Hæstiréttur íslands

Mál nr. 138/2008


Lykilorð

  • Áfrýjun
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2008.

Nr. 138/2008.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari)

gegn

Gunnari B. Halldórssyni

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Áfrýjun. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Yfirlýsing G við dómsuppsögu sem gefin var að viðstöddum verjanda um að hann hefði unað héraðsóminum var talin bindandi. Þá var áfrýjunarstefna í málinu gefin út of seint. Var málinu vísað frá Hæstarétti af þeim sökum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. febrúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða og sviptingu ökuréttar, en að refsing verði þyngd.

Ákærði krefst þess nú að refsing verði milduð með því að hún verði öllu leyti skilorðsbundin. 

Í héraði var farið með málið samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Málið var tekið til dóms á þingfestingardegi 20. desember 2007 að lokinni reifun sakflytjenda um lagaatriði og viðurlög og eftir að ákærði hafði reifað sjónarmið um persónulega hagi sína. Var kveðinn upp dómur í málinu í sama þinghaldi og síðan bókað: „Dómsorðið er lesið í réttinum í heyranda hljóði að viðstöddum fulltrúa ákæruvaldsins, dómfellda og verjanda hans. Dómfelldi unir dómi.“ Endurrit dómsins er staðfest sama dag.

Rúmlega mánuði eftir birtingu dómsins, eða 21. janúar 2008, barst ríkissaksóknara bréf núverandi verjanda ákærða þar sem lýst var yfir að ákærði óskaði áfrýjunar dómsins til mildunar á refsingu og að ökuréttarsviptingu yrði markaður skemmri tími en í héraðsdómi greinir. Áfrýjunarstefna var gefin út 22. febrúar 2008.

Af hálfu ákærða er því haldið fram að hann muni ekki eftir að hafa gefið framangreinda yfirlýsingu, sem bókuð var eftir honum við uppkvaðningu dómsins, og hann hafi vegna andlegra veikinda sinna ekki verið í stakk búinn til að gefa slíka yfirlýsingu. Hins vegar er ekki á því byggt að framburður ákærða og aðrar yfirlýsingar í þinghaldinu hafi verið ómarktækar. Þegar litið er til þess að verjandi ákærða var ásamt honum viðstaddur þinghaldið og uppkvaðningu dómsins verður að telja að ekki skipti máli þótt endurritið beri ekki með sér að ákærða hafi verið kynntur réttur til áfrýjunar og frestur til að lýsa henni yfir, sbr. 1. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991. Verður af þeim sökum að leggja til grundvallar að ákærði hafi fallið frá áfrýjun dómsins með bindandi hætti. Efni framangreinds bréfs 21. febrúar 2008 er ósamþýðanlegt þeirri afstöðu. Áfrýjunarstefna var gefin út að liðnum þeim átta vikna fresti sem mælt er fyrir um í 152. gr. laga nr. 19/1991. Verður málinu samkvæmt framansögðu vísað frá Hæstarétti.

Ákærði verður dæmdur til að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem samtals nemur 161.952 krónum, þar sem með eru talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur. Helmingur kostnaðarins greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2007.

   Málið er höfðað með ákæru útgefinni 10. desember, 2007 á hendur:

   ,,Gunnari B. Halldórssyni, kt. 130565-3289,

   Miklubraut 20, 105 Reykjavík,

fyrir eftirtalin brot framin á árinu 2007 á heimili ákærða að Miklubraut 20 í Reykjavík, nema annað sé tekin fram:

I.

Fíkniefnalagabrot:

1. Að kvöldi fimmtudagsins 31. maí haft í vörslum sínum 1,99 g af amfetamíni, 112,37 g af hassi og 1,16 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem ákærði afhenti lögreglu og lögreglan fann við leit.

2. Að kvöldi þriðjudagsins 5. júní haft í vörslum sínum 6,31 g af amfetamíni, 10,97 g af hassi og 1,55 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem ákærði afhenti lögreglu við leit.

3. Miðvikudaginn 25. júlí haft í vörslum sínum 12,49 g af amfetamíni, 14,23 g af hassi og 1,97 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem ákærði afhenti lögreglu við leit.

4. Að kvöldi sunnudagsins 5. ágúst, bæði á heimili sínu og í bifreiðinni X haft í vörslum sínum 1,54 g af amfetamíni, 61,43 g af hassi og 0,81 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem ákærði afhenti lögreglu við leit.

5. Fimmtudaginn 16. ágúst haft í vörslum sínum 0,70 g af amfetamíni og 1,92 g af hassi, sem ákærði afhenti lögreglu við leit.

6. Mánudaginn 3. september haft í vörslum sínum 0,12 g af amfetamíni, 2,25 g af hassi og 0,94 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem ákærði afhenti lögreglu við leit.

Teljast brot þessi varða við 2. gr., sbr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. og 6. gr. sömu laga, að því er varðar meðferð ákærða á hassi og tóbaksblönduðu kannabisefni, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

II.

Umferðarlagabrot, með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 5. ágúst ekið bifreiðinni X, óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, frá heimili sínu að Miklubraut 20, þar til lögregla stöðvaði akstur bifreiðarinnar við gatnamót Hverfisgötu og Snorrabrautar.

ML. 007-2007-59794

Telst brot þetta varða við 1. og 2. mgr. 45. gr. a, sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006.

III.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006 og jafnframt að 23,15 g af amfetamíni, 203,17 g af hassi og 6,43 g af tóbaksblönduðu kannabisefni sem lögreglan lagði hald á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“

   Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og málsvarnarlauna að mati dómsins.             Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann  hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða.

   Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.

   Hinn 28. apríl 2006 hlaut ákærði 5 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot. Með brotum sínum nú hefur hann rofið skilorð og er dómurinn dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði hefur játað brot sín hreinskilnislega og er það virt honum til refsilækkunar. Þykir refsingin hæfilega ákvörðuð fangelsi í 6 mánuði.

   Með vísan til tilvitnaðra ákvæða umferðarlaga í ákæru skal ákærði sviptur ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dómsins að telja.

   Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 skal ákærði sæta upptöku á 23,15 g af amfetamíni, 203,17 g af hassi og 6, 43 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Ákærði greiði 90.453 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvalds.

Ákærði greiði 100.000 krónur í málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns að meðtöldum virðisaukaskatti.

   Dröfn Kærnested, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

   Ákærði, Gunnar B. Halldórsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

   Ákærði sæti sviptingu ökuréttar í 12 mánuði frá birtingu dómsins að telja. Ákærði sæti upptöku á 23,15 g af amfetamíni, 203,17 g af hassi og 6, 43 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Ákræði greiði 90.453 krónur í útlagðan sakarkostnað.

Ákærði greiði 100.000 krónur í málsvarnarlaun til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns.