Hæstiréttur íslands

Mál nr. 484/1998


Lykilorð

  • Fiskveiðibrot
  • Sérálit


                                                         

Fimmtudaginn 3. júní 1999.

Nr. 484/1998.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Garðari Hafstein Björgvinssyni

(Valgeir Kristinsson hrl.)

Fiskveiðibrot. Sérálit.

G var ákærður fyrir fiskveiðibrot með því að hafa veitt um það bil eitt tonn af fiski í fimm sjóróðrum án þess að hafa leyfi til annarra veiða en þá almennu heimild til tómstundaveiða sem er að finna í lögum um stjórn fiskveiða. Hann hafði tveimur árum fyrr afsalað almennu veiðileyfi og aflaheimildum vegna vélbáts síns gegn úreldingarstyrk úr Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Var G sakfelldur fyrir brot gegn umræddum lögum og honum gerð sektarrefsing. Ekki var jafnframt refsað fyrir brot gegn lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Málinu hefur verið skotið til Hæstaréttar með stefnu 11. desember 1998 að ósk ákærða, sem krefst aðallega sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara krefst hann þess, að sér verði ekki gerð refsing eða hún ella höfð svo væg, sem lög leyfa, og skilorðsbundin. Jafnframt krefst hann þess sérstaklega, að refsivist verði ekki ákveðin til vara, ef sektarrefsing verði dæmd.

Ákæruvaldið krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

I.

Í málinu er ákærði sakaður um fiskveiðibrot vegna fimm sjóróðra, sem hann fór í júní 1998 frá Hafnarfirði á vélbátnum Rakkanesi HF 193, nr. 2026 á skipaskrá, sem talinn er 5,72 brúttórúmlestir.  Í róðrunum veiddi hann á handfæri samtals 934 kg af þorski og 65 kg af ufsa, sem hann færði til vigtunar og seldi á uppboði hjá Fiskmarkaðinum hf. í Hafnarfirði eftir löndun hverju sinni. Varð heildarandvirði aflans 102.675 krónur. Samkvæmt gögnum frá Fiskistofu fór hann einnig í róður dagana 9., 12. og 13. júlí 1998 og dró þá til viðbótar 277 kg af þorski og 53 kg af ufsa, en ákæra málsins tekur ekki til þeirra róðra.

Ákærði var eigandi vélbátsins og hafði samkvæmt skipaskrá átt hann frá árinu 1990. Mun ákærði hafa notað hann til fiskveiða, en ekki greinir nánar í málinu, hvernig þeirri notkun var háttað. Á árinu 1996 afréð ákærði hins vegar að láta úrelda bátinn eftir reglum 7. - 8. gr. laga nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, þannig að  honum yrði ekki lengur haldið til veiða í efnahagslögsögunni eða hann gerður út sem fiskiskip frá Íslandi, gegn greiðslu á styrk úr sjóðnum. Var frá þessu gengið í ágúst 1996, þegar ákærði gaf út óafturkallanlega yfirlýsingu þess efnis, að báturinn hefði varanlega verið tekinn úr fiskiskipastól Íslendinga. Jafnframt staðfesti hann í samræmi við úreldingarreglur laganna, að allar veiðiheimildir bátsins hefðu verið sameinaðar aflaheimildum annarra skipa, og lýsti því yfir, að réttur til endurnýjunar bátsins yrði ekki nýttur. Samkvæmt þessu mátti eftirleiðis einvörðungu nota bátinn til tómstundaiðju eða til atvinnuþarfa, sem óskyldar væru fiskveiðum. Hann var áfram á skipaskrá, en skráður sem skemmtiskip.

Málið var tekið til rannsóknar samkvæmt kæru Fiskistofu til sýslumannsins í Hafnarfirði 8. júlí 1998, þar sem atferli ákærða var talið varða við lög nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Var á það bent, að hann hefði ekki almennt veiðileyfi fyrir bát sinn, sbr. 4. og 5. gr. laganna, og að afla, sem veiddur væri á tómstundabátum samkvæmt heimild 1. mgr. 6. gr. a í lögunum, sbr. 4. gr. laga nr. 105/1996, væri óheimilt að selja eða fénýta á annan hátt. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 11. ágúst 1998 staðfesti ákærði, að hann hefði veitt þann fisk, sem um væri fjallað í kærunni. Kvaðst hann hafa verið einn við veiðarnar, og hefði andvirði aflans farið til að framfæra hann og fjölskyldu hans. Jafnframt hefði hann vitað, að hann væri að brjóta svokölluð kvótalög. Kvaðst hann telja þau vera ólög, og hefðu veiðarnar verið liður í baráttu hans gegn þeim. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi var ekki fjallað nánar um atvik að veiðunum, þar sem ákærði kvaðst skýlaust játa þá háttsemi, sem honum væri gefin að sök í ákæruskjali.

Með bréfi Fiskistofu 16. september 1998 var ákærða tilkynnt, að afli hans í júní og júlí 1998, samtals 1211 kg af þorski og 118 kg af ufsa, teldist ólögmætur sjávarafli samkvæmt 6 tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992 um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, enda hefði ákærði landað honum af tómstundabát, en eigi að síður selt hann á fiskmarkaði. Hefði stofnunin því lagt á hann gjald eftir ákvæðum laganna, að upphæð 136.426 krónur, sem svaraði til andvirðis aflans. Er því haldið fram af hálfu ákærða, að með þessari gjaldtöku hefði afskiptum hins opinbera af máli hans átt að ljúka. Hins vegar er gjaldið ógreitt, og segir Fiskistofa fjárnámsbeiðni á hendur ákærða liggja fyrir hjá sýslumanni.

II.

Hér fyrir dómi hafa veiðar ákærða í júní og júlí 1998 verið skýrðar af hans hálfu á þann veg, að hann hafi viljað hafa í frammi mótmæli við yfirvöld vegna laganna um stjórn fiskveiða og þess, sem af þeim hefði leitt fyrir hann sjálfan. Séu þetta einu veiðarnar, sem hann hafi fengist við eftir úreldingu vélbátsins. Hann segir mótmælin eiga sér þann aðdraganda, að hann hafi eftir á séð meinbugi á úreldingunni og af þeim sökum farið þess á leit við Þróunarsjóð sjávarútvegsins og hlutaðeigandi stjórnvöld, að hann fengi að afturkalla úreldinguna og endurgreiða styrk sinn úr sjóðnum, þannig að hann gæti aftur öðlast þau atvinnuréttindi, sem hann hefði afsalað sér. Þessu erindi hafi ítrekað verið synjað. Hann kveðst hafa tilkynnt Fiskistofu í byrjun júní 1998, að hann væri að hefja veiðar á bátnum, þar sem umrædd synjun væri óréttmæt. Hafi hann átt von á því við fyrsta róður, að starfsmenn Fiskistofu kæmu á vettvang til að hindra frekari aðgerðir. Þetta hafi ekki gerst og hann því haldið veiðunum áfram.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf Þróunarsjóðs sjávarútvegsins til ákærða 11. júlí 1997, þar sem fram kemur, að hann hafi hinn 16. júní sama ár ritað beiðni til sjóðsins um afturköllun á úreldingu Rakkaness HF 193. Segir í bréfi sjóðsins, að stjórn hans hafni fyrirætlunum ákærða um að endurgreiða úreldingarstyrk vegna bátsins, þar sem úreldingin sé óafturkallanleg og engin heimild í lögum nr. 92/1994 til endurgreiðslu á úreldingarstyrk. Einnig liggur frammi bréf ákærða til Fiskistofu 8. desember 1998, þar sem hann vísar til þess, að hann hafi farið í róður á bátnum í júlí 1997 og veiðieftirlitsmenn þá verið sendir til að stöðva hann. Hafi hann ekki farið í fleiri róðra á því sumri. Í bréfinu segist ákærði einnig hafa tilkynnt Fiskistofu sem næst hinn 4. júní 1998, að hann hygðist hefja róðra, og í róðrinum hinn 9. þess mánaðar hafi hann gegnt tilkynningarskyldu á leið út og inn, án þess að til afskipta kæmi. Loks liggja fyrir upplýsingar Fiskistofu þess efnis, að ekki sé kunnugt um, að ákærði hafi farið í fleiri róðra á bátnum en þá, sem fyrr greinir.

III.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/1990 má enginn stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hafa fengið til þess almennt veiðileyfi, sem gefið er út til árs í senn. Ákærði hafði ekki þetta leyfi, þegar hann fór til þeirra róðra á vélbátnum Rakkanesi HF 193, sem ákæran lýtur að, enda hafði hann tveimur árum fyrr afsalað sér því veiðileyfi, sem hann hafði vegna bátsins, ásamt rétti til endurnýjunar þess. Hafði hann ekki aðrar veiðiheimildir en þá heimild til tómstundaveiða, sem um er mælt í 1. mgr. 6. gr. a þessara laga, en þar segir, að heimilt sé án sérstaks leyfis að stunda fiskveiðar í tómstundum til eigin neyslu. Slíkar veiðar sé einungis heimilt að stunda með handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Afla, sem veiddur sé samkvæmt heimildinni, sé óheimilt að selja eða fénýta á annan hátt.

Ákærði var einn í róðrunum og dró afla sinn á handfæri. Ósannað er gegn mótmælum hans, að færin hafi verið með sjálfvirknibúnaði.

Telja verður, að ákærða hafi verið skylt að hlíta því, að hann hafði afsalað sér veiðileyfi og aflaheimildum vegna bátsins. Er sú afstaða í samræmi við grundvallarforsendur laganna um stjórn fiskveiða, sbr. 1. gr. þeirra. Samkvæmt gögnum málsins eru hins vegar ekki efni til að draga í efa, að veiðar hans hafi átt sér þann tiltekna aðdraganda, sem hann hefur lýst. Þegar litið er til þessa ásamt því, sem fyrr greinir um færabúnað á bátnum, verður að álykta, að ákærði hafi ekki verið að stunda veiðar í atvinnuskyni með eiginlegum hætti. Hafi atferli hans fyrst og fremst falið í sér misnotkun á heimild 1. mgr. 6. gr. a laga nr. 38/1990 til að stunda tómstundaveiðar, þar sem hann seldi aflann á markaði og nýtti sér andvirðið. Á það verður þó að fallast, að með því hafi hann brotið gegn ákvæði 4. gr. sömu laga. Er þannig rétt, að hann verði sakfelldur fyrir brot gegn þeirri lagagrein.

Í ákæruskjali er háttsemi ákærða einnig talin varða við 4. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, en þar segir, að aðeins þeim íslensku skipum, sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni í fiskveiðilandhelginni samkvæmt ákvæðum laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sé heimilt að stunda þar veiðar. Byggir ákvæðið þannig á skírskotun til síðarnefndu laganna, og þá einnig á fyrirvara þeirra um rétt til tómstundaveiða. Að öðru leyti fjalla lög nr. 79/1997 aðallega um veiðar með öðrum veiðarfærum en handfærum og heimildir til sérstakra veiðitakmarkana og annarra verndarráðstafana, auk eftirlits með fiskveiðum. Með hliðsjón af því, sem fyrr segir um veiðar ákærða og markmið hans með þeim, eru ekki efni til þess í málinu, að hann verði einnig sakfelldur fyrir brot á þessum lögum.

Refsingu á hendur ákærða ber að ákveða eftir 20. gr. laga nr. 38/1990, sbr. 27. gr. laga nr. 57/1996, og á sektarrefsing við eftir 1. mgr. hennar. Samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 20. gr. og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þykir refsingin réttilega ákveðin 400.000 króna sekt í ríkissjóð, að viðlagðri vararefsingu samkvæmt 53. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 101/1976 og 9. gr. laga nr. 82/1998, fangelsi 50 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, svo sem um er mælt í dómsorði.

Hjörtur Torfason tekur fram, að hann telji rétt eftir atvikum málsins að skilorðsbinda refsingu ákærða.

Dómsorð:

Ákærði, Garðar Hafstein Björgvinsson, greiði 400.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi 50 daga.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað á að vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Valgeirs Kristinssonar hæstaréttarlögmanns,  80.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. nóvember 1998.

Ár 1998, þriðjudaginn 10. nóvember, er í Héraðsdómi Reykjaness í málinu nr. S-0578/1998:

Ákæruvaldið gegn Garðari Hafsteini Björgvinssyni, kveðinnn upp svohljóðandi dómur:

Mál þetta, sem dómtekið var 3. nóvember s.l., er höfðað með ákæru sýslumannsins í Hafnarfirði útgefinni 9. október 1998 á hendur Garðari Hafsteini Björgvinssyni, kt. 040534-4079, Herjólfsgötu 18, Hafnarfirði,“fyrir fiskveiðibrot, með því að hafa dagana 9., 11., 12., 16. og 19. júní 1998 veitt í fiskveiðilandhelgi Íslands, í atvinnuskyni og án leyfis til veiða í atvinnuskyni, 934 kg af þorski og 65 kg af ufsa, á bát sínum Rakkanesi HF 193, skipaskrárnúmer 2026, en afla þennan seldi hann á Fiskmarkaðnum hf. við Óseyrarbraut í Hafnarfirði.

Telst þetta varða við 4. gr., sbr. 16. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og 4. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sbr. 21. gr. laga nr. 79/1997 og 27.gr. laga nr. 57/1996”.

Málið er dæmt samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991, en með skýlusri játningu ákærða sem er í samræmi við sakargögn telst sannað að hann hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega færð til refsiákvæða.

Ákærði hefur eigi áður sætt refsingum sem hér skipta máli.

Refsing ákærða þykir með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin 600.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en ella sæti ákærði fangelsi í 60 daga.

Dæma ber ákærða til að greiða kostnað sakarinnar.

Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari, kveður dóminn upp.

Dómsorð:

Ákærði, Garðar Hafsteinn Björgvinsson, greiði 600.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu, en sæti ella fangelsi í 60 daga.

Ákærði greiði kostnað sakarinnar.