Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-172
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Almannatryggingar
- Félagsleg aðstoð
- Jafnræðisregla
- Stjórnarskrá
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 30. desember 2022 leita A og Öryrkjabandalag Íslands leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 2. sama mánaðar í máli nr. 559/2021: A og Öryrkjabandalag Íslands gegn Tryggingastofnun ríkisins. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort orðið skuli við beiðninni.
3. Ágreining málsaðila má rekja til breytinga sem gerðar voru á lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar með breytingarlögum nr. 116/2016, en síðastnefndu lögin tóku gildi 1. janúar 2017. Leyfisbeiðandinn A gerir í málinu kröfu um að gagnaðila verði gert að greiða henni 402.462 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Þá gerir hvor leyfisbeiðandi um sig nánar tilgreindar viðurkenningarkröfur. Umræddar kröfur leyfisbeiðenda grundvallast á því að með breytingarlögum nr. 116/2016 hafi verið komið á mismunun milli ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega sem ekki hafi verið fyrir hendi áður. Mismununin felist meðal annars í því að sérstök uppbót á lífeyri vegna framfærslu samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 skerðist að fullu vegna annarra tekna, það er „krónu fyrir krónu“, í tilviki örorkulífeyrisþega en hafi verið afnumin fyrir ellilífeyrisþega. Sú mismunun fari gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka við sáttmálann.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða tveggja héraðsdóma um að sýkna gagnaðila af öllum kröfum leyfisbeiðenda en málin voru sameinuð fyrir Landsrétti. Í dómi Landsréttar kom fram að lög nr. 116/2016 hefðu ekki skert réttindi örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega til sérstakrar uppbótar samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007. Vísaði rétturinn til þess að gagnaðili hefði lagt fram skjal um helstu breytingar á elli- og örorkulífeyri almannatrygginga og tengdum greiðslum frá árinu 1996. Leyfisbeiðendur hefðu ekki andmælt efni skjalsins. Að mati réttarins styddi það sem fram kæmi í skjalinu þá niðurstöðu héraðsdóms að almennt yrði ekki fullyrt að staða örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hefði samkvæmt lögum verið í öllu tilliti hin sama eða sambærileg stöðu ellilífeyrisþega fyrir gildistöku laga nr. 116/2016. Þá kom fram að máli skipti að almenni löggjafinn hefði þegar gripið til mótvægisaðgerða þar sem leitast hefði verið við að bæta örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum upp þann mun sem var á stöðu þeirra og ellilífeyrisþega eftir þær kerfisbreytingar sem lög nr. 116/2016 mæltu fyrir um. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna fyrrgreindra héraðsdóma var staðfest niðurstaða þeirra um sýknu gagnaðila.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Því til stuðnings vísa þau til þess að ágreiningur málsins varði ekki einungis hagsmuni leyfisbeiðandans A heldur jafnframt hagsmuni allra þeirra örorkulífeyrisþega sem urðu fyrir skerðingu sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna annarra tekna sinna árin 2017 og 2018. Því varði úrslit málsins hagsmuni mjög margra. Jafnframt verði dómur í málinu fordæmi um samspil 65. og 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þá reisa þau beiðnina á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Þannig lúti ágreiningur málsins að því hvort leyfisbeiðandanum A og öðrum örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum hafi verið mismunað andstætt 65. gr. stjórnarskrárinnar við útfærslu löggjafans á þeirri aðstoð sem honum er skylt samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að tryggja þeim sem þess þurfa í lögum.
6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um þær bætur sem á reynir í málinu. Umsókn leyfisbeiðenda um áfrýjunarleyfi er því tekin til greina.