Hæstiréttur íslands

Mál nr. 745/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


                                            

Föstudaginn 28. nóvember 2014.

Nr. 745/2014.

JS7 ehf. og

Jón Sigurður Norðkvist

(sjálfur)

gegn

ÍSB fasteignum ehf.

(Reimar Pétursson hrl.)

Kærumál. Dómari. Hæfi dómara.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu J ehf. og J um að héraðsdómari viki sæti í máli um kröfu Í ehf. um heimild til að fá þá borna út úr nánar tilgreindri fasteign.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.  

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 15. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. nóvember 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari viki sæti í máli um kröfu varnaraðila um heimild til að fá þá borna út úr nánar tilgreindri fasteign. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðilar krefjast aðallega „heimvísunar málsins í hérað og að héraðsdómara verði gert að fara að lögum við uppkvaðningu úrskurðar“ en til vara að dómaranum verði gert að víkja sæti í málinu. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi sóknaraðila.

Engin haldbær rök hafa verið færð fyrir aðalkröfu sóknaraðila.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en við ákvörðun hans er litið til þess að kæra er með öllu að ófyrirsynju.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, JS7 ehf. og Jón Sigurður Norðkvist, greiði óskipt varnaraðila, ÍSB fasteignum ehf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. nóvember 2014.

Mál þetta er höfðað af gerðarbeiðanda, ÍSB Fasteignum ehf., Lækjargötu 12, Reykjavík, á hendur gerðarþolum, JS7 ehf., Garðatorgi 3, Garðabæ, og Jóni S. Norðkvist, Lindarflöt 3, Garðabæ.

Í aðfararbeiðni gerðarbeiðanda er þess krafist að gerðarþolar verði, ásamt öllu því sem þeim tilheyrir, bornir út úr fasteigninni að Garðatorgi 3, Garðabæ, fnr. 207-0121, með beinni aðfarargerð. Þá er krafist málskostnaðar og að fjárnám verði heimilað fyrir málskostnaði vegna aðfarargerðarinnar. 

Gerðarþoli krefst þess að kröfu gerðarbeiðanda verði hafnað en til vara að málinu verði vísað frá dómi. Þá gerir gerðarþoli kröfu um málskostnað.

I.

                Aðfararbeiðni gerðarbeiðanda barst héraðsdómi 16. apríl 2014. Beiðnin er byggð á því að leiga fyrir umrætt húsnæði hafi ekki verið greidd, greiðsluáskorun ekki verið sinnt og leigusamningi um umrætt húsnæði hafi verið rift. Málið var þingfest af aðstoðarmanni dómara 20. maí 2014 og var málinu að beiðni gerðarþola frestað til 10. júní til framlagningar greinargerðar. Þinghaldi sem átti að vera 10. júní var frestað utan réttar að beiðni gerðarþola til 18. júní, en þá var lögð fram greinargerð af hálfu gerðarþola. Málinu var frestað til að gefa gerðarbeiðanda færi á að taka afstöðu til greinargerðarinnar og eftir atvikum leggja fram frekari gögn. Málinu var úthlutað dómara 27. júní sl. Málið var tekið fyrir af dómara 14. júlí og frestað til 2. september, svo að gerðarþolar gætu lagt fram gjafsóknarleyfi sem þeir höfðu sótt um og lögmaður gerðarþola ætlaði að leggja fram sem skjal í málinu. Í þinghaldi 2. september lá ekki fyrir svar innanríkisráðuneytisins við umsókn gerðarþola um gjafsókn. Gerðarbeiðandi lagði fram dskj. nr. 12, um stöðu í innheimtukerfum Íslandsbanka. Af hálfu gerðarþola var framlagningunni mótmælt en dómari heimilaði framlagningu skjalsins. Lögmaður gerðarþola óskaði eftir því að málinu yrði frestað svo að hann gæti leitað aðstoðar lögmanns. Af hálfu gerðarbeiðanda var því mótmælt að málinu yrði frestað en dómari veitti gerðarþola frest til 16. september til að leita aðstoðar lögmanns. Þá var gerðarþolum bent á að frekari frestir yrðu ekki veittir í málinu. Í þinghaldi 16. september var af hálfu gerðarþola enn óskað eftir því að málinu yrði frestað þar sem þeim hefði ekki borist svar frá innanríkisráðuneytinu við umsókn gerðarþola um gjafsókn. Af hálfu gerðarþola var þess óskað að leggja fram „viðbót við greinargerð“ en því var mótmælt af hálfu gerðarbeiðanda og var gerðarþolum synjað um framlagninguna. Lögmaður gerðarþola óskaði eftir því að málflutningur færi fram í málinu en ekki fyrr en eftir miðjan október. Var munnlegur málflutningur ákveðinn 3. nóvember.

                Hinn 10. október 2014 barst dómara bréf gerðarþola þar sem ítrekuð var ósk gerðarþola um að leggja fram „viðbót við greinargerð“, en í henni er m.a. mótmælt varnarþingi í málinu, þar sem í leigusamningi sem deilt er um í málinu segi að rísi mál út af samningnum „skal“ það höfðað fyrir héraðsdómi Reykjavíkur. Með tölvuskeyti dómara 15. október sl., til lögmanns gerðarbeiðanda, með afriti til gerðarþola, var lögmaður gerðarbeiðanda upplýstur um framangreint bréf gerðarþola og athygli vakin á þessari málsástæðu gerðarþola. Þá benti dómari á að hvað sem liði synjun á framlagningu viðbótar við greinargerð væri ljóst að gerðarþoli byggði á þessu í málinu og beindi dómari þeim tilmælum til lögmanns gerðarbeiðanda að tjá sig um það við munnlegan flutning málsins hvort málið varðaði frávísun af þessum sökum.

                Í þinghaldi í dag, 3. nóvember, óskuðu gerðarþolar eftir því að málinu yrði frestað þar til niðurstaða umboðsmanns Alþingis lægi fyrir vegna kvörtunar gerðarþola um synjun innanríkisráðuneytisins um gjafsókn. Gerðarbeiðandi mótmælti því að málinu yrði frestað og synjaði dómari beiðni gerðarþola um frest. Af hálfu gerðarþola var þess þá krafist að dómari viki sæti, en af hálfu gerðarbeiðanda var þess krafist að kröfu gerðarþola yrði hafnað. Var málið tekið til úrskurðar um kröfu gerðarþola um að dómari viki sæti.

II.

                Gerðarþolar telja að þeim sé ekki óhætt að treysta því að dómari málsins sé óhlutdrægur. Er í þessu sambandi vísað til þess að dómari hafi heimilað framlagningu dskj. 12 í þinghaldi 2. september sl. þrátt fyrir mótmæli gerðarþola. Þá hafi gerðarbeiðandi ekki verið látinn gera grein fyrir ástæðu framlagningarinnar og af hverju það hafi ekki verið gert í upphafi máls. Þá hafi dómari ekki gert athugasemd við það að texti skjalsins væri ekki á íslensku og ekki þýtt texta skjalsins fyrir gerðarþola á íslensku. Jafnframt hafi dómari synjað gerðarþolum um að leggja fram „viðbót við greinargerð“ þrátt fyrir að gerðarþoli væri ólöglærður og hann hafi ekki notið aðstoðar lögmanns og skort hafi á leiðbeiningar dómara varðandi gjafsókn. Þá hafi dómari, er gerðarþoli óskaði eftir því að leggja fram „viðbót við greinargerð“, beint því mjög ákveðið til gerðarbeiðanda hvort hann ætlaði ekki að mótmæla þeirri framlagningu og þannig hafi dómari leiðbeint lögmanni gerðarbeiðanda og hvatt hann til að mótmæla þessari ósk gerðarþola. Enn fremur telja gerðarþolar það staðfesta „óvild dómara í þeirra garð og hlutdrægni hans með gerðarbeiðanda“ að dómari hafi synjað beiðni gerðarþola um að málinu yrði frestað þar til niðurstaða umboðsmanns Alþingis lægi fyrir vegna kvörtunar gerðarþola á synjun innanríkisráðuneytisins um gjafsókn. Krafa gerðarþola um að dómari víki sæti er byggð á b- og g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                                                                                          III.

                Eins og rakið hefur verið hafa gerðarþolar fengið rúma fresti í máli þessu. Hafa ber í huga að mál þetta er aðfararmál og hefur dómari ekki lagaheimild til að fresta málinu um ótiltekinn tíma, þar til niðurstaða umboðsmanns Alþingis liggur fyrir vegna kvörtunar gerðarþola á synjun umsóknar gerðarþola um gjafsókn. Synjun um frest er á engan hátt til marks um óvild dómara eða hlutdrægni.

Vegna athugasemda gerðarþola um að skort hafi á leiðbeiningar dómara varðandi gjafsókn, þá skal tekið fram að gerðarþolum var bent á að gjafsókn væri á forræði innanríkisráðuneytisins og að þeir yrðu að snúa sér þangað með allt það sem varðaði gjafsóknarumsókn sem hafði verið send ráðuneytinu.

Hvað varðar framlagningu gerðarbeiðanda á dskj. 12 í þinghaldi 2. september sl., þá innti dómari lögmann gerðarbeiðanda eftir því hvaða skjal þetta væri og gerði hann grein fyrir því og stóðu lög því ekki í vegi að skjalið væri lagt fram. Skjalið er yfirlit úr innheimtukerfi gerðarbeiðanda. Á skjalinu er dálkur með yfirskriftinni „date“ og þar undir dagsetningarnar 01.02.2012, 01.03.2012 o.s.frv. Næst kemur dálkurinn „amount in local. cur.“ og tilteknar fjárhæðir þar fyrir neðan með þessum hætti: „137.367 ISK.“ Lengst til hægri er dálkurinn „text“ og þar segir á íslensku: „Leiga febrúar – Garðatorg 3“. Næsti mánuður kemur þar á eftir o.s.frv.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, skal skjali á erlendu tungumáli „að jafnaði“ fylgja þýðing á íslensku að því leyti sem er byggt á efni þess í máli nema dómari telji sér fært að þýða það. Dómari taldi ekki þörf á að þýða skjalið og andmæli gerðarþola við framlagningu skjalsins lutu ekki að því að það væri að hluta á ensku, heldur því að það hafi átt að leggja það fram með aðfararbeiðninni. Gerðarþolar gerðu ekki kröfu um að þýðing yrði lögð fram eða skjalið þýtt fyrir þeim. Slík krafa kom heldur ekki fram í næsta þinghaldi, 16. september sl. Þegar litið er til skjalsins og þess að gerðarþolar hreyfðu ekki athugasemdum við að nokkur orð í skjalinu væru á ensku var ekki ástæða til að þýða skjalið. Hafa gerðarþolar enga ástæðu til að draga hæfi dómara í efa þótt skjalið hafi verið lagt fram og það ekki þýtt.

Þegar gerðarþolar óskuðu eftir því að leggja fram „viðbót við greinargerð“ leitaði dómari afstöðu lögmanns gerðarbeiðanda til framlagningar hennar en hvatti ekki til að framlagningunni yrði mótmælt. Samkvæmt 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, verður aðeins ein greinargerð lögð fram í málinu, en eins og dómari benti lögmanni gerðarbeiðanda á, og gerðarþolum, í tölvuskeyti 15. október sl., þá kæmi til skoðunar í málinu sú málsástæða gerðarþola að málið væri höfðað á röngu varnarþingi og hvort málið kynni að varða frávísun af þeim sökum. Það sama á við um aðrar nýjar málsástæður sem kunna að koma fram af hálfu gerðarþola við munnlegan flutning málsins, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Getur synjun dómara á ósk gerðarþola um að leggja fram „viðbót við greinargerð“ ekki valdið vanhæfi dómara.

Samkvæmt öllu framansögðu ber að hafna kröfu gerðarþola um að dómari víki sæti.   

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Kröfu gerðarþola, JS7 ehf. og Jóns Sigurðar Norðkvist, um að Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari víki sæti, er hafnað.