Hæstiréttur íslands
Mál nr. 182/2003
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 27. nóvember 2003. |
|
Nr. 182/2003. |
K (Valborg Þ. Snævarr hrl.) gegn M (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.) |
Börn. Forsjá. Gjafsókn.
Héraðsdómur hafði dæmt M forsjá fjögurra barna málsaðila en fyrir Hæstarétti snérist ágreiningur aðeins um forsjá tveggja yngri barnanna þar sem samkomulag hafði tekist með aðilum um sameiginlega forsjá þeirra eldri. Börnin höfðu frá samvistarslitum aðila árið 2001 átt lögheimili hjá K. Talið var, með vísan til þess að breyting hafi orðið til batnaðar á högum K og barnanna frá því að héraðsdómur gekk og meiri stöðugleiki kominn í líf þeirra, að það hefði minnsta röskun í för með sér fyrir börnin að þau yrðu áfram saman hjá henni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 16. maí 2003. Hún krefst forsjár barna málsaðila, þeirra C, [fædds] 1994, og D, f. [fæddrar] 1996. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en hún hefur gjafsókn fyrir báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms að því er varðar forsjá C og D og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Í héraði deildu málsaðilar einnig um forsjá eldri barna sinna, A, [fædds] 1987, og B, [fæddrar] 1988. Við málflutning fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu málsaðila, að þeir hefðu samið svo um, að forsjá þeirra skyldi vera sameiginlega í höndum beggja, og skyldi B eiga lögheimili hjá áfrýjanda en A hjá stefnda.
Mörg ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.
I.
Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram gengu málsaðilar í hjúskap á árinu 1981 en slitu samvistum [...] 2001. Allan þann tíma bjuggu þau í [...] og eignuðust sjö börn. Eru sex þeirra á lífi og tvö þau elstu orðin lögráða. Við samvistaslit flutti áfrýjandi með fjögur yngstu börnin til [...], en stefndi varð eftir í [...]. Hafa yngstu börnin tvö, sem hér er deilt um, gengið í skóla í [...] frá hausti 2001, fyrst í [S], svo í [R], en frá 1. desember 2002 hafa þau gengið í [T]. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, dæmdi stefnda forsjá barnanna fjögurra. Hann taldi, að áfrýjandi ætti við veruleg sálfræðileg vandamál að stríða, meðal annars óhóflega tölvunotkun, og virtist hafa takmarkað innsæi í vanda sinn. Hún hefði vanrækt skólasókn barna sinna og hefði verið kvartað til [barnaverndaryfirvalda] vegna þess.
Héraðsdómur gekk 2. maí 2003 og var honum áfrýjað 16. sama mánaðar. Þrátt fyrir niðurstöðu hans hafa börnin áfram átt lögheimili hjá áfrýjanda í [...]. Umgengni stefnda við börnin hefur gengið hnökralaust, þau hafa verið hjá honum aðra hvora helgi, auk þess sem þau hafa dvalist hjá honum að mestu leyti sumrin 2002 og 2003.
II.
Fyrir héraðsdóm var lögð álitsgerð dómkvadds matsmanns, Einars Inga Magnússonar sálfræðings, um aðstæður foreldra og hæfni þeirra svo og aðstöðu barnanna og þarfir, tengsl þeirra við foreldra og innbyrðis.
Niðurstöður sálfræðilegra prófana sýndu, að áfrýjandi hefði nokkuð jákvæða og styrka sjálfsmynd og góða hæfni til aðlögunar með getu til að takast á við dagleg viðfangsefni. Kvíði mældist innan eðlilegra marka svo og einkenni þunglyndis. Matsmaður taldi áfrýjanda hafa raunhæfa sýn á þarfir barnanna samfara vaxandi aldri og auknum þroska og hvernig hún sjálf geti mætt kröfum þeirra og þörfum. Að því er stefnda varðar sýndu niðurstöður sálfræðilegra prófana sterk þunglyndiseinkenni, svo sem svartsýni, reiði og óyndi. Hann skorti talsvert sjálfstraust, væri afar næmur fyrir tilfinningalegu áreiti og auðsæranlegur. Félagslyndi mældist langt neðan viðmiðunarmarka og benti til allmikillar hlédrægni. Í áliti matsmannsins, sem hann staðfesti fyrir dómi, taldi hann að stefndi hefði gefið dekkri mynd af sér í sálfræðilegu prófunum en raunin var. Matsmaðurinn taldi báða foreldra hæfa til að hafa á hendi forsjá barnanna.
Eftir að héraðsdómur gekk var sami matsmaður dómkvaddur að nýju að beiðni áfrýjanda til að framkvæma viðbótarmat á tilgreindum atriðum, sem varða hagi barnanna með tilliti til framtíðarskipunar forsjár þeirra. Var óskað eftir því, að hann kannaði önnur þau atriði málsins, sem hann teldi mikilvæg og gætu haft gildi fyrir niðurstöðu þess.
Í viðbótarmatinu kemur fram, að breytingar hafa orðið á lífi áfrýjanda. Hún er komin í vinnu í [...]. Hún hefur leitað sér læknisaðstoðar, en samkvæmt vottorði heimilislæknis hennar 9. ágúst 2003 hefur hún haft einkenni þunglyndis með svefntruflunum, og er hún komin á lyfjameðferð vegna þess, sem hefur gefið góða raun. Telur læknirinn hana hafa gott innsæi í veikindi sín og horfur á fullum bata séu góðar. Þá hefur áfrýjandi einnig leitað aðstoðar [félagsþjónustu] og farið í viðtöl við sálfræðing hennar til að styrkja sig og bæta líðan sína. Jafnframt hefur hún fengið leiðbeiningar og stuðning í uppeldishlutverki sínu frá tveimur öðrum ráðgjöfum [félagsþjónustu], sem segja að börnin hafi virst í góðu jafnvægi, er ráðgjafarnir sáu þau í júní og ágúst sl., og hefðu sagt, að þeim liði vel. Með bréfi [barnaverndaryfirvalda] 2. september 2003 var tilkynnt, að máli áfrýjanda hjá stofnuninni væri lokið. Þótti ekki ástæða til frekari barnaverndarafskipta en áfrýjanda var bent á félagslegan stuðning og ráðgjöf hjá [félagsmálayfirvöldum]. Vitnisburður frá skóla barnanna á mið- og vorönn skólaársins 2002-2003 ber með sér hægar framfarir, en stundvísi þeirra er enn mjög ábótavant. C kvaðst vilja búa í [...] hjá föður sínum, þar sem besti vinur hans ætti heima, en einnig ætti hann fjölmarga vini í [...]. Hann kvað móðurina vera með miklu strangari reglur en föðurinn og væri hún nánast alltaf í tölvunni. D kvaðst vilja búa bæði hjá mömmu sinni og pabba. Sagðist hún myndu sakna móður sinnar ef hún byggi hjá föður sínum, en var ekki alveg eins ákveðin varðandi föður sinn, ef hún byggi hjá móður sinni. Fram kom hjá öllum börnunum, að elsta systir þeirra, sem býr á heimili stefnda, tæki mikinn þátt í heimilishaldinu hjá honum, hún tæki oftast til og setti húsreglur um umgengni.
Matsmaðurinn staðfesti viðbótarmat sitt fyrir dómi 2. október 2003. Hann taldi að skoða þyrfti hag yngri barnanna út frá fleiri þáttum en eingöngu viljayfirlýsingum þeirra. Það yrði að skoða þá þætti, sem hefðu hugsanlega breyst frá grunnmatinu. Nefndi hann sérstaklega þá breytingu, sem orðið hefði á persónulegum högum áfrýjanda, sem hefði í millitíðinni leitað sér lækninga og fengið lyf við þunglyndi og kvíða og farið að vinna utan heimilis. Fannst honum hún vera breytt manneskja frá því sem áður var. Þá velti hann einnig fyrir sér, hvernig staðan yrði á heimili stefnda, ef elsta dóttirin færi þaðan, en fyrir liggur, að hún hyggst fara í nám erlendis. Hann taldi mikilvægt, að börnin næðu tökum á samfelldri skólagöngu, en það væri þýðingarmikið fyrir börn á þeirra aldri. Hann taldi C ekki geta haft sjálfstætt mat á tölvusetu móður sinnar, hann færi yfirleitt snemma að sofa og hefði ekki forsendur til þess að meta hvort hún sæti við tölvuna á kvöldin. Spurður að því, hvort einhver sérstök þörf væri á því að breyta stöðu barnanna frá því, sem nú væri, svaraði hann: „Miðað við þessar forsendur sem ég rakti, breyttar forsendur á heimili móður og það sem ég sagði um að mér finnist það vera í raun og veru jafnt á foreldrum komið þegar allar aðstæður eru skoðaðar þá er svarið nei.“
III.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagður vitnisburður [T-skóla] og yfirlit um ástundun C og D á haustönn skólaársins 2003-2004. Ber hann með sér, að skólasókn þeirra hefur lagast og fá þau einkunnina 8 og 9 í ástundun. Þá er einnig fram komið, að áfrýjandi er flutt í fjögurra herbergja félagslega leiguíbúð á vegum [sveitarfélags].
Eins og að framan hefur verið lýst hefur orðið breyting til batnaðar á högum áfrýjanda og barnanna frá því að héraðsdómur gekk. Meiri stöðugleiki sýnist kominn á líf þeirra og þeim vegnar nú betur í skóla en áður. Af gögnum málsins má ráða, að áfrýjandi hafi tekist á við vanda sinn og virðist nú hafa betra innsæi í hann. Lítill aldursmunur er á börnunum og þau hafa alist upp saman. Verður að telja, að það hafi minnsta röskun í för með sér fyrir börnin, að þau verði áfram saman hjá móður sinni. Umgengni þeirra við föður sinn hefur verið mikil og gengið vel þau tæpu 2½ ár, sem liðin eru frá samvistaslitum málsaðila, og er ekkert sem bendir til annars en að svo muni vera áfram. Með hliðsjón af öllu framansögðu er fallist á kröfu áfrýjanda og henni dæmd forsjá beggja barnanna.
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður málsaðila greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, K, skal fara með forsjá barnanna C, [kt.], og D, [kt.].
Málskostnaðarákvæði héraðsdóms skal vera óraskað.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, M, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 400.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. maí 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 11. apríl sl., er höfðað 28. janúar 2002 af K, [...], á hendur M, [...].
Stefnandi krefst þess að henni verði með dómi falin forsjá barnanna A, [fædds 1987], B, [fæddrar 1988], C [fædds 1994], og D [fæddrar 1996]. Til vara krefst stefnandi þess að henni verði falin forsjá C og D en til þrautavara krefst hún forsjár A og B. Krafist er og málskostnaðar á grundvelli málskostnaðarreiknings eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnandi fékk gjafsókn dómsmálaráðuneytisins 22. febrúar 2002.
Stefndi krefst þess að dómkröfum stefnanda verði hafnað og að honum verði falin forsjá allra barnanna. Stefndi krefst þess einnig að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefndi fékk gjafsókn dómsmálaráðuneytisins 3. apríl 2002.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Málsaðilar hófu sambúð í [...] á árinu 1980 en fluttu til [...] 1981 og gengu í hjúskap [...] það ár. Á sama ári höfðu þau eignast son, E, og ári síðar eignuðust þau dóttur, F. Í málinu er deilt um forsjá fjögurra yngstu barna málsaðila sem eru fædd á árunum 1987 til 1996.
Fjölskyldan bjó í eigin húsnæði í [...] þar til stefnandi flutti til [...] vorið 2001 ásamt börnunum sem málið snýst um. F, sem þá var 18 ára, bjó áfram hjá stefnda í húsi fjölskyldunnar í [...] og þar búa þau feðginin enn. E hefur stofnað eigið heimili og býr á [...]. Hin börnin fóru öll í skóla í [...] á árinu 2001. Fyrst voru þau í [...] en stefnandi flutti um vorið með þau í íbúð í [...]. Síðar flutti hún með börnin í [...] og fóru tvö yngstu börnin þá í [skóla] en 1. desember sl. flutti hún í [...] og fóru börnin tvö þá í [skóla]. A er enn í [skóla] en B var þar þangað til í janúar sl. en þá fór hún í [skóla]. Börnin hafa haft reglulega umgengni við stefnda og dvalið hjá honum saman að jafnaði aðra hverja helgi í [...]. Þau hafa einnig verið hjá honum í fríum og voru að mestu hjá honum allt síðastliðið sumar.
Í þinghaldi 22. apríl 2002 óskuðu málsaðilar sameiginlega eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta aðstæður málsaðila og hæfni þeirra. Einnig skyldi matsmaður kanna og meta aðstöðu barnanna og þarfir, svo og tengsl þeirra við foreldra og við hvert annað. Samkomulag varð um að Einar Ingi Magnússon sálfræðingur yrði dómkvaddur sem matsmaður. Álitsgerð hans er dagsett 30. janúar 2003 en hún var lögð fram á dómþingi 31. sama mánaðar. Matsmaður telur að skoða verði forsjá barnanna með hliðsjón af því hvort hagsmunum þeirra allra sem hóps verði best borgið í höndum annars hvors foreldrisins eða hvort skapast hafi sérstakar ástæður til að systkinahópnum verði skipt en þó þannig að unglingarnir búi á sama heimili.
Foreldrarnir telja hvort fyrir sig að börnunum verði fyrir bestu að því sjálfu verði falin forsjá barnanna. Stefnandi vísar til þess að börnin hafi alist upp hjá henni, hún hafi alltaf annast þau og sinnt þeim miklum mun meira en stefndi. Hún hafi séð vel um börnin að öllu leyti að frátöldum mætingum þeirra í skóla. Hún hafi gætt þess vel að börnin hefðu reglulega umgengni við stefnda. Hún telur mun betra fyrir börnin að vera áfram hjá henni og að þau alist upp saman. Þau hafi þar góða umönnun og nauðsynlegt aðhald sem faðir þeirra geti ekki veitt þeim enda sinni hann þeim ekki og sé lítið heima. Ekki megi taka þá áhættu að breyta aðstæðum barnanna. Stefndi vísar til þess að stefnanda sé ekki treystandi fyrir uppeldi barnanna, enda hafi þeim ekki vegnað vel hjá henni. Börnin finni öryggi hjá honum og njóti þar meiri reglusemi og stöðugleika en hjá stefnanda.
Dómurinn kannaði afstöðu barnanna til forsjárdeilunnar með því að dómsformaður og annar meðdómanda ræddu við börnin í viðtalsherbergi í Dómhúsinu hinn 21. mars sl. Málsaðilum var kynnt það sem fram hafði komið í viðtölunum í þinghaldi 28. sama mánaðar.
Munnlegur málflutningur fór fram 28. mars sl. og var málið þá dómtekið. Málið var endurupptekið 11. apríl sl. samkvæmt 104. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þar sem ekki lágu fyrir fullnægjandi upplýsingar úr niðurstöðum sálfræðiprófa og gögn vantaði um tilkynningu til [barnaverndaryfirvalda]. Málið var dómtekið á ný sama dag eftir að lögmenn málsaðila höfðu gert grein fyrir því sem þeir höfðu fram að færa.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að málsaðilar hafi eignast börnin fjögur á hjúskaparárum sínum. Í lok [...] 2001 hafi þau slitið samvistir en stefnandi hafi þá flutt til [...] með börnin. Hinn [...] maí sama ár hafi stefndi krafist skilnaðar hjá sýslumanninum í [...]. Hann hafi gert kröfu um forsjá allra barnanna og hann hafi sett fram kröfur um skiptingu eigna og skulda. Hinn [...] júlí sama ár hafi stefnandi samþykkt kröfu stefnda um skilnað hjá sýslumanninum í [...] en hafnað öðrum kröfum hans. Hún hafi sjálf krafist forsjár barnanna og lagt fram ný drög að skilnaðarsamningi. Hinn [...] ágúst sama ár hafi stefnandi undirritað samning um skilnaðarkjör og hafi fjárskiptum málsaðila verið lokið með honum. Samkomulag hafi verið um að leita ráðgjafar varðandi forsjá barnanna en ekki hafi tekist að semja um forsjána.
Stefnandi byggi kröfu sína á 34. gr. barnalaga nr. 20/1992. Börnin hafi ávallt verið í hennar umsjá og hagsmunir þeirra krefðust þess að þannig yrði það áfram. Börnin séu af þessum sökum afar tengd henni tilfinningalega og öryggi sitt finni þau hjá henni. Feli slík skipan jafnframt í sér minnsta röskun á högum barnanna enda hafi hún alla tíð verið aðalumönnunaraðili þeirra en þau hafi verið búsett hjá henni alveg frá fæðingu og einnig eftir samvistarslitin í [...] 2001. Stefnandi telji sig hæfari í alla staði til að hafa forsjána á hendi en stefndi. Aðstæður hennar til að hafa forsjá barnanna séu góðar. Hún hafi fengið fjárhagsaðstoð frá [sveitarfélagi] til framfærslu fjölskyldunnar frá samvistarslitunum og hafi öruggt leiguhúsnæði. Börnin hafi aðlagast vel í nýjum skóla. Þeim líði vel við núverandi aðstæður, þar sem móðir þeirra sé heima á daginn þegar skóla ljúki. Aðstæður hennar séu mun betri en stefndi geti boðið börnunum. Stefnandi hafi stuðlað að góðri umgengni barnanna við föður þeirra og muni hún gera það áfram fái hún forsjá þeirra. Hún sé reiðubúin að ganga til skriflegs samnings verði eftir því óskað af hálfu stefnda.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi lýsir málsatvikum þannig að hann hafi stundað [...] frá upphafi hjúpskapar málsaðila til 1996 en þá hafi hann orðið fyrir meiðslum í baki og hlotið 75% örorku. Fram til þess tíma og nokkru eftir það hafi stefnandi séð um fjármál heimilisins og hafi henni farist það illa úr hendi. Reikningar heimilisins hafi ekki verið greiddir fyrr en seint og um síðir þegar á þá hafi verið fallinn innheimtukostnaður o.fl. Móðir stefnanda hafi keypt af málsaðilum eign þeirra, [...]. Engar greiðslur hafi gengið á milli við þessi viðskipti enda hafi tilgangurinn með þeim verið sá að vinna tíma til að aðilum gæfist tóm til að selja eignina frjálsri sölu, sem ekki hafi tekist. Þrátt fyrir góðar tekjur stefnda í gegnum árin hafi þau misst þessa eign sína á uppboði en Íbúðalánasjóður hafi keypt hana og selt hana síðan [...] til að leigja málsaðilum. Fjölskyldan hafi þannig aldrei þurft að rýma eignina og hafi búið þar óslitið frá 1983, allt þar stefnandi flutti út, en stefndi búi þar enn ásamt elstu dóttur málsaðila. Hann hafi nú keypt fasteignina og sé því í öruggu húsnæði.
Frá áramótum 1996/1997, þegar stefndi hafði náð sér að nokkru af fyrrgreindu slysi, hafi hann sinnt heimilinu og börnum ekki síður en stefnandi. Stefndi hafi frá þeim tíma fengið góðar örorku- og lífeyrisgreiðslur en stefnandi hafi reynt fyrir sér á vinnumarkaðnum. Stefnandi hafi ráðið sig í [...] og upp úr áramótum 1996/1997 hafi stefndi farið að aðstoða hana. Fyrst hafi stefndi tekið að sé að [...] og hafi hann þá farið á undan í [...], eða um kl. 630. Hann hafi síðan sótti stefnanda um kl. 800. Stefnandi hafi sinnt þessum starfa verr eftir því sem á leið og frá áramótum 1998/1999 hafi stefndi séð einn um [...]. Stefndi haldi því fram að stefnandi sé óábyrg í fjármálum og nefnir dæmi um það.
Stefndi telur tölvunotkun stefnanda óeðlilega mikla og nefnir sérstaklega í því sambandi þjóðhátíðardaginn 17. júní 2000. Þá hafi stefnandi sest fyrir framan tölvuna rétt fyrir kl. 1300 og farið inn á Netið þegar allir aðrir á heimilinu voru að ljúka við að hafa sig til og koma sér niður í bæ þar sem hátíðardagskráin átti að byrja kl. 1300. Stefndi kveðst hafa sagt við hana að ef Netið ætti að ganga fyrir heimilinu væri best að hún flytti annað, hann væri fullfær um að sjá um börnin einn. Stefnandi hafi þá farið af heimilinu í nokkra daga með börnin en komið aftur og hún hafi verið á heimilinu fram í ágúst það ár. Þá hafi stefnandi aftur farið af heimilinu með börnin og sest upp hjá vinkonu sinni í [...]. Þetta hafi verið rétt fyrir upphaf skólaárs. Stefndi hafi þá leitað til félagsmálastjóra [...] sem hafi beitt sér fyrir því að stefnandi kæmi með börnin við skólasetningu í [...]. Ástæða afskipta félagsmálstjóra hafi meðal annars verið rakin til félagslegra vandamála vinkonu stefnanda og sonar hennar sem hafi þá búið hjá henni.
Viðvera stefnanda á Netinu hafi aukist fyrir alvöru sumarið 1998. Stefnandi hafi vafrað um Netið tíðum á kvöldin og á næturnar. Ósamkomulag aðila hafi færst í vöxt í byrjun árs 2001 þegar stefnandi hafi verið farin að láta heimilið sitja algjörlega á hakanum. Hún hafi þá dundaði sér á Netinu á öllum tímum sólarhrings, eins og sjáist á yfirliti símareiknings fyrir janúar 2001, og hún hafi oft sofið meira og minna yfir hábjartan daginn. Stefndi hafi að lokum ekki komist hjá því að láta loka símanum í byrjun febrúar 2001 en reikningurinn fyrir janúar 2001 hafi verið rúmar 23 þúsund krónur. Stefnandi hafi náð að láta opna fyrir símann tvo daga í mars 2001 til að komast á Netið en stefndi hafi þá látið loka honum aftur þegar hann hafi komist að því. Um áramótin 2000/2001 hafi skuld málsaðila vegna símanotkunar stefnanda verið komin í um það bil 70 þúsund krónur.
Málsaðilar hafi samþykkt að þeim yrði veitt sérfræðiráðgjöf ef það mætti verða til þess að ná sáttum um forræði barnanna. Stefnandi hafi þó frá upphafi ekki verið tilbúin til að hlusta á nokkur rök, nema hún fengi forræði allra barnanna. Sálfræðingurinn sem tekið hafi að sér að ræða við málsaðila hafi talið afstöðu stefnanda með þeim hætti að vinna hans myndi engum árangri skila. Að hans mati hefði stefndi ekki önnur úrræði en að fara með málið fyrir ráðuneytið eða dómstóla.
Stefndi byggi kröfu sína á 34. gr. laga nr. 20/1992. Hann haldi því fram að börnin hafi frá 1996, eftir að hann hætti á sjónum, ekki síður verið í umsjá hans en stefnanda. Það séu ekki síður hagsmunir þeirra að þau verði hjá honum. Þau séu tengd honum tilfinningalega og finni meira öryggi hjá honum. Stefnandi hafi raskað verulega högum barnanna með því að flytja þau án nokkurs samráðs og án samþykkis þeirra eða stefnda til [...]. Þau hafi frá fæðingu búið í [...], þar sem þau hafi unað hag sínum vel og því nauðsynlegt að þau fái að flytja þangað aftur í það öryggi sem þeim sé boðið þar. Aðstæður stefnda til að hafa forsjána séu góðar. Hann sé í öruggu húsnæði í [...] sem rúmi vel þarfir barnanna og þau séu hagvanari í því umhverfi. Stefnandi hafi hins vegar ekki öruggt húsnæði og börnunum hafi alls ekki vegnað vel hjá henni. Stefndi fái bæði tryggar örorkubætur og lífeyrisgreiðslur, en stefnandi virtist eingöngu geta byggt á fjárhagsaðstoð frá [sveitarfélagi]. Krafa hennar um forræðið yfir öllum börnunum, án þess að vilja hlíta ráðleggingum sérfróðra aðila, vilja barnanna eða öðru, sem taka þurfi tillit til við ákvörðun um hvað hverju barni sé fyrir bestu, beri með sér að hún sé fyrst og síðast að reyna að tryggja fjárhagsafkomu sína en með því hafi hún hagsmuni barnanna ekki í fyrirrúmi. Stefndi hafi alla tíð sýnt af sér ábyrgð í fjármálum og hjá honum muni börnin njóta meiri reglusemi og stöðugleika en hjá stefnanda.
Undir aðalmeðferð málsins voru reyndar sættir þess efnis að málsaðilar kæmu sér saman um að skipta forsjá barnanna. Því hafnaði stefndi alfarið með þeim rökum að hann treysti stefnanda engan veginn til að vera ábyrg fyrir uppeldi barnanna.
Niðurstaða
Þegar forsjá barna málsaðila er ákveðin ber að fara eftir því sem barni er fyrir bestu eins og fram kemur í 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992. Börnin hafa búið hjá stefnanda í [...] eftir samvistarslit málsaðila í [...] 2001 en áður höfðu þau búið í [...] þar sem stefndi býr enn. Börnin hafa haft reglulega umgengni við stefnda og verið hjá honum um helgar og í öðrum leyfum frá skóla eins og hér að framan er lýst.
Í gögnum málsins kemur fram að eftir að börnin fluttu til [...] hafi þau búið við vanrækslu af hendi móður. Stefnandi er ekki útivinnandi og hefur haft það sem aðalstarf að sinna börnunum. Þrátt fyrir það hafa börnin mætt afar illa í skólann og því verið illa sinnt þegar kvartanir hafa borist frá skólayfirvöldum. Í tilkynningu skólastjóra [...] til [barnaverndaryfirvalda], dagsettri 14. nóvember 2002, segir að móðir hafi vanrækt að sjá til þess að B mætti í skólann. Umsjónarkennari hafi margoft haft samband við móður barnanna, bæði í síma og með tölvupósti, en allt hafi komið fyrir ekki. Stefnandi sofi oft á morgnana og mæti B þá ekki í skólann fyrr en á miðjum morgni eða jafnvel þegar komið sé fram undir hádegi. Á nemendaverndarráðsfundi 6. nóvember 2002 hafi verið ákveðið að skólastjóri boðaði stefnanda á fund og leitaði samþykkis hennar fyrir því að stúlkan færi í viðtal við sálfræðing skólans vegna vanlíðunar hennar. Stefnandi mætti hvorki á fund né boðaði forföll og fram kemur að hún hafi auk þess sagt ósatt um það hvers vegna hún mætti ekki. Í tilkynningunni kemur einnig fram að hvorug dóttir málsaðila hafi mætt í skóla þennan sama morgun. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að vandi B var einnig sá að hún varð fyrir einelti í skólanum sem brýna nauðsyn bar til að forsjáraðili og skólayfirvöld tækju á sameiginlega. Mætingar bræðranna hafa einnig verið slakar.
Stefnandi hefur ekki tekið sig á í þessi tæp tvö ár sem hún hefur búið í [...]. Hinir sérfróðu meðdómsmenn telja að stefnandi eigi við veruleg sálfræðileg vandamál að stríða, meðal annars óhóflega netnotkun, og að hún hafi dulið þann vanda sinn. Svefnvandamál sem stefnandi taldi aðalvanda sinn fyrir dómi eru sennilega einkenni um vanda, mögulega þunglyndi, fremur en þau séu orsök vandans. Að mati dómsins geta svefnvandamálin því ekki ein og sér talist fullnægjandi útskýring á vanrækslunni.
Þar sem vandi stefnanda er enn til staðar og hún virðist hafa takmarkað innsæi í vanda sinn telur dómurinn of áhættusamt fyrir geðheilsu, nám og velferð barnanna að halda óbreyttu ástandi. Engin staðfesting eða vottorð liggja fyrir um það hvað stefnandi er að gera í sínum málum, aðeins óstaðfestar yfirlýsingar stefnanda þess efnis. Sérfróðir meðdómsmenn telja að vandinn sé alvarlegur og krefjist langtímameðferðar. Miðað við það hvernig málið hefur gengið og þau tækifæri sem móðir hefur haft til að gera ráðstafanir telur dómurinn það hvorki verjandi né ráðlegt barnanna vegna að bíða eftir árangri þeirrar meðferðar.
Dómurinn telur mikilvægt að aðstæður barnanna breytist til batnaðar. Með því að fela stefnda forsjá barnanna er að mati dómsins betur tryggt en ella að þau fái nauðsynlegt aðhald enda telur dómurinn að stefndi sé betur fær en stefnandi til að annast þau, halda reglu og stöðugleika og gæta þess að þau mæti í skóla. Það á við um öll börnin. Dómurinn telur enn fremur að forsjá barnanna þurfi að ákveða með tilliti til þess að þau verði áfram saman. Í gögnum málsins kemur ótvírætt fram að þau eiga öll sterkar rætur í [...] og þau hafa góð tengsl við föður sinn og elstu systur sem þar býr. Dómurinn telur að fram hafi komið að stefndi taki uppeldishlutverk sitt gagnvart börnunum alvarlega. Að mati hinna sérfróðu meðdómsmanna benda gögn málsins ekki til þess að stefndi sé haldinn persónuleikatruflun eða geðröskun sem geri hann ófæran um að annast börnin. Í matsgerð er ekki að sjá að stefndi greinist með klínískt þunglyndi en hann hefur tilhneigingu til kvíða og sá kvíði jókst verulega við streituálag á síðastliðnu ári. Þrátt fyrir það að MMPI persónuleikapróf, fyrirlagt þann 24. maí 2002, gefi vísbendingu um þunglyndi, með því að sýna sterk þunglyndiseinkenni hjá stefnda, þá þýðir það ekki að hann sé þunglyndur þar sem nánari athuganir matsmanns benda til annars. Mælikvarði Becks sýnir væga geðlægð hjá stefnda, sem á kvarðanum telst vera næsta stig fyrir ofan eðlilegt geðrænt ástand. Aðrir kvarðar, s.s. Birleson þunglyndiskvarðinn og Listi um framtíðarsýn, benda einnig til þess að um einkenni þunglyndis hafi verið að ræða hjá stefnda fremur en heilkenni þess. Í niðurstöðum matsgerðar kemur fram að matsmaður greini í viðtölum og daglegri virkni stefnda marga þætti í hugsun hans og framtíðarsýn sem séu jákvæðari og bjartari heldur en svörun hans á sálfræðiprófum gaf til kynna. Hið sama kom fram í máli stefnda við aðalmeðferð málsins, þar sem hann kannaðist ekki við að vera þunglyndur og mundi varla eftir því að hafa haft sjálfsvígshugsanir. Dómurinn tekur undir það með matsmanni að ýmislegt í daglegri virkni stefnda bendi ekki til þunglyndis hjá honum. Til dæmis hefur stefndi haldið heimili fyrir elstu dótturina, sinnt umgengni við börnin, lagt rækt við sinn frændgarð, verið í íhlaupavinnu við [...], greitt skuldir og hann vinnur að því að kaupa til baka hús fjölskyldunnar af bæjaryfirvöldum. Trúlegt er að börnin geti notið góðs af því hjá föður að hann hefur stuðning stórrar fjölskyldu sinnar. Margt bendir því til þess að líðan föður og aðstaða hans fari batnandi.
Með vísan til alls þessa og til 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992 ber að ákveða að stefnda verði falin forsjá barnanna.
Rétt þykir að málskostnaður milli málsaðila falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda verður greiddur úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Valborgar Snævarr hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur án virðisaukaskatts.
Gjafvarnarkostnaður stefnda greiðist einnig úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Rúnars Gíslasonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 400.000 krónur án virðisaukaskatts.
Kostnaður vegna sálfræðilegrar álitsgerðar, 474.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómendunum Guðfinnu Eydal og dr. Gunnari Hrafni Birgissyni sálfræðingum.
DÓMSORÐ:
Stefndi, M, skal fara með forsjá barnanna A [fædds 1987], B [fæddrar 1988], C [fædds 1994], og D [fæddrar 1996].
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Valborgar Snævarr hrl., 400.000 krónur.
Gjafvarnarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Rúnars S. Gíslasonar hdl., 400.000 krónur.
Kostnaður vegna sálfræðilegrar álitsgerðar, 474.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.