Hæstiréttur íslands

Mál nr. 662/2013


Lykilorð

  • Jörð


                                     

Fimmtudaginn 8. maí 2014.

Nr. 662/2013.

Brynjólfur Jónsson

John Francis Zalewski

Lúðvík Emil Kaaber

Sæmundur Kristján Þorvaldsson og

Tré ehf.

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Áslaugu Sólbjörtu Jensdóttur og

Margréti Rakel Hauksdóttur

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

Jörð.

B o.fl. höfðuðu mál gegn M og Á og kröfðust greiðslu tiltekinna fjárhæða vegna kostnaðar B o.fl. af gerð girðingar á landamerkjum jarða B o.fl. annars vegar og M og Á hins vegar. Þar sem B o.fl. höfðu ekki leitað úrlausnar úrskurðaraðila samkvæmt 5. gr. sbr. 7. gr. girðingarlaga nr. 135/2001 um rétt til samgirðingar, nauðsynlegan kostnað af þeirri framkvæmd og skiptingu hans var ekki talið að B o.fl. gætu reist kröfur sínar á hendur M og Á á þessum grundvelli. Voru M og Á því sýknaðar.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari, Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari og Stefán Már Stefánsson prófessor.

Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 13. ágúst 2013. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 25. september sama ár og áfrýjaðu þeir öðru sinni 10. október það ár. Þeir krefjast þess að stefndu verði gert að greiða sér óskipt 2.165.824 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 683.865 krónum frá 24. ágúst 2011 til 18. september sama ár, af 724.069 krónum frá þeim degi til 22. september sama ár en af 2.165.824 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að kröfur áfrýjenda verði lækkaðar. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjendur reisa kröfur sína á hendur stefndu á 5. gr. girðingarlaga nr. 135/2001. Í málinu liggur fyrir að áfrýjendur hafa, að undangengnum bréfaskiptum við stefndu, látið reisa hina umdeildu girðingu og krefja nú stefndu um hluta þess útlagða kostnaðar sem af því leiddi, auk svonefnds umsjónarkostnaðar og vaxta. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi leituðu áfrýjendur ekki úrlausnar úrskurðaraðila samkvæmt 5. gr., sbr. 7. gr. laganna um rétt til samgirðingar, nauðsynlegan kostnað af þeirri framkvæmd og skiptingu hans. Að svo vöxnu máli geta þeir ekki reist kröfur sína á hendur stefndu á þessum grundvelli. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Brynjólfur Jónsson, John Francis Zalewski, Lúðvík Emil Kaaber, Sæmundur Kristján Þorvaldsson og Tré ehf., greiði óskipt stefndu Áslaugu Sólbjörtu Jensdóttur og Margréti Rakel Hauksdóttur, 300.000 krónur hvorri um sig í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 12. júlí 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. júní sl., höfðuðu stefnendur, Brynjólfur Jónsson, Vogatungu 18, Kópavogi, John Francis Zalewski, Lundahólum 5, Reykjavík, Sæmundur Kristján Þorvaldsson, Lyngholti, Dýrafirði, Lúðvík Emil Kaaber, Brekkusmára 3, Kópavogi, og skógræktarfélagið Tré ehf., kt. 661007-2650, hinn 8. maí 2012, gegn stefndu, Margréti Rakel Hauksdóttur, Góuholti 5, Ísafirði, og Áslaugu Sólbjörtu Jensdóttur, Bústaðavegi 73, Reykjavík.

Kröfur stefnenda í málinu eru þessar:

Aðallega: Að stefndu verði in solidum dæmdar til þess að greiða stefnendum 2.165.824 krónur með dráttarvöxtum af 683.865 krónum frá 24. ágúst 2011 til 18. september 2011, af 724.069 krónum frá þeim degi til 22. september 2011, en af 2.164.824 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara: Að stefndu greiði in solidum stefnendum Brynjólfi Jónssyni, John Francis Zalewski, Lúðvík Emil Kaaber og Sæmundi Kristjáni Þorvaldssyni 2.165.824 krónur með dráttarvöxtum af 683.865 krónum frá 24. ágúst 2011 til 18. september 2011, af 724.069 krónum frá þeim degi til 22. september 2011, en af 2.164.824 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Í báðum tilvikum krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefndu.

Dómkröfur stefndu eru aðallega að þær verði sýknaðar af öllum kröfum stefnenda, en til vara að dómkröfur stefnenda verði lækkaðar mjög verulega.

Í báðum tilvikum krefjast stefndu, hvor um sig, málskostnaðar in solidum úr hendi stefnenda.

I

Jarðirnar Hólakot og Klukkuland í Ísafjarðarbæ eru í óskiptri sameign fjögurra stefnenda. Er stefnandinn Lúðvík Emil eigandi að 50% hluta hvorrar jarðar en stefnendurnir John Francis, Brynjólfur og Sæmundur Kristján eiga hver um sig 16,6666% hlut í hvorri jörð. Stefnandinn Tré ehf. er ekki eigandi að jörðunum. Stefndu eiga nærliggjandi jörð, Núp, í óskiptri sameign.

Nefndar jarðir eru í Núpsdal sem gengur til norðurs frá Mýrarfelli. Um dalinn rennur Núpsá. Hólakot og Klukkuland eiga landamerki að Minni-Garði til suðausturs um svonefndan Hvassahrygg og upp að Klukkulandshorni, að Læk til suðurs og að Núpi til vesturs og norðurs. Skilur Núpsá á milli. Til austurs er hálendi að Gemlufallsheiði.

Stefnendurnir Brynjólfur, John Francis, Sæmundur Kristján og Lúðvík Emil keyptu jarðirnar Klukkuland og Hólakot árið 2007 í þeim tilgangi að rækta þar skóg. Föluðust þeir eftir skógræktarsamningi um jarðirnar í gegnum landshlutaverkefnið Skjólskóga á Vestfjörðum, en upplýst er að stefnandinn Sæmundur Kristján er framkvæmdastjóri Skjólskóga og þá er stefnandinn Brynjólfur framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands. Skjólskógar á Vestfjörðum gera einungis samning við einn aðila á hverri jörð og stofnuðu eigendur Klukkulands og Hólakots því einkahlutafélag um skógræktina, stefnandann Tré ehf. Hinn 14. maí 2008 var undirritaður samningur milli Skjólskóga og Trjáa ehf. og skuldbundu eigendur jarðanna tveggja sig til að hlíta þeim samningi.

Stefnandinn Lúðvík Emil ritaði stjórn Skjólskóga á Vestfjörðum bréf 1. desember 2009 og lýsti þeirri afstöðu Trjáa ehf. að nauðsynlegt væri að girða skógræktarlandið af. Voru samrit bréfsins send stefndu. Í janúar 2010 barst stefnandanum Trjám ehf. svarbréf stjórnar Skjólskóga þar sem óskað var eftir því að kannað yrði til þrautar hvort nágrannar féllust á hagfelldara girðingarstæði sem nýtast myndi báðum aðilum. Hinn 31. janúar 2010 rituðu stefnda Margrét og Kristinn Valdimarsson, sonur stefndu Áslaugar, stjórn Skjólskóga á Vestfjörðum bréf og vöktu athygli á því „... að umræddar framkvæmdir Trjáa ehf. fara ekki og munu ekki fara fram í landi Núps og eru því eigendum jarðarinnar með öllu óviðkomandi ...“

Hinn 15. febrúar 2010 var stefndu sent bréf þar sem bréfritari, stefnandinn Lúðvík Emil, fyrir hönd sína og sameigenda sinna, gerði grein fyrir tveimur girðingartillögum, annarri þar sem gert var ráð fyrir að girðingin lægi að hluta til á landi Núps, en hinni þar sem gert var ráð fyrir að girðingin yrði að öllu leyti Klukkulandsmegin við Núpsá.

Með bréfi 10. maí 2010 ritaði Lúðvík Emil, fyrir sína hönd og sameigenda sinna, annað bréf til stefndu. Í bréfinu kom meðal annars fram að litið yrði svo á að eigendur Núps höfnuðu tillögu um girðingu á landi Núps nema annað yrði tilkynnt fyrir sumarlok. Stefndu staðfestu móttöku erindis stefnenda með bréfi undirrituðu 18. og 23. maí 2010. Með bréfi undirrituðu 20. og 23. september 2010 áréttuðu stefndu fyrri afstöðu sína um að umræddar girðingarframkvæmdir væru stefndu óviðkomandi svo framarlega sem þær samrýmdust skipulagslögum, svo og lögum um umhverfis- og náttúruvernd. Kom einnig fram í bréfinu sú afstaða stefndu að landeigendur eða þeir sem Núpsjörðina nýttu hefðu ekki, og kæmu ekki til með að hafa, nokkur not af umræddri girðingu.

Stefnandinn Tré ehf. fór þess á leit við sýslumanninn á Ísafirði og Búnaðarsamband Vesturlands með bréfi 7. desember 2010 að þeir aðilar hlutuðust til „... um lausn ágreinings varðandi reglur girðingarlaga, sé ágreiningur talinn vera fyrir hendi.“ Sýslumaðurinn á Ísafirði svaraði erindi Trjáa ehf. 13. janúar 2011 en í bréfinu sagði meðal annars svo:

Með vísan til 1. ml. 1. mgr. 7. gr. girðingarlaga nr. 135/2001 skal sýslumaður tilnefna einn fagaðila til að skera úr um ágreining verði aðilar ekki ásáttir um hvers konar girðingu skuli reisa, kostnaðarskiptingu eða um aðra framkvæmd verksins.

Telur sýslumaður að ekki sé lagaheimild fyrir því að hann ákvarði hvort ágreiningur sé talinn vera fyrir hendi, og að hann hlutist til um lausn hans á þessu stigi málsins. Þykir rétt að málsaðilar óski formlega eftir tilskipun sýslumanns um fagaðila í nefnd skv. ofangreindu ákvæði girðingarlaga og leggi fram rökstuðning þess efnis að ágreiningur sé fyrir hendi.

Þykir þá rétt að upplýsa að kostnaður við mat nefndar skv. 7. gr. laganna greiða aðilar eftir sömu hlutföllum og girðingarkostnaðinn og ákveða úrskurðaraðilar hverju hann nemur, sbr. 2. mgr. 7. gr. girðingarlaga.

Tilkynnist því hér með að beiðninni er vísað frá.

Vorið 2011 töldu stefnendur að ekki yrði beðið lengur með að girða og fengu þeir verktaka til að reisa girðinguna. Tilkynntu stefnendur stefndu um fyrirætlanir sínar bréflega 12. apríl 2011. Bréfinu var svarað af hálfu stefndu með bréfi undirrituðu 23. og 24. maí 2011. Í bréfinu var kostnaðarþátttöku eigenda Núps „... í girðingum vegna skógræktar á landi Klukkulands og Hólakots alfarið hafnað, þar sem við teljum að ekki sé lagagrundvöllur fyrir kröfugerð á hendur eigendum Núpsjarðarinnar.“ Þá var ítrekuð sú afstaða stefndu að girðingarframkvæmdirnar væru eigendum Núps óviðkomandi. Enn fremur var á það bent að mögulega kynnu girðingarframkvæmdir á bökkum Núpsár að vera brot á lögum nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Stefnendur rituðu stefndu tvö bréf sumarið 2011 og kröfðu þær um greiðslu kostnaðar vegna girðingarframkvæmdanna. Meðal þess sem gerð var krafa um í bréfi, dagsettu 22. ágúst 2011, var greiðsla á helmingi svokallaðs umsýslukostnaðar. Með bréfum þessum voru stefndu samtals krafðar um greiðslu 2.165.884 króna.

Stefndu svöruðu bréfum stefnenda 30. og 31. ágúst 2011 og áréttuðu fyrri afstöðu og höfnuðu með öllu kostnaðarþátttöku vegna girðinga­framkvæmdanna. Þá var í bréfum stefndu vísað til þeirra sömu atriða og í áðurnefndu bréfi þeirra undirrituðu 23. og 24. maí 2011. Í kjölfarið fengu stefnendur lögmanni málið í hendur og ritaði hann stefndu innheimtubréf 25. október 2011 þar sem krafist var sömu fjárhæðar og áður úr hendi stefndu, auk dráttarvaxta og innheimtuþóknunar. Stefndu höfnuðu kröfum stefnenda og áréttuðu enn á ný afstöðu sína til girðingar­framkvæmdarinnar og krafna stefnenda. Höfðuðu stefnendur síðan mál þetta 8. maí 2012 samkvæmt áðursögðu.

II

Stefnendur segja kröfu sína byggjast á því að stefndu sé að lögum skylt að taka þátt í kostnaði vegna girðingar, sbr. ákvæði 5. gr. girðingarlaga nr. 135/2001. Stefnendur hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til að tryggja aðkomu stefndu að framkvæmdinni, en þeirri málaleitan hafi ekki verið sinnt.

Af hálfu stefnenda er til þess vísað að skv. 5. gr. skógræktarsamnings Trjáa ehf. og Skjólskóga á Vestfjörðum beri að sjá til þess að skógræktarlandið sé friðað fyrir beit, en til þess njóti félagið nokkurs styrks. Í upphafi hafi verið talið, með hliðsjón af því að fé hafi verið fátt á bæjum er aðgang hafi átt að Núpsdal, að nægilegt væri að girða jarðirnar gagnvart Minni-Garði með rafmagnsgirðingu frá ristarhliði á þjóðvegi 624 og í átt að Klukkulandshorni. Hins vegar hafi farið svo að fé lærðist að fara upp fyrir þá girðingu. Vorið 2010 hafi því verið brugðið á það ráð að hækka girðinguna upp í 600 metra hæð. Það hafi verið gert í mikilli sátt við eigendur að Minni-Garði og þar sem bændur hafi tapað hluta beitarréttar síns hafi verið ákveðið að krefja þá ekki um þátttöku í kostnaði vegna girðingarframkvæmdanna.

Stefnendur segja fjárbúskap á Núpi og þá sé fé frá öðrum jörðum einnig beitt á Núpsdal. Þegar fénu sé hleypt út á vorin fari það fram Núpsdal og yfir ána á jörð stefnenda. Hafi ágangur fjárins reynst það mikill að tilgangslaust hafi verið með öllu að rækta skóg, a.m.k. lauftré, við þær aðstæður. Haustið 2009 hafi því verið orðið ljóst að nauðsynlegt væri að girða gagnvart Núpi til að verja skógrækt stefnenda. Stefndu Margréti og Kristni, syni stefndu Áslaugar, hafi því verið kynnt nauðsyn girðingar. Því hafi þau ekki mótmælt, en stefnendum þótt lítils fagnaðar gæta.

Kröfu sína segja stefnendur byggjast á tíu reikningum, öllum útgefnum á árinu 2011, auk 20% umsýslukostnaðar, sbr. kröfubréf stefnenda til stefndu frá 22. ágúst 2011. Helmingur þess kostnaðar sé stefnufjárhæð málsins, 2.161.568 krónur.

Nánar vísa stefnendur til þess að áfallinn kostnaður, sem tilkynnt hafi verið um 24. júlí 2011, hafi numið 1.448.138 krónum, en helmingur þeirrar fjárhæðar séu 724.069 krónur. Þar sem reikningur Ferðahýsa að fjárhæð 80.408 krónur hafi ekki verið greiddur fyrr en 18. ágúst 2011 sé dráttarvaxta krafist af helmingi þeirrar fjárhæðar frá 18. september 2011.

Áfallinn kostnaður, sem tilkynnt hafi verið um 22. ágúst 2011, án umsjónarkostnaðar, hafi numið 2.161.568 krónum, en helmingur þeirrar fjárhæðar séu 1.080.784 krónur. Sama dag hafi stefnendur jafnframt krafið stefndu um helming umsjónarkostnaðar, 20% af 3.609.706 krónum sem stefnendur hafi talið rétt að bæta við útlagðan kostnað, eða 360.971 krónu.

Stefnukröfuna segja stefnendur samkvæmt framansögðu vera helmings­endurgjald fyrir kostnað stefnenda og vinnu, unna í því skyni að gera stefnandanum Trjám ehf. fært að standa við skógræktarsamning sinn. Krafan byggist á meginreglum laga um endurgjald fyrir vinnu. Verkþáttur stefnenda hafi falist í könnun og vali á girðingarstæði, efnisleit, pöntunum, efniskaupum, efnisgeymslu, efnisflutningi, öflun verktaka, útréttingum, símtölum og erindum fyrir sunnan og á Ísafirði, sem sinnt hafi verið ýmist sjálfstætt eða samhliða öðrum og óviðkomandi erindum, vinnu við undirbúning efnis, ráðfærslu, aðstoð, eftirfylgni og aðhaldi við verktaka, fjárreiðum, bókhaldi, fjárútvegun og greiðslum, bréfaskriftum og viðleitni til að fá eigendur Núps til að gæta hagsmuna sinna. Í framkvæmd sé ógerlegt að halda nákvæmar skrár um umsjón með verki af þessu tagi, en stefnendur geri kröfu til að eigendur Núps taki helmings þátt í þeirri vinnu sem umsjónin hafi falið í sér, enda algengt að sögn stefnenda að þannig sé að farið í tengslum við verksamninga. Þrátt fyrir ítrekaðar skriflegar áskoranir hafi stefndu látið sig þetta umstang engu varða, frekar en framkvæmdina að öðru leyti.

Varakröfu sína segja stefnendur, aðrir en Tré ehf., byggja á því að þeir séu landeigendur. Girðingarrétturinn sé tiltekinn í 5. gr. girðingarlaga og þá um leið kostnaðarþátttaka stefndu. Stefnandinn Tré ehf. sé í eigu annarra stefnenda, en félagið hafi verið stofnað utan um afmarkað verk. Verði ekki fallist á að Tré ehf. eigi aðild að málinu krefjist aðrir stefnendur þess að viðurkenndur sé réttur þeirra sem landeigenda að stefnukröfunni. Hvað varakröfur varðar vísa stefnendur, aðrir en Tré ehf., til þess sem áður er rakið til stuðnings aðalkröfu.

Til stuðnings kröfum sínum í málinu vísa stefnendur til girðingarlaga nr. 135/2001, einkum 5. gr. laganna, sem og til meginreglna vinnuréttar um endurgjald fyrir vinnu. Krafa um málskostnað sé reist á ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

III

Stefndu reisa sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að þeim sé óskylt að lögum að taka þátt í kostnaði við að reisa girðingu stefnenda eða halda henni við, en stefnendur byggi málið á þeirri málsástæðu einni að stefndu sé skylt skv. 5. gr. girðingarlaga nr. 135/2001 að taka þátt í kostnaði af girðingarframkvæmdinni á móti stefnendum.

Skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 135/2001 sé markmið þeirra laga að fjalla um girðingar, hverjir fari með forræði yfir þeim og um kostnaðarskiptingu við uppsetningu þeirra á landamerkjum. Þar sem landamerki jarðar stefndu gagnvart Klukkulandi og Hólakoti séu öldungis ljós og óumþrætt sé engin þörf á eða skylda til að setja upp merki eða girðingu á landamerkjum, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1919.

Þá sé girðing stefnenda alfarið reist inni á þeirra landi. Hún sé því ekki landamerkjagirðing, enda eigi stefnendur landið beggja vegna girðingarinnar. Því hafi ekki getað stofnast nein skylda stefndu skv. 5. gr. laga nr. 135/2001 til að þær bæru af girðingunni einhvern kostnað. Með girðingunni leitist stefnendur einungis við að girða af skógræktarhólf inni á eigin landi, en þurfi hins vegar að loka því á fleiri vegu, eigi girðingin að verða til gagns. Krafa stefnenda á hendur stefndu hafi því ekki getað stofnast að lögum.

Svo greiðsluskylda kostnaðar hafi á annað borð getað stofnast á hendur stefndu hafi ýmis þýðingarmikil skilyrði þurft að vera uppfyllt, svo sem að um væri að ræða landamerkjagirðingu skv. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 2001 og að hennar væri þörf sem slíkrar. Þá hefðu stefnendur þurft að fylgja fyrirmælum girðingarlaga í hvívetna, meðal annars um að fá tilnefnda úrskurðaraðila skv. 5. gr., sbr. 7. og 9. gr., laganna er ráðið hefðu því til lykta hvort stefnendur ættu yfir höfuð rétt til samgirðingar samkvæmt lögununum. Einnig hver lega girðingarinnar ætti að vera svo jafnaðar yrði gætt sem best og eftir atvikum ákvarða þeim aðila skaðabætur sem meira sneiddist af landi hjá vegna girðingarinnar. Enn fremur hefðu slíkir úrskurðaraðilar kveðið á um hver yrði nauðsynlegur kostnaður við slíka girðingu, en stefndu telji að farið hafi verið út í mun dýrara verk en komast hefði mátt af með og talist hefði forsvaranlegt. Mat um þau atriði sem 5. gr., sbr. 7. og 9. gr., girðingarlaga tilgreini, og kveði á um að undir fagaðila heyri að úrskurða um, sé á sviði stjórnsýsluréttar. Það sé því ekki í verkahring dómsins að framkvæma slíkt mat þó svo stefnendur hafi látið undir höfuð leggjast að fara réttar leiðir í því efni.

Kröfu sína um sýknu reisa stefndu jafnframt á þeirri málsástæðu að með öllu sé ósannað í málinu hvað hafi verið nauðsynlegur, sanngjarn og eðlilegur kostnaður við framkvæmdina. Það eitt leiði til sýknu, enda hvíli sönnunarbyrðin um réttmæti dómkrafna alfarið á stefnendum. Stefnendur hafi einungis lagt fram í málinu nokkra reikninga, stílaða á ýmsa aðila, er tæplega geti talist fullnægjandi sönnun fyrir verkkostnaði sem stefndu eigi að bera ábyrgð á. Áfelli í málinu verði ekki dæmt nema sannað sé lögfullri sönnun að kostnaður sé hæfilegur og sanngjarn og allur vegna umræddrar girðingar. Segja stefndu slíkt mat raunar eiga undir fagkunnandi aðila skv. 5. gr. girðingarlaga.

Stefndu kveðast enn fremur byggja sýknukröfu sína á því að ósannað sé með öllu að fé frá jörðinni Núpi hafi farið inn í skógrækt á jörðunum Klukkulandi og Hólakoti og valdið þar spjöllum. Einungis njóti við um þetta atriði staðhæfinga stefnenda sjálfra og mótmæli stefndu þeim sem röngum og ósönnuðum. Sönnunarbyrðin um réttmæti staðhæfinganna hvíli alfarið á stefnendum og hafi engin gögn verið lögð fram í málinu því til stuðnings að nauðsynlegt hafi verið að girða milli jarðanna af þessum sökum. Stefnendur hafi sjálfir skipt um skoðun í þessu efni eftir að þeir hófu samstarf við Skjólskóga. Svo virðist sem stjórn Skjólskóga hafi tekið óstaðfestar fullyrðingar stefnenda um þetta sem staðreyndir, sem kannski sé ekki að undra þar sem einn stefnenda sé framkvæmdastjóri Skjólskóga og þörfin sögð hvíla á mati hans. Þá segja stefndu allt að einu ljóst að girðingin nýtist þeim ekki að neinu leyti heldur þvert á móti vera til tjóns, þar sem girt sé sums staðar of nærri Núpsá, sem í sé fiskveiði.

Þá telja stefndu að girðingarframkvæmd stefnenda kunni að fara í bága við náttúruverndarlög nr. 44/1999, og eftir atvikum skipulagslög, enda fari girðingin víða of nærri Núpsá og geti þar orðið til trafala, til dæmis við veiðar. Enn fremur draga stefndu í efa að einhliða girðingarframkvæmdir stefnenda meðfram bökkum Núpsár, með tilheyrandi ruðningi akvegar fram Núpsdal, standist ákvæði laga nr. 6/2006 um lax- og silungsveiði. Segjast stefndu ekki verða knúnar til þess með dómi að greiða hlutdeild í ólögmætri framkvæmd.

Enn fremur vísa stefndu til þess að ekki verði séð varðandi aðild málsins að allir stefnendur geti átt kröfur á hendur stefndu, ef þá nokkur þeirra. Sýnist stefndu ljóst vera að a.m.k. einn eða fleiri stefnenda búi við aðildarskort í málinu. Því beri í öllu falli að sýkna stefndu af kröfum þess eða þeirra stefnenda, sem ekki eigi aðild að dómkröfum og tildæma stefndu sérstaklega málskostnað úr þeirra hendi.

Að lokum, hvað aðalkröfu varðar, segjast stefndu sérstaklega mótmæla vaxtakröfu stefnenda, þ.m.t. upphafstíma hennar, sbr. nánari umfjöllun um varakröfu hér á eftir.

Verði ekki fallist á kröfu stefndu um sýknu krefjast þær verulegrar lækkunar á dómkröfum stefnenda, meðal annars á þeim grunni að með öllu sé ósannað að öll umstefnd fjárhæð sé réttmæt fjárkrafa á hendur stefndu. Hana eigi til að mynda að lækka stórlega vegna greiðsluþátttöku hins opinbera, og af mörgum fleiri ástæðum einnig. Benda stefndu á að almennt verði ekki lesið út úr framlögðum skjölum að um sé að ræða sanngjarnan og eðlilegan kostnað við framkvæmdina. Dragi stefndu í efa að leitað hafi verið eftir tilboðum í verkþættina, og þá eftir atvikum að því hagstæðasta hafi verið tekið. Þá séu sumir hinna framlögðu reikninga stílaðir á aðila utan hóps stefnenda.

Stefndu vísa til þess að hinu opinbera fjármagni, 97% af girðingarkostnaði, sé ætlað að vera kostun á verkinu í heild en ekki einungis á kostnaðarhlutdeild skógarbónda á móti öðrum. Þá hafi kostnaðarmat Skjólskóga bundið hendur stefnenda um að ráðast ekki í dýrari framkvæmd en greidd yrði með nefndri 97% hlutdeild að viðbættri 3% hlutdeild annarra viðkomandi. Því ætti krafa á hendur stefndu einungis að geta numið 1,5% af kostnaðarmati Skjólskóga, enda hafi stefnendum borið að halda kostnaði við verkið innan mats Skjólskóga og þeir ekki aflað sjálfstæðs mats úrskurðaraðila skv. 5. gr. laga nr. 135/2001 á nauðsynlegum kostnaði. Hafi meiru verið kostað til sé um að kenna fjárstjórn stefnenda sem þeir einir beri ábyrgð á.

Af hálfu stefndu er á því byggt að kostnaðarkrafa á hendur stefndu geti aldrei orðið hærri en helmingur af eftirstöðvum kostnaðar stefnenda þegar hið opinbera framlag hafi verið dregið frá réttmætum heildarkostnaði og eftir að dregnir hafi verið frá einstakir kostnaðarliðir stefnenda. Jafnframt benda stefndu á að stefnandinn Tré ehf. geti nýtt greiddan virðisaukaskatt sem innskatt í rekstri sínum og þannig lækkað raunkostnað sinn. Allan virðisaukaskatt eigi því að draga frá heildarfjárhæð áður en hið opinbera fé sé dregið frá.

Stefndu byggja enn fremur á því að stefnendur hafi við framkvæmdina lagt út í óþarfan kostnað, svo sem með ruðningi vegar fram Núpsdal og e.t.v. Geldingadal, sem komi fremur að ýmsum notum öðrum en viðkomi girðingunni. Þá hefði mátt vinna girðingarverkið með sparlegri tækjakosti en gert var. Slíkur umframkostnaður skuli koma til lækkunar á heildarfjárhæð. Stefndu benda einnig á að með öllu sé órökstutt hvernig og þá að hve miklu leyti framlagður reikningur Kjarnasögunar ehf. sé viðkomandi girðingarvinnunni. Mótmæla stefndu því sérstaklega að kostnaður við jarðýtu, sbr. framlögð gögn, geti talist nauðsynlegur þáttur í girðingarvinnunni. Telja stefndu umrædda kostnaðarliði vera vegna vegalagningar stefnenda fram Núpsdal, og eftir atvikum Geldingadal, sem í sjálfu sér hafi ekki verið nauðsyn á vegna lagningar girðingarinnar, en hafi þjónað stefnendum hins vegar prýðilega til annarrar umferðar um jarðnæði sitt, hvort heldur er varðandi skógræktina eða aðrar þarfir. Halda stefndu því fram að nægt hefði að hafa við verkið dráttarvél eða traktorsgröfu, auk kerru, en ekki bæði dráttarvél og traktorsgröfu, og þaðan af síður jarðýtu til viðbótar.

Þá vísa stefndu til þess að engin gögn liggi fyrir um svonefndan umsýslukostnað. Þeim kröfulið segjast stefndu mótmæla sérstaklega sem óréttmætum og ósönnuðum.

Að lokum mótmæla stefndu vaxtakröfu stefnenda. Telja þær stefnendur einungis geta gert vaxtakröfu sína frá dómsuppsögu, eins og atvikum máls sé háttað. Þá mótmæla stefndu vaxtafæti sem of háum.

Til stuðnings kröfum sínum vísa stefndu meðal annars til ákvæða girðingarlaga nr. 135/2001, einkum 1. mgr. 1. gr., 5. gr., 7. gr. og 9. gr. Jafnframt vísa stefndu til 1. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki og almennra reglna einkamálaréttarfars um sönnunarfærslu, sönnunarbyrði og sönnunarmat, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en einnig sérstaklega til 18., 19., og 80. gr. laganna, stafliða d, e og f.

IV

Ekki verður séð að meginreglur vinnuréttar um endurgjald fyrir vinnu geti verið kröfum stefnenda til stuðnings, svo sem vísað hefur verið til af þeirra hálfu, enda með öllu ósannað að stefndu hafi með einhverjum hætti ráðið stefnendur til að reisa hina umdeildu girðingu.

Skv. 1. mgr. 1. gr. girðingarlaga nr. 135/2001 er markmið laganna að fjalla um girðingar, hverjir fari með forræði yfir þeim og kostnaðarskiptingu við uppsetningu þeirra á landamerkjum. Gilda lögin um allar girðingar, sbr. 2. mgr. sömu greinar.

Kröfur sínar á hendur stefndu gera stefnendur á grundvelli 5. gr. laga nr. 135/2001. Í 1.-3. málslið 5. gr. er kveðið á um að vilji umráðamaður lands girða það hafi hann rétt til að krefjast þess að sá eða þeir sem land eiga að hinu fyrirhugaða girðingarstæði greiði girðingarkostnaðinn að jöfnu að tiltölu við lengd girðingar fyrir landi hvers og eins og er það meginreglan. Þó er hægt að semja um aðra skiptingu nái aðilar um það samkomulagi. Eigi síðar en ári áður en verk er hafið skal sá er samgirðingar óskar hafa samráð við þann eða þá sem land eiga að hinu fyrirhugaða girðingarstæði og leggja fram tillögur um tegund girðingar. Af gögnum málsins þykir mega ráða að stefnendur hafi fylgt þessum fyrirmælum 5. gr. girðingar­laga, sbr. bréf þeirra til stefndu frá 15. febrúar og 10. maí 2010.

Í 5. og 6. málslið 5. gr. laga nr. 135/2001 er síðan kveðið á um það að neiti sá eða þeir er samgirðingar eru krafðir þátttöku í undirbúningi eða framkvæmd verksins geti sá er girða vill beint tilmælum til viðkomandi búnaðarsambands um að tilnefna fagaðila til að skera úr um ágreining, sbr. ákvæði 7. gr. Telji úrskurðaraðilar að sá sem girða vill eigi rétt á samgirðingu getur hann sett girðinguna upp og á hann þá kröfurétt á endurgreiðslu á þeim hluta kostnaðar er hinum ber að greiða, enda hafi ekki verið reist dýrari girðing en úrskurðaraðilar töldu nauðsynlegt.

Tilvitnuð fyrirmæli 5. gr. laga nr. 135/2001 eru skýr um hvað umráðamaður lands skuli gera neiti sá eða þeir er samgirðingar eru krafðir þátttöku í undirbúningi eða framkvæmd verksins. Ljóst er af bréfi stefndu frá 31. janúar 2010 og bréfi þeirra undirrituðu 20. og 23. september 2010 að stefndu neituðu þátttöku í undirbúningi og framkvæmd girðingarframkvæmda þeirra sem stefnendur vildu ráðast í og töldu þær sér óviðkomandi. Var þessi afstaða stefndu enn áréttuð með bréfi þeirra undirrituðu 23. og 24. maí 2011.

Að fenginni framangreindri afstöðu stefndu bar stefnendum að beina tilmælum til viðkomandi búnaðarsambands um að tilnefna fagaðila til að skera úr um ágreining, sbr. ákvæði 7. gr. laga nr. 135/2001. Sýndu stefnendur viðleitni í þá veru, en svo sem rakið er í kafla I hér að framan fór stefnandinn Tré ehf. þess á leit við sýslumanninn á Ísafirði og Búnaðarsamband Vesturlands með bréfi 7. desember 2010 að þeir aðilar hlutuðust til „... um lausn ágreinings varðandi reglur girðingarlaga, sé ágreiningur talinn vera fyrir hendi.“ Sýslumaðurinn á Ísafirði svaraði erindi Trjáa ehf. 13. janúar 2011 og vísaði beiðni félagsins frá. Sagði meðal annars í bréfi embættisins að rétt þætti að málsaðilar óskuðu formlega eftir „tilskipun“ sýslumanns um fagaðila í nefnd skv. 1. málslið 1. mgr. 7. gr. girðingarlaga og legðu fram rökstuðning þess efnis að ágreiningur væri fyrir hendi. Ekki verður hins vegar séð af gögnum málsins að Búnaðarsamband Vesturlands hafi svarað umræddu erindi Trjáa ehf.

Stefnendur áttu þess ekki annan kost í þeirri stöðu sem upp var komin samkvæmt áðursögðu, teldu þeir að stefndu bæri á grundvelli 5. gr. laga nr. 135/2001 að greiða hlutdeild í kostnaði við títtnefndar girðingarframkvæmdir, og hygðust þeir í framhaldinu krefja stefndu um greiðslu þess kostnaðar, en fylgja fyrirmælum 5. gr., sbr. 7. gr., og óska eftir því að fagaðilar yrðu tilnefndir til að skera úr um ágreining málsaðila. Ljóst er af orðum 5. gr. girðingarlaga að það var úrskurðaraðila samkvæmt þeirri grein, sbr. 7. gr. sömu laga, að skera úr um það hvort stefnendur ættu rétt á samgirðingu, og síðan eftir atvikum skera úr um hvers konar girðingu skyldi reisa, kostnaðarskiptingu og um aðra framkvæmd verksins.

Ekki getur komið til álita hér að dómurinn leggi efnislegt mat á þau atriði sem úrskurðaraðilum skv. 5. gr., sbr. 7. gr., laga nr. 135/2001 er ætlað að meta þar sem umræddir fagaðilar voru aldrei tilnefndir og því liggur afstaða lögmælts úrskurðaraðila til ágreinings aðila ekki fyrir. Þegar að þessu gættu og þar sem stefnendur fóru ekki að fyrirmælum 5. gr. girðingarlaga, sbr. 7. gr. sömu laga, samkvæmt áðursögðu er sú niðurstaða ein tæk að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnenda í málinu.

Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verða stefnendur dæmdir til greiðslu málskostnaðar. Skv. 1. mgr. 132. gr. laganna skal samaðilum að jafnaði dæmdur málskostnaður í einu lagi. Eins skal farið að ef dæma á samaðila til greiðslu málskostnaðar, en þá ábyrgjast þeir greiðslu einn fyrir alla og allir fyrir einn. Samkvæmt þessu verða stefnendur dæmdir óskipt til að greiða stefndu málskostnað í einu lagi, sem hæfilega þykir ákvarðaður, að virtu umfangi málsins og þeim tíma sem fór í ferðalög hjá lögmanni stefndu, svo sem í dómsorði greinir.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D Ó M S O R Ð:

Stefndu, Margrét Rakel Hauksdóttir og Áslaug Sólbjört Jensdóttir, skulu sýkn af kröfum stefnenda, Brynjólfs Jónssonar, John Francis Zalewski, Sæmundar Kristjáns Þorvaldssonar, Lúðvíks Emils Kaaber, og Trjáa ehf., í máli þessu.

Stefnendur greiði stefndu óskipt 800.000 krónur í málskostnað.