Hæstiréttur íslands
Mál nr. 455/2017
Lykilorð
- Þjónustukaup
- Galli
- Riftun
- Afsláttur
- Sératkvæði
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Jón Finnbjörnsson landsréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2017. Þau krefjast þess aðallega að staðfest verði riftun 22. janúar 2016 á samningi aðila um smíði á gestahúsi og stefnda gert að endurgreiða þeim 970.000 krónur sem þau hafi þegar greitt á grundvelli samningsins. Til vara krefjast þau afsláttar að fjárhæð 2.104.580 krónur af reikningi sem stefndi gaf út 2. ágúst 2015 og „dóms um skyldu stefnda til að endurgreiða þeim það sem þau hafa ofgreitt með tilliti til dæmds afsláttar.“ Að því frágengnu krefjast þau lækkunar á framangreindum reikningi stefnda. Að því er varðar gagnsök sem höfð var uppi í héraði krefjast áfrýjendur sýknu af kröfu stefnda. Í öllum tilvikum krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Atvikum málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar er nánar rakið sömdu aðilar munnlega um að stefndi smíðaði fyrir áfrýjendur smáhýsi undir 15 fermetrum að stærð sem ekki þyrfti byggingarleyfi fyrir. Af gögnum málsins verður ráðið að svo hafi samist um með aðilum að Guðmundur Bjarni Daníelsson, starfsmaður stefnda og kunningi áfrýjenda, byggði húsið á sumarbústaðarlóð sinni í Borgarfirði, þar skyldi það afhent áfrýjendum, þau annast flutning þess þaðan á sumarbústaðarlóð sína í Dalabyggð og sjá sjálf um uppsetningu þess á lóðinni og endanlegan frágang. Lagði stefndi til vinnu við smíðina og efni að hluta. Samkvæmt þessu giltu lög nr. 42/2000 um þjónustukaup um samning aðila, sbr. 1. gr. laganna.
Samkvæmt 4. gr. fyrrgreindra laga skal útseld þjónusta sem veitt er í atvinnuskyni ávallt vera byggð á fagþekkingu og í samræmi við góða viðskiptahætti sem tíðkast hverju sinni. Í lögskýringargögnum kemur fram að með þessu sé ekki átt við að óheimilt sé að gera samning um að verk sé unnið þar sem gerðar eru minni gæða- og/eða verðkröfur. Það hvað sé fagþekking miðist við aðstæður hverju sinni en hafi mikla almenna þýðingu við mat á því hvernig til hafi tekist við framkvæmd verks og hvort seld þjónusta sé gölluð eða ekki. Fallist er á með héraðsdómi að áfrýjendur hafi vitað eða mátt vita að sá starfsmaður stefnda, sem annaðist smíðina, væri ekki menntaður húsasmiður og að hann hafi ekki villt á sér heimildir í þeim efnum. Að teknu tilliti til þessa og að því gættu að samningur aðila gekk út á smíði smáhýsis, sem samkvæmt þágildandi grein 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 var undanþegið byggingarleyfi, gátu áfrýjendur ekki gert sömu kröfur varðandi gæði og eiginleika smáhýsisins og gerðar eru til byggingar heilsárshúss, en á því eru dómkröfur þeirra reistar. Með þessum athugasemdum verður með vísan til forsendna staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, að smáhýsi það sem stefndi smíðaði fyrir áfrýjendur hafi ekki verið gallað í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 42/2000. Eru hvorki skilyrði samkvæmt 14. grein sömu laga til að fallast á aðalkröfu áfrýjenda um staðfestingu riftunar né varakröfu þeirra um afslátt samkvæmt 13. gr. laganna. Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að ekki var samið um fast verð fyrir smíði hússins og verður niðurstaða héraðsdóms, um skyldu áfrýjenda til greiðslu reiknings stefnda 2. ágúst 2015, staðfest með vísan til forsendna hans.
Áfrýjendur greiði óskipt stefnda málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjendur, Haraldur Guðjónsson og Þórunn M. Ólafsdóttir, greiði óskipt stefnda, Borg 13 ehf., samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Jóns Finnbjörnssonar
Stefndi tók að sér að smíða hús fyrir áfrýjendur. Aðilar virðast hafa verið sammála um að kalla húsið gestahús. Óumdeilt er að það áttu að vera svefnstæði í húsinu. En það skyldi vera minna en 15 fermetrar að stærð svo ekki þyrfti að afla byggingarleyfis samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 með síðari breytingum. Að sönnu er ósamrýmanlegt að ætla sér að byggja mannabústað án þess að afla byggingarleyfis, en önnur ályktun verður ekki dregin af atvikum. Ég er ekki sammála þeirri fyllingu meirihluta dómenda á samningi aðila að í honum hafi falist að byggt skyldi „smáhýsi“ í skilningi þágildandi greinar 2.3.5 í byggingarreglugerð. Ekkert bendir til þess að ætlunin hafi verið að byggja smáhýsi „til geymslu garðáhalda o.þ.h.“ eins og segir í ákvæðinu. Þótt aðilar hafi ekki viljað afla byggingarleyfis verður ekki af því dregin ályktun um hvernig þeir vildu að húsið yrði gert.
Vegna þessa er ég einnig ósammála því áliti meirihlutans að áfrýjendur hafi ekki getað gert kröfur til byggingar hússins eins og um heilsárshús væri að ræða. Byggt skyldi hús sem yrði fullboðlegt sem svefnstaður. Um skyldur stefnda við byggingu hússins gildir 4. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Þótt aðilar hafi vísvitandi viljað sniðganga reglur byggingarreglugerðar um leyfi til húsbyggingar, verður eins og áður segir ekki af því dregin ályktun um hvaða kröfur þeir vildu gera til hússins. Þá getur ekki haft sérstaka þýðingu að áfrýjendur máttu reikna með að smíðin yrði að mestu unnin af manni, sem ekki er faglærður. Báðir aðilar byggja á því að stefndi, sem er einkahlutafélag, hafi tekið að sér að vinna verkið.
Undir rekstri málsins í héraði var dómkvaddur matsmaður til að meta galla sem áfrýjendur telja vera á smíði hússins. Meginatriði matsgerðar eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Er þar lýst annars vegar ágöllum á smíðinni eins og stefndi lauk við hana, hins vegar hverju var ólokið. Tel ég að ekki sé sýnt fram á svo verulega galla á verki því sem lokið var að riftun samkvæmt 14. gr. laga nr. 42/2000 hafi verið heimil.
Ég er sammála meirihluta dómsins um réttmæti reiknings stefnda. Hins vegar tel ég að með matsgerðinni hafi verið sýnt fram á galla á verki stefnda. Vegna þessara galla tel ég að viðurkenna beri rétt áfrýjenda til afsláttar samkvæmt 13. gr. laga nr. 42/2000. Miða yrði afsláttinn við galla á því verki sem var lokið og krafið um greiðslu fyrir. Þar sem meirihluti dómsins er á öðru máli þarf ekki að fjalla nánar um útreikning afsláttar.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. maí 2017.
Mál þetta var þingfest 23. mars 2016 og tekið til dóms 23. mars 2017. Aðalstefnendur eru Haraldur Guðjónsson og Þórunn M. Ólafsdóttir, Langholtsvegi 34, Reykjavík, en aðalstefndi er Borg ehf., Tjarnarbakka 1, Reykjanesbæ. Gagnstefna Borgar ehf. á hendur gagnstefndu Haraldi og Þórunni var þingfest 4. maí 2016.
Aðalstefnendur gera þær dómkröfur að staðfest verði með dómi riftun 22. janúar 2016 á samningi aðila um smíði á gestahúsi og að aðalstefndi verði dæmdur til að endurgreiða aðalstefnendum 900.000 krónur sem þau hafa greitt vegna verksins og 70.000 krónur sem þau hafa greitt vegna glugga og parkets. Til vara krefjast aðalstefnendur afsláttar að fjárhæð 2.104.580 krónur af reikningi sem aðalstefndi gaf út 2. ágúst 2015. Krafist er dóms um skyldu aðalstefnda til að endurgreiða aðalstefnendum það sem þau hafa ofgreitt með tilliti til dæmds afsláttar. Til þrautavara er krafist lækkunar á framangreindum reikningi aðalstefnda. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi aðalstefnda.
Gagnstefnandi krefst þess að gagnstefndu verði dæmd in solidum til að greiða gagnstefnanda skuld að fjárhæð 1.204.580 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. ágúst 2015 til greiðsludags. Þá krefst gagnstefnandi málskostnaðar úr hendi gagnstefndu.
Gagnstefndu krefjast aðallega sýknu í gagnsök og til vara lækkunar á kröfum gagnstefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi gagnstefndu.
Málavextir
Málavextir eru þeir að aðalstefnendur fengu kunningja sinn, Guðmund Bjarna Daníelsson, sem jafnframt er annar eigandi gagnstefnanda, til að byggja fyrir sig gestahús sem sett yrði upp við sumarbústað aðalstefnenda að Neðra-Brekkulandi í Dalabyggð. Ákveðið var að húsið yrði byggt á sumarbústaðarlóð Guðmundar Bjarna í Borgarfirði. Þegar smíði hússins lauk 26. júní 2015 var húsið flutt vestur í Dalabyggð. Aðalstefnendur segja að þau hafi strax lýst yfir miklum vonbrigðum með húsið.
Húsið flokkast undir svokallað smáhýsi, sbr. g-lið greinar 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem þá gilti með áorðnum breytingum. Húsið er um 15 fm og telst minniháttar framkvæmd sem er undanþegin byggingarleyfi. Samkvæmt reglugerðinni er slíkum smáhýsum ætlað að uppfylla ákveðin skilyrði, m.a. að vera án vatnslagna, raflagna og hitunar og vera notuð fyrir garðáhöld o.þ.h. Húsinu var einnig ætlað að vera gestahús og var því skipt í tvo hluta, annars vegar undir gestahús og hins vegar undir geymslu. Gestahúsið var þiljað að innan með viðarpanel á veggjum og loftplötum en gólf var lagt með parketi. Geymslan er í minna rými með spónaplötum á gólfi en veggir og loft ekki þiljað.
Aðalstefnendur töldu að húsið uppfyllti ekki lágmarkskröfur um gæði og leituðu til skipulags- og byggingarfulltrúa sem gerði athugasemdir við ástand og frágang hússins. Aðalstefnandi Haraldur sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að á þessum tíma hafi Guðmundur Bjarni sagt honum að hann væri að fara að byggja gestahús á sinni sumarbústaðarlóð í Borgarfirði. Guðmundur Bjarni hafi boðist til að byggja fyrir hann eitt slíkt í leiðinni og gæti verið hagræði af því við kaup á efni. Aðalstefnandi Haraldur sagði að ekki hafi verið rætt um ákvæði byggingarreglugerðar í þessu sambandi en fyrir hafi legið hver yrði stærð hússins og það yrði nýtt sem gestahús. Haraldi var kunnugt um að ekki þyrfti að afla byggingarleyfis fyrir hús sem voru undir 15 fm að stærð. Hann kvaðst hafa treyst Guðmundi Bjarna alfarið fyrir verkinu. Rætt hafi verið um að kostnaður við húsið yrði um 1.200.000-1.300.000 krónur.
Gagnstefnandi segir að bygging hússins hafi að öllu leyti farið fram að óskum aðalstefnenda hvað útlit, efnisval og innréttingar varðar. Aldrei hafi verið rætt um hvað húsið myndi kosta. Aðalstefnendur hafi átt frumkvæði að því að biðja gagnstefnanda um að byggja fyrir sig gestahús til að nota við sumarbústað sinn. Til hagræðis fyrir aðalstefnendur hafi verið ákveðið að byggja húsið í Borgarfirði. Þannig hafi verið einfaldara að flytja húsið á endanlegan áfangastað og auðvelt fyrir aðalstefnendur að fylgjast með framgangi mála við byggingu hússins þegar þau áttu leið um á leið sinni í sumarhús sitt í Dalabyggð. Þau hafi oft komið við og þannig fylgst með framkvæmdunum. Guðmundur Bjarni kvaðst hafa unnið mest við húsið en einnig hafi synir hans komið að verkinu. Enginn af þeim sé húsasmiður en hann hafi unnið við smíðar um 15 ára skeið. Engar teikningar hafi legið fyrir við smíðina, enda um að ræða ,,smáhýsi á lóð“ samkvæmt grein 2.3.5, g-lið, í byggingarreglugerð frá 24. janúar 2012, sem teljist vera minni háttar framkvæmd sem sé undanþegin byggingarleyfi. Alþekkt sé þó að hús sem þessi séu nýtt sem gestahús við sumarbústaði. Þar sem ekki þurfi byggingarleyfi fyrir slíkum húsum þurfi ekki að skila inn teikningum af þeim til byggingarfulltrúa, né láta hann gera á þeim úttekt. Aðilar hafi í upphafi rætt um að húsið yrði innan við 15 fm að stærð til þess að falla undir skilgreiningu reglugerðarinnar um smáhýsi. Aðalstefnendur hafi tekið við húsinu í Borgarfirði og flutt það í Dalabyggð. Þá hafi byggingu þess ekki verið að öllu leyti lokið. Eðli máls samkvæmt, þar sem húsið hafi verið híft á vörubílspall, hafi verið beðið með ýmsan frágang, svo sem á þakkanti, rennum og áfellum. Efniviður hafi verið kominn sem nota hafi átt til þess að smíða kojur í húsið en aðalstefnendur hafi ákveðið að það yrði látið bíða þar sem þau vildu flytja húsið þá þegar vestur. Guðmundur Bjarni kvaðst ekki hafa séð um frágang hússins þegar það var komið á áfangastað og því erfitt að ætla honum skyldur við frágang þess eins og t.d. hvernig því var komið fyrir eða það fest niður á lóð aðalstefnenda. Aðalstefnendur hafi aldrei á byggingartíma hússins gert athugasemd við nokkuð sem tengdist byggingu þess, þrátt fyrir að hafa margsinnis komið og tekið út verkið. Við móttöku hússins hafi þau heldur engar athugasemdir gert, heldur þvert á móti lýst ánægju með hvernig til hefði tekist. Engar athugasemdir hafi komið fram af hálfu aðalstefnenda varðandi byggingu hússins, ekki fyrr en gagnstefnandi hafi viljað fá greitt fyrir vinnu sína.
Málsástæður aðalstefnenda í aðalsök
Aðalstefnendur telja að þjónusta gagnstefnanda hafi verið gölluð þar sem hún standist ekki kröfur 4. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Þjónusta gagnstefnanda hafi ekki verið byggð á fagþekkingu og ekki í samræmi við góða viðskiptahætti. Með hliðsjón af úttekt byggingarfulltrúa sé ljóst að húsið hafi ekki verið byggt í samræmi við fagþekkingu. Engin öndun sé í húsinu og loftleysi slíkt að ekki sé hægt að sofa í því. Þar fyrir utan sé ekki hægt að setja upp kojur. Þá geti húsið fokið þar sem ekki sé nægilega gengið frá undirstöðum.
Riftunarkröfu sína byggja aðalstefnendur á 14. gr. laga um þjónustukaup og kröfu sína um endurgreiðslu á 900.000 krónum byggja þau á 22. gr. laganna. Þá krefjast þau jafnframt endurgreiðslu á 70.000 krónum sem þau hafi greitt vegna parkets og glugga í gestahúsið.
Afsláttarkrafa aðalstefnenda sé byggð á 13. gr. laga um þjónustukaup en verði ekki fallist á framangreindar kröfur aðalstefnenda er þess krafist að kröfur gagnstefnanda verði lækkaðar þar sem vinnustundafjöldi í reikningi sé bersýnilega of mikill.
Verði talið að smíði gagnstefnanda verði ekki talin falla undir þjónustukaup er byggt á almennum reglum kröfuréttarins.
Málsástæður gagnstefnanda í aðalsök og gagnsök
Gagnstefnandi kveður skuld aðalstefnenda við sig vera vegna viðskipta aðalstefnenda við gagnstefnanda um smíði á gestahúsi. Krafan byggist á reikningi að fjárhæð 2.104.580 krónur. Að teknu tilliti til innborgana aðalstefnenda að fjárhæð 900.000 krónur nemi skuld þeirra 1.204.580 krónum sem sé stefnufjárhæðin í máli þessu auk dráttarvaxta og kostnaðar.
Kröfu sína um riftun byggi aðalstefnendur á riftunaryfirlýsingu sem send hafi verið gagnstefnanda 22. janúar 2016, rúmum sjö mánuðum eftir afhendingu hússins. Riftunina hafi aðalstefnendur byggt á 32. gr. laga um neytendakaup, þrátt fyrir að sérstaklega sé tilgreint í b-lið 2. mgr. 2. gr. laganna að þau gildi ekki um samninga um að reisa byggingar eða önnur mannvirki á fasteign. Samkvæmt reikningnum sé ljóst að báðir þessir liðir 2. mgr. 2. gr. laga um neytendakaup eigi við í þessu máli og því ekki hægt að taka mark á riftunaryfirlýsingunni eða byggja á henni frekari rétt. Gagnstefnandi lítur svo á að formleg krafa um riftun hafi fyrst komið fram með stefnu aðalstefnenda. Þar sé því haldið fram í stefnu að þjónusta gagnstefnanda hafi verið haldin slíkum göllum að aðalstefnendur geti samkvæmt 14. gr. laga um þjónustukaup rift samningi aðila. Þá sé krafist endurgreiðslu þess fjár sem þau hafi greitt fyrir vinnu gagnstefnanda, auk endurgreiðslu á útlögðu fé vegna kaupa þeirra á parketi og glugga. Einu rökin sem vitnað sé til fyrir kröfum aðalstefnenda sé einhvers konar skoðun sem aðalstefnendur virðast hafa fengið skipulags- og byggingarfulltrúa Dala, A-Barðastrandasýslu, Árnes- og Kaldrananeshrepps til að gera á gestahúsinu.
Til vara við aðalkröfu sína setji aðalstefnendur fram þá kröfu að þeim verði veittur afsláttur af reikningi gagnstefnanda að fjárhæð 2.104.580 krónur. Ekki verði annað ráðið af þessari kröfu en að hún gangi lengra en riftunarkrafan en engin tilraun hafi verið gerð af hálfu aðalstefnenda að láta meta hinn ætlaða galla á vinnu gagnstefnanda. Þrátt fyrir það haldi aðalstefnendur því blákalt fram að gallinn á vinnu gagnstefnanda sé svo mikill að ekki sé ,,óvarlegt að ætla að afsláttur nemi kaupum á nýju gestahúsi“. Af þessu megi ljóst vera að aðalstefnendum sé þó ljóst að kostnaður við byggingu á nýju gesthúsi nemi a.m.k. 2.104.580 krónum.
Til þrautavara geri aðalstefnendur þá kröfu að reikningur gagnstefnanda verði lækkaður þar sem vinnustundir séu oftaldar og tímagjaldið mun hærra en stefndi hafði notað gagnvart þeim hingað til. Ekkert komi fram í stefnunni um hvert tímagjaldið hafði verið „hingað til“ né hvaða vinnu gagnstefnandi hafði unnið fyrir aðalstefnendur. Hvað tímagjaldið áhrærir hafi ekki verið samið um það sérstaklega milli aðila. Í samræmi við 28. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000 hafi tímagjaldið verið ákveðið með hliðsjón af því sem gengur og gerist á markaði fyrir vinnu við trésmíðar. Ekki hafi sérstaklega verið horft til þess að vinnan hafi farið fram á stað sem hafi verið hentugur fyrir aðalstefnendur, né til þess að gagnstefnandi hafi útvegað öll tæki og tól til smíðanna auk þess að sjá að mestu um efniskaup og flutning á efni á byggingarstað.
Vísað er til laga um þjónustukaup nr. 42/2000 og meginreglna samninga- og kröfuréttarins um loforð og efndir fjárskuldbindinga en reglur þessar fá m.a. lagastoð í 45., 46. og 47. gr. laga nr. 50/2000. Um gjalddaga kröfunnar er einkum vísað til meginreglu 48. og 49. gr. sömu laga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum númer 50/1988. Varðandi varnarþing vísast til 42. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður aðalstefnenda í gagnsök
Aðalstefnendur byggja sýknukröfu sína einkum á því að samningi aðila hafi formlega verið rift þann 22. janúar 2016 með yfirlýsingu þar um en allt frá afhendingu hússins til þess dags hafi átt sér stað viðræður á milli aðila þar sem gagnstefnandi hafi ítrekað lofað að taka húsið til baka en hætt svo ávallt við. Þar sem samningi hafi verið rift beri þeim ekki að greiða eftirstöðvar útgefins reiknings en séu tilbúin til að skila húsinu og þiggja endurgreiðslu á þeirri fjárhæð sem þau þegar hafa greitt gagnstefnanda.
Gagnstefnandi byggi á því að riftunaryfirlýsing aðalstefnenda þann 22. janúar 2016 hafi ekkert gildi og ekki sé mark á henni takandi þar sem vísað sé til neytendakaupalaga í yfirlýsingunni en ekki til þjónustukaupalaga. Gagnstefnanda hafi hins vegar ekki getað dulist hvers verið var að krefjast riftunar á og af hvaða ástæðu. Með engu móti sé hægt að fallast á að lagatilvísun ein geti gert yfirlýsinguna að markleysu. Í því sambandi megi benda á að ekki séu gerðar neinar sérstakar form- eða efniskröfur til yfirlýsingar sem þessarar þótt gera megi væntanlega þá kröfu að viðtakanda sé ljóst að um riftun sé að ræða og hverju sé verið að rifta. Byggt sé á því að riftunaryfirlýsing grundvallist á 14. gr. laga um þjónustukaup nr. 42/2000.
Bent er á að óskað hafi verið eftir áliti byggingarfulltrúa á eigninni. Á vottorði hans séu listaðar upp athugasemdir og gallar sem hann taldi vera á húsinu. Sú fullyrðing aðalstefnenda um að húsið sé ekki byggt í samræmi við fagþekkingu byggist einfaldlega á athugasemdum byggingarfulltrúa. Það að húsið sé beinlínis slysagildra byggist á því að festingar séu ófullnægjandi þannig að húsið gæti einfaldlega fokið.
Til vara krefjast aðalstefnendur sýknu eða lækkunar á dómkröfu með vísan til þess að þau eigi rétt til afsláttar vegna galla á téðu húsi.
Til þrautavara sé krafist lækkunar á dómkröfum gagnstefnanda. Gagnstefnandi hafi aldrei gefið út nótu fyrir þeim verkefnum sem hann hafi unnið fyrir aðalstefnendur og því erfitt fyrir þau að sýna fram á þá fjárhæð sem hann hafi innheimt hingað til.
Matsgerð
Undir rekstri málsins öfluðu aðalstefnendur matsgerðar. Í matsgerð Hjalta Sigmundssonar, byggingartæknifræðings og húsasmíðameistara, dagsettri í október 2016, segir í niðurstöðum:
„Niðurstaða matsmanns
1.
Hönnun og smíði hússins er á ýmsan hátt ófullnægjandi og ófagleg. Reglum og stöðlum virðist almennt ekki hafa verið fylgt við hönnun sem kemur fram í því að burðarviðir og tengingar eru ekki nægilega stífir og sterkir til að uppfylla kröfur og mæta álagi í samræmi við byggingarreglugerð og staðla. Heildarhæð hússins er meiri en fram kemur í gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð. Ekki liggja fyrir teikningar af húsinu sem fylgt var við smíði þess. Smíði hússins er á ýmsan hátt ófagleg sem sjá má við skoðun. Neðri brún klæðningar er ójöfn og skrúfuraðir ekki beinar. Skrúfum er sökkt í viðinn en haus ekki slétt við yfirborð eða lítið eitt innar, ekki er loftbil undir klæðninguna og ekki net til að hindra nagdýr að komast þar á bakvið. Klæðning á suðurhlið hallar og veggir halla. Ekki er loftræst fyrir ofan einangrun í þaki. Panell á veggjum inni er settur of þétt á veggi miðað við að húsið sé óupphitað og hefur bólgnað út. Hefti í panel eru þvert á viðartrefjar en faglegt og eðlilegt er að þau séu samhliða þeim.
Þá hefur ekki verið lokið við frágang hússins á ýmsan hátt eins og nánar er rakið hér á eftir.
a.
Ekki er loftað bil á bak við útveggjaklæðningu eins og kveðið er á um í byggingar-reglugerð.
b.
Ekki er net fyrir bili bak við útveggjaklæðninguna sem hindrað getur meindýr að komast þar á bakvið.
c.
Útveggjaklæðning á suðurhlið hallar sem kemur fram í því að borð á suðurhlið næst suðaustur horni er fleyglaga.
d.
Skrúfur í útveggjaklæðningu eru ekki í beinni línu og frávik umfram það sem eðlilegt og faglegt getur talist. Þá er skrúfuhausum sökkt í viðinn umfram það sem faglegt er.
e.
Nokkur borð á suðurhlið og austurhlið eru dekkri en önnur á útveggjum hússins. Það stafar af því að notuð hafa verið veðruð borð í klæðninguna.
f.
Frágangur rakavarnar í útveggjum og þaki virðist vera eðlilegur miðað við að húsið verði að jafnaði upphitað. Ekki hefur verið lokið við frágang hennar við glugga og hurð í notarými. Ekki er einangrun og rakavörn í geymslu. Ef geymsla á að vera óupphituð er það eðlilegt en ef hún á að vera upphituð þarf að einangra veggi og loft og koma fyrir rakavörn og þilja yfir.
g.
Ekki hafa verið settar áfellur á þakbrúnir á stöfnum hússins.
h.
Ekki er loftrás ofan við einangrun í þaki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Líkur eru þó til að loftun sé næg miðað við að húsið sé gestahús sem er ekki í samfelldri notkun. Faglegt og eðlilegt er hins vegar að gera loftrás í samræmi við byggingarreglugerð.
i.
Festing á sperrum við veggsyllur er ekki næg.
j.
Spónaplötur á gólfi hússins eru ekki rakavarðar og ætlaðar til notkunar þar sem er þurrt að jafnaði. Slíkar aðstæður eru í upphituðu rými og plöturnar þá í lagi. Plöturnar hæfa ekki til notkunar í óupphituðu rými.
k.
Langbitar undir húsinu eru reikningslega ekki nægilega stífir og sterkir. Festingar á þeim við undirstöður og hússins við þá eru reikningslega ekki nægilega sterkar.
l.
Lofthæð er ekki nægt til að hægt sé að hafa kojur í húsinu með fullnægjandi athafnarými. Húsið er hins vegar hærra en fram kemur í gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð.
m.
Ekki hefur verið lokið við frágang hússins eins og nánar er rakið að framan.
n.
Miðað við að húsið er reikningslega ekki nægilega stíft og sterkt og hætta er á veltu verður að ætla að hætta geti verið af, einkum ef húsið er notað sem íverurými. Þá getur stafað hætta af ef hlutar úr húsinu losna og fjúka.
2.
Ef húsið á að vera notarými þarf að styrkja það. Það má gera með því að koma fyrir nýjum langbitum undir langhliðum hússins og nýjum undirstöðum undir þeim. Þær sem fyrir eru verði látnar vera eins og þær eru. Festa þarf langbita tryggilega á undirstöður og hús við langbita. Með þessu er álag fært beint í undirstöður en ekki í gólfbita.
Áður en hægt er að fara í endurbætur þarf að gera nauðsynlega útreikninga og útfærslur og gera a.m.k. skýringateikningar. Þá þarf að liggja fyrir hvort að húsið er smáhýsi í samræmi við byggingarreglugerð eða íverurými þar sem að það hefur áhrif á þær kröfur sem gilda um hús. Einnig hvort húsið á að vera upphitað eða ekki.
Bæta þarf tengingar á þakviðum, í mæni og við veggsyllur.
Til að hægt sé að koma fyrir kojum í húsinu þarf að hækka útveggi og umfram það sem kveðið er á um í byggingarreglugerð. Þá þarf að taka niður útveggjaklæðningu og panel inni ásamt rakavörn og einangrun. Einnig úr lofti. Losa þarf þak frá veggsyllu og lyfta því. Heppilegt getur verið að lyfta því af húsinu meðan veggjum er breytt. Taka þarf veggsyllu af og setja nýjar hærri stoðir við hlið þeirra sem fyrir eru. Setja síðan veggsyllu aftur á stoðir, bæta við krossviði að utan og skeyta á lausholti við þann sem fyrir er. Setja þak aftur á húsið og festa. Bæta þá samhliða tengingar. Einangra veggi aftur, setja rakavörn og þilja inni. Klæða aftur að utan.
Klæðning á útveggjum og panill á veggjum inni fer forgörðum.
Gera þarf hæfileg göt á veggi til að lofta yfir einangrun í þaki.
Hæfilega metinn kostnaður við endurbætur er eins og fram kemur í samantekt aftar í matsgerð. Metinn er kostnaður við að hækka hús þannig að koma megi fyrir kojum annars vegar og hins vegar að það verði ekki hækkað. Þá er metinn kostnaður við að ljúka því sem talið er ólokið.
3.
Á reikningi á dskj. 3 segir að hann sé vegna vinnu við smíði á gestahúsi á tímabilinu 28/4 til 28/6, samtals 301 tími á 4.500 kr fyrir utan virðisaukaskatt. Samtals sé þóknun vegna vinnu 1.679.580 kr með virðisaukaskatti. Ekki fylgir með vinnuskýrsla. Efniskostnaður skv. nótu sé kr. 425.000 með virðisaukaskatt. Fram kom á matsfundi að matsbeiðendur hafi lagt til hluta af efni.
Almennt má gera ráð fyrir því að vinna við venjulega trésmíði sé um 60-65% af heildar-kostnaði og efni með álagningu verktaka um 35-40%. Í litlum verkum getur vinnuliður vegið þyngra en í stærri verkum. Ætla má að vinnuliður samsvari því að heildarkostnaður við smíði hússins sé um 2,6-2,8 milljónir.“
Matsmaður áætlar kostnað vegna vinnu við smíði hússins samtals að fjárhæð 1.750.000 krónur með virðisaukaskatti.
Matsmaður telur að einingarverð sem fram kemur á reikningi sé lægra en almennt gerist fyrir faglærða menn. Hæfilegt sé að miða við að faglærðir menn geti lokið við smíði hússins eins og það er gert á um 250 klst. Hversu margar vinnustundir fari í verk sé háð ýmsum þáttum, s.s. afköstum þess sem vinnur verkið, reynslu og færni, líkamlegu atgervi o.fl. Að teknu tilliti til þess verks sem unnið var og tímagjalds sem krafist er fyrir það telur matsmaður að tímafjöldi á reikningi sé eðlilegur.
Matsmaður metur kostnað miðað við að húsið verði hækkað þannig að koma megi fyrir kojum í gestahúsi að fjárhæð 2.758.000 krónur og kostnað við að húsið verði ekki hækkað að fjárhæð 1.738.000 krónur. Loks metur matsmaður að það kosti 241.000 krónur að ljúka við ólokna verkþætti.
Niðurstaða
Eins og rakið er hér að framan fengu aðalstefnendur kunningja sinn, Guðmund Bjarna Daníelsson, fyrirsvarsmann gagnstefnanda, til þess að byggja fyrir sig gestahús til þess að setja niður við sumarbústað aðalstefnenda í Dalabyggð. Smíðin fór fram á sumarbústaðarlóð gagnstefnanda í Borgarfirði og var húsið afhent 26. júní 2015. Aðalstefnendur gerðu athugasemdir við frágang hússins og reikning gagnstefnanda með bréfi 23. júlí 2015 en samkvæmt gögnum málsins voru sættir reyndar bæði fyrir og eftir þann tíma. Riftunaryfirlýsing aðalstefnenda var send gagnstefnanda 22. janúar 2016.
Aðilar deila um hvort samið hafi verið um byggingu hússins eftir ákvæðum greinar 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 með áorðnum breytingum en með reglugerðinni er kveðið á um minni háttar framkvæmdir sem eru undanþegnar byggingarleyfi. Segir þar að svokallað „smáhýsi á lóð“ sé til geymslu garðáhalda o.þ.h. og megi vera að hámarki 15 fm og að slík hús séu án vatnslagna, hita og rafmagns. Af framburði aðila fyrir dómi þykir sannað að aðilar sömdu um byggingu slíks húss, þ.e. sem væri ekki háð byggingarleyfi og því undir 15 fm, en að það væri samt byggt í þeim tilgangi að gestir gætu sofið í því, enda var gert ráð fyrir kojum í húsinu. Þá var gert ráð fyrir lítilli geymslu í húsinu. Ekki stóð hins vegar til að í húsinu væri hiti, rafmagn eða vatnslagnir.
Engar teikningar voru gerðar af húsinu og engin verklýsing er til um hvernig smíða átti húsið. Aðalstefnendur virðast ekki hafa sett fram neinar óskir þar um, aðrar en þær að smíða skyldi gestahús sem ekki þyrfti að sækja um byggingarleyfi fyrir og þar af leiðandi þyrfti ekki að skila inn til byggingarfulltrúa teikningum af húsinu. Aðalstefnandi Haraldur sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hafi treyst Guðmundi Bjarna alfarið fyrir verkinu. Fyrir liggur að aðalstefnendur komu oft á byggingarstað og fylgdust því að einhverju leyti með verkinu. Gegn neitun gagnstefnanda telst ósannað að samið hafi verið um ákveðið verð fyrir verkið. Verður því að líta svo á að það hafi verið unnið í tímavinnu. Vegna kunningsskapar aðalstefnenda og Guðmundar Bjarna máttu aðalstefnendur vita að Guðmundur Bjarni er ekki húsasmiður að mennt og ekkert liggur fyrir í málinu um að hann hafi reynt að villa á sér heimildir hvað það varðar. Hann kveðst hins vegar hafa unnið við smíðar í um 15 ár.
Allt framangreint verður að hafa í huga þegar metið er hverjar væntingar aðalstefnendur máttu hafa til smáhýsis sem þau fólu ófaglærðum manni að byggja án þess að teikningar, hönnun eða önnur fyrirmæli lægju fyrir. Verður að leggja til grundvallar að það hafi verið ætlun aðila að byggja smáhýsi samkvæmt ákvæðum framangreindra ákvæða byggingarreglugerðarinnar, smáhýsi sem væri undanþegið byggingarleyfi og afskiptum byggingaryfirvalda en þó með svefnaðstöðu. Í ljósi þessa er að mati dómsins ekki unnt að fallast á með aðalstefnendum að ákvæði byggingarreglugerðar um heilsárshús gildi um smáhýsi af þessari gerð, enda skilgreining slíks húss í byggingarreglugerð verkfæraskúr án hita, rafmagns og vatns. Þá er einnig til þess að líta að aðalstefnendur fylgdust með smíði hússins án þess að gera athugasemdir við byggingu þess, þ.á.m. varðandi hæð þess og hvort koma mætti fyrir kojum með góðu móti. Af málavöxtum verður ekki annað ráðið en að húsið hafi verið afhent aðalstefnendum í Borgarfirði og að aðalstefnendur hafi annast flutning þess og niðursetningu í Dalabyggð.
Þegar allt framangreint er virt er ekki unnt að fallast á með aðalstefnendum að galli hafi verið á hinni seldu þjónustu og ber því að sýkna gagnstefnanda af kröfum aðalstefnenda í aðalsök. Matsmaður hefur fallist á að reikningur gagnstefnanda sé sanngjarn með hliðsjón af vinnu hans og ber því eftir 28. gr. laga nr. 42/2000 um þjónustukaup að fallast að öllu leyti á kröfu gagnstefnanda í gagnsök.
Eftir þessari niðurstöðu ber samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að dæma aðalstefnendur til að greiða gagnstefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur í báðum sökum og hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Kristni Eiríkssyni og Stanley Pálssyni byggingarverkfræðingum. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsorð
Gagnstefnandi, Borg ehf., er sýkn af kröfum aðalstefnenda, Haraldar Guðjónssonar og Þórunnar M. Ólafsdóttur, í aðalsök.
Í gagnsök greiði aðalstefnendur gagnstefnanda in solidum 1.204.580 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. ágúst 2015 til greiðsludags.
Aðalstefnendur greiði gagnstefnanda 500.000 krónur í málskostnað.