Hæstiréttur íslands
Mál nr. 93/2002
Lykilorð
- Verksamningur
|
|
Fimmtudaginn 13. júní 2002. |
|
Nr. 93/2002. |
Gissur og Pálmi ehf. (Sveinn Sveinsson hrl.) gegn Bjarg-Húsi ehf. (Valgarður Sigurðsson hrl.) |
Verksamningur.
Samið var um greiðslu fyrir hvern tíma sem starfsmenn B ynnu að tilteknu verki fyrir G. Deilt var um hvort B hefði verið heimilt að ráða mann til verksins sem ekki var iðnaðarmaður. P, stjórnarmaður G, sem haft hafði daglegt eftirlit með vinnu starfsmanna B, minnist þess ekki að hafa fundið að gæðum verksins. Talið var að svo lengi sem gæðum var ekki áfátt, tengdist það ekki hagsmunum G beinlínis hvaða starfsmenn B notaði til verksins og hvaða laun B greiddi þeim. Endurgjaldskrafa B á hendur G var samkvæmt þessu tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. febrúar 2002. Hann krefst þess að sér verði aðeins gert að greiða stefnda 156.372 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Dæma verður áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Gissur og Pálmi ehf., greiði stefnda, Bjarg-Húsi ehf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. janúar 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 17. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Bjarg-Húsi ehf., kt. 630200-2610, Miðvangi 37, Hafnarfirði, gegn Pálma Ásmundssyni, kt. 130947-3879, Þverárseli 2, Reykjavík, stjórnarformanni Gissurar og Pálma ehf., kt. 560589-1159, Staðarseli 6, Reykjavík, f.h. félagsins, með stefnu sem birt var 14. júní 2001.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði gert að greiða stefnanda 639.432 krónur með dráttarvöxtum frá 16. mars 2001 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefnanda verði heimilað að færa dráttarvexti upp á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 16. mars 2002, sbr. 12. gr. laga nr. 25/1987. Enn fremur er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.
Aðilum ber saman um að stefndi, sem er byggingarverktaki, hafi fengið stefnanda, sem einnig er verktakafyrirtæki í byggingariðnaði, til setja glugga í stórhýsi við Holtasmára í Kópavogi, sem stefndi var að byggja. Þá ber þeim saman um að samið hafi verið um að stefndi greiddi stefnanda 2.400 krónur fyrir hvern tíma er hver starfsmaður stefnanda ynni að verkinu. Segir af hálfu stefnanda að hann hafi gert stefnda reikninga vikulega, alla í samræmi við þetta og hafi stefndi greitt þessa reikninga, allt þar til kom að síðasta reikningnum, sem sé sá reikningur, er krafist sé dóms fyrir í máli þessu. Er þessum málavöxtum ekki andmælt af hálfu stefnda.
Af hálfu stefnanda er byggt á því að stefnandi hafi gert munnlegan samning við stefnda um ísetningu á álgluggum í tiltekið hús. Samið hafi verið um hvert endurgjaldið skyldi verða eða 2.400 krónur á tímann fyrir hvern starfsmann auk virðisaukaskatts. Annar aðaleigandi stefnda hafi haft daglegt eftirlit með verkinu. Hafi honum var fullkunnugt um hverjir unnu það og hvaða starfsréttindi þeir höfðu. Hafi hann aldrei gert athugasemdir við gang verksins eða gæði þess og því síður gert athugasemdir við þann kostnað sem verkinu fylgdi. Þannig hafi stefnda verið fullkunnugt um stöðu mála og hafi með athöfnum sínum og athafnaleysi staðfest efni og inntak samnings þess sem aðilar gerðu með sér um framangreinda vinnu. Stefnda beri því að greiða stefnanda uppsett endurgjald, sbr. dómkröfur málsins.
Af hálfu stefnda er byggt á því að komið hafi í ljós að einn af starfsmönnum stefnanda, er vann að verkinu, hafi ekki verið iðnaðarmaður. Útilokað sé að hann hafi samið við stefnanda um endurgjald fyrir vinnuframlag verkamanns á sama tímagjaldi og iðnaðarmanns. Þegar samið var um 2.400 krónur fyrir hverja unna klukkustund, hafi sú fjárhæð verið miðuð við vinnuframlag iðnaðarmanns. Fráleitt verði að telja að greitt sé sama tímagjald fyrir iðnaðarmann og verkamann, enda tíðkist það alls ekki í dag. Vísað sé til þess að 2.400 krónur sé nokkuð hátt tímagjald miðað við markaðinn á þessum tíma. Samið hafi verið um svo hátt tímagjald á þeirri forsendu að um væri að ræða vana og duglega iðnaðarmenn. Ekki komi til greina að eðlilegt geti verið að greitt sé fyrir vinnuframlag verkamanns til vinnuveitanda hans 2.400 krónur fyrir hvern unninn tíma en tímakaup til verkamannsins nemi aðeins 700 krónum. Slíkur mismunur tíðkist ekki og sé ekki réttlætanlegur.
Af hálfu stefnda segir að allt frá því að forsvarsmenn stefnda fengu vitneskju um rangfærslu stefnanda hafi þeir gert athugasemdir þar að lútandi og óskað leiðréttingar á tímagjaldinu. Því er mótmælt að þeir hafi haft hugmynd um að einhver starfsmannanna var ekki með iðnréttindi. Þvert á móti hafi verið gengið út frá að allir starfsmennirnir væru tré- eða járnsmíðamenntaðir. Þá er mótmælt þeirri fullyrðingu stefnanda að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við gang verksins eða gæði þess. Staðreyndir séu þær að iðulega hafi forsvarsmenn stefnda neyðst til að gera athugasemdir við framgang verksins og það stjórnleysi, sem einkenndi allt verkið, allan verktíma stefnanda. Vinnubrögðin og framgangur verksins hafi að lokum leitt til þess að stefndi hafi sjálfur orðið að setja stefnanda af verkinu og yfirtaka og ljúka því. Þá er byggt á því að stefnandi hafi ekki lagt fram tímaseðla starfsmanna sem þeir hafi ritað sjálfir. Hafi verið skorað á stefnanda að leggja fram þá vinnuseðla sem starfsmönnunum sjálfum bar að útfylla. Þá hafi verið skorað á stefnanda að leggja fram verkábyrgðina fyrir verkið, enda sé það grundvallaratriði fyrir útseldri tímavinnu milli verksala og verkkaupa, að fyrir liggi verktrygging.
Ingvar Hólm Traustason, stjórnarmaður stefnanda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að fyrirtækið Bjarg-Hús ehf. sé nýlegt, stofnað af honum og Daða Jónssyni. Fyrirtækið hafi verið í almennri byggingavinnu, mikið við viðhald. Hafi þeir tekið ýmsa verkþætti að sér en þó ekki á útboðsmarkaði.
Þannig bar að, sagði Ingvar, að hringt hafi verið til þeirra frá BYKO og þeim tjáð að stefnda vantaði menn. Ekki hafi verið um formlega beiðni að ræða. Af hálfu stefnda hafi síðan verið haft samband við þá. Daði Jónsson hafi alfarið séð um samninga af hálfu stefnanda við stefnda. Um munnlegan samning hafi verið að ræða. Hann sagði að Daði hefði tjáð sér að samningurinn hljóðaði upp á 2.400 krónur fyrir utan virðisaukaskatt „á línuna". Um þessar mundir hafi stefnandi haft þremur mönnum á að skipa, honum sjálfum, Daða og eins annars. Af hálfu stefnda hafi verið látið í ljós að þeir væru of fáir. Því hafi af hálfu stefnanda verið ákveðið að þeir yrðu fimm til sex.
Ingvar sagði að Jón, þriðji starfsmaður stefnanda, hafi á þessum tíma líklega verið átján ára gamall, og hafi hann ekki verið smiður að mennt. Hafi hann starfað með þeim til jóla [2000].
Ingvar sagði að ekki hafi af hálfu stefnda verið minnst á að stefnandi legði fram tryggingu fyrir verkinu eða verkábyrgð. Ekki hafi það verið ámálgað fyrr en næstsíðasti reikningur þeirra var lagður fram. Ekki hafi heldur verið rætt um að halda eftir geymslufé.
Ingvar sagði að þrír aðrir smiðir hafi starfað á vegum stefnanda að verkefninu fyrir stefnda, Lúðvík, Kári og einn annar. Einn járniðnaðarmaður hefði bæst í hópinn, annar, Andrés, lærður tækniteiknari. Þá hafi Kristján tekið við störfum af Jóni um jólin. Ekki hafi komið til tals milli aðila þessa máls á hvaða launum starfsmenn stefnanda voru hjá stefnanda. Hann sagði að allir nema Jón og Kristján hefðu starfað fyrir stefnanda sem verktakar með 1.600 krónur til 1.800 krónur á tímann [Lúðvík Óskar Árnason húsasmíðameistari með 2.100 krónur].
Ingvar kvaðst hafa lent í slysi 8. október 2000. Þá hafi kona hans tekið við rekstrinum, reikningagerð og þess háttar. Lúðvík Óskar Árnason hefði að mestu tekið við stjórn á verklegum framkvæmdum fyrir hann. Ingvar kvað forráðamenn stefnda aldrei hafa kvartað undan því að starfsmenn stefnanda hefðu ekki menntun eða kunnáttu til að vinna þau störf, sem um var að ræða, meðan á verkinu stóð. Á verktímanum hafi heldur ekki verið kvartað undan því að stefnandi skilaði ekki verkskýrslum frá starfsmönnunum sjálfum til stefnda. Ingvar sagði að Pálmi [Ásmundsson] hefði séð um eftirlit með verkinu á staðnum af hálfu stefnda. Eftir að hann varð fyrir slysinu kvaðst Ingvar hafa boðið stefnda að hverfa frá verkefninu. Ekki hafi verið fallist á það af hálfu stefnda.
Ingvar sagði að einn verkfundur hafi verið haldinn meðan á verkinu stóð. Hann, kona hans og Lúðvík Óskar Árnason hefðu sótt fundinn af hálfu stefnanda en Pálmi Ásmundsson af hálfu stefnda. Rætt hafi verið um að starfsmönnum yrði fækkað en vika til hálfur mánuður væri þar til að verkinu lyki. Engar bókanir hafi verið gerðar á þessum fundi.
Aðspurður sagði Ingvar að fyrir stefnanda hefði verið lagt að útvega menn til verksins. Ekki hefði verið tekið fram að þetta ættu einungis að vera iðnaðarmenn.
Gissur Rafn Jóhannsson, stjórnarmaður stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að stefndi hafi verið að byggja hús í Kópavogi og keypt glugga gegnum BYKO. Hafi þeir beðið fyrirsvarsmenn BYKO að benda þeim á menn sem hefðu þekkingu á að setja gluggana í. Hafi þeim verið bent á Daða Jónsson í Hafnarfirði. Hafi verið rætt við hann. Í framhaldi af því hafi hann tekið að sér verkið. Hafi Daði lofað að vera með starfsmenn sem væru sérfræðingar á þessu sviði. Þess vegna hafi verið fallist á að greiða þeim gott kaup.
Gissur sagði að um álglugga hafi verið að ræða, sem keyptir hafi verið frá Danmörku. Miklu hefði skipt að ísetningin yrði með þokkalegum hætti. Hafi Daði verið ráðinn sem sérfræðingur og ætlast hefði verið til þess að starfsmenn hans væru það einnig.
Gissur sagði að þeir hefðu ekki vitað fyrr en leið að verklokum að stefnandi var að taka 2.400 krónur á tímann fyrir verkamann. Þessi verkamaður hafi komið í vinnu til stefnda og sagt þeim hvað hann hefði haft í kaup hjá stefnanda. Þá hafi komið fram að hann var verkamaður en ekki iðnaðarmaður.
Gissur sagði að verkið hafi ekki alltaf gengið sem skyldi hjá stefnanda. Á tímabili hafi lítil verkstjórn verið. Eiginkona Ingvars hefði komið að máli við þá áramótin 2000/2001 og tjáð þeim að Daði væri hættur en Ingvar kæmi til starfa eftir áramótin. Ingvar hefði hins vegar ekki komið til starfa. Eftir áramótin hafi Lúðvík komið til starfa.
Aðspurður kvað Gissur, að hann, Pálmi og Daði hafi staðið að samningi stefnda og stefnanda. Talað hefði verið um að lærðir iðnaðarmenn, húsasmiðir, ynnu verkið.
Pálmi Ásmundsson, stjórnarmaður stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að BYKO hefði bent á Daða til verksins er hér um ræðir. Hafi þeir hitt hann að máli og samið hefði verið um að hann tæki verkið að sér, þ.e. að setja gluggana í fyrir umrætt verð, 2.400 krónur á tímann. Hafi verið gengið út frá því að smiðir ynnu við þetta. Hann sagði að í byrjun hafi verkið gengið ágætlega en upphaflega hafi gengið til verksins þeir báðir, Daði og Ingvar ásamt ungum manni um tvítugt, sem unnið hefði með þeim í viku eða hálfan mánuð. Síðar hefði verið haft að orði við forsvarsmenn stefnanda að æskilegt væri að starfsmenn væru fleiri og þá hafi þeir bætt við mönnum.
Aðspurður kvaðst Pálmi ekki hafa sérstaklega leitt huga að því, hvort ungi maðurinn, sem vann með Daða og Ingvari við upphaf verksins, hafi verið iðnaðarmaður. Hafi hann að minnsta kosti álitið að hann gæti verið með sveinspróf.
Pálmi sagði að ástæðan fyrir því að stefnandi hætti verkinu og stefndi réði mannskapinn til sín hafi verið sú, að verkinu var brátt lokið og að auki hafi þeim fundist að óánægju væri farið að gæta hjá starfsmönnum stefnanda með stjórnendur. Raunar hafi starfsmennirnir lagt til að þeir færu að vinna fyrir stefnda án stefnanda sem milliliðar. Hafi þá verið kallað til verkfundar með stjórnendum stefnanda. Á fundinum hefði hann tjáð þeim „að þessu færi að ljúka."
Pálmi kvaðst ekki hafa verið óánægður með verkið á meðan Daði og Ingvar voru að störfum. Hann hefði séð að þeir kunnu til verka. En menn, sem komu á vegum stefnanda seinna til verksins, hafi verið misjafnlega færir. Hins vegar sé ekkert óeðlilegt við það, er nokkrir menn ganga saman til verks, að svo sé.
Pálmi sagði að þegar Kristján réði sig til vinnu hjá stefnda hafi komið í ljós að hann var ekki smiður. Hafi þeir ekki verið ánægðir með að þeim hafði verið seld vinna verkamanns á sömu kjörum og iðnaðarmanns.
Aðspurður kvaðst Pálmi hafa haft eftirlit með verki stefnanda. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa gert ákveðnar athugsemdir við verk stefnanda á meðan það stóð en hann hafi daglega rætt við starfsmenn stefnanda um verkið. Hann sagði að við upphaf verksins hafi örugglega verið rætt um það að þeir væru að fá menn sem kynnu að lesa teikningar, sem í þessu tilviki séu nokkuð flóknar, og kynnu að koma gluggunum í með sómasamlegum hætti. Á hreinu hefði verið að þetta áttu að vera smiðir.
Baldur Þór Baldvinsson, formaður meistarafélags húsasmiða, kom fyrir réttinn. Hann sagði m.a. að fyrir ári síðan hefði verið algengt að undirverktakar tækju 1.800 til 1.900 krónur auk virðisaukaskatts. Fyrir verkamenn hafi þetta verið 1.400 til 1.500 krónur auk virðisaukaskatts.
Kristján Guðmundsson gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði unnið hjá stefnanda frá því í lok nóvember 2000 þar til seint í febrúar 2001. Eftir þann tíma hafi hann unnið hjá stefnda í ef til vill þrjá daga. Hann kvaðst ekki vera lærður iðnaðarmaður. Hann kvaðst hafa verið með 1.030 krónur á tímann í laun hjá stefnanda fyrir utan orlof. Kristján kvað atvinnu sína að jafnaði vera sjómennsku, hafi hann lítið unnið í byggingarvinnu.
Daði Jónsson, fyrrverandi varastjórnarmaður stefnanda, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að í lok september 2000 hafi hann hitt Pálma og Gissur. Hafi þeir gert með sér samkomulag varðandi ísetningu glugga. Var talað um að fjórir til sex menn ynnu við þetta. Greidd yrðu jafnaðarlaun, 2.400 krónur á tímann, á línuna. Ekki hafi verið rætt um iðnréttindi starfsmanna í þessu sambandi. Ekki hafi verið rætt um tryggingar eða ábyrgð. Aðspurður kvað hann einungis þá þrjá hafa verið viðstadda þegar samkomulagið var gert.
Daði kvaðst hafa verið við verkið fram yfir miðjan desember [2000]. Á þeim tíma hafi ekki verið fundið að störfum starfsmanna stefnanda fyrir stefnda; ekki fundið að því að tímaskráning væri ekki rétt eða aðrar aðfinnslur bornar fram.
Niðurstaða: Óumdeilt er að aðilar sömdu um að stefnandi setti glugga í hús, sem stefndi var að byggja í Kópavogi og greitt yrði fyrir verkið 2.400 krónur auk virðisaukaskatts fyrir hvern tíma er hver starfsmaður stefnanda ynni að verkinu.
Deila aðila stendur um það, hvort stefnanda hafi verið heimilt að ráða mann til verksins sem ekki var iðnaðarmaður. Skriflegur samningur var ekki gerður og mönnum ber ekki saman um, hvort þetta hafi verið orðað.
Af hálfu stefnda er á því byggt að allar líkur séu fyrir því að hann hafi gert það að skilyrði að allir starfsmenn stefnanda væru með iðnréttindi þar sem útilokað sé að samið hafi verið að stefndi greiddi 2.400 krónur á tímann fyrir verkamann eða sömu fjárhæð fyrir iðnaðarmann og verkamann. Á þessi rök stefnda er ekki fallist. Pálmi Ásmundsson, annar stjórnarmanna stefnda, hafði daglegt eftirlit með vinnu starfs-manna stefnanda. Kvaðst hann fyrir réttinum ekki minnast þess að hafa fundið með afgerandi hætti að verki stefnanda meðan á því stóð. Með öðrum orðum hafi hann ekki fundið að gæðum verksins. Hvaða starfsmenn stefnandi notaði til verksins og hvaða laun stefnandi greiddi þeim verður ekki séð að tengist hagsmunum stefnda beinlínis svo lengi sem gæðum verksins var ekki áfátt.
Ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila. Og samkvæmt framangreindu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda kröfufjárhæð stefnanda með vöxtum, eins og í dómsorði greinir.
Rétt er að stefndi greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Gissur og Pálmi ehf., greiði stefnanda, Bjarg-Húsi ehf., 639.432 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 21. mars 2001 til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.