Hæstiréttur íslands

Mál nr. 641/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Föstudaginn 15

 

Föstudaginn 15. desember 2006.

Nr. 641/2006.

Ákæruvaldið

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 106. gr. laga nr. 19/1991.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan á áfrýjunarfresti stæði, sbr. c. lið 1. mgr. 103. gr. og 106. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. janúar 2007 kl. 15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 106. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari úrskurðað að gæsluvarðhald skuli haldast meðan á áfrýjunarfresti stendur, sbr. 2. mgr. 151. gr. laganna. Varnaraðili var viðstaddur uppsögu héraðsdóms 13. desember 2006, þar sem honum var gert að sæta fangelsi í 5 ár. Byrjaði áfrýjunarfrestur þá að líða samkvæmt 2. mgr. 151. gr., sbr. 2. málslið 3. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur gert kröfu um að dómfellda, X, [kt.], óstaðsettum í hús í Kópavogi, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á meðan á fresti samkvæmt 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 stendur svo og á meðan mál hans verður til meðferðar hjá Hæstarétti komi til áfrýjunar þess, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 10. janúar 2007 kl. 15.00.

Til stuðnings kröfunni er vísað til 2. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-1919/2006, sem kveðinn var upp í dag var dómfelldi, X, [kt.], dæmdur í 5 ára fangelsi.

Dómfelldi hefur tekið sér lögboðinn áfrýjunarfrest.  Hann mótmælir gæsluvarð­haldskröfunni.

Dómfelldi hefur sætt gæsluvarðhaldi samkvæmt c- lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 frá 15. september sl.  Dómur var kveðinn upp í máli hans í dag, en ekki hefur verið ráðið hvort honum verður áfrýjað.  Máli hans er því ekki lokið í skilningi í c- liðar.  Verður gæsluvarðhald því framlengt samkvæmt c- lið 1. mgr. 103. gr., sbr. 106. gr., laga nr. 19/1991, svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Dómfelldi, X, [kt.], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 10. janúar 2007 kl. 15.00.