Hæstiréttur íslands

Mál nr. 269/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Tilhögun gæsluvarðhalds


                                     

Mánudaginn 23. apríl 2012.

Nr. 269/2012.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

 

Kærumál. Tilhögun gæsluvarðhalds.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði, á grundvelli b. liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 30. apríl 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærðir úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar tilhögun gæsluvarðhalds, aðallega þannig að hann verði ekki látinn sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur en til vara að einangrun verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendan hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2012.

Í greinargerð Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að kærði X, hafi verið stöðvaður af lögreglu um klukkan 10:00 í gær í leigubifreið á [...] í [...], vegna grunsemda um að hann og samlandi hans, sem einnig hafi verið farþegi í leigubifreiðinni, hefðu í fórum sínum umtalsvert magn fíkniefna.  Kærðu hafi komið fyrr um morguninn með flugi frá [...] í Póllandi.  Við leit í bifreiðinni hafi tvær ferðatöskur fundist og í hvorri þeirra hafi verið fimm ílát, sjampóbrúsar, bodylotionbrúsi og raksápa, efni sem talin séu vera amfetamín, a.m.k. 3.5 kg með umbúðum.

Kærði hafi strax gefið þá skýringu að hann hafi skömmu fyrir brottför frá [...] fengið afhenta töskuna sem hann hafi áður verið búinn að taka að sér að flytja til Íslands ásamt síma sem hann átti að nota á Íslandi.  Kærði kvaðst ekki hafa skoðað í töskuna og ekki átt neitt í henni sjálfur, en grunað að í henni væru fyrir fíkniefni, en ekki vitað hverrar tegundar og ekki heldur magn þeirra. Hann hafi ekki viljað tjá sig um það hver hafi afhent honum töskuna en hann hafi átt að afhenta töskuna óþekktum aðila við [...] í [...].  Kærði hafi ekki vitað hver eða hverjir hafi sent sig í þessa ferð.  Hann hafi átt von á því að fá fyrirmæli í síma við [...].

Kærði kvaðst aldrei hafa komið til Íslands áður.  Hann hafi ekki vitað hvað hann hafi átt að fá greitt fyrir þessa ferð.  Kærði segist kannast við samferðamann sinn sem var í leigubifreiðinni en þeir kannist hver við annan enda frá sama bæ.  Þeir hafi ekki verið að ferðast saman og tilviljun hafi leitt til þess að þeir tóku sama leigubifreið.  Kærði hafi verið með farsíma á sér, þar sem hafi verið m.a. SMS skeyti með heimilisfanginu “[...]”.  Kærði og ferðafélagi hans hafi sýnt leigubifreiðastjóranum símann og óskað eftir að láta aka sér þangað skömmu áður en lögregla hafi stöðvað leigubifreiðina og handtekið kærða og ferðafélaga hans, en áður hafi þeir óskað eftir akstri að [...] í [...].

Í gær hafi samlandar kærða verið handteknir hver með sína ferðatösku.  Þær hafi verið með sömu samsetningu af ílátum þ.e. fimm ílát, sjampóbrúsar, bodylotionbrúsi og raksápa, með efnum sem talin eru vera amfetamín, að svipuðu magni.

Rannsókn málsins sé á frumstigi, en málið sé talið tengjast vel skipulögðum og umfangmiklum innflutningi á fíkniefnum hingað til lands. Ljóst er að málið er umfangsmikið og taka þarf frekari skýrslur af kærða, meðkærðu og ætluðum samsekum kærða hér á landi. Í ljósi þess að rannsókn málsins er á viðkvæmu stigi er afar brýnt að krafan verði tekin til greina, þannig að kærði fái ekki tækifæri til að  torvelda rannsókninni, s.s. með því að koma hafa áhrif á aðra samseka eða vitni. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.-

Fallist er á að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi í félagi við aðra framið brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum, sem varðað getur fangelsisrefsingu og að augljósir rannsóknarhagsmunir séu í húfi, en rannsókn málsins er á frumstigi. Kærði er erlendur ríkisborgari með engin tengsl við landið.  Samkvæmt framansögðu er því fullnægt skilyrðum a- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og verður því orðið við kröfunni, eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Í ljósi rannsóknarhagsmuna og brots þess sem kærði er grunaður um að hafa framið í félagi við aðra, sem og því að grunur er um að hann eigi samverkamenn erlendis, er fallist á að kærði sæti takmörkunum á gæslunni, eins og krafist er, samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. 

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, X, pólskur ríkisborgari, fæddur 4. október 1989, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 30. apríl  nk. kl. 16.  Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.