Hæstiréttur íslands

Mál nr. 180/2000


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Sjúkrahús
  • Læknir
  • Læknaráð
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. mars 2001.

Nr. 180/2000.

Sigríður Ólafsson

(Ólafur Axelsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Jón G. Tómasson hrl.)

             

Skaðabótamál. Sjúkrahús. Læknar. Læknaráð. Gjafsókn.

Í kjölfar innlagnar S á barnadeild Landspítalans í október 1979 vegna mikilla verkja í hnjám voru allir liðþófar fjarlægðir úr hnjám hennar á árunum 1980 og 1981 með fjórum skurðaðgerðum. Eftir aðgerðirnar kenndi  S verulegra óþæginda, sem háðu henni mikið og leiddu til 35% örorku. Krafði hún R um bætur og byggði á því að ekki hefði verið staðið tilhlýðilega að þeirri læknismeðferð sem hún hlaut á Landspítalanum árin 1979-1981. Að áliti læknaráðs, siðamáladeildar þess og landlæknis var staðið tilhlýðilega að greiningu og meðferð S miðað við einkenni, niðurstöðu rannsókna og viðurkenndar læknisaðferðir þess tíma. Héraðsdómur áleit, að þegar litið væri til álits læknaráðs, athugunar á aðgerðalýsingu, sjúkraskráa, röntgenmynda og framburðar vitna, svo og skoðana hinna sérfróðu meðdómsmanna, þá hefði S ekki tekist að sanna þá fullyrðingu að ótilhlýðilega hefði verið staðið að læknismeðferð hennar. Var bótakröfu hafnað. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóminn með þeirri athugasemd, að ekkert hefði komið fram fyrir Hæstarétti, sem veitti efni til að hnekkja ofangreindri niðurstöðu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut  málinu til Hæstaréttar 3. maí 2000. Krefst hún þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 10.338.160 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 1988 til 26. júní 1997, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi gerir kröfu um staðfestingu hins áfrýjaða dóms og greiðslu málskostnaðar. Til vara er gerð krafa um verulega lækkun stefnufjárhæðar.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir þeim læknisfræðilegu gögnum, sem við er að styðjast í máli þessu. Kemur þar meðal annars fram að samkvæmt úrskurði dómsins var málinu skotið til umsagnar læknaráðs og var það niðurstaða þess að rétt og tilhlýðilega hefði verið staðið að meðhöndlun áfrýjanda á bæklunardeild Landspítalans á árunum 1980 og 1981 miðað við einkenni, niðurstöðu rannsókna og viðurkenndar læknisaðferðir þess tíma. Þá hafði siðamáladeild læknaráðs komist að sömu niðurstöðu í greinargerð til landlæknis 21. febrúar 1994. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, taldi eftir athugun á öllum læknisfræðilegum gögnum málsins, svo og eftir skoðun hinna sérfróðu meðdómsmanna á áfrýjanda, að henni hefði ekki tekist að sanna fullyrðingu sína um að ótilhlýðilega hefði verið staðið að umræddri læknismeðferð. Ekkert hefur komið fram fyrir Hæstarétti, sem veitir efni til að hnekkja þessari niðurstöðu.  Að þessu athuguðu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Sigríðar Ólafsson, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 7. desember 1999.

Mál þetta sem dómtekið var 23. nóvember sl. er höfðað með stefnu birtri 20. júní 1997.

Stefnandi er Sigríður Ólafsson, kt. 221167-5389, Ásbúð 100, Garðabæ.

Stefndi er fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 10.338. 160 krónur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25. 1987 frá 1. janúar 1988 til 26. júní 1997 en með dráttarvöxtum skv. III kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en stefnandi fékk gjafsókn til rekstrar málsins fyrir héraðsdómi 10. apríl 1996.

Dómkröfur stefnda eru aðallega þær að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður úr hendi hans.  Til vara er gerð krafa um verulega lækkun stefnufjárhæðarinnar og í því tilviki veðri málskostnaður látinn niður falla.

MÁLSATVIK:

Í októbermánuði árið 1979 var stefnandi, þá tæplega tólf ára gömul, lögð inn á barnadeild Landspítalans vegna verkjar í vinstra hné, heltis og þess að vinstra hnéð átti það til að "læsast". Þrátt fyrir fjölmargar rannsóknir fannst ekkert afgerandi óeðlilegt við skoðun á hnénu og kveður stefnandi enga greiningu hafa verið ljósa eftir þessa innlögn.

Í janúar 1980 var stefnandi aftur lögð inn á barnadeild Landspítalans vegna sömu einkenna. Var hún nú sprautuð með deyfandi efnum umhvefis patellarsinina og hurfu einkennin þá tímabundið.

Í febrúar 1980 var stefnandi síðan lögð aftur inn á barnadeild Landspítalans og var þá ákveðið að gera opna skurðaðgerð, lateral liðþófi  var fjarlægður úr vinstra hné, þar sem að hann var discoid og það talið skýra "læsingar" stefnanda.

Í september 1980 var stefnandi lögð ennþá einu sinni inn á barnadeild Landspítalans, nú með verki í báðum hnjám en hún hafði verið einkennalaus í fjóra mánuði eftir fyrstu aðgerðina. Var nú gerð arthrografia sem sýndi rifu í mediala liðþófanum í vinstra hné og var hann fjarlægður með aðgerð. Er áverkanum lýst sem sprungu í mediala liðþófanum.

Enn var stefnandi lögð inn í október 1980 á barnadeild Landspítalans vegna verkja og nýlegrar "læsingar" í hægra hné.  Gerð var arthrografia af hægri hnélið sem sýndi skemmd í mediala liðþófanum og jafnvel einnig í þeim laterala.  Við aðgerðina var  mediali liðþófinn fjarlægður en ekkert athugavert fannst við þann laterala.  Áverkanum var lýst sem þverrifu sem hafi verið á mótum aftari- og miðþriðjungs í mediala liðþófanum.

Í janúar 1981 var síðan fjórði og síðasti liðþófinn tekinn eftir að gerð hafði verið arthrografia. Í aðgerðarlýsingu er sagt frá rifu í laterala liðþófanum.

Þann 30. júlí 1992 var gerð arthroscopia af báðum hnjám stefnanda.  Fram kemur í vottorði Stefáns Carlssonar, dagsettu 10. júní 1992 og í örorkumati Tryggva Þorsteinssonar, dagsettu 23. desember 1994 að í vinstra hné hafi sést slitbreytingar í liðbrjóski, bæði á lærlegg og sköflungi og í hægra hné hafi sést breytingar sem líktust chondromalaciu í femuropatellar lið en einnig slit bæði innan og utanvert í sjálfum hnéliðnum. Örvefur var í bursa suprapatellaris.

Stefnandi er gift og á þrjú börn, eitt átta ára, eitt fimm ára og eitt tæplega eins árs. Í dag kveðst stefnandi hafa veruleg óþægindi frá hnjám sem hái henni mikið og hafi hún lítið sem ekkert getað unnið.  Hún þreytist mjög í hnjám eftir setur t.d. í bíl eða í kvikmyndahúsi.  Stefnandi eigi erfitt með gang og kveðst vera með stöðuga verki í báðum hnjám, þó öllu meiri í því hægra.  Stefnandi hefur verið metin með 35% varanlega örorku, svo sem fram kemur í örorkumati Jónasar Hallgrímssonar frá 10. mars 1997.

Eins og fram kemur í örorkumati þessu séu verulegar líkur á því að ástand stefnanda eigi eftir að versna þegar fram líði stundir.

Kröfugerð stefnanda byggi á örorkuútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, frá 29. apríl 1997.  Gert sé ráð fyrir 20% frádrætti af höfuðstólsverðmæti tekju- og lífeyrisréttindataps og nemi þá sá bótaliður 8.338,660 krónum.  Þá er gerð krafa um greiðslu að fjárhæð kr. 2.000.000,00 í miskabætur en ljóst sé að stefnandi hafi með hinum umdeildu aðgerðum hlotið mikið lýti.  Geti hún til að mynda ekki klæðst stuttum pilsum, kjólum eða buxum vegna þess hve örin á hnjám hennar eru mikið lýti.  Þá sé stefnandi með nánast stanslausan sárauka og búi því við daglegar þjáningar.

Með bréfi dagsettu 17. október 1995, var þess farið á leit af hálfu stefnanda að af stefnda hálfu væri tekin afstaða til bótaskyldu íslenska ríkisins vegna ofangreindra læknisverka.  Með svarbréfi dags. 25. október 1995, hafi bótaskyldu ríkisins verið hafnað og sé málsókn þessi því nauðsynleg.

Mál þetta var upphaflega dómtekið 2. nóvember 1998 en í þinghaldi 15. janúar sl. var það endurupptekið samkvæmt 104. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og voru þá lagðar fram röntgenmyndir þ.á.m. arthrografíur, sem teknar voru af hnjám stefnanda 20. ágúst, 16. september og 12. nóvember 1980 og 22. janúar og 27. mars 1981.

                Þann 25. janúar sl. var kveðinn upp úrskurður um að áður en dómur yrði lagður á mál þetta þætti rétt með vísan til 1. og. 2. mgr. 2. gr., 1. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 6. gr. laga nr. 14/1942, að leggja fyrir læknaráð að láta í ljós rökstutt álit um eftirfarandi atriði:

a)                  Var læknismeðferð á hnévandamálum stefnanda tilhlýðileg miðað við einkenni, niðurstöðu rannsókna og viðurkenndar læknisaðferðir á þeim tíma sem stefnandi var til meðferðar á Landspítalanum á árunum 1979-1981 ?

Verði þar auk annars litið til eftirfarandi:

1) Engir ákveðnir áverkar eru í sögu sjúklings utan þess að fótur festist í ístaði við fall af hesti sumarið 1978.

2)                Engar ekta (mekaniskar) læsingar koma fram í sögu.

3) Álit annars sérfræðings en aðgerðarlæknis sem hafði skoðað stefnanda og taldi rétt að bíða með opartiva meðferð. 

4)                Brottnám liðþófa í börnum var á þessum tíma og er reyndar enn ákaflega sjaldgæft.  Sérstaklega vekur athygli að allir liðþófar í hnjám stefnenda voru numdir á brott. 

5)                Saga, einkenni og klínisk skoðun einkum hjá börnum er ófullkomin við mat á hugsanlegri skemmd á liðþófa.

b)                  Hverjar voru álitnar afleiðingar brottnáms liðþófa á þeim tíma sem aðgerðirnar voru framkvæmdar ?

c)                   Hverjar voru álitnar afleiðingar þess að ganga með skaddaðan liðþófa á þeim tíma sem aðgerðirnar voru framkvæmdar ?

d)                  Er mögulegt að sjá liðþófaskemmdir í innri liðþófa eins og þeim er lýst í aðgerðarlýsingum með þeirri aðgerðartækni sem beitt var ?

e)                Er samræmi með aðgerðarlýsingum og arthrografium eins og þær voru metnar af röntgenlæknum á sínum tíma ?

f)                Er samræmi á milli röngenmyndanna sjálfra (arthrografíanna), sem lagðar hafa verið fram í málinu, og lýsinga röntgenlækna ? 

g)                Telur læknaráð að rekja megi varanlega örorku stefnanda til aðgerða þeirra sem framkvæmdar voru á Landspítalanum á tímabilinu 4. febrúar 1980 til 27. janúar 1981 ?

h)                Ef svo er hversu háa telur læknaráð varanlega örorku stefnanda vera, sem rekja má til afleiðinga aðgerðanna að teknu tilliti til hver líkleg örorka stefnanda væri, ef aðgerðirnar hefðu ekki verið framkvæmdar ?

i)                Hvenær telur læknaráð að örorka stefnanda, sem leiða megi til umræddra aðgerða, hafi fyrst komið fram ?”

                Var lagt er fyrir læknaráð að láta dóminum í té rökstudda álitsgerð um framangreind álitaefni.

                Með bréfi dagsettu 17. ágúst sl. barst niðurstaða læknaráðs og í bókun ráðsins kom m.a. eftirfarandi fram:

“Lögð var fram tillaga Þorvaldar Ingvarssonar; lækningaforstjóra, að svari læknaráðs, en hann tók sæti Jónasar Magnússonar sem vikið hafði sæti í málinu. Ráðsliðar voru sammála tillögu Þorvaldar og efnislegri niðurstöðu örorkumats Jónasar Hallgrímssonar. Þar sem Þorvaldur hafði ekki fengið röntgenmyndir málsins var ákveðið að kanna hvort þær hefðu borist honum og hann gæti fjallað um þær, sbr. f. spurningu dómara og svar Þorvaldar við henni. Annars yrði þeim þætti málsins vísað til röntgenlæknis. Að þessu búnu verður tillaga að svari læknaráðs kynnt ráðsliðum og málið afgreitt í framhaldi af því án sérstaks fundar. Málið afgreitt.”

Í bréfi dagsettu 28. júlí 1999 segir að læknaráðsmenn séu sammála niðurstöðu Þorvaldar Ingvarssonar, bæklunarskurðlæknis, og að læknaráð geri þá niðurstöðu að sinni.

Greinargerð Þorvaldar Ingvarssonar er svohljóðandi:

“Greinargerð:

Um er að ræða tæplega 13 ára stúlku sem leggst inn á á Barnadeild Landsspítalans í október 1979 vegna óþæginda frá v. hné og læsinga eins og sagt er í sjúkraskrá. Óþægindi sjúklings leiddu til rannsókna og meðferðar sem fólst í því að teknir voru allir liðþófar úr hnjám hennar vegna meintra líðþófa skemmda og meðfæddra galla í einum liðþófa. Þessar aðgerðar voru gerðar allar á rúmu einu ári frá febrúar 1980 til febrúar 1981. Af sjúkraskrá er ekki annað að sjá en aðgerðirnar hafi tekist vel og fylgikvillallaust ef frá er talið smávægileg húðsýking í kjölfar einnar aðgerðarinnar sem telst eðlilegur fylgikvilli aðgerðar.

Liðþófa rifur í börnum eru sjaldgæfar en alls ekki óþekktar. Liðþófar rifna við áverka sem oftast er talsverður. Þó er því lýst að mjög mörg börn á aldrinum 6-12 ára minnast þess ekki að hafa meitt sig. Í dag eru hné óþægindi þau sem er lýst hjá Sigríði í sjúkrskrá gjarnan rannsökuð með segulómun og eða liðspeglun sem gefur besta möguleika á réttri greiningu og jafnframt á meðferð. Í dag eru menn almennt sammála um að ef liðþófi rifnar þá eigi að varðveita sem mest af honum ef það er mögulegt. Fer það eftir staðsetningu rofsins. Ef rifan er sem næst við liðcapsulu þá er oft reynt að sauma liðþófan og hefur verið sýnt fram á að hann grói í vel völdum tilfellum. Ef rifur eru þverar svo ekki sé talað um svo nefndar bucket handle rifur þá er yfirleitt brugðið á það ráð að taka þann hluta liðþófans burtu sem rifinn er og er talinn valda óþægindum. Þetta er gert með liðspeglun sé þess nokkur kostur en enn kemur fyrir að gera þarf arthrotomiu til að ná burt liðþófa eða hluta hans þó að slíkt sé mjög sjaldgjæft. Gildir hér einu hvort um fullorðin einstakling sé að ræða eða barn. Hvað varðar discoid liðþófa þá eru læknar sammála um að hann þarf oftast að fjarlægja. Læknar eru hins vegar ekki sammála um hvort það geti gengið að taka hluta hans (taka miðjuna) eða hvort það verði að taka hann allan. Þó ber mönnum saman að ef um discoid liðþófa er að ræða sem er laus að aftan þá eigi að taka liðþófan allan sé slíkt gert þá þarf oft að gera arthrotomiu því liðspeglun er í þessum tilfellum mjög erfið.

Í dag er það vitað fólk sem hefur gengist undir liðþófaaðgerðir er allt að tífallt hættara við að fá slit í hnéð en fólk sem ekki hefur gengist undir slíkar aðgerðir. Enginn hefur enn sýnt fram á það að fólk slitni síður ef hluti liðþófans er skilin eftir eða að fólk slitni hraðar ef liðþófinn sé allur tekin. Það er þó í dag viðtekin venja að skilja eins mikið eftir af liþófa og hægt er. Umfangsmiklar rannsóknir eru í gangi í dag á þessu og virðist sem svo að áverkinn sem veldur liðþófarofinu komi á stað ferli sem slítur brjóskinu og því er ekki að sjá að þetta skipti máli upp á langtíma árangur að skilja liðþófan eftir en um þetta deila menn, einnig hitt að þegar menn eru að reyna til þrautar að skilja eftir liðþófa þá geti tilraunir til slíks valdið skaða á brjóski sem síðan geti leitt til slits.

Á árunum 1975-1980 var mönnum ljóst að það að taka liðþófa gat valdið ótímabæru sliti en um það voru samt mjög deildar skoðanir. Á þessum árum var það viðtekin venja að ef liðþófi var skaðaður eða það var grunur um að hann væri skaðaður þá var tekinn allur með opinni aðgerð.

Ef það er rétt sem segir að Rögnvaldur Þorleifsson hafi byrjað speglanir á liðum á Borgarspítalnum eftir 1980 þá er mér ekki ljóst hvort hann var á þeim árum þess umkominn að taka liðþófa eða hluta hans með liðspeglun eða hvort hann notaði liðspeglun til greiningar. Á það skal bent að á þessum árum var Rögnvaldur ekki sérfræðingur í Bæklunarskurðlækningum þrátt fyrir sína góðu reynslu.

Greining á liðþófaskemmd var og er enn byggð á kliniskri skoðun. Á börnum er greining, á liðþófa skemmdum erfiðari en fullorðnum og því eðlilegt að gerðar hafi verið arthrographiur á hnjám Sigríðar. Sem var þeirra tíma rannsókn en mig langar að benda á að þær eru enn gerðar í völdum tilfellum. Flestir eru sammála um það að jákvæð arthrographia sé nokkuð örugg rannsókn en neikvæð rannsókn sé ekki mikils virði. Rannóknir sem þessar hafa án efa nokkuð lága Intraclass correlation milli lesanda og því erfitt um vik í dag að dæma þær aftur af öðrum röntgenlæknum.

Stefan Haraldsson gerir fjórar aðgerðir á hnjám Sigríðar þá fyrstu vegna gruns um Mb. Hoffa en þá lá fyrir arthrographia nokkra vikna gömul sem var neikvæð. Á þessum tíma var það ekki óeðlilegt að gerðir voru könnunarskurðir vegna hné vandamála og hef ég séð í grein frá Englandi birt um 1980 að í helmingi tekna liðþófa úr börnum þá var rof en hinir liðþófarnir voru heilir en samt teknir vegna gruns um rof. Í fyrstu aðgerðinni þá kemur í ljós discoid meniskur sem Stefán tekur í heilu lagi. Í hinum þremur þá lýsir Stefán að um rof sé að ræða og tekur liðþófana. Fram hefur komið í gögnum að það sé dregið í efa að Stefán gæti hafa séð við þær aðstæður sem hann lýsir hvort liðþófin hfi verið rofin eða ekki. Ég get tekið undir þá athugsemd og sagt að miðhluti liðþófans og aftur að aftur horni sést mjög illa nema um sé að ræða rof sem slæst inn í liðinn og eða að viðkomandi sé mjög laus í liðum og auðveld að toga fram hnéð. Á það er bent í grein skrifuð um liðsspeglanir á börnum að það gangi vel að nota liðspegil fyrir fullorðna vegna þess hve börn séu "laus í liðum". Einnig skal á það bent að oft er hægt að þreifa rifuna með þar til gerðri sondu.

Að mínu áliti er þetta tilfelli einstakt og veit ég ekki dæmi þess að barna á þessum aldri hafi misst alla liðþófa úr hnjám sínum vegna liðþófarifa eða galla. Það er þó ekki óþekkt að börn á þessum aldri hafi gengist undir aðgerðir þar sem báðir liðþófar úr öðru hnénu voru fjarlægðir .

Ef ég reyni að svara spurningum þeim sem settar eru fram af héraðsdómi Reykjavíkur þá eru svör mín eftirfarandi

a. Var læknismeðferð á hnévandamálum stefanda tilhlýðileg miðað við einkenni niðurstöður rannsókna og viðurkenndar læknisaðferðir á þeim tíma sem stefnandi var tilmeðferðar á Landspítalanum á árunum 1979-1981?

Svar: Ég tel að svo sé. Sjá greinargerð hér að ofan. Að auki vil ég geta þess að ég hef rætt við Dr. Göran Sunden sem var yfirlæknir barnabæklunardeildarinnar í Lundi í Svíþjóð en hann þekkti til Stefáns og menntunar þeirrar er hann fékk í Lundi.

1-5. Eins og áður sagði er það þekkt að börn minnist þess ekki að þau hafi hlotið áverka. Það er rétt að engar ekta mekansikar læsingar koma fram í sögu nema mögulega í síðustu legu. Á það skal bent að algjör minnihluti þeirra liðþófa aðgerða sem ég hef gert geri ég vegna ekta mekanikra læsinga heldur vegna óþæginda sem benda til liðþófarofs. Ég get tekið undir álit Höskulds Baldursonar að conservative meðferð hefði ekki skaðað sjúkling þó svo að um liðþófarof sé að ræða. En á það ber að líta að sjúklingur lagðist inn aftur og annar læknir ákvað eftir skoðun að gera könnunarskurð. Hvorugt er rangt að mínu áliti. Brottnám liðþófa hjá börnum er og verður vonandi sjaldgæft. Ég tek undir það að það er með ólíkindum að allir liðþófarnir hafi verið numdir brott en á það ber að líta að greinilegt er að saga, skoðun og arthrographiur báru saman og því ekki órökrétt að gera aðgerðirnar með jákvæðar arthrographiur í höndunum.

b) Hverjar voru álitnar afleiðingar brottnáms liðþófa á þeim tíma sem aðgerðirnar voru gerðar.

Svar: Á þessum tíma voru að koma fram nýjar og gamlar upplýsingar um það að ef liðþófin var tekin í burtu þá var fólki hættara við að fá slit en ella. Hins vegar voru ekki aðir mögulekar í meðferð þekktar hér á landi á þessum tíma en að taka allan liðþófan ef hann var skemmdur. Sjá hér að ofan í greinargerðinni.

c) Hverjar voru álitnar afleiðingar þess að ganga með skaddaðan liðþófa á þeim tíma sem aðgerðirnar voru framkvæmdar?

Svar: Á þessum tíma og reyndar fyrr þá töldu menn að hnéð slitnaði og eða skemmdist ef ekkert var að gert. Þetta eru munnlegar upplýsingar því mjög lítið er um þetta skrifað í litteratur þess tíma og er enn.

d) Er mögulegt að sjá liðþófasskemmdir í innri liðþófa eins og þeim er lýst í aðgerðarlýsingum með þeirri aðgerðartækni sem beitt var ?

Svar: Mjög erfitt og væntanlega ekki hægt. Þó ber að setja þann varnagla að börn eru laus í liðum og oft hægt að manipulerameð hnéð til að "opna" það betur. Einnig er möguleiki á að þreifa skemmdirnar og sjá þær ef liðþófin er rifinn og innsleginn.

e) Er samræmi með aðgerðarlýsingum og arthrographium eins og þær voru metnar af röntgenlæknum á sínum tíma?

Svar: Já. Ekki er hægt að segja að misræmi sé á milli þessa. Aðgerðarlýsingar eru að mínu áliti ekki það nákvæmar að hægt sé að segja nákvæmlega til um hvar liðþófa rifa sé. Oftast skiptir maður liðþófanum upp í þriðunga og reynir að staðsetja áverkan. Sama er hægt að segja um arthrographiu þar enn verra staðsetja áverka vegna "projectiona" og stöðu hnésins.

f) Hef ekki skoðað þetta. Hér verður að fá röntgenlækni

g)-i)

Í þessu samhengi vill ég benda á að mér er ekki ljóst hversu mikið slit er í hnjám Sigríðar. Segulómun er alls ekki viðurkennd aðferð í dag til að meta slit í neinum lið. Þessi tækni er í örri þróun og mat á sliti er enn á rannsóknarstigi sjá meðfylgjandi grein. Hitt er ljóst að hún er í áhættu hópi til að fá slit en mér sýnist af sjúkrakrá og aðgerðarlýsingum að um byrjandi slit sé að ræða innanvert í báðum hnjám auk byrjandi slits í femoropatellar liðum. Mér sýnist að mest af óþægindum Sigríðar geti stafað af femoro patellar óþægindum. Það er einnig vel þekkt þar sem discoid liþófar eru teknir að hnéð verðu óstöðugt og gæti það enn aukið á óþægindi hennar.

Það kann vel að vera að óþægindi hennar frá fyrstu byrjun hafi verið að mestu leiti femoro pateller en slíkt er ekki hægt að sanna aftur í tíman sérstaklega ef miðað er við þær rannsóknir sem gerðar voru og voru túlkaðar jákvæðar á þeim tíma.

Samantekt:

Ég tel að rétt og tilhlýðlega hafi verið staðið að læknismeðferð á hnévandamálum Sigríðar miðað við einkenni, niðurstöður rannsókna og viðurkenndar læknisaðferðir þess tíma."

Eftir að framangreint var skrifað voru röntgenmyndir skoðaðar af Pedro Riba, röntgenlækni og segir svo í áliti hans:

"Úrlestur röntgenrannsókna:

20.08.1980 Hægri og vinstri hnéliður:

Ekkert athugavert sést.

16.09.1980 Arthrografia á vinstra hné:

Mánaþófarnir koma vel fram og eru óskemmdir að sjá. Hins vegar greinist lítil kontrastrák á milli liðpokans/miðlæga mánaþófa án klínískrar þýðingar.

12.11.1980: Arthrografia á hægra hné:

Báðir mánaþófarnir eru heilir. Krossböndin eru án frávika.

22.11.1981: Arthrografia á hægra hné:

Rannsóknin er ekki eins auðtúlkuð og sú fyrri, 12.11.80, af tæknilegum ástæðum, liðglufurnar opnast ekki eins vel. Hins vegar sýnist sem innri mánaþófinn sé nú styttri, nokkuð kubbslegur, en útlitið gæti samrýmst eftirstöðvum aðgerðar. Ytri mánaþófinn er óskemmdur og krossböndin koma vel fram og eru eðlileg útlits."

Þegar ofangreint álit lá fyrir var eftirfarandi álit Þorvaldar Ingvarssonar, læknis ritað:

"Undirritaður hefur ekki breytt því áliti sínu að rétt hafi verið staðið að meðhöndlun Sigríðar Ólafsson á bæklunardeild Landspítalans á árunum 1979-1981 af Stefáni Haraldssyni.  Þrátt fyrir að nú liggi fyrir niðurstöður arthrographia sem lesnar voru af Pedro Ríba röntgenlækni nú i júni 1999.  Þar sem hann kemur ekki auga á liðþófarof í rannsóknunum. Ég er enn  þeirrar skoðunar að ég verði að miða álit mitt við niðurstöður rannsókna sem bæklunarlæknirinn hafði við ástundun sjúklingsins."

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK

Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að ekki hafi verið staðið tilhlýðilega að læknismeðferð sem hún hlaut á barnadeild Landspítalans á árunum 1979 til 1981.  Það hafi leitt til örorku þeirrar sem hún er haldin í dag og beri stefndi ábyrgð á því eftir reglum um húsbóndaábyrgð, sem eignadi og rekstraraðili Landspítalans.

Ekkert í gögum málsins gefi til kynna að réttlætanlegt hafi verið að fjarlægja nokkurn af fjórum liðþófum úr hnjám Sigríðar.  Aðgerðir Stefáns Haraldssonar læknis hafi gegnið of langt gagnvart stefnanda miðað við það sem fram komi í sjúkraskýrslum hennar.  Stefndi hafi alla sönnunarbyrði um annað.  Séu sjúkraskýrslur um margt ónákvæmar ef ekki beinlínis rangar og ósamræmi á milli þeirra innbyrðis. 

Í sjúkraskrá dagsettri 22. október 1979 komi fram í skýrslu Höskuldar Baldurssonar sérfræðings að honum hafi ekki verið unnt að sjúkdómsgreina stefnanda með neinni vissu og telji hann rétt að rétt sé að fara sér hægt, þar sem að liðþófaáverkar á svo ungum börnum séu ákaflega fáséðir.

Í sjúkraskrá dagsettri 3. janúar 1980, komi fram í skýrslu sama sérfræðings að hann finni engin einkenni um skemmda liðþófa, en sjúkdómseinkenni þau er hann greini bendi öll til þess að frekar sé um að ræða verki sem stafi frá hnéskel og svæðinu í kringum hana.  Þetta gefi vísbendingu um að sjúkdómseinkenni megi frekar rekja til liðarins á milli lærleggs og hnéskeljar en liðþófa.  Hann hafi sprautað deyfilyfjum við patellar sinina og hafi þá allir verkir horfið samstundis.  Í journal úr sömu sjúkraskýrslu dagnótu frá 9. janúar 1980 komi fram að að ekki sé öruggt að hún hafi haft læsingar en að öruggt sé að hún hafi haft verki.

Í sjúkraskrá dagsettri 4. febrúar 1980 komi fram í aðgerðarlýsingu dr. Stefáns Haraldssonar læknis og í öðrum nótum frá Birni Júlíussyni lækni að ákveðið hafi verið að gera skurðaðgerð á stefnanda, þrátt fyrir það sem fram komi í fyrri sjúkrasögu stefnanda þar sem mælt sé með því að fara varlega í sakirnar.  Stefnandi hafi verið skorin upp á innanverðu hnénu og sjáist þar necrotiskir flipar í fitu, sem dr. Stefán Haraldsson telji skýra að hluta verki stefnanda en augljóst sé að að þeir séu afleiðingar af sprautun Höskuldar Baldurssonar læknis á deyfilyfjum tveimur vikum áður.  Á grundvelli þess hafi dr. Stefán ákveðið að fjarlægja liðþófan utanvert þar sem hann sé discoid.  Þar sem skurðurinn var gerður inanvert á hné stefnanda sé ómögulegt að sjá ástand  liðþófans.  Skýrsla dr. Steáns endurspegli að hann hafi, áður en hann gerði aðgerðina, ekki kynnt sér nægjanlega sjúkrasögu Sigríðar, greini því rangt sjúkdómseinkenni hennar og fjarlægi liðþófa án þess að nokkur læknisfræðileg rök mæli með því.  Í sjúkraskrá dagsettri 15. september 1980 komi fram ósamræmi á milli röntgenrannsókna og aðgerðarlýsingar, þar sem að röntgenrannsókn segi hugsanlega vera rifu á miðjuþófa eða los frá capsulu en aðgerðarlýsing segi rifu vera aftan til á liðþófanum.  Í þessu sambandi sé sé rétt að benda á það álit vitnisins Jóns Karlssonar, bæklunarlæknis þar sem hann kveður röntgenrannsókn lýsa "normal" ástandi.

Í sjúkraskrá dagsettri 27. október 1980, aðgerðarlýsingu dr. Stefáns Haraldssonar, sé lýst rifu aftarlega á liðþófanum.  Miðað við þann skurð sem gerður hafi verið sé mjög vafasamt að dr. Stefán hafi getað séð það sem hann lýsi.  Þá sé ósamræmi milli aðgerðarlýsingar og röntgenrannsóknar.

Í sjúkraskýrslu dagsettri 22. janúar 1981 komi fram að síðasti liðþófinn sé fjarlægður þrátt fyrir að ekkert athugavert hafi fundist að honum við skurðaðgerð þremur mánuðum áður.  Sú lýsing sem gefin sé á ástandi liðþófans sé með þeim hætti að útilokað sé að dr. Stefán hafi getað séð það sem hann lýsir miðað við þann skurð sem hann hafi gert á Sigríði.

Ljóst sé að vinnubrögð dr. Stefáns Haraldssonar hafi verið handahófskennd og ónákvæm.  Sé það sérstaklega ámælisvert með hliðsjón af því hversu óvenjulegar þær aðgerðir voru sem gerðar voru á stefnanda og nytsemi takmörkuð. Í sjúkraskrám komi ekki fram upplýsingar sem sýni að aðgerðanna hafi verið þörf.  Stefndi beri því að sýna fram á að þörf hafi verið á því að fjarlægja alla liðþófanna úr hnjám stefnanda.

Eins og fram kemur í vottorði Jóns Karlssonar yfirlæknis, dags. 18.10.1993, bls. 3, hefði verið nær að beita konservativri meðhöndlun.  Með skurðaðgerðum þessum hafi Stefán Haraldsson, dr. med., valdið stefnanda ótímabærum slitbreytingum í hnjám hennar með þeim afleiðingum að hún sé í dag 35% varanlegur öryrki.  Teljist það hins vegar sannað að liðþófar stefnanda hafi verið skemmdir, verði að telja verulegar líkur fyrir því að Stefáni Haraldssyni dr. med. hafi verið unnt að fjarlægja aðeins hluta úr liðþófum stefnanda og draga þar með verulega úr tjóni stefnanda ef ekki koma algjörlega í veg fyrir það.

Það sem einkum veki athygli sé að allir fjórir liðþófar hafi verið fjarlægðir úr hnjám stefnanda.  Það muni vera alveg einstakt að allir fjórir liðþófar hjá svo ungu barni séu það skemmdir að það þurfi að fjarlægja þá.  Hvað þá að fjarlægja þurfi allan liðþófann en um áratugaskeið hafi bæklunarlæknar aðeins fjarlægt hluta úr liðþófum, séu þeir sprungnir eða skemmdir.  Hér virðist vera um alveg einstakt tilvik að ræða og veki það athygli að Stefán Haraldsson, dr. med, hafi ekki virst leita upplýsinga hjá öðrum sérfræðingum á Íslandi eða erlendis frá, heldur hafi hann farið beint í að fjarlægja liðþófana.

Í málinu liggi fyrir þrjú vottorð bæklunarlækna.

Í vottorði frá 10. júní 1993, telji Stefán Carlsson læknir á Slysa- og bæklunardeild Borgarspítalans það vera mjög vafasamt að stefnandi hafi á þeim tíma er aðgerðirnar voru gerðar verið með þvílíka áverka að nauðsyn hafi verið á því að fjarlægja alla liðþófana.  Í vottorði Höskuldar Baldurssonar sérfræðings í bæklunarsjúkdómum á Bæklunardeild Landspítalans frá 15. september 1993, komi fram að Höskuldur telji að ekki sé hægt að gagnrýna það að liðþófar hafi verið teknir, miðað við þá þekkingu sem var fyrir hendi á þeim tíma til að greina liðþófaskaða. Hins vegar telji hann að ekki sé neinn vafi á því að bein tengsl séu á milli þess að liðþófarnir hafi verið fjarlægðir og slitgigtar þeirrar sem hrjái stefnanda nú.  Í upphafi vottorðs Höskuldar komi hins vegar fram efasemdir hans um hæfi sitt, þar sem hann hafi komið að læknismeðferð stefnanda á fyrri stigum.

Í vottorði Jóns Karlssonar, yfirlæknis á Ortoped Kliniken Östra Sjukhuset í Gautaborg, frá 18. október 1993, komi m.a. fram:

"Allir liðþófar hafa verið fjarlægðir hjá þessum sjúklingi án þess að hægt sé að finna ákveðna ástæðu fyrir öllum þessum skurðaðgerðum...''

"Mitt álit er að ofannefndar aðgerðir hafi verið framkvæmdar á mjög vægum og óljósum grunni.  Vænlegra til árangurs hefði að öllum líkindum verið að halda fast við konservativa meðhöndlun."

Tveir sérfræðingar af þrem sem um málið hafi fjallað láti í ljós verulegar efasemdir um forsvaranleika læknismeðferðar þeirrar sem stefnandi hafi hlotið á Bæklunardeild Landspítalans. Einn sérfræðingur telji hins vegar læknismeðferð forsvaranlega, en gæta beri þess að sá læknir hafi komið að læknismeðferð stefnanda á fyrstu stigum og starfað þá með Stefáni Haraldssyni sem gert hafi aðgerðirnar á stefnanda auk þess sem hann starfi nú á deild þeirri sem aðgerðirnar voru gerðar.

Á grundvelli álita læknanna Jóns og Höskuldar var mál stefnanda lagt fyrir siðamáladeild Læknaráðs sem skilaði greinargerð sinni þann 21. febrúar 1994. Samkvæmt áliti siðamáladeildar Læknaráðs, var talið tilhlýðilega staðið að greiningu og meðferð á stefnanda árin 1980 og 1981 á Landspítalanum.

Það veki athygli við greinargerð siðamáladeildar Læknaráðs, að enginn læknir með sérfræðiþekkingu í bæklunarlækningum hafi setið í hinni álitsgefandi siðamáladeild Læknaráðs.  Þá veki ennfremur athygli að aðeins hafi verið kallaðir til þeir læknar sem komu að meðferð stefnanda á sínum tíma.  Verði því að telja að greinargerð siðamáladeildar Læknaráðs hafi lítið sem ekkert sönnunargildi í máli þessu, þar sem læknar þeir sem að greinargerðinni stóðu hafi ekki haft þá sérfræðiþekkingu sem krefjast verði í máli þessu og að þeir læknar sem kvaddir hafi verið til, að undanskildum Jóni Karlssyni, bæklunarlækni, hafi allir verið vanhæfir til að gefa sérfræðiálit um bæklunarlækningar, þar sem að þeir höfðu allir komið að læknismeðferð þeirri sem um er deilt á fyrri stigum.

Þá hafi vægi greinargerðar siðamáladeildar Læknaráðs minnkað á liðnum árum, þegar metin sé sök lækna og hafi dómstólar dæmt um sök gegn áliti Læknaráðs.  Megi  þar m.a. benda á Hrd. 1990, 853, en í þeim dómi hafi héraðsdómur byggt niðurstöðu sína á áliti dómkvaddra matsmanna sem gekk gegn áliti Læknaráðs.  Læknaráð hafi síðan breytt niðurstöðu sinni fyrir dóm Hæstaréttar.

Ljóst sé í máli þessu að Stefán Haraldsson dr. med. hafi ekki upplýst stefnanda eða aðstandendur hennar um þá hættu sem verið hafi aðgerðunum samfara.  Þetta megi sjá af því að Stefán telur, að því er virðist einn lækna, að brottnám liðþófa leiði ekki til ótímabærrar slitgigtar.  Með því að upplýsa sjúkling ekki um þá hættu sem getur verið læknismeðferð samfara, hafi læknir ekki fengið samþykki sjúklings sem byggi á fullnægjandi upplýsingum, fyrir læknismeðferð.  Stefáni Haraldsson dr. med. hafi því verið óheimilt að gera skurðaðgerðir þessar á stefnanda, þar sem hann hafi ekki upplýst stefnanda um þær hættur sem verið hafi aðgerðunum samfara, sbr. þá meginreglu að læknisaðgerð skuli byggja á upplýstu samþykki.  Regla þessi var lögfest með 10. gr. læknalaga nr. 53/1988, en skv. greinargerð með þeim lögum var þessi regla í gildi áður sem ólögfest meginregla.  Krafan um upplýsingaskyldu sé sérstaklega rík í þessu máli, þar sem nytsemi læknismeðferðarinnar hafi verið mjög lítil og umdeilanleg.

Hvað fyrningu kröfu snerti, hafi aðgerðir þær sem hér er deilt um farið fram á árunum 1980 og 1981.  Upphafsdagur fyrningar geti hins vegar ekki talist vera annar en í fyrsta lagi 30. janúar 1992, en þá fyrst hafa hinar alvarlegu afleiðingar af læknismeðferð þeirri er Sigríður fékk á árunum 1980 og 1981 komið fram, þ.e.a.s. þynning á liðbrjóski o.fl., sbr. vottorð Stefáns Carlssonar, bæklunarlæknis frá 10. júní 1993. Krafa geti ekki byrjað að fyrnast, fyrr en að afleiðingar hins bótaskylda atburðar hafi komið fram, þ.e. þegar krafan er orðin gjaldkræf.  Jafnframt verði að telja það fráleitt að ríkið beri fyrir sig fyrningu í máli sem þessu, þar sem saknæmur verknaður starfsmanns þess hafi valdið einstaklingi verulegri varanlegri örorku og þar kippt fótunum undan honum hvað varðar möguleika til að afla sér mannsæmandi tekna til frambúðar.

Kröfum sínum til stuðning vísar stefnandi til meginreglna skaðabótaréttar, og þeirrar meginreglu sem fram komi nú í 10. gr. læknalaga nr. 53/l988.

Krafa um vexti styðjist við 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, krafa um dráttarvexti styðst við III. kafla sömu laga og krafa um málskostnað styður stefnandi við 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því, að starfsmenn stefnda hafi ekki gerst sekir um bótaskyldan verknað við læknisaðgerðir á stefnanda.

Í málinu liggi fyrir álit siðamáladeildar læknaráðs þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu að ljóst sé, "að ekki hafi verið undan því komist að framkvæma aðgerðir á hnjáliðum Sigríðar Ólafsson og fjarlægja í þeim báða liðþófa úr báðum hnjám."  Hafi verið staðið tilhlýðilega að greiningu og meðferð á stefnanda á árunum 1980 og 1981 við þær aðgerðir, sem þegar er lýst.  Álit siðamáladeildar sé ítarlega rökstutt.

Einnig liggi fyrir álit Höskuldar Baldurssonar, sérfræðings í bæklunarsjúkdómum þar sem m.a. segi, að ekki sé "hægt að gagnrýna réttmæti aðgerða þar sem aðgerðarlýsingar stað­festa allar rifur í liðþófa og forrannsóknir, þ.e. artografisk rgt. rannsókn, dæmd að rgt. lækni, sýnir í hverju tilfelli rifu í nefndum liðþófa." Sjúkdómssaga stefnanda sé bæði ótrúleg og með ólíkindum.  Í þessu áliti sé bent á, að gjörbylting hafi orðið í greiningu og meðferð liðáverka, einkum á síðasta áratug, þ.e. á árunum eftir 1980.  Þegar að­gerðir á stefnanda voru framkvæmdar hafi ekki verið til að dreifa sérstökum hnjá­speglum, þar sem hægt sé að skoða hnjáliðinn að innan, eða nýjar myndgreiningar, svo sem segulómun, sem einnig sýni mjög vel ástand liðþófa. Á þeim árum, sem stefnandi gekkst undir aðgerðirnar, hafi greining á liðþófaáverkum fyrst og fremst byggst á sjúkrasögu og klínísku mati.

Enn liggi fyrir álit landlæknis þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu, að vart sé hægt að telja aðgerðirnar ótilhlýðilegar með hliðsjón af þeim möguleikum, sem fyrir hendi hafi verið, þegar þær voru framkvæmdar.

Með vísan til framangreinds telur stefndi ósannað með öllu, að starfsmenn stefnda hafi sýnt af sér saknæman eða vítaverðan verknað, sem leiða eigi til bóta­ábyrgðar, þegar þeir leituðust við að undangengnum miklum rannsóknum og ítarlegum skoðunum og eftir bestu þekkingu á þeim tíma að lina þjáningar stefnanda við ítrekaðar komur hennar á Landspítalann.  Stefndi heldur því þvert á móti fram, að af hinum af tilvitnuðu álitsgerðum verði ekki dregin önnur ályktun en sú, að starfsmenn stefnda hafi ekki gerst sekir um bótaskyldan verknað.

Í annan stað byggir stefndi sýknukröfu á því, að krafa stefnanda sé fyrnd, sbr. 2. tl. 4. gr. laga nr. 14/1905. Bendir stefndi annars vegar á, að eðlilegt sé að miða fyrningarfrest við "tjónsdag", sem hljóti að vera síðasti aðgerðardagur, 27. janúar 1981, eða í síðasta lagi, þegar í ljós var komið, að stefnandi hafði enn verki í hnjánum og fékk vottorð til staðfestingar því, að hún gæti ekki stundað leikfimi 16 ára að aldri, þ.e. á árinu 1983.  Telji dómurinn leika vafa á þessu, sbr. hér örokumat, þar sem miðað sé við eigin frásögn stefnanda, beinir stefndi því til dómstólsins, að nauð­synlegt sé að leitað verði álits læknaráðs á því, hvenær örorka stefnanda hafi komið fram.

Stefndi mótmælir sérstaklega þeirri staðhæfingu í stefnu, að stefnandi eða að­standendur hennar hafi ekki verið upplýst um þá hættu, sem var aðgerðunum samfara, þ.e. líkur á því, að brottnám liðþófa gæti leitt til ótímabærrar slitgigtar.  Í þessu sam­bandi bendir stefndi á, að með því að hafa ekki uppi bótakröfu fyrr en rúmlega hálfum öðrum áratug eftir að atvik gerast verði aðstaða stefnda til að afsanna slíkar full­yrðingar mun erfiðari en ella - eða í þessu tilviki ómöguleg, þar sem aðgerðarlæknir hafi látist í ágúst 1996.  Staðhæfingu í stefnu um, að það sé "fráleitt að ríkið beri fyrir sig fyrningu í máli sem þessu," er því vísað á bug.

                Enn er á það bent af hálfu stefnda, að ekkert liggi fyrir um - og eflaust sé erfitt að leiða líkur að því nú-, hvert ástand stefnanda myndi vera í dag, ef umræddar aðgerðir hefðu ekki verið framkvæmdar á henni.  Gæti örorka hennar þá allt eins verið jafnhátt eða hærra metin en hún er samkvæmt örorkumatinu.  Kunni einnig að vera nauðsynlegt fyrir dóminn að fá álit læknaráðs um þetta atriði.

Varakröfu sína um lækkun stefnukröfunnar styður stefndi m.a. framangreindum rökum, að ósannað sé hvert ástand stefnanda væri, ef aðgerð hefði ekki verið fram­kvæmd og beri að taka tillit til hugsanlegra og e.t.v. sennilegrar örorku stefnanda, ef hún hefði búið við þær aðstæður. Bendir stefndi jafnframt á, að varanleg örorka stefnanda virðist metin fullhá og kunni því enn að vera ástæða fyrir dómstólinn að óska eftir áliti læknaráðs á örorku stefnanda sem afleiðingu aðgerðanna, sem framkvæmdar voru á Landspítalanum á árunum 1980 og 1981, og þá að teknu tilliti til, hvert líklegt ástand eða örorka stefnanda væri, ef aðgerðirnar hefðu ekki verið framkvæmdar.

Loks gerir stefndi kröfu um lækkun stefnufjárhæðar með hliðsjón af hagkvæmni eingreiðslu og skattleysisfrádrætti og miskabótakröfunni er sérstaklega mótmælt sem allt of hárri og fjarri dómvenju.

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 hefst fyrningarfrestur kröfu þegar hún verður gjaldkræf.  Sé um að ræða kröfur sem ekki hafa ákveðinn gjalddaga er  miðað við það tímamark þegar fyrst er unnt að krefjast greiðslu.  Þegar líkamstjón kemur ekki í ljós fyrr en nokkru eftir tjónsatburð er miðað við það tímamark þegar tjónþoli má gera sér grein fyrir tjóni sínu og öðlast þannig vitneskju um kröfu sína.

                Samkvæmt örorkumati Jónasar Hallgrímssonar frá 10.mars 1997 kom varanleg örorka stefnanda fyrst fram á árinu 1988.  Þykir ekki varhugavert að miða við það þó að öðrum þræði sé byggt á frásögn stefnanda, enda tekur nokkurn tíma fyrir slitgigt að koma fram.  Stefnandi hefur haft verki í hnjánum frá barnsaldri.  Með hliðsjón af því er ekki hægt að meta stefnanda það í óhag að hafa leitað fyrst til læknis á árinu 1992, enda erfitt að segja til um hvenær verkirnir urðu það miklir að þörf væri læknisráða.  Er það skoðun dómsins að stefnandi hafi ekki getað haldið fram kröfu sinni fyrr en sjúkdómsgreining lá fyrir á árinu 1992 og miðast upphaf fyrningarfrestsins við þann tíma.  Stefna var birt fyrir stefnda 20. júní 1997 og var fyrningu þá slitið gagnvart honum.

Samkvæmt þessu er ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir fyrningu.

 

Hér að framan er rakið álit Þorvaldar Ingvarssonar, læknis, sem tekið er undir af Læknaráði og ber að líta á sem niðurstöðu þess um þau atriði sem borin voru undir ráðið með úrskurði dómsins frá 25. janúar sl.  og rakin eru hér að framan.  Í samantekt Læknaráðs segir, eins og að framan greinir, að rétt og tilhlýðilega hafi verið staðið að læknismeðferð á hnévandamálum stefnanda miðað við einkenni, niðurstöðu rannsókna og viðurkenndar læknisaðferðir þess tíma.  Þá liggur frammi í málinu greinargerð Siðamáladeildar Læknaráðs frá 21. febrúar 1994 þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að tilhlýðilega hafi verið staðið að greiningu og meðferð á stefnanda árin 1980 og 1981 á Landspítalanum. 

Af hálfu stefnanda er á það bent að í álitsgerð Pedro Riba, röntgenlæknis, komi fram að röntgenmyndir hafi verið neikvæðar og að það hafi átt að sjást er myndir voru skoðaðar í upphafi og hafi það verið mistök, sem stefndi beri ábyrgð á, að svo varð ekki. 

Það er álit hinna sérfróðu meðdómsmanna og kemur einnig fram í áliti Læknaráðs að úrlestur skuggaefnisrannsókna (arthrografia) á hnjám sé vandasamur. Telur dómurinn að þrátt fyrir þá niðurstöðu röntgenlæknis nú, að myndirnar séu neikvæðar, sé það ekki sönnun þess að mat röntgenlækna á sínum tíma hafi verið rangt og að aðgerðarlæknirinn hafi ekki mátt leggja röntgensvör þau til grundvallar, er hann hafði við ákvörðun um aðgerðir, enda voru þau svör túlkuð sem jákvæð við rannsóknir fyrir þrjár síðustu aðgerðirnar.

Er því ekki fallist á það að bótaskyld mistök hafi átt sér stað í þessu efni við læknismeðferð stefnanda.

Liðspeglun (arthroscopia) á hnjám var á meðferðartíma stefnanda tækni sem nýkomin var til landsins og hafði ekki unnið sér sess sem viðtekin greiningar- og meðferðaraðferð á sjúkrahúsum hér á landi.

Verður það ekki metið stefnda til sakar að aðferð þessari var ekki beitt í tilviki stefnanda.

Það er álit dómsins að þegar litið er til álits Læknaráðs, athugun á aðgerðarlýsingum, sjúkraskrám, röntgenmyndum, þess sem fram kemur í framburði vitna í málinu svo og með skoðun hinna sérfróðu meðdómsmanna á stefnanda sjálfri, að stefnanda hafi ekki tekist að sanna þá fullyrðingu að ótilhlýðilega hafi verið staðið að læknismeðferð stefnanda á Landspítalalnum á árunum 1979 til 1981.  Er hér sérstaklega til þess að líta að aðgerðarlýsingar þær sem gerðar voru á sínum tíma í framhaldi af hverri aðgerð fyrir sig hafa ríkt sönnunargildi og ekki hafa komið fram gögn í máli þessu sem gefa tilefni til þess að hnekkja þeim.

Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram, að stefnandi eða aðstandendur hennar hafi ekki verið upplýst um þá hættu sem verið gæti aðgerðunum samfara og þannig hafi ekki legið fyrir fullnægjandi upplýsingar fyrir aðgerð sem samþykki sjúklings gæti byggst á.  Staðhæfing um þetta kom ekki fram fyrr en aðgerðarlæknir var látinn og í skýrslu móður stefnanda kemur fram að hún átti samtal við lækninn áður en aðgerð var gerð á stefnanda og þykir ekki komin fram sönnun um að aðgerðarlæknir hafi vanrækt að gera grein fyrir aðgerð þeirri er hann framkvæmdi og verður því ekki á þessari málsástæðu byggt hér.

                 Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaðir af öllum kröfum stefnanda en rétt þykir að málskostnaður á milli aðila falli niður.

Stefnandi hefur fengið gjafsókn í málinu. Hún hefur greitt 338.572 krónur í ýmsan kostnað vegna málareksturs síns og þóknun til lögmanns hennar ákvarðast 450.000 krónur að viðbættum 110.250 krónum í virðisaukaskatt og er gjafsóknarkostnaður hennar því 898.822 krónur og greiðist hann úr ríkissjóði.

 Allan Vagn Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

                Stefndi, ríkissjóður skal sýkn af öllum kröfum stefnanda, Sigríðar Ólafsson.

                Málskostnaður á milli aðila fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 898.822 krónur, greiðist úr ríkissjóði.