Hæstiréttur íslands
Mál nr. 197/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Mánudaginn 4. apríl 2011. |
|
Nr. 197/2011. |
A (Bjarni Hauksson hrl.) gegn B(Margrét Gunnlaugsdóttir hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að A yrði sviptur sjálfræði á grundvelli a. og b. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. mars 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2011, þar sem sóknaraðili var ótímabundið sviptur sjálfræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skammur tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en þóknun skipaðs talsmanns síns, sem verði hækkuð frá því sem þar var ákveðið. Þá krefst varnaraðili kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila fyrir Hæstarétti, hæstaréttarlögmannanna Bjarna Haukssonar og Margrétar Gunnlaugsdóttur, 125.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2011.
Með beiðni, dagsettri 10. mars 2011, hefur Þyrí H. Steingrímsdóttir hrl., f.h. B, kt. [...], [...], [...], krafist þess að A, kt. [...], með lögheimili að [...], Reykjavík, verði sviptur lögræði með vísan til a- og b-liða 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild er vísað til a-liðar 7. gr. lögræðislaga, en sóknaraðili er móðir varnaraðila.
Varnaraðili mótmælir kröfunni.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 20. mars 2009, sem að efni til var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 151/2009, var varnaraðili sviptur sjálfræði í tvö ár með vísan til fyrrgreindra lagaákvæða. Varnaraðili var 4. nóvember 2008 dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar fyrir rán og hótunarbrot og skyldi hann taka út refsingu sína á stofnun samkvæmt 2. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í kröfu sóknaraðila er rakið að varnaraðili hafi dvalið á [...] að [...] uns honum var veitt reynslulausn í september 2009. Hafi staðið til að varnaraðili afplánaði síðustu mánuði fangelsisvistarinnar á [...], en aðeins nokkrum dögum eftir að hann yfirgaf [...] hafi hann verið kominn í neyslu vímuefna og geðrofsástand. Varnaraðili hafi verið vistaður á [...] að nýju og flust þaðan á deild [...] á Kleppsspítala. Í desember 2010 hafi varnaraðili farið til endurhæfingar að [...] og þaðan á áfangaheimilið [...]. Í febrúarmánuði hafi hins vegar komið í ljós að varnaraðili var kominn í mikla vímuefnaneyslu og geðrofsástand virst yfirvofandi. Var hann þá lagður inn á deild [...] á Kleppsspítala.
Meðal gagna málsins er vottorð C yfirlæknis, dagsett 21. febrúar 2011, þar sem sjúkdómssaga varnaraðila er ítarlega rakin. Kemur fram að varnaraðili greinist með [...] og [...], auk [...]. Þá hafi vímuefnaneysla hans leitt til skyndisturlunar, sem líkist [...] og geti varað um lengri tíma. Haustið 2009 hafi varnaraðili verið í slíku ástandi um 8 mánaða skeið. Í sturlunarlotum breytist varnaraðili mikið. Hann verði uppfullur af ranghugmyndum af aðsóknartoga. Í því ástandi sé hann hættulegur sjálfum sér og öðrum. Tekist hafi að halda sturlunareinkennum niðri með stöðugri geðrofslyfjameðferð. Í febrúarmánuði sl. hafi það hins vegar gerst að hann hafi neitað að koma í viðtöl og hafi vísbendingar verið um að hann væri byrjaður í neyslu. Hafi hann í kjölfarið verið lagður inn á geðdeild. Leggur læknirinn til að varnaraðili verði áfram sviptur sjálfræði ótímabundið. Þá verði hann jafnframt sviptur fjárræði, en þegar hann sé í neyslu sólundi hann fé sínu og stofni til skulda.
C kom fyrir dóminn sem vitni, staðfesti læknisvottorðið og áréttaði álit sitt sem þar kemur fram. Hann sagði mikilvægt að unnt væri að grípa inn í þegar þess yrði vart að varnaraðili væri farinn að neyta fíkniefna, enda veikindum hans þannig háttað að geðrof fylgi undantekningarlaust í kjölfarið. Varnaraðili eigi langt í land með að ná fullum bata og geti meðferð hans tekið nokkur ár.
Varnaraðili talaði máli sínu fyrir dóminum og sagðist hafa lagst sjálfviljugur inn á geðdeild í febrúarmánuði. Hann upplýsti að hann væri eignalaus og fengi greiddar örorkubætur, en hefði ekki aðrar tekjur.
Niðurstaða
Með framangreindu læknisvottorði C yfirlæknis og vætti sérfræðingsins fyrir dómi hefur verið sýnt fram á það að varnaraðili er, vegna alvarlegs geðsjúkdóms og vímufíknar, ófær um að ráða högum sínum sjálfur í skilningi a- og b- liðar 4. gr. lögræðislaga. Verður varnaraðili sviptur sjálfræði til að tryggja megi að hann njóti viðeigandi læknismeðferðar. Með hliðsjón af læknisfræðilegum gögnum sem liggja fyrir í málinu þykja ekki efni til að ákveða tímabundna sviptingu.
Að mati dómsins hafa ekki verið færð nægileg rök fyrir nauðsyn þess að varnaraðili verði jafnframt sviptur fjárræði og er kröfu þar um hafnað.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða málskostnað, 279.000 krónur, úr ríkissjóði, þar með talið þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Þyríar H. Steingrímsdóttur hrl., og verjanda, Bjarna Haukssonar hrl., 90.000 krónur til hvors um sig að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Varnaraðili, A, er sviptur sjálfræði.
Málskostnaður, 279.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talið þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Þyríar H. Steingrímsdóttur hrl., og verjanda, Bjarna Haukssonar hrl., 90.000 krónur til hvors um sig.