Hæstiréttur íslands
Mál nr. 207/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Mánudaginn 31. mars 2014. |
|
Nr. 207/2014. |
Elías Víðisson (Sigurvin Ólafsson hdl.) gegn Íslandsbanka hf. (Stefán A. Svensson hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
E höfðaði mál gegn Í hf. og krafðist meðal annars viðurkenningar á því að nánar tiltekið veðskuldabréf sem hann hafði gefið út hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að heimild til að krefjast í einkamáli viðurkenningardóms væri samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 háð því skilyrði að stefnandi hefði lögvarða hagsmuni af því að skorið yrði úr um tilvist eða efni viðkomandi réttinda eða réttarsambands. Til þess að þessu skilyrði væri fullnægt fyrir höfðun máls til öflunar viðurkenningardóms væri óhjákvæmilegt að stefnandi bæri skýrlega fyrir sig í stefnu málsástæður um að lögvarðir hagsmunir væru af nánar tilgreindum ástæðum fyrir hendi. Sóknaraðili hefði ekki gert viðhlítandi grein fyrir þessu í stefnu og yrði ekki bætt úr þeim annmarka undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti. Yrði því staðfest niðurstaða héraðsdóms um frávísun málsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2014 um að vísa frá kröfu sóknaraðila um að viðurkennt yrði að veðskuldabréf, sem hann gaf út til Íslandsbanka hf. 11. mars 2005, hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að ákvæði um frávísun málsins að hluta verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar að því leyti. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili gerir ekki aðrar kröfur fyrir Hæstarétti en að kærumálskostnaður falli niður.
Samkvæmt gögnum málsins gaf sóknaraðili út skuldabréf 11. mars 2005 til Íslandsbanka hf., sem síðar fékk heitið Glitnir banki hf., en í því viðurkenndi sá fyrrnefndi að skulda þeim síðarnefnda 19.434.629 japönsk jen, sem væru að „jafnvirði í íslenskum krónum þann 10.3.2005 11.000.000“, og átti skuldin að bera svonefnda LIBOR vexti með 1,22% álagi. Skilmálum þessa skuldabréfs var breytt fjórum sinnum á árunum 2007, 2008, 2010 og 2011 og var í öllum tilvikum tekið fram í skjölum um þær ráðstafanir hverjar eftirstöðvar skuldarinnar væru í erlenda gjaldmiðlinum. Eftir gildistöku laga nr. 151/2010, sem leiddu meðal annars til breytinga á lögum nr. 38/2001, gerði varnaraðili, sem hafði tekið við þessum kröfuréttindum Glitnis banka hf. á hendur sóknaraðila á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008, endurútreikning á skuld sóknaraðila, sem var miðaður við 23. febrúar 2011. Mun sá útreikningur hafa leitt í ljós að eftirstöðvar skuldarinnar að teknu tilliti til greiðslu afborgana og vaxta hefðu numið 20.038.125 krónum að meðtöldum ógreiddum áföllnum vöxtum, hefði skuldin frá öndverðu verið í íslenskum krónum án tengingar við erlenda gjaldmiðla og borið vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, en eftirstöðvar skuldbindingar sóknaraðila, eins og varnaraðili taldi efni hennar vera, væru á hinn bóginn 26.700.449 krónur. Varnaraðili bauðst jafnframt til að lækka höfuðstól skuldarinnar í það horf, sem hún hefði staðið eftir gengi japansks jens 29. september 2008, samhliða því að breyta henni í íslenskar krónur og nam skuldin eftir þeim útreikningi 17.745.877 krónum að meðtöldum áföllnum vöxtum og vanskilum. Sóknaraðili tók þessu boði og gaf því til samræmis út nýtt skuldabréf til varnaraðila 7. nóvember 2011 með síðastgreindri fjárhæð, en með því greiddi hann upp skuld sína samkvæmt skuldabréfinu frá 11. mars 2005.
Eins og nánar greinir í héraðsdómi höfðaði sóknaraðili mál þetta á hendur varnaraðila 4. júní 2013 og krafðist þess að viðurkennt yrði að skuldabréfið frá 11. mars 2005 „hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001“. Einnig krafðist hann þess að skuldabréfið 7. nóvember 2011 yrði fellt úr gildi og viðurkennt að „upphaflegir skilmálar“ eldra skuldabréfsins „gildi um lánssamningssamband aðilanna, að undanskildum skilmálum um gengistryggingu lánsins“. Í héraðsdómi var byggt á því að samkvæmt ákvæði X til bráðabirgða við lög nr. 38/2001, sbr. 18. gr. þeirra, hafi varnaraðila borið að endurreikna skuld sóknaraðila samkvæmt skuldabréfinu 11. mars 2005, hvort sem um hafi verið að ræða lögmæta skuld í erlendum gjaldmiðli eða skuld í íslenskum krónum, sem á ólögmætan hátt væri bundin við gengi erlends gjaldmiðils, og hefði aðferð við þann endurreikning átt að vera sú sama á hvorn veginn sem þessu hefði verið háttað. Af þeim sökum hefði sóknaraðili ekki lögvarða hagsmuni af því að dómur yrði felldur á kröfu hans um að viðurkennt yrði að skuldabréfið hafi geymt ólögmætan skilmála um að krafa samkvæmt því tæki breytingum eftir gengi erlends gjaldmiðils. Þeirri kröfu var því vísað af sjálfsdáðum frá dómi, en varnaraðili var á hinn bóginn sýknaður af síðari kröfu sóknaraðila af ástæðum, sem ekki skipta frekar máli hér.
Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila fyrir Hæstarétti telur hann sig hafa lögvarða hagsmuni af því að dómur gangi að efni til um þá kröfu, sem var vísað frá héraðsdómi samkvæmt framansögðu. Í því sambandi vísar hann til þess að yrði því slegið föstu að krafa varnaraðila á grundvelli skuldabréfsins hafi haft að geyma ólögmætt ákvæði um gengistryggingu yrði varnaraðili knúinn til að reikna skuldina út á nýjan leik, en í þeim útreikningi bæri honum í ljósi dómaframkvæmdar Hæstaréttar að láta við þá vexti sitja, sem sóknaraðili hafi greitt af skuldinni á árabilinu frá 2005 til 2011, vegna reglna fjármunaréttar um gildi fullnaðarkvittana. Gæti því varnaraðili ekki krafið sóknaraðila um frekari vexti aftur í tímann, en það hafi varnaraðili á hinn bóginn mátt gera og í raun gert við endurútreikning á skuldinni eftir fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 38/2001, sem væri reistur á þeirri forsendu að sóknaraðili hafi gengist undir lögmæta skuldbindingu í erlendum gjaldmiðli. Á niðurstöðum þessara tveggja aðferða við endurútreikning muni 5.999.224 krónum sóknaraðila í óhag. Í málatilbúnaði varnaraðila fyrir Hæstarétti er ekki dregið í efa að sóknaraðili geti á þessum grunni talist hafa lögvarða hagsmuni af því að efnisdómur gangi um kröfu sína.
Krafa sóknaraðila, sem var vísað frá héraðsdómi, var sem áður segir um viðurkenningu á því að fjárhæð kröfu varnaraðila samkvæmt skuldabréfinu 11. mars 2005 hafi á óheimilan hátt verið bundin gengi íslenskrar krónu gagnvart erlendum gjaldmiðli. Heimild til að krefjast í einkamáli viðurkenningardóms er samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 háð því skilyrði að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að skorið verði úr um tilvist eða efni viðkomandi réttinda eða réttarsambands. Til þess að sýnt verði að þessu skilyrði sé fullnægt fyrir höfðun máls til að afla viðurkenningardóms er óhjákvæmilegt að stefnandi beri skýrlega fyrir sig í stefnu málsástæður um að lögvarðir hagsmunir séu af nánar tilgreindum ástæðum fyrir hendi. Í stefnu í málinu gerði sóknaraðili enga viðhlítandi grein fyrir þessu. Úr þeim annmarka getur hann ekki bætt undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti og verður því að staðfesta hið kærða ákvæði héraðsdóms.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Staðfest er ákvæði héraðsdóms um frávísun máls þessa að hluta.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 20. febrúar sl., eftir endurupptöku málsins og munnlegan málflutning þess, var höfðað fyrir dómþinginu af Elíasi Víðissyni, Sæviðarsundi 27, Reykjavík, á hendur Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 4. júní 2013.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að veðskuldabréf nr. 519074, dagsett 11. mars 2005, upphaflega milli stefnanda og forvera stefnda, Íslandsbanka hf., hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Stefnandi krefst þess einnig að dómurinn felli úr gildi veðskuldabréf nr. 159136, sem útgefið var af stefnanda hinn 7. nóvember 2011, og að dómurinn viðurkenni að upphaflegir skilmálar skuldabréfsins nr. 519074 gildi um lánssamningssamband aðilanna, að undanskildum skilmálum um gengistryggingu lánsins, sbr. 2. málsl. 5. gr. skuldabréfsins. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda
Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda. Auk þess krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda að viðbættum virðisaukaskatti.
II
Málavextir eru þeir, að vorið 2005 leitaði stefnandi til Íslandsbanka hf. eftir lánafyrirgreiðslu. Kveður stefnandi að þar hafi honum verið kynnt að bankinn byði viðskiptavinum sínum upp á svokölluð gengistryggð lán. Stefnandi óskaði eftir slíku láni að fjárhæð 11.000.000 króna.
Stefnandi kveður að hinn 10. mars 2005 hafi bankinn útbúið lánsumsókn vegna lánsins á stöðluðu eyðublaði bankans. Afrit umsóknarinnar er lagt fram í málinu og kemur fram í henni að stefnandi hyggist nýta lánsféð til að greiða upp tvö lán hjá Íbúðalánasjóði en „rest“ fari inn á tékkareikning í íslenskum krónum, nr. 50076. Í einum reit kemur fram að lánsfjárhæð í íslenskum krónum sé 11.000.000 og í öðrum að viðmiðunargengi sé gengið 10. mars 2005. Fram kemur að verðmat fasteignar sé 20.900.000 og að hámark láns sé 16.720.000. Í enn öðrum reit segir: „Íslenskt (50/50) (já/nei)“ og er hann fylltur út með: „Nei“. Þar næst kemur tafla yfir erlenda gjaldmiðla. Af henni má ætla að lánið sé veitt 100% í japönskum jenum eða að gengistrygging þess miðist 100% við gengi japansks jens. Lánsfjárhæðin í þeirri mynt er tilgreind 19.434.629 og viðmiðunargengi 0,5660. Fram kemur að sá hluti lánsins (100%) sé 11.000.000 íslenskra króna. Jafnframt kemur fram að LIBOR-vextir séu 0,05000. Samkvæmt umsókninni skyldi lánstíminn vera 480 mánuðir og fjöldi afborgana 160, með þriggja mánaða millibili. Fyrsti gjalddagi skyldi vera 5. júní 2005. Lánið skyldi tryggt með þriðja veðrétti í fasteigninni að Sæviðarsundi 27, Reykjavík, með fastanúmer 201-8635. Lánið skyldi lagt inn á tékkareikning stefnanda í íslenskum krónum, nr. 974900, og greiðslur samkvæmt lánsumsókninni skyldu skuldfærast af öðrum slíkum reikningi, nr. 50076. Loks segir að lánið sé greitt út í íslenskum krónum á kaupgengi Íslandsbanka hf. á útborgunardegi og enn fremur: „Lántaki hefur leitað sér ráðgjafar og gerir sér grein fyrir þeim áhrifum sem þróun gengis og vaxta getur haft á höfuðstól og greiðslubyrði.“ Stefnandi skrifar undir þessa lánsumsókn sem og starfsmaður útibús bankans.
Daginn eftir, hinn 11. mars 2005, gaf stefnandi út veðskuldabréf nr. 519074 til Íslandsbanka hf. Í málinu er lagt fram afrit af bréfinu. Tilgreining lánsins, það er, upplýsingar um útgreiðslu þess, uppgreiðslu og vexti, er í samræmi við lánsumsóknina frá deginum áður en um fjárhæð lánsins segir að stefnandi viðurkenni að skulda bankanum 11.000.000 króna, sem svo er strikað yfir og vélritað fyrir ofan, 19.434.629 japönsk jen. Þar fyrir neðan segir svo að jafnvirði í íslenskum krónum hinn 10. mars 2005 hafi verið 11.000.000 króna. Í samræmi við lánsumsóknina er bankanum sett að veði, með 3. veðrétti, fasteignin að Sæviðarsundi 27. Reykjavík, með fastanúmer 201-8635. Þar á eftir eru skilmálar skuldabréfsins í 19 greinum. Í 5. gr. þeirra segir: „Greiðslur af láni þessu skal lántaki inna af hendi í íslenskum krónum.“ Bankinn skyldi reikna út fjárhæð afborgana og vaxta miðað við skráð sölugengi Seðlabanka Íslands allt að tíu dögum fyrir gjalddaga. Í 7. gr. skilmálanna er heimild fyrir lánveitanda til þess að umreikna skuldina í íslenskar krónur við gjaldfellingu lánsins, miðað við gengi á gjaldfellingardegi. Í 7. gr. er einnig kveðið á um að skuldara beri að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð í samræmi við ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Stefnandi greiddi af láninu í samræmi við skilmála þess, í íslenskum krónum, allt þar til gerð var skilmálabreyting á láninu 22. nóvember 2007. Í skilmálabreytingunni kemur fram hverjar eftirstöðvar lánsins voru 29. október 2007 og er upphæðin þá aðeins tilgreind í japönskum jenum. Þar fyrir neðan segir: „Stimpilskyldur mismunur á upphaflegum höfuðstól bréfsins og nýjum höfuðstól skv. skilmálabreytingu er kr. 0.“ Skilmálabreytingin lýtur að öðru leyti að endurgreiðslu lánsins á nánar tilgreindum gjalddögum. Sambærilegar skilmálabreytingar voru gerðar þrisvar sinnum eftir það. Í þeim öllum eru eftirstöðvar lánsins aðeins tilgreindar í japönskum jenum en ekki kveðið á um nýjan höfuðstól eins og í þeirri fyrstu.
Í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands árið 2010 sendi stefndi stefnanda endurútreikning á fyrrgreindu láni. Samkvæmt framlögðum endurútreikningi var viðmiðunardagur hans 23. febrúar 2011 og staða lánsins þá 20.038.125 íslenskar krónur.
Stefnandi kveður stefnda þá einnig hafa gert sér boð um annað úrræði, þ.e. höfuðstólslækkun lánsins. Samkvæmt því úrræði yrðu eftirstöðvar lánsins tæplega 18 milljónir króna. Fyrir hönd beggja aðila var undirrituð yfirlýsing um „afþökkun endurútreiknings“, 7. nóvember 2011. Samkvæmt henni hafnaði stefnandi endurútreikningi stefnda en fékk samþykkta umsókn um höfuðstólslækkun og myntbreytingu með fyrirvara um betri rétt. Sama dag gaf stefnandi út nýtt skuldabréf, nr. 159136, til uppgreiðslu skuldabréfs nr. 519074, að fjárhæð 17.745.877 íslenskar krónur, tryggt með 4. veðrétti í fasteigninni að Þrastarhöfða 20, Mosfellsbæ, með fastanúmer 228-9753.
Í kjölfar dóma Hæstaréttar Íslands árið 2012, sem vörðuðu endurútreikning á grundvelli laga nr. 151/2010 og gildi fullnaðarkvittana, óskaði stefnandi eftir því við stefnda að lánið yrði endurútreiknað á nýjan leik, í samræmi við forsendur dómanna. Stefndi hafnaði þeirri ósk og vísaði til þess að bankinn teldi lánið ekki hafa verið haldið ólögmætum skilmálum um gengistryggingu heldur hafi verið um gilt lán í erlendri mynt að ræða.
III
Stefnandi byggir dómkröfur sínar á þeim fyrirvara sem hann gerði í aðdraganda útgáfu skuldabréfs nr. 159136. Þá byggir hann kröfu sína um að dómurinn viðurkenni rétt hans til þess að endurgreiða stefnda lánið sem hann tók árið 2005 í samræmi við skilmála skuldabréfs nr. 519074, að undanskildum skilmálum um gengistryggingu lánsins, á 3. mgr. 36. gr. c í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 1. mgr. 6. gr. Evróputilskipunar nr. 93/13 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum og dóm Evrópudómstólsins í máli nr. C-618/10.
Fyrri kröfuliður dómkrafna stefnanda
Stefnandi byggir kröfu sína samkvæmt þessum lið á því að umþrætt lán sé lán í íslenskum krónum. Við mat á því hvort lán teljist vera í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum hafi Hæstiréttur Íslands einkum litið til lánaskjalanna sjálfra og til þess hvernig lánsskuldbindingin hafi verið orðuð og skilgreind í fyrstu línum samninga. Hafi sú almenna lína verið dregin að sé lánsfjárhæðin einungis tilgreind annaðhvort í íslenskum krónum eða erlendum myntum, án þess að vísað sé beint eða óbeint í aðrar myntir, þá feli sú tilgreining í sér í hvaða mynt lánið hafi verið tekið. Sé þá ekki tilefni til þess að líta frekar til þess hvernig aðilar hafi efnt skuldbindingar sínar, til dæmis í hvaða mynt lánsfjárhæðin hafi verið afhent eða endurgreidd. Hins vegar hafi Hæstiréttur Íslands talið að þegar vísað sé til hvors tveggja, íslenskrar krónu og erlendra mynta, þá beri að líta til þess hvernig samningsaðilar hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningi í raun. Í skuldabréfi nr. 519074 hafi falist viðurkenning stefnanda á því að skulda stefnda 19.434.629 japönsk jen eða 11.000.000 íslenskra króna. Í ljósi þess að vísað sé til tveggja mismunandi mynta sé nauðsynlegt að líta heildstætt á lánveitinguna til þess að finna merki um hvort skuldbinding stefnanda hafi verið í íslenskum krónum eða japönskum jenum. Einkum þurfi að líta til atriða sem varði aðdraganda lánsins, vilja samningsaðila, önnur ákvæði samningsins og raunverulega framkvæmd lánsins, það er, út- og inngreiðslur vegna samningsins. Stefnandi telji ótvírætt að þegar öll þau atriði séu talin saman blasi við að lánið hafi verið í íslenskum krónum sem stefnanda hafi borið að greiða til baka í íslenskum krónum, miðað við gengi japanska jensins.
Vilji stefnanda, hvað varði skuldabréf nr. 519074, komi best í ljós í lánsumsókn enda sé það eina skjalið sem unnið sé fyrst og fremst að hans frumkvæði. Lántakendur eigi að geta gengið út frá því að bankinn, hinn sérfróði aðili í lánsviðskiptum, færi lánsumsóknir í búning lánssamninga eða skuldabréfa og kalli svo á lántakendur til undirritunar. Vilji bankinn af einhverjum ástæðum víkja frá efni lánsumsókna við endanlega skjalagerð, beri honum, sem sérfræðingi í lánsviðskiptum og neytendaviðskiptum, að gera lántakendum skýrlega viðvart um þær breytingar þegar hann leggi lánasamninga fyrir lántakendur til undirritunar. Í þessu máli hafi það ekki verið gert. Stefnandi hafi óskað eftir því að fá að taka gengistryggt lán í íslenskum krónum og hann hafi fengið gengistryggt lán í íslenskum krónum.
Lánsumsókn stefnanda beri fyrirsögnina „Lánsumsókn um húsnæðislán“. Í lánsumsókninni sé ekki tekið fram í hvaða mynt lánið skuli vera og bendi það til þess að stefnandi hygðist taka lán í íslenskum krónum, í samræmi við það að krónan var og er gjaldmiðill Íslands og að tilgangur lánsins hafi verið að greiða upp skuldir í íslenskum krónum. Hefði vilji stefnanda staðið til þess að taka lán í erlendum myntum megi ætla að hann hefði tekið það sérstaklega fram enda hefði sú tilætlan verið óvenjuleg í ljósi framangreinds. Bankinn hafi hins vegar breytt þessu við gerð skuldabréfsins, sem beri fyrirsögnina „Veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Stefnanda hafi ekki verið bent sérstaklega á þessa breytingu við undirritun skuldabréfsins eða að breytingin fæli í sér að lánið væri ekki gengistryggt lán heldur erlent lán.
Þá sé lánsfjárhæðin fyrst tilgreind í íslenskum krónum, það er, 11.000.000 króna. Aftar í skjalinu sé lánsfjárhæðin tilgreind 19.434.629 japönsk jen og kveðið á um að sú fjárhæð samsvari 11.000.000 króna. Ljóst sé að fjárhæðin í japönskum jenum sé eingöngu komin til vegna útreiknings bankans, eins og komi fram í skjalinu, miðað sé við gengið 0,5660. Því megi slá því föstu að vilji stefnanda samkvæmt lánsumsókninni hafi ekki verið að taka að láni 19.434.629 japönsk jen heldur að taka að láni 11.000.000 króna, með þeim skilmálum að höfuðstóll í íslenskum krónum tæki breytingum í samræmi við breytingar á gengi japansks jens.
Á þessum tíma hafi stefnanda, eins og öðrum, verið kunnugt um að lántöku af þessu tagi gæti fylgt nokkur áhætta. Á móti þeirri áhættu hafi komið að bankinn hafi boðið stefnanda mun lægri vexti en hafi verið í boði samkvæmt öðrum lánsformum bankans og að verðbólga á Íslandi hefði ekki áhrif á höfuðstól lánsins. Það hafi þó hvorki verið stefnandi né aðrir lántakendur sem hafi fundið upp á þessu lánsformi heldur hafi það verið bankinn sem hafi útbúið það og kynnt fyrir viðskiptavinum sínum, með áherslu á lága vexti, sbr. framlagða blaðagrein frá byrjun árs 2004 eftir framkvæmdastjóra útibússviðs Íslandsbanka hf. Þá hafi hugtakið „gengistryggt lán“ alla tíð verið notað af almenningi og bönkunum sjálfum. Íslandsbanki hafi til dæmis sérstaklega auglýst að bankinn veitti „gengistryggð lán“ og af hans hálfu hafi verið skrifaðar blaðagreinar um kosti og galla slíkra lána. Það veki athygli að í auglýsingum Íslandsbanka hf. frá þessum tíma hafi lán í erlendum myntum ekki verið talin meðal þeirra lánsforma sem bankinn hafi boðið viðskiptavinum sínum heldur sé talað um „gengistryggð lán“ eða „gengisbundin lán“. Þá hafi bankinn beinlínis vísað til þess að lánin hafi verið í íslenskum krónum, sbr. fyrrgreinda blaðagrein og umfjöllun stjórnenda og starfsmanna Íslandsbanka hf. í fjölmiðlum árin 2003-2005, um gengistryggð lán. Stefnanda hafi því verið boðið upp á gengistryggt lán, hann hafi sótt um slíkt lán og fengið slíkt lán. Vilji beggja aðila þar um liggi skýrt fyrir.
Í lánsumsókninni komi jafnframt fram hver hafi verið tilgangur stefnanda með lántökunni, það er, að greiða upp tvö lán hjá Íbúðalánasjóði og greiða upp og fella niður yfirdráttarheimild á tékkareikningi í íslenskum krónum. Komi þar fram vilji stefnanda til þess að taka lán í íslenskum krónum enda hafi hann þurft á íslenskum krónum að halda, sbr. tilgang lántökunnar.
Í samræmi við það að stefnandi hafi óskað eftir láni í íslenskum krónum hafi verið tekið fram í lánsumsókninni að lánsfjárhæðin skyldi greidd inn á tiltekinn tékkareikning í íslenskum krónum og að greitt yrði af láninu af öðrum slíkum reikningi. Stefnandi hafi því viljað fá íslenskar krónur að láni og hann hafi viljað endurgreiða lánið í íslenskum krónum.
Að lokum hafi eftirfarandi komið fram í lánsumsókninni: ,,Lántaki hefur leitað sér ráðgjafar og gerir sér grein fyrir þeim áhrifum sem þróun gengis og vaxta getur haft á höfuðstól og greiðslubyrði.“ Þessi setning sé í fullkomnu samræmi við allt það sem að framan hafi verið rakið. Stefnandi hafi sannarlega leitað sér ráðgjafar hjá bankanum og fengið það ráð að gengistryggt lán yrði honum hagstætt. Eina áhættan hafi verið að í stað hinnar hefðbundnu verðtryggingar hafi lánið verið gengistryggt miðað við gengi krónunnar gagnvart gengi japansks jens. Bankinn hafi hins vegar getað sýnt stefnanda fram á að miðað við gengisþróun síðustu ára á undan þyrfti gengið að sveiflast verulega, stefnanda í óhag, til þess að endurgreiðslur lánsins kæmust í grennd við endurgreiðslur annarra lánsforma. Í framangreindum fyrirvara komi fram skýrasta merki þess að lánið hafi verið gengistryggt lán í íslenskum krónum. Það sé ljóst að lán í erlendri mynt geti ekki tekið breytingum til hækkunar eða lækkunar á grundvelli þess hvernig gengi gjaldmiðla þróast. Hefði stefnandi í raun tekið 19.434.629 japönsk jen að láni gæti sá höfuðstóll ekki hækkað á grundvelli gengisþróunar. Hins vegar hafi höfuðstóll hins gengistryggða láns í íslenskum krónum getað hækkað vegna gengistryggingarinnar, rétt eins og höfuðstóll annarra verðtryggðra lána geti hækkað vegna hækkunar á vísitölu. Það hafi höfuðstóllinn gert í þessu tilfelli eins og síðar hafi komið í ljós. Fyrirvarinn sé endanleg staðfesting á því að samningsaðilar hafi samið um að stefnandi fengi íslenskar krónur lánaðar hjá bankanum og að lánið yrði gengistryggt. Skuldabréfið sé að mestu leyti í samræmi við lánsumsóknina og því gildi að mestu leyti sömu sjónarmið hvað það varði. Fyrirsögn veðskuldabréfsins sé frábrugðin fyrirsögn lánsumsóknarinnar að því leyti að í henni sé vísað til þess að lánið hafi verið í erlendum gjaldmiðlum. Af hálfu bankans hafi stefnanda ekki verið kynnt sérstaklega að þessi breyting hafi verið gerð, hvað þá að breytingin fæli í sér að stefnandi væri að taka lán í erlendri mynt en ekki gengistryggt lán í íslenskum krónum, eins og hann hafi sótt um og fengið samþykkt. Þá hafi verið mikill aðstöðumunur milli samningsaðila. Annar aðilinn, bankinn, hafi verið sérfræðingur á sviði lánaviðskipta og hafi útbúið og samið öll ákvæði skuldabréfsins einhliða. Hinn aðilinn, stefnandi, hafi verið óbreyttur neytandi, sem hafi gengið inn í bankann og óskað eftir því að fá lánaðar 11.000.000 íslenskra króna, sem hann hafi ætlað að nýta til að greiða upp skuldir í íslenskum krónum. Stefnanda hafi verið kunnugt um að hið íslenska lán yrði gengistryggt miðað við gengi japanska jensins enda hafi slíkar lánveitingar verið alþekktar og kynntar grímulaust af bankanum með viðvörunum um að höfuðstóll slíkra lána gæti hækkað vegna gengisþróunar. Stefnanda hafi því verið kunnugt um að lánið tengdist erlendum gjaldmiðlum. Stefnandi hafi hins vegar ekki haft þekkingu eða reynslu til annars en að líta svo á að með orðalaginu „veðskuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“, í fyrirsögn skuldabréfsins, væri einfaldlega verið að vísa til gengistryggingar lánsins, í samræmi við lánsumsókn hans. Það hafi verið lánin sem bankinn veitti neytendum á þessum tíma. Stefnandi bendi enn fremur á að Hæstiréttur Íslands hafi í dómum sínum ítrekað að líta beri til efnis samninga en ekki heitis þeirra þegar ágreiningur sé um túlkun þeirra. Þessari nálgun hafi Hæstiréttur Íslands meðal annars beitt í málum af þessu tagi, sbr. til dæmis dóma réttarins í málum nr. 603/2010 og 604/2010. Heiti umdeildra samninga í báðum málum hafi verið „Veðskuldabréf: Fasteignalán í erlendri mynt“ og hafi rétturinn metið báða samninga þannig að þeir væru um lán í íslenskum krónum. Þá sé fyrirsögn þess skuldabréfs sem deilt sé um í þessu máli röng, hvort sem lánið teljist vera í íslenskum krónum eða japönskum jenum. Fyrirsögnin vísi til þess að lánið hafi verið í „erlendum gjaldmiðlum“ en aðeins sé vísað til eins erlends gjaldmiðils í skuldabréfinu sjálfu. Þetta staðfesti að hvorugur samningsaðila hafi í raun gefið því nokkurn gaum hvað hafi staðið í heiti bréfsins. Stefnandi telji ljóst að bankinn hafi einfaldlega fyllt út staðlað samningsform sem hann hafi átt í fórum sínum til þess að veita viðskiptavinum sínum gengistryggð lán, í samræmi við opinberar auglýsingar hans um að hann veitti slík lán.
Rétt eins og í lánsumsókninni sé í 5. gr. skuldabréfsins einnig að finna skýra staðfestingu bankans sjálfs á því að lánið hafi verið gengistryggt. Í ákvæðinu komi beinlínis fram að stefnanda hafi verið skylt að endurgreiða lánið í íslenskum krónum miðað við gengi japanska jensins og ekki svo mikið sem minnst á mögulega heimild hans til að greiða afborganir í japönskum jenum, þeirri mynt sem stefndi haldi nú, átta árum síðar, fram að stefnandi hafi tekið að láni. Að mati stefnanda felist bersýnilega í þessu ákvæði að lánið hafi verið gengistryggt og að stefnandi hafi verið látinn bera ólögmæta gengisáhættu. Skuldbindingar samningsaðila hafi verið skýrar, bankinn hafi skuldbundið sig til þess að afhenda stefnanda íslenskar krónur og stefnandi hafi skuldbundið sig til þess að greiða bankanum íslenskar krónur og hafi sú skuldbinding verið gengistryggð fyrir bankann.
Stefnandi byggir einnig á því að lánssamningssamband aðila hafi byggt á útgáfu skuldabréfs og samkvæmt eðli skuldabréfa feli það í sér einhliða yfirlýsingu stefnanda um að hann hafi tekið á sig tilteknar skuldbindingar gagnvart bankanum, án nokkurra greiðsluskuldbindinga af hálfu bankans. Í samræmi við það sé ekki gert ráð fyrir undirskrift eða sérstöku samþykki bankans í skjalinu. Í skuldabréfinu lýsi stefnandi yfir þeirri skuldbindingu að hann greiði bankanum mánaðarlega íslenskar krónur og að þær greiðslur skuli taka mið af gengi japanska jensins. Með útgáfu skuldabréfsins hafi stefnandi því tekið á sig fjárskuldbindingu í íslenskum krónum bundna við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, sem hafi verið óheimilt samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001.
Einnig verði að líta til þess hvernig bankinn hafi greitt út lánið og hvernig hann hafi ætlað að fá það endurgreitt, þannig að hann yrði alltaf tryggður fyrir því að fá að minnsta kosti höfuðstól lánsins endurgreiddan. Hefði lánið verið í japönskum jenum liggi fyrir, samkvæmt 5. gr. skuldabréfsins, að bankinn hefði verið tryggður fyrir því að fá þau japönsku jen endurgreidd. Slík trygging fyrir gengissveiflum væri eðlileg og réttmæt hefði bankinn greitt lánið út í japönskum jenum. Hins vegar sé staðfest og óumdeilt í málinu að bankinn afhenti stefnanda ekki jen heldur krónur. Bankinn hafi ekki keypt eða gefið japönsk jen í tilefni þessara viðskipta og allar tilvísanir skuldabréfsins til jena séu því ekkert annað en viðmið. Þar af leiðandi sé ótækt að skilgreina lánið sem lán í japönskum jenum, sama hvernig skuldaskjölin séu orðuð.
Þá beri að líta til þess að með 14. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið sett bann við lánveitingum með gengisáhættu og að óumdeilt sé í málinu og viðurkennt af hálfu bankans að lántakan hafi falið í sér gengisáhættu fyrir stefnanda.
Að framangreindu virtu verði ekki séð að bankinn hafi í raun haft neinar forsendur til þess að fá lánið endurgreitt miðað við gengi japanska jensins, þar sem hann hafi aldrei afhent japönsk jen. Þá vakni sú spurning hvers vegna bankinn eigi að hafa tekið á sig þá áhættu að fá endurgreidda lægri fjárhæð en hann hafi lánað. Að mati stefnanda hafi sú áhætta þó ekki verið mikil. Lánið hafi verið til 40 ára og takmarkaðar líkur á að íslenska krónan myndi hafa yfirhöndina gegn japanska jeninu á því tímabili. Þetta hafi reyndar sýnt sig mjög fljótt enda hafi það verið ekki seinna en í mars 2009, þegar 1/10 af lánstímanum hafi verið liðinn, að gengi jensins hafði hækkað um 100% frá lántökudeginum, úr 0,57 upp í 1,13. Í þessu samhengi verði ekki annað séð en að áhættan hafi borgað sig fyrir bankann og raunar þegar skilað honum og stefnda ótrúlegum hagnaði. Hefði þróun gengisins orðið bankanum óhagstæð bendi stefnandi á að bankinn hefði auðveldlega getað unnið gegn því, enda hafi bankanum verið heimilt samkvæmt skuldabréfinu að breyta vaxtaálaginu einhliða og án takmarkana á fimm ára fresti. Jafnframt skuli hafa í huga að grunnurinn að þessum lánveitingum bankanna hafi verið sá að þeir hefðu sjálfir tekið gríðarlega mikla fjármuni að láni hjá erlendum aðilum. Þá fjármuni hafi bankarnir ávaxtað með því að lána þá áfram. Með gengistryggingunni hafi bankarnir getað tryggt sig fyrir skilum á skuldbindingum sínum við erlenda skuldunauta og með vaxtaálaginu og heimildum til að breyta vaxtaálagi einhliða hafi komið ágóði bankanna af lánveitingunum. Íslandsbanki hf. hafi hins vegar ekkert frekar en aðrir íslenskir bankar getað veitt lán í erlendum myntum, enda hafi erlendar myntir ekki verið þeim til reiðu. Fyrir liggi að gjaldmiðill Íslands sé krónan og jafnvel þótt bankarnir hafi tekið mikla fjármuni að láni erlendis þá hafi þeir fjármunir ekki verið fluttir heim í erlendri mynt. Sú tylliástæða að bankarnir hafi í einhverjum tilvikum lagt lánsfjárhæðir inn á svokallaða gjaldeyrisreikninga hjá lántakendum breyti þar engu um, enda ljóst að hafi sá lántakandi ætlað að taka út fé af þeim reikningum hafi hann einungis getað fengið íslenskar krónur afhentar, einmitt miðað við gengi krónunnar gagnvart viðkomandi gjaldmiðli. Þá liggi einnig fyrir að íslenskar fjármálastofnanir hafi ekki heimild til þess að gefa út erlendar myntir í formi rafeyris.
Stefnandi bendir á, að samkvæmt íslenskum lögum séu lán á milli tveggja innlendra aðila skilgreind sem innlend lán en ekki erlend lán. Vísar stefnandi í þessu sambandi til 1. gr. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Í síðustu tveimur málsgreinum ákvæðisins megi finna skilgreiningar á hugtökunum innlend verðbréf og erlend verðbréf. Komi þar skýrt fram að skilyrði þess að verðbréf teljist erlent sé að erlendur aðili gefi það út. Það sé svo áréttað í athugasemdum við framangreind ákvæði í frumvarpi að lögunum að verðbréf sé ávallt innlent sé aðili búsettur hér á landi sem gefi það út og gildi þá einu hvort það sé gefið út hér á landi, erlendis, í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Sömuleiðis sé lán erlent lán þegar innlendur aðili fái lán hjá erlendum aðila. Mynt lánsins ráði þar engu um. Í þeim tilvikum þegar innlendur aðili taki lán hjá erlendum aðila og endurláni lánsféð öðrum innlendum aðila teljist fyrra lánið erlent en hið síðara innlent. Í samræmi við framangreinda umfjöllun í frumvarpi að lögum nr. 87/1992 teljist lántökur íslensku bankanna hjá erlendum bönkum vera erlend lán en endurlán bankanna á því lánsfé til íslenskra aðila teljist vera íslensk lán. Samkvæmt þessari skilgreiningu löggjafans teljist lán stefnanda því vera íslenskt lán en ekki erlent. Ekki verði heldur með góðu móti séð að bönkum sé yfirleitt heimilt að veita íslenskum aðilum lán í erlendum myntum enda sé gjaldmiðill Íslands íslenska krónan, sbr. 1. gr. laga nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands. Fjárskuldbinding milli tveggja íslenskra aðila sé því í raun alltaf í íslenskum krónum, hvernig sem skuldbindingin sé sett upp eða orðuð. Segja megi að íslenskir bankar geti aðeins stundað viðskipti við innlenda aðila með erlendar myntir með þeim hætti að afhenda hinum innlendu aðilum myntirnar, í seðlum, gegn greiðslu á íslenskum krónum, í samræmi við hefðbundna sölu vara. Í öllum öðrum tilvikum, svo sem í lánsviðskiptum, sé einungis unnt að skilgreina tilvísanir til erlendra mynta sem einhvers konar viðmið, svo sem til gengistryggingar.
Sem fyrr greini hafi Hæstiréttur Íslands talið að þegar vísað sé bæði til íslenskra króna og erlendra mynta í lánsskjölum af þessu tagi þurfi að líta til þess hvernig skyldur samningsaðila hafi verið efndar í raun. Á þeim grundvelli sé hægt að leggja mat á það hvort lán teljist lán í íslenskum krónum eða erlendum myntum. Hafi Hæstiréttur Íslands þá talið það hafa mest vægi að líta til þess hvaða mynt hafi í raun verið afhent lántakanda, sbr. dóma réttarins í málum nr. 66/2012, 3/2012 og 332/2012. Niðurstaða réttarins í öllum þessum málum hafi verið sú að um gild lán í erlendum myntum hafi verið að ræða og í öllum málunum hafi niðurstaðan byggst á þeirri einu forsendu að lánin hefðu verið greidd út til lántakenda í erlendum myntum. Í tilviki stefnanda sé óumdeilt að lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum. Með gagnályktun frá niðurstöðum og forsendum fyrrnefndra dóma Hæstaréttar Íslands hljóti lán stefnanda að teljast lán í íslenskum krónum. Þá hafi stefnandi alla tíð greitt af láninu í íslenskum krónum, eins og honum hafi borið að gera samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins. Báðir samningsaðilar hafi því efnt skyldur sínar í íslenskum krónum.
Af skilmálabreytingum lánsins megi sjá að tilgangur þeirra hafi ávallt verið hinn sami, það er, að fresta gjalddögum höfuðstólsafborgana og greiða aðeins vaxtagreiðslur á þriggja mánaða fresti. Sú ósk hafi verið sett fram sökum þess að greiðsla af höfuðstól og vaxtagreiðsla hafi verið stefnanda um megn, enda hafi höfuðstóll lánsins stökkbreyst úr 11.000.000 króna í um það bil 26.000.000 króna. Annað efni skjalanna hafi enga þýðingu og fráleitt sé að halda því fram að það sem þar standi breyti upphaflegu samningssambandi aðila að einhverju leyti eða gefi einhverjar frekari vísbendingar um hvað upphaflega hafi verið samið um. Þá sé annar texti en sá sem lúti beint að skilmálabreytingunum svo ruglingslegur og órökréttur að stefnandi telji að hann verði að virða að vettugi. Komi stefndi til með að byggja á því að fjárhæð lánsins sé ekki tilgreind í íslenskum krónum í skilmálabreytingunum mótmæli stefnandi því með öllu að af því að hann hafi ekki gert athugasemdir við þá uppsetningu stefnda hafi hann viðurkennt að hafa tekið lán í erlendri mynt. Þar að auki bendi stefnandi á að í skjölunum komi fram að skuldin miðist við hina nefndu erlendu fjárhæð eða jafngildi hennar í íslenskum krónum. Jafnframt vísar stefnandi til fyrri umfjöllunar um það að heiti skjala og tilgreiningar settar fram einhliða af bankanum, sérfræðingnum, í stöðluðum skjölum hans, geti ekki haft nein áhrif á það efni sem aðilar hafi raunverulega samið um.
Í fyrstu skilmálabreytingunni taki bankinn fram að stimpilskyldur mismunur á „upphaflegum höfuðstól bréfsins og nýjum höfuðstól skv. skilmálabreytingu“ sé núll krónur. Stefnanda sé ekki ljóst hvað ákvæðið þýði en þó virðist sem bankinn hafi verið að reyna að láta líta svo út að aðilar hafi komið sér saman um nýjan höfuðstól, það er, að lánið væri komið með nýjan höfuðstól í erlendri mynt. Stefnandi mótmæli því enda hafi hann einungis óskað eftir samþykki bankans fyrir fresti á greiðslum. Um stimpilgjöld vegna skilmálabreytinga sé fjallað í 8. gr. laga nr. 36/1978, um stimpilgjöld. Í samræmi við það ákvæði hafi stimpilgjaldið verið núll krónur, enda hafi hinn „nýi“ höfuðstóll verið lægri en upphafleg lánsfjárhæð.
Stefnandi skorar á stefnda að útskýra hvernig höfuðstóll lánsins hafi getað lækkað á milli fyrstu og annarrar skilmálabreytingar þrátt fyrir að stefnandi hafi ekkert greitt inn á höfuðstól lánsins á þeim tíma.
Á framlögðu yfirliti stefnda um greiðslur stefnanda vegna skuldabréfs nr. 519074 tilgreini stefndi sérstaklega þá fjárhæð sem hann skilgreini sem „gengismun“ við hverja afborgun. Stefnandi fái ekki séð hvaða tilgangi sú tilgreining þjóni sé ekki verið að lýsa þróun gengistryggðs láns heldur láni í erlendir mynt.
Að mati stefnanda sé skýrt, að öllu framangreindu virtu, að umrædd skuldbinding stefnanda hafi verið í íslenskum krónum og verið gengistryggð með ólögmætum hætti.
Síðari kröfuliður dómkrafna stefnanda
Fallist dómurinn á fyrrgreind sjónarmið stefnanda um að upphaflega skuldabréfið hafi verið um gengistryggt lán í íslenskum krónum þá krefst stefnandi þess, í samræmi við framangreindan fyrirvara um höfuðstólslækkun, að dómurinn felli úr gildi skuldabréf nr. 159136. Í ljósi þess að stefnandi hafi sannarlega tekið fjármuni að láni hjá bankanum með útgáfu hins fyrra skuldabréfs, nr. 519074, blasi við að ákvæði og umsamdir skilmálar þess skuldabréfs skuli taka gildi á nýjan leik í lánssamningssambandi aðilanna, að undanskildum ógildum skilmálum um gengistryggingu. Þessa kröfu byggi stefnandi á 36. gr. c í lögum nr. 7/1936, sbr. 1. mgr. 6. gr. tilskipunar Evrópuráðsins nr. 93/13/EBE og túlkun Evrópudómstólsins á því ákvæði. Til nánari skýringar bendi stefnandi á að árið 1993 hafi verið samþykkt tilskipun Evrópuráðsins nr. 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Tilskipunin hafi í kjölfarið verið færð inn í EES-samninginn, í viðauka nr. XIX, og ákveðið hafi verið að ákvæði tilskipunarinnar skyldu tekin upp í landsrétt EES-ríkjanna í síðasta lagi 31. desember 1994. Í 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar segi:
Aðildarríkin skulu mæla svo fyrir um að óréttmætir skilmálar í samningi seljanda eða veitanda við neytanda séu ekki samkvæmt landslögum þeirra bindandi fyrir neytandann og að samningurinn verði áfram bindandi fyrir samningsaðila ef hann getur haldið gildi sínu að öðru leyti án óréttmætu skilmálanna.
Á grunni tilskipunarinnar hafi verið samþykkt lög nr. 14/1995, um breytingu á lögum nr. 7/1936, og með vísan til framangreinds ákvæðis sett inn nýtt ákvæði, 3. mgr. 36. gr. c. Stefnandi telur ljóst að fallist dómurinn á að lán stefnanda hafi falið í sér ólögmæta gengistryggingu skuli, samkvæmt ákvæðinu, víkja þeim skilmálum lánsins til hliðar. Stefnandi telur jafnframt að ákvæðið veiti honum rétt til þess að krefjast þess að allir aðrir skilmálar lánsins skuli gilda áfram án breytinga, enda standi engin rök til þess að samninginn megi ekki efna með þeim hætti. Ekki hafi verið fallist á að beita þessu ákvæði í dómaframkvæmd á Íslandi. Hæstiréttur hafi þvert á móti kveðið á um að vaxtaákvæðum samninga af þessu tagi skuli breytt vegna gengistryggingarskilmálanna, þannig að þau skuli miðast við seðlabankavexti. Nú hafi Evrópudómstóllinn hins vegar kveðið upp dóm í máli nr. C-618/10 þar sem fram komi hin skýra og rétta túlkun á tilskipun nr. 93/13/EBE, sem sé, sem fyrr segi, grunnurinn að umræddu ákvæði samningalaga. Í dóminum komi skýrt fram að löggjafanum eða dómstólum sé ekki heimilt að breyta ákvæðum samninga sem geti gilt þrátt fyrir aðra óréttmæta skilmála. Stefnandi fái með engu móti séð að nokkuð standi því í vegi að upphafleg vaxtaákvæði samningsins fái að halda sér, enda hvergi kveðið á um það í lögum að höft séu á því hvaða vaxtaviðmið aðilar semji um sín á milli í lánsviðskiptum. Ljóst sé að stefnandi hafi haft stöðu neytanda í lánssambandinu og því krefjist stefnandi þess að litið verði til umrædds ákvæðis samningalaga og að dómurinn staðfesti að upprunalegir vaxtaskilmálar samningsins haldi sér til framtíðar. Stefnandi árétti að íslenska ríkið sé skuldbundið til að túlka ákvæði EES-samningsins til samræmis við túlkun Evrópudómstólsins, sbr. 6. gr. EES-samningsins, sem hafi verið lögfestur með lögum nr. 2/1993, og 2. mgr. 3. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Teljist lánið gengistryggt hafni stefnandi því að umsamdir vextir skuli teljast ógildir frá upphafi og að miða skuli við 4. gr. laga nr. 38/2001, sem komi aðeins til álita þegar vaxtaprósenta eða viðmiðun hafi ekki verið tiltekin í lánssamningi. Í lánssamningi þessa máls sé skýrt kveðið á um vaxtaviðmiðun og vaxtaprósentu og um slík atriði gildi samningsfrelsið óskert. Fráleitt sé, að mati stefnanda, að stefndi geti vísað til þess að forsendur fyrir umsömdum vöxtum séu brostnar vegna þess að bankinn hafi veitt stefnanda lán með ólögmætum skilmálum, sem bankanum sjálfum hafi verið kunnugt um eða mátt vera kunnugt um. Rétt sé að stefndi beri allan halla í þessum efnum enda hafi bankinn verið sérfræðingurinn í viðskiptunum og sá aðili sem fyrir afglöp hafi veitt lán með ólögmætum skilmálum.
Með viðurkenningu dómsins á því að lán stefnanda teljist gengistryggt lán í íslenskum krónum liggi fyrir að öllum ákvæðum veðskuldabréfsins um gengistryggingu beri að víkja til hliðar, svo sem tilgreiningu lánsfjárhæðarinnar í japönskum jenum og ákvæði um gengisviðmiðun. Þá sé tjón stefnda ekki annað en það að hann eigi þá sem fyrr kröfu til þess að fá höfuðstól lánsins endurgreiddan að fullu með þeim vöxtum sem samið hafi verið um. Því skuli ekki gleyma að stefndi hafi „keypt“ umrætt lán af Glitni banka árið 2008, á hálfvirði eða þaðan af minna. Því sé tæpast hægt að tala um tjón af hálfu stefnda.
Stefnandi byggir og á því, telji dómurinn að lán samkvæmt veðskuldabréfi nr. 519074 hafi verið í erlendum gjaldmiðlum, að samningunum verði vikið til hliðar í heild og að hluta á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Verði það niðurstaða dómsins þá liggi fyrir að útgreiðsla og kostnaður bankans af lánveitingunni hafi verið 11.000.000 króna. Stefnandi telji ljóst að við slíkar aðstæður verði að telja það ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, að heimila bankanum að innheimta lánið eins og að 19.000.000 japanskra jena hafi verið lagðar út þegar lánið hafi verið veitt. Miðað við stöðu gengis í dag fælist í því að höfuðstóll hins útgreidda lánsfjár bankans hefði hækkað um 130% á átta árum. Enn væru þá 4/5 hlutar lánstímabilsins eftir. Slík ávöxtun stefnda, á kostnað stefnanda, geti einfaldlega ekki talist sanngjörn eða í samræmi við góðar viðskiptavenjur. Þá hljóti að koma til sjónarmið um óréttmæta auðgun stefnda enda hafi stefnandi ekki tekið meðvitaða ákvörðun um að styrkja bankann og stefnda með svo ríkulegum hætti. Í því sambandi gildi einu þótt stefndi hafi samvisku sinnar vegna veitt stefnanda höfuðstólslækkun á láninu árið 2011 því hún breyti engu um þá okurávöxtun sem stefndi njóti af láninu.
Á grundvelli framangreinds krefjist stefnandi þess að lánssamningi aðila samkvæmt veðskuldabréfi nr. 159136 verði vikið til hliðar í heild og að lánssamningi aðila samkvæmt veðskuldabréfi nr. 519074 verði vikið til hliðar að hluta, það er, öllum tilvísunum skuldabréfsins til japanskra jena og ákvæði 2. málsl. 5. gr. skuldabréfsins.
Um lagarök vísar stefnandi til 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, meginreglna fjármunaréttar og samningaréttar um að við túlkun samninga skuli tekið mið af efni og skyldum samkvæmt samningum fremur en formi þeirra, 1. gr. laga nr. nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, 1. gr. laga nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands og 3. mgr. 36. gr. c í lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 1. mgr. 6. gr. Evróputilskipunar nr. 93/13. Stefnandi byggir einnig til vara á 36. gr. laga nr. 7/1936 og ólögfestum sjónarmiðum um óréttmæta auðgun.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. laganna.
IV
Stefndi byggir á því að lánið hafi verið gilt lán í erlendum gjaldmiðlum. Svo sem greini í forsendum dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fari skuldbinding í erlendum gjaldmiðli ekki gegn ákvæðum laga nr. 38/2001. Beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Fyrri kröfuliður dómkrafna stefnanda
Af réttarframkvæmd verði ráðið að þegar höfuðstóll lánsskuldbindingar sé sérstaklega tilgreindur í erlendum gjaldmiðlum, eins og eigi við um það skuldabréf sem hér sé til umfjöllunar, teljist lán vera í erlendum gjaldmiðlum. Á slíka skuldbindingu hafi fyrst reynt í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 520/2011. Héraðsdómur hafi vísað kröfu lánveitanda af sjálfsdáðum frá dómi á þeim grunni að skuldbindingin, sem málsóknin hafi verið reist á, hafi verið gengistryggð með ólögmætum hætti. Samkvæmt efni skuldabréfsins, sem um var deilt í því máli, hafi verið ráðgert að samningsaðilar skyldu báðir efna skuldbindingar sínar í íslenskum krónum. Hæstiréttur Íslands hafi talið lánið vera lögmæta skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum, þar sem fjárhæð hinna erlendu gjaldmiðla kæmi skýrt fram í bréfinu, þar sem greind var fjárhæð skuldar.
Í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 551/2011 og 552/2011 hafði kröfum verið vísað frá héraðsdómi án kröfu á áþekkum forsendum og að framan greini, í máli nr. 520/2011. Í báðum tilfellum hafi rétturinn fellt hina kærðu úrskurði úr gildi. Af röksemdum dómsins megi ráða að tilgreining lánsskuldbindingar skipti mestu við úrlausn á því, hvort skuldbinding teljist vera í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum, og þá einkum hvort höfuðstóll hinna erlendu lánsfjárhæða sé tiltekinn. Slík skuldbinding geti talist vera í erlendum gjaldmiðlum enda þótt efndir fari í reynd fram í íslenskum krónum. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 524/2011 hafi reynt á lánsskuldbindingu sem hafi verið tilgreind með áþekkum hætti og í máli nr. 520/2011. Stefndi þessa máls hafi verið annar málsaðila. Í dómi réttarins segi að við úrlausn ágreinings um það hvort lánið væri gilt lán í erlendum gjaldmiðlum eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum væri fyrst að líta til heitis skuldabréfsins. Fyrirsögn þess hafi verið „Skuldabréf í erlendum gjaldmiðlum“. Í öðru lagi hafi lánsfjárhæðin fyrst verið tilgreind í þremur erlendum gjaldmiðlum, svissneskum frönkum, japönskum jenum og evrum, og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum. Í þriðja lagi hafi vextir samkvæmt skuldabréfinu, LIBOR- og EURIBOR-vextir, verið til samræmis við að um erlent lán væri að ræða. Í fjórða lagi bæri að líta til skilmálabreytingar á láninu, með fyrirsögninni „Skilmálabreyting skuldabréfs í erlendum myntum/mynteiningum“, sem ekki hafi getið jafnvirðisfjárhæðar lánsins í íslenskum krónum. Þegar framangreind atriði væru virt, yrði lagt til grundvallar að lánið hafi verið gilt lán í tilgreindum erlendum gjaldmiðlum. Loks vísi stefndi til þess að Hæstaréttur Íslands hafi, með dómi í máli nr. 757/2012, staðfest að skuldabréf, sem tilgreint hafi lánsfjárhæðir í erlendum gjaldmiðlum, hafi verið um lán í þeim gjaldmiðlum. Ekki skipti máli þótt greiðslur færu fram í íslenskum krónum þegar skýrt kæmi fram í lánssamningi að skuldin væri í erlendri mynt. Þá hafi lán á grundvelli eyðublaðs, sem sé eins og það sem deilt sé um í þessu máli, verið staðfest sem gilt lán í erlendum gjaldmiðlum með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-4433/2012, þrátt fyrir að afborganir af láninu hafi verið í íslenskum krónum, í samræmi við ákvæði veðskuldabréfsins, og lánveitandi hafi greitt lánið út í íslenskum krónum. Enn fremur hafi það sérstaka þýðingu að hin umdeilda skuldbinding sé byggð á veðskuldabréfi sem hafi að geyma tæmandi lýsingu á þeim réttindum sem það veiti og á takmörkunum sem kunni að vera á þeim, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 715/2012. Í dóminum hafi það ekki breytt niðurstöðu réttarins þótt lántaki hefði fengið lánið greitt út í íslenskum krónum í samræmi við ákvæði skuldabréfsins og greitt af láninu í íslenskum krónum. Aðdragandi lánveitingarinnar hafi ekki heldur skipt máli. Hæstiréttur Íslands hafi byggt á sömu sjónarmiðum í málum nr. 757/2012 og 3/2013. Í dómi réttarins í síðarnefnda málinu komi fram að síðari breytingar, sem gerðar hafi verið með skriflegum löggerningum á efni veðskuldabréfsins, hafi ekki haft áhrif á þá skilmála bréfsins sem hafi kveðið á um skuldbindingu í erlendum gjaldmiðli. Að öllu framangreindu virtu telji stefndi að aðdragandi lántökunnar, til að mynda efni lánsumsóknar, og ályktanir stefnanda af orðalagi í dagblaðagreinum, hafi enga þýðingu við mat á því hvort umdeilt veðskuldabréf nr. 519074 teljist vera um lán í erlendum gjaldmiðli eða gengistryggt lán í íslenskum krónum.
Stefnandi mótmæli því að það hafi þýðingu að fyrirsögn veðskuldabréfsins vísi til erlendra gjaldmiðla í fleirtölu þótt lánið hafi eingöngu verið veitt í einum erlendum gjaldmiðli. Ljóst sé að um eyðublað sé að ræða sem gert sé ráð fyrir að megi nota fyrir lán í einum eða fleiri gjaldmiðlum. Lánsfjárhæð samkvæmt orðalagi skuldabréfsins sé fyrst tilgreind í japönskum jenum og síðan jafnvirði lánsins í íslenskum krónum. Vextir samkvæmt skuldabréfinu séu LIBOR-vextir og það sé til samræmis við að í bréfinu sé kveðið á um erlent lán. Þá séu eftirstöðvar lánsfjárhæðarinnar eingöngu tilgreindar í erlendum gjaldmiðlum í skilmálabreytingum skuldabréfsins en jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum ekki getið. Jafnframt beri, við túlkun hinnar umdeildu skuldaviðurkenningar, að hafa í huga meginreglu íslensks réttar um frelsi manna til að bindast skuldbindingum með samningum við aðra þannig að samningar teljist gildir nema sýnt sé fram á að þeir brjóti í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum.
Tilvísun stefnanda til dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 66/2012, 332/2012 og 3/2012 sé haldlaus í því samhengi sem reyni á þessu máli. Í þeim málum séu lánsskuldbindingar eingöngu orðaðar sem jafnvirði fjárhæða í íslenskum krónum sem svo skuli skiptast í ákveðnum hlutföllum í tvær eða fleiri erlendar myntir, án þess að fjárhæð lána sé tilgreind í hinum erlendu myntum. Þegar svo hátti til verði að horfa til annarra atriða, einkum til þess hvernig efndir aðila hafi verið. Í þessu máli sé hins vegar fjárhæðar skuldbindingarinnar í erlendum gjaldmiðli skýrlega getið.
Stefndi mótmæli sérstaklega fullyrðingu stefnanda um að Hæstiréttur Íslands hafi þegar talið að þegar í lánssamningum sé bæði vísað til íslenskrar krónu og erlendra gjaldmiðla beri að líta til þess hvernig samningsaðilar hafi í raun uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningnum. Vísar stefndi um þetta atriði til dóma réttarins í málum nr. 520/2011, 551/2011 og 524/2011.
Stefndi mótmæli einnig því sem fram komi í stefnu málsins um að til hafi staðið að veita stefnanda gengistryggt lán en síðar hafi komið í ljós að stefndi hafi óvart veitt lán sem teljist gilt lán í erlendum gjaldmiðlum. Af málatilbúnaði stefnanda megi ráða að það hafi verið ásetningur stefnda að brjóta gegn 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Sú nálgun sé fráleit að mati stefnda, enda ekki bannað að lána erlenda gjaldmiðla. Vart verði séð hvaða hag stefndi hefði getað haft af því að veita lán sem bryti í bága við nefnd ákvæði laga nr. 38/2001 og þurfa í kjölfarið að gefa eftir tengingu lánsins við erlenda gjaldmiðla, fremur en að veita lán í hinni erlendu mynt. Forveri stefnda hafi fengið fjármuni lánaða erlendis, í erlendum gjaldmiðlum, sem hafi gert honum mögulegt að veita lán í þeim gjaldmiðlum á íslenskum lánamarkaði. Erlent lánsfé hafi þannig verið endurlánað, eins og alvanalegt sé. Á þeim tíma sem stefnandi hafi tekið hið umdeilda lán hjá stefnda hafi engin gjaldeyrishöft verið á Íslandi og hefði stefnandi getað fengið lánsfjárhæðina afhenta í japönskum jenum hefði hann kosið það.
Stefndi mótmæli því einnig að með notkun hugtaksins „gengistryggt lán“ hafi falist ásetningur eða vilji til þess að veita lán sem stangist á við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Hugtakið „gengistrygging“ sé hvergi skilgreint í lögum. Þær blaðagreinar sem stefnandi hafi lagt fram sýni ekki fram á annað en að hugtakið „gengistryggt lán“ hafi verið notað jöfnum höndum um lán í erlendum gjaldmiðlum og lán í íslenskum krónum tengd við gengi erlendra gjaldmiðla. Í þeim greinum sem stefnandi leggi fram sé notast við orðalagið „húsnæðislán í erlendri mynt“ um lánveitingar stefnda en ekki sé vísað til gengistryggingar. Allt að einu telji stefndi að það hafi enga þýðingu þótt hugtakið kunni að hafa verið notað um lán í erlendum gjaldmiðlum. Sú nálgun sé enda fráleit, að lán, sem að sönnu séu í erlendri mynt, verði talin fela í sér ólöglega tengingu við gengi erlendra gjaldmiðla eingöngu af þeirri ástæðu að hugtakið hafi verið notað til þess að lýsa slíkum lánum.
Stefndi mótmælir því að yfirlýsing lántaka á lánsumsókn, um áhrif gengisþróunar og vaxta á höfuðstól og greiðslubyrði, sé til marks um það að lánið hafi verið í íslenskum krónum. Tilgangur yfirlýsingarinnar hafi verið sá að vekja athygli lántaka á þeirri áhættu sem fylgi lántöku í erlendum gjaldmiðlum og því að áhrif gengisbreytinga geti haft áhrif á lánsfjárhæð og greiðslubyrði lánsins, sé miðað við jafnvirði íslenskra króna, enda ekki annað vitað en að lántaki hafi haft tekjur í þeirri mynt. Stefndi telji lánsumsóknina að öllu leyti í samræmi við að sótt hafi verið um lán í erlendum gjaldmiðlum. Lántaki hafi gagngert óskað eftir því að lánið yrði í erlendum gjaldmiðlum og í lánsumsókninni komi fram, undir liðnum „lánsfjárhæð í mynt“, að lánsfjárhæð verði 19.434.629 japönsk jen. Þannig sé fullt samræmi á milli lánsumsóknarinnar og skuldabréfsins hvað varði tilgreiningu lánsfjárhæðar. Á lánsumsókninni komi einnig fram að lánið skuli greitt inn á reikning nr. 549-26-974900, sem sé svokallaður biðreikningur stefnda en ekki reikningur í eigu stefnanda, líkt og fullyrt sé í stefnu. Greiða hafi átt upp tvö lán hjá Íbúðalánasjóði af þessum reikningi. Í samræmi við beiðni lántaka hafi andvirði hinna japönsku jena verið greitt út í íslenskum krónum til þess að gera upp aðrar skuldbindingar stefnanda í íslenskum krónum. Ekkert hefði hins vegar verið því til fyrirstöðu að lántaki fengi afhenta lánsfjárhæðina í japönskum jenum, hefði vilji hans staðið til þess, enda engin gjaldeyrishöft á Íslandi á þeim tíma.
Þá eigi fullyrðingar stefnanda um ómöguleika stefnda til þess að veita lán í erlendum gjaldmiðlum ekki við rök að styðjast. Eins og stefnandi hafi bent á, hafi fjármögnun stefnda meðal annars verið hagað með lántökum erlendis og því sé ljóst að stefndi hafi raunverulega haft erlenda gjaldmiðla til ráðstöfunar og til endurlána hér á landi. Eins og kaupnóta veðskuldabréfsins beri með sér hafi stefndi þurft að selja 19.434.629 japönsk jen til þess að geta greitt stefnanda lánið út í íslenskum krónum. Stefndi vísi einnig til þess að við útgreiðslu lánsins, sbr. framlagða kaupnótu, hafi útborguð fjárhæð lánsins í íslenskum krónum tekið mið af fjárhæð lánsins í japönskum jenum á útgreiðsludegi. Á skuldabréfinu sé tilgreint að 10. mars 2005 hafi andvirði lánsfjárhæðarinnar í japönskum jenum verið að jafnvirði 11.000.000 íslenskra króna. Smávægileg breyting hafi orðið á gengi japanskra jena gagnvart íslensku krónunni frá 10. mars 2005, þegar stefnandi hafi sótt um lánið, og þar til stefndi hafi keypt skuldabréfið og greitt út andvirði þess, 18. mars 2005. Hefði lánið verið í íslenskum krónum, líkt og stefnandi haldi fram, hefði útborgun lánsins miðast við hina íslensku fjárhæð og fjárhæð í japönskum jenum tekið breytingum í takt við breytingar á gengi á þessu tímabili. Útborguð fjárhæð hinn 18. mars 2005 hafi hins vegar miðast við 19.434.629 japönsk jen og hafi andvirði lánsins verið greitt út í íslenskum krónum í samræmi við beiðni lántaka þar um. Það sé ekki rétt sem stefnandi haldi fram um að ekki sé hægt að taka erlenda gjaldmiðla út af gjaldeyrisreikningum hér á landi. Þegar stefnandi hafi tekið lánið hafi ekki verið gjaldeyrishöft hér sem hafi takmarkað slíkar úttektir. Raunar megi benda á að slíkar úttektir í gjaldeyri séu mögulegar í dag, þrátt fyrir gjaldeyrishöft, að vissum skilyrðum uppfylltum, sbr. 1. mgr. 13. gr. d í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.
Stefndi mótmælir sem röngum og ósönnuðum þeim fullyrðingum stefnanda að með 14. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið sett bann við lánveitingum sem feli í sér gengisáhættu fyrir lántaka. Augljóst sé að skuldbinding í erlendum gjaldmiðli feli í sér gengisáhættu fyrir lántaka sem hafi tekjur í öðrum gjaldmiðli en skuldbinding hans. Í forsendum dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi sérstaklega verið vísað til þess að skuldbinding í erlendum gjaldmiðli brjóti ekki gegn 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.
Stefndi hafnar einnig fullyrðingum stefnanda um að vilji stefnda hafi verið að veita gengistryggð lán og um hverjar ástæður stefnda fyrir því að veita slík lán hafi verið. Þetta séu hreinar getgátur og þeim sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Ekki verði heldur séð hvernig umfjöllun stefnanda um skilgreiningar á hugtökunum innlend og erlend verðbréf og tilvísun hans til 1. gr. laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál hafi þýðingu í þessu máli. Hvort lán teljist innlent eða erlent samkvæmt gjaldeyrislögum hafi engin áhrif á hvort lánsskuldbinding teljist vera í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum.
Stefnandi byggi einnig á því að yfirlit sem beri fyrirsögnina „Greiðslur skuldabréfs í ISK“, sé til marks um það að skuldin hafi verið í íslenskum krónum en ekki erlendum gjaldmiðlum. Yfirlitið sé kallað fram úr lánakerfi stefnda en slík lánsyfirlit séu ekki send lántökum nema samkvæmt sérstakri beiðni. Umrætt lánakerfi stefnda sé þannig úr garði gert að sérstaklega þurfi að óska eftir því að yfirlitið sé kallað fram úr kerfinu í íslenskum krónum en mögulegt sé að kalla yfirlitið fram í jafnvirði íslenskra króna eða í þeim gjaldmiðlum sem lánið sé raunverulega í. Þessu til stuðnings leggi stefndi fram yfirlit í hinum erlenda gjldmiðli sem sé sambærilegt yfirliti sem stefnandi leggi fram í íslenskum krónum. Tilgreining á gengismun í yfirliti í íslenskum krónum sé eingöngu til þess fallið að gera grein fyrir áhrifum gengisbreytinga á jafnvirði afborgana í íslenskum krónum á viðkomandi gjalddaga frá lántökudegi. Uppsetning yfirlitsins hrófli því ekki við þeirri staðreynd að lánsskuldbindingin sé skýrlega tilgreind í skuldabréfinu í hinum erlenda gjaldmiðli.
Vegna umfjöllunar stefnanda um skilmálabreytingar og um stimpilskyldan mun, taki stefndi fram að þegar vanskilum sé bætt við höfuðstól geti vel komið upp sú staða að nýr höfuðstóll verði hærri en upphaflegur höfuðstóll, í hvaða gjaldmiðli sem lán sé í, og geti þannig myndast svokallaður stimpilskyldur munur. Slíkum mun hafi hins vegar ekki verið til að dreifa í þessu tilviki og því hafi munurinn verið tilgreindur 0 kr. Ástæða þess að gert hafi verið ráð fyrir að hann væri tilgreindur í íslenskum krónum hafi verið að stimpilgjald sé innheimt í íslenskum krónum en ekki í erlendum gjaldmiðlum.
Hvað varði athugasemd stefndanda um hvernig höfuðstóll lánsins hafi lækkað milli skilmálabreytinga, bendi stefndi á að lesa megi af skjölunum sjálfum hvernig sá munur sé kominn til. Í fyrri skilmálabreytingu, frá 22. nóvember 2007, séu eftirstöðvar lánsins tilgreindar með vöxtum en í síðari skilmálabreytingu, frá 7. desember 2008, komi fram að eftirstöðvar séu tilgreindar án vaxta.
Síðari kröfuliður dómkrafna stefnanda
Eins og að framan sé rakið byggi stefndi á því að umþrætt lán hafi verið gilt lán í erlendum gjaldmiðlum og beri því, þegar af þeirri ástæðu, að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í síðari kröfulið dómkrafna um að veðskuldabréf nr. 159136 verði fellt úr gildi. Krafa stefnanda byggi á fyrirvara í umsókn hans um höfuðstólslækkun. Samkvæmt efni fyrirvarans sé hann skilyrtur við að Hæstiréttur Íslands fjalli um sambærilega skilmála og telji þá kveða á um gild lán í erlendum gjaldmiðlum. Hæstiréttur Íslands hafi ekki komist að slíkri niðurstöðu varðandi skilmála í sambærilegum skuldaskjölum stefnda og deilt sé um í þessu máli. Þvert á móti hafi rétturinn staðfest nánast samhljóða skuldaskjal stefnda sem gilt lán í erlendum gjaldmiðlum, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 524/2011. Stefnandi hafi ekki vísað til neinnar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands því til stuðnings að sambærilegir skilmálar hafi ekki talist kveða á um erlend lán. Af framangreindu leiði, að þó svo að í máli þessu verði fallist á það með stefnanda að um ólöglega gengistryggt lán sé að ræða, verði skilyrði nefnds fyrirvara ekki virk. Stefndi telji ljóst að ógilding veðskuldabréfs nr. 159136 geti ekki byggt á framangreindum fyrirvara með þeim hætti sem stefnandi byggi á og að sýkna beri stefnda af þessari kröfu stefnanda. Jafnframt telji stefndi að í fyrirvaranum sé, með tilvísun til betri réttar, átt við að leiði niðurstaða Hæstaréttar Íslands eða löggjafans til þess að eftirstöðvar lánsins skyldu lækka meira en samkvæmt því úrræði sem stefnandi hafi kosið, skyldu eftirstöðvar hins nýja skuldabréfs lækka sem því nemi. Fyrirvarinn leiði ekki til þess að unnt sé að fella úr gildi veðskuldabréf nr. 159136 og endurvekja hið umdeilda skuldabréf, sem þegar hafi verið aflýst af fasteign stefnanda. Krafa stefnanda um ógildingu veðskuldabréfs nr. 159136 sé að auki með beinum hætti tengd þeirri kröfu stefnanda að upphaflegir skilmálar hins umdeilda skuldabréfs muni taka gildi á ný, utan þeirra skilmála að skuldbindingin teljist í erlendum gjaldmiðli, þar með talið ákvæði um að skuldbindingin beri LIBOR-vexti. Stefndi byggi á því að slík niðurstaða fái ekki staðist með vísan til fordæma Hæstaréttar Íslands, til að mynda dóm réttarins í máli nr. 471/2010, sbr. nánari umfjöllun hér á eftir, og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Verði fallist á það með stefnanda að hin umdeilda lánsskuldbinding teljist hafa verið ólöglega gengistryggð verði að líta til þess að þá teljist skuldbinding stefnanda frá öndverðu hafa verið að öllu leyti í íslenskum krónum. Vaxtaákvæði skuldabréfsins sé hins vegar beinlínis háð því að lánsskuldbindingin sé í erlendum myntum, enda liggi fyrir að á millibankamarkaði í London hafa aldrei verið skráðir LIBOR-vextir af lánum í íslenskum krónum. Þannig séu bein og órjúfanleg tengsl á milli ákvæða skuldabréfsins um lán í erlendum myntum og ákvæða um LIBOR-vexti. Eins og Hæstiréttur Íslands hafi þegar slegið föstu í dómi í máli nr. 471/2010 sé ekki hægt að styðjast við slík ákvæði um vexti þegar skuldbinding teljist vera í íslenskum krónum. Í forsendum dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011 sé sérstaklega vísað í fyrrgreinda niðurstöðu og vísaði til þess að í forsendum dómsins, í máli nr. 471/2010, hafi komið fram að umsamin vaxtakjör af gengisbundnu láni hefðu ekki getað komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess, sem fyrir lægi að óheimilt hefði verið að kveða á um. Vegna þessa væri óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Í samningnum hafi hins vegar verið ákveðið að skuldin bæri vexti. Komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að um þá skyldi fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, það er, að skuldin skyldi bera óverðtryggða Seðlabankavexti. Hæstiréttur Íslands hafi enn fremur rakið að í forsendum dóms réttarins í máli nr. 604/2010, á milli sömu málsaðila og í máli nr. 600/2011, hafi berum orðum verið sagt að fyrrgreindur dómur réttarins hefði fordæmisgildi við úrlausn ágreinings aðilanna um vexti af skuldbindingum samkvæmt lánssamningum þeirra. Stefndi telji þannig ljóst, með vísan til framangreindra dóma Hæstaréttar Íslands, ákvæða 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 18. gr. sömu laga, sbr. og breytingalög nr. 151/2010, að lánsskuldbindingar skuli bera óverðtryggða Seðlabankavexti frá stofndegi kröfu, sé á annað borð um að ræða ólögmæta gengistryggingu. Málatilbúnaður stefnanda hvað þetta varði fái því ekki staðist, enda myndi sú niðurstaða leiða til þess að fjárhæð í íslenskum krónum bæri vaxtakjör, sem miðist við erlenda mynt, þvert á framangreinda niðurstöðu Hæstaréttar Íslands og ákvæði vaxtalaga.
Að framansögðu virtu mótmæli stefndi því að 36. gr. c í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga leiði til þess að ákvæði hins umdeilda skuldabréfs um LIBOR-vexti geti haldið gildi sínu þó svo að ákvæði bréfsins um að skuldbindingin sé í erlendum gjaldmiðlum verði felld úr gildi. Jafnvel þótt ákvæði samningalaga kunni að hafa áhrif á túlkun samnings aðila telji stefndi ljóst að framangreint ákvæði þeirra geti ekki haggað því að teljist lánsskuldbinding stefnanda samkvæmt skuldabréfinu ólöglega gengistryggð, verði að líta fram hjá ákvæðum skuldabréfsins um LIBOR-vexti. Bein og órjúfanleg tengsl séu á milli skilmála um að skuldbinding stefnanda sé í japönskum jenum og ákvæða um að skuldbindingin beri JPY LIBOR-vexti. Tilvísaður dómur Evrópudómstólsins í máli C-618/10 breyti engu þar um, enda aðstaðan þar allt önnur. Í því tilviki hafi önnur vaxtaákvæði verið um vexti á þá mynt sem skuldbindingin hafi verið í og þau hafi getað haldið gildi sínu þrátt fyrir að ákvæði um ósanngjarna dráttarvexti yrði vikið til hliðar. Hér sé aðstaðan sú að ákvæði skuldabréfsins um vexti geti ekki staðið áfram teljist skuldbindingin í íslenskum krónum. Líkt og fram komi í dómum Hæstaréttar Íslands standi þá eftir samningur sem kveði á um að skuldbinding beri vexti en ekki sé tiltekið hverjir þeir skuli vera og skuli þá fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Því fari fjarri að slík vaxtabreyting verði borin saman við þá sem fjallað sé um í fyrrnefndum dómi Evrópudómstólsins, auk þess sem fordæmið varði ekki ósanngirni tiltekinnar lagasetningar.
Auk þess sé ekki á því byggt í stefnu málsins að víkja beri til hliðar neinum ákvæðum skuldabréfsins á grundvelli ákvæða samningalaga nr. 7/1936, heldur byggi stefnandi einungis á því að tiltekin ákvæði skuldabréfsins gangi gegn 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Engin tenging sé því milli þessarar málsástæðu stefnanda og dómkrafna hans og því beri einnig af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Af dómkröfum stefnanda megi ráða að þess sé eingöngu krafist að 2. málsl. 5. gr. hins umdeilda skuldabréfs verði felldur úr gildi. Verði fallist á þessa dómkröfu stefnanda og hún tekin óbreytt upp í dómsorð verði afleiðingin sú að eftir standi skuldabréf sem kveði á um að stefnandi viðurkenni að skulda stefnda 19.434.629 japönsk jen, greiðslur af skuldabréfinu skuli inna af hendi í íslenskum krónum, en felld hafi verið niður skýringin á því hvernig afborgun í japönskum jenum sé umreiknuð í íslenskar krónur. Sú kröfugerð stefnanda fáist því vart staðist, enda sé engin reikningsaðferð orðuð sem koma skuli í stað þeirrar sem komi fram í skilmálum bréfsins. Hagsmunir stefnanda af brottfalli þessara skilmála séu órökstuddir með öllu.
Að framangreindu virtu telji stefndi að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda.
Að lokum telji stefndi að varamálsástæða stefnanda fái ekki staðist. Stefnandi byggi varamálsástæðu sína á því að verði fallist á það með stefnda að um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða teljist það andstætt góðri viðskiptavenju, sbr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, að innheimta lánsfjárhæðina, 19.434.629 japönsk jen. Stefndi hafi þegar gefið eftir umtalsverðan hluta skuldarinnar, umfram skyldu, sbr. umsókn um höfuðstólslækkun, sem fjallað sé um hér að framan. Auk þess sé það alrangt sem stefnandi haldi fram að stefndi hafi ekki lagt út japönsk jen, sbr. framangreinda umfjöllun og framlagða kaupnótu skuldabréfsins. Stefndi telji jafnframt ljóst að það geti ekki talist andstætt góðri viðskiptavenju að innheimta gilda lánsskuldbindingu í erlendum gjaldmiðli enda hafi Hæstiréttur Íslands sérstaklega vísað til þess að slík skuldbinding sé gild og brjóti ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi vísi einnig til fyrri umfjöllunar um meginreglu íslensks réttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir og yrði fallist á það með stefnda að lánið sé gilt lán í erlendum gjaldmiðli, hafi stefnandi ekki sýnt fram á að skuldbinding samkvæmt hinu umdeilda skuldabréfi fari í bága við ófrávíkjanlegar reglur í settum lögum. Þar af leiðandi beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda, einnig á grundvelli varamálsástæðu hans.
Um lagarök vísar stefndi einkum til meginreglna fjármuna- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga og réttar efndir fjárskuldbindinga. Stefndi vísar einnig til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, til viðskiptabréfareglna og til 13. gr. d í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laganna.
Kröfu sína um virðisaukaskatt byggir stefndi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
V
Í fyrri kröfulið dómkrafna stefnanda krefst hann þess að viðurkennt verði með dómi að veðskuldabréf nr. 519074, dagsett 11. mars 2005, milli stefnanda og forvera stefnda, hafi verið um lán í íslenskum krónum, bundið ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001. Skuld samkvæmt veðskuldabréfinu var gerð upp 7. nóvember 2011.
Með 3. gr. laga nr. 151/2010, um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sem tóku gildi 28. desember 2010, var sett inn í síðarnefnd lög ákvæði X til bráðabirgða. Í ákvæðinu er kveðið á um að hafi húsnæðislán til neytenda verið greitt út í íslenskum krónum eða sé umbreyting úr erlendum myntum hluti viðkomandi lánssamnings, en endurgreiðsla skuldarinnar miðist að einhverju leyti við gengi erlendra gjaldmiðla, fari um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmála skuldbindingarinnar eftir því sem greini í 18. gr. laganna.
Framangreint veðskuldabréf nr. 519074 var gefið út af stefnanda vegna húsnæðisláns, eins og fyrirsögn bréfsins ber með sér og óumdeilt er í málinu. Stefnandi var neytandi í þessu samningssambandi og óumdeilt er að lánið var greitt út til hans í íslenskum krónum. Þá miðaðist endurgreiðsla skuldarinnar að einhverju leyti við gengi erlendra gjaldmiðla. Af orðalagi bráðabirgðaákvæðis X liggur ljóst fyrir að um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmála skuldbindingar, samkvæmt veðskuldabréfinu, skyldi fara eftir 18. gr. laga nr. 38/2001, eins og henni var breytt með framangreindum lögum nr. 151/2010. Af skýru orðalagi ákvæðis X liggur einnig ljóst fyrir að aðilar höfðu ekki um þetta val og er í ákvæðinu jafnframt kveðið á um að lánveitanda, stefnda, bar að hafa frumkvæði að uppgjöri vegna lánsins, sem skyldi fara fram innan 90 daga frá gildistöku laganna.
Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps að lögum nr. 151/2010, sem varð að bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001, kemur fram að „þúsundir samninga“ hafi þá verið í uppnámi og þörf hafi verið á „skýrum línum varðandi uppgjör og úrvinnslu“. Enn hafi þá verið til meðferðar hjá dómstólum fjöldi mála varðandi álitamál um það hvaða form lánsskilmála teldust fela í sér ólögmæta gengistryggingu. Þá segir að með bráðabirgðaákvæði X sé lagt til, hvað varði húsnæðislán til neytenda, að ekki skuli skipta máli með hvaða hætti gengið hafi verið frá gerð skjala eða peningamillifærslum í tengslum við viðskiptin. Til að mynda eigi ekki að skipta máli hvort lán hafi verið veitt í formi veðskuldabréfs eða með lánssamningi. Ákvæðinu sé ætlað að ná til beggja samningsforma. Aðalatriðið sé hvort lán hafi farið til húsnæðiskaupa. Þá segir að ljóst sé að gengistryggð eða erlend lán til húsnæðiskaupa hafi verið kynnt sem eina og sama þjónustan og að almenningur hafi ekki haft tök á að hlutast til um gerð lánsskilmála. Fjölmörg dæmi séu um að þeir sem hafi farið inn í bankana í nákvæmlega sömu erindagjörðum, og í raun fengið sömu skilmála, eigi á hættu að vera flokkaðir annars vegar með gild erlend lán og hins vegar með lán með ógildri gengistryggingu. Enn fremur segir að málefnaleg rök séu fyrir því að jafna hlut þeirra einstaklinga sem hafi tekið lán í nákvæmlega sama tilgangi og hafi enga möguleika átt á því að verja sig né bregðast við þeirri gríðarlegu veikingu krónunnar sem hafi orðið síðustu tvö til þrjú árin. Þetta sé stórfellt almannaheillamál og „veigamikil jafnræðisrök“. Allt öðru máli gegni um þá sem hafi tekið lán í öðrum og fjölbreyttari tilgangi.
Framangreindar athugasemdir frumvarpsins taka af öll tvímæli um það að með bráðabirgðaákvæði X var lögfest að eins skyldi fara um húsnæðislán til neytenda hvort heldur þau teldust til lögmætra lána í erlendum gjaldmiðlum eða til lána í íslenskum krónum bundnum við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Stefnda er því ekki heimilt að gera greinarmun þar á milli. Að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins skal fara um uppgjör þessara lána, vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmála skuldbindinga, eftir 18. gr. laga nr. 38/2001.
Ágreiningur aðila þessa máls lýtur að uppgjöri og framtíðarskilmálum skuldbindingar sem fellur undir bráðabirgðaákvæði X og því lögbundið hvernig um hana skuli fara. Af skýru orðalagi ákvæðisins og athugasemdum við 3. gr. frumvarps að lögum nr. 151/2010 verður ekki séð að stefnandi hafi af því lögvarða hagsmuni að fá úr því skorið hvort lánið hafi verið íslenskt lán bundið gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti eða lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum. Endurútreikningur skuldbindingarinnar fer, hvort heldur sem er, eftir ákvæðum 18. gr. laga nr. 38/2001. Hvað varðar uppgjör á grundvelli þess endurútreiknings hefur stefnandi ekki vísað til réttarheimilda um að öðruvísi fari um slíkt uppgjör eftir því hvort lán hafi verið lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti, svo sem varðandi sjónarmið um gildi fullnaðarkvittana. Þá er hvorki gerð krafa um það í málinu né á því byggt að fyrir hendi sé fjárkrafa á hendur stefnda sem grundvallist á því að lánið hafi verið í íslenskum krónum en ekki japönskum jenum, enda verður ekki séð að það geti skipt máli varðandi mögulega endurkröfu stefnanda á hendur stefnda vegna uppgjörs á veðskuldabréfinu nr. 519074. Þar af leiðandi hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi af því lögvarða hagsmuni að fá það viðurkennt með dómi að lán samkvæmt veðskuldabréfi nr. 519074 hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001.
Í síðari kröfulið dómkrafna stefnanda krefst hann þess að dómurinn felli úr gildi gildandi veðskuldabréf, nr. 159136, útgefið 7. nóvember 2011, og viðurkenni að upphaflegir skilmálar skuldarbréfs nr. 519074 gildi um lánssamningssamband aðilanna, að undanskildum skilmálum um gengistryggingu lánsins, sbr. 2. málsl. 5. gr. skuldabréfsins. Eins og að framan greinir var það lögfest með bráðabirgðaákvæði X í lögum nr. 38/2001, að um uppgjör og framtíðarskilmála skuldbindinga, eins og þeirrar sem kveðið var á um í veðskuldabréfi nr. 519074, skyldi fara eftir því sem greinir í 18. gr. laganna. Ákvæði 18. gr. og ákvæði X í lögum nr. 38/2001, eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010, eru skýr og afdráttarlaus um það að stefnda bar að hafa frumkvæði að uppgjöri vegna veðskuldabréfsins innan 90 daga frá gildistöku laga nr. 151/2010. Aðilar höfðu því ekki frjálst val þar um, þrátt fyrir að geta ráðstafað skuldbindingum sín á milli, að öðru leyti en mælt er fyrir um í framangreindum ákvæðum.
Í þessu máli var veðskuldabréfið, nr. 519074, gert upp og nýtt gefið út. Þar með var skuldbinding stefnanda á grundvelli bréfsins, nr. 519074, niður fallin og lögskiptum aðila á grundvelli þess lokið. Þrátt fyrir að málatilbúnaður aðila beri með sér að uppgjör á láni samkvæmt veðskuldabréfi nr. 519074 hafi ekki verið í fullkomnu samræmi við skýr fyrirmæli laga, haggar það eitt ekki gildi veðskuldabréfs nr. 159136 að það hafi verið gefið út til að afla fjármuna í því skyni að efna kröfu á grundvelli þess uppgjörs. Meira þarf að koma til og verður í því sambandi einkum litið til þess sem ætla má um vitneskju samningsaðila um atvik, stöðu þeirra við samningsgerðina og efni samningsins. Í þessu máli liggur fyrir að við samningsgerðina vissu báðir samningsaðilar að vafi væri um réttmæti uppgjörs samkvæmt eldra bréfi og að síðar kynni að koma til viðbótarkröfu á grundvelli þess. Hins vegar hefur ekki verið sýnt fram á annað en að veðskuldabréfið, nr. 159136, hafi verið gefið út með lögformlega réttum hætti auk þess sem það liggur fyrir að stefnandi skuldar stefnanda enn að minnsta kosti hluta þeirrar fjárhæðar sem bréfinu er ætlað að tryggja greiðslu á. Möguleg endurkrafa stefnanda á hendur stefnda vegna fyrrgreinds uppgjörs haggar því ekki gildi veðskuldabréfs nr. 159136 og hefur stefnandi ekki sýnt fram á að önnur atvik leiði til ógildingar bréfsins samkvæmt ákvæðum samningalaga nr. 7/1936. Telur dómurinn þar af leiðandi ekki forsendur til þess að fella bréfið úr gildi í heild sinni, eins og krafa stefnanda hljóðar um og verður stefndi sýknaður af þeirri kröfu.
Krafa stefnanda um að dómurinn viðurkenni gildi upphaflegra skilmála veðskuldabréfs nr. 519074 gildi um lánssamningssamband aðilanna er hluti af framangreindri kröfu um að veðskuldabréf nr. 159136 verði fellt úr gildi. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á, á hvaða grundvelli dómurinn geti endurvakið skilmála uppgreidds skuldabréfs og kveðið á um gildi þeirra um lán samkvæmt öðru skuldabréfi. Í þessu máli háttar ekki svo til, sem stefnandi byggir á, að aðeins tilteknir skilmálar eldra bréfs hafi verið ógildir en aðrir látnir halda gildi sínu. Bréfið var að öllu leyti gert upp og nýtt gefið út, samkvæmt samkomulagi aðila málsins. Fyrirvari stefnanda við uppgjörið kveður á um mögulegan betri rétt stefnanda við uppgjör á eldra skuldabréfi en breytir engu um gildi þess eða hins nýja, gildandi veðskuldabréfs. Jafnframt er fallist á það með stefnda að kröfugerð stefnanda, hvað varðar kröfu um viðurkenningu á því að upphaflegir skilmálar skuldabréfs nr. 519074 gildi um lánssamningssamband aðilanna, að undnaskildum skilmálum um gengistryggingu lánsins, sbr. 2. málsl. 5. gr. skuldabréfsins, sé um margt óljós. Meðal annars voru gerðar fjórar skilmálabreytingar á skuldabréfinu áður en það var gert upp en stefnandi krefst þess að „upphaflegir skilmálar“ skuldabréfsins gildi um lán hans hjá stefnda. Fyrsta skilmálabreytingin fól meðal annars í sér breytingu á veðandlagi veðskuldabréfsins og var veði samkvæmt bréfinu þá aflétt af fasteigninni að Sæviðarsundi 27, Reykjavík, með fastanúmer 201-8635. Ekki er ljóst af kröfugerð stefnanda eða málatilbúnaði hans hvort ætlast sé til þess að dómurinn kveði á um gildi upphaflegra skilmála skuldabréfsins hvað þetta varðar.
Þrátt fyrir orðalag síðari kröfuliðs dómkrafna stefnanda byggir hann jafnframt á því að lánssamningi aðila samkvæmt veðskuldabréfi nr. 159136 verði vikið til hliðar í heild og að lánssamningi aðila samkvæmt veðskuldabréfi nr. 519074 verði vikið til hliðar að hluta. Í ljósi alls þess sem að framan hefur verið rakið verður ekki talið að stefnandi hafi sýnt fram á að þau skilyrði séu fyrir hendi að unnt sé að víkja skilmálum gildandi skuldabréfs nr. 159136 til hliðar í heild sinni. Þá er ljóst að ekki er unnt að víkja til hliðar að hluta skilmálum bréfs sem gert hefur verið upp að fullu og er því ekki lengur í gildi.
Að öllu framangreindu virtu verður stefndi sýknaður af síðari kröfulið dómkrafna stefnanda.
Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið verður ekki séð að úrslit þess hvort veðskuldabréf nr. 519074, hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, hafi bein áhrif á réttarstöðu stefnanda, á þann hátt sem hér er haldið fram af hans hálfu. Samkvæmt því og með vísan til 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður að vísa þeirri kröfu stefnanda frá dómi, án kröfu.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Kröfu stefnanda, Elíasar Víðissonar, um viðurkenningu á því að veðskuldabréf nr. 519074, útgefið 11. mars 2005, hafi verið bundið ólögmætri gengistryggingu samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, er vísað frá dómi, án kröfu.
Stefndi, Íslandsbanki hf., er að öðru leyti sýkn af kröfum stefnanda í málinu.
Málskostnaður fellur niður.