Hæstiréttur íslands
Mál nr. 179/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Þriðjudaginn 3. maí 2005. |
|
Nr. 179/2005. |
X(Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn A B og C (Garðar Briem hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Sýnt þótti að heilsu og högum X væri svo háttað að hún væri ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum og fé sjálf. Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var svipt lögræði með vísan til a. liðar 4. gr. lögræðislaga..
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2005, þar sem sóknaraðili var svipt lögræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um að hún verði svipt lögræði verði hafnað. Þá er þess krafist að kærumálskostnaður, þar með talin þóknun skipaðs verjanda hennar vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, verði greiddur úr ríkissjóði.
Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þóknun talsmanns þeirra greidd úr ríkissjóði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Þorsteins Einarssonar hæstaréttarlögmanns, og talsmanns varnaraðila, Garðars Briem hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur til hvors þeirra, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2005.
Með beiðni dagsettri 3. mars 2005 hafa A, [...] B [...] og C [...] krafist þess að móðir þeirra X [...] verði svipt lögræði með vísan til a liðar 1. mgr. 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Við meðferð málsins fyrir dóminum var sóknaraðilum skipaður talsmaður skv. 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga.
Samkvæmt fyrirmælum 10. gr. laga nr. 71/1997 var varnaraðila skipaður verjandi úr hópi starfandi lögmanna. Af hálfu varnaraðila var framkominni kröfu mótmælt og þess krafist að henni yrði hafnað en til vara að varnaraðili yrði eingöngu svipt fjárræði. Þá gerði verjandi kröfu um þóknun.
Sóknaraðili byggir lögræðissviptingarkröfuna á því að varnaraðili sé hvorki fær um að ráða persónulegum högum sínum né fé vegna ellisljóleika og alvarlegs heilsubrests. Vísa sóknaraðilar til framlagðs læknisvottorðs Björns Einarsson, öldrunarlæknis, dags. 1. mars sl. Í vottorðinu kemur fram að varnaraðili hafi fyrst komið á minnismóttöku á árinu 2000 og hefði hún greinst með minnisskerðingu og töluvert af ranghugmyndum eða ofsóknarhugmyndum. Hún hefði farið í taugasálfræðilegt mat og þar greinst með meira en 50% minnisskerðingu og skerðingu á innsæi og gæti vitræna skerðingin samræmst Alzheimer sjúkdómi. Hefði varnaraðili verið sett á minnisbætandi Alzheimer lyf en lyfjaheldni verið lítil vegna ranghugmynda hennar og einnig hefðu henni verið gefin sterk geðlyf. Varnaraðila hefði ekki hrakað þann tíma sem vottorðsgjafi hafði hana til eftirlits fram í marsmánuð 2002 en þegar hún hefði komið til hans í ágúst 2004 hefði komið í ljós að henni hefði hrakað mjög. Taugasálfræðilegt mat 14. febrúar sl. hefði leitt í ljós að varnaraðili væri með mjög mikla minnisskerðingu, væri algjörlega óáttuð og hefði nánast ekkert innsæi auk þess sem dómgreind væri skert. Hefði borið á töluverðu hömluleysi og ranghugmyndum, varnaraðili nærðist illa, þrifi sig ekki og neitaði að þiggja þá aðstoð sem henni byðist. Var niðurstaða læknisins sú að vegna vitrænnar skerðingar og geðrænna einkenna væri ekki viðunandi að hafa varnaraðila búandi eina og þyrfti hún því að komast á stofnun gegn eigin vilja.
Björn Einarsson gaf skýrslu hér fyrir dóminum. Hann staðfesti framangreint læknisvottorð og staðfesti að minnisskerðing varnaraðila væri mjög mikil, hún væri óáttuð á tíma þótt hún vissi hvar hún væri. Varnaraðili sé með mikla innsæisskerðingu og dómgreindarskerðingu auk þess sem hún sýndi geðstolseinkenni, „paranoiu“, sem hefði t.d. áhrif á lyfjaheldni hennar og væri hún mjög léleg. Vitnið tók fram að varnaraðili kæmi mjög vel fyrir við fyrstu kynni. Taldi vitnið varnaraðila ófæra um að ráða persónulegum högum sínum og fé og sagði fullreynt að hún myndi þiggja utanaðkomandi aðstoð því hana skorti innsæi til að gera það.
Við þingfestingu málsins 9. mars sl. óskaði verjandi eftir því að dómari kveddi til hlutlausan öldrunarlækni til að meta heilsu og hagi varnaraðila. Dómari fékk Sigurbjörn Björnsson, lyf- og öldrunarlækni, til gera matsgerð og er hún dagsett 21. mars sl. Í vottorðinu kemur fram að vottorðsgjafi hafi hitt varnaraðila og átt við hana viðtal í eina og hálfa klukkustund. Hefði varnaraðili talið lögræðissviptingarkröfuna til komna vegna þess að sonur hennar vildi komast yfir eigur hennar vegna eigin peningavandræða. Hefði frammistaða varnaraðila í viðtalinu verið betri en búast mætti við af gögnum málsins. Mætti þó miða við að ástand hennar væri breytilegt frá einni stund til annarrar. Líðan varnaraðila virtist vera bærileg og þrátt fyrir umtalsverða nærminnisskerðingu geti hún lýst vilja sínum og rökstutt hann á sannfærandi hátt. Væri ekki óeðlilegt að varnaraðili hefði hugmyndir um vafasaman vilja og ætlan barna hennar með lögræðissviptingarbeiðninni þótt þær bæru með sér keim af vænissýki eða aðsóknarhugmyndum. Niðurstaðan var sú að miðað við heilsufar varnaraðila nú væri hún enn hæf til að sjá um sig sjálf með hjálp ættingja og samfélags en geta hennar til að fara með eigin fjármuni væri skert. Horfur varnaraðila væru hins vegar þannig að aðeins mætti reikna með versnandi ástandi.
Sigurbjörn Björnsson kom fyrir dóminn og staðfesti ofangreinda matsgerð sína og staðfesti að varnaraðili væri með heilabilunarsjúkdóm. Kvaðst vitnið hafa talið varnaraðila hafa innsýn í það lögræðismál sem nú væri rekið og hefði hún lýst vilja sínum. Varnaraðili hefði verið vel hirt og ekki áberandi mögur þegar hún kom í viðtalið en hins vegar hefði vitnið ekki framkvæmt líkamlega skoðun á henni. Komið hefði fram hjá varnaraðila að hún hefði talið sig geta séð um sig sjálfa með því að nýta þá utanaðkomandi hjálp sem henni byðist og lýsti hún sig reiðubúna til að þiggja hana. Þó taldi vitnið að varnaraðili væri að vissu leyti innsæislaus um hversu mikla aðstoð hún þyrfti. Taldi vitnið varnaraðila þurfa heimahjúkrun og máltíðir auk þess sem dagvistarúrræði kæmi til greina. Þá kvaðst vitnið telja að varnaraðili væri ófær um að sjá um eigin fjármál.
Af hálfu sóknaraðila var lagt fram læknisvottorð Guðmundar Olgeirssonar, heimilislæknis, dags. 1. apríl sl. Þar kemur fram að varnaraðili hafi verið sjúklingur læknisins frá árinu 1995 og við skoðun í desember það ár hafi hún verið komin með minnistap og hafi síðan þróað með sér Alzheimer sjúkdóm. Varnaraðili sé greinilega mjög minnisskert og hefði hún ítrekað sýnt væg einkenni um vænissýki sem snúist einkum um peningamál hennar. Erfitt hafi reynst að fá varnaraðila til að þiggja þá hjálp sem í boði er. Skömmu fyrir síðustu áramót hafi hún komið til læknisins vegna langvinns niðurgangs og fleiri heilsufarserfiðleika að sögn ættingja auk þess sem grunur hefði leikið á að lyfjainntaka væri stopul. Hefði varnaraðili fallist á að læknirinn pantaði fyrir hana rannsókn en hefði síðan ekki mætt til hennar þegar til átti að taka. Kemur fram það álit læknisins að Alzheimer sjúkdómur varnaraðila hafi farið versnandi.
Jónína Þóra Einarsdóttir, öldrunarfulltrúi á Seltjarnarnesi, gaf skýrslu fyrir dóminum en hún hefur komið að málum varnaraðila á síðustu fjórum til fimm árum. Lýsti hún því að varnaraðili hefði afþakkað þá aðstoð sem henni hefði verið boðin en rétt fyrir síðustu páska hefði hún mætt í dagvistun án þess þó að hafa verið allan tímann sem boðið var upp á. Taldi vitnið þau úrræði fullreynd sem varnaraðila stæðu til boða.
Sóknaraðilar gáfu skýrslur fyrir dóminum og lýstu samskiptum sínum við varnaraðila og hrakandi heilsu hennar.
Í málinu hafa verið lögð fram gögn um fjárhagsmálefni varnaraðila og myndir teknar á heimili hennar.
Niðurstaða.
Með framangreindum læknisvottorðum og framburðum vitna fyrir dóminum þykir í ljós leitt að varnaraðili er með alvarlegan Alzheimer sjúkdóm. Þegar litið er til niðurstöðu Björns Einarssonar, öldrunarlæknis, sem annast hefur varnaraðila vegna sjúkdómsins, þykir sýnt að innsæisskerðing og dómgreindarskerðing varnaraðila er veruleg. Þá hefur læknirinn fullyrt að fullreynt sé að hún nýti þá aðstoð sem henni býðst og er henni nauðsynleg og var það niðurstaða hans að varnaraðili þyrfti vistun á stofnun og gæti ekki séð um fjármál sín sjálf. Niðurstaða Sigurbjörns Björnssonar, lyf- og öldrunarlæknis, var hins vegar sú að varnaraðili ætti að geta séð um sig sjálf með aðstoð ættingja og samfélags en hún væri ófær um að annast fjármál sín. Fram kom hjá Jónínu Þóru Einarsdóttur, öldrunarfulltrúa, að hún teldi ástand varnaraðila þannig að hún væri ekki hæf í þá þjónustu sem byðist utan stofnunar.
Lögræði eru mikilvæg mannréttindi. Þegar metið er hvort koma skuli til sviptingar þess verður að líta til þess grundvallarsjónarmiðs að sviptingin og síðan skipun lögráðamanns eigi að vera hinum svipta til farsældar og vernda hagsmuni hans. Að þessu virtu og þegar litið er til alls framanritaðs þykir sýnt að heilsu og högum varnaraðila sé svo háttað að hún vegna innsæis- og dómgreindarskorts af völdum Alzheimer sjúkdóms sé ekki fær um ráða persónulegum högum sínum og fé sjálf. Þykir því ekki verða hjá því komist að svipta hana lögræði eins og krafist er með vísan til a liðar 4. gr. lögræðislaga
Kostnaður af máli þessu greiðist úr ríkissjóði eins og í úrskurðarorði segir.
Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
X, [...], skal svipt lögræði.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hildar Sólveigar Pétursdóttur hdl., 110.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur hdl., 110.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.