Hæstiréttur íslands

Mál nr. 271/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


         

Fimmtudaginn 7. júní 2007.

Nr. 271/2007.

X hf.

(Sigurbjörn Þorbergsson hdl.)

gegn

K

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)

 

Kærumál. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

X hf. stefndi K til greiðslu reiknings vegna efniskostnaðar og vinnu við frágang á íbúðarhúsnæði, sem hún hafði fest kaup á árið 2001 með þáverandi sambúðarmanni sínum, sem er sonur fyrirsvarsmanns félagsins. Samkvæmt framburði fyrirsvarsmanns og starfsmanns X hf. hafði reikningsgerðin stuðst við ýmis gögn. Þar sem þessi gögn höfðu ekki nema í litlum mæli verið lögð fram í málinu var talið að félagið hefði ekki lagt fullnægjandi grundvöll að kröfu sinni og því bæri að vísa málinu af sjálfsdáðum frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. apríl 2007, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði reisir sóknaraðili kröfu sína á reikningi 23. nóvember 2005 að fjárhæð 3.215.683 krónur vegna efniskostnaðar og vinnu við frágang íbúðarhúsnæðis, sem varnaraðili festi kaup á í desember 2001 með þáverandi sambúðarmanni sínum, sem er sonur fyrirsvarsmanns sóknaraðila. Varnaraðili telur sig ekki vera í skuld við sóknaraðila og vísar til þess að skuldin, að því marki sem hún hafi verið til staðar, hafi verið að fullu greidd árið 2004. Telur hún að áðurnefndur reikningur sé tilbúningur frá rótum og að sóknaraðili hafi ekki unnið öll þau verk, sem tilgreind eru á fylgiskjali með reikningnum, þar sem fjárhæð hans er sundurliðuð.

Í skýrslu, sem tekin var af fyrirsvarsmanni sóknaraðila við meðferð málsins í héraði, kvaðst hann við gerð reikningsins hafa stuðst við ýmis gögn, sem verkstjóri hjá sóknaraðila hafi látið honum í té. Verkstjórinn bar ennfremur fyrir dómi að fjárhæðir á fyrrgreindu fylgiskjali væru samkvæmt nótum og öðru“. Engin gögn af þessu tagi hafa verið lögð fram í málinu um 15 af 16 liðum í fylgiskjalinu. Er fallist á með héraðsdómara að sóknaraðili hafi af þeim sökum ekki lagt fullnægjandi grundvöll að kröfu sinni og að vísa beri málinu af sjálfsdáðum frá dómi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, X hf., greiði varnaraðila, K, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. apríl 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var 30. mars sl., er höfðað 19. október 2006 af X ehf., [...] Reykjavík, á hendur K, [...], Kópavogi.

             Stefnandi krefst þess aðallega að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda 3.215.683 krónur, til vara 2.383.422 krónur, til þrautavara 1.665.000 krónur en að því frágengnu 1.290.000 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur frá 23. nóvember 2005 til greiðsludags, auk málskostnaðar.

             Stefnda krefst sýknu og málskostnaðar.

I.

Í máli þessu krefur stefnandi stefndu um greiðslu reiknings fyrir vinnu og efni vegna frágangs í Y, Reykjavík frá því eignin var tilbúin undir tréverk og þar til hún var fullbúin.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrirsvarsmenn stefnanda, A og B, en þau eru eigendur stefnanda og eru í hjúskap. Þá gaf stefnda aðilaskýrslu. Vitnaskýrslur gáfu M, sonur framangreindra fyrirsvarsmanna stefnanda og fyrrum eiginmaður stefndu. Einnig gáfu vitnaskýrslur C, verkstjóri hjá stefnanda og D, verkstjóri hjá undirverktaka hjá stefnanda, en sá síðarnefndi annaðist að sögn loftaklæðningu í húsinu að Y. Þá gáfu vitnaskýrslur E, F og G, kunningjar stefndu.

Í stefnu er málavöxtum lýst með þeim hætti að þann 20. desember 2001 hafi stefnda og M undirritað kaupsamning þar sem þau hafi keypt af stefnanda raðhúsið nr. 9 við Y í Reykjavík. Raðhúsið hafi átt að afhenda tilbúið til innréttinga að innan og fullbúið að utan í júlí 2002. Umsamið kaupverð samkvæmt kaupsamningi hafi verið 15.800.000 krónur, en upphaflega hafi kaupverðið átt að vera 17.800.000 krónur. Stefnda og M hafi ekki staðist greiðslumat vegna húsbréfaláns og hafi kaupverð því verið lækkað til málamynda svo þau stæðust greiðslumat íbúðalánasjóðs. Hafi við ákvörðun kaupverðs verið tekið tillit til fjölskyldubanda aðila auk þess sem faðir stefndu hafi unnið nokkra raflagnavinnu í húsinu sem ekki skyldi innheimt með öðrum hætti en í formi afsláttar sem hafi verið innifalinn í upphaflega umsömdu kaupverði. Eignarhaldi hafi verið þinglýst þannig að M hafi verið sagður eigandi 75% eignarinnar en stefnda 25%. M sé sonur eigenda stefnanda. Stefnda og M hafi gengið í hjúskap í júlí 2003 en séu nú skilin. Í tengslum við opinber skipti til fjárslita milli þeirra hafi verið rekið ágreiningsmál fyrir dómstólum og liggi niðurstaða fyrir með dómi Hæstaréttar í máli nr. 273/2006.

Stefnandi hafi unnið talsvert við að fullklára raðhúsið frá því byggingastigi sem það hafi verið afhent í, þ.e. tilbúið til innréttinga. Stefnandi hafi lánað stefndu og M fyrir þessum kostnaði og sé hann allur í skuld í dag og sé ábyrgð þeirra óskipt gagnvart stefnanda. M hafi náð samkomulagi við stefnanda um uppgjör á helmingshluta en stefnda hafi ekki fengist til að greiða helming á móti M svo sem stefnandi hafi gert kröfu um.

Kaupverð hússins hafi verið greitt þannig að 9.000.000 krónur hafi verið greiddar með húsnæðisláni frá Íbúðalánasjóði. Frá þeirri fjárhæð hafi dregist 90.000 krónur í formi lántökugjalds og 136.200 krónur vegna stimpil- og þinglýsingargjalds. Alls hafi runnið 8.776.800 krónur af Íbúðalánasjóðsláninu til stefnanda. Þá liggi fyrir að M hafi greitt sérstaklega 7.687.722 krónur samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 273/2006. Auk þessa hafi verið greiddar 1.000.000 krónur til viðbótar til stefnanda eða samtals 17.464.522 krónur. Hið raunverulega kaupverð 17.800.000 krónur hafi því aldrei verið greitt að fullu.

Heildarkostnaður sem krafinn hafi verið vegna vinnu stefnanda við að fullklára húsið hafi numið 6.431.367 krónum og hafi verkið verið unnið frá afhendingu hússins síðsumars 2002 og fram til ársins 2004 þegar innréttingar hafi verið kláraðar. Þáverandi tengdamóðir stefndu, B, hafi útbúið skattframtöl fyrir son sinn og stefndu. Hafi sú vinna verið unnin af hennar hálfu eins og önnur framtalsgerð fyrir þriðja aðila á ábyrgð viðkomandi framteljanda. Á skattframtali ársins 2002 fyrir tekjuárið 2001 sé talin fram skuld stefndu og M við stefnanda að fjárhæð 10.800.000 krónur. Á framtali ársins 2003 fyrir tekjuárið 2002 sé talin fram sem skuld við stefnanda 1.500.000 krónur og á framtali ársins 2004 fyrir tekjuárið 2003 sé talin fram sem skuld stefndu og M við stefnanda 750.000 krónur. Vinna við innréttingar alls að fjárhæð 1.847.431 króna (utan efniskostnaðar) hafi verð unnin á árinu 2004 og sá kostnaður því ekki fallinn til þegar áðurnefnd skattframtöl hafi verið gerð.

Á dómskjali nr. 3 sé lögð fram sundurliðun á verki stefnanda í þágu stefndu og M. Þar komi fram að stefnandi hafi kostað lóðafrágang, innréttingar, frágang lofta, innkaup og lagningu gólfefna, keypt tæki, sett upp sólbekki, keypt hillur í bílskúr, greitt skipulagsgjald og greitt aukakostnað vegna gólfhita, alls umkrafið 6.431.367 krónur. Þessi kostnaður sé hóflega reiknaður og taki tillit til vensla málsaðila.

Stefnandi leggi fram dómskjal nr. 4, sem sé samantekt á kostnaði við smíði innréttinga dags. 29. nóvember 2004. Þar komi fram að kostnaður við innréttingar vegna vinnu hafi numið 1.847.431 krónu með virðisaukaskatti. Auk þessa hafi verið efniskostnaður 125.370 krónur vegna spónlagðs kirsuberjaviðar og 68.951 króna fyrir höldur, samtals 2.041.752 krónur. Um hafi verið að ræða sérsmíði á innréttingum og skápahurðum auk þess sem stefnandi hafi séð um uppsetningu innréttingarinnar. Á dómskjali nr. 3 sé hlutur innréttingar í heildarkostnaði sagður vera 1.830.000 krónur og verði miðað við þá fjárhæð í kröfugerð á hendur stefndu, sem sé henni mjög til hagsbóta.

Stefnda hafi ítrekað verið krafin um greiðslu á skuld sinni við stefnanda en hún hafi ekki fengist til að greiða þrátt fyrir innheimtutilraunir. Stefnandi sé því neyddur til að höfða mál til heimtu þessarar kröfu sinnar.

Stefnda kveður í greinargerð sinni nauðsynlegt að mótmæla fjölmörgum rangfærslum og staðreyndavillum sem fram komi í málavaxtalýsingu í stefnu. Staðreyndin sé sú að stefnda og sonur fyrirsvarsmanns stefnanda hafi keypt saman raðhúsið að Y, Reykjavík og hafi húsið átt að afhendast tilbúið til innréttinga að innan en fullbúið að utan. Stefnda kveðst mótmæla fullyrðingum um að stefnda og sonur fyrirsvarsmanns stefnanda hafi ekki staðist greiðslumat og því hafi kaupverðið verið lækkað í 15.800.000 krónur til málamynda. Kaupverðið hafi verið 15.800.000 krónur, sbr. kaupsamning. Einnig kveðst stefnda mótmæla fullyrðingum í stefnu um hvernig kaupverðið hafi verið innt af hendi. Þær upplýsingar liggi fyrir í gögnum málsins. Kaupsamingur sem liggi fyrir í málinu tilgreini eiginlegt kaupverð og hafi það verið í fullu samræmi við markaðsverð á þeim tíma. Greiðslum vegna kaupverðs hafi hins vegar verið hliðrað til og þær lækkaðar um 1.931.208 krónur, eins og sjá megi í dómskjali nr. 18, sökum þess að ákveðið hafi verið að faðir stefndu, sem sé rafvirki, tæki að sér að sjá um alla rafmagnsvinnu í húsinu, en sá verkliður hafi átt að vera innifalinn í kaupverðinu frá stefnanda og vera lokið þegar húsið væri tilbúið til innréttinga. Fullt samkomulag hafi verið við stefnanda um að faðir stefndu skyldi alfarið sjá um þá vinnu og hafi stefnda og sonur fyrirsvarsmanns stefnanda því átt inneign hjá stefnanda, sem numið hafi þeirri fjárhæð, sem bæði hafi getað runnið til efniskaupa og smíði innréttinga. Þessi staðreynd hafi verið ágreiningslaus, sbr. að lögmaður sonar fyrirsvarsmanns stefnanda hafi m.a. látið bóka á skiptafundi 15. apríl 2005 að óumdeilt væri að faðir stefndu, sem væri rafverktaki hefði lagt allt rafmagn í fasteignina.

Mótmælt sé öllum fullyrðingum í stefnu um að kaupverðið hafi ekki verið að fullu greitt og skuld á skattframtali sé vegna þess. Kaupverðið hafi verið að fullu greitt með greiðslu á fasteignaveðbréfum að fjárhæð 9.000.000 krónur og með hluta af þeirri peningagreiðslu að fjárhæð 7.587.782 krónur, sem komið hafi út úr sölu fasteignarinnar að Z sem hafi verið þinglýst eign sonar fyrirsvarsmanns stefnanda. Hafi því einungis þurft að nota um 4.900.000 krónur af þeirri útborgunargreiðslu úr Z til að greiða kaupverðið að fullu til stefnanda, þegar tekið hafði verið tillit til frádráttar vegna rafmagnsvinnu við fasteignina. Hafi kaupverðið þannig strax verið greitt að fullu og stefnda hafi fengið afsal fyrir fasteigninni 16. ágúst 2002, þar sem skýrlega hafi verið tekið fram af hálfu stefnanda að kaupverðið sé að fullu greitt. Sé öllum fullyrðingum í stefnu um annað harðlega mótmælt.

Stefnandi hafi afhent stefndu og þáverandi eiginmanni hennar húsið fullbúið til innréttinga og hafi þau sjálf tekið við allri vinnu við að fullklára fasteignina. Það hafi þau að langmestu leyti gert sjálf, en þau hafi keypt ýmislegt efni í gegnum ættingja sem notið hafi afsláttarkjara, m.a. hjá Húsasmiðjunni og Agli Árnasyni í gegn um stefnanda, allt rafmagnsefni hafi verið keypt í gegn um föður stefndu og ýmis rafmtæki í eldhús og fl. hafi verið keypt í gegn um bróður stefndu, sem þá hafi unnið hjá ELKO. Stefnandi reki trésmiðju með umtalsverða byggingastarfsemi og því njóti félagið góðra afsláttarkjara sem eðlilegt hafi þótt að stefnda og sonur fyrirsvarsmanns stefnanda myndu njóta auk þess sem stefnandi hafi getað gjaldfært virðisaukaskattinn í bókhald sitt og stefnda og þáverandi eiginmaður hennar þá losnað undan að greiða hann. Hafi þessi háttur því verið hagur beggja aðila. Sýnishorn af pöntun í hurðir frá Húsasmiðjunni í fasteignina Y á dómskjali nr. 23 sýni að útselt myndu 7 stk. af 80 cm hurðum úr eik hafa kostað 131.558 krónur en með afslætti til stefnanda 93.099 krónur og hafi þá virðisaukaskattur verið innifalinn. Afslátturinn til stefnanda hafi þannig verið 30%. Fyrir stefndu hafi verðið því verið á endanum án virðisaukaskatts 74.779 krónur í stað 131.558 króna og hafi því verið nánast helmingsmunur á verðinu. Sé því ljóst að báðir málsaðila hafi haft hag af því að viðskiptin færu fram í gegn um stefnanda.

Stefnda kveðst fullyrða að aðilar hafi haldið vel utan um allar úttektir stefndu og sonar fyrirsvarsmanns stefnanda, sem farið hafi í gegn um stefnanda og hafi úttektirnar ýmist verið greiddar jafnóðum um mánaðarmót eða færðar til skuldar og sú skuld færð á skattframtöl stefndu. Stefnandi sé stór byggingaverktaki og í bókhaldi stefnanda hafi verið haldið utan um úttektirnar jafnóðum og þær hafi átt sér stað og reikningar hafi borist. Ef úttektirnar hafi ekki verið greiddar strax hafi þær verið færðar stefndu og syni fyrirsvarsmanns stefnanda til skuldar og tilgreind á skattskýrslu ár hvert sú fjárhæð sem þau hafi skuldað stefnanda. Annar eigenda stefnanda B, sem sé 20% hluthafi, hafi bæði séð um að færa bókhald fyrir stefnanda og eins hafi hún séð um gerð skattskýrslu fyrir stefndu og þáverandi eiginmann hennar. Á skattframtali 2002 hafi skuld við stefnanda verið 10.800.000 krónur sem skýrist aðallega af því að á því tímamarki hafi fasteignin að Z ekki verið seld. Á skattframtali 2003, sé skuldin 1.500.000 krónur og hafi framkvæmdir á því ári verið í algjöru hámarki enda hafi stefnda og fyrrum eiginmaður hennar flutt inn í fasteignina nánast fullbúna í nóvember 2002. Á skattframtali 2004 sé skuldin 750.000 krónur og framkvæmdum þá nánast öllum lokið. Stefnda fullyrði að sú skuld hafi verið að fullu greidd við skilnað hennar og fyrrum eiginmanns hennar og hafi það verið niðurstaða skiptastjóra við úrlausn málsins að draga einungis frá skuld við Íbúðarlánasjóð en ekki við stefnanda, eins og sjáist á dómskjölum nr. 28 og 29. Hafi þeirri niðurstöðu ekki verið mótmælt af hálfu sonar fyrirsvarsmanns stefnanda.

Stefnda hafi skilið við son fyrirsvarsmanns stefnanda í ágúst 2004 og hafi hún þá flutt út úr fasteign þeirra. Sonur fyrirsvarsmanns stefnanda hafi hvorki viljað gera samkomulag um fjárskipti milli þeirra eða semja um forsjá barns þeirra og hafi komið til kasta Héraðsdóms Reykjavíkur að skera úr ágreiningi um hvoru tveggja. Stefnda telji málshöfðun stefnanda nú augljósan tilbúning þegar ljóst sé orðið að stefnda hafi fengið meira út úr fjárskiptum við fyrrverandi eiginmann sinn en hann og stefnandi hafi getað sætt sig við. Krafan hafi fyrst komið fram eftir að skiptastjóri hafi lagt fram sáttatillögu sem falið hafi í sér verulega hærri greiðslu til stefndu en fyrirsvarsmaður stefnanda og sonur hans hafi verið ásáttir við. Um tilbúinn reikning á dómskjali nr. 3 sé því að ræða að mati stefndu og sé henni nauðsynlegt að taka til varna í málinu þar sem hún telji sig ekki skulda stefnanda neitt.

II.

Stefnandi kveðst byggja á því að hann hafi unnið verk í þágu stefndu og sambýlismanns og síðar eiginmanns hennar, sem stefnda beri óskipta ábyrgð á með þeim aðila gagnvart stefnanda. Stefnandi kjósi engu að síður einungist að krefja stefndu um helming þeirrar fjárhæðar þar sem M hafi gert samkomulag um uppgjör á sínum hluta skuldarinnar. Stefnandi byggi á því að þar sem við skipti á búi stefndu og M hafi helmingaskiptaregla verið lögð til grundvellar, að því er máli skipti gagnvart kröfu stefnanda þá beri stefndu að greiða stefnanda helming ógreidds kostnaðar stefnanda við að fullklára raðhús stefndu og þáverandi eiginmanns hennar.

Stefnandi byggi á því að óumdeilt sé að verkið hafi verið unnið í þágu stefndu og M. Stefnandi byggi á því að öll skuldin vegna vinnu við íbúðina frá afhendingu sé ógreidd. Skuldin hafi stofnast á tveggja ára tímabili, frá 2002 til 2004 og hafi stefnda ítrekað kannast við að verkið hafi verið unnið í hennar þágu. Stefnandi byggi á því að stefnda hafi ekki sýnt fram á nein haldbær gögn um að greiðsla hafi verið innt af hendi af hennar hálfu. Stefnandi byggi á því að greiða hafi átt skuldina upp með peningum samkvæmt nánara samkomulagi, en á þessum tíma hafi eigendur stefnanda og stefnda verið tengd fjölskylduböndum. Skuldin hafi því átt að gjaldfalla í síðasta lagi við tilkynningu stefnanda þar að lútandi til skuldara.

Stefnandi byggi á því að við skilnað stefndu og M og eftirfarandi fjárslit þá hafi forsendur brostið fyrir frekari lánveitingu til stefndu. Við hafi blasað að eign aðila kæmi til skipta og því eðlilegt að skuldauppgjör færi fram milli aðila. Stefnandi hafi þó ekki gefið út reikning á stefndu fyrr en þann 23. nóvember 2005 og miðist kröfugerð stefnanda við að skuldin hafi gjaldfallið þann dag.

Stefnandi byggi aðalkröfu sína á því að stefnda hafi ekkki greitt helmings hlut sinn í umkröfðum kostnaði við að ljúka byggingu á fasteigninni við Y í Reykjavík í samræmi við framlagðan reikning og fylgiskjal á dómskjali nr. 3, svo sem henni hafi borið skylda til. Stefnda hafi óskað eftir þessari vinnu stefnanda og notið góðs af henni við fjárslit í tengslum við skilnað. Stefnandi byggi á því að stefnda beri sönnunarbyrði fyrir því að reikningur stefnanda sé ósanngjarn eða rangur að einhverju leyti. Stefnandi byggi einnig á því að stefnda beri sönnunarbyrði fyrir því að hún hafi greitt einhvern hluta skuldarinnar. Stefnandi byggi einnig á því að stefnda beri sönnunarbyrði fyrir því að um gjöf hafi verið að ræða eða að til hafi staðið að hún hafi mátt greiða skuld sína með einhverjum öðrum hætti en með reiðufé. Stefnandi byggi á því að leggja beri til grundvallar að raunverulegt kaupverð hafi verið 17.800.000 krónur og að fjárhæð á formlegum samningi hafi einungis verið til málamynda. Stefnandi byggi á því að sú vinna sem faðir stefndu innti af hendi hafi verið greidd í formi afsláttar af kaupverði og hafi ekki átt að greiða sérstaklega fyrir eða koma til frádráttar kostnaði við að ljúka við húsið eftir afhendingu.

Stefnandi byggi á því að þó stefnda hafi talið fram of lága skuld á skattframtali sínu þá breyti það engu um rétt stefnanda til að krefja stefndu um fulla greiðslu á skuld sinni. Stefnandi byggi á því að stefnda geti ekki varpað ábyrgð á framtalsgerð sinni til skatts yfir á þann aðila sem sinnt hafi framtalsgerð fyrir hana, heldur verði hún sjálf að bera ábyrgð á skattframtalinu.

Stefnandi byggi varakröfu sína á því, verði ekki fallist á þá málsástæðu hans að umsamið kaupverð hafi í raun verið 17.800.000 krónur, að þá verði að reikna skuld stefndu með svofelldum hætti: Kaupverð samkvæmt kaupsamningi 15.800.000 krónur, að frádregnum greiðslum M og stefndu, alls að fjárhæð 17.464.522 krónur til stefnanda, geri greiðslu upp í kostnað við að ljúka framkvæmdum 1.664.522 krónur. Eftirstöðvar kostnaðar við að ljúka við byggingu hússins sé þá 6.431.367 krónur að frádregnum 1.664.522 krónum eða 4.766.845 krónur. Stefnda beri ábyrgð á greiðslu helmings þeirrar fjárhæðar eða 2.383.422 krónum enda hafi stefnda óskað eftir að stefnandi ynni þetta verk auk þess sem hún hafi notið góðs af því við fjárskipti vegna skilnaðar við M.

Stefnandi byggi þrautavarakröfu sína á því, verði ekki fallist á varakröfu, að miða beri skuld stefndu við stefnanda við skuld þá er talin hafi verið fram á skattframtali M og stefndu í árslok 2002 eða 1.500.000 krónur. Stefnda skuldi þá 750.000 krónur af þeirri fjárhæð. Til viðbótar bætist helmings kostnaður við innréttingar 915.000 krónur (1.830.000÷2) samtals 1.665.000 krónur sem sé stefnufjárhæð í þrautavarakröfu. Stefnandi byggi á því að eldhúsinnrétting hafi verið unnin og afhent á árinu 2004 og því örugglega ekki innifalin í framtalinni skuld í árslok 2002. Stefnandi byggi á því að stefnda beri sönnunarbyrði fyrir því að greiddar hafi verið á árinu 2003 750.000 krónur til stefnanda, sem koma hafi átt til lækkunar á skuld stefndu og M við stefnanda. Stefnda beri einnig sönnunarbyrði fyrir því að greiða hafi mátt skuld þessa með öðrum hætti en með peningum og þá einnig að slíkar greiðslur hafi verið inntar af hendi. Stefnandi byggi á því að engu breyti þó á skattframtali ársins 2004 fyrir árið 2003 sé þessi skuld talin fram helmingi lægri eða 750.000 krónur. Stefnda þurfi engu að síður að sýna fram á að hún hafi innt greiðslu af hendi til stefnanda á árinu 2003 og það hafi hún ekki gert.

Stefnandi byggi þrautaþrautavarakröfu sína á því, verði ekki fallist á þrautavarakröfu, að miða beri skuld stefndu við stefnanda við þá skuld sem talin sé fram á skattframtali ársins 2004 fyrir tekjuárið 2003, 750.000 krónur. Stefnda skuldi þá 375.000 krónur til viðbótar við helmingsskuld í innréttingum sem afhentar voru á árinu 2004 eða 915.000 krónur. Samtals sé skuld stefndu við stefnanda samkvæmt þessu 1.290.000 krónur. Stefnda og M hafi slitið samvistum fljótlega eftir afhendingu innréttingarinnar á árinu 2004. Stefnandi byggi á því að stefndu beri að greiða þá skuld sem hún sannanlega viðurkenni á framtali sínu að skulda í árslok 2003. Þá byggi stefnandi á því að henni beri að greiða fyrir innréttingar þær sem stefnandi hafi smíðað og sett upp í hús hennar og sem hún hafi nú hirt arð af í tengslum við fjárslit við fyrrum eiginmann sinn. Innréttingarnar hafi verið smíðaðar að beiðni stefndu og þáverandi eiginmanns hennar eftir að stefnda hafi viðurkennt afdráttarlaust að skulda stefnanda 750.000 krónur í árslok 2003 og sé því um hreina viðbót að ræða.

Um  lagarök kveðst stefnandi vísa til reglna kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og skuldbindingargildi loforða. Stefnandi vísi og til reglna samningaréttar um forsendur og forsendubrest að því er gjaldfellingu skuldar stefndu varði. Þá kveðst stefnandi vísa til reglna einkamálaréttarfars um sönnun og sönnunarbyrði og til ákvæða laga nr. 91/1991 að öðru leyti. Um dráttarvaxtakröfu vísar stefnandi til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

III.

Stefnda kveðst í greinargerð sinni í fyrsta lagi krefjast sýknu vegna aðildarskorts þar sem stefnandi stefni henni eingöngu til greiðslu skuldarinnar en láti algerlega hjá líða að stefna fyrrverandi eiginmanni hennar, M. Hann og stefnda hafi byggt fasteignina að Y í sameiningu og hljóti því að bera óskipta sólidariska ábyrgð á öllum skuldum sem stofnað hafi verið til vegna húsbyggingarinnar og því beri stefnanda að stefna þeim báðum, telji hann að um skuld sé að ræða. Stefnandi viðurkenni í 2. mgr. á bls. 4 í stefnu að aðilar beri óskipta ábyrgð á skuldum vegna fasteignarinnar að Y en þrátt fyrir það sé syni fyrirsvarsmanns stefnanda ekki stefnt, en hann hafi átt fasteignina í óskiptri sameign með stefndu. Stefndu sé því ekki réttilega stefnt, aðild málsins sé því ekki rétt og beri af þeim sökum að sýkna stefndu af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts.

Stefnda krefjist sýknu með vísan til þess að engin skuld sé til staðar hjá henni gagnvart stefnanda og mótmæli stefnda öllum fullyrðingum um að stefnandi hafi lánað stefndu fé umfram það sem fram hafi komið á skattframtölum á árunum 2002 til 2004. Byggi stefnda á því að allar slíkar fullyrðingar stefnanda verði að telja með öllu ósannaðar, enda séu skattskýrslur opinber skjöl sem miða beri við. Stefnda bendi á þá staðreynd, sem viðurkennd sé m.a. á dómskjali nr. 26, að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi sjálfur annast gerð skattskýrslu fyrir stefndu og hafi það því verið stefnandi sjálfur sem talið hafi skuld við stefndu og son fyrirsvarsmanns stefnanda í árslok 2003 vera 750.000 krónur. Stefnda bendi á að skattskýrsla eigi að vera samtímaheimild um skuld hverju sinni og sé öllum málatilbúnaði stefnanda um annað harðlega mótmælt. Það sé óumdeilt að framkvæmdum við byggingu hússins hafi lokið nánast að öllu leyti í árslok 2002 og eftir það tímamark hafi aðeins verið eftir smávægilegur frágangur sem stefnda og sonur fyrirsvarsmanns stefnanda hafi annast nánast að öllu leyti sjálf. Nánast öll vinna við innréttingar í húsinu hafi því verið kláruð á árinu 2002, m.a. öll uppsetning á skápum, eldhús- og baðinnréttingu, borðplötum, hillum og þess háttar. Allt hafi verið komið upp. Því sé harðlega mótmælt af stefndu að skuld við stefnanda á skattskýrslu stefndu vegna þeirra framkvæmda sem hafi verið unnar á þeim tíma hafi ekki verið talin fram á sínum tíma. Staðreyndirnar blasi við á skattskýrslum sem fyrir liggi í málinu.

Stefnda byggi á því að þar sem framkvæmdum hafi nánast að öllu leyti verið lokið á árinu 2002 og að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi sjálfur fært til skuldar á skattframtali stefndu til og með árinu 2004, þá hafi sú skuld innifalið öll þau atriði sem stefnandi krefjist greiðslu á með reikningi á dómskjali nr. 3, sbr. og fylgiskjali. Stefnandi sé því að krefja stefndu um skuld sem að öllu leyti sé greidd, að því leyti sem sú skuld hafi verið til staðar. Stefnda mótmæli sundurliðunarblaði á dómskjali nr. 3, sem röngu og allt of háu miðað við það sem raunin hafi verið, þar sem raunveruleg skuld hafi verið í samræmi við tilgreinda skuld á skattframtölum.

Stefnda byggi á því að viðurkennt hafi verið í niðurstöðu opinberra skipta milli stefndu og sonar fyrirsvarsmanns stefnanda að skuld við stefnanda af fjárhæð 750.000 krónur hafi verið greidd að fullu í byrjun árs 2004. Lögmaður stefndu hafi ritað syni fyrirsvarsmanns stefnanda bréf þann 4. nóvember 2004 þar sem strax hafi verið látið í ljós að stefnda vissi ekki betur en að 750.000 króna skuld við stefnanda hafi verið að fullu greidd sumarið 2004. Á skiptafundum vegna búskipta stefndu og sonar fyrirsvarsmanns stefnanda hafi því aldrei nokkurn tíma verið haldið fram af hálfu lögmanns sonar fyrirsvarsmanns stefnanda að skuldin við stefnanda væri hærri en sem næmi 750.000 krónum. Á fyrsta skiptafundi þann 3. mars 2005 hafi skiptastjóri bókað eftir lögmönnum stefndu og fyrrverandi eiginmanns hennar um eignir og skuldir búsins og þar sé skuld við stefnanda bókuð sem 750.000 krónur, en sögð umdeild, þar sem stefnda hafi haldið því fram frá upphafi að skuldin væri þegar greidd. Hefði skuldin verið önnur og hærri eins og haldið sé fram í máli þessu af hálfu stefnanda, „hefði verið hægur vandi fyrir stefnanda að koma þeim upplýsingum að í skiptamálinu en það gerði stefnandi ekki.“ Niðurstaða tölulegs uppgjörs skiptastjóra sem fyrir liggi í málinu staðfesti að ekki hafi verið talið vera um skuld að ræða og sé því í raun búið að taka efnislega ákvörðun fyrir dómi um að skuldin sé ekki fyrir hendi.

Fullyrðingum stefnanda um að skuldin sem tilgreind sé á skattframtölum 2002 til 2004 hafi verið vegna kaupverðs fasteignarinnar að Y sé harðlega mótmælt sem röngum. Stefnda og þáverandi eiginmaður hennar hafi greitt kaupverð fasteignarinnar að fullu strax og hafi fengið afsal fyrir fasteigninni 16. ágúst 2002. Fyrir liggi í gögnum málsins að skuld á skattskýrslu hafi ekki verið vegna kaupverðs fasteignarinnar, þ.e. 15.800.000 krónur, enda hafi kaupverðið verið greitt með fasteignaverðbréfum 9.000.000 krónur og hluta af útborgun úr fasteign að Z sem numið hafi 7.687.722 krónum. Reiðufé málsaðila auk íbúðalánasjóðsláns hafi því gert mun meira en að hrökkva fyrir greiðslu kaupverðsins og sé fullyrðingum stefnanda um annað harðlega mótmælt sem ósönnuðu gegn skýrum upplýsingum um kaupverð sem liggi fyrir á dómskjali nr. 14 og kaupsamningi á dómskjali nr. 17. Stefnda og fyrrum eiginmaður hennar hafi því átt tæpar 1.000.000 króna af söluverði Z upp í frekari framkvæmdir við að fullklára húsið að Y. Inneignin hafi myndast sökum þess að annars hefði verið um að ræða rafmagnsvinnu sem stefnandi hefði átt að vera búinn að inna af hendi þegar húsið var afhent tilbúið til innréttinga. Stefnda og sonur fyrirsvarsmanns stefnanda hafi því átt nægt fé til að fullklára eignina, sbr. yfirlit um fjármögnun kaupa sem fyrir liggi á dómskjali nr. 27.

B, annar eigenda stefnanda og sú sem séð hafi um bókhald félagsins hafi komið til skýrslugjafar í Hérðsdómi Reykjavíkur 20.mars 2006 vegna fjárskipta stefndu og fyrrum eiginmanns hennar. Þar hafi hún staðfest að hún sæi um bókhald stefnanda og utanumhald um alla pappíra í fyrirtækinu. Allar úttektir og efniskaup færu í gegn um hennar hendur enda sé stefnandi háður lögum um bókhald og reikningsskil og verði að færa bókhaldið jafnóðum en ekki þegar honum henti. Áminnt um sannsögli hafi B staðfest að hún hafi séð um skattframtöl fyrir stefndu og son sinn og fært þau eftir bestu vitund. Hún hafi því haft algera yfirsýn yfir fjármál stefndu og skuld við stefnanda. Staðreyndin sé einmitt sú að árlega hafi verið tilgreindar skuldir stefndu og fyrrum eiginmanns hennar við stefnanda á byggingartíma hússins og hafi sú skuld lækkað ár frá ári og hafi verið komin í 750.000 krónur í árslok 2003 þegar nánast öllum framkvæmdum hafi verið lokið. Það sé ekki fyrr en í nóvember 2005, þ.e. rúmum þremur árum eftir að stefnda hafi flutt inn í fasteignina að Y, sem útbúinn hafi verið málamyndareikningur á dómskjali nr. 3 og þá hafi ágreiningur vegna fjárskipta stefndu og fyrrum eiginmanns hennar verið í fullum gangi og fram hafi verið komin sáttatillaga skiptastjóra sem hafi vikið verulega frá kröfum sonar fyrirsvarsmanns stefnanda í málinu. Telji stefnda ótvírætt að reikningurinn hafi verið útbúinn til að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu fjárskiptanna, syni fyrirsvarsmanns stefnanda í hag.

Stefnda byggi á því að reikningurinn á dómskjali nr. 3 sé í engu samræmi við raunveruleikann og tilbúningur frá rótum. Bendi stefnda sérstaklega á þá staðreynd að stefnandi hafi ekki getað lagt fram neinar úttektir vegna efniskaupa eða þeirrar vinnu sem fylgiskjal með reikningi á dómskjali nr. 3 sundurliði. Telji stefnda óumdeilt að stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir þeirri fjárhæð sem reikningurinn grundvallist á. Engin gögn séu lögð til grundvallar þeim fjárhæðum sem tilgreindar séu á því fylgiskjali en skjalið leggi grunninn að fjárhæð reikningsins. Stefnda bendi á að þetta fylgiskjal hafi stefnandi búið til sjálfur rúmum tveimur árum eftir að stefnda og fyrrverandi eiginmaður hennar fluttu inn í fasteignina og hafi allri vinnu við byggingu hússins þá nánast verið lokið og að fullu verið greitt fyrir hana. Á fylgiskjali með reikningnum séu í ýmsum tilvikum tilgreindar magntölur og verð sem enganveginn fái staðist raunveruleikann. T.d. komi fram að loftið séu 96 einingar á 9.700 krónur, en stefnda leggi fram reikning á dómskjali nr. 27 sem sýni að um 75 m² var að ræða og einingaverð hafi verið 2.840 krónur, þegar ekki hafi verið tekið tillit 30% afsláttarkjara sem stefnandi njóti hjá Agli Árnasyni hf. auk þess sem stefnandi hafi nýtt virðisaukaskattinn sem innskatt hjá sér og hafi hann því verið dreginn af áður en stefnda hafi greitt reikninginn. Mismunurinn á þessum lið í fylgiskjali stefnanda með dómskjali nr. 3 og reikningnum án tillits til afsláttar, séu rúmar 700.000 krónur. Reikninginn vegna þiljanna hafi stefnda greitt að fullu eins og aðra reikninga vegna byggingaframkvæmdanna. Taki stefnda þetta dæmi af handahófi til að sýna fram á hversu víðs fjarri öllum raunveruleika krafa stefnanda sé. Hið sama eigi við um parket á dómskjali nr. 28 sem sé án virðisaukaskatts og án afsláttar til stefnanda 393.568 krónur, en á fylgiskjali með dómskjali nr. 3 sé stefnda krafin um 612.000 krónur. Stefnda byggi á því að gera verði ríkar kröfur til stórfyrirtækja eins og stefnanda um að halda vel utan um bókhald og geta lagt fram öll fylgiskjöl með reikningum og sönnunarbyrðin um tilvist skuldarinnar hvíli því alfarið á stefnanda.

Stefnda mótmæli sérstaklega dómskjali nr. 6 sem sé alls ekki vegna fasteignarinnar að Y, heldur vegna Kirkjustéttar, eins og fram komi á báðum reikningunum. Þannig sé stefnandi að draga inn í málið reikninga úr bókhaldi vegna allt annarra framkvæmda en stefnda sé aðili að. Stefnda hafi aldrei nokkurn tíma átt hlut í Kirkjustétt og verði því að vísa framangreindum reikningi frá og sé honum mótmælt sérstaklega af hálfu stefndu. Stefnda mótmæli einnig reikningum á dómskjali nr. 5 þar sem aðeins á tveimur þeirra sé tilgreint að þeir séu vegna Y, þ.e. reikningur á bls. 1 að fjárhæð 25.029 krónur og á bls. 3 að fjárhæð 14.692 krónur með virðisaukaskatti. Stefnda mótmæli þeim tveimur reikningum sérstaklega og segist aldrei hafa óskað eftir kaupum á því efni sem tilgreint sé á reikningunum, enda hafi alvarlegir brestir verið komnir í hjónaband stefndu á þessum tíma, þ.e. í júlí 2004 og skilnaður yfirvofandi. Hafi eitthvað efni verið keypt þá hafi það verið í algerri óþökk stefndu og beri hún ekki ábyrgð á greiðslu þeirra.

Stefnda byggi á því að framlögð gögn af handahófi um efniskaup á dómskjölum nr. 24 til 28 staðfesti að fjárhæðirnar á fylgiskjali með dómskjali nr. 3 séu í engu samræmi við raunveruleikann og hafi stefnda jafnóðum greitt fyrir öll efniskaup. Nánast öllum framkvæmdum hafi verið lokið á árinu 2002 eins og framangreind fylgiskjöl um efniskaup staðfesti. Stefnda mótmæli því harðlega að stefnandi hafi kostað lóðarfrágang, innréttingar, frágang lofta, innkaup og lagningu gólfefna, tækjakaup og fleira, sem vísvitandi röngu. Fjölskylda eigenda stefnanda hafi ekkert séð um að aðstoða við framkvæmdir í fasteigninni, þvert á móti hafi það verið stefnda og sonur fyrirsvarsmanns stefnanda sem gert hafi langmest sjálf, auk föður stefndu og manna á hans vegum, bróður stefndu og sameiginlegra vina sem lagt hafi mikið á sig við vinnu við framkvæmdir á fasteigninni. Öll fjölskylda eigenda stefnanda hafi verið að byggja hús í sömu raðhúsalengju á sama tíma og því hafi enginn þar haft tíma til að hjálpa stefndu og fyrrum eiginmanni hennar. Allir hafi haft nóg með sig.

Eina skjalið sem stefnandi hafi lagt fram sé dómskjal nr. 4 og mótmæli stefnda því sem röngu og algerum tilbúningi. Skjalið sé unnið af stefnanda sjálfum í nóvember 2004, þegar málaferli vegna skilnaðar stefndu og sonar fyrirsvarsmanns stefnanda hafi verið hafin. Dómskjal nr. 4 eigi að vera fyrir 374 tíma í dagvinnu og 21,5 klst. í eftirvinnu við eldhús og aðra ótilgreinda vinnu sumarið 2004. Stefnda hafi sjálf búið í húsinu á þessum tíma og fullyrði að engin vinna hafi verið innt af hendi í líkingu við það sem greini á framangreindu dómskjali. Uppsetningu á eldhúsinnréttingu hafi lokið á árinu 2002, ekki á árinu 2004 eins og fram komi á nefndu dómskjali. Stefnda hafi búið í fasteigninni allt frá hausti 2002 og hafi allar grindur og hillur fyrir eldhúsinnréttingu þá verið komnar, aðeins hafi átt eftir að setja hurðir framan á grindina eins og fjöldi vitna muni geta borið um. Reikningur á dómskjali nr. 4 fyrir vinnu í maí til júlí 2004 upp á um 400 klukkustundir við trésmíðavinnu í húsinu sé því algerlega út í loftið af hálfu stefnanda og sé vinnuskýrslum harðlega mótmælt. Skýrslurnar séu unnar af stefnanda en dagbækur þeirra starfsmanna sem eigi að hafa innt hina ætluðu vinnu af hendi séu ekki látnar fylgja með. Þá bendi stefnda á að sá aðili sem eigi að hafa unnið flesta tímana, sé tengdasonur fyrirsvarsmanns stefnanda, A, sem starfi hjá honum og búi í sömu raðhúsalengju og hann. Sá aðili geti því engan veginn skoðast sem hlutlaus aðili. Þá bendi stefnda á að ef um 400 klst. trésmíðavinna hefði átt að vera eftir í húsinu sumarið 2004, hefði húsið nánast verið óíbúðarhæft fram að þeim tíma. Stefnda bendi á að nánast öllum framkvæmdum í húsinu að Y hafi verið að fullu lokið á árinu 2002 og sé dómskjal nr. 4 því að mati stefndu tilbúningur einn.

Stefnda byggi á því að gera verði þá kröfu til stefnanda, sem stórs aðila á sviði byggingaframkvæmda, að hann sanni með skýrum hætti þá vinnu og þau efniskaup sem reikningur á dómskjali nr. 3 sé sagður grundvallast á. Stefnandi hafi einungis lagt fram fylgiskjal með dómskjali nr. 3 sem sé skjal útbúið í excel af hálfu stefnanda án nokkurra fylgiskjala á bakvið, sem stefnda hafi sýnt fram á með framlögðum gögnum að sé engan veginn rétt. Stefnda bendi á að stefnandi hafi ekki lagt fram neina reikninga úr bókhaldi sínu fyrir þeim liðum sem hann tilgreini á framangreindu skjali og verði skjalið því að teljast ósannað. Hafi verið um eiginlega skuld að baki reikningnum á dómskjali nr. 3 að ræða, hefði átt að vera hægur vandi fyrir stefnanda að tína fram þá reikninga og vinnuliði, en það hafi hann ekki gert, hvorki í málinu vegna fjárskipta stefndu og sonar fyrirsvarsmanns stefnanda, né nú. Þá bendi stefnda á að einu skjölin sem stefnandi hafi nú lagt fram á dómskjali nr. 4, séu skjöl útbúin af honum sjálfum, eftirá og sé þeim algerlega mótmælt enda segi stefnda að þau séu ekki í neinu samræmi við raunveruleikann.

Stefnda bendi á að hún hafi flutt af fasteigninni Y og fyrrum eiginmaður hennar hafi strax skipt um skrár að henni og hafi stefnda ekki getað komist í heimilisbókhaldið til að sækja skjöl um þá reikninga sem greiddir hafi verið af henni og fyrrum eiginmanni hennar. Stefnda byggi á því að hún og fyrrum eiginmaður hennar hafi greitt jafnóðum fyrir úttektir á nafni stefnanda og bendi því til stuðnings meðal annars á dómskjal nr. 29, sem sé yfirlit af sparireikningi á nafni stefndu sem staðfesti að þann 21. júní 2006 hafi stefnda millifært 1.107.000 krónur inn á reikning stefnanda vegna þeirra úttekta sem þá hafi verið komnar. Stefnandi viðurkenni móttöku á þessari fjárhæð á bls. 4 á dómskjali nr. 26 í framburði fyrir dómi.

Þá byggi stefnda á því, verði ekki fallist á framangreint að ef um skuld hefði verið að ræða þá hefði hún og fyrrverandi eiginmaður hennar átt að skipta henni í samræmi við eignarhlut í fasteigninni, fyrrum eiginmaður hennar hafi verið þinglesinn eigandi 75% eignarinnar en hún 25%. Telja verði eðlilegt að réttindi og skyldur haldist í hendur og því hefði stefnda aldrei átt að greiða nema 25% hafi skuld verið til staðar, sem stefnda mótmæli algerlega. Þá hafi stefnandi ekki sýnt fram á að M hafi innt af hendi greiðslu skv. samskonar reikningi og á dómskjali nr. 3. Stefnda telji málatilbúnað stefnanda staðfesta að reikningur á dómskjali nr. 3 sé tilbúningur einn og syni fyrirsvarsmanns stefnanda sé ekki stefnt þar sem ekki sé nein skuld til staðar, en reikningurinn innheimtur af fullri hörku eftir að fjárskiptum sonar fyrirsvarsmanns stefnanda og stefndu hafi lokið með þeim hætti sem fyrirsvarsmaður stefnanda sé mjög ósáttur við. Telji stefnda augljóst að reikningnum sé ætlað að ná fram leiðréttingu á þeim skiptum eftirá.

Stefnda mótmæli sérstaklega vara-, þrautavara- og þrautaþrautavarakröfum stefnanda sem röngum og sýni þær glögglega að mati stefndu að með kröfugerð sinni sé stefnandi að leika sér að tölum. Málatilbúnaður stefnanda virðist þannig ýmist byggjast á því að telja stefnufjárhæðina grundvallast á lánveitingum fyrir unna vinnu, sbr. reikning á dómskjali nr. 3, eða eftirstöðvar á greiðslu kaupverðs eða við skuld á skattskýrslu í árslok 2002 eða miðað við skuld á skattskýrslu í árslok 2003. Stefnda telji þessar kröfur sýna best á hversu veikum grunni málatilbúnaður stefnanda byggi enda haldi stefnda því staðfastlega fram að umkrafin skuld sé tilbúningur einn. Byggi stefnda sérstaklega á þeirri staðreynd að annar fyrirsvarsmanna stefnanda hafi sjálfur séð um gerð skattskýrslu fyrir stefndu, sbr. framburð fyrirsvarsmannsins á dómskjali nr. 26, og sé því komin fram viðurkenning í verki á því að stefnda hafi greitt niður skuldirnar ár frá ári. Skattframtalið staðfesti einnig að stefnandi hafi ekki talið vera um aðrar skuldir stefndu að ræða á þeim tíma er skattframtalið hafi verið gert. Þá sýni afstaða skiptastjóra sem og afstaða sonar fyrirsvarsmanns stefnanda fyrir skiptastjóra að stefnda og fyrrverandi eiginmaður hennar hafi verið sammála um að skuldin sem tilgreind hafi verið í skattframtali í árslok 2003 hafi verið að fullu greidd fyrir skilnað aðila í ágúst 2004. Að öðrum kosti hefði sú skuld verið tekin með í fjárskiptin, sem ekki hafi verið raunin.

Stefnda kveðst varðandi lagarök til stuðnings kröfum sínum vísa til almennra reglna kröfuréttar um efndir og tilvist fjárskuldbindinga, lög um bókhald o.fl. Þá kveðst stefnda vísa til reglna samningaréttar og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum að því er varði sönnun og sönnunarfærslu og ákvæði um málskostnað. Stefnda krefjist virðisaukaskatts á málflutningsþóknun þar sem hún sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.

IV.

Í máli þessu krefur stefnandi stefndu um greiðslu reiknings sem hann byggir á að nemi helmingi þess endurgjalds sem stefnanda beri vegna þess efnis og þeirrar vinnu sem hann hafi látið stefndu og fyrrverandi eiginmanni hennar í té vegna byggingar hússins að Y í Reykjavík frá tilbúnu til innréttinga að fullbúnu. Að sögn fyrirsvarsmanns stefnanda hafi fyrrum eiginmaður stefndu viðurkennt greiðsluskyldu sína á hinum helmingi kröfunnar og hafi náðst samkomulag við hann um greiðslu hennar. Fyrrum eiginmaður stefndu, vitnið M, staðfesti þetta í skýrslu sinni fyrir dómi.

Í málinu byggir stefnandi á því að stefnda og fyrrum eiginmaður hennar beri gagnvart stefnanda solidariska ábyrgð á greiðslu kröfu hans, en á hendur stefndu sé einungis gerð krafa um greiðslu helmings skuldarinnar og sé það í samræmi við niðurstöðu opinberra skipta sem farið hafi fram í millum hennar og fyrrum eiginmanns hennar.

Stefnda hefur í málatilbúnaði sínum einkum byggt á því að umrædd skuld sé ekki til staðar og í raun tilbúningur einn í tilefni af niðurstöðu opinberra skipta hennar og sonar fyrirsvarsmanna stefnanda, en upplýst er í málinu að foreldrar fyrrum eiginmanns stefndu eru ein eigendur stefnanda. Hefur stefnda skorað á stefnanda að leggja fram frekari gögn til stuðnings reikningskröfu sinni, en við því hefur stefnandi ekki orðið. Styður stefnda sýknukröfu sína meðal annars við það að stefnda hafi ekki tekist sönnun þess að skuld sé til staðar.

Í fylgiskjali með reikningi þeim sem stefnandi krefur stefndu um greiðslu á eru talin upp í 16 liðum þau verk sem stefnandi telur sig hafa unnið við framangreinda húseign ásamt einingarverðum og samtölu, samtals að fjárhæð 6.431.367 krónur, en sem fyrr segir telur stefnandi að stefnda skuldi honum helming þeirrar fjárhæðar. Um 15 af þessum liðum liggja ekki fyrir önnur gögn, en framangreind sundurliðun. Fram kom í aðilaskýrslum fyrirsvarsmanna stefnanda og vitnisins C, sem kvaðst hafa verið verkstjóri stefnanda við vinnu við Y, að sundurliðun þessi byggðist á undirgögnum sem til væru í bókhaldi stefnanda. Staðfesti síðastnefnt vitni að það teldi að umrædd sundurliðun væri í samræmi við það efni sem stefnandi hafi lagt til byggingarinnar og þá vinnu sem starfsmenn stefnanda hafi lagt af mörkum. Fyrir dóminn kom af hálfu stefnanda vitnið D, og staðfesti að hann hefði, sem verkstjóri hjá undirverktaka stefnanda, unnið við að klæða loft í húsinu. Kvað vitnið stefnanda hafa greitt fyrir þá vinnu. Varðandi þann lið sundurliðunarinnar sem sagður er vegna smíði á innréttingum er lagt fram fylgiskjal sem sundurliðar vinnu tveggja manna á verkstæði stefnanda í samtals 377 klukkustundir við smíði á innréttingum. Einnig kemur þar fram að vinna við uppsetningu sé 61 og hálf klukkustund. Þá eru lagðir fram nokkrir reikningar fyrir efniskostnaði samtals að fjárhæð 194.321 króna. Vinnuliður samkvæmt framansögðu er sagður 1.847.431 króna, eða samtals með efni 2.041.752 krónur. Engar upplýsingar liggja fyrir um stærð innréttingarinnar eða nánari skýringar á því hvers vegna leggja þurfti svo gríðarlega vinnu að mörkum við smíði hennar, utan að fyrirsvarsmaður stefnanda og vitnið C, kváðu hafa verið um að ræða sérsmíði. Á framangreindu sundurliðunarblaði er heildarkrafa vegna nefndra innréttinga sögð 1.830.000 krónur og stefnda er krafin um greiðslu helmings þeirrar fjárhæðar.

Stefnandi er fyrirtæki í byggingariðnaði og verður að gera kröfu til slíkra fyrirtækja um að þau haldi utan um verkbókhald sitt með þeim hætti að þau geti sýnt fram á hvenær tiltekin verk hafi verið unnin, hverjir hafi unnið þau, hvaða efni hafi verið notað og í hvaða magni. Fram kemur í stefnu að það endurgjald sem krafist er greiðslu á í málinu sé vegna efnis og vinnu frá árinu 2002 til ársins 2004, en reikningur sá sem um er deilt í málinu var gefinn út 23. nóvember 2005.  Er frá því greint í stefnu að ástæða þess að ekki hafi verið krafið um greiðslu á þessum verkum fyrr hafi verið að fyrirsvarsmenn stefnanda hafi viljað aðstoða son sinn og tengdadóttur við húsbygginguna, en greiða hafi átt fyrir þetta síðar þegar betur stæði á. Verður að telja í ljósi þessa að rík ástæða hafi verið fyrir stefnanda að halda sérstaklega vel utan um þessa skuld í bókhaldi sínu og halda til haga vinnuskýrslum og fylgigögnum. Þykja þau gögn sem stefnandi hefur lagt fram í málinu ekki fullnægjandi til að renna stoðum undir kröfu hans og sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi verður að teljast hverfandi þegar litið er til tengsla þeirra vitna, sem skýrslu gáfu, við stefnanda.

Stefnandi krefst í málinu greiðslu á skuld samkvæmt reikningi án þess að leggja fram undirgögn honum til stuðnings, þrátt fyrir áskoranir þar um. Skortir því á að hann leggi fullnægjandi grundvöll að kröfu sinni og var ekki nægilega úr þessu bætt við skýrslugjöf við aðalmeðferð málsins. Stefnda hefur bent á þennan annmarka á málatilbúnaði stefnanda, en talið hann eiga að leiða til sýknu. Stefnandi hefur á hinn bóginn haldið staðfastlega við það í málatilbúnaði sínum að grundvöllur kröfunnar sé skýr og að það hvíli á stefndu að kalla eftir mati dómkvaddra matsmanna telji hún reikningsgerð stefnanda óréttmæta. Á síðastnefnda röksemd stefnanda er ekki hægt að fallast. Af áðurnefndu sundurliðunarblaði er ekki unnt að gera sér grein fyrir því hvenær viðkomandi verk hafi verið unnin, hvert umfang þeirra hafi nákvæmlega verið og hvernig verkin skiptist í vinnu og efnisþátt svo eitthvað sé nefnt. Fer því fjarri að unnt sé að átta sig á þessum grundvallaratriðum af lestri þeirra sönnunargagna sem stefnandi hefur lagt fram.

Sýnt þykir af framburði stefndu sjálfar fyrir dómi að menn á vegum stefnanda hafi komið að byggingu hússins þó ekki hafi hún viðurkennt það berum orðum. Verður framburður hennar um að fyrrum eiginmaður hennar hafi átt að vinna í þágu stefnanda, án sérstakrar launagreiðslu, á móti vinnu starfsmanna stefnanda við húsið ekki skilinn öðruvísi en að í honum felist viðurkenning á því að starfsmenn stefnanda hafi lagt að mörkum einhverja vinnu við húsið. Þá kom berlega fram hjá stefndu að hún kannaðist við að menn á vegum stefnanda hafi unnið að uppsetningu eldhúsinnréttingar. Hefur stefndu því ekki tekist að sýna fram á að reikningsgerð stefnanda sé tilhæfulaus með öllu og eru því engin efni til að taka til greina sýknukröfu hennar á þeim grundvelli.

Að framangreindu virtu er það mat dómsins, einkum þegar litið er til tengsla aðila og þess hve langur tími leið frá því verk var unnið og þar til reikningur var gefinn út, að stefnanda hafi ekki tekist að rísa undir kröfum laga um meðferð einkamála um glöggan og skýran málatilbúnað. Er málið því ekki dómtækt í þeim búningi sem það liggur fyrir og verður ekki séð að úr þessum annmörkum verði bætt með endurupptöku þess. Er af framangreindum ástæðum óhjákvæmilegt annað en vísa máli þessu frá dómi af sjálfsdáðum.

Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur og er virðisaukaskattur meðtalinn í þeirri fjárhæð.

             Úrskurðurinn er kveðinn upp af Halldóri Björnssyni, settum héraðsdómara.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

             Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, X ehf., greiði stefndu, K,  350.000 krónur í málskostnað.