Hæstiréttur íslands

Mál nr. 572/2010


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Skjalafals
  • Lögreglurannsókn
  • Dráttur á máli
  • Skilorð
  • Aðfinnslur


Fimmtudaginn 16. desember 2010.

Nr. 572/2010.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

Gunnari Valgeiri Reynissyni

(Óskar Sigurðsson hrl.)

Þjófnaður. Skjalafals. Lögreglurannsókn. Dráttur á máli. Skilorð. Aðfinnslur.

G var ákærður fyrir brot gegn annars vegar 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga og hins vegar 1. mgr. 155. gr. sömu laga, með því að hafa stolið rotþró við sumarhús F í Grímsnes- og Grafningshreppi, sett hana niður við annað sumarhús í sama hreppi og síðar hengt upp nótu við sumarhús F, sem honum var kunnugt um að væri fölsuð, í þeim tilgangi að villa um fyrir F og lögreglu við rannsókn á þjófnaðinum. Um hið fyrra ákæruatriði taldi Hæstiréttur ekki nægilega sannað að rotþró sú sem G setti niður hafi verið sú hin sama og tekin var án heimildar við sumarhús F og var G því sýknaður af ákæru um þjófnað, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008. Ákærði játaði á hinn bóginn að hafa látið breyta kvittun um kaup á rotþró og hengt hana upp við sumarhús F. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að kvittun sú sem ákærði hefði látið breyta útgáfudegi á væri skjal í skilningi XVII. kafla almennra hegningarlaga og á því væru upplýsingar sem staðfestu tiltekin viðskipti á tilgreindum tíma. Breytingarnar teldust fölsun á efni skjalsins, tilgangur ákærða með því væri sá sem í ákærðu greindi og ásetningur hans hefði staðið til þess að nota hið falsaða skjal í lögskiptum og fá kæru, sem lögð hefði verið fram, fellda niður. Var G því sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar var litið til mikils dráttar er varð á útgáfu ákæru eftir að rannsókn lögreglu virtist hafa lokið.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing hans verði milduð.

I

Í máli þessu er ákært fyrir tvenns konar brot. Í fyrsta lagi fyrir þjófnað, en ákærði er sakaður um að hafa á tímabilinu 20. til 24. apríl 2008 stolið 2600 lítra rotþró sem stóð við sumarhús að A, Grímsnes- og Grafningshreppi. Í öðru lagi fyrir skjalafals með því að hafa í byrjun maí 2008 í blekkingarskyni hengt nótu frá BYKO, sem dagsett var 19. apríl 2008, á vörubretti fyrir framan inngang framangreinds sumarhúss að A í þeim tilgangi að villa um fyrir kæranda í fyrri ákærulið og lögreglu við rannsókn málsins. Ákærða hafi verið kunnugt um að nótan var fölsuð.

II

Atvikum málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram barst lögreglu kæra 27. apríl 2008 frá manni, sem stóð fyrir byggingu sumarhúss við A, um að rotþró 2600 lítrar að stærð, sem staðið hafði við húsið um nokkurt skeið, hefði verið stolið. Kvað hann rotþróna hafa horfið á tímabilinu frá kvöldi 20. apríl til morguns 24. sama mánaðar. Kærandi kvaðst hafa ráðið verktaka, B ehf., til að annast byggingu sumarhússins og ætti sá að skila því meðal annars með rótþrónni. Grunur beindist að ákærða en upplýsingar bárust um að hann hefði á sama tímabili grafið fyrir og sett niður rotþró við sumarhús að C, sem væri í eigu D. Hafði hann leigt gröfu til verksins og fengið aðstoð við að setja rotþróna niður í gryfju. Lögreglan hafði tal af ákærða 30. apríl 2008 og neitaði hann þá að hafa stolið téðri rotþró. Hann hefði nokkrum dögum áður keypt þá rotþró í BYKO á Selfossi sem hann hefði sett niður. Kvaðst hann eiga afrit af reikningi vegna kaupanna og væri afrit hans líklegast einnig til í versluninni. Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að ákærði hefði ekki keypt rotþró í versluninni um nokkurt skeið. Ákærði hefur síðan orðið margsaga um hvar og hvenær hann fékk rotþróna, sem hann setti niður. Lögreglan gróf 2. maí 2008 upp rotþróna sem ákærði hafði sett niður. Var lagt hald á hana 4. sama mánaðar í þágu rannsóknar málsins. Kærandi kom með ljósrit kvittaðs reiknings í plastmöppu 3. maí 2008 á lögreglustöðina á Selfossi sem hann kvað hafa verið fest á vörubretti við inngang sumarhússins að A. Reikningnum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Á ljósritið var rituð áskorun ákærða til kæranda um að hreinsa ákærða af þeim ásökunum, sem kærandi hafði sett fram, en sæta ella kæru til lögreglu og málssókn vegna meiðyrða. Ákærði hefur viðurkennt að hafa falsað téðan reikning og fengið til þess aðstoð. Hann hafi breytt útgáfudegi reikningsins úr 7. desember 2006 í 19. apríl 2008. Það hafi hann gert til þess að losa sig út úr þeim vandamálum, sem hann hefði ratað í. Hefði hann sett reikninginn á staðinn þar sem kærandi fann hann. Eigandi sumarhússins að C, D, lýsti yfir því 8. maí 2008 að hún félli frá kröfu um úrskurð um lögmæti haldlagningar lögreglu á rotþrónni og að hún ætlaði að setja aðra rotþró niður við sumarhúsið. Hin haldlagða rotþró var afhent E, fyrirsvarsmanni B ehf., 30. maí 2008.

III

Við mat á því hvort sannað sé að ákærði hafi gerst sekur um þjófnaðarbrot það, sem í ákæru greinir, kemur fyrst til athugunar hvort unnt sé að slá því föstu að rotþró sú, sem ákærði setti niður við C, hafi verið hin sama og sú sem tekin var án heimildar frá A. Upplýst er að um tveir til þrír kílómetrar eru milli sumarhúsanna. Í málinu liggur fyrir ljósmynd af sumarhúsinu að A en við húsið stóð þá rotþróin, sem þaðan var tekin. Þá liggur fyrir stækkun á myndinni, en þó ekki í þeim gæðum að unnt sé að greina áritun þá sem máluð er á hana og bera saman við áritanir sem málaðar eru á rotþróna sem ákærði hafði sett niður og lögregla lagði hald á. Skýrar ljósmyndir liggja fyrir í málinu af síðarnefndu rotþrónni og áritunum á hana. Er því ekki unnt með samanburði að staðhæfa hvort um sömu rotþró sé að ræða. Í skýrslu fyrirsvarsmanns B ehf. fyrir héraðsdómi, en það félag átti rotþróna sem stóð við A, kveður hann þetta líklega vera sömu rotþróna, en hann geti ekki fullyrt að svo sé. Ýmis önnur atriði geta bent til þess að um sömu rotþró sé að ræða. Má þar nefna að ákærði setti rotþróna niður á sama tímabili og rotþróin hvarf frá A. Hann hefur enga trúverðuga skýringu getað gefið á því hvar og hvenær hann fékk þá rotþró, sem hann setti niður umrætt sinn, orðið margsaga um þetta ákæruatriði og er allur framburður hans um þetta hjá lögreglu og fyrir dómi óstöðugur og mótsagnakenndur. Hann hefur með því að nota falsaða kvittun reynt að villa um og koma sér þannig úr vandræðum sínum. Þrátt fyrir þetta verður ekki talið að nægilega sé sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að um sömu rotþróna sé að ræða, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður ákærði þegar af þeirri ástæðu sýknaður af ákæru um að hafa stolið rotþró sem stóð við sumarhúsið að A, Grímsnes- og Grafningshreppi.

Ákærði hefur játað þá háttsemi að hafa látið breyta útgáfudegi á kvittun frá BYKO um kaup á rotþró og útloftunarrörum þannig að í stað 7. desember 2006 hafi verið ritað 19. apríl 2008. Hann hefur jafnframt játað að hafa fest ljósrit breyttrar kvittunar á vörubretti við innganginn að A með áritun sem fól í sér áskorun um að kæran á hendur honum um þjófnaðarbrot yrði dregin til baka. Hann kveðst í skýrslu fyrir héraðsdómi hafa gert þetta til þess að ,,hreinsa [sig] af þessum þjófnaðarásökunum.“ Ákærði mótmælir því að þessi háttsemi hans uppfylli áskilnað 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga um skjalafals.

Kvittun sú sem ákærði lét breyta er skjal í merkingu XVII. kafla almennra hegningarlaga og á því voru upplýsingar sem staðfestu tiltekin viðskipti á tilgreindum tíma. Breytingar þær, sem ákærði lét gera, teljast fölsun á efni skjalsins og tilgangur ákærða með því var sá, sem í ákæru greinir. Ásetningur hans stóð til þess að nota hið falsaða skjal í lögskiptum og fá kæru, sem lögð hafði verið fram, fellda niður. Þessi háttsemi telst brot á 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga og verður ákærði sakfelldur fyrir það.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður að líta til þess að ásetningur hans til brots var einbeittur og að refsirammi brotsins er allt að átta ára fangelsi. Á hinn bóginn verður einnig að líta til þess að hann hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður sætt refsingu og játaði greiðlega það brot sem hann er sakfelldur fyrir. Þá verður einnig að líta til þess að rannsókn málsins hjá lögreglu hófst í framhaldi af kæru 27. apríl 2008 og virðist hafa lokið að mestu í maí sama ár, þó að fyrir liggja tvær upplýsingaskýrslur lögreglu í maí 2009. Ákæra var gefin út 16. nóvember 2009, nálægt einu og hálfu ári eftir að rannsókn lögreglu virðist hafa lokið. Engin skýring hefur verið gefin á þessum langa drætti og fer hann í bága við meginreglu 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008, sbr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með hliðsjón af öllu framansögðu verður refsing ákærða ákveðin hin sama og í héraðsdómi og skal hún bundin skilorði eins og þar greinir.

Ákærði greiði helming sakarkostnaðar í héraði sem er helmingur málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans þar fyrir dómi og teljast þau þar hæfilega ákveðin og einnig helming áfrýjunarkostnaðar málsins þar með talið helming málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem verða ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að rannsókn lögreglu á máli þessu var um margt ábótavant. Engin rannsókn fór fram á vettvangi við A þótt kærandi hefði upplýst lögreglu um það, er hann kærði ætlað þjófnaðarbrot, að ,,greinileg ummerki hafi verið eftir bifreið á mjóum hjólbörðum sem hugsanlega hafi tekið rotþróna.“ Þá verður ekki séð að sérstök rannsókn hafi farið fram á ljósmynd af rotþrónni, sem stóð við A, til þess að ganga úr skugga um hvort það væri sama rotþróin og ákærði er sakaður um að hafa stolið. Fer þetta í bága við fyrirmæli í 67. gr., 68. gr. og 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sem þá giltu, sbr. nú 1. og 2. mgr. 53. gr., 1. mgr. 54. gr. og 1. mgr. 86. gr. laga nr. 88/2008.

Það athugast einnig að í héraðsdómi eru teknir upp orðrétt í löngu máli hlutar úr skýrslu ákærða hjá lögreglu í stað þess að vinna úrdrátt úr þeim, ef ástæða var talin til að greina frá efni þeirra í dóminum. Þetta samrýmist ekki fyrirmælum í 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða, Gunnars Valgeirs Reynissonar, og skilorðsbindingu hennar skal vera óraskað.

Ákærði greiði helming sakarkostnaðar í héraði sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns þar fyrir dómi, Gríms Hergeirssonar héraðsdómslögmanns, en þau voru ákveðin í heild 250.000 krónur og helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem í heild er 344.126 krónur, þar með talinn helming málsvarnalauna skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, sem í heild eru ákveðinn 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 21. september 2010.

Mál þetta var upphaflega þingfest var þann 8. desember 2009 og dómtekið 19. febrúar sl., Var dómur kveðinn upp þann 23. mars 2010 og var honum áfrýjað til Hæstaréttar Íslands sem kvað upp dóm þann 21. júní sl., í málinu nr. 225/2010. Var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Vegna anna og sumarfría aðila fór munnlegur málflutningur ekki fram fyrr en 13. september sl. og var málið dómtekið að honum loknum. Var mál þetta höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 16. nóvember 2009, á hendur Gunnari Valgeiri Reynissyni, kt. 191071-3799, óstaðsettum í hús á Selfossi.

I.

fyrir þjófnað

með því að hafa á tímabilinu 20. til 24. apríl 2008, stolið 2600 lítra rotþró sem staðsett var við sumarhús að A í Grímsnes- og Grafningshreppi og síðar sett nefnda rotþró niður við sumarhús að C í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

fyrir skjalafals

með því að hafa, í byrjun maí 2008 í blekkingarskyni hengt nótu frá BYKO dagsetta 19. apríl 2008 á vörubretti fyrir framan inngang sumarhússins að A í Grímsnes- og Grafningshreppi í þeim tilgangi að villa um fyrir kæranda í ákærulið I og lögreglu við rannsókn málsins, en ákærða var kunnugt að nótan væri fölsuð.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19 frá 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði krefst sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna að mati dómsins og að þau verði greidd úr ríkissjóði ásamt virðisaukaskatti. Aðalmeðferð fór fram þann 26. janúar sl. og frestað til framhalds aðalmeðferðar sem fór fram 19. febrúar sl. Var málið dómtekið að loknum málflutningi.

I.

Samkvæmt gögnum málsins kom F á lögreglustöðina á Selfossi þann 27. apríl 2008, og óskaði eftir því að gefa skýrslu vegna þjófnaðar á rotþró. Kvað F rotþróna hafa staðið fyrir utan sumarhús sem væri í byggingu og hann tekið eftir því þann 24. apríl 2008, klukkan 10.00, að búið var að taka rotþróna. Kvað hann greinileg ummerki hafa verið eftir bifreið á mjóum hjólbörðum sem hugsanlega tengist hvarfi rotþrórinnar. Kvaðst E hafa verið þar síðast klukkan 18.00 þann 20. apríl 2008. Þetta hefði verið svört rotþró, 2600 lítra, um 150 cm há og 200 cm löng.

Þann 7. maí 2008 gaf E skýrslu hjá lögreglu og kvaðst starfa sem verktaki við umrætt sumarhús. B ehf. væri eigandi bústaðarins og rotþrórinnar sem var stolið á tímabilinu frá 20. apríl til 24. apríl 2008. Í skýrslunni kemur fram að E hafi skoðað haldlagða rotþró sem var í porti lögreglunnar og kvaðst hann telja að þar væri um að ræða rotþróna sem hann fékk í Húsasmiðjunni, líklega í nóvember sl. Eftir ábendingu frá E um hugsanlega hlutdeild ákærða í málinu, hafði lögregla afskipti af ákærða.

II.

Í upplýsingaskýrslu lögreglunnar vegna afskipta lögreglu af ákærða þann 30. apríl 2008, kvaðst ákærði kannast við að hafa nýverið grafið niður rotþró við sumarhús sem hann væri að vinna við í Grímsnesinu. Neitaði hann að hafa tekið rotþróna ófrjálsri hendi. Upplýsti ákærði lögregluna um að hann hefði keypt umrædda rotþró hjá Bykó á Selfossi. Hann myndi ekki hvenær hann hefði keypt rotþróna, það hefði verið fyrir sjö til tíu dögum. Aðspurður um reikning fyrir rotþróna, kvaðst ákærði eiga afrit en það gæti tekið tíma að finna það. Þá kvaðst hann líklega geta fengið afrit af reikningnum hjá Bykó á Selfossi. Við eftirgrennslan hefði ekki fundist afrit af reikningi vegna sölu rotþróar til ákærða í aprílmánuði hjá Bykó. Þá kemur fram í upplýsingaskýrslunni að G á [...] hafi leigt ákærða gröfu fimmtudaginn 18. apríl og hringt í hann fimmtudaginn 24. apríl og tilkynnt honum að hann væri búinn að nota gröfuna. Þá hefði G selt ákærða rauðamöl til að setja í holuna við rotþróna sem G hefði ekið til hans að kvöldi mánudagsins 21. apríl. Viðbót hefði hann svo ekið til ákærða þann 22. apríl, bæði að morgni og kvöldi. Þá hefði hann séð holuna opna með rotþrónni í. Þann 2. maí fór lögreglan að C í Grímsnesi þar sem rotþróin var niðurgrafin. Var lögreglunni falið að haldleggja rotþróna en ákærði kvað hana vera sína eign. Ákærða var gefinn kostur, símleiðis, á að mæta á staðinn til viðræðna við lögreglu og framvísa reikningi fyrir rotþrónni. Kemur fram í skýrslunni að ákærði ætlaði ekki að koma á vettvang þar sem hann var staddur á Selfossi, og kvað lögreglu vera í hans óþökk á einkalóð sinni. Síðar sama kvöld hafði lögreglan símasamband við ákærða og tilkynnti honum um að rotþróin yrði haldlögð og ákærða boðið að mæta á vettvang til að framvísa reikningi. Gerði hann það ekki yrði rotþróin haldlögð. Upplýsti ákærði þá að hann hefði fest frumrit reikningsins á sumarhús kæranda í málinu, miðvikudaginn 30. apríl 2008. Það hefði hann gert til að sýna fram á sakleysi sitt í málinu. Í framhaldi var rotþróin grafin upp og flutt á Selfoss til geymslu. Þá kemur fram í skýrslunni að morgni laugardagsins 3. maí 2008 hafi aðili komið til lögreglu með reikning í plasti, sem hafi verið festur að A, en á reikningnum komi fram að ákærði hafi keypt rotþró þann 19. apríl 2008. Við skoðun á reikningnum komi fram að dagsetning hans sé 19. apríl 2008. Reikningurinn sé skráður á VR lagnir og greiðandi sé ákærði, samtals að fjárhæð 90.670 krónur. Við skoðun á reitnum „dagsetning“ á reikningnum megi sjá að letur talnanna sé annað en það sem sé til hliðar. Þá komi fram að greitt hafi verið fyrir vöruna með debetkorti þann 7. desember 2006.

D kvað fyrir lögreglu þann 7. maí 2008, ákærða vera að byggja sumarhús að C. Hún viti ekki hvaðan umrædd rotþró hafi komið en hún viti til þess að frændi ákærða, H, hafi ætlað að hjálpa ákærða við að setja þróna niður einhvern daginn um helgi.

Í símaviðtali við lögreglu þann 7. maí 2008, kvaðst G hafa ekið möl í sumarhúsahverfi við Búrfell fyrir ákærða. Hann hafi farið með tvo bíla mánudaginn 21. apríl milli klukkan 18.00 og 20.00. Aðra tvo bíla hafi hann farið með fyrir hádegi þann 22. apríl og aftur eftir hádegi þann sama dag. Þegar hann hafi komið þriðju ferðina á þriðjudagsmorguninn hafi ekki verið búið að hreyfa við mölinni sem hann hafði komið með daginn áður. Þegar hann kom síðustu ferðina á þriðjudagskvöldið, hefði hann gengið aftur fyrir húsið og þá séð rotþróna niður komna en ekki búið að ganga frá henni. Þá hafi hann tekið eftir því að rotþróin hafi ekki verið tengd.

I kvaðst hjá lögreglu þann 7. maí 2008 hafa farið laugardaginn 19. apríl til ákærða til þess að fá lánaða snittvél og þá hafi ákærði verið að baksa með  rotþró á kerru frá Húsasmiðjunni. Kvaðst I hafa híft rotþróna niður í holuna með ákærða þar sem hún átti að vera og notast við gröfu sem var á staðnum. Hafi þetta verið á milli klukkan þrjú og fjögur þann dag. Hann hefði síðan farið með snittvélina. I kvaðst hafa þekkt ákærða frá barnæsku. Hann hefði rætt síðast við ákærða einum eða tveimur dögum fyrir skýrslutökuna hjá lögreglu.

Í upplýsingaskýrslu þann 7. maí 2008 er haft eftir F að verið væri að byggja sumarbústað fyrir hann. Hann hefði komið í bústaðinn síðastliðinn föstudag um klukkan 18.00 til 19.00 frá Selfossi. Þá hefði hann veitt miða frá versluninni BYKO athygli. Hafi það verið blaði í A4 stærð í plasti. Miðinn hafi verið festur á bretti sem hafi verið staðsett fyrir framan bústaðinn. Segir í skýrslunni að F hafi komið þessum miða til lögreglu. Þá er haft eftir F að umrædd rotþró hafi verið komin í bústaðinn í nóvember árið á undan.

Þann 7. maí 2008, klukkan 9.05,  var tekin skýrsla hjá lögreglu af ákærða og kvaðst hann þá hafa sett umrædda rotþró niður við C, laugardaginn 19. apríl, sama dag og hann keypti rotþróna. Hefði I aðstoðað hann við að setja niður þróna. Ákærði kvaðst þá hafa keypt þróna fyrir hádegi í Bykó á Selfossi og sótt hana þangað sjálfur. Hann hefði verið búinn að leigja gröfu af G á [...] deginum áður eða 18. apríl. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa nein gögn um að hann hafi keypt rotþróna í Bykó, hann hefði látið kæranda hafa eina afritið sem hann hefði haft af kvittuninni. Á kvittunina hefði hann skrifað skilaboð og fest hana á bretti við inngang hússins. 

Aftur sama dag klukkan 21.25 var tekin skýrsla af ákærða hjá lögreglu. Vildi ákærði þá gera grein fyrir nótunni sem hann hafði skilið eftir við sumarbústaðinn að A. Upplýstur um að engin viðskipti af hálfu ákærða við Bykó hafi átt sér stað í apríl 2008, kvaðst ákærði hafa keypt margar rotþrær í Bykó. Segir ákærði svo í skýrslunni: „E: Já nei með rotþrónna. Þú gafst þá skýringu að þú hafir fengið hana í Byko þann 19. sko. V: jájá. E: Og skellt henni niður sama daginn. En við erum búin að þvælast í Byko og tala við marga, fara yfir myndbandskerfi og nótukerfi og það virðist ekki vera að þú hafir fengið rotþró. V: Ja ég hef keypt rotþrær í Byko. Það er alveg á hreinu. E: Þú keyptir hana í Byko? V: Jájá ég hef keypt þær þar. E: Manstu hvenær það var?. V: Nei ég er ekki með nótu fyrir henni nákvæmlega. E: Er langt síðan?. V. Það já ég meina, ég er búinn að kaupa fullt af rotþróm í Byko. E: En þessi rotþró sem var við bústaðinn sem var þar sem að lögreglan haldlagði, hvernig kom…V: Hún hefur verið keypt í Byko. E: Ok, var það löngu áður en að.. V: Já það var töluvert áður já. E: Erum við að tala í dögum eða vikum eða? V. Nei ég er ekki með nótu fyrir þessari rotþró. Það er nú, þess vegna er þessi nóta…  Þá segir ákærði síðar í skýrslunni að hann haldi að hann hafi keypt þessa rotþró í Bykó en hann hefði keypt rotþrær í Borgarplasti, Bykó, Húsasmiðjunni og úti um allt. Aðspurður ítrekað, kvaðst ákærði ekki viss um að hann hafi keypt umrædda rotþró í Bykó né hvar eða hvenær hann hafi keypt hana. Hann keypti rotþrær á mörgum stöðum. Kvaðst ákærði vinna við pípulagnir og ynni við að setja niður rotþrær og hluti af hans starfi væri að kaupa og setja niður rotþrær. Hann starfaði fyrir fjölda manns og fyrirtæki og væri því búinn að setja margar þrær niður. Þá kvaðst hann ekki endilega kaupa þær á sinni kennitölu. Ákærði kvaðst hafa sett þróna niður þann 19. apríl og hefði ákærði tengt og gengið frá rotþrónni. Hafi það verið einhvern tíma eftir hádegi. Rotþróin hafi verið hlífð ofan í og síðan hafi ákærði mokað sjálfur að henni um leið og hann tengdi hana. Hann hafi tengt skolplagnir við hana og sett dren og síðan mokað yfir hana. Þetta hafi allt klárast á laugardeginum. Aðspurður aftur um það hvort hann hafi klárað að moka yfir þróna á laugardeginum, sagðist ákærði halda að hann hafi ekki klárað það fyrr en á sunnudeginum. Spurður um það hvort búið hafi verið að moka yfir þróna á sunnudeginum, kvaðst ákærða minna að það hafi verið á sunnudeginum, en hann hafi það reyndar ekki alveg á hreinu, hann sé náttúrulega að vinna alla daga. Hann hafi hins vegar unnið alla helgina við þróna og klárað. Þá kvaðst ákærði einnig hafa unnið í lóðinni og sett niður rauðamöl og mold. Ítrekað kveðst ákærði ekki hafa tímasetningar nákvæmlega á hreinu. Hann hefði fengið fjögur hlöss af rauðamöl í byrjun, síðan tvö hlöss og að lokum eitt hlass. Þau hafi verið frá G sem hefði keyrt allt í hann. Aðspurður síðar í skýrslunni kvaðst ákærði ekki viss um að rotþróin væri úr Bykó og hann hefði ekki fengið neina rotþró úr Bykó í apríl svo hann viti til. Aðspurður um það hvaðan rotþróin kom sem hann setti niður við bústað sinn kvaðst ákærði ekki vera með það nákvæmlega á hreinu. Þá ítrekaði ákærði að hann hefði sett umrædda þró niður laugardaginn 19. apríl með aðstoð I og ákærði hefði tengt þróna og gengið frá henni. Aðspurður um það hvort ákærði myndi eftir því hvenær hann gekk frá þrónni svaraði ákærði: „Ég náttúrulega var ekkert.. ég vann alltaf bara frá átta til sjö og veit ekkert nákvæmlega klukkan hvað það var. Ætli það hafi ekki verið bara svona einhvern tíman eftir hádegi svona. E: Sem að þú tengir hana? V: Já og geng frá henni já. E: En þegar þú gengur frá henni, áttu þá við að það sé mokað yfir hana og klárað? V: Já bara hífð ofan í og svo náttúrulega er bara mokað, ég get nú mokað sjálfur að henni líka. Og hérna.. um leið og ég tengi, þetta er náttúrulega ákveðið ferli sem að þetta fer. Það er náttúrulega mokað í hliðarnar á henni fyrst og gert púkk og mokað framfyrir hana. E: En hvenær.. V: Svo eru tengdar skólplagnir við hana og sett drendúkur og svo er mokað yfir hana. E: Okei og það… V: Þetta er heilmikið ferli sko. E: Kláraðist það allt á laugardeginum? V: Já ég kláraði það sjálfur náttúrulega. E: Já á þessum laugardegi? V. Ég fékk bara aðstoð við að hífa hana ofan í og ekkert annað, og stilla hana af. Því það er erfitt að hífa þær ofan í og stilla þær af. E: Já þarf tvo í það? V: Já yfirleitt þarf það. Eða það er gott að hafa tvo ef að það er hægt. E: ER það ekki vont að bagsa einn í þessu? V: Jú það er nánast ekki.. það er eiginlega ómögulegt. Ekki í þessu atriði sko. E: En nítjánda þarna á laugardeginum, ertu búinn að ganga frá henni og moka yfir hana og allt og klára hana? V: Nei ég klára það nú ekki held ég fyrren bara á sunnudeginum held ég. Ég vann þarna 3 tíma á sunnudeginum og held ég 8 á laugardeginum. E: Þannig að á sunnudeginum er hún frágengin og búið að moka yfir? V: Já á sunnudag, já á sunnudeginum minnir mig en ég er ekki alveg með þetta á hreinu reyndar því að ég er náttúrulega bara að vinna alla daga sko. E: Já. V: Ég var að vinna til tíu á sunnudagskvöldinu þarna. Annars staðar reyndar. E: Já. Þannig að.. V: Ég er ekkert með tímann á hreinu á þessu. Þá kvaðst ákærði síðar í yfirheyrslunni halda að hann hafi verið búinn að klára þetta á sunnudeginum, mánudeginum eða „eitthvað svoleiðis“. Hann hafi vantað rauðamöl og hann hafi fengið fjögur hlöss í byrjun og síðan tvö og eitt í lokin. Aðspurður hvenær hann hafi fengið mölina, kvaðst hann ekkert hafa verið að spá í það hvenær hann hafi fengið þessi hlöss af grús. Síðar í sömu skýrslu var aftur farið yfir það hvaðan ákærði hefði fengið umrædda rotþró, og kvaðst ákærði hafa komið með hana á staðinn á kerru. Segir m.a. í skýrslunni: „E: Okei. rotþróin sem að var lögreglan haldlagði þarna við húsið hjá D, hvernig var hún flutt þarna á staðinn? V: með kerru bara.. E: þú sjálfur eða?. V: Já. E: Okey. Og frá hvaða stað? Upphafsstað?. V: Frá Grímsnesi bara. Ég leigði bara kerru í Húsasmiðjunni. E: Okei. V: Þær eru bara útum allt þarna í Grímsnesinu þegar við erum að, við byrjum á því að planta þeim niður rotþrónum þegar við byrjum að taka grunna og svoleiðis. E: En hvert sóttirðu þessa rotþró sem að þú setur síðan niður þarna við bústaðinn hjá D?. V: Það er bara þarna í lóð fyrir ofan. Við erum með fullt af lóðum þarna. Ég á 7 lóðir í viðbót og við byrjum á því yfirleitt að taka púða og setja niður rotþró sko. E: var hún búin að standa lengi þarna í grenndinni, rotþróin eða? V: Já töluvert já. E: Ertu að tala í dögum eða vikum? V: nei það er nú bara í vikum. E: Bara í vikum. V: Enda er ég ekki nákvæmlega með dagsetninguna á þessari rotþró frekar en einhverri annarri rotþró sko. E: Okei. V: Ég kaupi þetta bara reglulega og vinn við þetta. Set niður svona 20 eða 30-50 á vorin. E: En hvernig.. V: enda eru fleiri rotþrær þarna útum allt sko. E: Já. V: Ekki sem ég á reyndar. […] VM: En þarna, þú segist hafa flutt hana frá einhverju landi, eða þú hafir geymt hana einhversstaðar þarna.. V: Jájá, við gerum það yfirleitt, við setjum þær náttúrulega bara þegar á að fara að grafa púða og svoleiðis þá kaupum við þær í leiðinni. Yfirleitt eru þær settar niður samdægurs eða sko um leið og beltagrafan og það er að koma, þá göngum við frá öllu í einu sko. Nema þegar það er frost í jörðu eins og henti með þetta hús. Þess vegna var hún ekki sett niður fyrren svona langtum seinna. Ég byrjaði að byggja þetta hús í október, október eða nóvember. VM: Leiðréttu mig ef ég fer með rangt. Sko hvernig er rotþróin þegar þú kaupir hana? E: Það sem hún er að spyrja um, er hún með stút á honum eða?... E: Er hún með þessum fylgirörum? Náttúrulega rotþróin er bara stykki svo þarf rör væntanlega til að.. stúta og öndunarrör og svona. V: Jájá ég kaupi það bara allt með henni. Ég kaupi það yfirleitt allt.. oft á það líka fullt af þessu því við kaupum náttúrulega bara fullt af þessu. Ég kaupi náttúrulega bara 20 metra já eða sko 20 í 5 metra lengjum yfirleitt. Bara eitt búnt sko. Svo er þetta bara, þessu ráðið út um allt Grímsnes náttúrlega í.. á þessum lóðum sem að við erum með. Þetta eru á annað hundrað lóðir sko. Og það eru rör og dót frá okkur útum allt þarna ennþá sko. Og ídráttarrör og allur fjandinn sko. E: Frá ykkur hverjum þá? V: Já mér bara. E: Já þér persónulega? V: Jájá bara sem að ég hef verið að kaupa bara. E: Já. G: Já þú ert náttúrulega með, hann er með rekstur. V: Ég er náttúrulega bara með rekstur og ég er ekkert að tína þetta neitt saman. Svo bara sæki ég þetta á næstu lóð og þar að kemur sko gröftur í einhverri annarri lóð við hliðina eða einhversstaðar í hverfinu. Þetta er náttúrulega útum allt þetta hverfi. E: Okei. V: Þetta er Syðri Brú og Búrfell og útum allt þarna. Meira að segja útí Hestlandi og hingað og þangað: VM: Kannski eins spurning, hvað hérna, af því að þú hefur ekki alveg tölu á þessu sem sagt rotþróm sem þú ert búinn að kaupa. Hvað ertu til dæmis með núna? V: Ég veit það ekki. Þetta eru svona tuttugu og þrjátí.. tuttugu til þrjátíu sem ég hef keypt alla vega bara í Byko sjálfur sko. En svo náttúrulega er fullt sem að ég kaupi út á fyrirtækin. Ú á Auðsali, Landmenn, Byggingafélagið Geysir. Þú veist þeir eru að byggja tugi, þeir eru búnir að byggja svona 70-80 bústaði þessi 4 félög sko og ég hef pípulagt þetta allt saman sko. En oft kaupi ég það, stundum er bara tilboð með efni og vinnu og stundum ekki. Stundum er það bara vinnan þannig að ég kaupi það þá og oft kaupi ég rotþróna þá og tek svo bara efnið eftir það. VM: Hvað ertu með margar núna sem eru uppi og þú átt eftir að setja niður? V: Enga. Ekki á mínum vegum. Ekki ein einasta. E: Okei hvað er langt síðan að þú hefur tekið rotþró í Byko Selfossi? V: Ég bara veit það ekki. ….. það er þetta hefur náttúrulega bara verið einhvern tíman í fyrra. E: Sem þú tekur síðast rotþró? V: Jájájá því þetta hús er keypt í september eitthvað svoleiðis og þá er farið í jarðvinnu strax. Í september í fyrra, ágúst, september í fyrra.

III.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og kvaðst hafa unnið sem pípulagningamaður samfellt síðustu átta árin. Þann 19. apríl 2008 hafi hann verið að vinna við C, Grímsnesi, við að setja niður rotþró. Hann hafi leigt gröfu á föstudeginum áður og byrjað að vinna við þetta á laugardeginum. Hann hafi verið stöðvaður af lögreglu nokkrum dögum síðar á Selfossi. Þar hafi honum verið tilkynnt að sést hafi til hans við að stela rotþró í Grímsnesi. Hann hafi komið af fjöllum við þessi tíðindi. Hann hefði farið í sjokk í lögreglubifreiðinni. Hann hafi þá verið spurður hvort hann ætti kvittun fyrir rotþrónni sem hann kvaðst ekki hafa átt þar sem hann ynni mikið við þetta og ætti ekki alltaf nótur fyrir því sem hann keypti. Lögreglan hefði ítrekað við hann að hann yrði að koma með nótu fyrir rotþrónni, annars yrði hann kærður fyrir þjófnað. Aðspurður um framburð sinn fyrir lögreglu þegar hún hafði fyrst afskipti af honum, kvaðst hann vera með vinnuaðstöðu í Syðri-Brú og í Búrfellslandi. Hann hefði átt þar rotþró frá árinu áður, hún hefði ekki verið neitt sérgreind. Aðspurður aftur um framburð sinn hjá lögreglu, kvaðst hann eiga fullt af nótum, hann hefði sagt lögreglunni að hann gæti útvegað nótu en lögreglan sagt honum að nótan þyrfti að vera frá því nokkrum dögum áður. Þannig hefðu leiðir þeirra skilið í það skiptið. Hefði hann unnið fyrir fjögur stór fyrirtæki og sett niður mjög margar rotþrær og hann hefði frá árinu 2005 nánast eingöngu unnið fyrir þessi stóru félög. Þetta væri t.d. 124 rotþróin sem hann setti niður á síðustu þremur árum. Stundum ynni hann fyrir verktaka þar sem hann verslaði út á þeirra reikning. Ákærði kvaðst hafa farið út í Bykó til að fá útskrift yfir viðskipti sín þar, en honum verið neitað um það. Hann hefði starfað sem einyrki en oft verslað í nafni fyrirtækja sem hann hefði unnið fyrir. Umsvif hans hefðu því verið mikil. Stundum hefði hann verslað við Húsasmiðjuna og hann hefði einnig fengið sendar rotþrær beint frá framleiðandanum á Dalvík. Aðspurður kvað hann umrædda rotþró koma úr námu í landi Syðri-Brúar þar sem hann hefði geymt efni. Hann hefði fengið rotþrær ýmist frá Bykó eða Húsasmiðjunni en þær hefðu verið settar þarna upp eftir þar til þörf væri á að setja þær niður. Hann hefði á sínum tíma talið að þróin hafi komið frá Bykó frekar en Húsasmiðjunni árinu áður og geymd í Efri-Brú. Hann hefði líklega verið að kaupa rotþrær í september, október eða nóvember árinu áður, hann hefði bara átt eina þró sem hafi verið á svæðinu.

Aðspurður kvaðst hann hafa þurft að vinna ákveðna jarðvinnu áður en þróin var sett niður. Hann hefði þurft fyrst að grafa skurð fyrir lögnum og síðan stóra holu fyrir þrónni. Í botninn væri settur sandur og þróin síðan sett niður. Síðan væru rör tengd í þróna og síðan fyllt upp að þrónni. Drendúkur væri settur yfir og síðan mold yfir allt saman. Þennan laugardag hefði hann grafið skurðinn og híft þróna niður. Jarðefni sem hann vantaði til að klára lóðina hefði hann ekki fengið fyrr en eftir helgina. Hann hefði endanlega verið búinn að ganga frá öllu seinnipartinn á þriðjudeginum. Hann hefði þá látið eigandann að gröfunni vita þar sem leigugjaldið var 50.000 krónur á dag.

Aðspurður um nótuna sem hann skildi eftir við A, kvaðst ákærði hafa fengið synjun í Bykó um útprentun á viðskiptum sínum svo hann hefði fundið eldri reikning og fengið þriðja aðila til að ljósrita reikninginn með breyttri dagsetningu. Hann hefði gert það til að hreinsa sig af áburði um þjófnað. Kvaðst ákærði ekki hafa verið að falsa neitt, hann hefði breytt dagsetningu á nótu sem hann hefði átt sjálfur og hann gert það í þeim tilgangi að hreinsa sig af ásökunum. Hann hefði hengt kvittunina á vörubretti fyrir framan húsið. Hafi þetta verið daginn eða tveimur dögum eftir að lögreglan hafði fyrst afskipti af sér. Aðspurður um bókhald sitt, kvað hann Jón bókara sjá um bókhald fyrir sig. Þá kvað hann lager sinn, ef hann átti eitthvert efni, hafa verið blandaðan við lager annarra fyrirtækja sem hann hafi verið að vinna fyrir. Rotþróna hafi hann sótt í þennan lager við Syðri-Brú en enginn hefði haft aðgang að þeim lager nema hann sjálfur. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu er hún hafði fyrst afskipti af honum, varðandi 19. apríl, að hann hafi keypt rotþróna fyrir hádegi þann dag og sett hana niður sama dag, kvað ákærði þennan framburð stafa af spurningum lögreglu, þ.e. að hún hafi krafið hann um nótu fyrir rotþrónni. Hann hafi vísvitandi sagt rangt frá þar sem búið hafi verið að útbúa umrædda nótu. Þá kvað hann umræddan F hafa hringt í sig vegna nótunnar og kvaðst ákærði hafa sagt honum að fara með nótuna til lögreglunnar. Ákærði kvaðst alla tíð hafa sagt lögreglunni, þegar hann var yfirheyrður í lögreglubílnum, að hann ætti ekki nótu fyrir kaupunum en honum hafi verið stillt upp við vegg með nótuna og því farið út í að falsa reikninginn. Hann hafi sagt þá við lögregluna að hann gæti kannski útvegað nótuna. Aðspurður um misræmi í framburði sínum hjá lögreglu, kvað hann framburð sinn hafa snúist um það að honum hafi verið gert að leggja fram nótu fyrir kaupunum og því hafi hann farið út í að falsa gamla nótu.

Aðalsteinn Þór Guðmundsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið beðinn um að ræða við ákærða vegna rotþróar sem hafði verið stolið. Hann hefði stöðvað ákærða á förnum vegi og rætt við hann um hina horfnu þró. Ákærði hefði sagt sér strax að hann hefði keypt umrædda rotþró nokkrum dögum áður í Bykó. Hvort ekki væri til afrit af nótunni kvað hann ákærða hafa játað því og ætlað að koma henni til lögreglunnar. Í framhaldi kvaðst Aðalsteinn hafa haft samband við Bykó og við þá eftirgrennslan hefði komið í ljós að ákærði væri ekki í reikningsviðskiptum við verslunina, hann staðgreiddi allt sem hann keypti þar. Þá kvaðst Aðalsteinn hafa farið að bústaðnum þar sem rotþróin átti að vera. Haft hefði verið símasamband við ákærða en ákærði verið mjög æstur og sagt þeim að koma sér af lóðinni. Kvað hann lögregluna hafa haft ljósmynd af hinni stolnu rotþró þar sem ákveðin merki voru sjáanleg en ákærði neitað að veita lögreglunni liðsinni sitt. Rótað hafi verið frá rotþrónni sem var við bústað ákærða og í framhaldi hefði ákærða verið tilkynnt að umrædd þró yrði haldlögð. Ákærði hefði í framhaldi komið að bústaðnum og verið mjög reiður. Rotþróin hefði verið grafin upp og flutt á lögreglustöðina á Selfossi. Framburð ákærða um að hann hafi sagt lögreglu strax í upphafi að hann gæti ekki framvísað reikningi fyrir rotþrónni kvað Aðalsteinn ekki vera réttan, ákærði hefði sagt honum strax að hann gæti afhent afrit af reikningnum en það gæti tekið nokkra daga. Ákærði hefði einnig sagt sér að hann hefði keypt rotþróna í Bykó á Selfossi. Þess vegna hefði verið farið þangað og kannað hvort framburður ákærða ætti við rök að styðjast. Þá strax hefði komið í ljós að einungis ein rotþró hefði verið seld í Bykó í apríl og það hafi ekki verið ákærði sem keypti hana. 

Elís Kjartansson lögreglufulltrúi kom fyrir dóminn og kvaðst hafa fengið tilkynningu um þjófnað á rotþró sem hefði staðið við sumarbústað í Grímsnesi. Ekki hafi verið vitað um hver hafi verið að verki. Nokkru síðar hefði lögreglan fengið ábendingu frá E um að ákærði væri að setja niður rotþró við sumarbústað hjá honum. Hefði Aðalsteini Guðmundssyni lögreglumanni verið falið að ræða um það við ákærða ef hann hitti á hann. Svo hefði verið og ákærði þá sagt lögreglunni að hann hefði keypt rotþró í Bykó. Lögreglunni hefði þá verið falið að fara að sumarbústað ákærða og þar hefði sést að nýbúið var að setja niður rotþró. Gengið hefði verið á ákærða að sýna kvittun en ákærði hefði verið viðskotaillur. Minnti Elís að grafa hefði verið á staðnum og lögreglan fengið gröfuna lánaða til að grafa rotþróna upp. Hefði lögreglan haft ljósmynd af stolnu þrónni og því hefði verið ákveðið að grafa þróna upp til að kanna það. Ákærða hefði verið boðið að koma en Elís vissi ekki hvort eða hvenær hann kom. Rotþróin hefði verið haldlögð og flutt á Selfoss í þeim tilgangi að sakargögnum yrði ekki spillt. Þá hafi E eftir það komið með kvittun sem hann hefði fundið við sumarbústaðinn þar sem rotþróin hvarf frá, á lögreglustöðina. Í ljós hefði komið að sú kvittun var fölsuð. Við yfirheyrslu hjá lögreglu hefði ákærði játað að hafa látið breyta umræddri kvittun fyrir sig og hengt hana fyrir utan bústaðinn í þeim tilgangi að hreinsa sig af áburði um þjófnað.

F kom fyrir dóminn og kvaðst vera eigandi að A, Grímsnesi. Hann hefði tekið eftir því sumardaginn fyrsta árið 2008 að rotþró, sem hafi verið fyrir utan bústaðinn hans, var horfin. Hann hefði hringt strax í lögreglu og síðan gefið skýrslu á laugardeginum. Kvaðst F hafa séð þróna síðast á sunnudeginum á undan en þá hefði hann verið að vinna í bústaðnum. Kvað hann smiðinn sem vann við bústaðinn hafa keypt rotþróna. Rotþróin hafi verið búin að standa talsvert lengi fyrir utan bústaðinn, einhverja mánuði. Kvaðst F muna eftir því að hafa séð hjólför eftir bifreið á sínum tíma en ekki vita til þess að þau hafi verið könnuð sérstaklega.

E kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið að vinna við bústaðinn að A, Grímsnesi. E kvaðst hafa keypt þróna í Húsasmiðjunni fyrir einhverjum tíma en hann mundi það ekki nákvæmlega.

Pálmi Jóhannsson, starfsmaður Bykó, kom fyrir dóminn og kvaðst muna til þess að lögreglan hefði haft samband við hann vegna reiknings og kaupa á rotþró. Komið hefði í ljós við könnun hjá Bykó að engar rotþrær hefðu verið seldar þá nýlega svo og hefði verið kannað í eftirlitskerfi verslunarinnar hvort rotþró hefði farið út úr húsi en gleymst að skrá það. Svo hafi ekki verið.

G, [...], Grímsnesi, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa leigt ákærða gröfu á þessum tíma. Búið væri að taka af honum lögregluskýrslu vegna málsins og það væri allt sem hann vissi. Kvaðst hann ekki muna hvaða dag hann hefði leigt gröfuna. G kvaðst muna að hann hafi ekið möl til ákærða einhverja daga. Ákærði hefði haft gröfuna sennilega í viku. Ákærði hefði hringt í sig og sagst vera búinn að nota gröfuna en fljótlega hefði einhver maður hringt aftur í hann og spurt hvort hann ætti gröfuna og í framhaldi hefði lögreglan haft samband við sig. Hann hefði gefið lögregluskýrslu og reynt að segja þar eins rétt frá og unnt var. Aðspurður kvað G það líklega rétt að hann hafi leigt ákærða gröfuna á föstudegi, ef það kæmi fram í lögregluskýrslunni þá væri það rétt.

Friðrik Vilhelmsson hjá Sæplasti á Dalvík gaf símaskýrslu fyrir dóminn og skýrði út vinnsluferli við framleiðslu rotþróa. Kvað hann dagsetningu koma fram á rotþrónni þegar hún er steypt en rotþró sé sett saman úr tveimur tönkum. 18. október 2008 hefðu verið framleiddir tíu tankar. Eftir þann dag hefðu verið settar saman tuttugu rotþrær í október og hefði Húsasmiðjan keypt fimmtán rotþrær í október 2008. Bykó hefði keypt í nóvember sex 2600 lítra rotþrær. Þá kvað hann tvo starfsmenn hjá sér setja tankana saman og handskrifa á tankana stærð þeirra með málningarpenna. Væri það alltaf gert á sama hátt. Þá væru engin sérstök raðnúmer á rotþrónum. Þá væru ekki aðrir á Selfossi sem keyptu af fyrirtækinu rotþrær og nánast engin sala færi fram beint til aðila.

I kom fyrir dóminn eftir ítrekaðar boðanir og hafði þá lögregluskýrsluna með sér til upprifjunar. Kvaðst hann lítið muna eftir málinu þar sem langt væri um liðið. Kvaðst hann hafa komið þennan dag upp í litla bústað og ákærði hafi þá verið að bagsa með rotþró frá Húsasmiðjunni og búinn að grafa holu fyrir henni. Hann hefði hjálpað ákærða við að hífa rotþróna niður og síðan farið. Hefði þetta verið á laugardegi. Aðspurður um það hvernig hann tengi ferðina laugardegi kvaðst hann ekki muna það vel en hann hefði verið að byggja einbýlishús í Reykjanesbæ og örugglega ekki komist frá nema á laugardegi eða sunnudegi. Erindið hefði verið að fá lánaða snittvél. Kvað hann sig og ákærða vera frændur og vini og hafa hjálpað hvor öðrum frá barnæsku. Þá kvaðst I minnast þess að ákærði hefði hringt í sig deginum áður en hann gaf skýrslu hjá lögreglunni í maí 2008 og eitthvað hefði verið rætt um vesen með rotþró. Aðspurður kvaðst I hafa híft rotþróna niður í holuna og ákærði stýrt þrónni en þetta væri ekki eins manns verk. Þetta hefði verið um þrjú- til fjögurleytið. Ákærði hefði ekki átt von á honum sérstaklega þennan dag en  hann hefði verið búinn að falast eftir snittvélinni.

IV.

Ákærði er sakaður um að hafa stolið rotþró að A á tímabilinu 20. til 24. apríl 2008. Þá er hann ákærður fyrir skjalafals með því að hafa í byrjun maí 2008 í blekkingarskyni hengt nótu frá Bykó, dagsetta 19. apríl 2008, á vörubretti fyrir framan inngang sumarhússins að A í Grímsnesi í þeim tilgangi að villa um fyrir kæranda. Ákærði neitaði fyrir dóminum að hafa stolið umræddri rotþró en játaði að hafa látið breyta dagsetningu á umræddri kvittun frá Bykó en það hafi verið gert til að hreinsa sig af þjófnaðarkæru.

Mikið misræmi er í framburði ákærða, bæði fyrir lögreglu og dóminum. Ákærði útskýrði fyrir dóminum að lögreglan hefði beitt hann svo miklum þrýstingi við upphaf afskipta að hann hafi neyðst til að verða sér úti um nótu og þess vegna hefði hann látið breyta dagsetningu á reikningi frá Bykó í þeim tilgangi að hreinsa sig af þjófnaðarkæru.

Verður framburður ákærða nú rakinn.

Þann 30. apríl 2008, í upphaflegum afskiptum lögreglu af ákærða, kvaðst ákærði hafa keypt umrædda rotþró í Bykó á Selfossi en ekki muna kaupdaginn nákvæmlega, það hafi verið sjö til tíu dögum áður, líklegast í kringum helgi. Ákærði sagði strax að hann ætti afrit af reikningnum en það gæti tekið einhvern tíma að finna hann og taldi hann að til væri afrit af honum í Bykó. Þann sama dag kom ákærði breyttu afriti af reikningi fyrir við A í Grímsnesi, við bústað kæranda.

Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 7. maí 2008, klukkan 9.05, sagði ákærði að hann hefði sett rotþróna niður 19. apríl, sama dag og hann hefði keypt hana. Rotþróin hafi verið keypt fyrir hádegi þann dag í Bykó og ákærði sótt hana sjálfur. Hann hafi verið búinn að leigja gröfu sem hann fékk að kvöldi 18. apríl. Þá var ákærði spurður um reikning fyrir þrónni og kvaðst hann ekkert eiga, enda hafi hann verið búinn að láta eina afritið sem hann hafði til eiganda stolnu þróarinnar. Kvaðst ákærði hafa skrifað skilaboð á kvittunina til kæranda. Kvaðst hann hafa sagt lögreglunni það allan tímann að kærandi væri með kvittunina en þeim hafi ekki dottið í hug að hafa samband við hann.

Í skýrslutöku hjá lögreglu síðar þann sama dag, eða kl. 21.25 þegar ákærða var gert ljóst að ekki hefðu fundist nein viðskipti hjá honum í Bykó undanfarna daga, kvaðst ákærði hafa keypt rotþrær í Bykó en hann myndi ekki nákvæmlega hvenær það hafi verið. Aðspurður kvaðst ákærði hafa keypt í Bykó rotþróna sem var við sumarbústaðinn og hann grafið niður en það hafi verið töluvert áður. Ákærði kvaðst þá hafa keypt rotþrær víða, í Borgarplasti, Bykó, Húsasmiðjunni og úti um allt. Í framhaldi kvaðst ákærði ekki vera viss um að rotþróin hafi komið frá Bykó og síðar í skýrslunni kvaðst hann ekki vita hvaðan þróin kom, hann sé að kaupa þrær á mörgum stöðum. Hann sé að vinna fyrir tug manna og stór fyrirtæki þar sem hann sé að versla út á þeirra kennitölur. Þá gat ákærði ekki svarað því hvenær hann kláraði að ganga frá þrónni, tengja hana og moka yfir hana. Þá kvaðst hann, ítrekað aðspurður, halda að hann hafi klárað að ganga frá þrónni á sunnudeginum. Kvað það þó ekki alveg vera á hreinu, það gæti hafa verið á mánudeginum. Hann hafi vantað rauðamöl og hann fengið nokkur hlöss af henni hjá G. Ákærði kvaðst sjálfur hafa flutt rotþróna að sumarbústað sínum á kerru frá „upphafsstað“, sem sé í Grímsnesinu. Hann eigi sjö lóðir í viðbót og vinni við þetta, hann setji niður um tuttugu til fimmtíu rotþrær á vorin og það séu fleiri rotþrær þarna úti um allt. Aðspurður aftur um þróna kvaðst ákærði hafa sett hana niður um fjögurleytið á laugardeginum. I hafi hjálpað honum en hann hafi ekki komið í þeim tilgangi að setja þróna niður með honum. Enn og aftur spurður um það hvar ákærði hafi fengið þróna kvaðst hann hafa flutt hana úr einhverju landi. Ákærði kvað það rétt að yfirleitt þegar eigi að fara að grafa púða þá kaupi hann rotþrær í leiðinni. Þá kaupi hann líka fullt af tilheyrandi efni með þeim og þessu sé svo dreift út um allt Grímsnes, á þeim lóðum sem hann sé með. Um sé að ræða á annað hundrað lóðir. Hann sé með rekstur og sé ekkert að tína þetta neitt saman, svo sæki hann þetta á næstu lóð. Þetta sé á Syðri-Brú og Búfelli og úti um allt, meira að segja úti í Hestlandi og hingað og þangað. Þetta séu svona tuttugu til þrjátíu sem hann hafi keypt núna fyrir utan það sem hann hafi keypt fyrir fyrirtæki, Auðsali, Landmenn o.fl. Aðspurður um hvað hann væri með margar rotþrær á þeim tíma sem hann ætti eftir að setja niður kvaðst ákærði ekki vera með eina einustu. Aðspurður aftur um rotþróna kvaðst ákærði „náttúrulega“ bara hafa keypt hana einhvern tímann í fyrra, í september eða eitthvað svoleiðis, ágúst eða september.

Fyrir dóminum kvaðst ákærði hafa unnið fyrir fjölda fyrirtækja auk þess að hafa starfað sjálfstætt við byggingu sumarbústaða í Grímsnesi. Hann hafi geymt efni sem tilheyrði pípulögn á lagersvæði í Syðri-Brú og í landi Búrfells sem hann einn hafði aðgang að. Kvaðst hann vera með vinnuaðstöðu í Syðri-Brú og í Búrfellslandi. Hann hefði átt þar rotþró frá árinu áður en hún hefði ekki verið neitt sérgreind. Hann hefði líklega verið að kaupa rotþrær í september, október eða nóvember árinu áður, hann hefði bara átt eina þró sem hafi verið á svæðinu.

Ákærði virðist vera viss um að hann hafi híft rotþróna niður laugardaginn 19. apríl 2008. Ákærða varð hins vegar margsaga um það hvenær hann kláraði að ganga frá þrónni. Þá styður framburður vitnisins I þá frásögn ákærða en hann kvaðst fyrir lögreglu hafa farið á laugardegi til ákærða og sett niður rotþró með honum. Ákærði hafi ekki átt von á vitninu en það kom akandi frá Reykjanesi til að fá lánaða snittvél. I kom fyrir dóminn og kvað hann sig og ákærða vera frændur og vini og hafa hjálpað hvor öðrum frá barnæsku. Þá minntist I þess að ákærði hefði hringt í sig deginum áður en hann gaf skýrslu hjá lögreglunni í maí 2008 og eitthvað hefði verið rætt um vesen með rotþró. Verður framburður vitnisins metinn með hliðsjón af þessu en fresta þurfti aðalmeðferð í tvígang þar sem vitnið mætti ekki fyrir dóminn, þrátt fyrir boðun í skýrslutöku.

Er framburður ákærða fyrir lögreglu og dóminum út og suður og engin leið að henda reiður á fullyrðingum hans um það hvernig rotþróin komst í hendur hans. Vitnið G kvaðst í símaskýrslu hjá lögreglu hafa ekið möl til ákærða síðdegis á mánudeginum og fyrir og eftir hádegi á þriðjudeginum. Kvaðst G hafa séð á þriðjudagskvöldinu að þróin var komin niður í holu en ekki búið að ganga frá henni. G mundi lítið um atvik fyrir dóminum en kvað það líklega vera rétt sem hann tjáði lögreglunni á sínum tíma. Getur tímasetning þessi samrýmst því að ákærði taldi að hann hefði kannski verið að ganga frá þrónni á mánudag-þriðjudag.

Þá liggja fyrir ljósmyndir af rotþrónni sem stolið var og þeirri sem grafin var upp hjá ákærða. Þrátt fyrir að ljósmyndin sem tekin var af kæranda sé nokkuð óskýr, þá má greinilega sjá að á báðar þrærnar er handskrifað á sama stað með hvítri málningu „2600 ltr. Rotþró“. Samkvæmt vitninu Friðrik eru slíkar merkingar unnar aðallega af tveimur starfsmönnum Sæplasts og málað á þrærnar. Þrátt fyrir að ekki sé hægt, svo óyggjandi sé, að ganga út frá því að um sömu handskriftina sé að ræða, þá telur dómarinn það hafið yfir allan skynsamlegan vafa að um sömu áletrun sé að ræða. Þá styður sú háttsemi ákærða, sem hann hefur játað fyrir dóminum, að falsa kvittun frá Bykó og breyta svo að dagsetning reiknings sé 19. apríl 2008, það að ákærði hafi ekki verið í góðri trú.

Að öllu ofangreindu virtu verður að telja, þrátt fyrir vitnisburð I um tímasetningu sem hann gat ekki staðfest fyrir dóminum, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið I og varður hann sakfelldur fyrir hana. Þá verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið II en ákærði játaði þá háttsemi fyrir dóminum.

Verður ákærða gerð refsing fyrir brot sín en þau eru réttilega heimfærð til refsiákvæða. Samkvæmt sakavottorði hefur ákærða ekki verið gerð refsing áður.

Er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvo mánuði en þar sem langt er um liðið frá því að rannsókn málsins lauk og dráttar við rekstur málsins, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gríms Hergeirssonar héraðsdómslögmanns, 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

 Jónína Guðmundsdóttir fulltrúi flutti mál þetta af hálfu ákæruvaldsins.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Gunnar Valgeir Reynisson, sæti fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar, og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði allan sakarkostnað sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Gríms Hergeirssonar hdl., samtals 250.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.