Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-211
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Virðisaukaskattur
- Tekjuskattur
- Einkahlutafélag
- Upptaka
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 16. október 2018 sem barst Hæstarétti 5. nóvember sama ár leita Viðar Már Friðfinnsson, Veitingahúsið Lækur ehf., Eignarhaldsfélagið Lækur ehf. og Artist ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. september 2018 í málinu nr. 69/2018: Ákæruvaldið gegn Viðari Má Friðfinnssyni, Veitingahúsinu Læk ehf., Eignarhaldsfélaginu Læk ehf. og Artist ehf., á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr., 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að taka beiðnina til greina.
Með framangreindum dómi Landsréttar var leyfisbeiðandinn Viðar Már sakfelldur eins og í héraðsdómi fyrir brot gegn lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt og almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Annars vegar með því að hafa á nánar tilgreindu tímabili í starfi sínu sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í leyfisbeiðandanum Veitingahúsinu Læk ehf. staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum og þannig vantalið virðisaukaskattskylda veltu félagsins og virðisaukaskatt sem bar að greiða í ríkissjóð. Hins vegar með því að hafa á nánar tilgreindu tímabili staðið skil á efnislega röngum skattframtölum og þannig komist hjá því að greiða tekjuskatt og útsvar. Var refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár, auk þess sem honum var gert að greiða 242.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs að viðlagðri vararefsingu. Þá var Veitingahúsinu Læk ehf. gert að greiða óskipt með Viðari Má 158.000.000 krónur í sekt. Loks voru einkahlutafélögunum þremur, sem öll voru í eigu Viðars Más, jafnframt gert að sæta upptöku nánar tilgreindra fjármuna sem svöruðu til ávinnings þeirra af hinni refsiverðu háttsemi, sbr. 69. gr. og 1. mgr. 69. gr. d. almennra hegningarlaga.
Leyfisbeiðendur telja að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt í málinu. Vísa leyfisbeiðendur til þess að mál þeirra hafi ekki hlotið lögbundna meðferð hjá skattyfirvöldum og lögreglu, einn dómenda í Landsrétti hafi verið vanhæfur, mistök hafi orðið í dómsorði Landsréttar og ákæruvaldið hafi breytt kröfugerð sinni degi fyrir munnlegan málflutning í Landsrétti sem hafi raskað grundvelli málsins. Loks telja leyfisbeiðendur að málið sé fordæmisgefandi því upptökuheimildir á grundvelli VII. kafla A. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009, hafi ekki komið til umfjöllunar áður fyrir Hæstarétti.
Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að leyfisbeiðnin lúti að atriði sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Atriði sem leyfisbeiðendur hafa að öðru leyti vísað til og getið er hér að framan geta heldur ekki staðið til þess að heimildum 3. og 4. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 verði beitt í málinu. Er beiðninni því hafnað.