Hæstiréttur íslands
Mál nr. 242/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbússkipti
- Kröfugerð
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
Mánudaginn 1. september 2003. |
Nr. 242/2003. |
A og B(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.) gegn C D og E(Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Kærumál. Dánarbússkipti. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem til úrlausnar var ágreiningur um nánar tiltekin atriði varðandi opinber skipti á dánarbúi X. Tekið var fram að skiptastjóri búsins hefði ekki farið að í samræmi við ákvæði laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Þannig hefði hann strax á fyrstu stigum skipta gert drög að frumvarpi til úthlutunar án þess að atriðin, sem ágreiningurinn stendur um, hefðu áður verið könnuð nægilega og síðan útkljáð eftir þörfum samkvæmt reglum laga nr. 20/1991. Í málinu lágu að auki aðeins fyrir drög að frumvarpi til úthlutunar, sem fullnægðu ekki ákvæðum 1. mgr. 77. gr. laga nr. 20/1991, en ekki frumvarp í formlegum skilningi laganna. Þótt þetta breytti því að vísu ekki að ráða mætti af málatilbúnaði aðilanna um hvað ágreiningur þeirra stæði í meginatriðum, þá yrði afstaða ekki tekin til þessara ágreiningsefna í skjóli dómkrafna aðilanna, enda beindust þær í flestum eða öllum atriðum að því að fá fram tilteknar breytingar á drögum á frumvarpi til úthlutunar á grundvelli þeirra tölulegu forsendna og engan veginn væri tæmandi, sem þar kæmu fram, en ekki að því að fá fram viðurkenningu á tilteknum atriðum, sem ágreiningur væri um. Var því ótækt að fella efnisdóm á kröfur aðilanna í þessari mynd. Samkvæmt þessu varð ekki komist hjá því að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2003, þar sem til úrlausnar var ágreiningur aðilanna um nánar tiltekin atriði varðandi opinber skipti á dánarbúi X. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að frumvarp skiptastjóra til úthlutunar, sem lagt var fram á skiptafundi 16. desember 2002, verði staðfest með þeim breytingum að þær fái hvor í sinn hlut aðallega 38,28% af eignum dánarbúsins eða 16.217.987 krónur, en til vara 34,77% af eignum þess eða 14.731.684 krónur. Til þrautavara krefjast sóknaraðilar þess að frumvarp skiptastjóra verði staðfest þannig að hvor þeirra fái í sinn hlut þriðjung eigna dánarbúsins. Í öllum tilvikum krefjast þær málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur að öðru leyti en því að framreikningur fyrirframgreidds arfs sóknaraðilans A verði miðaður við mat Verðbréfastofunnar hf. frá 4. júlí 2002. Þá krefjast þeir þess að staðfest verði að X og Y hafi aðeins verið „heimilt að ráðstafa að bréfarfi skv. 2. mgr. 36. gr. erfðalaga 1/3 hluta af heildareignum búsins að jöfnu.“ Varnaraðilar krefjast jafnframt málskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki kært úrskurð héraðsdómara til Hæstaréttar fyrir sitt leyti. Framangreindar kröfur þeirra um breytingar á niðurstöðum hins kærða úrskurðar komast því ekki að hér fyrir dómi.
I.
Samkvæmt gögnum málsins lést X [...] 2001, en hún sat í óskiptu búi eftir að eiginmaður hennar, Y, lést [...] 1999. Y var fæddur á árinu 1899, en X 1904. Sóknaraðilar eru dætur hjónanna, en varnaraðilar synir látins sonar þeirra. Ekki munu vera aðrir lögerfingjar eftir hjónin.
Í málinu hafa verið lagðar fram fimm sameiginlegar erfðaskrár þeirra X og Y. Þrjár elstu erfðaskrárnar, sem gerðar voru 27. apríl 1965, 21. júlí 1981 og 21. maí 1982, varða ekki ágreiningsefni málsins. Í fjórðu erfðaskránni, sem hjónin gerðu 16. september 1988, var á hinn bóginn meðal annars svofellt ákvæði: „Við andlát hins langlífara okkar eða hugsanleg skipti eftir hið skammlífara okkar, skal dóttir okkar A, eða niðjar hennar, ef hún yrði látin, erfa allt hlutafé okkar beggja í [...] hf. Hlutafé það, sem fellur til A eða niðja hennar samkvæmt erfðaskrá þessari, erfir hún samkvæmt heimild í 35. gr. erfðalaga og skerðir því ekki lögarf hennar skv. 2. gr. erfðalaga.“ Í síðustu erfðaskránni, sem var gerð 6. desember 1989, var meðal annars kveðið á um það að sóknaraðilinn B skyldi taka að arfi sumarbústað hjónanna í landi [...] við Þingvallavatn ásamt nánar tilteknum mannvirkjum og lausafjármunum þar. Skyldi hún einnig erfa íbúð þeirra á 2. hæð hússins að [...] í Reykjavík, svo og íbúð þar í kjallara. Þá var í erfðaskrá þessari mælt fyrir um að varnaraðilarnir skyldu taka að arfi „50% af IV. hæð húseignarinnar [...] hér í borg“, sem þau X og Y ættu í óskiptri sameign með nafngreindum manni. Greint var frá þeirri kvöð á eigninni að sameigandi þeirra ætti á nánar tiltekinn hátt forkaupsrétt að henni, sem haldast skyldi gagnvart varnaraðilum að tæmdum arfi. Í þessu sambandi var eftirfarandi einnig tekið fram: „Hafi eignin verið seld fyrir lát hins langlífara okkar eða fyrir hugsanleg skipti eftir hið skammlífara skal andvirði eignar þessarar ganga til ofangreindra þriggja bræðra (eða niðja þeirra) að jöfnu.“ Í þessari síðustu erfðaskrá var jafnframt mælt fyrir um það að áðurnefnd erfðaskrá hjónanna frá 16. september 1988 ætti að halda gildi sínu, en þó þannig að síðari málsliðurinn í þeim hluta hennar, sem greint var frá orðrétt hér að framan, skyldi breytast þannig „að arfur til skylduerfingja okkar samkvæmt þeirri erfðaskrá og þessari teljum við jafnan, en að því marki sem hann væri það ekki telst hann falla undir heimild okkar til að ráðstafa eigum okkar með erfðaskrá samkvæmt 2. mgr. 36. gr. erfðalaga sbr. 35. gr.“ Í málinu er gildi þessara erfðaskráa í engu vefengt, en annað efni þeirra en það, sem hér hefur verið greint frá, varðar ekki ágreiningsefnin, sem málið er rekið um.
Fyrir liggur í málinu að X og Y afhentu sóknaraðilanum A sem fyrirframgreiðslu á arfi 25. september 1991 hlutabréf í [...] hf. að nafnverði 5.002.200 krónur, en þetta munu hafa verið öll hlutabréf hjónanna í því félagi. Í erfðafjárskýrslu, sem afhent var borgarfógetaembættinu í Reykjavík 4. október 1991 vegna þessarar ráðstöfunar, var um þennan arf sóknaraðilans vísað til erfðaskráa X og Y frá 16. september 1988 og 6. desember 1989. Í tengslum við þessa fyrirframgreiðslu arfs gerðu þau X og Y ásamt sóknaraðilanum A sameiginlega yfirlýsingu 25. september 1991, þar sem fram kom að samkomulag hafi orðið um að hjónin skyldu njóta arðs af hlutabréfunum ævilangt eða þar til þau myndu ákveða annað, en þetta skyldi einnig gilda þótt sóknaraðilinn framseldi hlutabréfin til annarra. Samhliða þessu afhentu X og Y sóknaraðilanum B fyrirfram að arfi fasteignir og aðrar eignir, sem henni voru ætlaðar í erfðaskrá hjónanna frá 6. desember 1989 og áður er getið. Erfðafjárskýrsla vegna þessarar ráðstöfunar var dagsett 25. september 1991, en afhent borgarfógetaembættinu í Reykjavík 7. nóvember sama árs. Í henni var ekki vísað sérstaklega til erfðaskrárinnar. Þá liggur fyrir að varnaraðilarnir fengu hver fyrir sig 3.000.000 krónur í peningum fyrirframgreiddar að arfi frá þeim X og Y. Varnaraðilinn E gerði yfirlýsingu 9. september 1991 varðandi greiðslu þessarar fjárhæðar til sín, þar sem fram kom að þetta væri fyrirframgreiðsla upp í arf eftir afa hans og ömmu, „sem draga ber frá arfhluta mínum þegar skipti fara fram eftir þau.“ Í málinu hefur verið lagður fram hluti af erfðafjárskýrslu vegna þessarar ráðstöfunar, sem einnig er dagsett 9. september 1991 en ber þó ekki með sér hvenær hún var afhent með greiðslu erfðafjárskatts. Einnig hafa verið lögð fram ljósrit af tveimur erfðafjárskýrslum, sem dagsettar voru 9. júní 1992 og afhentar borgarfógetaembættinu í Reykjavík 23. sama mánaðar, en með þeim voru gerð skil á erfðafjárskatti vegna fyrirframgreiðslu umræddrar fjárhæðar að arfi til varnaraðilanna C og D.
Með kaupsamningi 16. september 1997 seldu Y og fyrrnefndur sameigandi að eignarhlutanum í svonefndum [...], fasteigninni [...] í Reykjavík, þá eign fyrir samtals 17.310.000 krónur. Kom þar fram að Y væri eigandi að helmingi eignarhlutans, en samkvæmt því nam hlutur hans í söluverðinu 8.655.000 krónum. Af gögnum málsins verður ekki séð að nokkuð hafi verið gert í tengslum við þessa sölu varðandi fyrrnefnd ákvæði í erfðaskránni 6. desember 1989 um erfðarétt varnaraðilanna að eignarhlutanum eða andvirði hans.
Eftir andlát X krafðist sýslumaðurinn í Reykjavík 11. febrúar 2002 að dánarbú hennar yrði tekið til opinberra skipta á grundvelli ákvæðis 6. töluliðar 37. gr. laga nr. 20/1991. Var sú krafa tekin til greina með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars sama árs og skipaður skiptastjóri til að fara með skiptin.
Af gögnum málsins virðist skiptastjóri hafa haldið fyrsta skiptafund með erfingjum 7. maí 2002, en í fundargerð var þess getið að þar hafi verið „rætt vítt og breitt um málefni búsins“. Myndi skiptastjóri leita nánari upplýsinga um stöðu dánarbúsins hjá nafngreindum tengdasyni sóknaraðilans B, en boðað yrði til nýs fundar að fengnum þeim, svo og upplýsingum frá tilteknum löggiltum endurskoðanda. Í framhaldi af þessu virðist skiptastjóri hafa leitað mats Verðbréfastofunnar hf. á andvirði hlutabréfa að nafnverði 5.000.000 krónur, sem sóknaraðilinn A hafi fengið sem fyrirframgreiðslu arfs frá þeim X og Y. Í álitsgerð Verðbréfastofunnar hf. 4. júlí 2002 var komist að þeirri niðurstöðu að andvirði þessara hlutabréfa hafi verið 20.900.000 krónur í lok ársins 1990, en sú fjárhæð framreiknuð með vísitölu byggingarkostnaðar frá september 1991 til dagsetningar álitsgerðarinnar næmi um það bil 31.125.000 krónum. Þá liggur fyrir verðmat frá Eignamiðluninni ehf. 10. september 2002, þar sem því áliti var lýst að markaðsverð íbúðar í kjallara hússins að [...] hafi verið 4.000.000 krónur, íbúðar á 2. hæð hússins 18.000.000 krónur og sumarbústaðar í landi [...] 10.000.000 krónur, en í öllum tilvikum væri þetta verð áætlað miðað við það ástand, sem eignin var í þegar núverandi eigandi tók við henni eða þegar hún var seld. Ekki kemur fram berum orðum í verðmati þessu hvort markaðsverðið hafi tekið mið af verðlagi þegar matið var gert eða á þeim tíma, sem sóknaraðilinn B fékk umræddar eignir afhentar fyrirfram að arfi. Loks liggur fyrir álitsgerð Verðbréfastofunnar hf. 24. september 2002, þar sem fram kemur að skiptastjórinn hafi 18. sama mánaðar óskað eftir útreikningi á raungildi greiðslu að fjárhæð 3.000.000 krónur, sem hafi verið innt af hendi í júní 1992. Var það álit látið uppi að með framreikningi þeirrar fjárhæðar samkvæmt breytingum á lánskjaravísitölu frá júní 1992 til september 2002 og að viðbættum 4,75% ársvöxtum næmi hún 6.586.555 krónum.
Meðal annars á grundvelli þeirra gagna, sem að framan greinir, gerði skiptastjóri í dánarbúinu drög að frumvarpi til úthlutunar, sem hann lagði fram á öðrum skiptafundi með erfingjunum, en hann var haldinn 30. september 2002. Í upptalningu á eignum dánarbúsins í þessum drögum var greint frá andvirði fasteigna, sem sóknaraðilinn B hafði samkvæmt áðursögðu fengið fyrirfram að arfi og taldist nema 32.000.000 krónum, andvirði hlutabréfa í [...] hf., sem sóknaraðilinn A hafði fengið fyrirfram að arfi og var talið 31.125.000 krónur, og andvirði fyrirframgreiddra peninga til varnaraðila, sem sagt var að hafi upphaflega numið alls 9.900.000 krónum en væri metið 21.735.631 króna. Auk þessa væru eignir dánarbúsins hlutabréf í þremur tilteknum félögum, alls að matsverði 32.418.458 krónur, bankavíxill að andvirði 9.339.993 krónur og peningar að fjárhæð alls 607.059 krónur. Samkvæmt þessu voru eignir taldar samtals að andvirði 127.226.141 króna. Var ráðgert að þeim yrði skipt í þrjá jafna hluta þannig að hvor sóknaraðilinn fengi 42.408.714 krónur og varnaraðilarnir þrír sömu fjárhæð samanlagt. Frá hverjum þriðjungshlut yrði dregin hlutdeild í kostnaði af skiptunum, sem alls næmi 1.035.000 krónum. Að teknu tilliti til þessa og að frádregnu því, sem hver erfingjanna hafði fengið greitt fyrirfram að arfi, væru eftirstöðvar arfshluta sóknaraðilans A 10.938.714 krónur, sóknaraðilans B 10.063.714 krónur, en varnaraðilanna þriggja samtals 20.328.083 krónur. Af fundargerð frá skiptafundinum 30. september 2002 verður ekki séð að annað hafi þar verið gert en að afhenda erfingjunum eintak af þessum drögum að frumvarpi til úthlutunar.
Skiptastjóri hélt aftur skiptafund með erfingjunum 20. nóvember 2002, en áður höfðu honum borist skriflegar athugasemdir varnaraðilanna frá 15. sama mánaðar við einstök atriði í áðurnefndum drögum að frumvarpi. Að því leyti, sem athugasemdirnar vörðuðu ágreiningsefnin í máli þessu, sneru þær að fyrirframgreiðslu arfs til varnaraðilanna, sem áréttað var að hafi numið 3.000.000 krónum til hvers þeirra. Jafnframt var því andmælt að vextir yrðu reiknaðir af fyrirframgreiðslunni til þeirra, en ekki af því, sem sóknaraðilarnir höfðu fengið fyrirfram að arfi. Á skiptafundinum voru þessar athugasemdir ítrekaðar, en varðandi fjárhæð fyrirframgreiðslunnar til varnaraðila var því haldið fram af hálfu sóknaraðila að þau X og Y hafi á sínum tíma greitt erfðafjárskatt af henni, 300.000 krónur vegna hvers varnaraðila, og væri hún því réttilega greind í drögunum að frumvarpi. Þá gerðu sóknaraðilar athugasemdir um verðmat á hlutabréfum í [...] hf., sem þær töldu of hátt í drögunum, auk þess sem fyrirvari var gerður um verðmat á sumarbústaðnum í landi [...].
Í framhaldi af síðastnefndum skiptafundi leitaði skiptastjóri enn eftir álitsgerð Verðbréfastofunnar hf. á verðmæti áðurnefndra greiðslna til varnaraðila og hlutabréfanna í [...] hf., sem sóknaraðilinn A hafði fengið fyrirfram að arfi, en í þetta sinn að teknu tilliti til framangreindra athugasemda varðandi þessar eignir. Í álitsgerð frá 12. desember 2002 kom fram að framreiknað andvirði 3.000.000 króna, sem hver varnaraðili hafi fengið í júní 1992, næmi 4.166.000 krónum miðað við verðlagsbreytingar til desember 2002 og án vaxta. Þá var andvirði hlutabréfanna í [...] hf. metið á ný með hliðsjón af því, sem áður greinir, að X og Y höfðu áskilið sér rétt til arðs af þeim ævilangt, en þetta mun ekki hafa legið fyrir þegar leitað var eftir álitsgerðinni 4. júlí 2002 um verðmæti hlutabréfanna. Að því virtu var markaðsverð þeirra nú talið hafa numið 15.675.000 krónum í september 1991, en sú fjárhæð var sögð svara til 22.179.000 króna miðað við verðlagsbreytingar frá þeim tíma til desember 2002.
Að fenginni framangreindri álitsgerð gerði skiptastjóri ný drög að frumvarpi til úthlutunar, sem hann lagði fram á skiptafundi 16. desember 2002. Í þessum drögum var andvirði þeirra eigna, sem álitsgerðin sneri að, tilgreint til samræmis við hana. Til þess var þó ekki litið að öðru leyti í drögunum, því þar lagði skiptastjóri til grundvallar að ákvæðið í erfðaskrá X og Y frá 6. desember 1989, sem síðast var tekið orðrétt upp hér áður, skyldi hafa þau áhrif að við skiptin yrði ekkert tillit tekið til þess, sem erfingjarnir höfðu fengið greitt fyrirfram að arfi. Yrði því eignum, sem lágu fyrir, skipt í lögerfðahlutföllum milli erfingjanna. Í þessum drögum voru fyrirliggjandi eignir taldar vera hlutabréf í þremur félögum, bankavíxill og peningar, allt eins og tilgreint var í fyrri drögum að frumvarpi og samtals að andvirði 42.365.510 krónur, en kostnaður vegna skiptanna var sagður alls 1.035.000 krónur. Mismuninum yrði skipt þannig að hvor sóknaraðili fengi 13.776.837 krónur í sinn hlut og varnaraðilarnir sömu fjárhæð samanlagt. Að fram komnum skýringum skiptastjóra á þessum nýju drögum að frumvarpi til úthlutunar var skiptafundi frestað til 9. janúar 2003. Þar lögðu varnaraðilar fram bréf með skriflegum mótmælum gegn tilteknum atriðum í drögunum. Sóknaraðilar lýstu sig á hinn bóginn reiðubúnar til að samþykkja efni draganna, en áskildu sér þó rétt til að hreyfa andmælum gegn þeim ef varnaraðilar héldu mótmælum sínum til streitu. Var skiptafundi síðan enn frestað.
Varnaraðilar öfluðu álitsgerðar Verðbréfastofunnar hf. 17. janúar 2003 um hvert væri framreiknað verðmæti þess, sem fékkst fyrir 4. hæð fasteignarinnar [...] í Reykjavík með fyrrnefndum kaupsamningi 16. september 1997. Söluverðið, 17.310.000 krónur, var þar talið nema 21.336.916 krónum framreiknað með vísitölu neysluverðs án vaxta, en 26.942.430 krónum með vöxtum.
Skiptafundir voru enn haldnir í dánarbúinu 20. janúar og 3. febrúar 2003, en ekki tókst að jafna þar ágreining aðilanna. Beindi skiptastjóri honum því til Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2003 og var mál þetta þingfest af því tilefni 7. mars sama árs.
II.
Fyrir héraðsdómi gerðu varnaraðilar aðallega þá kröfu að dæmt yrði að þeim bæri hverjum fyrir sig að fá 1/9 hluta af heildarandvirði eigna dánarbúsins eins og það væri framreiknað til núvirðis, en að frádregnu andvirði arfs, sem þeir hafi fengið greiddan fyrirfram. Til vara kröfðust þeir þess að fá hver í sinn hlut 7.756.539 krónur, en þó þannig að til frádráttar kæmi hlutur þeirra í skiptakostnaði, sem ekki væri enn ljóst hver yrði. Til þrautavara kröfðust varnaraðilar þess að fá sameiginlega af óskiptu fé dánarbúsins samtals 10.668.458 krónur, en afgangi þess yrði skipt í lögerfðahlutföllum. Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi kom fram að aðalkrafa þeirra tæki mið af því að andvirði fyrirframgreiðslu arfs til sóknaraðilans B næmi 32.000.000 krónum, svo sem komist var að niðurstöðu um í áðurnefndu verðmati Eignamiðlunarinnar ehf., fyrirfram greiddur arfur sóknaraðilans A væri að andvirði 31.125.000 krónur, eins og greindi í álitsgerð Verðbréfastofunnar hf. frá 4. júlí 2002, og framreiknuð fjárhæð fyrirframgreiðslunnar til varnaraðilanna þriggja, upphaflega 3.000.000 krónur til hvers þeirra, væri 4.166.000 krónur eða alls 12.498.000 krónur. Væri í þessu efni miðað við niðurstöðu í áðurnefndum útreikningi Verðbréfastofunnar hf. frá 12. desember 2002, þar sem fjárhæðin hafi verið framreiknuð án vaxta. Að viðbættu andvirði eigna dánarbúsins, sem ekki höfðu verið greiddar fyrirfram að arfi, áðurnefndum 42.365.510 krónum, teldust heildareignir þess að raunvirði 117.988.510 krónur. Í hlut hvors sóknaraðila ætti að koma þriðjungur þeirrar fjárhæðar eða 39.329.503 krónur, en í hlut hvers varnaraðila níundi hluti hennar eða 13.109.834 krónur. Sóknaraðilinn A hafi þegar fengið greiddar fyrirfram 31.125.000 krónur og ætti því nú að fá 8.204.503 krónur í sinn hlut. Sóknaraðilinn B hafi fengið fyrirfram 32.000.000 krónur og stæðu þannig eftir 7.329.503 krónur af hennar hlut. Varnaraðilarnir hafi hver fyrir sig áður fengið sem svari 4.166.000 krónum og ætti því hver þeirra að fá 8.943.834 krónur í sinn hlut við skiptin. Í greinargerð varnaraðila var varakrafa þeirra skýrð þannig út að miðað væri við að heildarandvirði eigna dánarbúsins að meðtöldu því, sem erfingjar hafi fengið greitt fyrirfram að arfi, næmi áðurnefndum 117.988.510 krónum. Þeim X og Y hafi verið heimilt að ráðstafa þriðjungi þeirrar fjárhæðar með erfðaskrá eða 39.329.503 krónum, en mismunurinn, 78.659.007 krónur, væri skylduarfur lögerfingja, sem ekki yrði skertur. Af þeirri fjárhæð bæri sóknaraðilunum hvorri 26.219.669 krónur, en hverjum varnaraðila 8.739.890 krónur. Sóknaraðilinn A hafi fengið greiddar fyrirfram upp í arf 31.125.000 krónur eða 4.905.331 krónu meira en nam skylduarfi hennar. Sóknaraðilinn B hafi fengið fyrirframgreiðslu að andvirði 32.000.000 krónur eða 5.780.331 krónu meira en henni bar að skylduarfi. Með þessu hafi X og Y þannig ráðstafað samtals 10.685.662 krónum af því, sem þeim var heimilt að fara með sem bréfarf, og hafi þá 28.643.841 króna staðið eftir af arfleiðsluheimild þeirra. Þeirri fjárhæð bæri að skipta milli erfingjanna í lögerfðahlutföllum þannig að hvor sóknaraðila fengi 9.547.947 krónur af henni, en hver varnaraðila 3.182.649 krónur. Síðastnefnd fjárhæð að viðbættum áðurnefndum skylduarfi hvers varnaraðila, 8.739.890 krónum, væri alls 11.922.539 krónur. Af þeirri fjárhæð hafi hver þeirra fengið sem svarar 4.166.000 krónum fyrirfram að arfi og standi því eftir 7.756.539 krónur handa hverjum þeirra, svo sem ráðgert sé í varakröfu þeirra. Þrautavarakrafa varnaraðila var skýrð þannig í greinargerð þeirra að gagnstætt sóknaraðilum hafi þeir aldrei fengið fyrirframgreiðslu á bréfarfi, sem X og Y ráðstöfuðu til þeirra með erfðaskránni 6. desember 1989, en samkvæmt henni hafi þeir í sameiningu átt að fá að arfi helmingshluta í 4. hæð hússins að [...] eða andvirði þeirrar eignar ef hún yrði seld fyrir lát arfleiðendanna. Samkvæmt fyrrnefndri álitsgerð Verðbréfastofunnar hf. 17. janúar 2003 sé framreiknað söluverð, sem fékkst fyrir eignarhlutann með kaupsamningi 16. september 1997, 10.668.458 krónur eða sem svarar helmingi af þeim 21.336.916 krónum, sem þar greini.
Fyrir héraðsdómi gerðu sóknaraðilar sömu aðalkröfu og varakröfu og þær gera nú fyrir Hæstarétti, en að auki þá þrautavarakröfu að hvor þeirra fengi að arfi þriðjung af þeim eignum, sem nú væru fyrir hendi í dánarbúinu. Samkvæmt greinargerð sóknaraðila fyrir héraðsdómi er í þessum kröfum tekið mið af því að andvirði hlutabréfanna í [...] hf., sem sóknaraðilinn A fékk fyrirfram að arfi, hafi réttilega verið reiknað í álitsgerð Verðbréfastofunnar hf. frá 12. desember 2002 og teljist því 22.179.000 krónur, að andvirði fasteigna, sem sóknaraðilinn B fékk fyrirfram að arfi, beri að telja 32.000.000 krónur, svo sem komist var að niðurstöðu um í verðmati Eignamiðlunarinnar ehf. 10. september 2002, og að raungildi þess, sem hver varnaraðili fékk greitt fyrirfram upp í arf, eigi að teljast 6.586.555 krónur að teknu tilliti til vaxta, eins og fram kom í álitsgerð Verðbréfastofunnar hf. frá 24. september 2002, en alls hafi varnaraðilar þannig fengið 19.759.665 krónur í sinn hlut. Samanlagt verðmæti þess, sem greitt hafi verið fyrirfram að arfi, sé þannig 73.938.665 krónur. Dánarbúið eigi nú hlutabréf, bankavíxil og peninga að andvirði samtals 42.365.510 krónur. Tvær síðastnefndu fjárhæðirnar séu til samans 116.304.175 krónur. Af þeirri samtölu, sem líta beri á sem heildareignir dánarbúsins, hafi X og Y ráðstafað með erfðaskrám 22.179.000 krónum til sóknaraðilans A og 32.000.000 krónum til sóknaraðilans B. Að auki hafi þau mælt fyrir um að varnaraðilar fengju að arfi helmingshlut í 4. hæð hússins að [...] eða andvirði hans, en þá eign hafi X og Y selt 1997 og fengið í sinn hlut 8.655.000 krónur. Samkvæmt útreikningi Verðbréfastofunnar hf. 17. janúar 2003 nemi sú fjárhæð framreiknuð ásamt vöxtum 13.471.215 krónum. Sóknaraðilinn A hafi þannig fengið að bréfarfi 8.707.785 krónum meira en varnaraðilarnir til samans, en sóknaraðilinn B 18.528.785 krónum meira en þeir. Alls séu þessar tvær síðastnefndu fjárhæðir lægri en sá þriðjungur af 116.304.175 krónum, sem ráðstafa hafi mátt með erfðaskrá án tillits til skylduerfingja. Af síðastnefndri fjárhæð hafi X og Y ráðstafað samkvæmt áðursögðu samtals 67.650.215 krónum með erfðaskrám og standi því eftir til skipta eftir lögerfðareglum 48.653.960 krónur eða 16.217.987 krónur handa hvorri af sóknaraðilunum og handa varnaraðilunum þremur til samans. Ekkert hafi verið gengið á þennan lögerfðahlut sóknaraðilanna með fyrirframgreiðslu arfs, enda hafi hvor þeirra fengið á þann hátt sömu fjárhæð og nam bréfarfi samkvæmt erfðaskrám X og Y. Öðru máli gegni um varnaraðila, því bréfarfur þeirra hafi samtals átt að nema áðurnefndum 13.471.215 krónum, en fyrirfram greiddur arfur til þeirra hafi sem fyrr segir alls verið að andvirði 19.759.665 krónur. Með þessu hafi fyrirframgreiðslan orðið 6.288.450 krónum hærri en bréfarfi hafi átt að nema og verði sú fjárhæð að koma til frádráttar samanlögðum lögerfðahluta varnaraðila, 16.217.987 krónum, þannig að eftir standi 9.929.537 krónur. Samkvæmt þessu eigi sóknaraðilinn A að fá í sinn hlut 16.217.987 krónur, sóknaraðilinn B 16.217.987 krónur og varnaraðilarnir þrír til samans 9.929.537 krónur. Samanlagt sé þetta einni krónu meira en þær 42.365.510 krónur, sem dánarbúið eigi nú í hlutabréfum, bankavíxli og peningum. Hlutfallslega eigi því sóknaraðilarnir hvor að fá 38,28% af eignum dánarbúsins í sinn hlut, svo sem aðalkrafa þeirra miðar við. Í greinargerð fyrir héraðsdómi skýrðu sóknaraðilar varakröfu sína þannig út að hún væri reist á sömu forsendum og aðalkrafa þeirra í öllum öðrum atriðum en þeim að ekki væri gert ráð fyrir því að vextir yrðu reiknaðir annars vegar af þeirri fjárhæð, sem varnaraðilar fengu samtals greidda fyrirfram að arfi, og hins vegar af söluverðinu, sem fékkst fyrir eignarhlutann í fasteigninni að [...] samkvæmt kaupsamningi frá 16. september 1997. Fyrirframgreiddur arfur varnaraðila yrði samkvæmt því talinn alls 12.498.000 krónur í staðinn fyrir þær 19.759.665 krónur, sem aðalkrafa sóknaraðila miðist við, og söluverð eignarhlutans í fasteigninni 10.668.458 krónur í stað áðurnefndra 19.759.665 króna. Eftir nánari útreikningi, sem fram kom í greinargerðinni, olli þessi munur því að arfshlutfall hvors sóknaraðila yrði talinn 34,77%. Í þrautavarakröfu sóknaraðila var loks tekið mið af því að fyrrnefnd drög að frumvarpi til úthlutunar, sem skiptastjóri lagði fram á skiptafundi 16. desember 2002, yrðu látin standa óröskuð.
III.
Svo sem ráðið verður af framansögðu snýst ágreiningur aðilanna um nokkurn fjölda atriða, sem varða forsendur fyrir skiptingu arfs milli þeirra við skipti á dánarbúi X. Helstu ágreiningsatriðin virðast nánar tiltekið vera í fyrsta lagi hvort andvirði fyrirframgreiðslu arfs til sóknaraðilans A á hlutabréfum í [...] hf. skuli teljast 31.125.000 krónur í samræmi við álitsgerð Verðbréfastofunnar hf. 4. júlí 2002 eða 22.179.000 krónur samkvæmt álitsgerð hennar 12. desember sama árs. Í öðru lagi hvort meta eigi fyrirframgreiðslu arfs að fjárhæð 3.000.000 krónur handa hverjum varnaraðila með framreikningi þeirrar fjárhæðar samkvæmt verðlagsbreytingum og leggja þar við vexti, þannig að andvirði hennar verði 6.586.555 krónur, eða án þess reikna vexti, þannig að andvirðið verði 4.166.000 krónur. Í þriðja lagi hvort varnaraðilar hafi fengið umræddar fjárhæðir greiddar á árunum 1991 og 1992 fyrirfram upp í bréfarf samkvæmt erfðaskránni frá 6. desember 1989, þar sem þeim var ætlaður helmings eignarhluti í 4. hæð fasteignarinnar að [...] í Reykjavík eða andvirði hans, eða fyrirfram upp í arf á grundvelli lögerfðaréttar, þannig að bréfarfur þeirra standi enn óuppgerður. Í fjórði lagi hvort andvirði þessa eignarhluta í fasteign verði nú ákveðið með því að framreikna hlut Y í söluverði hennar samkvæmt kaupsamningi 16. september 1997 og leggja þar við vexti, þannig að andvirðið verði talið nema 13.471.215 krónum, eða án þess að leggja við vexti, þannig að andvirðið teljist 10.668.458 krónur. Í fimmta lagi hvort skipta eigi heildareignum dánarbúsins að viðbættu andvirði fyrirframgreidds arfs eftir lögerfðahlutföllum, draga síðan frá hlut hvers erfingja þá fjárhæð, sem talin verður andvirði fyrirframgreiðslunnar til hans, og greiða hverjum þeirra mismuninn án þess að áhrifa gæti af áðurgreindu ákvæði í erfðaskrá X og Y frá 6. desember 1989 um samjöfnuð á bréfarfi einstaka erfingja. Í sjötta lagi, hafi þetta ákvæði erfðaskrárinnar áhrif, hvort eingöngu eigi að skipta núverandi eignum dánarbúsins milli erfingja í lögerfðahlutföllum án þess að nokkuð tillit verði tekið til fyrirframgreiðslu bréfarfs eða hvort og þá hvernig reikna þurfi með bréfarfinum og eftir atvikum fyrirframgreiðslu hans í uppgjöri milli erfingjanna.
Samkvæmt ákvæðum 2. þáttar laga nr. 20/1991 er skiptastjóra við opinber skipti á dánarbúi ætlað á fyrstu stigum að kanna tilkall til arfs og fá leyst ef þörf krefur úr ágreiningi um það efni fyrir dómi, sbr. 53. gr. laganna. Sú könnun verður að taka bæði til erfðaréttar á grundvelli lögerfðareglna og erfðaskrár, en eftir þörfum verður þannig að leysa ágreining um skýringu og beitingu erfðaskrár við skiptin þegar á fyrstu stigum þeirra. Skiptastjóra er jafnframt ætlað við upphaf skipta að afla vitneskju um eignir dánarbús og komast jafnframt eftir þörfum að niðurstöðu um verðgildi þeirra, sbr. 54. gr. laga nr. 20/1991. Meðal eigna í þessum skilningi getur talist andvirði fyrirframgreidds arfs, en standi ágreiningur um atriðin, sem hér um ræðir, verður skiptastjóri að leita úrlausnar dómstóla ef ekki tekst að jafna hann á annan hátt. Auk þessa ber skiptastjóra að ganga úr skugga um skuldbindingar dánarbús, sbr. 55. gr. laganna. Að þessu gerðu verður að leita afstöðu erfingja til þess hvort þeir taki á sig ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins, hvort þeir vilji fá eignir þess lagðar sér út að arfi eða hvort koma eigi þeim í verð við skiptin. Eftir að öll framangreind atriði hafa verið leidd til lykta, eftir atvikum með dómsúrlausn, eignum hefur verið ráðstafað eftir þörfum og skuldbindingar dánarbúsins efndar, lýkur skiptastjóri opinberu skiptunum með því að gera frumvarp til úthlutunar, afgreiða það á skiptafundi og greiða erfingjum út arf því til samræmis, sbr. 77.-80. gr. laga nr. 20/1991.
Við opinberu skiptin, sem mál þetta er risið af, hefur skiptastjóri ekki farið þannig að sem að framan greinir. Þess í stað gerði hann strax á fyrstu stigum skipta drög að frumvarpi til úthlutunar án þess að atriðin, sem ágreiningur stendur nú um, hafi áður verið könnuð nægilega og síðan útkljáð eftir þörfum samkvæmt reglum laga nr. 20/1991. Í málinu liggja að auki aðeins fyrir drög að frumvarpi til úthlutunar, sem fullnægja ekki ákvæðum 1. mgr. 77. gr. laga nr. 20/1991, en ekki frumvarp í formlegum skilningi laganna. Þótt þetta breyti því að vísu ekki að ráða megi af málatilbúnaði aðilanna um hvað ágreiningur þeirra stendur í meginatriðum, þá verður afstaða ekki tekin til þessara ágreiningsefna í skjóli dómkrafna aðilanna, enda beinast þær, ýmist eftir orðanna hljóðan eða samkvæmt skýringum á þeim, í flestum eða öllum atriðum að því að fá fram tilteknar breytingar á drögum að frumvarpi til úthlutunar á grundvelli þeirra tölulegu forsendna, sem þar koma fram og engan veginn eru tæmandi, en ekki að því að fá fram viðurkenningu á tilteknum atriðum, sem ágreiningur er um. Er því ótækt að fella efnisdóm á kröfur aðilanna í þessari mynd. Ekki er frekar unnt að taka á annan hátt efnislega afstöðu til ágreiningsatriðanna í málinu, enda yrði þá farið út fyrir efni dómkrafna aðilanna, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem hér á við samkvæmt 2. mgr. 131. gr. og 2. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt þessu verður ekki komist hjá því að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Eftir þessum úrslitum málsins verða aðilarnir hver að bera sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. maí 2003.
Mál þetta var þingfest 7. mars 2003 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 12. maí sl.
Sóknaraðilar eru C, D, og E.
Varnaraðilar eru A og B.
Dómkröfur sóknaraðila eru aðallega að þeir fái í sinn hlut hver úr dánarbúi hjónanna X, sem lést [...] 2001, og Y, en hann lést [...] 1999, einn níunda hluta af heildarandvirði búsins, eins og það er framreiknað til núvirðis, og frá hverjum hluta verði dregið andvirði fyrirfram greidds arfs - en sóknaraðilar eru sonar[...] Y og X. X sat í óskiptu búi eftir lát eiginmanns síns er hún lést. Til vara er þess krafist að sóknaraðilar fái hver um sig í sinn hlut úr búinu 7.756.539 kr., og sé þannig tekið tillit til heimildar arfleifenda til ráðstöfunar með erfðaskrá á grundvelli 2. mgr. 36. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Til þrautavara er þess krafist að sóknaraðilar taki fyrst og að jöfnu arf skv. 3. gr. sameiginlegrar erfðaskrár arfleifenda frá 6. desember 1989, andvirði 50% fjórðu hæðar húseignarinnar [...], sem seld var þann 16. september 1997. Framreiknað verð arfhlutarins sé 10.668.458 kr. án vaxta. Að teknu tilliti til þess og að frádregnum þeim arfshluta fari um skipti dánarbúsins samkvæmt 1. gr. og 2. mgr. 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962.
Sóknaraðilar krefjast þess að í öllum tilvikum verði miðað við sömu reiknireglu á allan fyrirframgreiddan arf, þannig að fyrirfram greiddur arfur sóknaraðila miðist við útreikning Verðbréfastofunnar frá 12. desember 2002, fyrirfram greiddur arfur varnaraðila, B, miðist við útreikning Eignamiðlunarinnar ehf. frá 10. september 2002 og fyrirframgreiddur arfur varnaraðila, A, miðist við útreikning Verðbréfastofunnar frá 4. júlí 2002.
Auk þess er krafist málskostnaðar að mati réttarins, en sóknaraðilar eru ekki virðisaukaskattsskyldir.
Tekið er fram að í kröfufjárhæð í varakröfu hafi ekki verið tekið tillit til skiptakostnaðar eða kostnaðar vegna matsgerða, enda sé ekki fullljóst hver sá kostnaður komi til með að verða.
Dómkröfur varnaraðila eru aðallega að frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr dánarbúi X frá 16. desember 2002 verði staðfest með þeim breytingum að varnaraðilar, A og B, hljóti hvor um sig 38,28% af eignum búsins eins og þær eru nú, eða 16.217.987 kr., og þar með verði staðfest að framreikningur arfs samkvæmt erfðaskrá frá 1989 til sóknaraðila og framreikningur fyrirfram greiðsluarfs til þeirra skuli framkvæmdur samkvæmt framreikningi Verðbréfastofunnar ehf. með vöxtum auk þess sem staðfest verði heimild arfleifenda til ráðstöfunar eigna sinna með erfðaskrá á grundvelli ákvæða 35. og 36. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Til vara er þess krafist að frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr dánarbúi X frá 16. desember 2002 verði staðfest með þeim breytingum að varnaraðilar, A og B, hljóti hvor um sig 34,77% af eignum búsins eins og þær eru nú, eða 14.731.684 kr., og þar með verði staðfest að framreikningur arfs samkvæmt erfðaskrá frá 1989 til sóknaraðila og framreikningur fyrirframgreiðslu arfs til þeirra skuli framkvæmdur samkvæmt framreikningi án vaxta auk þess sem staðfest verði heimild arfleifenda til ráðstöfunar eigna sinna með erfðaskrá á grundvelli ákvæða 35. og 36. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Til þrautavara er krafist staðfestingar frumvarps skiptastjóra til úthlutunar úr dánarbúi X frá 16. desember 2002 þannig að varnaraðilar, A og B, hljóti hvor um sig 1/3 hluta eigna búsins eins og þær eru nú.
Í öllum tilvikum krefjast varnaraðilar greiðslu málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt reikningi eða mati dómsins.
Helstu málsatvik eru að sýslumaðurinn í Reykjavík krafðist opinberra skipta á dánarbúi X með vísun til ákvæðis 6. tl. 37. gr. laga nr. 20/1991 með bréfi sem móttekið var í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. febrúar 2002. Með úrskurði 15. mars 2002 var dánarbúið tekið til opinberra skipta og Sigurður Georgsson hrl. skipaður skiptastjóri.
Á skiptafundi 16. desember 2002 lagði skiptastjóri fram frumvarp til úthlutunar, en þar segir m.a.:
[...]
Í bréfi skiptastjóra til héraðsdóms þar sem hann vísar ágreiningi vegna skipta á dánarbúinu til dómsins segir m.a. um framgang skiptanna að í ljós hafi komið erfðaskrár hinna látnu hjóna, dags. 27. apríl 1965, 21. júlí 1981, 21. maí 1982, 16. september 1988 og 6. desember 1989. Ágreiningur erfingja sé í því fólginn að sonar[...] hinnar látnu, C, D og E, telji að með erfðaskránni frá 6. desember 1989 hafi þeir hlotið að bréfarfi 50% 4. hæðar húseignarinnar [...], hér í bæ, sérgreint, og beri við skiptin nú að úthluta þeim andvirði þeirrar fasteignar fyrst. Það sem þá sé eftir eigi að skiptast að jöfnu þannig að 2/3 hlutar eigna sem þá eru eftir gangi til erfingjanna B og A, en 1/3 hluti til þeirra. Þá eigi fyrirframgreiddur arfur, alls 3 milljónir að nafnvirði til hvers þeirra, ekki að koma til frádráttar arfshluta þeirra.
Sóknaraðilar byggja á því að miðað sé við sömu framreikningsreglu, hvort sem verið sé að núvirðisreikna hlutabréf, fasteignir eða peninga.
Aðalkröfu sína reisa sóknaraðilar á því að þeir eigi að fá í sinn hlut samtals þriðjung heildareigna arfleifenda á grundvelli erfðalaga og á grundvelli erfðaskráa frá 1988 og 1989 og ódagsettu minnisblaði arfleifanda, að frádregnum fyrirframgreiddum arfi. Í minnisblaði arfleifanda, Y, komi fram sú afstaða hans að skipta skuli arfinum jafnt milli erfingja. Vilji hans liggi ljós fyrir. En fara skuli eftir vilja arfleifenda við túlkun á erfðaráðstöfunum og túlka óljós atriði á grundvelli þess sem ætla megi að hafi verið ósk arfleifanda. Þá segi í 3. gr. erfðaskrárinnar frá 6. desember 1989:
Við andlát hins langlífara okkar eða hugsanleg skipti eftir hið skammlífara okkar skulu þrjú börn [...] okkar F, þeir C, D og E, erfa 50% af IV. hæð húseignarinnar [...] hér í borg, sem við hjónin eigum í óskiptri sameign með Z. Sú kvöð fylgir eign þessari samkvæmt munnlegum samningi milli okkar og Z, að hún á rétt á því að kaupa fasteign þessa þegar við erum tilbúin að selja hana. Hún á rétt á því að kaupa eignina fyrir það verð sem ákveðið yrði af tveimur mönnum, einum frá hvorum aðila, þegar arfur samkvæmt þessari grein fellur. Ef hún óskaði ekki að kaupa eign þessa þá fellur eign þessi til [...] þriggja að jöfnu, en áðurnefnd kvöð um forkaupsrétt/kauprétt Z skal halda gildi sínu áfram ótímabundið. Hafi eignin verið seld fyrir lát hins langlífara okkar eða fyrir hugsanleg skipti eftir hið skammlífara skal andvirði eignar þessarar ganga til ofangreindra þriggja [...] (eða niðja þeirra) að jöfnu.
Byggt er á því að sóknaraðilar fá í arf jafnan hlut og hvor varnaraðila. Með því að fallist verði á þessa kröfu hafi sóknaraðilum verið greitt andvirði húseignar í [...] samkvæmt erfðaskránni frá 1989. Varnaraðilar hafi fengið arf sinn samkvæmt erfðaskránum 1988 og 1989 greiddan fyrirfram á sínum tíma. Það hafi sóknaraðilar hins vegar ekki fengið.
Tölulega er þannig gerð grein fyrir kröfunni:
[...]
Af hálfu sóknaraðila er ekki fallist á að hlutabréfin í [...] séu einungis að virði 22.179.000 kr., eins og ráðgert er í síðari útreikningum Verðbréfastofunnar, enda hafi samkomulag aðila um takmarkanir á ráðstöfun á arfi ekkert gildi, sbr. 1. mgr. 36. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Ekki er fallist á að þetta samkomulag eigi að hafa nokkur áhrif á framreikning hlutabréfanna og þeirri röksemdafærslu Verðbréfastofunnar mótmælt. Þá er því haldið fram að arfur, sem sóknaraðilum var greiddur fyrirfram árið 1991, 3.000.000 kr. til hvers þeirra um sig, hafi ekki verið greiðsla á arfi samkvæmt erfðaskránni frá 1989. Hvergi í gögnum málsins sé nein tenging milli þeirrar greiðslu og bréfarfsins, hvort sem litið sé til erfðafjárskýrslu, kvittunar C fyrir móttöku peninganna eða yfirlýsingar E frá 8. september 1989. Hafi það verið vilji eða skoðun arfleifenda að þessi greiðsla ætti eða væri að koma í stað bréfarfsins frá 1989 hefði þeim verið í lófa lagið að breyta erfðaskránni frá 1989 eða geta þess á skjölum, sem útbúin voru í tengslum við þessar greiðslur, en árið 1991 hafi þau bæði verið á lífi og við góða andlega heilsu. Hugsanlegt sé að arfleiðendur hafi með þessum greiðslum verið að jafna út arfi, sem þeir voru að greiða fyrirfram, og höfðu ákveðið með erfðaskránum, og þannig hafi að þeirra mati [...] eignin ásamt 9 milljón króna greiðslu verið jöfn eða nokkuð jöfn hlutabréfunum í [...] og fasteignunum á [...] og [...]. [...]hæðin hafi verið seld 6. september 1997 á 17.310.000 kr. Helmingur andvirðis hennar skyldi renna til sóknaraðila. Samkvæmt framreikningi Verðbréfastofunnar frá 17. janúar 2003 miðað við vísitölu neysluverðs sé andvirði þessa án vaxta í dag 10.668.458 kr.
Varakrafa sóknaraðila er eins og aðalkrafan byggð á því að þeir fái samtals í sinn hlut þriðjung eigna búsins, og sé þá tekið tillit til heimilda arfleiðenda til að mismuna erfingjum á grundvelli 35. gr. og 2. mgr. 36. gr. erfðalaga og reiknað út samkvæmt 29. gr. erfðalaganna. Arfleifendum hafi verið heimilt að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrám á árunum 1988 og 1989, en varakrafan sé byggð á því að hlutur erfingja hafi ekki átt að vera jafn með erfðaskránum frá 1988 og 1989. Framreiknaður skylduarfur arfleifenda, þ.e. 2/3 af 117.988.510 kr. sé 78.659.007 kr. Framreiknaður skylduarfur hvers barns um sig sé því 26.219.669 kr. Með erfðaskrá hafi B fengið í sinn hlut fasteignir að verðmæti 32.000.000 kr. Arfur umfram skylduarf sem greiddur var henni fyrirfram hafi því verið 5.780.331 kr. Þá hafi A fengið með erfðaskrá í sinn hlut andvirði 31.125.000 kr. Arfur umfram skylduarf sem greiddur var A fyrirfram hafi því verið 4.905.331 kr. Arfur sem ráðstafað var til sóknaraðila á grundvelli 35. gr. hafi samtals verið 10.685.662 kr. Arfur sem sé óráðstafað samkvæmt erfðaskrá sé því 28.643.841 kr.
Byggt er á því að samkvæmt 1. gr. erfðalaga taki börn arf eftir foreldra sína að jöfnu og samkvæmt 2. mgr. 2. gr. taki barn þess barns, sem andast hefur á undan arfleifanda, þann hluta sem því hefði borið. Í þessu máli sé skylduarfurinn 78.659.007 kr. Sé 28.643.841 kr. bætt við, þ.e. þeim hluta arfsins sem ekki var ráðstafað með erfðaskránni, sé hægt að finna þann arf, sem komi til skipta milli barna og barnabarna, þ.e. 107.302.848 kr. Frá þessari fjárhæð sé síðan dreginn frá fyrirframgreiddur arfur samkvæmt 29. gr. Á grundvelli þessarar reglu skiptist arfurinn í þrjá hluta, sem hver um sig sé 35.767.616 kr. Hlutur hvers um sig verður því sem hér segir:
[...]
Verði hvorki fallist á aðalkröfu né varakröfu sóknaraðila er til þrautavara krafist þess að sóknaraðilar fái fyrst skipt til sín andvirði fasteignarinnar í [...] svo sem kveðið var á um í erfðaskránni frá 1989. Ljóst megi vera að eignin var ekki greidd þeim sem fyrirframgreiddur arfur en fjárgreiðslur, sem inntar voru af hendi til sóknaraðila 1991, voru hvergi nærri jafnvirði þeirra eigna sem varnaraðilar fengu þá greiddar.
Af hálfu varnaraðila er byggt á því, bæði í aðalkröfu, varakröfu og þrautavarakröfu að frá framreiknuðum heildareignum dánarbúsins eigi fyrst að draga verðmæti þess arfs sem arflátar ákváðu börnum sínum með erfðaskránum frá 1988 og 1989 og komið hefur í ljós að er umfram verðmæti arfs til barnabarna þeirra í sömu erfðaskrám. Þetta sé í samræmi við 2., 3. og 5. gr. erfðaskrárnar frá 1989, sbr. ákvæði 2. gr. erfðaskrárnar frá 1988, sbr. og 35. og 36. gr. erfðalaga. Þegar svo er farið, segir af hálfu varnaraðila, standi eftir arfur, sem skuli skiptast jafnt milli erfingjanna, þ.e. 1/3 hluti til hvors varnaraðila og 1/9 hluti til hvers hinna þriggja sóknaraðila, ýmist sem skylduarfur og/eða arfur samkvæmt ákvörðun arfleifenda samkvæmt tilgreindum erfðaskrám, sbr. og ákvæði 2. mgr. 36. gr. erfðalaga um ákveðnar eignir.
Á því er byggt af hálfu varnaraðila að þegar arfshluti þeirra, hvorrar um sig, hefur verið ákveðinn í samræmi við það, sem hér hefur verið sagt, skuli bæta við hann þeim arfi, sem þær fengu samkvæmt erfðaskrám. Við svo búið liggi fyrir heildararfshluti þeirra hvorrar um sig í dánarbúinu. Þá er á því byggt að þær hafi báðar fengið fyrirframgreiðslu arfs og greitt erfðafjárskatt af þeim arfi og sá arfur skuli koma til frádráttar heildararfshluta þeirra hvorrar um sig á grundvelli ákvæða 31. gr. erfðalaga.
Vísað er til þess að sóknaraðilar hafi ekki fengið arf sinn samkvæmt 3. gr. erfðaskrárinnar frá 1989 greiddan, enda sé dánarbúið nú fyrst til skiptameðferðar. Ágreiningur sé með aðilum máls þessa um framreikning þeirra verðmæta, en varnaraðilar telji einsýnt að byggja skuli á ákvæðum erfðaskrár um hvert þau verðmæti skuli renna, þ.e. til sóknaraðila að jöfnu. Á því sé byggt að sóknaraðilar hafi allir fengið fyrirframgreiddan arf, sem skuli koma til frádráttar arfi þeirra á grundvelli ákvæða 31. gr. erfðalaga, öldungis á hliðstæðan hátt og fyrirframgreiddi arfurinn til varnaraðila.
Varðandi aðalkröfu varnaraðila sérstaklega og málsástæður sóknaraðila í sambandi við hana er bent á að erfðaskrá arfleifenda frá 1989 tilgreini sérstaklega að þau telji jöfnuð hafa náðst með ákvörðun þeirra um skiptingu eigna með erfingjunum eins og erfðaskrá kveður á um. Þrátt fyrir það álit og þær væntingar arfleifenda að þeim hefði tekist að skipta tilgreindum eignum jafnt milli niðja sinna með erfðaskrá, hafi þau reiknað með reikningslegum síðari tíma tilbrigðum og ákveðið að kæmi til slíks, þ.e. að síðari tíma framreikningar bentu til ójafnra skipta, myndi það sem umfram væri falla undir og teljast ákvörðun þeirra um arfleiðslu á grundvelli ákvæða 35. og 36. gr. erfðalaga til hagsbóta fyrir þann aðila sem þess nyti. Af hálfu varnaraðila sé þannig á því byggt að ákvörðun arfleifenda með erfðaskrá varði aðeins þann hluta sem teljist umfram jöfnuð milli erfingja.
Því er alfarið mótmælt að sóknaraðilar eigi að fá sama hlut af óskiptu og hvor varnaraðila fyrir sig. Í fyrsta lagi fái varnaraðilar ekki jafnan hlut samkvæmt erfðaskrá heldur nánar tilgreinda hluti og muni miklu í framreikningi. Viðmiðunin sé þannig þegar af þeirri ástæðu fráleit. Í öðru lagi blasir við að í erfðaskrá sé beinlínis talað um tilgreinda eign, sem eigi að falla til sóknaraðila - í upphafi óselda - en síðan einnig eftir hugsanlega/væntanlega sölu hennar. Í báðum/öllum tilvikum sé rætt um tilgreindar eignir. Augljóst sé að verið sé að tala um mjög vel skilgreindar eignir. Af hálfu varnaraðila er fallist á rétt sóknaraðila til þess að fá framreiknað andvirði söluverðs eignarhluta þeirra samkvæmt 3. gr. erfðaskrárinnar frá 1989, en því er mótmælt að sóknaraðilar eigi einhvern sértækan rétt samkvæmt erfðaskránni frá 1989 umfram rétt varnaraðila samkvæmt sömu erfðaskrá.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að framreikningar Verðbréfastofunnar ehf. sem byggjast á vaxtareikningum auk verðtryggingarútreikninga séu rétt niðurstaða.
Varðandi varakröfu varnaraðila og málsástæður sóknaraðila í sambandi við hana þá sé eini munurinn á aðalkröfu og varakröfu varnaraðila að í varakröfu sé reiknað með þeim ólíklega möguleika að ekki verði fallist á framreikningsútreikninga Verðbréfastofunnar og notast við framreikninga án vaxta. En varnaraðilar fallast á efnisrök Verðbréfastofunnar fyrir þeim framreikningsaðferðum sem félagið notar, þ.e. að vaxtareikna framreikningana svo sem þeir hafa gert í þessu máli.
Varðandi þrautavarakröfu varnaraðila þá er vísað til niðurstöðu skiptastjóra í frumvarpi hans og m.a. á því byggt að arfleifendur hafi talið sig hafa látið erfingjum sínum eftir jafnan hlut í erfðaskrám og mótmælt að fyrirframgreiðsla arfs til sóknaraðila leggist að auki við bréfarf þeirra.
Niðurstaða: Ágreiningsmáli þessu varðandi opinber dánarbúskipti er vísað til héraðsdóms af skipuðum skiptastjóra með vísan til 3. mgr. 79. gr., sbr. og 122. gr. laga nr. 20/1991.
Við úrlausn þess ágreinings sem liggur fyrir þarf skiptastjóri fyrst að taka skýra afstöðu til þess hver skuli telja rétt framreiknuð heildarverðmæti dánarbús arfleifenda, en ekki virðist gerður verulegur ágreiningur um tillögur skiptastjóra um þau efni, sbr. framlagt frumvarp skiptastjóra frá 16. desember 2002. Í greinargerð sóknaraðila eru heildareignir dánarbúsins þó metnar á 117.998.510 kr., en í greinargerð varnaraðila eru þær metnar á 116.304.175 kr.
Ágreiningur aðila sem skiptastjóri vísar nú til héraðsdóms virðist einkum varða það hvernig beri að haga skiptum verðmæta dánarbúsins með sérstöku tilliti til þeirra greiðslna sem heimfæra má undir fyrirframgreiddan arf til einstakra erfingja. En óumdeilt er að taka þarf tillit til ákvæða tveggja erfðaskráa arfleifanda, frá 16. september 1988 og 6. desember 1989.
Við úrlausn ágreinings þarf einkum að taka afstöðu til þess hver hluti arfs telst vera bréfarfur samkvæmt 35. gr., sbr. 2. mgr. 36. gr., erfðalaga nr. 8/1962, en annar arfur í þessu máli tæmist að tiltölu til erfingja samkvæmt ákvæðum I. kafla erfðalaga um skylduarf og skal sá hluti vera a.m.k. 2/3 heildararfs. Þá þarf loks að taka afstöðu til þess hvernig ber að framreikna hinn fyrirframgreidda arf, eins og hér stendur á.
Er því beint til skiptastjóra að við gerð frumvarps beri fyrst að skilgreina það sem telja ber heildareign dánarbúsins. Þá skulu metin verðmæti bréfarfs erfingja, sem þó skal ekki nema meiru en 1/3 af heildareignum búsins. Hafi einhver erfingja fengið úthlutað umfram það hlutfall með bréfarfi, hvort sem um fyrirframgreiddan arf er að ræða eða ekki, ber að líta á þá umframfjárhæð sem fyrirframgreiddan skylduarf til þeirra erfingja og kemur þá einnig til frádráttar arfshlut viðkomandi erfingja sem slíkur.
Fallist er á kröfu sóknaraðila að þeim beri að reikna sem bréfarf framreiknað andvirði 50% þess sem var eignarhluti arfláta í 4. hæð fasteignarinnar [...] í [...], sbr. 3. gr. erfðaskrár arfláta frá 6. desember 1989.
Þá er fallist á kröfu sóknaraðila að þær 3.000.000 kr. sem þeim var sérstaklega úthlutað hverjum fyrir sig af arflátum, annars vegar 1. september 1991 og hins vegar 9. júní 1992, beri ekki að telja bréfarf heldur fyrirframgreiddan skylduarf, enda hafa varnaraðar ekki geta fært sönnur á að tengja beri þær greiðslur arfláta til erfingja við bréfarf þeirra sérstaklega.
Ákvæði 31. gr. erfðalaga nr. 8/1962 gefa vísbendingu um hvernig framreikna skuli fyrirframgreiddan arf. Miða skuli við gangverð verðmæta á þeim tíma er erfingi tók við honum og það síðan framreiknað til þess verðlags, sem við á, þá er arfskipti að lokum fara fram.
Skiptastjóri hefur aflað faglegs mats á fyrirframgreiddum verðmætum, bæði varðandi fasteignir, hlutabréf og peninga. Enda þótt ekki hafi verið beitt sömu vísitölum um öll framangreind verðmæti, hafa ekki verið lögð fram haldbær gögn er hrekja þá aðferðarfræði sem beitt var um hin ólíku verðmæti. Ber því við svo búið að miða við fyrirliggjandi matsgerðir við skiptin.
Fallist er á með varnaraðilum að við mat á framreikningi á fyrirframgreiddum arfshluta A, sem voru hlutabréf í [...] hf., beri að miða við síðasta mat Verðbréfastofunnar hf., er mat fyrirframgreiddan arf til A jafngildi 22.179.000 kr., sbr. bréf félagsins til skiptastjóra 12. desember 2002.
Þá er fallist á með sóknaraðilum að mat á fyrirframgreiddum arfshluta B beri að miða við mat Eignamiðlunarinnar ehf. frá 10. september 2002, en samkvæmt því er mat á fyrirframgreiddum arfshluta B jafnvirði 32.000.000 kr.
Einnig er fallist á með sóknaraðila að ekki teljist sanngjarnt að reikna vexti ofan á vísitöluútreikning þeirra 9.000.000 kr. í peningum, sem teljast fyrirfram-greiddur arfur og var jafnt skipt til sóknaraðila C, D og E , enda er ekki um lánsfé að ræða og ber því skiptastjóra, eins og hér stendur á, að líta til framreiknings án vaxta, sbr. bréf Verðbréfastofunnar hf. til lögmanns sóknaraðila 17. janúar 2003 en félagið framreiknar fjárhæðin án vaxta 21.336.916 kr.
Rétt þykir að aðilar beri hver sinn málskostnað af máli þessu.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Lagt er fyrir skiptastjóra að gera frumvarp til úthlutunar þar sem fyrir liggur með skýrum hætti hvaða verðmæti beri að telja til dánarbúsins, þar með talið hvað telst vera fyrirframgreiddur bréfarfur hvers erfingja og þá hvað telst vera fyrirframgreiddur skylduarfur hvers erfingja samkvæmt erfðalögum nr. 8/1962.
Fallist er á kröfu sóknaraðila að reikna beri þeim sem bréfarf úr dánarbúinu framreiknað andvirði 50% eignarhluta arfláta í 4. hæð fasteignarinnar [...] í [...].
Fallist á kröfu sóknaraðila að þær 3.000.000 kr., sem þeim hafi verið sérstaklega úthlutað hverjum fyrir sig, beri ekki að telja bréfarf heldur fyrirframgreiddan skylduarf til þeirra hvers um sig.
Fallist er á kröfu varnaraðila að við framreikning fyrirframgreidds arfs A beri skiptastjóra að miða við mat Verðbréfastofunnar hf. frá 12. desember 2002.
Fallist er á kröfu sóknaraðila að við mat á fyrirframgreiddum arfshluta B beri skiptastjóra að miða við mat Eignamiðlunarinnar ehf. frá 10. september 2002.
Fallist er á kröfu sóknaraðila að ekki beri að reikna vexti af fyrirframgreiddum arfi til sóknaraðila C, D og E og ber skiptastjóra að líta til framreiknings Verðbréfastofnunnar hf. 17. janúar 2003 á þeirri fjárhæð með vísitölu en án vaxta.
Málskostnaður fellur niður.