Hæstiréttur íslands
Mál nr. 616/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
- Skýrslugjöf
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 5. september 2016 og réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. september 2016, þar sem fallist var á kröfu brotaþolanna A, B og C um að varnaraðila skyldi vikið úr dómsal meðan þær gæfu skýrslu. Kæruheimild er í n. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili og brotaþolar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2016
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í dag, er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 18. júlí 2016, á hendur X, kennitala [...],[...] í [...], með dvalarstað að fangelsinu Litla-Hrauni, „fyrir neðangreind hegningarlagabrot gegn eiginkonu sinni B og stjúpdætrum sínum C og A framin í Reykjavík svo sem hér greinir:
A
Brot gegn eiginkonu sinni, B, kennitala [...], framin á heimili þeirra að [...] nema að því er varðar ákærulið 4:
- Nauðgun, með því að hafa á tímabilinu frá mars 2010 til mars 2016, ítrekað eða allt að nokkrum sinnum í viku, þvingað B til að fróa honum með hótunum og annars konar ólögmætri nauðung, en ákærði hótaði því að stunda kynlíf með A og C, dætrum B, eða henda þeim út af heimilinu, ef hún sinnti honum ekki kynferðislega.
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
- Nauðgun, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 20. september 2014, þvingað B til að setjast klofvega ofan á sig og hafa samræði við sig um leggöng með hótunum og annars konar ólögmætri nauðung og ekki látið af háttseminni þótt hún bæði hann ítrekað að hætta. Ákærði hótaði því meðal annars að stunda kynlíf með A, dóttur B, ef hún ekki stundaði kynlíf með honum.
Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.
- Hótun og kynferðisleg áreitni, með því að hafa sunnudaginn 6. mars 2016, hótað að taka B með valdi og hafa mök við hana í endaþarm í kjölfar þess að hún neitað honum um kynlíf.
Telst þetta varða við 233. gr. og 199. gr. almennra hegningarlaga.
- Brot á nálgunarbanni, með því að hafa á tímabilinu 7. mars til 22. mars 2016 sent B 18 smáskilaboð og hringt í allt að 566 skipti í heimasíma hennar þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við hana með ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík frá 7. mars 2016 og úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. [...] sem staðfestur var af Hæstarétti.
Telst þetta varða við 232. gr. almennra hegningarlaga.
- Stórfelldar ærumeiðingar, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 1-3 ítrekað móðgað og smánað B.
Telst þetta varða við 233. gr. b almennra hegningarlaga.
B
Brot gegn stjúpdóttur sinni, C, kennitala [...]:
- Kynferðisleg áreitni, með því að hafa ítrekað á árunum 2012-2014 sent C smáskilaboð þar sem ákærði viðhafði kynferðislegt og klámfengið orðbragð.
Telst þetta varða við 199. gr. almennra hegningarlaga.
- Kynferðisleg áreitni og hótanir, með því að hafa á tímabilinu 6. mars til 21. maí 2016 sent C 59 smáskilaboð þar sem ákærði viðhafði kynferðislegt og klámfengið orðbragð auk þess sem 28 af smáskilaboðunum innihéldu jafnframt hótanir um kynferðisbrot sem voru til þess fallnar að vekja hjá C ótta um líf, heilbrigði og velferð sína.
Telst þetta varða við 199. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga.
- Hótanir, með því að hafa á tímabilinu 28. mars til 29. maí 2016 sent C 94 smáskilaboð með hótunum um líkamsmeiðingar, líflát og eignarspjöll og voru skilaboðin til þess fallin að vekja hjá henni ótta um líf, heilbrigði og velferð sína og annarra.
Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga.
- Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa á tímabilinu 7. mars til 1. júní 2016 sent C 425 smáskilaboð og hringt allt að 330 sinnum í hana, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við C með ákvörðunum lögreglustjóra frá 7. mars, 4. apríl og 2. maí 2016 og úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. [...], [...]og [...] sem staðfestir voru af Hæstarétti og einnig með ákvörðun lögreglustjóra frá 30. maí 2016 sem birt var fyrir ákærða að kvöldi sama dags.
- Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa þriðjudaginn 31. maí 2016 farið inn í anddyrið á stigaganginum að [...] þrátt fyrir að honum væri samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík frá deginum áður og birt var honum sama dag, bannað að koma á eða í námunda við heimilið á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins.
Teljast brot sem lýst er í ákæruliðum 9 og 10 varða við 232. gr. almennra hegningarlaga.
- Stórfelldar ærumeiðingar, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 6-8 og að auki með því að senda C 48 smáskilaboð á tímabilinu 30. mars til 18. maí 2016, ítrekað móðgað og smánað C.
Telst þetta varða við 233. gr. b almennra hegningarlaga.
C
Brot gegn stjúpdóttur sinni, A, kennitala [...]:
- Kynferðisleg áreitni og hótanir, með því að hafa á tímabilinu 29. mars til 21. maí 2016 sent A 17 smáskilaboð þar sem hann viðhafði kynferðislegt og klámfengið orðbragð auk þess sem 14 af skilaboðunum innihéldu jafnframt hótanir um kynferðisbrot sem voru til þess fallnar að vekja hjá henni ótta um líf, heilbrigði og velferð sína.
Telst þetta varða við 199. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga.
- Hótanir, með því að hafa á tímabilinu 11. apríl til 1. júní 2016 sent A 74 smáskilaboð með hótunum um líkamsmeiðingar, líflát og eignarspjöll og voru hótanirnar til þess fallnar að vekja hjá henni ótta um líf, heilbrigði og velferð sína og annarra.
Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga.
- Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa á tímabilinu 7. mars til 1. júní 2016 sent A 184 smáskilaboð og hringt allt að 107 sinnum í hana, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við A með ákvörðunum lögreglustjóra frá 7. mars, 4. apríl og 2. maí 2016 og úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. [...],[...]og [...] sem staðfestir voru í Hæstarétti og einnig með ákvörðun lögreglustjóra frá 30. maí 2016 sem birt var fyrir ákærða að kvöldi sama dags.
- Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa þriðjudaginn 31. maí 2016 farið inn í anddyrið á stigaganginum að [...] þrátt fyrir að honum væri samkvæmt ákvörðun lögreglustjórans í Reykjavík frá deginum áður og birt var honum sama dag, bannað að koma á eða í námunda við heimilið á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins.
Teljast brot sem lýst er í ákæruliðum 14 og 15 varða við 232. gr. almennra hegningarlaga.
- Stórfelldar ærumeiðingar, með því að hafa með þeirri háttsemi sem lýst er í ákæruliðum 12 og 13 og að auki með því að senda A 34 smáskilaboð á tímabilinu 10. apríl til 8. maí 2016, ítrekað móðgað og smánað A.
Telst þetta varða við 233. gr. b almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Þá eru í ákærunni tilgreindar einkaréttarkröfur brotaþola.
Í þinghaldi í málinu 31. ágúst sl. kröfðust réttargæslumenn brotaþola þess fyrir þeirra hönd að ákærða verði gert að víkja úr dómsal á meðan þær gefi skýrslu við aðalmeðferð málsins, sem ákveðin hefur verið 13. og 14. september nk. Með tölvuskeyti verjanda 1. september sl. upplýsti verjandi að ákærði væri reiðubúinn að víkja úr sal á meðan brotaþolinn A gefur skýrslu að því gefnu að hann fái að vera í salnum á meðan aðrir brotaþolar gefi skýrslu. Var þessu hafnað og í þinghaldi í málinu í dag var málflytjendum gefinn kostur á að tjá sig um kröfuna. Var krafan að því loknu tekin til úrskurðar.
Krafa brotaþola byggist á 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Brotaþolar telja að nærvera ákærða í dómsal myndi verða þeim þungbær og hafa áhrif á framburð þeirra fyrir dómi. Brotaþolar vísa til læknisvottorða og tölvuskeyta frá stuðningsfulltrúa og þroskaþjálfa, auk lögregluskýrslu og ákvörðunar um nálgunarbann. Sækjandi tekur undir kröfu brotaþola. Ákærði hafnar því að skilyrðum 1. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008 sé mætt í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 á ákærði rétt á að vera við aðalmeðferð máls. Dómara er þó heimilt að ákveða að ákærði víki af þingi meðan vitni gefur skýrslu í máli. Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. sömu laga getur dómari að kröfu ákæranda eða vitnis ákveðið að ákærða verði vikið úr þinghaldi meðan vitnið gefur skýrslu telji dómari að nærvera ákærða geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð þess. Það er meginregla sakamálaréttarfars að ákærði eigi þess kost að vera viðstaddur aðalmeðferð og önnur þinghöld í máli sem höfðað hefur verið gegn honum. Undantekningar frá þeirri meginreglu ber að skýra þröngt og þurfa því ríkar ástæður að vera fyrir hendi til að unnt sé að víkja frá henni.
Ákærði er í málinu borinn alvarlegum sökum af brotaþolum í 16 ákæruliðum. Brotaþolinn B er eiginkona hans og brotaþolarnir A og C stjúpdætur hans. Ákærði sætir nú gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar sem hann hafi haldið brotum sínum áfram eftir að hann hóf að sæta gæsluvarðhaldi. Fyrir liggur ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 31. ágúst sl. um að ákærði sæti nálgunarbanni, skv. a- og b-liðum 4. gr. laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, í sex mánuði þannig að lagt verði bann við því að hann setji sig í samband við B hvort heldur sem er í gegnum síma, bréflega, með tölvupóstum, aðstoð annarra eða nokkrum öðrum hætti. Þá liggur fyrir kæruskýrsla B, frá sama degi, þar sem hún kærir hótanir af hálfu ákærða í gegnum síma en hótanirnar lúti að því að hann muni drepa hana vitni hún gegn honum. Meðal þeirra brota sem ákærða er gefið að sök gegn eiginkonu sinni er nauðgun í tveimur liðum og brot gegn nálgunarbanni. Að framangreindu virtu og tengslum brotaþolans B við ákærða þykir sýnt að nærvera ákærða við skýrslugjöf getur orðið brotaþola sérstaklega til íþyngingar og haft áhrif á framburð hennar.
Samkvæmt læknisvottorði fyrir brotaþolann A, vegna umsóknar um örorkubætur, dags. 9. apríl 2014, er hún töluvert þroskaheft og persónuleikaröskuð. Hún hefur sjúkdómsgreiningarnar mental retardation, persistent mood disorder, personal history of self harm, félagsfælni og kvíðaröskun. Samkvæmt vottorðinu er aðalvandi hennar vitsmunaleg skerðing og viðvarandi andleg vanlíðan með kvíða, þunglyndi og persónuleikaröskun. Hún hefur af þessum sökum ekki verið fær um að stunda neina vinnu á vinnumarkaði án verulegs stuðnings. Samkvæmt tölvuskeyti frá stuðningsfulltrúa hennar, dags. 30. ágúst sl., kemst brotaþoli í mikið uppnám þegar hún ræðir mál ákærða og á erfitt með að skilja af hverju hann lætur þær mæðgurnar ekki í friði. Það er mat stuðningsfulltrúans að brotaþoli muni eiga mjög erfitt með að koma aftur fyrir dóm. Þá liggur fyrir tölvuskeyti, dags. 1. september sl., frá þroskaþjálfa sem hefur verið ráðgjafi brotaþola. Kemur þar fram að mjög erfitt hafi reynst að fá brotaþola fyrir dóm fyrr í sumar og ráðgjafinn telji það munu reynast henni afar þungbært að mæta aftur. Ráðgjafinn hafi áhyggjur af því að verði ákærði í dómsalnum muni það hafa verulega truflandi áhrif á vitnisburð hennar og hún muni draga úr öllu því sem hún hafi áður sagt. Með hliðsjón af framangreindum upplýsingum um andlega hagi brotaþolans, tengslum við ákærða og ákæruefnum, þykir ljóst að nærvera ákærða við skýrslugjöf geti orðið henni sérstaklega íþyngjandi og einnig haft áhrif á framburð hennar.
Þá liggur fyrir í málinu vottorð heimilislæknis um andlega hagi brotaþolans C, dags. 31. ágúst sl. Kemur þar fram að brotaþoli hafi átt við þunglyndi og kvíða að stríða. Í samtali við hana 18. apríl sl. hafi komið fram að hún væri undir miklu álagi vegna hótana og áreitni frá ákærða. Þá hafi brotaþoli aftur leitað til læknisins 22. ágúst sl. en þá hafi hún verið búin að leita á bráðamóttöku og aðra heilsugæslu nokkrum dögum áður. Hún hafi enn verið undir miklu álagi og ráða megi að hún fái ekki þann stuðning og skilning frá nærumhverfi sínu sem hún þurfi á að halda. Þetta auki enn frekar á vanlíðan hennar. Brotaþoli sé stressuð vegna tilhugsunarinnar um að mæta fyrir dóm og rifja upp samskipti við ákærða. Hún sé líka mjög hrædd um að hún missi alla einbeitingu og geti ekki sagt rétt frá ef hann verði viðstaddur. Þá hræðist hún að hún muni ekki hafa stjórn á tilfinningum sínum. Læknirinn óski þess því að ákærði yfirgefi dómsalinn meðan brotaþoli gefi skýrslu. Að framangreindu virtu, tengslum brotaþola við ákærða og ákæruefnum, þykir ljóst að nærvera ákærða við skýrslugjöf geti orðið henni sérstaklega íþyngjandi og einnig haft áhrif á framburð hennar.
Að öllu framangreindu virtu telur dómari að hagsmunir brotaþolanna, af því að geta gefið skýrslu án nærveru ákærða, vegi þyngra en hagsmunir ákærða af því að vera viðstaddur skýrslugjöf þeirra. Verður því fallist á kröfu brotaþolanna og ákærða gert að víkja úr þinghaldi á meðan þær gefa skýrslu við aðalmeðferð í málinu. Þess verður gætt að ákærði geti fylgst með skýrslutökunni um leið og hún fer fram og jafnframt að lagðar verði fyrir brotaþolana þær spurningar sem ákærði kann að óska eftir að lagðar verði fyrir þær, sbr. 3. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008.
Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Ákærði, X, skal víkja úr þinghaldi meðan brotaþolar, A, B og C, gefa skýrslu.