þriðja lagi beri stjórnvöldum að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn ættleiðingamála. Fortakslaust ákvæði um lengd sambúðartíma komi í veg fyrir að því höfuðmarkmiði ættleiðingar- og barnalaga verði náð að hagur barnanna verði fyrst og fremst hafður að leiðarljósi við útgáfu ættleiðingarleyfis. Jafnræðisreglu laga beri einmitt að beita á þann hátt að börn séu jafnsett við úrlausn leyfis án tillits til sambúðartíma foreldra. Sjálfstætt mat beri að leggja á hvert mál fyrir sig, allt eftir því hvernig það sé vaxið, og að almenn skilyrði ættleiðingarlaga séu fullnægjandi sem laga­grundvöllur. Verklagsreglur megi ekki takmarka meginregluna um skyldubundið mat stjórnvalda. Stefnandi telji að meðalhófsreglu stjórnsýslulaga hafi ekki verið gætt við úrlausn ráðuneytis.

Loks sé nefnt í niðurstöðum úrskurðanna að ekki liggi fyrir umsögn kynföður.  Ráðuneytið hafi talið rétt að kveða upp fyrirliggjandi úrskurði eins og atvikum var háttað án slíkrar umsagnar og taki stefnandi undir það sjónarmið.

Málið sé höfðað með heimild og skírskotun í 1. mgr. 24. gr. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Enn fremur vísi stefnandi til 2. gr., 27. gr., 60. gr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár. Vísað sé til laga nr. 64/1943, einkum 7. gr. um birtingu laga, barna­laga nr. 76/2003, ættleiðingarlaga nr. 130/1999, einkum þeirra er gilt hafi við af­hend­ingu um­sóknar, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10. til 12. gr., dómvenja og ólögfestra grunnreglna í íslenskum rétti. Krafa um máls­kostnað sé reist á 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á lögum nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur. Varnarþing sé heimilis­varnar­­þing stefnda.

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er vísað til þess að stefnandi reisi kröfur sínar í málinu á því að hann hafi uppfyllt öll skilyrði ættleiðingarlaga til að fá ættleiðingarleyfi samkvæmt umsókn sinni. Hann haldi því fram að skilyrði um fimm ára sambúðartíma við stjúp­ættleiðingar í 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 238/2005 um ættleiðingu skorti lagastoð í ættleiðingarlögum. Jafnræðisregla eigi að leiða til þess að börn séu jafnsett án tillits til sambúðartíma foreldra og geti verklagsreglur ekki takmarkað skyldubundið mat stjórnvalda. Meðalhófsreglu hafi ekki verið gætt við úrlausn ráðuneytisins. Þá hafi synjun ráðuneytisins verið reist á röngum forsendum um að ástæður umsóknar um ættleiðingu væru að koma í veg fyrir lögvarinn umgengnisrétt föður. Þau rök hafi verið sett fram af hálfu stefnanda til að sýna augljósa og brýna þörf barnanna fyrir að þeim yrði tryggður réttur kjörbarns gagnvart kjörforeldri. Af hálfu stefnda sé öllum þessum sjónarmiðum og kröfum á þeim reistum eindregið vísað á bug.

Umsóknir stefnanda um að ættleiða stjúpdætur sínar hafi borist ráðu­neytinu 22. júlí 2005. Um meðferð umsóknanna og úrlausn um þær hafi gilt ákvæði ættleið­ingarlaga nr. 130/1999 og reglugerð nr. 238/2005 um ættleiðingu sem tekið hafi gildi 1. mars sama ár.

Úrskurðir ráðuneytisins hafi í hvívetna verið í samræmi við lög. Samkvæmt 4. gr. ættleiðingarlaga sé það grunnskilyrði fyrir veitingu ættleiðingarleyfis að ættleiðing sé barninu sem í hlut á fyrir bestu. Málið hafi hlotið vandaðan undirbúning og úrlausn í samræmi við ættleiðingarlög og stjórnsýslulög. Rannsóknarskyldu hafi verið gætt og niðurstaðan byggð á jafnræðissjónarmiðum og málefnalegum forsendum. Að virtum öllum aðstæðum í málinu hafi mat ráðuneytisins verið að eins og á stæði væri ætt­leiðing börnunum ekki fyrir bestu og það hafi synjað umsóknunum með rökstuddum úrskurði samkvæmt 20. gr. ættleiðingarlaga. Sú niðurstaða hafi í einu og öllu verið að lögum.

Ættleiðing sé hvorki lögvarinn réttur ættleiðanda né þess er verði ættleiddur, heldur háð leyfisveitingu stjórnvalds byggðri á mati á öllum aðstæðum. Ættleiðing sé örlagaríkur gerningur, þar sem lagastaða þess sem ættleiddur verði, sé ákveðin til frambúðar með fjölskylduskiptum. Í lögum væri tryggður réttur barns til að þekkja foreldra sína og viðhalda sambandi við þá, sbr. t.d. barnalög nr. 76/2003. Með ættleiðingu sé af hálfu stjórnvalda skorið á þessi tengsl og foreldri svipt möguleikum á að neyta lagalegra úrræða til að stofna og viðhalda lagalegum tengslum og umgengni. Að gildandi lögum sé niðurfelling ættleiðingar ekki möguleg. Það sé því brýnt, þegar ákvörðun er tekin um að veita ættleiðingarleyfi, að ekki leiki vafi á því að ættleiðing sé barni fyrir bestu. Í ættleiðingarlögum og reglugerð settri samkvæmt þeim séu reglur um meðferð ættleiðingarmála og skilyrði sem ætlað er að tryggja það.

Staðhæfingum stefnanda þess efnis að ákvæði 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 238/2005 um fimm ára sambúðartíma skorti lagastoð og að um sé að ræða afturvirka reglu sé eindregið vísað á bug.

Meðal þeirra skilyrða sem lögin hvíli á og setji ættleiðendum sé að heimili þeirra sé heppilegur uppeldisvettvangur og samband makanna sé traust og hafi staðið nokkurn tíma. Þannig geti hjón, einstaklingar í staðfestri sambúð eða einstaklingar, sem hafi verið í óvígðri sambúð í a.m.k. fimm ár, orðið ættleiðendur samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna. Í 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 238/2005 sé við stjúpættleiðingar miðað við að sambúð, þar með talið í hjónabandi, hafi staðið samfellt í a.m.k. fimm ár og hvíli sú regla á þeim rökum að samband foreldris og stjúpforeldris verði að vera álitið traust og varanlegt áður en til álita komi að rjúfa lagatengsl barns við hitt foreldrið. Reglan hafi verið sett til að tryggja hagsmuni barnsins sem í hlut eigi. Reglan sé almenn og málefnaleg og nái til allra sem standi í þessum sporum og sé hún til þess fallin að stuðla að jafnræði við úrlausn ættleiðingaumsókna.

Reglu um fimm ára sambúðartíma við stjúpættleiðingar hefði lengi verið fylgt í framkvæmd áður en hún var sett í reglugerð og síðast hafi hana verið að finna í leið­beiningum fyrir barnverndarnefndir varðandi umsagnir í ættleiðingarmálum sem dóms­mála­­ráðuneytið hafi gefið út í nóvember 1998. Við setningu laganna hafi verið gengið út frá því að í gildi væru og settar yrðu verklagsreglur um ýmis atriði er tengdust framkvæmd laganna, sbr. t.d. athugasemdir við 5. gr. og að dómsmálaráð­herra gæti sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna í reglugerð, sbr. 41. gr. laganna. Í 3. mgr. 16. gr. laganna hafi sérstaklega verið kveðið á um það að dómsmála­ráðuneytið skyldi setja reglugerð um gerð umsagna barnaverndarnefnda og hafi til­gangur þess ákvæðis verið að framangreindar leiðbeiningar yrðu endurnýjaðar og settar í formi reglugerðar, eins og gert hafi verið með reglugerð nr. 238/2005. Sjónarmið sem stefnandi tefli fram, um að reglugerðarákvæðið skorti lagastoð, afturvirkni þess eða um ólögmætt framsal löggjafarvalds, fái því ekki á nokkurn hátt staðist.

Þá fái heldur ekki staðist sjónarmið stefnanda um ágalla á úrskurðunum tengdu skyldu­bundu mati stjórnvalds, meðalhófsreglu eða um rangar forsendur við úrlausn á um­sóknum stefnanda. Fyrir liggi af bréfi stefnanda og konu hans 9. september 2005 að rök þeirra fyrir nauðsyn ættleiðingar væru samskipti við kynföður og atvik, sem hafi hafist þegar hann óskaði eftir umgengni við börnin, sem honum hafi verið synjað um, og hann hafi í kjölfarið leitað aðstoðar sænsks lögfræðings.

Af hálfu ráðuneytisins hafi verið farið vandlega yfir málið, m.a. með tilliti til þess hvort atvik kynnu að vera þannig vaxin, að krafa um fimm ára samfellda sambúð gengi á einhvern hátt gegn hagsmunum barnanna og sé sérstaklega tekið fram í úrskurðunum, að virtum öllum aðstæðum og atvikum, að ekkert hafi komið fram sem réttlæti að vikið væri frá þeirri reglu.

Er úrskurðir ráðuneytisins voru kveðnir upp hafi yngra barnið verið rúmlega fimm ára en hið eldra tæplega átta ára. Samkvæmt breytingaskrá Þjóðskrár hafði móðir þeirra flust til Svíþjóðar í árslok 1997 og voru bæði börnin fædd þar og uppalin þar til hún fluttist aftur til Íslands í september 2003.

Í 3. mgr. 6. gr. laganna sé kveðið á um að ef ættleiða eigi barn yngra en tólf ára skuli ræða við það á vegum barnaverndarnefndar, sem í hlut eigi, og leita eftir afstöðu þess til fyrirhugaðrar ættleiðingar, ef slíkt þyki gerlegt miðað við aldur þess og þroska. Þá skuli samkvæmt 11. gr. leita umsagnar þess foreldris, sem ekki fari með forsjá barns, ef unnt er, áður en afstaða er tekin til ættleiðingarumsóknar. Í málinu hafi ekki tekist, þrátt fyrir ítrekaða tilraun, að kynna föður umsókn um ættleiðingu. Bréf hafi í tvígang verið send á heimilisfang hans í Svíþjóð sem stefnandi hafi gefið upp og bæði hafi verið endursend þar sem viðkomandi þekktist ekki á því heimilisfangi. Þannig hafi ekki tekist að fá fram afstöðu hans til umsóknanna. Um árabil hafi sú framkvæmd verið tíðkuð að fallast ekki á ættleiðingu ef forsjárlaust foreldri lýsti sig mótfallið ættleiðingu, a.m.k. ekki fyrr en barn hefði náð 12 ára aldri og óski sjálft eindregið eftir að ættleiðing fari fram, nema ríkar ástæður krefðust þess.

Að mati ráðuneytisins hafi ættleiðing ekki verið nauðsynleg til að tryggja börnunum gott og öruggt heimili hjá móður og stjúpföður sínum, stefnanda sem fari lögum samkvæmt með forsjá þeirra ásamt móður þeirra. Þau hafi myndað tengsl við hann og sé ættleiðing ekki nauðsynleg til að hann geti sinnt forsjárskyldum sínum eða annist þau áfram sem hingað til af kostgæfni, alúð og ást. Ættleiðing hefði fyrst og fremst gerbreytt réttarstöðu barnanna og fellt niður rétt þeirra samkvæmt barnalögum til að viðhalda sambandi við föður og föðurfjölskyldu. Í bréfi stefnanda hafi verið gefið í skyn án gagna, að kynfaðir væri óreglumaður og óskir hans um umgengni og mála­tilbúnaður hans í því sambandi gæti verið börnunum skaðleg. Ekkert hafi legið fyrir um það. Í barnalögum sé gert ráð fyrir úrræðum í slíkum tilvikum með heimild til að takmarka eða fella niður umgengnisrétt ef umgengni er andstæð hag og þörfum barns að mati dómstóls eða lögmælts stjórnvalds, sbr. 5. mgr. 28. gr. og 7. mgr. 47. gr. laga nr. 76/2003. Ekkert liggi fyrir er staðfesti að börnin hlytu tjón af því þó ættleiðingu væri slegið á frest eða hagsmunum þeirra væri á neinn hátt teflt í tvísýnu með því að það væri gert.

Það sé grunnregla í barnarétti að barn eigi rétt á að þekkja báða foreldra sína og rétt til að umgangast foreldri, sem það búi ekki hjá, sbr. m.a. 1. gr., 5. mgr. 28. gr. og 1. og 2. mgr. 46. gr. barnalaga nr. 76/2003. Legið hafi fyrir að börnin hefðu haft tengsl við föður sinn og hann hafi ásamt móður farið með forsjá yngra barnsins þar til í júní 2004. Af gögnum komi fram að hann hefði sýnt vilja til að viðhalda sambandi. Börnin sem í hlut eigi séu ung að árum og hafi eðli málsins samkvæmt ekki möguleika á að gera sér grein fyrir lagalegri þýðingu ættleiðingar og allt of snemmt að segja til um hvernig afstaða barnanna eigi eftir að mótast til föður og föðurfjölskyldu í Svíþjóð.

Stefnandi og móðir barnanna hefðu aðeins verið í samfelldri sambúð í tæp þrjú ár er ráðuneytið úrskurðaði um umsóknirnar og ekki fullnægt almennum ytri skil­yrðum um fimm ára sambúðartíma við stjúpættleiðingar. Þegar við bættist að börnin hafi ekki getað gert sér grein fyrir þýðingu ættleiðingar og kynföður ókunnugt um að beiðni um ættleiðingu væri komin fram hafi mat ráðuneytisins verið að ættleiðing, á því stigi og við þær aðstæður er uppi voru, gengi gegn hagsmunum barnanna.

Samkvæmt því hafi umsóknir stefnanda, um að ættleiða stjúpdætur sínar tvær, ekki uppfyllt það grunnskilyrði 4. gr. ættleiðingarlaga, að ættleiðing væri börnunum fyrir bestu, og hafi synjun ráðuneytisins á umsóknum í einu og öllu verið að lögum. Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Niðurstaða

Í 4. gr. laga um ættleiðingar nr. 130/1999 er fjallað um almenn skilyrði ættleiðingar. Þar segir að leyfi til ættleiðingar megi ekki veita nema sýnt þyki, eftir könnun viðkomandi barnaverndarnefndar á málefnum væntanlegs kjörbarns og þeirra sem óska ættleiðingar, að ættleiðing sé barninu fyrir bestu. Með 41. gr. laganna er dóms­málaráðherra veitt heimild til að setja nánari reglur um framkvæmd ættleið­ingarlaga með reglugerð. Reglugerð um ættleiðingar er nr. 238/2005 en í henni eru orðskýringar og fyrirmæli um umsóknir og fylgigögn. Þar eru einnig talin þau skilyrði sem umsækjendur verði að uppfylla og sagt er hvað koma skuli fram í umsögnum barna­verndarnefnda í ættleiðingarmálum.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að reglugerðarákvæði 3. mgr. 10. gr., um samfellda sambúð þess sem sækir um stjúpættleiðingu með foreldri barns í að minnsta kosti fimm ár, skorti næga lagastoð. Ekkert slíkt skilyrði sé í lögum um ættleiðingar og breyting á 41. gr. ættleiðingalaga, þar sem segi að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um þau skilyrði sem umsækjendur þurfi að uppfylla samkvæmt ættleið­ingar­lögum, hafi ekki verið í gildi þegar stefnandi afhenti ráðuneytinu umsóknirnar. Hér verður ekki fallist á að óheimilt hafi verið að setja í reglugerð slíkt skilyrði fyrir stjúpættleiðingu. Tilgangurinn með því er augljóslega sá að tryggja að nægileg reynsla hafi fengist á sambúð hjónanna þegar ákvörðun er tekin um ættleiðingu stjúpforeldris á barninu. Fram hefur komið að þessari reglu hafi verið beitt í framkvæmd lengi. Til grundvallar þessu reglugerðarákvæði liggja því málefnaleg sjónarmið þar sem horft er til lágmarkstíma sambúðar foreldris og stjúpforeldris þegar metið er hvað viðkom­andi barni verði talið fyrir bestu, eins og framangreint lagaákvæði segir að metið skuli. Þótt ekki hafi verið tekið sérstaklega fram í lögum um ættleiðingar á þeim tíma er stefnandi lagði umsóknirnar fram að í reglugerð mætti meðal annars kveða á um skilyrði sem umsækjendur þyrftu að uppfylla verður að líta svo á að í 41. gr. laganna hafi á þeim tíma verið nægilega skýr heimild fyrir reglugerðarákvæðinu sem um ræðir og að það hafi þar með haft viðhlítandi stoð í lögum. Verða úrskurðirnir þar með ekki felldir úr gildi með vísan til þess að reglu­gerðar­ákvæðið skorti nægilega lagastoð.

Úrskurðir ráðuneytisins eru byggðir á því að þar sem ofangreint skilyrði um lágmarks sambúðartíma sé ekki uppfyllt verði ekki hjá því komist að hafna umsóknum stefnanda. Í úrskurðunum er einnig vísað til þess að meðal annars hafi verið tekið tillit til röksemda stefnanda og konu hans þegar metið var hvort eitthvað hafi komið fram er réttlæti að vikið yrði frá reglugerðarákvæðinu um lágmarks sambúðartíma. Af þessu verður ekki dregin sú ályktun að úrskurðirnir byggist á röngum forsendum eins og haldið er fram af hálfu stefnanda. Þá verður heldur ekki fallist á þau rök stefnanda að fortakslaust ákvæði um lágmarks sambúðar­tíma brjóti gegn jafnræðis- eða meðalhófs­reglu stjórnsýslulaga, enda er ákvæðið reist á málefnalegum sjónarmiðum, eins og þegar hefur komið fram. Samkvæmt 4. gr. ættleiðingarlaga má ekki veita leyfi til ættleiðingar nema sýnt þyki að ættleiðing sé barni fyrir bestu, eins og fram hefur komið hér að framan. Dómurinn telur að gætt hafi verið þeirra sjónarmiða sem hafa bar til hliðsjónar við umrætt mat og að úrskurðirnir hafi verið lögmætir og samræmis verið gætt við úrlausnirnar af hálfu dómsmálaráðuneytisins.  

Með vísan til þessa verður ekki fallist á kröfu stefnanda um ógildingu úrskurðanna.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur.  

Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari en dómsuppkvaðning hefur dregist vegna mikilla embættisanna dómara.

Dómsorð:

Stefnda, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, X, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefnda 150.000 krónur í málskostnað.