Hæstiréttur íslands

Mál nr. 455/1998


Lykilorð

  • Skaðabótamál


Fimmtudaginn 6. maí 1999.

Nr. 455/1998.

Miðbæjarmyndir ehf.

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

Jónasi Björnssyni og

Tryggingu hf. til réttargæslu

(Valgeir Pálsson hrl.)

 

Skaðabótamál.

Tæki í eigu M urðu fyrir skemmdum þegar rafvirkinn J tengdi nýja grein inn á rafmagnstöflu hússins sem þau voru staðsett í. Stefndi M bæði J og tryggingafélagi hans til greiðslu bóta vegna þessa. Héraðsdómur, skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, komst að þeirri niðurstöðu að spennutoppur hefði myndast þegar höfuðrofa var slegið inn eftir verkið, en slíkt gæti komið fyrir þegar notaðir væru rofar af þeirri gerð sem var í töflunni. J hefði því ekki valdið skemmdunum með saknæmri háttsemi við framkvæmd verksins og var hann sýknaður. Var þessi niðurstaða héraðsdóms staðfest með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Haraldur Henrysson, og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 19. nóvember 1998. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 511.529 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16. nóvember 1994 til 15. janúar 1998, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og að málskostnaður verði látinn falla niður.

Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar, enda engum kröfum að honum beint.

Staðfesta ber héraðsdóm, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, með vísun til forsendna hans.

Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Miðbæjarmyndir ehf., greiði stefnda, Jónasi Björnssyni, 120.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 1998.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 5. janúar 1998. Því var úthlutað til héraðsdómara 1. febrúar sl. og tekið fyrir 23. febrúar sl. Aðalmeðferð málsins fór fram 13. maí sl. og var málið dómtekið að henni lokinni.

Stefnandi er Miðbæjarmyndir ehf., kt. 551286-1779, Lækjargötu 2, Reykjavík.

Stefndi er Jónas Björnsson, kt. 240851-4749, Blómsturvöllum, Mosfellsbæ og Trygging hf., kt. 550269-3399, Laugavegi 178, Reykjavík til réttargæslu.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 581.617 krónur ásamt vöxtum skv. 7. gr., III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 16.11.1994 til þingfestingardags máls þessa, en með dráttarvöxtum skv.. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingardegi til greiðsludags og leggist dráttarvextir við höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn þann 15.1.1999 sbr. 12. gr. vaxtalaga. Einnig er krafist málskostnaðar skv. mati dómsins. Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins. Til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnufjárhæð og málskostnaður verði látinn niður falla. Ef bætur verða að einhverju leyti tildæmdar sé þess krafist að tildæmd bótafjárhæð beri vexti af skaðabótum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 ásamt síðari breytingum frá 16. nóvember 1994 til þess dags þegar endanlegur dómur hefur verið kveðinn upp, og dráttarvextir skv. III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar.

Jón Magnússon hrl. fer með mál þetta af hálfu stefnanda, en Valgeir Pálsson hrl. af hálfu stefnda.

 

Málavextir.

Málavextir eru þeir að framkvæmdastjóri stefnanda lánaði stefnda, Jónasi Björnssyni, lykil að húsnæði stefnanda þann 16. nóvember 1994. Tilefni var að stefndi, sem vann að breytingum á rafmagni í húsinu á vegum annars aðila, þurfti að komast í rafmagnstöflu hússins en hún er staðsett í húsnæði stefnanda. Vinna stefnda þurfti að fara fram að næturlagi eftir að allri starfsemi þar lauk en við verk sitt þurfti hann að taka rafmagnið af húsinu. Þegar starfsmaður stefnanda kom til vinnu morguninn eftir tók hann eftir því að dautt var á báðum framköllunarvélum, sem hefðu átt að vera í gangi og ekki hægt að kveikja á þeim. Skamman tíma tók að koma filmuvél í gang, en bilun sem varð í pappírsframköllunarvél olli stefnanda tjóni og óþægindum.

Þann 24. október 1995 gaf stefndi skýrslu hjá rannsóknardeild lögreglunnar, þar sem hann hafi tekið rafmagnið af töflunni og tengt kvísl og sett síðan rafmagnið á aftur. Þetta hafi tekið um 3 til 4 tíma, sem taflan hafi verið rafmagnslaus. Allir hafi vitað að hann tæki strauminn af húsinu til þess að getað unnið verkið.

Stefnandi fékk Theodór Gunnarsson tæknifræðing til að gera úttekt á því hvað hefði gerst og hvað þyrfti að gera til að koma hlutunum aftur í lag. Í skýrslu Theodórs kemur fram að eitthvað óeðlilegt hljóti að hafa gerst umrædda nótt og yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að óhappið hafi orðið um nóttina þegar stefndi Jónas var að vinna við rafmagnstöfluna.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum stefnda, Jónasar, þegar hann var að vinna við aðalrafmagnstöflu hússins Lækjargata 2, Reykjavík. Stefnandi veit ekki hvað gerðist enda ekki á staðnum þegar óhappið varð, en þegar starfsmaður hans kom til starfa, daginn eftir að stefndi Jónas hafði verið að vinna á staðnum, voru tvær vélar bilaðar og önnur, þ.e. framköllunarvél þannig að kostnaðarsamt var að koma henni í lag.

Stefnandi heldur því fram að enginn hafi komið í húsnæði stefnanda frá því að starfsmaður hans yfirgaf húsnæðið að kvöldi 16.11.1994 til morguns 17.11.1994 nema stefndi Jónas. Vélar þær, sem um er að ræða, hafi verið í gangi og fullkomnu lagi þegar starfsmaður stefnanda fór af vettvangi 16.11.1994, en dautt hafi verið á filmu- og pappírsframköllunarvél þegar starfsmaður stefnanda kom til baka að morgni næsta dags. Ljóst sé því, og raunar sannað, að eitthvert óhapp hafi gerst hjá stefnda Jónasi og hafi hann sönnunarbyrðina fyrir hinu gagnstæða.

Stefnandi bendir á að skv. skýrslu Theodórs Gunnarssonar tæknifræðings sé leitt í ljós að eitthvað óeðlilegt hafi gerst um nóttina þegar stefndi Jónas var að vinna við aðaltöfluna í húsnæði stefnanda. Stefnandi heldur því fram að fráleitt væri að leggja sönnunarbyrðina á því hvað hafi skeð og valdið bilun á vélunum á hann, þar sem fyrir liggi að óhappið eigi sér stað á meðan stefndi Jónas er á staðnum og að vinna við rafmagn. Stefnandi heldur því fram, að þess vegna beri að skýra allan vafa honum í hag.

Stefnandi bendir á, að stefndi Jónas hafi gefið tjónaskýrslu hjá vátryggingafélagi sínu, réttargæslustefnda, og sýni það eitt með öðru að stefndi Jónas kannist við að eitthvað kunni að hafa gerst, sem hafi valdið því tjóni, sem hér ræðir um. Þá telur stefnandi að stefndi Jónas beri ábyrgð á því sem þarna hafi gerst þrátt fyrir það að hann verði ekki talinn sannur að sök á grundvelli sakarreglunnar. Í því tilviki heldur stefnandi því fram, að stefndi Jónas hafi borið hlutlæga ábyrgð á því að ekki yrðu skemmdir á rafmagnstækjum því samfara að hann aftengdi aðalrafmagnstöflu hússins.

Stefnandi byggir á almennum reglum skaðabótaréttarins og á sakarreglunni, þar sem stefndi Jónas hafi valdið honum tjóni með því að bera sig rangt að við vinnu sína við aðalrafmagnstöflu að Lækjargötu 2 í umrætt sinn. Auk þess byggir stefnandi á því að stefndi Jónas beri hlutlæga ábyrgð á því tjóni, sem varð af því að hann aftengdi aðalrafmagnstöflu hússins. Þá byggir stefnandi á almennum reglum kröfuréttarins.

Stefnukrafa í málinu sundurliðast svo: Reikningur frá Ljós í myrkri vegna viðgerðar 214.289 krónur. Aukagreiðsla til starfsfólks vegna tjóns alls 70 tímar 87.220 krónur. Tíu rúllur af ljósritunarpappír 61.440 krónur. Reikningur Noritsu 93.200 krónur og reikningur vegna aðflutningsgjalda 21.312 krónur.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Af hálfu stefnda er á því byggt að ekkert hafi fram komið sem bendi til saknæmrar háttsemi stefnda sem kunni að hafa valdið tjóni stefnanda. Skilyrði til að leggja fébótaábyrgð á stefnda á grundvelli sakar sé því ekki fyrir hendi.

Því sé mótmælt að stefndi hafi valdið óhappinu með einhverjum þeim hætti sem fram kemur í skýrslu Theodórs Gunnarssonar tæknifræðings, dags. 2. október 1995. Stefndi hafi einungis tekið rafmagn af aðaltöflunni og tengt við hana kvísl fyrir veitingahúsið sem hann var að vinna fyrir. Hann hafi í engu átt við rafmagnsgreinar viðkomandi stefnanda. Stefndi hafi ekki getað séð fyrir að tjón gæti orðið á tækjabúnaði stefnanda við það eitt að taka rafmagn af aðaltöflu hússins. Í þeim efnum geti ekki skipt máli hvort rafmagnsleysið vari nokkrar mínútur eða nokkrar klukkustundir. Hann hafi ekki verið varaður við því að búnaðurinn gæti orðið fyrir skemmdum við það eitt að rafmagnið væri tekið af húsakynnum stefnanda eða máli gæti skipt hvort tækin væru án rafmagns í lengri eða skemmri tíma. Nærtækast hefði verið að stefnandi hefði sjálfur aftengt tækin, ef hann óttaðist að þau gætu bilað við það að rafmagnið yrði tekið af á aðalrafmagnstöflu hússins. Það að stefnandi hafi verið við störf í húsinu sanni á engan hátt að tjónið megi reka til atvika sem stefndi ber ábyrgð á. Á sama hátt felist engin vísbending í því að hann hafi gefið skýrslu til tryggingafélags síns, réttargæslustefnda. Það hafi aðeins verið eðlileg og sjálfsögð vinnubrögð að gera félaginu aðvart, ef bótakrafa hafi verið gerð á hendur honum, og í samræmi við skyldur hans. Ljóst sé því að stefndi hafi ekki valdi tjóninu með saknæmum hætti. Þá verði tjónið heldur ekki talið vera vávæn afleiðing þess að rafmagn var tekið af húsinu og þar með af húsakynnum stefnanda. Skorti því öll skilyrði þess að bótaábyrgð stefnda verði byggð á sakarreglunni. Stefndi mótmælir því eindregið að hann geti borið hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda. Ábyrgð á þeim grundvelli hafi enga lagastoð og verði heldur ekki reist á reglum skaðabótaréttarins að öðru leyti en um húsbóndaábyrgð.

Ekki hafi verið sýnt fram á annað en að fylgt hafi verið öllum viðurkenndum reglum um vinnubrögð er stefnandi var við störf að Lækjargötu 2 í umrætt sinn. Af hálfu stefnanda hafi ekki verið hlutast til um að fengnir yrðu hæfir og óvilhallir aðilar til að kanna raunverulegar orsakir fyrir biluninni.

Varakrafa stefnda er á því reist að stefnukröfur séu of háar og vanreifaðar. Engin gögn hafi verið lögð fram sem staðreyna eða gefa til kynna í hverju 70 tíma aukavinna starfsfólks af völdum tjóns sé fólgin. Kröfum stefnanda um greiðslu á ljósritunarpappír og tjóns af völdum rekstrarstöðvunar sé alfarið mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Engin gögn hafi verið lögð fram sem sýni fram á tjón af þessu tagi eða það verði rekið til bilunar í tækjum stefnanda.

Virðisaukaskattur af reikningi Ljóss og myrkurs ehf. nemi 42.169 krónum. Þessa upphæð hefði stefnandi mátt nýta sem innskatt í rekstri sínum og geti því ekki talist með í tjóni stefnanda. Beri því að lækka kröfur stefnanda sem virðisaukaskattinum nemur. Hið sama gildi um reikning frá DHL.

Bótakrafan sé umdeilanleg og að sama skapi sé bótaskylda stefnda í alla staði afar óviss. Því sé rétt ef bætur yrðu að einhverju leyti tildæmdar að þær beri vexti af skaðabótum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 67/1989 um breytingu á þeim frá tjónsdegi, 16. nóvember 1994, til endanlegs dómsuppsögudags. Frá þeim degi er fallist á rétt stefnanda til dráttarvaxta af dæmdri bótafjárhæð, sbr. 15. gr. vaxtalaga.

 

Forsendur og niðurstaða.

Í málinu er ekki ágreiningur um það að vélar þær sem hér um ræðir urðu fyrir skemmdum aðfaranótt 17 nóvember 1994 en þá nótt vann stefndi Jónas við rafmagnstöflu Lækjargötu 2 þar sem stefnandi er til húsa. Í framburði forsvarsmanns stefnanda hér fyrir dóminum kom m.a. fram að vélarnar séu með tímarofa og fari sjálfvirkt í gang snemma morguns að öllu eðlilegu. Ekki skaði það vélarnar þótt rafmagn fari af þeim tímabundið enda hafi það oft gerst.

Samkvæmt framburði stefnda hér fyrir dóminum vann hann ásamt aðstoðarmanni sínum við rafmagnstöfluna umrædda nótt og tók verkið um 2 klst. Fór verkið þannig fram í aðalatriðum að hann tók straum af húsinu og tengdi síðan kvísl, sem búið var að leggja að töflunni, inn á kvíslrofa í töflunni og setti síðan straum á aftur. Ekkert óvenjulegt hafi komið fyrir við verkið og ekkert hafi verið átt við raflagnir sem tilheyrðu stefnanda. Stefndi upplýsti að höfuðrofinn hafi verið 200 ampera gripvarrofi sem geti farið ójafnt inn á fösum og geti við það myndast mismunandi spenna. Þessi skýring þyki honum við nánari athugun eftir atvikið vera sennilegust. Í dag þyki þessir stóru höfuðrofar ekki fullnægja nútíma kröfum.

Verk það sem stefndi Jónas vann er einfalt að mati hinna sérfróðu meðdómsmanna, sem sagt að tengja kvíslrofa inn á stofn frá höfuðrofa aðaltöflu. Verkið hafði verið undirbúið þannig að einungis átti eftir að tengja inn á skinnur. Samkvæmt því sem stefndi upplýsti fyrir dóminum herti hann allar tengingar áður en spenna var sett á töfluna að nýju.

Höfuðrofinn er svonefndur gripvarrofi, sem settur er inn með handafli. Nokkrar líkur eru taldar á að fasar fari ójafnt inn en slíkt getur valdið örskömmum spennutoppum. Gjall á varrofasnertum getur haft sömu afleiðingu þ.e. að spenna komi ekki jafnt á alla fasa. Á allra síðustu árum hefur það orðið æ ljósara að tengingar í gegnum gripvarrofa geta við innslátt valdið spennutoppum sem nægja til að valda skemmdum á viðkvæmum en ófullnægjandi vörðum tölvubúnaði.

Á meðan höfuðrofinn er úti, eru allar lagnir spennulausar og þó að stefndi Jónas hefði gert einhver mistök á meðan á verkinu stóð, t.d. látið fasa og núll-leiði snertast, þá hefði enginn skaði hlotist af því vegna spennuleysins. Hefði slík snerting orðið undir spennu jafngilti það skammhlaupi sem hefði skilið eftir brunabletti og skemmdir í aðaltöflu. Í skýrslu Theódórs Gunnarssonar tæknifræðings um aðkomu og athugun á staðnum kemur ekkert fram um að slík vegsummerki hafi verið á töflu.

Það er álit hinna sérfróðu meðdómsmanna, þegar litið er til atburðarrásar allrar, lýsingar á bilunum og vegsummerkjum, að spennutoppur hafi myndast örskamma stund í raflögninni þegar spenna var sett á aðaltöflu á ný eftir vinnu stefnda Jónasar. Af því sem hér hefur verið rakið verður hins vegar ekki annað séð en að verklag stefnda hafi að öllu leyti verið eðlilegt og almennt ekki til þess fallið að valda tjóni.

Með tilliti til þessa telur dómurinn að stefndi hafi ekki valdið stefnanda umdeildu tjóni með saknæmum hætti. Þá eru engin skilyrði fyrir því að lögum að stefndi Jónas beri hlutlæga ábyrgð á tjóni stefnanda. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kvað upp Valtýr Sigurðsson héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Ragnari Ingimarssyni byggingaverkfræðingi og Agli Skúla Ingibergssyni rafmagnsverkfræðingi.

Dómsorð:

Stefndi, Jónas Björnsson, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Miðbæjarmyndum ehf. í málinu.

Málskostnaður fellur niður.