Hæstiréttur íslands

Mál nr. 423/2007


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Gáleysi
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. apríl 2008.

Nr. 423/2007.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari)

gegn

Ólafi Ólafssyni

(Jón Magnússon hrl.)

 

Líkamsárás. Gáleysi. Miskabætur.

Ó var gefin að sök vísvitandi líkamsárás með því að hafa sparkað í dyravörðinn A fyrir utan skemmtistað í Kópavogi. Samkvæmt framburði vitna og Ó  höfðu dyraverðir skemmtistaðarins yfirbugað Ó og mun hann hafa legið í götunni fyrir utan staðinn þegar hæll á skó Ó fór í hönd A með þeim afleiðingum að hún brotnaði. Eins og aðstæðum var háttað var talið að Ó ætti að njóta vafans um þá huglægu afstöðu sem bjó að baki háttsemi hans. Yrði ekki staðhæft að hann hefði með ásetningi sparkað í A þannig að um vísvitandi líkamsárás hefði verið að ræða. Með vísan til 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var háttsemi hans því heimfærð undir 219. gr. almennra hegningarlaga. Af þessum sökum og með hliðsjón af kröfugerð ákæruvalds fyrir Hæstarétti var honum ekki gerð refsing í málinu. Á hinn bóginn var skilyrðum fullnægt til að dæma hann til að greiða A skaðabætur sem ákveðnar voru samtals 219.970 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 1. ágúst 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða og að honum verði gert að greiða A 413.345 krónur í skaðabætur með nánar tilgreindum vöxtum.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann aðallega frávísunar bótakröfu en til vara að hann verði sýknaður af henni.

Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa fyrir utan skemmtistaðinn X við [...] í Kópavogi sparkað í hægri handlegg A með þeim afleiðingum að hann handleggsbrotnaði. Er brotið talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eins og ljóslega kemur fram í gögnum málsins og héraðsdómi er verknaðarlýsing ákæru röng að því leyti að A hlaut brot á miðhandarbeini en ekki handlegg. Vörn ákærða var ekki áfátt vegna þessa. Í héraðsdómi er lýst framburði ákærða og vitna. Eins og þar greinir hefur ákærði lýst athöfnum sínum og starfsmanna staðarins með öðrum hætti en þeir. Hann hefur meðal annars dregið í efa að hafa orðið valdur að áverkum A, sem hafi að líkindum fengið þá með því að slá sig hnefahögg á gagnauga.

Aðdraganda að því ætlaða broti sem ákært er fyrir er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Með vísan til forsendna hans verður ekki vefengd sú niðurstaða að A dyravörður hafi komið að eftir að ákærði hafði verið yfirbugaður. Einnig verður staðfest sú niðurstaða að miðhandarbein í hægri hönd A hafi brotnað við það að fótur ákærða fór í höndina. Hins vegar verður að líta til þess sem getið er í héraðsdómi að þá höfðu starfsmenn staðarins yfirbugað ákærða og höfðu þeir haft hann í tökum töluverða stund þar sem hann lá í götunni fyrir utan skemmtistaðinn, þótt ekki beri öllum saman um hvort ákærði hafi legið þar á maga eða baki. Vitnið A telur að hönd sín hafi brotnað við að hæll á skó ákærða hafi farið í hana.

Eins og aðstæðum er háttað verður ákærði að njóta vafans í mati á þeirri huglægu afstöðu sem bjó að baki háttsemi hans. Samkvæmt því verður ekki staðhæft að ákærði hafi með ásetningi sparkað í A þannig að háttsemin verði virt sem vísvitandi líkamsárás líkt og gert er í héraðsdómi. Með vísan til 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála verður háttsemi hans því heimfærð undir 219. gr. almennra hegningarlaga, en afleiðingar hennar eru slíkar að hún myndi varða refsingu samkvæmt 218. laganna ef um ásetningsverk væri að ræða. Þegar litið er til þessa og kröfugerðar ákæruvalds fyrir Hæstarétti verður ákærða ekki gerð refsing í máli þessu.

Þrátt fyrir að ákærði verði ekki fundinn sekur um að hafa framið brot sitt með ásetningi eru skilyrði a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um miskabætur uppfyllt. Er fjárhæð miskabóta ákveðin 150.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir. Þá verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um aðrar bætur með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Ákvæði héraðsdóms sakarkostnað verður einnig staðfest.

Áfrýjunarkostnaði málsins, þar með töldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, verður samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 skipt þannig að ákærði greiði helming hans en helmingur greiðist úr ríkissjóði, allt svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærða, Ólafi Ólafssyni, verður ekki gerð refsing í máli þessu.

Ákærði greiði A 219.970 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 150.000 krónum frá 21. maí 2006 til 5. janúar 2007 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 219.970 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, ákveðast 249.000 krónur. Áfrýjunarkostnað málsins, sem nemur samtals 268.300 krónum, skal ákærði greiða að helmingi en hinn helmingur áfrýjunarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. júlí 2007.

             Mál þetta, sem var dómtekið 5. þ.m., er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu útgefinni 6. mars 2007 á hendur Ólafi Ólafssyni, [kt.], Mýrarkoti 4 á Álftanesi „fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt 21. maí 2006, fyrir utan skemmtistaðinn X, [...] í Kópavogi, sparkað í hægri handlegg A, [kt.], með þeim afleiðingum að hann handleggsbrotnaði.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.

Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þar er jafnframt getið bótakröfu sem A gerir á hendur ákærða. Krefst hann þess að ákærða verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 413.345 krónur „auk vaxta [samkvæmt] 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 21. maí 2006 fram til þess er mánuður er liðinn frá því að krafan var kynnt sakborningi, en með dráttarvöxtum [samkvæmt] 6. gr. sbr. 9. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags“.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af refsikröfu ákæruvaldsins og bótakröfu A. Til vara gerir hann þá kröfu að honum verði einungis gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að bótakröfu verði vísað frá dómi.

I.

             Lögregla var kvödd að veitingastaðnum X við [...] í Kópavogi um klukkan 5 aðfaranótt sunnudagsins 21. maí 2006 vegna slagsmála sem þá voru sögð standa yfir fyrir utan staðinn. Í frumskýrslu Guðbjargar Sigríðar Einarsdóttur lögreglumanns segir að þegar hún kom á vettvang ásamt Eiríki Emil Beck lögreglumanni hefðu tveir starfsmenn veitingastaðarins verið búnir að yfirbuga mann sem að sögn þeirra hafði skömmu áður verið vísað þaðan út. Lá maður þessi, ákærði í málinu, á maganum og hélt annar starfsmaðurinn honum niðri. Lögreglumennir hefðu handjárnað ákærða og fært hann í lögreglubifreið. Á vettvangi hafi Guðbjörg Sigríður rætt við þrjá starfsmenn veitingastaðarins, þá B, A og C. Fram hafi komið hjá B að ákærði hafi byrjað að hóta honum um leið og hann kom inn á veitingastaðinn. Hafi B þegar vísað honum á dyr, en ákærði hafi brugðist illa við og neitað að yfirgefa staðinn. Með aðstoð A hafi B náð að koma ákærða út, þar sem hann hafi síðan verið yfirbugaður. Í samtali við A hafi komið fram að hann hafi aðstoðað B við að koma ákærða út af veitingastaðnum. Ákærði hafi barist mjög á móti og í þeim átökum sem þarna urðu sparkað í vinstri handlegg A. Er haft eftir A í frumskýrslunni að vinstri handleggur hans hafi sennilega brotnað við þetta spark frá ákærða. Frásögn C samkvæmt skýrslunni var á þann veg að þeir B og A hefðu vísað ákærða út af staðnum og að ákærði hafi brugðist ókvæða við og barist á móti. Fyrir utan veitingastaðinn hafi þeim tvímenningum tekist að yfirbuga ákærða. Í skýrslunni er loks haft eftir ákærða að þegar hann kom inn á veitingastaðinn og að afgreiðslunni hafi hann farið að hæðast að þeim starfsmanni sem þar var staddur og kallað hann titt. Hann hafi í kjölfarið verið tekinn tökum og færður út. Honum hafi mislíkað þetta, barist á móti og fengið högg á vinstra gagnauga.    

             Í skýrslu sem tekin var af A hjá lögreglu 22. maí 2006 kvaðst hann starfa sem dyravörður á veitingastaðnum X í Kópavogi og að hann hafi verið þar við störf þegar maður, sem sýnt hafi af sér dólgslega framkomu gagnvart starfsfólki og gestum, hafi sparkað í hægri hendi hans. Hafi verið staðfest af lækni á slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss að hendin hafi brotnað við sparkið. Er reyndar skráð í þessa skýrslu þar sem rakin er frásögn ákærða að þetta atvik hafi átt sér stað 22. maí 2006 um klukkan 5. Á öðrum stað í skýrslunni er hins vegar tilgreint að atvikið sem skýrslutakan laut að hafi átt sér stað 21. maí 2006 klukkan 04:58. Í skýrslunni er haft eftir A að hann hafi komið að þar sem samstarfsmenn hans, þeir B og C, hefðu staðið yfir ofurölvi manni sem hafi legið á stéttinni fyrir framan veitingastaðinn. Hafi hann strax skynjað að átök hefðu átt sér stað og því hringt á lögreglu og beðið um aðstoð. B hafi sagt honum að þessi maður hafi haft í frammi dólgslega framkomu gagnvart starfsfólki og gestum og verið með líflátshótanir sem hann hafi beint að starfsmönnum. Þessu næst er bókað eftir A: „Mætti kvaðst hafa tekið eftir því að þessi maður reyndi að rísa á fætur og hafi mætti því reynt að gera honum það auðveldara með því að styðja við hann með hægri fætinum. Í því hafi maðurinn, þar sem hann lá, sparkað frá sér upp í loftið með hægri fætinum með þeim afleiðingum að hællinn lenti í hægri hendi mætta. Mætti hafi þá þurft að handsama manninn, ásamt B, til þess að yfirbuga hann, því maðurinn var alveg trylltur og ærðist þegar hann frétti að lögreglan væri á leiðinni og tók ekki sönsum, þó svo þeir B reyndu að tala um fyrir honum. Mætti kvaðst þá fyrst hafa fundið til sársauka í hendinni.“ Þá kemur fram í þessari skýrslu A að hann hafi strax í kjölfar þessa atviks leitað á slysadeild. Hann hafi verið búinn að bíða í afgreiðslu slysadeildarinnar í 10 mínútur þegar þessi sami maður hafi komið þangað, sest við hliðina á honum og haft í frammi líflátshótanir í hans garð. Starfsstúlka á slysadeildinni hafi veitt þessari framkomu mannsins athygli og kallað til lögreglumann sem þarna var staddur. Sá hafi komið og hleypt A inn fyrir afgreiðsluna og með því skilið þá í sundur.

             Ákærði Ólafur Ólafsson bar hjá lögreglu 12. júní 2006 að hann hafi hafið drykkju um klukkan 10 á kvöldi laugardagsins 20. maí 2006 og í fyrstu farið á veitingastaðinn Y í Kópavogi. Eftir að þeim stað var lokað hafi hann farið á X. Hann hafi verið undir áhrifum áfengis en vitað vel af sér, enda hafi áfengisdrykkja hans verið hófleg. Þegar hann var kominn inn á X og að þeim stað þar sem aðgangseyrir er innheimtur hafi hann rétt starfsmanni þar peninga. Sá hafi verið lágvaxinn og sköllóttur. Þar sem hann hafi kannast við þennan mann í sjón og talið að hann hafi starfað á öðrum veitingastað á árum áður hafi hann ákveðið að stríða honum aðeins. Það hafi hann gert með því spyrja hann hvort að litli stubburinn sem hafi verið með honum á Gauki á Stöng væri líka að vinna þarna. Starfsmaðurinn hafi þá strax sagt við ákærða að þarna inn færi hann ekki. Þá hafi hann kallað eftir aðstoð og hafi einn dyravörður þegar komið þarna að. Þessu næst skýrði ákærði svo frá: „Ég stóð enn við miðasöluna þegar tveir dyraverðir komu að mér, skyndilega sagði dyravörðurinn sem ég hef áður minnst á í miðasölunni „haldið honum“ var ég þá gripinn tökum aftan frá með hálstaki og var mér kippt út af staðnum, en þann aðila [þann] þriðja sá ég aldrei. Mér finnst eins og það hafi myndast einhver eyða í mínu minni vegna hálstaksins. Næsta sem ég veit var að ég lá í götunni og var verið að þjarma að mér.“ Þessu næst lýsir ákærði í þessari skýrslu sinni aðför dyravarðanna að honum. Þeir hefðu lagst ofan á hann og meðal annars beitt hjánum á sér með því að reka þau í ákærða víðsvegar um líkamann, en við það hafi hann fundið fyrir miklum sársauka. Hann hafi verið keyrður í götuna fyrir utan veitingastaðinn og lagður þar á magann með hendur fyrir aftan bak. Hann hafi hvorki geta hreyft legg né lið, en barist um til þess eins að ná andanum. Vel geti verið að hann hafi slegið frá sér þegar búið var að taka hann hálstaki en hann hafi enga möguleika haft til að slá eða sparka frá sér þegar búið var að færa hann í jörðina. Hann hafi fundið fyrir miklum kvölum vegna þess sem hann kallaði fantaskap dyravarðanna. Sérstaklega tiltók hann að hann hafi fundið til mikils sársauka við gagnauga eftir átökin. Hann hafi orðið feginn þegar lögreglumenn komu á vettvang. Eftir stutta dvöl á lögreglustöð hafi hann síðan farið á slysadeild í þeim tilgangi að láta lækni líta á sig eftir þessi átök við dyraverðina, en honum hafi liðið illa um allan líkamann eftir þau. Þar hafi hann beðið eftir aðstoð í tvær klukkustundir, en ekki haft þolinmæði til að bíða lengur og farið heim til sín. Síðar hafi komið í ljós að hann hafi verið með brákuð rif og glóðarauga. Sérstaklega aðspurður kvaðst ákærði ekki minnast þess að hafa hitt A á slysadeildinni hina umræddu nótt, hvað þá að hann hafi þar haft í frammi þær hótanir sem hann er sakaður um að hafa viðhaft.

Að því er varðar áverka sem ákærði staðhæfir að dyraverðir veitingastaðarins hafi veitt honum hina umræddu nótt hefur af hálfu ákærða verið vísað til vottorðs læknis á heilslugæslustöðinni Sólvangi í Hafnarfirði, en það er á meðal gagna málsins. Samkvæmt því leitaði ákærði á heilsugæslustöðina 30. maí 2006 vegna áverka sem hann kvaðst hafa orðið fyrir 21. sama mánaðar. Við skoðun hafi hann verið með glóðarauga á vinstra auga og aumur yfir rifjum 10-12 í vinstri síðu hliðlægt. Þá hafi hann verið marinn á mjaðmakambi vinstra megin. Aldur og staðsetning áverka hafi samrýmst frásögn ákærða.   

             Skýrslutökum af þeim B og C var þann veg háttað við lögreglurannsókn málsins að lögreglumaður átti við þá samtöl í síma og skráði niður frásagnir þeirra. Í þessum skýrslum er út frá því gengið umrætt atvik hafi átt sér stað 22. maí 2006. Ekki er ástæða til að rekja efni þessara skýrslna að öðru leyti en því að samkvæmt því sem þar kemur fram kom A ekki að málinu fyrr en tekist hafði að koma ákærða út. Hafi A þurft að bregða sér frá og komið að húsinu í þann mund sem B hafði tekist að leggja ákærða í jörðina. Staðið var með sama hætti að upplýsingaöflun frá D starfsmanni í afgreiðslu slysadeildar Landspítla-háskólasjúkrahúss og Ólafi Stefni Jónssyni lögreglumanni, en þau munu bæði hafa verið á vakt þar hina umræddu nótt. Verður ráðið af skýrslu lögreglumanns um viðtölin að þeim hafi verið kynnt frásögn A af samskiptum hans og ákærða á biðstofu slysadeildarinnar. Er það sem haft er eftir þeim í skýrslunni í samræmi við frásögn A, en hvorugt þeirra kvaðst hafa heyrt hvað mönnunum tveimur fór í milli.

             Í upphaflegu vottorði Elísabetar Benedikz sérfræðilæknis á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi, sem er dagsett 4. október 2006, var sagt að A hafi leitað þangað 21. apríl 2006 klukkan 5. Um misritun er hér að ræða og var hún leiðrétt með framlagningu á nýju vottorði frá lækninum í þinghaldi 5. þ.m. Liggja þannig frammi í málinu gögn sem staðfesta komu A á slysadeildina um klukkan 5 aðfaranótt 21. maí 2006. Í vottorðunum er haft eftir A að hann hafi verið við störf á X þegar einn af gestum staðarins hafi sparkað  fast í hægri hendina á honum. Kvaðst hann finna fyrir miklum verk yfir hnúa litla fingurs. Um skoðun og rannsóknir segir svo í seinna vottorðinu: „Við skoðun sást glöggt að hann var bólginn yfir hnúa 5. fingurs á hægra handarbaki. Þreifieymsli voru yfir hnúunum bæði beint og óbeint. Rtg. af hægri hendi leiddi í ljós subcapitulert brot á 5. miðhandarbeini með óverulegri skekkju.“ Ekkert í fyrra vottorðinu er svo séð verði í andstöðu við þá lýsingu sem þarna er gefin.

II.

Fyrir dómi neitaði ákærði alfarið sök. Hann kvaðst hafa verið einn á ferð þegar hann kom á veitingastaðinn X hina umræddu nótt. Hann hafi verið ölvaður en kvaðst engu að síður hafa verið vel áttaður. Hann hafi kannast við manninn í miðasölunni frá öðrum veitingastað og spurt þegar hann var að fara að borga aðgangseyri hvort hinn titturinn væri að vinna þarna líka. Þetta hafi farið fyrir brjóstið á manninum og hann strax gefið það til kynna að ákærði fengi ekki að fara inn á veitingastaðinn. Þá hafi hann kallað til dyravörð og skipað honum að halda ákærða. Dyravörðurinn og þessi maður í miðasölunni hefðu síðan ráðist að honum og talað um það sín í milli að þeir myndu „taka hann úti“. Kvaðst ákærði hafa tjáð þeim að hann væri nýkominn úr læknisaðgerðum á öxlum og hnjám og þannig reynt að fá þá til að beita hann ekki harðræði. Þeir hefðu í engu sinnt þessu og ákærði þá streist á móti þeim. Komið hafi til átaka þar sem hann hafi reynt að verjast þeim tveimur, en þó án þess að kýla eða sparka frá sér. Á einhverju tímamarki og þarna inni í anddyrinu hafi annar dyravörður komið og tekið ákærða hálstaki. Ákærði hafi þegar hér var komið sögu átt við ofurefli að etja og í engu geta varist eða athafnað sig. Hann hafi síðan verið færður út úr húsinu og lagður á magann og hreinlega pyntaður þar af þessum þremur mönnum. Þessi í miðasölunni hafi greinilega haft sig mest í frammi. Ákærði hafi barist um í þeim eina tilgangi að ná andanum. Hann hafi legið á maganum meira og minna eftir að út var komið og allt þar til lögreglan kom á vettvang. Sé óhugsandi í ljósi þess að hann hafi náð að sparka frá sér með þeim hætti sem haldið hefur verið fram, enda hafi hann aldrei gert það. Frásögn dyravarðanna um annað sé tilbúningur. Þá komi hér einnig til, og óháð þeirri stöðu sem hann var í, að vegna nýafstaðinna aðgerða á hnjám hefði hann ekki með nokkru móti getað sparkað frá sér. Staðhæfingar A og B um að ákærði hafi sparkað frá sér séu beinlínis ósannar. Aðspurður um þann áverka sem staðhæft er að A hafi borið við læknisskoðun síðar um nóttina svaraði ákærði því til að áverkann hafi A hugsanlega hlotið við að slá ákærði í andlitið. Þá kvaðst ákærði sem fyrr ekki minnast þess að hafa hitt A á slysadeildinni síðar þessa sömu nótt.

Í skýrslu sinni fyrir dómi skýrði A svo frá að hann hafi verið við störf á X hina umræddu nótt. Hann hafi þurft að fara í sendiferð og verið að að koma úr henni þegar hann hafi séð tvo samstarfsmenn sína, þá B og C, halda manni fyrir utan veitingastaðinn. Hann hafi að beiðni þeirra hringt á lögreglu og beðið um aðstoð. C hafi fljótlega farið inn á veitingastaðinn til að hringja aftur á lögregluna og kvaðst A þá hafa tekið stöðu hans. Hefðu hann og B staðið sitt hvorum megin við manninn, sem legið hafi á bakinu, og haldið honum föstum með því að þrýsta fótum að efri hluta líkama hans. Kvaðst A hafa staðið hægra megin við manninn og sett hægri fót sinn þétt upp að manninum. Maðurinn hafi farið að ókyrrast þegar það hafi öðru sinni borist í tal að hringja þyrfti á lögreglu. Hann hafi síðan allt í einu sparkað upp fyrir sig með hægri fæti og beint upp í hægri hendi A. Taldi A að hællinn hafi lent á hendinni, sem hafi rykkst til við höggið. Þetta hafi hann augljóslega gert í þeim tilgangi að losna, enda hafi hann byrjað að berjast um í kjölfar sparksins. Hann hafi þá aftur verið tekinn tökum og færður yfir á magann. Við þá aðgerð kvaðst A strax hafa fundið að eitthvað mikið væri að hendinni. Að sögn A var ákærði undir áhrifum áfengis þegar þetta gerðist. Hann hafi í fyrstu ekki verið æstur, en farið að ókyrrast  þegar talað var um það í seinna skiptið að kalla þyrfti á lögreglu. Hann hafi þá eins og áður segir verið færður yfir á magann og hendur hans settar í lás fyrir aftan bak. Loks bar A með sama hætti og hjá lögreglu um samskipti hans og þessa manns á slysadeild þessa sömu nótt.

Vitnið B kvaðst í skýrslu sinni fyrir dómi hafa verið staddur innan við afreiðsluborð í anddyri veitingastaðarins X þegar ákærði hafi komið þar inn hin umræddu nótt. Ákærði hafi verið ölvaður, neitað að borga aðgangseyri og látið dólgslega. Þannig hafi hann haft uppi hótanir um barsmíðar og verið grófur í tali. Þá hafi hann teygt sig yfir afgreiðsluborðið og rifið í B. Kvaðst B hafa farið fram fyrir afgreiðsluborðið og beðið ákærða um að koma sér út. Því hafi ákærði neitað. Hafi komið til stimpinga á milli þeirra, en B tekist eins síns liðs að koma ákærða út. Hann hafi síðan staðið í dyrunum til að varna ákærða inngöngu. Ákærði hafi hins vegar gert tilraun til að komast inn aftur og hefðu mál þá þróast á þann veg að B hafi tekið hann tökum og lagt hann á jörðina. Í þann mund hafi A komið þarna að, en hann hafi verið að sinna einhverju erindi „úti í bæ“. Ákærði hafi legið á bakinu á jörðinni, verið mjög æstur og hafi þurft að halda honum. Hafi B sjálfur haldið í hendur hans en A í fætur. Síðar þegar aðeins hafi verið slakað á tökunum hafi ákærði brjálast og byrjað að sprikkla og sparka frá sér. Hafi hann reynt að sparka í B, en það hafi ekki tekist. Hann hafi hins vegar náð að sparka í hægri hendi A. Taldi B að ristin á hægri fæti ákærða hafi lent á hægri hendi A. Aðspurður um þátt C í þessari atburðarás svaraði B því til að hann hafi eingöngu hringt á lögregluna en ekki tekið þátt í að færa ákærða út af veitingastaðnum eða þeim átökum sem þar urðu.

Vitnið C bar fyrir dómi að hann hafi verið að vinna á veitingastaðnum X hina umræddu nótt, en hann vinni þar sem barþjónn. Inn hafi komið maður sem hafi neitað að borga aðgangseyri og farið að rífast við B dyravörð. Maður þessi hafi verið ölvaður og æstur og rifið í B. Einhver orðaskipti á milli þeirra hefðu átt sér stað, en viðskiptum þeirra lyktað með því að B hafi komið manninum út. Kvaðst C telja að hann hafi aðstoðað B við það og minntist þess að hafa tekið manninn taki aftan frá. Þegar út var komið hafi þessi maður verið lagður á jörðina og kvaðst C hafa staðið við hlið hans í mjög skamman tíma, en A hafi fljótlega komið þarna að og hann þá farið inn aftur og hringt á lögreglu. Fram kom hjá C að hann hafi heyrt talað um það þarna um nóttina að A hafi þurft að fara á slysadeild vegna þess að sparkað hafi verið í hendina á honum.

Vitnið Eiríkur Emil Beck lögreglumaður bar fyrir dómi að lögreglu hafi borist tilkynning um að dyraverðir á Goldfinger væru í vandræðum með einhvern gest. Inntur eftir aðstæðum þegar lögregla kom á vettvang kvaðst Eiríkur Emil telja að dyraverðir hefðu þá verið með mann í tökum og að hann hafi legið á maganum. Eftir að hafa heyrt lýsingu dyravarðanna á atvikum hafi þessi maður verið handjárnaður og færður inn í lögreglubifreiðina. Í samtali sem vitnið hafi átt við manninn þar hafi komið í ljós að hann var talsvert ölvaður.

Guðbjörg Sigríður Einarsdóttir lögreglumaður ritaði svo sem fram er komið frumskýrslu lögreglu í málinu. Í vitnisburði sínum fyrir dómi staðfesti hún þá skýrslu sína. Kvað hún þar réttilega frá því greint að ákærði hafi legið á maganum á jörðinni fyrir framan veitinagstaðinn þegar lögreglumennirnir komu þangað og að hann hafi verið með hendur fyrir aftan bak, en samkvæmt skýrslunni var það B sem þá hélt ákærða en A stóð þar hjá. Fram kom hjá Guðbjörgu Sigríði að hún hafi rætt við starfsmenn veitingastaðarins og taldi að það sem ritað er um þau samtöl í skýrslunni sé réttilega eftir þeim haft. Svo sem áður er rakið er þar haft eftir A að hann hafi aðstoðað B við að koma ákærða út af staðnum og að ákærði hafi sparkað í vinstri hendi hans. Vel geti þó verið að þetta sé ekki rétt. Kvaðst hún í öllu falli ekki muna nú í hvora hendina ákærði á að hafa sparkað samkvæmt frásögn A. Þá kom fram hjá Guðbjörgu Sigríði að A hafi haldið um hendina og talið að hún væri brotin. Loks skýrði vitnið svo frá að ákærði hafi verið kurteis við lögreglumennina og handjárn sem hann hafi verið færður í hafi verið tekin af honum þegar hann var sestur inn í lögreglubifreiðina þar sem Eiríkur Emil hafi rætt við hann.

A hefur fyrir dómi sagt ranga þá lýsingu í frumskýrslu að hann hafi sagt við lögreglu að sparkað hafi verið í vinstri hendi hans. Þá sé það einnig rangt að hann hafi skýrt svo frá á vettvangi að hann hafi hjálpað B við að koma ákærða út úr húsinu. Þegar hann hafi komið úr sendiferð sem hann var í hafi verið búið að færa ákærða út og hann hafi fyrst þá hafið afskipti af málinu.

III.

Fyrir liggur að lögregla var kvödd að veitingastaðnum X við [...] í Kópavogi um klukkan 5 aðfaranótt sunnudagsins 21. maí 2006 að beiðni starfsmanna staðarins og vegna slagsmála sem sögð voru standa þar yfir. Þegar lögreglumennirnir Guðbjörg Sigríður Einarsdóttir og Eiríkur Emil Beck komu á vettvang voru dyraverðir búnir að yfirbuga ákærða, en framferði hans hafði að þeirri sögn orðið til þess að aðstoðar lögreglu var óskað. Um aðdraganda þess sem þarna gerðist telst það upplýst að ákærði kom á veitingastaðinn skömmu áður en lögregla var kölluð til. Hann var þá talsvert ölvaður og ögrandi í framkomu. Var honum meinaður aðgangur að veitingastaðnum og vísað út. Kom til stimpinga á milli hans og B dyravarðar inni í anddyri veitingarstaðarins, sem annar starfsmaður, C barþjónn, mun hafa blandað sér í. Færðu þeir ákærða út úr húsinu, þar sem einhverjar stimpingar héldu áfram. Um atburðarás fram að þessu verður engu slegið föstu umfram þetta. Samkvæmt vitnisburði A, sem starfaði sem dyravörður á veitingastaðnum þessa nótt, kom hann ekki að málinu fyrr en samstarfsmönnum hans hafði tekist að yfirbuga ákærða framan við veitingastaðinn. Vitnisburður A fyrir dómi um atvik í kjölfar þess að hann hóf að hafa afskipti af ákærða er skýr og afdráttarlaus, en gerð er grein fyrir honum í kafla II hér að framan. Fer hann í öllum meginatriðum saman við skýrslu A hjá lögreglu 22. maí 2006 og það sem lögreglumaður hefur eftir honum í símaviðtali 21. júlí 2007. Ekki er hins vegar fullt samræmi á milli vitnisburðar A og vættis B um tildrög þess að ákærði hóf að sparka frá sér. Þeim ber hins vegar saman um það meginatriði sakargifta á hendur ákærða að hann hafi þá legið á bakinu og sparkað að minnsta kosti einu sinni í hægri hendi A. Í vitnisburði Guðbjargar Sigríðar Einarsdóttur kom fram að þegar hún kom á vettvang hafi A haft orð á því að ákærði hefði sparkað í hendina á honum að hann óttaðist að hann væri handarbrotinn. Hann hafi einnig haldið um hendina. Þá liggur það fyrir að A leitaði á slysadeild strax í kjölfar þess að lögregla hafði handtekið ákærða. Samkvæmt vottorði Elísabetar Benedikz læknis gaf hann þá skýringu á komu sinni að sparkað hefði verið í hægri hendina á honum og að hann finndi fyrir miklum verk yfir hnúa litla fingurs. Tekin hafi verið röntgenmynd af hendinni og hafi hún leitt í ljós brot á 5. miðhandarbeini. Í skýrslu læknisins fyrir dómi kom fram að miðhandarbeinið hafi verið brotið rétt ofan við hnúann á litla fingri.

Vitnisburður A fyrir dómi var greinargóður og trúverðugur að mati dómsins. Svo sem fram er komið var ákærði talsvert ölvaður í umrætt sinn, en hann hafði að eigin sögn hafið drykkju um klukkan 22 kvöldið áður. Ber vitnum saman um að hann hafi verið töluvert æstur allt þar til lögregla kom á vettvang. Þá hefur hann skýrt svo frá að hann minnist þess ekki að hafa hitt A á slysadeild þessa nótt, hvað þá að hann hafi þar haft í hótunum við hann. Fær lýsing A á samskiptum hans og ákærða á slysadeildinni fyllilega samrýmst lögregluskýrslu sem um það hefur verið rituð, en þau vitni sem þar áttu hlut að máli komu reyndar ekki fyrir dóm.

Að virtu því sem að framan er rakið þykir ekki varhugavert að telja nægilega sannað, sbr. 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að ákærði hafi, aðfaranótt sunnudagsins 21. maí 2006, sparkað í hægri hendi A og með þeirri háttsemi sinni orðið valdur að því að miðhandarbein brotnaði. Verður þessi háttsemi hans virt sem vísvitandi líkamsárás og að honum hafi í öllu falli hlotið að vera það ljóst að spark hans gæti haft þær afleiðingar í för með sér sem raun ber vitni. Í ljósi afleiðinganna er brot ákærða réttilega heimfært í ákæru til 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Getur viss ónákvæmni í ákæru um háttsemi ákærða og afleiðingar hennar ekki staðið því í vegi að sakaráfall verði dæmt, enda varð vörn ekki áfátt af þeim sökum, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991.

IV.

Ákærði hefur ekki áður verið sakfelldur fyrir refsiverðan verknað og verður litið til þess við ákvörðun refsingar hans, sbr. 5. töluliður 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn verður ekki talið að ákærði eigi sér sérstakar málsbætur í skilningi 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og ekki þykja heldur vera efni til að ákvarða refsingu hans með hliðsjón af 3. mgr. 218. gr. b. sömu laga. Þykir refsing ákærða að atvikum virtum hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Þegar litið er til þess að ákærði hefur ekki áður sætt refsingu þykir rétt að skilorðsbinda fullnustu refsingar hans, svo sem nánar greinir í dómsorði.

V.

             Skaðabótakrafa A samkvæmt ákæru nemur svo sem fram er komið 413.345 krónum. Gerð er krafa um miskabætur og nemur sá kröfuliður 300.000 krónum. Þá er krafist greiðslu á útlögðum lækniskostnaði að fjárhæð 19.970 krónur. Að auki er gerð krafa um greiðslu á kostnaði vegna aðstoðar lögmanns við að halda bótakröfunni fram fyrir dómi og nemur sá liður 93.375 krónum.

             Fullnægt er skilyrðum til að dæma ákærða til að greiða A miskabætur á grundvelli a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, og þykja þær eftir atvikum hæfilega ákveðnar 75.000 krónur. Þá verður krafa A um bætur vegna útlagðs kostnaðar tekin til greina með 19.970 krónum, en A telst hafa lagt fram í málinu viðhlítandi gögn til stuðnings þessari kröfu. Loks verður ákærða gert að bæta kostnað af aðstoð lögmanns vegna málsins, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála, með 50.000 krónum og er virðisaukaskattur þar meðtalinn.

             Samkvæmt framansögðu verður ákærða gert að greiða A 144.970 krónur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir. Er í því sambandi sérstaklega til þess að líta að bótakrafa telst hafa verið birt ákærða við skýrslutöku hjá lögreglu 5. desember 2006. Þá er í kröfubréfi lögmanns einvörðungu gerð krafa um vexti af miskabótum.

Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Ekki verður séð að annar sakarkostnaður hafi fallið til vegna málsins.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Ólafur Ólafsson, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu  dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

             Ákærði greiði A 144.970 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 75.000 krónum frá 21. maí 2006 til 5. janúar 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

             Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 161.850 krónur.