Hæstiréttur íslands

Mál nr. 589/2006


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. mars 2007.

Nr. 589/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Eduardo Useda Correa

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl. réttargæslumaður)

 

Kynferðisbrot. Miskabætur.

E var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa þröngvað Y með ofbeldi til samræðis. Með vísan til þess að héraðsdómur hefði metið frásögn Y af atburðum trúverðuga og að hún fékk stoð í niðurstöðum DNA-rannsóknar, skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun og framburði vitna var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu E fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði og var hann jafnframt dæmdur til að greiða Y 700.000 krónur í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 1. nóvember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu og að ákærða verði gert að greiða 2.000.000 krónur í miskabætur með vöxtum eins og í ákæru greinir.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess að bótakröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

Krafa ákærða um ómerkingu héraðsdóms er aðallega reist á því að héraðsdómur hafi átt að vera fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1994. Ákvæðið felur í sér heimild til að ákveða að þrír héraðsdómarar skipi dóm í máli ef sýnt þykir að niðurstaða kunni að verulegu leyti að ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Nauðsyn þessa úrræðis ræðst af aðstæðum hverju sinni. Eins og sönnunargögnum í málinu er háttað er ekki tilefni til að hnekkja mati héraðsdóms að þessu leyti. Aðrar röksemdir, sem ákærði færir fyrir kröfu sinni, geta ekki leitt til ómerkingar dómsins. Eru því ekki efni til að fallast á þessa kröfu ákærða.

Svo sem í héraðsdómi greinir hefur Y borið að ákærði hafi þvingað hana til að hafa við sig samræði. Héraðsdómur hefur metið það svo að hún hafi verið trúverðug í frásögn sinni af atburðum. Framburður hennar fær stoð í niðurstöðum DNA-rannsóknar, skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun og framburði vitna. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun og þóknun réttargæslumanns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Eduardo Useda Correa, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 469.092 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 99.600 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 27. september 2006.

Mál þetta, sem þingfest var þann 20. júní sl.og dómtekið 18. september sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 22. maí sl. á hendur Eduardo Useda Correa, kennitala 211161-2059, [...], Hellu, fyrir kynferðisbrot, með því að hafa, að kvöldi sunnudagsins 2. október 2005, í setustofu að [...], þröngvað Y, kennitala [...]með ofbeldi til samræðis.

 Ákæruvaldið segir þessa háttsemi ákærða varða við 194. gr almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Helga Leifsdóttir héraðsdómslögmaður krefst þess fyrir hönd kæranda að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 2. október 2005 til 5. maí 2006, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. nefndra laga. Loks krafðist réttargæslumaðurinn hæfilegrar þóknunar skv.  i- lið 44. gr. laga nr. 19/1991 sbr. lög nr. 36/1999.

Ákærði mætti við þingfestingu málsins og neitaði sök.

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og að bótakröfu kæranda verði vísað frá dómi.  Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin og að bótakrafa sæti verulegri lækkun.  Þess er krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins, verði greidd úr ríkissjóði. Þinghaldið var lokað.

             Þann 2. október 2005 rétt fyrir miðnætti var haft samband við Fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og óskað eftir aðstoð að [...] þar sem A tilkynnti að kærustu sinni hafi verið nauðgað.  Er lögreglan kom á staðinn voru kærandi, A og ákærði á staðnum. Við komuna á vettvang kl. 00:13 þann 3. október gaf A sig á tal við lögregluna og eins og segir í lögregluskýrslu, greinilega nokkuð æstur. Sagðist hann vera leigjandi  að herbergi á efri hæð hússins að [...] en þar væru nokkur herbergi í útleigu og hefðu þessi herbergi sameiginlega eldunaraðstöðu auk salernis með sturtu. Kvað A sig hafa verið við vinnu sína við afgreiðslu á veitingastaðnum B um kvöldið en þegar hann hafi komið heim um miðnætti hafi kærasta hans, Y, verið mjög undarleg og ólík sér. Kvaðst hann hafa gengið á hana og spurt hvað væri að og hafi hún þá farið að gráta og sagt að Eduardo hafi nauðgað sér. Þegar lögreglan kom á staðinn var kærandi inní herbergi A, sitjandi á rúmi hans grátandi og greinilega mikið niðri fyrir. Aðspurð um hvað gerst hafði sagði kærandi strax að sér hafi verið nauðgað af ákærða í sófanum fyrir framan sjónvarpið um kl. 22.00 fyrr um kvöldið. Sagði kærandi að þau, hún og ákærði hafi verið tvö ein í íbúðinni frá um kl. 21.00 um kvöldið en þá hafi hún komið í íbúðina til gistingar eftir að hafa verið úti með systur A. Kærandi kvaðst þekkja ákærða lítillega þar sem hún hafi séð og hitt hann í heimsóknum sínum til kærasta síns. Sagði kærandi að hún og ákærði hafi setið saman í sófanum, horft á sjónvarpið og ákærði hafi gefið henni einn bjór og sígarettur. Kærandi hélt á rauðri húfu sem hún sagðist hafa tekið því hún hafi þurrkað upp sæði úr ákærða í sófanum sem hún taldi að gæti verið sönnunargagn.  Í framhaldi var ákærði handtekinn og færður í lögreglubifreið en hann var mjög ölvaður en rólegur. Ákærði er af kólumbískum uppruna og talar litla íslensku. Í skýrslu lögreglunnar kemur fram að hann hafi þó ítrekað sagt „ég ekki ríða hún, hún ljúga.” Engin ummerki var að sjá í íbúðinni um átök né sjáanlega áverka á ákærða. Umræddur sófi þar sem verknaðurinn átti að hafa verið framinn er tveggja sæta og er staðsettur í holi fyrir framan sjónvarp. Er þar um sameiginlegt rými leigjenda að ræða. Farið var með kæranda á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisafbrota og ákærða á Heilbrigðisstofnun [...] þar sem læknisskoðun fór fram á honum.

Skýrsla var tekin af kæranda í Barnahúsi þann 6. október 2005. Hún er fædd 31. október 1989 og var því tæplega 16 ára þegar brotið átti sér stað. Segist hún hafa kynnst Eddí (ákærða)  þegar hún hafi verið í heimsókn hjá kærasta sínum. Segir hún að þau hafi umrætt kvöld setið inní stofu að [...] og voru að horfa á sjónvarpið. Eddí hafi gefið henni bjór. Hafi ákærði sagt henni að hann ætti strák, um fjórtán ára hélt kærandi, sem ákærði hafi ekki séð í um tíu ár.  Ákærði hafi verið drukkinn þegar þetta var. Hann hafi farið að segja henni hversu góð stúlka hún væri og dugleg að halda áfram í skóla þrátt fyrir að eiga barn. Sagði hún að ákærði talaði mjög bjagaða íslensku en hann reyndi að tala hana.  Að sögn kæranda þá hélt ákærði áfram að ræða við hana um fátæk börn úti í heimi svo og að hann ætti alltaf lítinn pening því hann drykki svo mikið. Sagðist kærandi hafa sagt honum að  fjölskylda hennar styrkti barn úti í Afríku. Í framhaldi hafi ákærði sagt við hana að hún væri svo góð stelpa og hafi byrjað að snerta hana fyrst á hægri öxl en hann hafi setið hægra megin við hana í sófanum. Síðan hafi hann kysst hana á kinnina. Sagði kærandi að hún hafi fyrst orðið vandræðaleg og hafi reynt að snúa sér frá þessu með því að kveikja sér í sígarettu. Ákærði hafi haldið áfram að tala og allt í einu hafi hann verið kominn með hendina á hægra lærið á henni. Kærandi reyndi að hreyfa sig til, m.a. með því að slá ösku af sígarettunni til að losa sig úr stöðunni og færa fótinn uppí sófann. Síðan hafi hún aftur fært fótinn niður en þá hafi ákærði verið kominn með hendina aftur á hægra læri hennar. Kærandi segist hafa verið orðin mikið stressuð en ákærði hafi haldið áfram að segja hvað hún væri góð stelpa og hafi spurt hvort hún vildi hjálpa sér en hún hafi horft á hann og spurt með hvað? Sagði ákærði þá að hann væri ekki búinn að vera með konu í sex mánuði og ekki búinn að fá neitt. Kærandi sagðist hafa spurt hvað hann héldi að hann væri og sagði við hann að hún væri á föstu og hann væri allt of gamall. Hann hafi svarað því til að það væri allt í lagi  „þú bara hjálpa mér, þú ert svo góð stelpa.” Síðan hafi ákærði haldið við hægri mjöðm hennar. Sagði kærandi að hún hafi þarna verið orðin svo hrædd að hún hafi lamast, hún hafi ekki getað hreyft sig. Ef hún reyndi að gera eitthvað þá hafi hún ekki haft neinn mátt, hún hafi ekki getað hreyft sig vegna hræðslu.  Ákærði hafi á þessum tímapunkti haldið um hægri mjöðm hennar. Ákærði hafi ítrekað að hún yrði að hjálpa sér. Þá hafi kærandi farið að gráta því hún hafi verið orðin svo hrædd. Ákærði hafi í framhaldi einhvern veginn náð að klæða hana úr buxunum og komið fram vilja sínum. Kærandi segist hafa grátið allan tímann. Kærandi sagðist hafa sagt ákærða að hún vildi þetta ekki en vegna hræðslu þá hafi hún verið lömuð.  Kærandi sagði að í fyrstu hafi ákærði rennt peysunni hennar niður og hafi farið inná hana bera einnig innfyrir brjóstarhaldara hennar og einnig farið með hendina niður í buxurnar hennar, tekið hendina uppúr öðru hvoru og þefað og sleikt á sér fingurnar. Síðan hafi  ákærði  klætt hana úr gallabuxunum og látið þær niður að hnjám á henni. Hann hafi einnig dregið nærbuxurnar niður með gallabuxunum. Ákærði hafi hins vegar ekki klætt sig úr neinu, hann hafi rennt buxnaklaufinni niður og tekið getnaðarliminn út.  Sagði kærandi að ákærði hafi lyft fótum hennar upp að bringu og hann þannig komið vilja sínum fram við hana auk þess að ýta á hægri öxl hennar með hendinni. Hann hafi líklega verið á hnjánum fyrir framan hana, hann hafi ekki legið beint ofaná henni en hún hafi ekki séð alveg hvernig hann stóð en hann hafi verið með hendina á hægri öxl hennar. Sagði kærandi að á meðan á samförunum stóð þá hafi buxurnar hennar nuddað hana svo á hnjánum að hún hafi orðið eldrauð eftir það. Auk þess hafi hún verið svolítið aum í hægri öxlinni á eftir. Hún hafi ekki fundið fyrir öðrum meiðslum fyrr en seinna en þá hafi hún fundið fyrir eymslum í kynfærum. Kærandi sagði að húfan hennar hafi legið hægra megin við hana í sófanum. Ákærði hafi ekki fengið sáðlát inní sig heldur tekið hann út og hún hafi séð að sæði hafi farið á sófann sem þau voru í og á gólfið. Kærandi segist hafa verið lömuð af hræðslu eftir að ákærði lauk sér af og hafi það tekið hana uppí 10 mínútur að hysja buxurnar aftur uppum sig. Kærandi sagði að ákærði hefði náð í handklæði inní herbergi sitt til að þurrka upp sæðið og hafi að því loknu fleygt því innfyrir dyrnar á herberginu. Í vitnisburði Gils Jóhannssonar lögreglumanns kom fram að kærandi hafi tjáð lögreglunni á leiðinni á Neyðarmóttökuna að ákærði hafi notað handklæði til að þurrka upp eftir sig og hafi fleygt því innfyrir dyrnar á herbergi sínu. Þar hafi lögreglan fundið handklæðið við húsleit daginn eftir. 

              Lögregluskýrsla var tekin af ákærða seinnihluta dags 3. október sl. Sagðist hann hafa kvöldið áður verið á veitingastað á [...], horft á fótbolta og drukkið bjór. Hann hafi komið heim um kl. 21.00 og þá með bjór með sér. Sagði hann að þegar hann hafi komið heim til sín að [...] þá hafi verið komin þangað ung stúlka sem hann vissi ekki hvað héti en hún væri kærasta samleigjanda síns. Hann hafi nokkrum sinnum séð þessa stúlku áður. Hafi hann sest hjá stúlkunni þar sem hún sat í sófanum og var að horfa á sjónvarpið þegar hann kom inn. Sagðist hann hafa gefið þessari stúlku bjór og hafi hún drukkið einn bjór. Þau hafi spjallað saman í sófanum og hún hafi m.a. spurt sig hvenær A kæmi heim en hann vann á veitingastað sem var á neðri hæð hússins. Segist ákærði hafa dottað af og til því hann hafi verið talsvert ölvaður.  Sagðist hann ekkert kannast við að hafa átt við stúlkuna né hafa haft á orði að hann vildi eiga við hana samfarir né hafi hún orðað það. Segir ákærði að A hafi komið heim úr vinnu um kl. 22.00, A hafi sest á borðið fyrir framan sófann  og þeir rætt saman. Ákærði kannaðist við að hafa látið A fá pening til að kaupa meiri bjór fyrir sig og á meðan hann hafi farið út í bjórkaupin hafi hann og kærandi verið ein eftir í íbúðinni. Sagðist hann auk þess hafa gefið A og kæranda sitt hvorn sígarettupakkann en hann ætti það til að gefa fólki sem honum líki vel við svona gjafir, tóbak og bjór eða áfengi. Segir hann að eftir nokkra stund hafi þau A og kærandi farið inn í herbergi til A og skömmu síðar þá hafi A komið út úr herberginu aftur og sagt við sig að kærandi hafi sagt sér að hún og ákærði hafi átt saman samfarir í sófanum fyrir framan sjónvarpið. Segist ákærði hafa neitað þessu. Sagði hann að A hafi ráðist á sig í framhaldi og tekið hann haustaki og hótað að drepa hann. Hafi ákærða legið við yfirliði. A hafi síðan hringt á lögregluna. 

Við húsleit í herbergi ákærða fannst handklæði og lagði lögreglan hald á það en kærandi hafði lýst því að ákærði hafi notað það við að þurrka upp sæði eftir sig.

Þann 23. janúar s.l. gaf ákærði aftur skýrslu fyrir lögreglunni.  Var þá skýrslan sem tekin var af honum daginn eftir verknaðinn borin undir hann og segir hann þá að það sé allt rétt sem komi fram í þeirri skýrslu. Hann segist þó ekki muna hvort hann hafi verið með þessari stúlku í sófanum eða hvort eitthvað hafi gerst á milli þeirra og segist muna að hann hafi ekki lagt hendur á hana eða þvingað hana til eins eða neins. Hann segist þó ekki muna hvort hann hafði samfarir við hana og bar fyrir sig minnisleysi vegna ölvunar þegar verknaðurinn var borinn undir hann. Hann man þó að hann hafi verið í buxum þegar lögreglan kom á vettvang. Í framhaldi neitaði ákærði að tjá sig frekar um atriði sem borin voru undir hann og tengdust rannsókn málsins.

Ákærði kom fyrir dóm ásamt verjanda sínum og túlki. Sagðist hann þá ekki vita neitt eða muna neitt, þess vegna hafi hann neitað sök. Ákærði sagðist hafa horft á fótbolta fyrr um kvöldið þann 2. október s.l. og hafi drukkið mikið. Hann hafi síðan farið heim og eftir það muni hann ekki neitt. Ákærði sagðist ekki muna eftir því hvort kærandi hafi verið heima hjá honum eða ekki, hann muni ekki neitt. Þegar lögregluskýrslan frá 3. október sl. var borin undir ákærða þá sagði hann að hann hlyti að hafa sagt það sem á henni stóð, hann muni það ekki. Hann sagðist eingöngu muna eftir því að A hafi tekið hann hálstaki um kvöldið þegar hann sat í sófanum en hann man ekki eftir því hvað þeim fór þá á milli. Hann segist ekki muna eftir því að A hafi borið á hann að hann hafi nauðgað kærustu hans. Hann  sagðist hins vegar muna eftir því að lögreglan hafi komið og tekið hann. Vitnisburður kæranda sem tekinn var í Barnahúsi var borinn undir ákærða en hann sagðist ekkert muna né vita.

Ákærði muldraði meira og minna fyrir dóminum og þegar túlkurinn var beðinn um að þýða það sem ákærði væri að segja þá sagði hún að hann væri ekki að segja neitt hann bara muldraði.

Alkóhólrannsókn sýndi að 2,09 prómill af alkóhóli voru í ákærða um nóttina  og 3,04 prómill í þvagi. Ákærði hefur því verið mjög ölvaður.

Vitnið A gaf skýrslu hjá lögreglu þann 5. október 2005. Segir hann hjá lögreglu að hann hafi lokið vinnu um kl. 23.00 að kvöldi 2. október en setið áfram á staðnum og fengið sér bjór. Kærandi  hafi síðan hringt í sig um kl. 23.30 og spurt hann hvenær hann kæmi heim. Honum fannst þá greinilega eitthvað vera að hjá henni, sagði hann að hún hefði verið döpur í símann og mjög dauf. Hann hafi því ákveðið að fara strax heim. Segir hann að þegar hann hafi komið innúr dyrunum hafi hann heyrt ákærða vera að sussa og hvísla en ekki heyrt hvað það var. Lýsir hann aðkomunni svo að ákærði hafi setið í sófanum á móti sjónvarpinu í sætinu fjær veggnum en sætið nær veggnum hafi verið autt. Kærandi hafi komið  strax gangandi á móti sér. Ákærði hafi farið að ræða um sjónvarpsdagskrána svo og að kærandi hafi verið að horfa á sjónvarpið mér honum. Sá vitnið að ákærði var drukkinn. Á meðan á þessu stóð hafi kærandi farið niður stigann en komið aftur upp og staðið við glugga í ca. 10-15 mínútur og verið að reykja. Hún hafi komið til þeirra þegar hann, A kallaði á hana og sest í sófann þó þannig að A sat á milli ákærða og kæranda. Eftir smá stund hafi ákærði staðið upp, farið inní herbergi sitt og komið þaðan með tvo sígarettupakka sem hann gaf hvoru þeirra. Ákærði hafi síðan beðið A að fara niður á veitingastaðinn og kaupa fyrir sig meiri bjór sem og hann gerði.  Við það hafi kærandi reynt að stöðva hann og bannað honum að fara svo og hafi hún beðið hann þá um að fá að koma með honum.  Hann hafi talað hana til og lofað að vera fljótur að kaupa bjórinn enda ekki langt að fara þar sem veitingastaðurinn sem hann vann á var á neðri hæð hússins. A sagðist síðan hafa sest niður og fengið sér bjór með ákærða en kærandi afþakkað. Sagðist A hafa séð á henni að ekki var allt í lagi með hana. Í framhaldi hafi þau farið inná salerni og síðan inní herbergi til hans, hún brostið í grát og sagt honum að ákærði hafi nauðgað sér. Í framhaldi sagði A að hann hefði rokið út úr herberginu og gengið á ákærða en ákærði neitað. Síðan hafi hann hringt í lögregluna og föður sinn. Á meðan þau biðu eftir lögreglunni hafi kærandi beðið sig um að fara fram og sækja rauða húfu sem hún átti og var í sófanum frammi við sjónvarp. Það hafi hann gert og lögreglan síðan lagt hald á húfuna.

             Vitnið A kom fyrir dóminn. Sagðist hann hafa verið að vinna á veitingastaðnum B á [...] þann dag. Kærandi hafi komið í heimsókn til sín og hann hafi afhent henni lykla af íbúðinni og beðið hana um að bíða eftir sér. Hann sagðist hafa komið heim um eða uppúr kl. 23.00 um kvöldið, hann muni það ekki nákvæmlega. Kærandi hafi hringt í sig og spurt hann hvort það væri langt í sig, hvenær hann komi heim úr vinnunni og beðið sig um að vera fljótur. Sagði hann að þegar hann kom innúr dyrunum þá hafi hann heyrt ákærða vera að sussa eitthvað.  Ákærði hafi þá verið fullur og glaður og hafi beðið A um að fara niður og kaupa bjór fyrir sig. Sagði hann að kærandi hefði tekið í handlegg sinn og beðið sig um að fara ekki niður. Hann hafi hins vegar ekki hlustað á það og farið niður en verið fljótur. Þegar hann kom upp aftur og eftir að hafa drukkið bjór með þeim hafi hún verið ólík sjálfri sér. Þau hafi síðan farið inn á salerni í þeim tilgangi að tala saman því hún hafi verið öðruvísi en hún átti að sér. Inná salerni hafi hún farið að gráta og sagt að ákærði hafi nauðgað sér. Í framhaldi hafi þau farið inní herbergi  A og þar hafi hún hágrátið og hún varla getað talað. Sagði A að hann og ákærði hafi verið ágætir félagar, þeir hafi búið saman í nokkra mánuði og hann hafi því treyst honum fyrir kæranda.  Sagði A að það hafi verið vegsummerki eftir sæði í sófanum.  A segir að kærandi sé búin að jafna sig eftir atburðinn en hafi verið þunglynd fyrstu fjóra mánuði, hafi ekki getað sofið, haft martraðir og verið döpur.

Atli Árdal lögreglumaður kom fyrir dóminn.  Sagði hann að þegar hann hafi komið á vettvang þá hafi hann komið að ákærða sitjandi í sófa greinilega ölvuðum. Hann hafi ekki verið út úr heiminum en greinilega ölvaður. Hann hafi hitt kæranda í framhaldi inní herbergi A, hún hafi verið útgrátin og í miklu uppnámi. Hún hafi tjáð sér strax á staðnum að ákærði hafi nauðgað sér. Sagði hann að ástandi á ákærða hafi verið þannig að ekki hafi þýtt að ræða við hann á þeirri stundu. Hann hafi þó ekki verið svo ölvaður að hann gat vel gengið óstuddur út í lögreglubíl en hann hafi sofnað fljótlega eftir að hann kom útí lögreglubílinn.

Kristján Guðmundsson lögreglumaður kom fyrir dóminn. Sagði hann að þegar hann kom á vettvang þá hafi ákærði, kærandi og A öll verið á staðnum. Sagðist hann hafa farið með ákærða útí lögreglubíl og verið hjá honum þar. Hann hafi þá þrætt fyrir það að hafa nokkuð samræði við kæranda. Hann sagðist hafa séð að kærandi var í miklu uppnámi.

Tekin var símaskýrsla af Gils Jóhannssyni lögregluvarðstjóra. Sagðist hann hafa verið kallaður á vettvang til aðstoðar að kvöldi 2. október 2005.  Sagðist hann hafa lítið talað við aðila á staðnum, hann hafi séð um að koma kæranda á Neyðarmóttöku en hún hafi verið miður sín, hafði greinilega grátið mikið og tjáði honum að hún hafi orðið fyrir nauðgun og þá nefnt gerandann. Á leið á Neyðarmóttöku hafi hún sagt sér hvernig ákærði fór að við að þurrka upp sæði eftir sig, lýsti handklæðinu og hvað hann hefði gert við það. Sagðist hann hafa fundið handklæðið í herbergi ákærða daginn eftir við húsleit. Sagði hann að ákærði hafi verið í þokkalegu ástandi þegar lögregluskýrsla hafi verið tekin af honum daginn eftir enda hafi verið liðnir rúmlega 12 klukkustundir frá því að hann var handtekinn. Ákærði hafi líklega verið timbraður en hann hafi vel gert sér grein fyrir því um hvað skýrslan snerist.

Rannveig Pálsdóttir, læknir skoðaði kæranda þegar hún kom á Neyðarmóttökuna. Sagði hún fyrir dóminum að kærandi hefði greinilega grátið mikið þegar hún kom  og erfitt hafi verið í fyrstu að ná sambandi við hana. Hún hafi hins vegar róast og getað skýrt frá atvikum. Sérgrein Rannveigar er húðsjúkdómar.. Sagði hún að greinileg ummerki hafi verið á ökklum og hjám kæranda, sem mætti rekja til harðs núnings við húðina. Kæmi það heim og saman við frásögn kæranda að gallabuxur hennar hafi verið dregnar niður að hnjám. Ummerki geta komið fram eftir nokkrar sekúndur, sérstaklega ef nudd er hart. Sagði hún að eftir þrýsting á húð mætti sjá bólgubreytingar í nokkrar klukkustundir á eftir, jafnvel sólahring. Á utanverðum innra barmi á kynfærum hafi verið sprunga sem gæti komið ef samfarir eru ekki með samþykki. Auk þess hafi verið á kynfærum hennar svart hár en þolandi sé rauðbirkin og því þetta hár greinilega ekki frá henni.

Ólöf Ásta Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðingur, kom fyrir dóminn, en einnig hefur verið lögð fram í málinu greinargerð hennar varðandi greiningu og meðferð kæranda.  Hafði kærandi komið 9 sinnum í viðtöl á tímabilinu 11. október 2005 til 15. júní 2006.  Í greinargerð hennar og vitnisburði fyrir dómi kom meðal annars fram að afleiðingar brotsins séu margvíslegar. Í skýrslunni segir að í fyrsta viðtalinu talaði kærandi um líðan sína eftir meint kynferðisbrot gegn henni. Hún sagðist alltaf hugsa um það sem gerðist þegar hún færi að sofa. Þá helltust hugsanirnar yfir hana og hún ætti mjög erfitt með svefn vegna þessa. Þegar rætt var um atburðinn við hana fann hún fyrir mörgum tilfinningum en það voru fyrst og fremst reiði og sorg sem hún fann fyrir. Líkamleg viðbrögð hennar einkenndust aðallega af því að hún fann fyrir auknum hjartslætti og sviti kom fram í lófum og á líkama þegar minnst var á atburðinn við hana. Kærandi hafði upplifað mikinn tilfinningalegan doða en einnig hafði hún grátið mikið að eigin sögn eftir meint kynferðisbrot. Kærandi var mjög ein og einmanna og átti mjög erfitt með að einbeita sér í skólanum, en hún hafði hafið nám í [...] s.l. haust. Hún hafi strax flosnað upp úr skólanum vegna þessa en hún treysti sér ekki til þess að stunda skólann sökum vanlíðunar og einbeitingarörðugleika. Hafi hún farið heim í foreldrahús snemma hausts 2005 til að reyna að rétta úr kútnum að nýju. Svefnörðuleikar héldu áfram fram undir lok október og þurfti hún þá læknishjálp til að ná tökum á svefninum. Í febrúar s.l. hafi líðan kæranda byrjað að skána til muna en bakslag hafi komið hjá henni mánuði eftir það þegar hún fór að fá endurteknar martraðir vegna ofangreindra atburða. Snerust martraðir hennar ítrekað um að meintur gerandi í hennar máli væri að nauðga dóttur hennar á sama hátt og henni sjálfri. Martraðirnar hafi valdið henni mikilli vanlíðan á daginn og hugsanir hennar fóru þá á ný að beinast að hennar eigin reynslu ásamt þeim óhug sem hún fann fyrir.  Nú í vor hafi farið að bera á snertifælni og hún forðast að vera innan um annað fólk, forðaðist að snerta hluti á opinberum stöðum og hafi dregið sig í hlé. Fyrir dómi sagði Ólöf að kærandi hafi komið í mörg viðtöl til hennar. Hún geti lifað eðlilegu lífi í dag en skóli hafi truflast hjá henni. Martraðir hafi verið í byrjun og séu farnar að koma aftur. Kærandi sé róleg og yfirveguð, lítil og hæg.  Fyrst til að byrja með hafi henni liðið afskaplega illa og grátið mikið en hún sé farin að taka betur á þessu nú en áður. Telur hún að hún verði í meðferð í alla vegana ár í viðbót. Kærandi hafi verið ein fyrir sunnan og því hafi hún ekki getað unnið ein úr þeirri vanlíðan sem voru afleiðingar þessa atburðar. Segir Ólöf að kærandi eigi erfitt uppdráttar þrátt fyrir að hún eigi að geta lifað eðlilegu lífi, hún eigi við einbeitingarörðugleikar að stríða og snertifælni. Segir hún að líf kæranda muni litast af ofangreindu ofbeldi þrátt fyrir að með árunum geti hún lært að lifa með þessari reynslu sinni. en atburðurinn muni allatíð lita hennar framtíð og hún gæti þurft að leita sér hjálpar aftur á fullorðinsárum. Í skýrslu Ólafar er haft eftir móður kæranda að um breytta líðan sé að ræða, þ.e. hún sé alltaf með verki í maga og höfði og telur móðirin að kærandi byrgi inni líkamlegan og andlegan sársauka.

              Björgin Sigurðsson lögreglumaður hjá  tæknideild lögreglunnar í Reykjavík kom fyrir dóminn og skýrði rannsóknaraðferðir og niðurstöður rannsóknarinnar en DNA sýni voru send Rettmedisinsk Institutt í Osló bæði úr ákærða og kæranda.

             Niðurstöður þessara rannsókna voru þær að þekjufrumur voru frá kæranda á getnaðarlim ákærða svo og sæði frá ákærða í húfu brotaþola og handklæði sem brotaþoli benti á að ákærði hefði notað til að þurrka upp sæði frá sér.  Sagði hann að líkurnar á því að þekjufrumur þær sem fundust á getnaðarlim ákærða, væru frá annarri manneskju væru 1.1000.000.000.

Niðurstöður:

Kærandi var tæplega 16 ára þegar hinn kærði atburður átti sér stað. Lýsti hún aðdragandanum að atburðinum og atburðinum sjálfum þannig að dómurinn dregur ekki í efa vitnisburð hennar. Frásögn A fyrir lögreglu á vettvangi svo og fyrir dóminum færir vitnisburði hennar aukið vægi þrátt fyrir þau tengsl sem eru á milli þeirra, en þau eru kærustupar og eiga saman barn sem er hjá foreldrum kæranda. Niðurstöður úr DNA rannsókn færa auk þess lögfulla sönnum fyrir því, svo hafið er yfir allan vafa,  að ákærði og kærandi hafa haft kynmök umrætt kvöld þrátt fyrir neitun og síðar tilkomið minnisleysi ákærða. Þá vaknar spurningin hvort þær samfarir hafi verið gegn vilja hennar og ef svo hefur verið, hvort ákærða mátti vera það ljóst. Upplýst er að ekki voru um nein líkamleg átök að ræða á milli ákærða og kæranda. Frásögn kæranda í Barnahúsi svo og það andlega ástand sem hún var í þegar lögregla kom á staðinn og þegar að hún kom á Neyðarmóttökuna styðja það að hún hafi verið svo hrædd að hún hafi ekki getað varið sig umrætt kvöld. Kærandi sagði ákærða, bæði að hún vildi þetta ekki, hún væri á föstu svo og að ákærði væri allt of gamall strax þegar hann var farinn að gera sig líklegan til að vilja hafa samfarir við hana. Auk þess er ekkert sem véfengið þá frásögn hennar að hún hafi grátið allan tímann sem hann hafði við hana mök. Það eitt og sér átti að gefa ákærða, þrátt fyrir ölvunarástand hans, ástæðu til að ætla að kæranda liði illa og að hún væri ekki samþykk kynmökunum.

Vitnisburður allra lögreglumannanna sem komu á vettvang er samhljóða því að kærandi hafi verið í miklu uppnámi og greinilega búin að gráta. Eins er vottað bæði af lækni á Neyðarmóttöku svo og vitnisburður Gils Jóhannssonar sem fór með kæranda á Neyðarmóttökuna.  Vitnisburður Ólafar Ástu Farestveit er á þann hátt að kærandi hafi átt við mikla andlega vanlíðan að stríða frá upphafi viðtala sem byrjaði þann 15. október, stuttu eftir atburðinn. Vitnisburður þessara fimm vitna styðja frásögn kæranda um að hún hafi verið mjög hrædd og því trúverðugt að hún hafi lamast af hræðslu eins og hún segir í skýrslu sinni í Barnahúsi og ekki getað beitt neinu afli þegar hún hafi ætlað að ýta ákærða frá sér. 

Vitnisburður ákærða er mjög á reiki og lítið á honum að byggja. Hann lýsir atburðum um kvöldið 2. október sl. nánast á sama veg og kærandi og A í lögregluskýrslu 3. október fyrir utan hina meintu nauðgun. Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða 23. janúar 2006 staðfestir hann að vitnisburður hans frá 3. október sé réttur utan að þá segist hann ekki muna eftir því að hafa haft kynmök við kæranda. Fyrir dóminum  mundi ákærði nánast ekkert um atburði kvöldsins utan að þegar A tók hann hálstaki og hann gekk með lögreglunni út úr húsinu. Hann sagðist ekki muna hvort stúlkan hafi verið í húsinu um kvöldið, hann mundi ekki eftir því að hann hafi beðið A að kaupa bjór fyrir sig um kvöldið og hann mundi ekki eftir því að A hafi borið á hann að hann hafi nauðgað kæranda.

             Ákærði og kærandi eru ein til frásagnar um það sem gerðist að kvöldi 2. október 2005. Vitnisburður A um hegðun kæranda strax þegar hann kom upp í íbúðina til þeirra um kvöldið, grátur hennar í framhaldi, andlegt ástand hennar þegar lögreglan kom á staðinn svo og ástand hennar þegar hún kom á Neyðarmóttökuna styður frásögn hennar um að kynmök hafi átt sér stað gegn hennar vilja og að hún hafi verið lömuð af hræðslu og því ekki getað varið sig. Auk þess eru litlar líkur á því að hún hafi strax að kynmökum loknum, reynt að vernda sönnunargögn sem hún gerði með því að þurrka sæði í húfuna sína sem lá við hliðina á henni í sófanum ef hennar samþykki hefði legið fyrir. Þá eru miklar líkur til þess að ef kærandi hefði getað varið sig eða hreyft sig, þá hefði hún komið sér úr þeirri stellingu sem hún var í en hún hlýtur að hafa verið ákaflega óþægileg en bólgur í húð hennar um hné og ökkla gefa sterka vísbendingu um að hún hafi ekki mátt sig hræra vegna hræðslu á meðan á samförunum stóð.  Þá liggur einnig fyrir að ákærði hélt í hægri öxl kæranda á meðan á samförunum stóð og ýtti henni þannig niður í sófann. Kemur fram í skýrslu hennar að hún hafi verið aum í öxlinni eftirá. Ákærði hefur við þessar aðstæður ekki þurft að beita hana miklu afli þar sem hún gat sig ekki hreyft en þó nokkur munur er á þeim að líkamsburðum, hvað ákærði er stærri og þyngri en kærandi sem er sérstaklega lítil og grönn. Mikill aldursmunur er á þeim en ákærði var 44 ára en kærandi 15 ára þegar atburðurinn á sér stað. Auk þess kom fram undir rekstri málsins að ákærði er um 166 cm. á hæð og um 60 kíló en kærandi um 153 cm. á hæð og um 40 kíló. Með hliðsjón af aldursmun þeirra svo og að ákærði er stærri og sterkari og var talsvert drukkinn er það mat dómsins að ekki sé á því neinn vafi að ákærði hafi neytt aflsmunar til að ná fram vilja sínum.

             Þegar öll framangreind atriði eru vegin heildstætt er það álit dómsins að þrátt fyrir neitun ákærða í fyrstu og síðan minnisleysis hans um atburði kvöldsins, megi leggja til grundvallar vitnisburð kæranda um það sem átti sér stað inná heimili ákærða umrætt kvöld. Þykir ekkert hafa komið fram sem veiki trúverðugleika hennar og vitnisburð, sem annar vitnisburður styrkir verulega svo og sönnunargögn sem staðfesta kynmökin. Þykir því sannað að ákærði hafi með ofbeldi þröngvað kæranda til holdlegs samræðis á heimili hans og kærasta hennar umrætt sinn þar sem ákærði beitti hana aflsmunum en hún hvorki gat spornað við verknaðinum né veitt mótspyrnu þar sem hún var lömur að hræðslu og fraus. Varðar háttsemi ákærða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu hér á landi svo kunnugt sé. Við ákvörðun refsingar ber að líta til hinnar alvarlegu háttsemi ákærða sem þekkti kæranda lítið sem ekkert en vissi þó að hún var kærasta samleigjanda hans og hafði neitað því að hún gæti “hjálpað” honum en hann samt neytt aflsmunar og þröngvaði henni til kynmaka. Hafi verknaður ákærða alvarlegar afleiðingar á andlega líðan kæranda. Auk þess ber að líta til þess hversu ung kærandi er að árum og aldurs ákærða en hann er 29 árum eldri en kærandi. Ákærði á sér engar málsbætur. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.  

Helga Leifsdóttir, héraðsdómslögmaður og réttargæslumaður kæranda, bar fram skaðabótakröfu á hendur ákærða, fyrir hennar hönd, með bréfi, dagsettu 3. mars 2006, og krafðist miskabóta að fjárhæð kr. 2.000.000 skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá var krafist vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 2. október 2005 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var kynnt fyrir sakborningi, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Loks krafðist réttargæslumaðurinn hæfilegrar þóknunar skv.  i- lið 44. gr. laga nr. 19/1991 sbr. lög nr. 36/1999.

Lögmaðurinn rökstuddi kröfur sínar við aðalmeðferð málsins.

Ákærði andmælti bótakröfunni fyrir dómi og krafðist aðallega sýknu, en til vara stórfelldrar lækkunnar

Kærandi á rétt á miskabótum úr hendi ákærða vegna þeirrar háttsemi sem hann hefur verið sakfelldur fyrir sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að mati dómsins hefur verið sýnt fram á að kærandi hafi orðið fyrir verulegum sálrænum erfiðleikum og félagslegri röskun vegna verknaðar ákærða og verður hann því dæmdur til að greiða henni miskabætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 700.000 krónur sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ásamt dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Réttargæslumaður kæranda gætti hagsmuna hennar á rannsóknarstigi og veitti henni aðstoð við alla meðferð málsins, þ.á.m. vegna áðurgreindrar einkaréttarkröfu. Verður réttargæslumanninum því ákvörðuð þóknun skv. 1. mgr. 44. gr. i laga nr. 19/1991, sem þykir hæfilega ákveðin kr. 124.500.

Samkvæmt framangreindum úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. a-lið 164. gr. sömu laga með áorðnum breytingum, ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað kr. 600.996.- þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 311.250.- krónur og þóknun Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns kæranda, sem þykir hæfilega ákveðin 124.500.- krónur og er þá innifalinn virðisaukaskattur.

Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómarar kvað upp dóminn.

Dómsorð.

Ákærði, Eduardo Useda Correa, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

Ákærði greiði Y 700.000.- krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. október 2005 til 5. maí 2006, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Ákærði greiði allan sakarkostnað krónur 600.996.-, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns krónur 311.250.- og skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns krónur. 124.500.-