Hæstiréttur íslands
Mál nr. 14/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Dánargjöf
- Arfleiðsluhæfi
|
|
Mánudaginn 29. janúar 2007. |
|
Nr. 14/2007. |
A B C D og E (Hallvarður Einvarðsson hrl.) gegn F (Karl Georg Sigurbjörnsson hrl.) |
Kærumál. Dánargjöf. Arfleiðsluhæfi.
Við opinber skipti á dánarbúi G kom upp ágreiningur með aðilum um gildi gjafabréfs frá 1997, þar sem kveðið var á um að fasteign í eigu G skyldi koma í hlut F að honum látnum. Kröfðust A, B, C, D og E að gjafabréfið yrði dæmt ógilt einkum þar sem G hafi ekki verið svo heill heilsu andlega að honum hafi verið fært að ráðstafa fasteigninni á þennan hátt. Bréfið var ekki vottað í samræmi við kröfur 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og fór úrlausn málsins því eftir 2. mgr. 45. gr. sömu laga. Með hliðsjón af framburði þeirra, sem undirrituðu gjafabréfið sem vottar, en einnig að teknu tilliti til framburðar annarra, sem gátu borið um hæfi G til að gera ofangreinda ráðstöfun, var talið að gjafabréfið væri gilt og að það skyldi lagt til grundvallar skiptum á dánarbúi hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. janúar 2007. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2006, þar sem kveðið var á um að gjafabréf G 20. júlí 1997 til handa varnaraðila væri gilt og skyldi lagt til grundvallar skiptum á dánarbúi hans. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að framangreint gjafabréf verði dæmt ógilt. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar auk kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði eiga ákvæði 2. mgr. 45. gr. erfðalaga nr. 8/1962 við um úrlausn málsins og er þar rakinn framburður þeirra vitna sem borið gátu um hæfi G til að gera þá ráðstöfun sem í gjafabréfinu fólst. Um það atriði verður einkum litið til framburðar H og I sem voru vottar á umræddu gjafabréfi. Með vísan til þessa og að öðru leyti til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðilar skulu greiða varnaraðila í kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, A, B, C, D og E, greiði varnaraðila, F, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2006.
I
Málið barst dóminum 4. maí sl. og var þingfest 26. sama mánaðar. Það var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum flutningi 5. desember sl.
Sóknaraðilar eru A, [heimilisfang], B, [heimilisfang], C, [heimilisfang], D, [heimilisfang], og E, [heimilisfang].
Varnaraðili er F, [heimilisfang].
Sóknaraðilar krefjast þess að “gjafabréfið (dánargjöf) dags. 20. júlí 1997 verði dæmt ógilt”. Þá krefjast þeir málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að gjafabréfið verði metið gilt og lagt til grundvallar skiptum á dánarbúi G. Þá krefst hún málskostnaðar.
II
Málavextir eru þeir að G, er fæddur var 2. október 1929, lést 19. maí 2004 og var dánarbúið tekið til opinberra skipta 15. október sama ár. G hafði lengst af búið í eigin íbúð að X, en í júlí 2003 var hann greindur með Alzheimersjúkdóm og fljótlega í framhaldi af því vistaðist hann á sjúkrastofnunum þar til yfir lauk. Hann átti hvorki maka né afkomendur og stóðu til arfs eftir hann hálfsystkini hans og systkinabörn.
Við skiptin kom fram bréf er ber yfirskriftina -Gjafabréf- og er svohljóðandi: “Til [F] bróðurdóttur minnar [kt.]. Bréfið hljóðar uppá íbúð mína að X í Garðabæ. Engar kvaðir hvíla á íbúðinni og engar veðskuldir. Íbúðin afhendist henni að mér látnum og getur hún þá fært hana á sitt nafn.” Bréfið er dagsett í Garðabæ 20. júlí 1997 og undir það ritar F og tveir vottar.
Á skiptafundi kom upp ágreiningur um gildi gjafabréfsins og tókst skiptastjóra ekki að jafna hann. Sóknaraðilar vefengja gildi bréfsins en varnaraðili telur að það eigi að leggja til grundvallar skiptum í búinu og er það ágreiningur málsins.
III
Sóknaraðilar byggja á því annars vegar að G hafi skort andlegt hæfi til að ráðstafa íbúð sinni með gjafabréfinu. Benda þeir á að samkvæmt læknisvottorði frá árinu 2003 hafi hann þá verið langt genginn með Alzheimersjúkdóm. Þetta sé hrörnunarsjúkdómur sem valdi andlegri hnignun og leiði til minnistaps og annarrar skerðingar á ýmsum sviðum. Andlegt ástand G hafi verið þannig að hann hafi skort hæfi til ráðstöfunarinnar, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Hins vegar byggja þeir á því að gjafabréfið uppfylli ekki formskilyrði VI. kafla erfðalaga, sbr. 54. gr. sömu laga. Um sé að ræða dánargjöf og um slíka gerninga gildi sömu formreglur og um erfðaskrár, sbr. nefnda lagagrein.
Varnaraðili byggir á því að G hafi verið fullkomlega fær um að ráðstafa eign sinni með gjafabréfinu á þeim tíma sem það var gert. Vottarnir að bréfinu hafi staðfest með yfirlýsingu að hann hafi ritað það heill heilsu andlega og líkamlega og af fúsum og frjálsum vilja. Læknisvottorð um Alzheimersjúkdóminn sýni að læknar hafi fyrst greint hann hjá G á árinu 2003. Þá hafi þessi ráðstöfun hans verið mjög eðlileg í ljósi þess að alltaf hafi verið kært með honum og varnaraðila.
Þá er á því byggt að gjafabréfið fullnægi formskilyrðum erfðalaga, hafi eitthvað vantað upp á það með bréfið sjálft þá hafi verið úr því bætt með yfirlýsingu vottanna frá því í júlí 2003.
IV
Hér að framan var texti gjafabréfsins tekinn upp í heild. Undir það rita tveir vitundarvottar en ekki er á því vottorð eins og áskilið er í 42. gr. erfðalaga. Vottarnir, H og I, gáfu svohljóðandi yfirlýsingu 29. júlí 2003: “G, sem er nágranni okkar, kom að máli við okkur 20. júlí 1997 og óskaði eftir því að við værum vottar að framangreindum gerningi. Ritaði hann nafn sitt undir gjafabréfið sem hann kvað hafa að geyma vilja sinn. Gerði hann þetta heill heilsu, andlega og líkamlega og af fúsum og frjálsum vilja. Við staðfestum þetta hér með og lýsum okkur reiðubúin að staðfesta það síðar ef krafist verður.”
Vottarnir komu báðir fyrir dóm og staðfestu undirskriftir sínar sem vottar á gjafabréfið og eins að hafa gefið yfirlýsinguna. I bar að hún og H hefðu verið nágrannar G í 24 til 26 ár og hafi þau þekkt hann vel, enda hafi hann oft komið í heimsókn til þeirra. Þegar hún vottaði bréfið hafi hún ekki greint nein merki þess að G væri andlega vanheill á einhvern hátt. Hún kvaðst hafa vottað gjafabréfið að beiðni G og hafi hann sagt þeim að hann langaði til að gera eitthvað fyrir varnaraðila, sem honum hafi þótt mjög vænt um. Það hafi verið hans vilji að hún fengi íbúðina.
H bar að hann hefði vottað gjafabréfið að beiðni G, en þeir hefðu verið nágrannar frá 1979. Hann kvað G hafa komið til þeirra og sagt þeim að sig langaði til að varnaraðili eignaðist íbúðina og bað þau I að vera vitundarvotta. H kvað sig fastlega minna að G hafi undirritað bréfið heima hjá þeim I og þau svo vottað það. Ekki hafi nokkur vafi leikið á því að hann hafi vitað fullkomlega hvað hann var að gera og að bréfið hafi haft að geyma vilja hans. Kvað H G hafa verið mjög ánægðan með að hafa gert gjafabréfið. Á þessum tíma hafi G verið fullfrískur og ekki borið nein merki þess sjúkdóms er hann fékk síðar. Kvaðst H sérstaklega minnast samtals við G á árinu 2001 þar sem ekki hafi hið minnsta borið á sjúkdómnum, hann hafi verið alveg skýr í kollinum eins og H orðaði það. Hann kvað varnaraðila hafa komið með yfirlýsinguna til undirritunar hjá þeim I og muni það hafa verið að tilmælum lögfræðings.
J var nágranni G frá 1969 og höfðu þeir allnokkur samskipti eins og nágranna er háttur. J bar að G hafi rætt um bróður sinn, K, og börn hans, varnaraðila, L og M, en hann hafi ekki rætt um aðra ættingja sína. G hafi alla tíð verið hraustur og bar J að hann hafi ekki greint að neitt væri að G fyrr en 2001, en þá hafi verið eins og honum væri brugðið. Hann hafi þó ekki orðið var við minnisleysi hjá G, en hann hafi séð á augum hans að eitthvað var að. J bar að G hafi sagt sér oftar en einu sinni á þeim 30 árum sem þeir þekktust að varnaraðili ætti að fá íbúðina.
N, eiginkona J, bar á sama hátt og J um nágrennið við G, auk þess sem hún hafði þekkt hann frá því hún var barn. Hann hafi rætt um K, bróður sinn, og börn hans, en ekki aðra ættingja. G hafi margsagt við þau J að varnaraðili ætti að fá íbúðina því að þá hefði hún aðstöðu til að vera þar þegar hún kæmi til landsins. Þetta hafi verið honum hjartans mál. N bar að hún myndi sérstaklega eftir atviki í ágúst 1999 þegar G hafi verið hjá þeim Ji ásamt H og I og hafi þá ekkert verið að honum. Eftir haustið 2001 fer G hins vegar að breytast og taldi hún það afleiðingu umferðarslyss.
O, hjúkrunarfræðingur, bjó í sama húsi og G frá 1986, er hún keypti af honum íbúð á neðri hæð hússins að X. Hún kvað þau hafa umgengist allmikið. Hann hafi lent í árekstri 2001 og eftir það hafi hann farið að missa heilsuna, fyrr hafi hann verið mjög heilsuhraustur. Hún bar að G hafi rætt um bróður sinn, K, og börn hans, varnaraðila og L. O kvaðst vera alveg klár á því að G hafi verið heill heilsu andlega árið 1997 þegar hann gerði gjafabréfið. Það hafi fyrst verið eftir 2001 sem andlegri heilsu hans fór að hraka.
Varnaraðili bar að alltaf hefðu verið náin tengsl á milli hennar og G, enda hafi hann búið í mörg ár hjá fjölskyldu hennar. Hann hafi verið hálfföðurbróðir hennar. Hún hefði fyrst fengið vitneskju um gjafabréfið sumarið 1997 er G hringdi í hana og bað hana um kennitöluna hennar. Hún spurði hvað hann vildi með kennitöluna og þá sagðist G vera að útbúa gjafabréf handa henni fyrir íbúðinni sinni. Árið eftir kvaðst varnaraðili hafa séð bréfið, en G hafi látið móður hennar fá það. Hún kvaðst hafa rætt efni bréfsins við G, en hann sagt að hann réði þessu sjálfur og hún hefði ekkert um það að segja, eftir sinn dag réði hún svo hvað hún gerði við íbúðina. Hann hafi viljað tryggja að hún ætti afturkvæmt til Íslands og minnt hana á að það væri óstöðugleiki þar sem hún byggi. Systkini hennar ættu öll heimili á Íslandi, en hún ætti ekkert athvarf hér. Með því að gefa henni húsið ætti hún alltaf afturkvæmt til Íslands.
Varnaraðili kvaðst hafa komið árlega til landsins og þá alltaf hafa haft samband við G. Árið 2002 hafi henni fundist hann aðeins vera byrjaður að láta á sjá andlega og hafi hún beðið bróður sinn að líta eftir honum. Fyrir þann tíma hafi hann engin merki borið um elliglöp og verið hraustur alla tíð, m.a. róið til fiskjar allt fram á árið 2000. Þegar hún kom heim sumarið 2003 hafi hann verið orðinn mjög breyttur. Hún kvaðst hafa gengist fyrir því að hann færi í læknisrannsókn og við hana hafi komið í ljós að G var kominn með Alzheimer og hafi sjúkdómurinn gengið hratt yfir. Aðrir ættingja hans hafi ekki sinnt um hann og komu ekki nálægt þessu með henni.
L, bróðir varnaraðila, bar að hann hafi alla tíð haft mikil samskipti við G. G hafi verið nákvæmur með alla hluti, þar á meðal skjalagerð. Skjölin hafi hann handskrifað, enda hafi hann ekki átt ritvél. L kvað G hafa að mestu hætt að róa um 1996 til 1997. Á þessum tíma hafi hann einnig átt orðið erfitt með að aka bifreið. Upp úr 1995/1996 hafi farið að bera á misskilningi og ranghugmyndum hjá G um ýmsa hluti og hafi hann hringt í sig út af þeim. Þegar L hafi ætlað að leiðrétta þetta hafi hann orðið vondur, en hringt svo daginn eftir og þá ekki skilið hvað hann hafi verið að rugla. Hann kvaðst hafa farið að taka eftir þessum breytingum fljótlega upp úr 1990. L kvaðst alltaf hafa haft undir höndum bréf frá G þar sem áttu að vera fyrirmæli um ráðstafanir eftir hans dag, en G hafi sagt að L ætti að sjá um sín mál eftir hans dag.
P, systursonur G, kvaðst hafa þekkt hann frá barnæsku og hafi þeir unnið saman á tímabili. Upp úr 1990 hafi hann farið að fá svimaköst sem hann hafi verið hræddur við. Á árinu 1999 hafi þeir verið saman í ökuferð og leið þeirra legið framhjá bernskuheimili P. Þá hafi G sagt að þarna hafi [...] systir hans búið og virtist ekki átta sig á að P var sonur hennar. Seinna hafi hann verið staddur á heimili G og hafi G þá ekki þekkt sig. Fyrir 1999 kvaðst P ekki hafi merkt minnisleysi hjá G, en honum hafi hrakað hratt. Hann kvaðst hafa verið í litlu sambandi við G frá árinu 1994 til 1999. Á þeim tíma hafi hann verið á sjó og ekki fylgst með G. Fyrir 1994 hafi ekkert borið á andlegum annmörkum hjá G að mati P.
C, einn sóknaraðila, en móðir hennar var hálfsystir G, kannaðist ekki við að sonur hennar hafi átt að taka arf eftir G. Hún kvað gjafabréfið ekki vera í anda G og þeirrar nákvæmni sem hann sýndi af sér alla tíð. Hún kvaðst þó aldrei hafa séð bréf eftir hann. C bar að maður hennar hefði séð G á árinu 2000 og hafi hann þá litið illa út.
Meðal gagna málsins er læknisvottorð Björns Einarssonar öldrunarlæknis. Í vottorðinu kemur fram að G kom fyrst á göngudeild Landakotsspítala 7. júlí 2003 og hafi þá verið með langt gengna heilabilun. Hann var með greinilega minnistruflun, mundi ekki heimilisfang sitt og var með málstol þar sem hann átti erfitt með að finna orð til að tjá sig með. Hann hafi verið algjörlega innsæislaus í eigið ástand og hirðulaus um sjálfan sig og umhverfi sitt. Þá hafi hann verið með grunsemdar- og ofsóknarhugmyndir (paranoia). Björn kvaðst fyrst hafa séð G 28. júlí sama ár og þá greint hann með langt genginn Alzheimersjúkdóm með grunsemdar- og ofsóknarhugmyndum og kvíða, en mjög ákveðinn vilja til að halda sjálfstæði sínu. G voru gefin lyf og þegar hann kom aftur 16. september var hann öllu rólegri. Honum versnaði síðan hratt og var hann lagður inn á heilabilunardeild. Þaðan fór hann til vistunar á Hrafnistu þar sem hann lést.
Björn staðfesti vottorðið fyrir dómi. Hann bar að Alzheimersjúkdómurinn gæti verið að þróast frá 2 og upp í 20 ár, oftast svona í 8 til 12 ár að meðaltali. Sjúklingar geti iðulega leynt sjúkdómnum þar til farið er kynnast þeim og spyrja þá. G hafi verið haldinn ofsóknarhugmyndum (paranoia) þegar hann var skoðaður fyrst af læknum. Björn bar að G hafi verið langt genginn með sjúkdóminn, en ekki gat hann borið hversu lengi hann hefði gengið með hann. Hann gat ekkert borið um ástand hans á árinu 1997.
Þá er meðal gagna málsins vottorð læknis á heilsugæslustöðinni í Garðabæ, samið upp úr sjúkraskrárfærslum og aðsendum læknabréfum frá 1997, en beðið var um upplýsingar um heilsufar G á árinu 1997 og eftir það. Samkvæmt vottorðinu fékk hann vottorð vegna endurnýjunar ökuleyfis árið 1997 og árið eftir inflúensusprautu. Næstu ár heimsækir hann stöðina nokkrum sinnum vegna algengra líkamlegra kvilla og haustið 2001 lendir hann í bílslysi. Í júní 2003 kemur hann í fylgd varnaraðila og er í framhaldinu greindur með Alzheimer, eins og rakið var.
V
Gjafabréfið er samkvæmt efni sínu dánargjöf og samkvæmt 54. gr. erfðalaga gilda ákvæði þeirra, sem varða erfðaskrár, um slíka ráðstöfun. Gjafabréfið var ekki staðfest af arfleiðsluvottum samkvæmt því sem mælt er fyrir um í 42. gr. erfðalaga, en vottarnir gáfu síðar yfirlýsingu þá sem að framan greinir. Slík síðbúin staðfesting getur ekki bætt úr þeim annmarka sem var á vottuninni og eiga því ákvæði 2. mgr. 45. gr. erfðalaga við varðandi úrlausn málsins.
Hér fyrr var það rakið að G kom fyrst til sérfræðinga í öldrunarsjúkdómum 7. júlí 2003 og var þá greindur með langt gengna heilabilun. 26. júní sama ár hafði hann komið á heilsugæslustöðina í Garðabæ og bar þá merki um hrörnunarsjúkdóm. Gerð hefur verið grein fyrir vottorði og framburði öldrunarlæknis sem skoðaði G og mat ástand hans. Læknirinn gat ekkert borið um ástand G á árinu 1997 þegar hann gerði gjafabréfið. Önnur læknisfræðileg gögn gera það heldur ekki og ekki er hægt að byggja á þeim almennu upplýsingum um meðgöngutíma sjúkdómsins sem greint var frá hér að framan. Við úrlausn málsins verður því að styðjast við framburð vitna um andlegt ástand G á árinu 1997.
Í framburði nágranna G, sem rakinn var hér að framan, en allir höfðu þeir þekkt hann lengi, kemur fram að hann hafi verið heill heilsu andlega á árinu 1997. Fjögur vitni báru og um að það hefði verið ætlun hans að varnaraðili fengi íbúðina og hafi það verið til þess að hún ætti athvarf hér á landi, en hún hefur lengi verið búsett erlendis. Framburður ættmenna G fær ekki hnekkt þessu, enda höfðu þau, að bróður varnaraðila undanskildum, mun minna samband við hann, að eigin sögn, heldur en nágrannarnir.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að sannað sé að G hafi verið svo heill heilsu andlega á árinu 1997 að hann hafi verið fær um að gera þá ráðstöfun sem í gjafabréfinu fólst. Nágrannar hans hafa einnig borið að vilji hans hafi staðið til þess að bróðurdóttir hans, varnaraðili, fengi íbúðina. Gjafabréfið verður því metið gilt og skal lagt til grundvallar við skipti á dánarbúi G.
Sóknaraðilar skulu greiða varnaraðila málskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð.
Gjafabréf G frá 20. júlí 1997 til handa varnaraðila, F, fyrir íbúð hans að X í Garðabæ er gilt og skal lagt til grundvallar skiptum á dánarbúi hans.
Sóknaraðilar, A, B, C, D og E, greiði óskipt varnaraðila 250.000 krónur í málskostnað.