Hæstiréttur íslands

Mál nr. 660/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Föstudaginn 12

 

Föstudaginn 12. desember 2008.

Nr. 660/2008.

Sýslumaðurinn á Selfossi

(Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður)

gegn

X

(Guðjón Ægir Sigurjónsson hrl.)

 

Kærumál. Farbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr. og 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. desember 2008, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hennar er ólokið, þó eigi lengur en til 1. febrúar 2009 kl. 16.  Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að kröfu um kærumálskostnað verði hafnað.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði og gögnum málsins stendur nú yfir hjá sóknaraðila rannsókn á því hvort varnaraðili hafi átt þátt í líkamsárás 14. september 2008. Af gögnum málsins verður ráðið að fram sé kominn rökstuddur um að hún hafi framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við. Varnaraðili er pólskur ríkisborgari og er fallist á að nauðsynlegt sé að tryggja nærveru hennar meðan málið er til rannsóknar hjá sóknaraðila, enda skilyrðum b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fullnægt til þess að varnaraðila verði bönnuð för úr landinu samkvæmt 110. gr. laganna. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 1. desember 2008.

Dóminum hefur borist krafa lögreglustjórans á Selfossi þess efnis að farbanni það sem X, kt. [...], [heimilisfang], hafi verið gert að sæta til kl. 16:00 í dag með úrskurði dómsins í máli nr. R-65/2008 frá 19. september sl., verði framlengt til 1. febrúar 2009 kl. 16:00, eða þar til lögreglurannsókn í máli nr. 033-2008-07097, sé lokið og ákvörðun um hugsanlega saksókn hafi verið tekin.

Við fyrirtöku í málinu vísaði lögreglustjóri í gögn málsins og forsendur fyrir kröfu um gæsluvarðhald en þar kemur fram að lögreglan á Selfossi rannsaki grófa líkamsárás á hendur A á heimili kærða. Kærða hafi neitað sök en rannsókn málsins, þar á meðal tæknirannsóknir lögreglu sé ekki lokið og því verði að tryggja nærveru kærðu til að hægt verði að bera niðurstöður undir hana svo og til að taka frekari skýrslur af henni. 

Byggt er á því að kærða sé undir rökstuddum grun um alvarlega líkamsárás og sé hún talið varða við 2. mgr. 218. gr. eða 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga og teljist sök sönnuð eigi kærða yfir höfði sér allt að 16 ára fangelsi. Kærða sé erlendur ríkisborgari sem hafi starfað hér á landi og megi ætla að hún muni reyna að komast úr landi eða leynast eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Um heimild til farbanns er vísað til b-liðar 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Til vara gerði lögreglustjóri þá kröfu að ef krafan um farbann yrði ekki tekin til greina, þá yrði kærðu gert að leggja fram tryggingu að fjárhæð 1.000.000 króna.

Kærða mótmælir kröfunni og kveðst ekki vita eftir hvaða niðurstöðum sé verið að bíða né á hvaða tímapunkti megi vænta þeirra. Þá sé óljóst hvaða stöðu hennar sé í máli þessu og þá hvort henni verði gert að sæta refsiábyrgð. Þá sé langur rannsóknartími lögreglunnar ekki á ábyrgð kærðu. Til vara krefst hún þess að farbanninu verði markaður skemmri tími. Þá kveðst kærða ekki hafa hugsað sér að yfirgefa landið þar sem hún hafi fasta vinnu og búsetu hér.

Með vísan til framanritaðs og með hliðsjón af rannsóknargögnum, þykir fram kominn rökstuddur grunur um að kærða hafi framið brot það sem hún er grunaður um. Kærða er pólskur ríkisborgari og má fallast á það með lögreglustjóra að með brottför hennar af landinu gæti hún komið sér hjá því að sæta refsiábyrgð komi til málshöfðunar í máli þessu. Því sé nauðsyn til að tryggja nærveru hennar meðan máli hennar er ólokið. Með vísan til framanritaðs verður krafa lögreglustjóra tekin til greina.

Ástríður Grímsdóttir.héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð.

Kærðu, X, kt. [...] er bönnuð för frá Íslandi á meðan máli hennar er ólokið, þó eigi lengur en til 1. febrúar 2009 kl. 16:00.