Hæstiréttur íslands

Mál nr. 530/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald


Þriðjudaginn 15

 

Þriðjudaginn 15. september 2009.

Nr. 530/2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Júlíus Magnússon fulltrúi)

gegn

X

(Unnar Steinn Bjarndal hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. september 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október 2009 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími eða að vægara úrræði verði beitt.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Krafa sóknaraðila um gæsluvarðhald, sem beint var til Héraðsdóms Reykjaness, var reist á a. og b. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Var vísan til b. liðar rökstudd svo að varnaraðili sé erlendur maður sem ætla megi að muni reyna að komast úr landi eða leynast verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi. Þessa er ekki getið í hinum kærða úrskurði, sem sóknaraðili krefst nú staðfestingar á.

Með þessari athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. september 2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X kt. [...], [...] Reykjavík, pólskum að þjóðerni, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudags 2. október  2009 kl. 16.00.

Krafan er sett fram með vísan til a-liðar og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008  um meðferð sakamála, 173. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni.  Þess er krafist að fyrirkomulag gæsluvarðhaldsins verði með þeim hætti að kærði sæti einangrun skv. b-lið og takmörkunum skv. c- til e- liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglan á Suðurnesjum hafi til rannsóknar meint stórfellt brot kærða gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og lögum nr. 65, 1974 um ávana- og fíkniefni.

Kærði hafi verið handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar upp úr miðnætti aðfaranótt 12. september 2009  vegna rökstudds gruns um að hann stæði  að innflutningi á umtalsverðu magni  af e- töflum, MDMA,  en við komu til landsins með flugi nr. AEU-278 frá Varsjá  fundust í farangri  kærða, falin í niðursuðudósum,  fíkniefni, MDMA töflur sem við talningu reyndust vera 2.647.

Á sama tíma var handtekinn í flugstöðinni maður sem talinn er samverkamaður kærða, A fæddur 5. apríl 1982, pólskur að þjóðerni, sem kom með sömu flugvél og kærði og fundust í farangri hans, í sams konar niðursuðudósum og hjá kærða, samtals 3.348 e-töflur. Eru kærði og samverkamaður hans því grunaðir um að hafa saman staðið að innflutningi á 5.995 MDMA-töflum sem telst stórfellt brot. 

Rannsókn þessa máls er á frumstigi. Meðal þess sem rannsaka þarf  er aðdragandi ferðar kærða til landsins, tengsl kærða við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi eða erlendis, sakarferill kærða auk annarra atriða. Kærði er erlendur maður og þykir mega ætla að hann muni reyna að komast úr landi eða leynast verði honum ekki gert að sæta gæsluvarðhaldi. Það magn fíkniefna, sem þegar hefur fundist í fórum aðila þykir benda til að um stórfellt brot sé að ræða sem falli undir 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn þeirri grein varða fangelsi allt að 12 árum. Þykir því nauðsynlegt í þágu rannsóknarhagsmuna og vegna þess að hætta þykir á að kærði muni reyna að komast úr landi eða leynast, að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Lögregla telur brýna nauðsyn að kærða verði, með vísan til ofanritaðs, gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudags 2. október 2009 kl. 16.00.

Niðurstaða:

Til rannsóknar er ætlað brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt síðari breytingum, sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til b liðar 1. mgr. 99. gr.  sömu laga hvað varðar kröfu um einangrun. Þá er þess jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta takmörkunum sbr. c- til e-liða 1. mgr. sömu greinar. Rannsókn málsins er á frumstigi og er fallist á að einsýnt sé að kærði gæti torveldað rannsóknina og haft áhrif á vitorðsmenn gangi hann laus. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og fyrirliggjandi rannsóknargagna er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett. Þá verður með sömu rökum og rakin eru hér að framan og vísan til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sakamálalaga fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun á meðan hann sætir gæsluvarðhaldinu stendur. Þá er kærða gert að sæta takmörkunum sbr. c- til e-liðar 1. mgr. sömu greinar eins og krafist er.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], [...], Reykjavík, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudags 2. október  2009 kl. 16.00.

Kærði skal sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu. Þá er kærða gert að sæta takmörkunum samkvæmt. c til e- liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. nr. 88/2008.