Hæstiréttur íslands
Mál nr. 166/2013
Lykilorð
- Kærumál
- EFTA-dómstóllinn
- Ráðgefandi álit
|
|
Þriðjudaginn 16. apríl 2013. |
|
Nr. 166/2013.
|
Commerzbank AG (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Kaupþingi hf. (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) |
Kærumál. EFTA dómstóllinn. Ráðgefandi álit.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem synjað var kröfu C um að afla ráðgefandi álits EFTA dómstólsins um nánar tilgreindar spurningar vegna ágreinings við slitameðferð fjármálafyrirtækisins K hf. Laut ágreiningur aðila við slitin að því hvort C gæti skuldajafnað samþykktri kröfu sinni á móti kröfu sem K hf. átti á hendur C. Í dómi Hæstaréttar kom fram að það sjónarmið byggi að baki kröfu C um ráðgefandi álit að um rétt félagsins til skuldajafnaðar skyldi fara að enskum lögum en ekki íslenskum. Tekið var fram að Hæstiréttur hefði þegar komist að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu í dómi 19. desember 2012 nr. 723/2012 að sá réttur C lyti ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en ekki ákvæðum enskra laga. Væru því engin efni til að verða við kröfu C um að leita ráðgefandi álits EFTA dómstólsins. Var því hafnað kröfu C um að aflað yrði ráðgefandi álits.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2013 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2013 þar sem synjað var kröfu sóknaraðila um að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um sjö nánar tilgreindar spurningar sem varða skýringu á nokkrum ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að leitað verði ráðgefandi álits og umræddar spurningar lagðar fyrir EFTA-dómstólinn. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er mál þetta til komið vegna þeirrar kröfu sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila að fá að skuldajafna samþykktri kröfu sinni að fjárhæð 2.715.727.952 krónur á móti nánar tilgreindri kröfu varnaraðila. Hin síðarnefnda krafa á rætur að rekja til uppgjörs á afleiðuviðskiptum málsaðila á grundvelli ISDA-rammasamnings þeirra 7. janúar 2003, ásamt viðauka við hann. Við meðferð málsins í héraði 11. febrúar 2013 lagði sóknaraðili fram beiðni um að óskað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu á eftirfarandi sjö spurningum:
„a. Ef aðili A, sem er með staðfestu í Þýskalandi, á kröfu í slitameðferð lánastofnunarinnar B, sem er með staðfestu og starfsleyfi á Íslandi, lýsir yfir skuldajöfnuði þeirrar kröfu gagnvart kröfu B á hendur A og sú krafa B á rætur sínar að rekja til samnings sem lýtur lögum Englands, myndu fyrirmæli c-liðar 2. mgr. 10. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 víkja fyrir fyrirmælum 23. gr. sömu tilskipunar, ef skuldajöfnuðurinn er heimilaður samkvæmt enskum lögum?
b. Felur tilvísun 1. mgr. 23. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 til aðstæðna „þegar slík skuldajöfnun er heimiluð í lögum sem gilda um kröfu lánastofnunarinnar“ í sér að í hverju tilviki fyrir sig (þar sem það á við) þegar krafa viðkomandi lánastofnunar lýtur lögum ríkis, annars en heimaríkis lánastofnunarinnar, verði að meta hvort skuldajöfnuður er heimilaður samkvæmt þeim „erlendu lögum“, þ.m.t. lögum umrædds ríkis sem setja sérstök skilyrði fyrir skuldajöfnuði í tilviki gjaldþrota- eða slitameðferðar? Ennfremur, myndu umrædd erlend lög ganga framar sérstökum skilyrðum laga heimaríkisins um skuldajöfnuð meðan á slitameðferð stendur?
c. Ef aðili A, sem er með staðfestu í Þýskalandi, á kröfu í slitameðferð lánastofnunarinnar B, sem er með staðfestu og starfsleyfi á Íslandi, lýsir yfir skuldajöfnuði þeirrar kröfu gagnvart kröfu B á hendur A og sú krafa B á rætur sínar að rekja til samnings sem lýtur lögum Englands, hvaða lög myndu gilda um skuldajöfnuðinn samkvæmt ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB frá 4. apríl 2001? Tekið skal fram að í málinu reynir á það hvort viðurkenna beri rétt A til skuldajöfnunar og að B gerir þar ekki kröfu um að skuldajöfnuðinum verði rift eða hann ógiltur.
d. Samræmist það EES rétti, sérstaklega ákvæði 23. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, ef (i) einvörðungu íslenskum lögum yrði beitt um rétt A, með staðfestu í Þýskalandi, sem á kröfu við slitameðferð lánastofnunarinnar B, með staðfestu og starfsleyfi á Íslandi, til að skuldajafna þeirri kröfu sinni við kröfu B á hendur A og (ii) ekki yrði kannað hvort ákvæði þeirra laga, sem krafa B lýtur, heimili A að skuldajafna kröfu sinni á hendur B gagnvart kröfu B á hendur A, að því gefnu að (a) krafa lánastofnunarinnar B eigi rætur sínar að rekja til samnings sem lýtur lögum annars ríkis en Íslands og (b) A byggi á því að hann hafi heimild til skuldajafnaðar samkvæmt þeim lögum?
e. Hefur það áhrif á svar við spurningum (c) og (d) hvort samningurinn sem liggur til grundvallar kröfu lánastofnunarinnar B inniheldur sérstök ákvæði um rétt til skuldajafnaðar (að því gefnu að skilyrði umræddra samningsákvæða séu uppfyllt)?
f. Ef aðili A, sem er með staðfestu í Þýskalandi, á kröfu í slitameðferð lánastofnunarinnar B, sem er með staðfestu og starfsleyfi á Íslandi, lýsir yfir skuldajöfnuði þeirrar kröfu gagnvart kröfu B á hendur A og sú krafa B á rætur sínar að rekja til samnings sem lýtur lögum Englands, myndi ákvæði 1. mgr. 23. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 víkja fyrir fyrirmælum l. liðar 2. mgr. 10. gr. sömu tilskipunar? Miða skal við að úrlausnarefnið eigi sér stað í dómsmáli þar sem reynir á það hvort viðurkenna beri rétt A til skuldajöfnunar og að B gerir þar ekki kröfu um að skuldajöfnuðinum verði rift eða hann ógiltur.
g. Hefur 1. mgr. 30. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 áhrif á það hvaða lögum skuli beitt við úrlausn máls þar sem A, með staðfestu í Þýskalandi, sem á kröfu við slitameðferð lánastofnunarinnar B, sem er með staðfestu og starfsleyfi á Íslandi, gerir kröfu um viðurkenningu á rétti til skuldajöfnunar á þeirri kröfu A gegn kröfu B á hendur A samkvæmt samningi sem lýtur enskum lögum? Miðað skal við að B gerir í málinu ekki kröfu um ógildingu eða riftun skuldajafnaðarins.“
Í fyrrgreindri beiðni sóknaraðila segir að ágreiningur aðila eigi rætur að rekja til þess að varnaraðili hafi ekki fallist á réttmæti skuldajafnaðar sem sóknaraðili lýsti yfir 14. nóvember 2008. Varnaraðili haldi því fram að íslensk lög, nánar tiltekið 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., gildi um skuldajöfnuðinn og heimili þau ekki skuldajöfnuð. Við slit íslensks fjármálafyrirtækis gildi sú meginregla að um málsmeðferð fari samkvæmt íslenskum gjaldþrotaskiptalögum. Öll frávik frá þeirri meginreglu verði að vera ótvíræð og sæti þrengjandi lögskýringu og engin slík undantekning eigi við í málinu að mati varnaraðila. Þá er tekið fram í beiðninni að sóknaraðili haldi því á hinn bóginn fram að réttur hans til skuldajafnaðar við slitin lúti enskum lögum samkvæmt lagaskilareglu j. liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Með síðastgreindu ákvæði hafi verið leitt í íslenskan rétt efni 23. gr. fyrrnefndrar tilskipunar nr. 2001/24/EB, en þar komi fram sú regla að fara skuli með samning um skuldajöfnuð eftir lögum þess ríkis sem um samninginn gilda. ISDA-rammasamningurinn og viðaukar við hann lúti að öllu leyti ákvæðum enskra laga og þar með talið um skuldajafnaðarrétt. Þá segir í beiðninni að með „vísan til þess byggir sóknaraðili á því að gjaldþrotalög Englands, svo og meginreglur enskra laga um skuldajöfnuð, heimili honum að skuldajafna kröfu sinni á hendur varnaraðila gagnvart kröfu varnaraðila á hendur sér. Sá lögvarði og samningsbundni réttur til skuldajafnaðar haldist óháð því að bú varnaraðila hafi verið tekið til slitameðferðar.“
II
Í kæru sinni til Hæstaréttar og greinargerð til réttarins áréttar sóknaraðili öll þau sömu rök og að framan greinir um að sakarefni málsins lúti í hvívetna lögum Englands. Hinn kærði úrskurður fjalli um hvort fallast eigi á kröfu sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði sem tengjast úrlausn málsins og varði skýringu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 2. mgr., sbr. 1. mgr., 1. gr. laga nr. 21/1994. Héraðsdómur hafi ranglega komist að þeirri niðurstöðu að tilgangslaust væri að afla ráðgefandi álits, þar sem Hæstiréttur hefði þegar á fyrri stigum málsmeðferðar skorið úr því álitaefni sem álitinu sé ætlað að skýra, og hafi héraðsdómari talið sig bundinn af þeirri afstöðu Hæstaréttar.
Til rökstuðnings þeirri kröfu að lagt verði fyrir héraðsdóm að leita ráðgefandi álits vísar sóknaraðili til 1. gr. laga nr. 21/1994. Skilyrðum þess að leita ráðgefandi álits sé fullnægt, enda þurfi í dómsmálinu að taka afstöðu til skýringar á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukanum er getið líkt og greini í ákvæðinu. Samkvæmt því sem áður segi um efnishlið málsins sé ljóst að grundvallarágreiningur sé á milli aðila er varðar lagaskil við slitameðferð varnaraðila, nánar tiltekið um lagaskil varðandi rétt sóknaraðila til skuldajafnaðar og hvort viðurkenna beri þann rétt við slitameðferð varnaraðila. Lagaskilareglur sem á reyni í málinu séu reglur laga nr. 161/2002, einkum 104. gr. og 99. gr. þeirra. Ákvæðum þessum hafi verið ætlað að innleiða ákvæði 10. gr. og 23. gr. áðurnefndrar tilskipunar í íslenskan rétt. Því byggi sóknaraðili á því að túlkun og beiting tilskipunarinnar hafi grundvallarþýðingu við úrlausn málsins. Af sömu ástæðu telji sóknaraðili nauðsynlegt að leita ráðgefandi álits á túlkun EES-réttar, það er á þeim ákvæðum tilskipunarinnar sem komi til álita í málinu, enda beri að skýra íslensk lög að svo miklu leyti sem við eigi til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.
Sóknaraðili telur að dómur Hæstaréttar 19. desember 2012 í máli nr. 723/2012 hafi ekki áhrif á beiðni hans um ráðgefandi álit. Sá dómur hafi verið kveðinn upp í kærumáli um óskylt álitaefni og málið ekki flutt efnislega fyrir Hæstarétti að þessu leyti. Því hafi Hæstiréttur í umræddum dómi hvorki fjallað um þær málsástæður aðila sem á reyni í þessu máli né um skýringu fyrrgreindrar tilskipunar. Geti dómurinn því ekki verið bindandi um úrlausn ágreinings í þessu máli. Önnur niðurstaða færi bersýnilega í bága við meginreglur íslensks réttarfars sem og réttindi sóknaraðila til að njóta réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómstólum, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
III
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 723/2012 var skorið úr því ágreiningsefni málsaðila hvort dómkveðja skyldi óvilhallan og sérfróðan mann „til að rannsaka, meta og svara“ nánar tilgreindum spurningum sem fram komu í matsbeiðni sóknaraðila 10. október 2012. Var beiðninni hafnað með þeim rökum, eins og segir í forsendum dómsins, „að um rétt sóknaraðila við slit varnaraðila til að lýsa gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila gilda ákvæði laga nr. 21/1991 en ekki ensk lög.“ Í máli því sem hér er til úrlausnar deila málsaðilar um hvort afla skuli ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á þeim sjö spurningum sem gerð er grein fyrir hér að framan. Þær varða allar túlkun á nánar tilgreindum ákvæðum tilskipunar nr. 2001/24/EB, en ákvæði hennar voru leidd í íslenskan rétt, meðal annars með j. lið 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002.
Að baki þeirri kröfu sóknaraðila að héraðsdómur leiti ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins býr það sjónarmið að um rétt hans til skuldajafnaðar við slit varnaraðila skuli fara að enskum lögum en ekki íslenskum. Þótt leyst hafi verið úr öðru sakarefni með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar var þar komist að þeirri afdráttarlausu niðurstöðu að sá réttur sóknaraðila lyti ákvæðum laga nr. 21/1991 en ekki ákvæðum enskra laga. Samkvæmt því eru engin efni til að verða við kröfu sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á áðurgreindum sjö spurningum. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Það athugist að við meðferð málsins í héraði gerðu báðir málsaðilar kröfu til málskostnaðar úr hendi gagnaðila, en héraðsdómari tók í úrskurði sínum ekki afstöðu til þeirra krafna svo sem honum bar að réttu lagi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Commerzbank AG, greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2013.
Mál þetta var þingfest 5. janúar 2011. Að undangengnum munnlegum málflutningi 11. febrúar sl. var tekin til úrskurðar sú krafa sóknaraðila, Commerzbank AG, Kaiserplatz, D-60261 Frankfurt/Main, Þýskalandi, sem hann gerir með vísan til 2. mgr., sbr. 1. mgr., 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, að óskað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu, sbr. spurningar í stafliðum a-g á dómskjali nr. 35 og stafliðum a-g í IV. kafla dómskjals nr. 34.
Varnaraðili, Kaupþing hf., Borgartúni 26, Reykjavík, gerir þær kröfur í þessum þætti málsins að hrundið verði kröfu sóknaraðila um að óskað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.
I.
A.
Mál þetta er til komið vegna þeirrar kröfu sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila að viðurkenndur verði réttur sóknaraðila til að skuldajafna kröfu sinni, eins og hún hefur verið samþykkt af slitastjórn varnaraðila að fjárhæð 2.715.727.952 krónur, gagnvart kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila, en sú krafa á rætur að rekja til uppgjörs á afleiðuviðskiptum málsaðila á grundvelli ISDA-rammasamnings, ásamt viðauka við hann, á milli málsaðila 7. janúar 2003. Í málinu krefst sóknaraðili einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Kröfur varnaraðila í málinu eru þær að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að honum verði gert að greiða varnaraðila málskostnað.
B.
Sóknaraðili byggir á því í málinu að réttur hans til skuldajafnaðar lúti enskum lögum, sbr. ákvæði j-liðar 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Með ákvæðinu hafi verið innleidd 23. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB, en þar komi fram að fara skuli með samning um skuldajöfnuð, í máli þessu áðurnefndur ISDA-rammasamningur, eftir lögum þess ríkis sem um samninginn gilda. Samningurinn lúti samkvæmt skilmálum sínum enskum lögum og skuli þau lög því gilda um rétt sóknaraðila til skuldajafnaðar. Gjaldþrotalög Englands, svo og meginreglur enskra laga um skuldajöfnuð, heimili sóknaraðila að skuldajafna kröfu sinni á hendur varnaraðila gagnvart kröfu varnaraðila á hendur honum. Sá lögvarði og samningsbundni réttur haldist óháð töku bús varnaraðila til slitameðferðar.
Varnaraðili hefur mótmælt þessum málatilbúnaði sóknaraðila og vísað til þess að sú meginregla gildi við slit á íslensku fjármálafyrirtæki að um málsmeðferðina fari samkvæmt íslenskum gjaldþrotaskiptalögum. Segir varnaraðili íslensk lög, sbr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., ekki heimila skuldajöfnuð þann sem sóknaraðili hafi lýst yfir með bréfi 14. nóvember 2008.
II.
Með úrskurði dómsins 15. nóvember 2012 var synjað kröfu sóknaraðila um að dómkvaddur yrði hæfur, óvilhallur og sérfróður lögfræðingur til að rannsaka, meta og svara tilteknum matsspurningum sóknaraðila. Sóknaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Með dómi réttarins 19. desember sl. var úrskurður héraðsdóms staðfestur. Í forsendum dóms Hæstaréttar segir meðal annars svo:
Í 104. gr. laga nr. 161/2002 kemur fram að taki dómstóll hér á landi ákvörðun um slit lánastofnunar, sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér á landi, nái sú heimild sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins. Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar fer að íslenskum lögum með þeim takmörkunum er greinir í 2. mgr. 99. gr. laganna. Í 1. mgr. hinnar síðastnefndu lagagreinar kemur fram að veiti dómstóll hér á landi lánastofnun heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings skal sú heimild ná sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðru aðildarríki. Þá segir í 2. mgr. að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar skuli fara að íslenskum lögum með þeim frávikum sem talin eru upp í a. til n. liðum ákvæðisins. Samkvæmt j. lið skulu samningar um skuldajöfnuð fara að lögum þess ríkis sem um samninginn gilda.
Í fyrsta málslið 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 kemur á hinn bóginn fram að við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga fyrirtækisins og kröfur á hendur því, að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að fyrirtækið sé tekið til slita leiðir ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur fyrirtækinu falli í gjalddaga. Samningsákvæði það um skuldajöfnuð sem sóknaraðili vísar til fjallar almennt um efnisleg skilyrði skuldajafnaðar í lögskiptum aðila og getur ekki haft áhrif á þær réttarreglur sem gilda um skuldajafnaðarrétt við slit fjármálafyrirtækis sem fram fara hér á landi. Af þessu leiðir að um rétt sóknaraðila við slit varnaraðila til að lýsa gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila gilda ákvæði laga nr. 21/1991 en ekki ensk lög. Beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns til þess að afla matsgerðar um efni enskra laga um skuldajafnaðarrétt hans við slitin er því bersýnilega um atriði sem ekki skiptir máli við úrlausn á ágreiningi aðila ...
III.
Sóknaraðili hefur meðal annars vísað til þess að grundvallarágreiningur sé í málinu milli aðila um lagaskil varðandi rétt sóknaraðila til skuldajafnaðar. Lagaskilareglur þær sem komi til skoðunar séu reglur laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum 99. og 104. gr. laganna. Kveður sóknaraðili ákvæðum þessum hafa verið ætlað að innleiða ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB í íslenskan rétt.
Sóknaraðili bendir á að skv. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. bókun 35 við EES-samninginn, skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Vísar sóknaraðili einnig til þess að í 1. mgr. 34. gr. EES-samningsins segi að EFTA-dómstóllinn hafi lögsögu til að gera ráðgefandi álit varðandi túlkun á EES-samningnum. Í 2. mgr. segi síðan að ef upp komi álitamál í þessu sambandi fyrir dómstól í EFTA-ríki geti sá dómstóll eða réttur, ef hann álíti það nauðsynlegt til að geta kveðið upp dóm, farið fram á að EFTA-dómstólinn gefi slíkt álit. Bendir sóknaraðili á að fram komi í lögum nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið að skilyrði þess að álits EFTA-dómstólsins sé aflað sé að í viðkomandi dómsmáli þurfi „... að taka afstöðu til skýringar á samningi um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum sem í viðaukunum er getið“, sbr. 1. gr. Ljóst sé samkvæmt framansögðu að þessi skilyrði laga nr. 21/1994 séu uppfyllt.
Af hálfu sóknaraðila er lögð á það áhersla að dómur Hæstaréttar í máli nr. 723/2012 hafi verið kveðinn upp í kærumáli um álitaefni óskylt framangreindum ágreiningi málsaðila. Málið hafi ekki verið efnislega flutt fyrir Hæstarétti að því leyti sem hér um ræði og því hafi dómurinn hvorki fjallað um málsástæður aðila að því lútandi né um skýringu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB. Telji sóknaraðili raunar að dómur Hæstaréttar sýni skýrlega fram á nauðsyn þess að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins með það fyrir augum að skýra nánar ákvæði tilskipunarinnar og þannig varpa nánara ljósi á þau ákvæði íslenskra laga sem hana hafi innleitt.
Samkvæmt framansögðu segir sóknaraðili túlkun og beitingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB, sem og skýringu þeirra íslensku lagaákvæða er innleitt hafi ákvæði hennar, hafa grundvallarþýðingu við úrlausn máls þessa. Af þeim sökum sé nauðsynlegt, svo unnt verði að leysa úr ágreiningi aðila um hvaða lög skuli gilda um skuldajöfnuðinn, að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á túlkun EES-réttar, sérstaklega ákvæði 23. gr. tilskipunarinnar, sbr. einnig 10., 25. og 30. gr. hennar.
IV.
Varnaraðili vísar til þess að svo til álita komi að afla ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins þurfi að sýna fram á að svör dómstólsins hafi þýðingu við úrlausn um kröfu sóknaraðila. Svo sé ekki þegar Hæstiréttur hafi í dómi áður tekið afstöðu til sambærilegs álitaefnis.
Almennt séð þurfi mál að varða eitthvað annað en skýringu innlends réttar og beitingu gerða sem getið sé í viðaukum við EES-samninginn, svo álits EFTA-dómstólsins verði aflað. Þá verði dómstóllinn ekki krafinn svara um það hvort íslensk lög samrýmist tilteknum EES-reglum þar sem svar við þeirri spurningu breyti ekki réttarstöðu aðila í dómsmáli sem rekið sé fyrir íslenskum dómstólum. Spurningar til EFTA-dómstólsins geti heldur ekki lotið að meintum mistökum íslenskra dómstóla eða löggjafans, enda myndu svör við slíkum spurningum engu breyta um réttarstöðuna milli málsaðila.
Varnaraðili bendir jafnframt á að telji héraðsdómari næga leiðsögn felast í fyrri dómum Hæstaréttar skuli hann ekki leita álits EFTA-dómstólsins. Þá þurfi sá sem beiðist álits að hafa haft uppi einhverja þá málsástæðu sem feli í sér að skýring á efni EES-réttar hafi einhverja þýðingu fyrir úrlausn fyrirliggjandi ágreinings. Í máli þessu hafi sóknaraðili enga málsástæðu uppi sem svo sé ástatt um.
Að endingu vísar varnaraðili til þess að Hæstiréttur hafi nú þegar leyst til fullnustu úr þeim málsástæðum sem sóknaraðili hafi uppi í málinu og gætu snert þau álitaefni sem hann vilji að leitað verði til EFTA-dómstólsins með. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 723/2012 sé tekin fullnaðarafstaða til sjónarmiða aðila máls þessa um það hvers lands lög eigi að gilda varðandi heimild til skuldajafnaðar, sem sé eina ágreiningsefnið í málinu. Enn fremur kveði rétturinn upp úr með það að ákvæði 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 ráði álitaefninu og að tilvísun til ISDA-samningsins breyti engu af þeirri ástæðu að þar sé fjallað almennt um efnisleg skilyrði skuldajafnaðar og hafi ekki áhrif „... á þær réttarreglur sem gilda um skuldajafnaðarrétt við slit fjármálafyrirtækis sem fram fari hér á landi.“ Síðan segi í forsendum dóms Hæstaréttar: „... um rétt sóknaraðila til að lýsa gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila gilda ákvæði laga nr. 21/1991 en ekki ensk lög. Beiðni um ... að afla matsgerðar um efni enskra laga um skuldajafnaðarrétt við slitin er því bersýnilega um atriði sem ekki skiptir máli við úrlausn á ágreiningi aðila og því tilgangslaus til sönnunar í málinu ...“
V.
Í þessum þætti málsins er til úrlausnar sú krafa sóknaraðila að aflað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á tilteknum ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB. Heldur sóknaraðili því fram að túlkun og beiting tilskipunarinnar, sem og skýring þeirra íslensku lagaákvæða er innleitt hafi ákvæði hennar, hafi grundvallarþýðingu við úrlausn málsins og því sé nauðsynlegt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu.
Við úrlausn á því hvort afla skuli ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu verður ekki horft framhjá fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 723/2012, en í forsendum dómsins segir meðal annars svo:
„Í fyrsta málslið 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 kemur ... fram að við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga fyrirtækisins og kröfur á hendur því, að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að fyrirtækið sé tekið til slita leiðir ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur fyrirtækinu falli í gjalddaga. Samningsákvæði það um skuldajöfnuð sem sóknaraðili vísar til fjallar almennt um efnisleg skilyrði skuldajafnaðar í lögskiptum aðila og getur ekki haft áhrif á þær réttarreglur sem gilda um skuldajafnaðarrétt við slit fjármálafyrirtækis sem fram fara hér á landi. Af þessu leiðir að um rétt sóknaraðila við slit varnaraðila til að lýsa gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila gilda ákvæði laga nr. 21/1991 en ekki ensk lög.“
Í ljósi tilvitnaðra orða í forsendum dóms Hæstaréttar fær dómari ekki annað séð en tilgangslaust sé að afla álits EFTA-dómstólsins, svo sem sóknaraðili krefst, þar sem Hæstiréttur hefur þegar skorið úr því álitaefni, sem álitinu er ætlað að skýra, í dómi á fyrri stigum málsins og verður að telja dómara málsins bundinn af niðurstöðu hins æðri réttar. Þegar að þessu virtu þykir verða að synja kröfu sóknaraðila um að aflað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu um skýringu á tilteknum ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB, sbr. spurningar í stafliðum a-g á dómskjali nr. 35 og stafliðum a-g í IV. kafla dómskjals nr. 34.
Samkvæmt framangreindri niðurstöðu dómsins eru, hvað þennan þátt málsins varðar, ekki efni til að taka afstöðu til annarra þeirra málsástæðna aðila, sem í málatilbúnaði þeirra kunna að felast, en þegar hefur verið vikið að hér að framan.
Úrskurð þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Synjað er þeirri kröfu sóknaraðila, Commerzbank AG, að aflað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í máli þessu um skýringu á tilteknum ákvæðum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB.